Bloggfærslur mánaðarins, maí 2010

Skriðu-Fúsi er enn í Kerlingarskarði

Fúsaskurðir

Í bernsku man ég eftir mörgum ferðum yfir Kerlingaskarð á Snæfellsnesi í rútubílnum.  Þegar komið var að sunnan var oftast stanzað í Efri Sneið, þar sem útsýnið yfir Breiðafjörð birtist eins og svift væri frá blæju.  “Hvílík fegurð!”  sagði móðir mín.  Karlarnir tóku upp vasapelana og jafnvel sjálfur bílstjórinn fékk alltaf einn vel útilátinn brennivínssnaps, áður en það var rennt niður í Stykkishólm.  En nú er leiðin um Kerlingarskarð lögð af, og fólkið ekur í staðinn yfir fremur sviplitla Vatnaleið, tekur ekki eftir neinu, og missir alveg af þeirri fegurð og sögu sem Kerlingarskarð hefur að geyma.  Á miðju Kerlingarskarði eru skorningar eða lækjadrög sem bera nafnið Fúsaskurðir. Ég man að faðir minn minntist oft á draugagang á þessum slóðum, en það var miklu seinna að ég fékk alla draugasöguna.  FúsaskurðirÁ seinni hluta 18. aldar varð óreiðumaður og förukarl, sem Vigfús hét, úti hér í skorningunum, sem síðan bera nafnið Fúsaskurðir.  Af einhverjum sökum var Fúsi illa liðinn af samtíðarmönnum.  Fyrir afbrot eitt var hann dæmdur til þess að skríða ávalt á fjórum fótum í annarra viðurvist og hlaut þannig viðurnefnið Skriðu-Fúsi. Hann mátti þó ganga uppréttur, þar sem ekki var mannavon, og gat hann því farið í sendiferðir og verið selsmali.  Ef hann sá til manna, þá varð hann að kasta sér á fjóra fætur.  Oft lá Skriðu-Fúsi á alfaravegum og veinaði eins og hann væri í nauðum staddur.  Þannig tældi hann til sín brjóstgóðar konur.  Þegar þær komu nær þá tók hann þær með valdi.  Eitt sumar starfaði hann í Selgili við Húsafell, ásamt tveimur dætrum  séra Sigvalda Halldórssonar (1706-1756). Talið er að hann hafi skriðið heldur nærri systrunum, því  báðar urðu ófrískar af hans völdum.  Eitt sinn var Skriðu-Fúsi á ferð yfir Kerlingarskarð að vetri til, þegar óveður mikið skall á. Þá varð hann úti þar sem nú heita Fúsaskurðir. Um nóttina var komið á gluga á Hjarðarfelli og vísa kveðin:

                                    Skriðu-Fúsi hreppti hel,

                                    hálfu fyrr en varði.

                                    Úti dó það ei fór vel,

                                    á Kerlingarskarði.

 

Þegar farið er um Kerlingarskarð í dag má enn sjá Skriðu-Fúsa, eins og myndirnar tvær sýna, sem fylgja hér með.  Þetta mun vera listaverk sem nemendur í Grundarfirði hafa skapað til minningar um ólánsmanninn.  Verkið var gert fyrir nokkrum árum og er orðið anzi mikið veðrað.  Nú fer hver að verða síðastur að sjá Skriðu-Fúsa, áður en hann fýkur út í veður og vind.  Skáldið Þorsteinn frá Hamri hefur ort eftirfandi kvæði um Skriðu-Fúsa:

 

Ég sem aldrei

uppréttur mátti ganga,

aðeins brölta á fjórum

og sleikja ruður

með áfellisskuld

og skelfingu aldalanga –

skelli mér suður.

 

Í farartækinu

fyrnist glæpur minn stórum.

Ég flyt af Kerlingarskarði

í borgarhallir.

Mér fer að skiljast

hve gott er að ganga á fjórum.

Það gera nú allir.


Kort Helland af Lakagígum er merkilegt listaverk

 

