Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2014
Jarðspá og Galapagos
30.4.2014 | 13:28
Markmið vísindanna er að kanna og skilja náttúruna. Þegar því takmarki er náð, þá eru vísindin fær um að beita samansafnaðri reynslu og upplýsingum til að spá um framvindu mála á hverju sviði náttúrunnar. Við spáum til dæmis í dag bæði veðurfari, þróun hagkerfa, þroskun fiskistofna og uppskeru. Spáin er það sem gefur vísindastarfsemi gildi. Vísindi sem eingöngu lýsa hegðun og ástandi náttúrunnar eru ónýt, ef spágildi er ekki fyrir hendi. En stóri vandinn er sá, að stjórnmálamenn, yfirvöld og jafnvel almenningur hlusta oft ekki á spár vísindanna. Besta dæmið um það eru nær engin viðbrögð yfirvalda við spá um loftslagsbreytingar og hlýnun jarðar. Ef vandamálið er hægfara og kemst ekki inn í fjögurra ára hring kosningabaráttunnar í hverju landi, þá er það ekki vandi sem stjórnmálamenn skifta sér að. Ég hef til dæmis aldrei heyrt íslenskan stjórnmálaflokk setja loftslagsbreytingar framarlega á stefnuskrá sína.
Jarðvísindamenn hafa safnað í sarpinn fróðleik í meir en eina öld um hegðun jarðar, en satt að segja tókst þeim ekki að skilja eðli og hegðun jarðar fyrr en í kringum 1963, þegar flekakenningin kom fram. Þá varð bylting í jarðvísindum sem er sambærileg við byltingu Darwinskenningarinnar í líffræðinni um einni öld fyrr. Nú er svo komið að við getum spáð fyrir um flekahreyfingar á jörðu, þar sem stefna og hraði flekanna eru nokkuð vel þekktar einingar. Þannig er nú mögulegt til dæmis að spá fyrir um staðsetningu og hreyfingu meginlandanna. Önnur svið jarðvísindanna eru ekki komin jafn langt með spámennskuna. Þannig er erfitt eða nær ógjörlegt ennþá að spá fyrir um jarðskjálfta og eldgosaspá er aðeins góð í nokkra klukkutíma í besta falli.
Við getum notað jarðspá til að segja fyrir um breytingar á jarðskorpu Íslands í framtíðinni og um stöðu og lögun landsins. Ég gerði fyrstu tilraun til þess í kaflanum Galapagos Ísland framtíðar? í bók minni Eldur Niðri, sem kom út árið 2011 (bls. 261-269). Þar nýtti ég mér upplýsinar um þróun jarðskorpunnar á Galalapagos svæðinu í Kyrrahafi, en þar er jarðfræðin alveg ótrúlega lík Íslandi, eða öllu heldur hvernig Ísland mun líta út eftir nokkrar milljónir ára.
Á Íslandi og Galapagos eru tvenns konar hreyfingar jarðskorpunnar í gangi. Annars vegar eru láréttar hreyfingar, eða rek flekanna, en hins vegar eru lóðréttar hreyfingar, sem hafa auðvitað bein áhrif á stöðu sjávar og strandínuna. Á báðum svæðunum eru einnig tvö fyrirbæri, sem stýra þessum hreyfingum, en það eru úthafshryggir (í okkar tilfelli Mið-Atlantshafshryggurinn) og heitir reitir eða hotspots í möttlinum undir skorpunni. Á Galapagossvæðinu hefur úthafshryggurinn færst stöðugt frá heita retinum, sem illug undir vestustu eyjunum. Afleiðing þess er sú, að jarðskorpan kólnar, dregst saman, lækkar í hafinu og strrandínan færist inn á landið. Myndin fyrir neðan sýnir strandlínu Galapagos eyja í dag (til vinstri) og fyrir um 20 þúsund árum (myndin til hægri). Það er ljóst að eyjarnar eru að síga í sæ vegna þess að jarskorpan er að kólna. Þetta er bein afleiðing af því, að úthafshryggurinn er smátt og smátt að mjakast til norðurs og fjarlægjast heita reitinn undir eyjunum. Áður var töluvert undirlendi sem tengdi allar eyjarnar sem þurrt land, en nú eru eingöngu fjallatopparnir uppúr sjó. Eins og ég greindi frá í bók minni Eldur Niðri, þá tel ég að svipuð þróun eigi sér stað á Íslandi, en hun er komin miklu skemur á veg heldur en í Galapagos.
