Bloggfærslur mánaðarins, maí 2013
Ný mynd Eldfjallasafns er eftir Eyjólf J. Eyfells
27.5.2013 | 15:28
Nýasta mynd Eldfjallasafns er af Heklugosinu árið 1947. Þetta er olíumálverk eftir Eyjólf J. Eyfells (1886-1979). Hann var fæddur Eyjólfur Jónsson, en tók svo miklu ástfóstri við heimalönd sín undir Eyjafjöllum, að hann kaus sér eftirnafnið Eyfells. Eyjólfur var mikið náttúrubarn og sjálflærður í list sinni, natúralisti, sem sótti fyrirmyndir algjörlega í íslenska náttúru. Það var oft sagt að Eyfells hefði ætið verið heppinn með veður í list sinni. Eyjólfur málaði mikinn fjölda mynda, enda málaði lengur en nokkur annar íslenskur málari, í um 70 ár, frá 1908 til 1978.
Myndin sýnir Heklugosið árið 1947. Þá gerðist það að eldfjallið klofnaði frá suðvestri til norðausturs, og Heklugjá opnnaðist um 3 km langan veg. Þetta er algeng hegðun eldfjallsins, eins og önnur mynd sýnir, en þar er Heklugjá sýnd sem svart strik og hraun yngri en 1970 sýnd með ýmsum litum. Eyfells málar ekki upphaf gossins, heldur þegar það var komið vel á veg. Hér eru þrír gígar sýndir virkir í sprungunni miklu, sem liggur eftir elfjallinu endilöngu og miklir ljósir bólstrar af eldfjallagasi, ösku og gufu rísa til himins.