Kort Hellands af LakagígumEitt af fyrstu listaverkum tengdum eldfjöllum Íslands er kort norska jarðfræðingsins Amund Helland af Lakagígum, sem var árangur af ferð hans til Íslands árið  1881.  Lakagígar  er 25 km löng sprunga þar sem yfir eitt hundrað gígar gusu miklu hrauni árið 1783, þegar Skaftáreldar geisuðu og mynduðu stærsta hraun sem hefur runnið á jörðu síðan sögur hófust.  Áhrif gossins voru óskapleg, bæði á Íslandi og í Evrópu.  Lakagígar nærmyndAllir þekkja Móðuharðindin sem komu í kjölfar gossins, en þá var 24%  mannfækkun á Íslandi og um 75% af öllum búpening landsmanna fórst.  Ekki fór mikið fyrir rannsóknum á gosinu, en Sveinn Pálsson læknir kom fyrstur manna að Lakagígum árið 1794, rúmum tíu árum eftir gosið.   Tæpum eitt hundrað árum eftir gosið gerði norski jarðfræðingurinn  Amund Theodor Helland (1846-1918) út leiðangur til eldstöðvanna. Bræðurnir Leó og Kristján Kristjánssynir hafa fjallað um heimsókn Hellands til Íslands í grein í Náttúrufræðingnum árið 1996.    Helland kom til Seyðisfjarðar snemma sumars árið 1881, og komst svo loks til Lakagíga síðar um sumarið. Árangurinn af ferð hans var kort af eldsprungunni Lakagígar, en kortið eitt er meir en tveir metrar á lengd.   Kortið teiknaði norski málarinn Knud Gergslien undir leiðsögn Hellands.  Það er til sýnis í Eldfjallasafni í Stykkishólmi.   Hann áætlaði að gosið hefði myndað hraun sem væri 27 rúmkílómetrar, en það er nokkuð hærri tala en síðari rannsóknir telja: eða um 15 km3.   Eftir ferð sína til Íslands birti Helland merka grein með heitinu “Lakis kratere og lavastromme”, og kom hún út í  Kristiania (nú Osló) árið 1886.  Ekki eru allir hrifnir af framtaki Hellands. Sigurður Þórarinsson (1969) fer til dæmis frekar niðrandi orðum um Íslandsför Hellands og telur að hann hafi aðeins verið tvo daga við Lakagíga í ágúst árið 1881. Ef litið er á kortið, þá virðist ótrúlegt að Helland hafi afkastað þessu mikla verki á tveim dögum.   Grein Hellands sýnir reyndar að hann var í eina viku í ferðinni.  Hann mældi hæð og breidd flestra gíganna, og eru hæðartölur á flestum gígunum sýndar á kortinu.   Samkvæmt kortinu eru 56 gígar fyrir norðaustan Laka, og 49 gígar fyrir suðvestan Laka.  Hér eru sýnd smáatriði í byggingu jarðsprungunnar og gígana sýnd og vafalaust hefur þetta verk tekið töluverðan tíma.  Á kortinu koma fram alveg ný atriði í jarðfræði Íslands.  HellandTil dæmis notar hann alþjóðaheitið “palagonit” fyrir móbergsmyndunina.  Í öðru lagi er hann fyrstur til að kenna gossprunguna við móbergsfjallið Laka, en það heiti hefur fylgt gosinu ætíð síðan.  Komið í Eldfjallasafn og sjáið þetta einstæða og merkilega kort af mestu gossprungu jarðar. Helland var sérstakur persónuleiki og skopmyndin sem fylgir gefur nokkra hugmynd um það.


Myndir af gosinu í Eyjafjallajökli árið 1821-23

 

E BruhnGamlar myndir geta veitt einstakar upplýsingar um eldgos fyrr á tímum.  Árið 1986 gaf bandaríski listfræðingurinn Frank Ponzi út merka bók um Ísland á 19. öld.   Þar er að finna stórmerkilega mynd af gosinu í Eyjafjallajökli árið 1822.  Nafn listamannsins hefur verið ýmist ritað sem E. Bruhn eða Erik Bruun. Undirskriftin á listaverkinu er örugglega E. Bruhn og verkið er dagsett hinn 8. júlí 1822. Hann var sennilega liðsforingi í strandmælingadeild danska flotans.  Jóhann ÍsbergVatnslitateikningin er  21 x 33.5 cm og mun vera í eigu Det Kongelige  Bibliotek, Köbenhavn.  Myndin er gerð úr mikilli fjarlægð,  í grennd við Vestmannaeyjar, og sennilega af sjó.  Þetta er nákvæm teiknun reykjabólstranna og rísandi öskumakkarins og önnur atriði sýna að hann er að festa á blað sjónarspil sem han varð vitni af.  Emil Hannes Valgeirson hefur áður bloggað um þessa mynd hér    Það er sláandi að bera þessa mynd saman við myndir af gosmökknum yfir Eyjafjallajökli  árið 2010.  Graah 1823Ég læt fylgja hér með ljósmynd Jóhanns Ísberg af sprengigosinu í apríl til samanburðar.  Önnur mynd af gosinu er teiknuð af Graah inn á landakort af Íslandi sem gert var árið 1823. Graah kann einnig hafa verið í strandmælingadeild danska flotans.  Þessi mynd er einnig af  Eyjafjallajökli eins og hann ber við frá Vestmannaeyjum, en myndin er sýnd hér til hliðar.  Gosið sem hófst í desember árið 1821 stóð yfir þar til í janúar 1823. Guðrún Larsen telur gosið hafa verið fremur lítið, og er áætlað að aðeins um 0.004 km3 hafi komið upp.  Sprengigosið dreifði fremur fíngerðri ljósri ösku  umhverfis fjallið, en askan er fremur kísilrík, eða milli 60 og 70% SiO2.  Einnig orsakaði gosið jökulhlaup sem braust fram úr Gígjökli.  Sjá blogg um gosið og einkum um jökulhlaupið eftir Sigríði Magneu Óskarsdóttur hjá Veðurstofu Íslands hér