Gull Norðmanna á Mohns hrygg
27.4.2014 | 14:12
Norðmenn telja sig nú hafa uppgötvað gull á hafsbotni á jarðhitasvæðum á Mohns hryggnum, fyrir norðan Jan Mayen. Flekamótin sem skera sundur Ísland halda áfram norður í haf og nefnist sá hluti flekamótanna Kolbeinseyjarhryggur, alla leið norður til Jan Mayen. Síðan halda flekamótin áfram norður í Íshafið en nefnast þar Mohns hryggur. Síðan beygir hryggurinn skyndilega til norðurs rétt hjá Svalbarða, og nefnist þar Knipivich hryggur.
Hér á mótum Mohns og Knipovich hryggjanna hafa Norðmenn fundið hverasvæði, þar sem allt að 13 m háir strompar af hverahrúðri dæla út svörtum reyk eða súpu með 310 til 320 stiga hita. Hveravökvinn inniheldur mikið af ýmsum brennisteinssamböndum. Umhverfis hverina hefur myndast stór hóll af efnasamböndum úr hveravökvavnum, einkum steindum eða mínerölum sfalerít, pýrít, pyrrótít og kalkópýrít.
Setið og vökvinn sem streymir upp úr hverunum inniheldur mikið magn af málmum. Hér er gull, silfur, kopar, blý, kobalt, zink og fleira. Norðmenn hafa enn ekki gefið upplýsingar um efnainnihald setsins og hveranna, en þeir telja að hér á 3.5 km dýpi séu vinnanleg verðmæti um 1000 milljarðar norskar krónur.
Verðmætir málmar hafa hingað til verið unnir eingöngu í námum á landi en slíkar námur eru að þverra. Nú er athyglinni fyrst og fremst beint í áttina að málmríkum lögum á hafsbotni, í grennd við hveri eins og þessa á Mohns hrygg. Eitt stærsta svæðið af þessu tagi er á hafsbotni á um 1.6 km dýpi norðan Papúa Nýju Gíneu, og hefur Kanadískt námufyrirtæki stefna að því í nokkur ár að vinna það. En heimamenn hafa stöðvað allar framkvæmdir í ótta við mikið umhverfisslys. Það verður fróðlegt að fylgjast með hvernig Norðmenn fást við stóru vandamálin, sem eru bæði tæknileg og umhverfisleg, við námugröft undir þessum erfiðu kringumstæðum.
Thomas Piketty gerir árás á frjálshyggjustefnuna: Arftaki Karls Marx?
24.4.2014 | 13:14
Bókin Capital in the Twenty-first Century eftir franska hagfræðinginn Thomas Piketty er að setja allt á annan endan. Hver hefði getað ímyndað sér að bók um hagfræði væri nú top seller hjá Amazon.com? Áhrif hennar geta orðið sambærileg við hið fræga verk Das Kapital, sem Karl Marx gaf út árið 1867. En að sjálfsögðu valdi Piketty titil sinnar bókar nú til að minna á þetta klassíska verk kommúnistans Marx. Það skal þó tekið strax fram, að Piketty er alls ekki marxisti.
Piketty fjallar fyrst og fremst um það í bók sinni hvernig auði er deilt í þjóðfélaginu. Auðvitað er það sama gamla sagan, en munurinn er sá, að hann og félagar hans hafa nú lagt sig í líma við að safna hagtölum og nýjum gögnum um dreifingu og skiftingu auðs í heiminum sem nær yfir meir en þrjár aldir. Rannsóknir þeirra leiða margt nýstárlegt í ljós, til dæmis að tuttugasta öldin er algjörlega frábrugðin venjulegri þróun um dreifingu auðs, sennilega vegna áhrifa heimsstyrjaldanna tveggja. Það sem Piketty bendir hvað mest á, er að ójöfn skifting auðs fer mjög vaxandi í þjóðum heims, sem er bein afleiðing frjálshyggjustefnunnar. Meðal lokaorða hans í bókinni er þetta: Market economy, based on private property, if left to itself, . is potentially threatening to democratic societies and to the values of social justice on which they are based.