Jarðlögin í Stöðinni

Stöð SnæfellsnesiFjöllin á norðanverðu Snæfellsnesi eru merkileg fyrir margt, eins og ég hef áður bloggað um í sambandi við Búlandshöfða hér.   Skammt fyrir austan Búlandshöfða er fjallið Stöð, eða Stöðin.   Þetta er fagurt en einstakt fjall, 268 m á hæð, og algjörlega flatt að ofan.  Stöðin hefur gengið undir ýmsum nöfnum.  Þannig er það nefnt Brimlárhöfði í Eyrbyggju, en danskir sæfarar kölluðu það áður fyrr Líkkistuna vegna þeirrar lögunar sem það hefur séð utan frá sjó (alveg í stíl kölluðu þeir Kirkjufell því ómerkilega nafni Sukkertoppen). Árið 1936 fann Jóhannes Áskelsson  (1902 -1961)  jarðfræðingur sandsteinslög milli klettabelta í Stöðinni með skeljum og steingerðum plöntuleifum, nokkuð hátt upp í fjallinu að austanverðu. Þetta var merkileg uppgötvun, en senilega hefur Jóhannes lagt af stað upp í Stöðina eftir að Helgi Pjéturss gerði fyrstu uppgötvanir á þessu sviði í Búlandshöfða mörgum árum áður.  Fjöllin á norðanverðu Snæfellsnesi varðveita mjög merkileg jarðlög sem skrá sögu ísalda eða jökulskeiða fyrir um 1.8 til 1 miljón árum síðan.  Best er að leggja af stað frá bænum Lárkoti til að skoða jarðlögin í Stöðinni og fara upp bergið til hægri á fjallsbrúnina.  Jarðlög StöðinÞaðan má klífa upp á flatneskjuna efst á Stöðinni um þröngt en tryggt einstigi.  Neðri hluti fjallsins, upp í um 130 metra hæð, er blágrýtismyndun frá Tertíera tíma, eða nokkra miljón ára gömul og fremur ellileg basalt hraunlög.  Efst eru hraunlögin jökulrispuð og ofan á þeim er nokkuð þykkt lag af jökulbergi eða mórenu.  Hérna vantar sem sé um fimm til tíu miljónir í jarðsöguna, en rofið á fyrri hulta ísaldar hefur fjarlægt alla vitneskju.  Þar fyrir ofan er brúnt og gráleitt set af sandsteini og leirlögum sem innihalda skeljar og einnig steingervinga eða blaðför af laufblöðum af víði, lyngi og elrir.  Myndin til hliðar sýnir tvö steinrunnin  laufblöð úr laginu. Setið í Stöðinni er sennilega óseyrarlög, völuberg og sandsteinn sem hefur myndast á áreyrum. Snæfellsnes hefur sennilega verið vaxið elri og birkiskógi þegar þessi lög mynduðust. Sökkull eða neðri hluti fjallsins er myndaður af blágrýtislögum frá Tertíer, en að minsta kosti tveir basaltgangar skera Tertíeru blágrýtislögin, og hafa báðir stefnuna NA-SV, en þeir ná ekki upp í setlögin fyrir ofan.  Efra borð blágrýtismyndunarinnar er því mikið mislægi, en þar ofaná liggur myndun setlaga frá um 120 til 130  metrum yfir sjó.  Setlögin eru völubergslög, leirsteinn og sandsteinn, og innihalda skeljar af Astarte borealis, Saxicava rugosa samkvæmt  Guðmundi G. Bárðarsyni (1929).  Steinrunnin laufblöð StöðHraunlögin sem liggja innan setlaganna og hraunlög ofaná þeim eru einnig öfugt segulmögnuð samkvæmt ransóknum Doell og félaga (1972) og eru því senilega frá Matuyama segulskeiði, eða eldri en sjö hundruð þúsund ára.  Einn gangur sker setlögin í suður enda fjallsins, með stefnu nærri norðri.   Ofan af Stöðinni er einstakt útsýni í allar áttir, og til austurs má til dæmis sjá þökin á húsunum á Kvíabryggju, fangelsi íslenskra hvítflibbaglæpamanna. Á síðustu öld var stundað mikið útræði frá plássi eða hverfi hér í Kvíabryggju.  Síðan fluttist útgerð til Grundarfjarðar þegar hafnarskilyrði vor bætt þar.  Frá árinu 1954 voru vistaðir á Kvíabryggju menn, sem ekki greiddu meðlagsskuldir eða barnalífeyri. Árið 1963 voru fyrstu refsifangarnir sendir þangað til afplánunar. 


Merkir molar

bombubrotHér eru myndir af steinbrotum úr einni hraunbombunni sem ég safnaði á gígbrúninni á Eyjafjallajökli hinn 26. maí.  Svarta efnið er glerkennt andesít úr bombunni.  Gráa efnið er gabbró eða kristalríkt berg. Það eru brot af djúpbergi sem kvikan ber upp. Ástæðan fyrir því að ég hef mikinn áhuga á þessum steinum er sú, að þeir geta varpað ljósi á eitt mikið vandamál:  kvikan sem kemur upp úr gígnum í Eyjafjallajökli í toppgíg er ekki sú sama og kvikan sem kemur upp í fjallið úr möttlinum.  Það er eitthvað sem gerist þar á milli.  Kvikan sem kemur upp úr möttlinum heitir alkalí basalt. Hún gaus á Fimmvörðuhálsi. Kvikan sem gýs í toppgíg Eyjafjallajökuls heitir andesít.  GabbróEin hugmynd er sú, að alkalí basalt kvikan verði fyrir breytingum í jarðskorpunni og afleiðingin sé andesít. Það getur gerst á margan hátt, til dæmis með því að mikið magn af kristöllum vex í alkalí basalt kvikunni, og að hún breyti um efnasamsetningu af þeim sökum. En það eru margar aðrar kenningar sem gætu skýrt málið.  Við erum að kanna þetta atriði með ýmsum efnagreiningum á þessum steinum. Meira um það síðar....

Aftur á Jökulinn

 

Gígurinn 26. maíÞað var blíðskaparveður í gær þegar við flugum austur,  en Reynir Pétursson þyrluflugmaður var ekkert sérlega hrifinn af öskufokinu sem lá eins og brúnt teppi yfir Markarfljótsaurum og öllu svæðinu umhverfis Eyjafjallajökul.  Eftir að við tókum eldsneyti á Hvolsvelli var farið beint upp til að sjá hvað teppið væri þykkt og hvort nokkur von væri að komast yfir það og að eldstöðvunum. Það var útilokað að fljúga í gegnum það vegna áhrifa ösku á þotuhreyfil  Bell þyrlunnar.  Ég var í ferð með kvikmyndaliði Profilm, sem nú vinnur að annari heimildamynd um gosið fyrir National Geographic TV.  Þegar við vorum kominir í 7000 fet sást loksins Hekla, dökkgrá af öskufalli, og einnig kolsvartir  topparnir á Tindfjallajökli.  Allstaðar virtist þyrlast upp af jörðu mjög fín aska sem hélt áfram að bæta við rykteppið.  Við fórum aðeins hærra og nú sást í hvítan gufumökkinn úr Eyjafjallajökli og umhverfi toppgígsins var klárt.  Reynir  valdi leið fyrir ofan öskuteppið, beint að gígnum.  Það var stórkostlegt að komast loks alveg að nýja gígnum og geta horft niður í hvítan gufumökkinn sem liðaðist  uppúr honum, eins og risastórum  sjóðandi potti.  En satt að segja var ég meira heillaður af  því að fá loks að sjá nýja hraunið sem þekur nú dalinn þar sem áður var efri hluti Gígjökuls.  Hraunið Hér er komið alveg nýtt og stórfenglegt landslag.  Ég var loksins kominn upp aftur að eldstöðvunum, eftir tíu daga fjarveru.  Gígurinn er hlaðinn upp af gjalli og hraunbombum, en norður brún gígsins er nú orðin gulgræn af brennisteinsútfellingum. Öðru hvoru glitti í kólnað hraun inni í gígnum, þar sem gufan rauk stöðugt út.  Hraunið sem fer í norður, niður farveg Gígjökuls,  er brúnleitt og virðist vera apalhraun.  Mér datt í hug að lenda á hrauninu með þyrluna til að taka sýni, en það var ekki efst á lista okkar og verður því að bíða.  Eftir að hringsóla um gíginn lentum við á vestur barmi öskjunnar eða stóra gígsins, rétt fyrir sunnan Goðastein.  Yfirborðið er slétt og fremur harður dökkbrúnn vikur. Við vorum um 100 metra frá stóra bombugígnum sem ég kannaði í ferðinni 16. maí, eins og ég hef bloggað um hér.    Aðrir bombugígar voru á víð og dreif, og yfirborð vikursins minnir jarðsprengjusvæði.  Þetta eru gígar eftir hraunslettur af ýmsum stærðum, sem sprengingarnar hafa varpað upp, og þegar þær lenda grafast þær djúpt niður í vikur og ís. Bombugígur Ég gróf upp nokkrar bombur, sem eru fremur glerkenndar.  Mér til mikillar gleði innihalda sumar þeirra gabbró mola eða stórar þyrpingar af steindum eða mínerölum af tegundunum olívín, plagíóklas og pýroxen.  Glerkennd áferð þeirra er stórfalleg.  Við flýttum okkur eftir megni við að taka upp myndefnið, en öskuteppið var stöðugt að hækka og Reynir var greinilega orðinn áhyggjufullur og órólegur.   Að lokum tók hann af skarið og skipaði okkur um borð í þyrluna.  Við fórum aftur beint upp, og loks í 8500 feta hæð vorum við komnir upp fyrir öskuteppið og höfðum aftur sjón af Heklu og Tindafjallajökli og áttum örugga leið til baka í byggð. Liðið