Hingað til hafa fræðimenn aðallega fjallað um meðaltekjur og sögulega þróun þeirra, en Piketty og félagar fara aðra leið. Fyrsta línuritið sýnir ójöfnuð í tekjum í Bandaríkjunum. Það sýnir að tekjur hjá auðugustu 10% þjóðarinnar í eitt hundrað ár eru á bilinu 35 til 50%. Ójöfnuðurinn var mikill í byrjun tuttugustu aldar, og svo aftur nú í byrjun tuttugustu og fyrstu aldar. Línurit fyrir önnur lönd segja sömu sögu. Ójöfnuðurinn er gífurlegur og fer vaxandi.
En það sem veldur Piketty mestum áhyggjum (hann kallar það hræðilegt ástand) er síðasta línuritið. Það sýnir að tekjurnar af ávöxtun eigin fjár og ávöxtun fjárfestingar (rauða línan) er nú langt yfir hagvexti (growth rate of world output), og bilið fer sívaxandi.
Everest er sirkus
22.4.2014 | 13:43
Mikið er rætt um fjallgöngur á Everest þessa dagana. Dauði 16 burðarmanna frá Nepal í snjóflóði við rætur fjallsins hefur endurvakið umræðu um siðfræði þá, sem ríkir á fjallinu og um sport sem sumir nefna extreme tourism. Hvað vilt þú kosta miklu fé til að komast á toppinn? Vilt þú stefna lífi fátækra burðarmanna í vísa lífshættu, einungis til að koma þér á toppinn? Burðarmenn á fjallinu eru allir Sherpar, og starfa í hálfgerðum þrældómi við að koma auðugum túristum frá vesturlöndum upp á toppinn, hvað sem það kostar.
Sagan sýnir, að það eru nokkra hetjur, sem hafa klifið Everest, einir, án aðstoðar, án súrefnis, og eru Reinhold Messner og Göran Kropp þar í fremstu röð. Árið 1996 kleif svíinn Göran Kropp tindinn Everest aleinn, án súrefnis og án aðstoðar. Hann kleif fjallið eftir að hafa ferðast á reiðhjóli með allan farangur sinn frá Eskiltuna í Svíþjóð. Síðan hjólaði hann aftur heim. Myndin sýnir Göran og reiðhjólið góða. En á sama tíma þegar Göran var á leið niður af fjallinu í miklum stormi, þá voru nokkrir hópar óreyndra fjallgöngumanna á ferðinni, alls 34, og fórust átta manns í storminum, þrátt fyrir allar tilraunir Sherpanna til að koma þeim niður.
Sherparnir bera upp nær allan farangur, tjöld, birgðir, reipi, stiga, súrefniskúta og annað, sem gerir óreyndum túristum færat að komast á fjallið. Síðan er það oft hlutskipti Sherpanna að bókstaflega draga fjallgöngufólkið á toppinn og bera það niður örmagna. Jafnvel sjáfum Sir Edmund Hillary ofbýður nú: Ég held að ástandið varðandi klifur fjallsins Everest sé komið á hryllilegt stig. Fólk vill bara komast á toppinn, hvað sem það kostar. Það sinnir engu varðandi ástand og vandræði annara, sem kunna að vera í lífshættu. Aðrir reyndir fjallamenn segja að nú sé Everst eins og sirkus, og fari stig versnandi.
En þetta er dýrt sport. Þeir sem nú vilja klífa syðri leiðina frá Nepal þurfa að greiða allt að $65 þúsund á mann fyrir ferðina. Hins vegar eru nú í boði klifurferðir upp norður leiðina, undir stjórn Kína, sem kosta aðeins um $10 þúsund.