Höggbylgjur gefa dýrmætar upplýsingar innan bannsvæðisins

BannsvæðiÞað er nauðsynlegt að komast í návígi við eldgos til að skilja hvað er að gerast og þá að greina hvaða tegund af gosi er um að ræða. Íslenskir ljósmyndarar og vísindamenn hafa ekki náð slíku myndefni og upplýsingum varðandi gosið í Eyjafjallajökli,  vegna þess að þeir hafa  fylgt þeim stífu takmörkunum um aðgang af svæðinu sem Almannavarnir hafa sett.  Eins og sjá má á mynd af bannsvæðinu til hliðar, þá kemst enginn innan um 10 km fjarlægðar frá gígnum, nema með sérstöku leyfi Almannavarna.  En ekki virðast  allir hafa fylgt þessu banni.  Maður einn heitir Martin Rietze.  Hann hefur tekið frábærar ljósmyndir af eldgosum víðs vegar um heim. Myndir hans af gosinu í Eyjafjallajökli árið 2010 eru ekki aðeins merkileg listaverk, heldur einnig mjög góðar heimildir.  Það er ekki ljóst hvernig Martin hefur náð slíkum myndum, þegar tekið er tillit til þess að svæðið er lokað.  Sögusagnir ganga um það að hann hafi gengið á jökulinn frá Stóru Mörk, upp Skerin og að Goðasteini til að ná þessum myndum, en það er milli 6 til 10 km, hvora leið.   Gangan hefur verið vel þess virði, eins og sjá má af myndum hans, hér.    Martin er orðin goðsögn meðal ljósmyndara um heim allan og þeirra, sem þrá  frekari upplýsingar um gosið í Eyjafjallajökli, eins og það sést í návígi.  Höggbylgja þotuEn nú þegar ég hef uppljóstrað þessu, þá bíða Almannavarnir hans sjálfsagt næst þegar henn fer um Keflavíkurflugvöll, eða hvað?  Fyrirgefðu, Martin!  En snúum okkur nú að höggbylgjum.  Nokkrir ljósmyndarar og vídeómenn hafa tekið eftir höggbylgjum yfir gígnum í Eyjafjallajökli.  Þetta eru mjög kraftmiklar bylgjur sem geisla út úr gígnum í aðeins eitt augnablik, en áhrifin eru einstök. Ég var einu sinni í grennd við gíginn í þyrlu þegar ein höggbylgjan birtist og það var eins og þyrlan fengi kraftmikið spark. Hljóðið er ekki mikið, en maður finnur bylgjuna sem titring og högg á bringuna.  Martin Rietze höggbylgjaEnda er hljóðið á miklu lægri tíðni eða riðum en okkar heyrn, sem er fyrir ofan 20 rið.  Í þurru lofti við 20 stiga hita er mestur hraði höggbylgju um 343 m/s,  sem er hraði hljóðsins.  Hraðinn breytist lítillega eftir lofthita og magni af ösku í loftinu.   Þá hefur  þrýstingsbreyting höggbylgjunar þau áhrif að raki í loftinu þéttist og  í augnablik framkallast ljósgrátt ský umhverfis upptök bylgjurnar.  Myndin hér til hliðar sýnir til dæmis slíka höggbylgju umhverfis herþotu.   Myndin fyrir neðan er úr myndbandi sem Matin Rietze tók af hljóðbylgju, eins og hún sést frá Goðasteini, á gígbarminum. Aðrir hafa náð myndum af höggbylgjunum, til dæmis Ómar Ragnarsson.   Niðurstöðurnar úr þessum upplýsingum  eru þær, að gas brýst út úr gígnum á hraða sem er nálægt 300 metrum á sekúndu. Á slíkum hraða getur gasið borið með sér nokkuð stór flyksi eða slettur af kviku, sem eru einn eða fleiri metrar í þvermál, auk miklu smærri brota eða dropa af mjög heitri kviku, sem breytast strax í  gler eða í það efni sem við köllum eldfjallaösku.  Þannig gefa höggbylgjurnar okkur mikilvægar upplýsingar um kraftinn og hraðann í gígopinu.  Þessi hraði bendir til þess að gosið sé vúlkanískt (“vulcanian eruption”). Ég mun blogga um það fyrirbæri næst, og túlka það í ljósi annara upplýsinga frá dýrmætum  myndum Martin Rietze.


Ferð á Eyjafjallajökul 16. maí 2010

 

Í öskuregniÍ gær tók ég þátt í leiðangri á Eyjafjallajökul með Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands,  í þeim tilgangi að safna sýnum og mæla þykkt á gjósku sem fallið hefur á jökulinn vestan gígs.  Við ókum í þremur jeppum frá Seljalandsfossi og upp Hamragarðaheiði.  Síðan var ekið upp á jökulin og gekk ferðin nokkuð vel. Þegar við vorum komnir rétt austur fyrir Skerin, í um 1000 metra hæð, var stanzað til að taka sýni af öskunni sem þekur jökulinn.  Rétt í þann mund hófst kraftmikil hrina af sprengingum, sem myndaði stóra og dökkgráa öskubólstra hátt í loft. Um leið blossuðu eldingar í mekkinum og þrumurnar skullu yfir okkur.  Eldingar og miklar rafmagnstruflanir eru eitt af einkennum sprengigosa, einkum ef vatn er í mekkinum. Þá virkar gjóskan eins og skammhlaup milli jarðar og háloftsins, og  stöðurafmagn eða static verður mjög mikið vegna mismunandi rafpóla í öskukornum og gufu í mekkinum. Lesið frekar um eldingar í gosinu hér.  

Rafmagnið var svo mikið að hárið stóð beint upp á höfði okkar, og ef við réttum upp handleggi hátt upp,  þá titraði loftið á fingurgómunum.  Aska á framrúðunni Við nálguðumst gígbrúnina, með hjálma á höfði, en tókum þá ákvörðun að fara ekki upp á Goðasein vegna hættu af eldingum.  Askan féll stöðugt og var svo þét að erfitt var að sjá út úr bílnum. Ég hafði áður komið á Goðastein undir allt öðrum kringumstæðum og glampandi sól, eins og ég bloggaði um hér.   Hávaðinn var gífurlegur í þrumunum, en þess á milli var hljóðið sem gosið gaf frá sér eins og mjög mikið brim. Mökkurinn reis hátt beint yfir höfðum okkar, en hann fór í um 8 km hæð þann dag.  Við færðum okkur nær, og stöðvuðumst rétt fyrir vestan Goðasein, sem er á brún stóra gígs Eyjafjallajökuls. Þá erum við um 1 km frá gígnum sem er nú virkur. Ekki var ráðlegt að fara upp á Goðastein vegna eldingahættu.  Hér vorum við komnir í stöðugt öskufall, og ringdi yfir okkur sandur og aska allt að 4 mm að stærð.  Liturinn á gjóskunni sem þekur jökulinn nálægt Goðasteini er nokkuð ljósgrar, eiginlega khaki litur. Einnig er mikið af gjóskunni vikur, nokkuð útblásinn.  BombugígurHér og þar lágu 10 til 15 sm gjallstykki á yfirborði, og skammt frá gígbrúninni eru stórir pyttir eða holur eftir “bombur” sem hafa fallið á jökulinn.  Í sprengingum kastast oft mjög stór flykki af hraunslettum í loft upp og þær geta verið á stærð við rúmdýnur eða jafnvel bíla.  Bomburnar skella á jökulinn og mynda gíga í ísinn.  Einn gígurinn er um 5 m í þvermál og rúmlega 2 m djúpur. Í botni hans var stór bomba sem er rúmlega 1 m í þvermál og sennilega um 2.5 tonn.  Sprenging hefur varpað henni hátt í loft og síðan féll hún til jarðar um 1 km fra gígnum.  Stór hluti hennar er nú kominn á Eldfjallasafn í Stykkishólmi, en afgangurinn er kominn í safn Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands.  Slíkar bombur eru mjög góð sýni af kvikunni sem nú berst upp á yfirborðið, og munu gefa verðmætar upplýsingar um gerð kvikunnar og gasinnihald hennar eftir rannsóknir jarðefnafræðinga og bergfræðinga.  En slíkar rannsóknir taka því miður nokkuð langan tíma.  Við vildum ekki dvelja lengur á hættusvæðinu en nauðsyn krefur, og héldum því frá gígnum. Bombugígur RAX Guðrún Sverrisdóttir jarðfræðingur og félagar hennar gerðu síðan fjölda af mælingum á þykkt öskulagsins víðs vegar um vestanverðan jökulinn áður en við héldum til byggða.


Hvað er gosið í Eyjafjallajökli orðið stórt?

Samanburður yfir ReykjavíkMargir spyrja:  Hvað er gosið í Eyjafjallajökli orðið stórt?  Við skulum reyna að setja gosið í samhengi við önnur eldgos á Íslandi.   Þegar rætt er um eldgos er oft fjallað um fjölda gosa á einhverju tímabili, en miklu mikilvægari eining eða mælikvarði er magn af gosefni eða kviku sem berst upp á yfirborð jarðar.  Það er talið að alls um 90 rúmkílómetrar af kviku hafi gosið hér síðan Ísland var byggt fyrir 1100 árum.   Besta aðferðin til að ákvarða stærð á eldgosi er að mæla magn af gjósku og hrauni sem berst upp á yfirborð, en oft er magnið svo mikið að það er greint frá því í rúmkílómetrum (km3) fyrir stór gos, en í rúmmetrum (m3) fyrir smæri gos. Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands er nú að framkvæma mælingu á gosmagni úr Eyjafjallajökli með því að mæla þykkt öskufalls á ýmsum stöðum á Íslandi og kortleggja þykkt gjóskufallsins. Verkið er enn í framkvæmd, enda gosinu ekki lokið.  Stærð eldgosa Aðuvitað ná slíkar mælingar ekki til gjósku sem fellur í hafið en hægt er að  áætla það magn út frá slíkum gögnum.  Hæð öskumökksins er nokkuð góður mælikvarði á magn af kviku sem berst upp á yfirborð í sprengigosi, eins og ég hef bloggað um hér.   Undanfarið hefur mökkurinn oft verið í um 5 til 6 km hæð, eins og sjá má í radar eða vefsjá Veðurstofunnar, en það bendir til að  magn af kviku sem gýs sé á bilinu 10 til 100 rúmmetrar á sekúndu í slíkum hrinum. Það hefur verið áætlað að nú hafi borist upp um 250 miljón rúmmetrar af kviku í gosinu og má telja að það sé lágmark.   En hvað er það raunverulega mikið og hvenig ber því saman við önnur gos?  Taflan fyrir ofan sýnir magn af öllu gosefni í nokkrum gosum, þar sem gosefnið er reiknað sem kvika.  Rúmmálið er sýnt í rúmkílómetrum.  Til að gera frekari samanburð á þessum gosum hef ég áætlað hvað kvikan úr hverju gosi gæti myndað þykkt lag yfir Reykjavíkurborg, en flatarmál höfuðborgarinnar er 273 km2.   Í þessum gögnum kemur fram að gosið í Eyjafjallajökli er þegar orðið sambærilegt af stærð við gosið á Heimaey 1973, sem hlóð upp Eldfelli.   Magn af gosefni úr  Eyjafjallajökli er nú nægilegt til að mynda lag yfir allri Reykjavík sem er tæpur meter á þykkt.  Gosin í Heklu 1947 og Kötlu 1918 gætu hafa myndað lag yfir hofuðborginni sem er meir en 3 metrar á þykkt, en gosefnið frá Lakagíum árið 1783 myndi þekja Reykjavík með hvorki meira né minna en 55 metra þykku lagi.  Svo læt ég fljóta með í töflunni tvö virkileg stórgos, Tambóra í Indónesíu árið 1815 (360 m lag yfir Reykjavík) og stórgosið í Yellowstone fyrir um 600 þúsund árum, sem nægir í 3.7 km þykkt lag yfir höfuðborgina.

Varðúð: Gossóttin er að breiðast út til Bárðarbungu!


BárðarbungaStrax og eldsumbrotin hófust í Eyjafjallajökli barst talið meðal almennings að Kötlu og fjölmiðlar réru undir orðróm um að Kötlugos væri yfirvofandi.  Almenningur varð orðinn spenntur og viðkvæmur gagnvart fréttum af eldgosum. Sannkölluð gossótt tók að breiðast út.   Nú er gossóttin farin að berast til Bárðarbungu, ef dæma má af þeim  fjölda hringinga sem ég hef fengið frá fjölmiðlum síðustu daga.  Það er ekkert spaug að gefa í skyn að Bárðarbunga kunni að fara að gjósa, því þetta er mjög stór eldstöð og ef til vill ein sú stærsta á Íslandi.  Við skulum því líta aðeins til Vatnajökuls og sjá hvað hefur gerst í Bárðarbungu síðustu árin.   Loftmyndin sem fylgir er tekin úr ESA ERS-2 gervihnettinum í október árið 1996.  Sporöskjulagaða svæðið í miðri myndinni er askjan sem er í miðri Bárðarbungu. Neðst til hægri er askjan í Grímsvötnum.  Stóra flykkið efst til vinstri er Tungnafellsjökull.  Hlykkjótta sprungan milli Grímsvatna og Bárðarbungu eru gosstöðvarnar í Gjálp þar sem gos hófst í lok september 1996. Bárðarbungu er fyrst getið í Landnámu, þegar búferlaflutningur Gnúpa-Bárðar fer fram, úr Bárðardal og suður um Vonarskarð til Fljótshverfis á landnámsöld.   Eldstöðin sem við nefnum Bárðarbungu er flókið kerfi, sem spannar ekki aðeins fjallið og öskjuna undir norðvestanverðum Vatnajökli, heldur einnig sprungukerfið sem liggur til norðurs á Dyngjuháls og suður í Vatnaöldur.  Kerfið er því um 190 km á lengd.  Það er talið að um 23 gos hafi orðið í  Bárðarbungu og sprungukerfinu síðan Ísland byggðist.  Mörg gosin hafa orðið í jöklinum og sum þeirra hafa orsakað jökulhlaup sem fóru til norðurs í Jökulsá á Fjöllum, einkum á átjándu öld.Bárðarbunga

Fyrir um 8600 árum var eitt stærsta gos Íslands í sprungukerfinu suður af Bárðarbungu, þegar Þjórsárhraun rann, og er það um 25 rúmkílómetrar að stærð, eða næstum því helmingi stærra en Skaftáreldar 1783.   Þrjú gos hafa orðið í sprungukerfinu síðan land byggðist, fyrst um 870 er Vatnaöldur gusu, þá 1477 er gos það varð sem myndaði Veiðivötn, og síðast 1862 í Tröllagígum.   Árið 1996 hófst eldgos í Vatnajökli á milli Bárðarbungu og Grímsvatna, og hefur gosið verið ýmist kennt við Gjálp, eða Jökulbrjót.  Jarðfræðinga deilir á um hvort gos þetta telst til Grímsvatna eða Bárðarbungu, eða hvort kvikan er ef til vill blanda frá þessum tveimur eldstöðvum.   Rétt áður en gosið hófst varð mjög sterkur jarðskjálfti í norður hluta Bárðarbungu, með styrkleika 5,6.  Þessi skjálfti og fyrri skjálftar í Bárðarbungu hafa  myndað ótrúlega reglulegan  hring umhverfis eldstöðina.  Greint er frá rannsóknum á þessu merkilega fyrirbæri  í grein árið 1998 eftir M. Nettles og G. Ekström  hér.  Sennilega er þetta vitneskja um hringlaga sprungu sem afmarkar misgengið umhverfis öskjuna.  En hvað hefur gerst í Bárðarbungu síðan? Skjálftar Bárðarbungu Þar koma frábær jarðskjálftagögn Veðurstofunnar að gagni.  Fyrst lítum við á myndina fyrir ofan, sem sýnir uppsafnaða orku sem hefur verið leyst úr læðingi í jarðskjálftum frá 1992 til 2001.  Þarna kemur greinilega fram kippur sem er tengdur skjálftavirkni undir Bárðarbungu árið 1996 og tendur eldgosinu það ár.  Eftir það gerðist eiginlega ekki neitt sérstakt. Næst lítum við á mynd sem sýnir uppsafnaðan fjölda af jarðskjálftum frá  árinu 2001 og fram á okkar daga, árið 2010.  Það var töluverður kippur seinni part árs árið 2004, þegar um 200 skjálftar komu fram undir eldstöðinni.  Síðan hefur verið nokkuð stöðug skjálftavirkni undir Bárðarbungu, en engar stórvægilegar breytingar.  Línuritið sýnir jafna og stöðuga tíðni skjálfta síðastliðin fimm ár, en engar meiri háttar breytingar.  Auðvitað geta atburðir gerst mjög hratt og óvænt í slíkri eldstöð og gos kunna að gera lítil eða engin boð  á undan sér, en ég sé ekki ástæðu til að halda að neitt sérstakt sé í vændum, og vonandi fer gossóttin að réna.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband