Bloggfærslur mánaðarins, mars 2019

Afdrif víkinga á Grænlandi á miðöldum  

 

Landnám norrænna manna frá Íslandi á Grænlandi á tíundu öld og landkönnun þeirra í vestri er einn af höfuðstólpum norrænnar menningar almennt. Grænlenska nýlendan blómgaðist um skeið á fyrri hluta Miðalda, bæði í Eystribyggð og Vestribyggð, en af einhverjum óþekktum ástæðum leið byggðin undir lok í kring um 1450 e.Kr.  Það hefur lengi verið óstaðfest skoðun fræðimanna (fyrst Hans Egede 1721) að hnignun loftslags hafi ráðið förinni og gert Grænland óbyggjanlegt fyrir bændur, sem stunduðu akuryrkju og búskap að íslenskum sið.  Síðasta lífsmarkið frá norrænum mönnum á Grænlandi er tengt brúðkaupi íslenskra hjóna í steinkirkjunni á Hvalsey árið 1408. 

LasherFig2

Rannsóknir loftslagsfræðinga hafa sýnt fram á að um skeið ríkti tiltölulega mjög milt loftslag á norðurhveli jarðar á Miðöldum (Medieval Climate Anomaly, MCA), frá um 900 til um 1300 e.Kr. , en það byrjaði verulega að kólna og Litla Ísöldin gekk í garð, eins og ískjarnar frá Grænlandsjökli sýna í stórum dráttum. 

Við frekari könnun hefur myndin nýlega tekið að skýrast við rannsóknir á vatnaseti í Eystribyggð, en niðurstöður sýna að í stórum dráttum hafði Hans Egede rétt fyrir sér fyrir tæpum  þrjú hundruð árum.  Nú hafa Everett Lasher og Yarrow Axford  frá Bandaríkjunum greint súrefnissamsætuna O18 í skeljum eða hýði af vatnapöddum  sem finnast í borkjörnum af vatnaseti í Eystribyggð.  Grein þeirra birtist nýlega í tímaritinu Geology. En samsætan eða súrefnisísótópinn O18 er góður mælikvarði á ríkjandi hitastig þegar vatnapaddan var á lífi.  Það tekur um 40 ár að mynda 1 cm þykkt lag af seti í þessum vötnum í Eystribyggð,  sem gerir þá kleift að kanna sveiflur í loftslagi með um 40 ára næmi eða upplausn yfir um 3000 ára skeið. 

Niðurstöður þeirra eru sýndar á myndinni, bæði O18 sveiflur (efra ritið) og hitasveiflan, sem er dregin af O18 gögnum (neðra ritið). Kólnun er um 2 til 3 stig á meðalhita. Það er eftirtektarvert að kólnun í Eystribyggð er strax komin í gang skömmu eftir árið 1000 e.Kr. og hefur náð toppnum í kringum 1300 e.Kr. (bláa línan). Að öllum líkindum hefur sprettutíminn styttst til muna og landbúnaður, sem var hér rekinn á íslenskan máta, féll niður.  Fólksfjölgun skrapp saman og fókið hrökklaðist smám saman á brott.  En einmitt á sama tíma var fólk af Inuit kyni að færa sig suður með vestur strönd Grænlands og nema land.  Inúítar höfðu aðlagað sig mjög vel að aðstæðum, einkum með selaveiðum, og kólnunin á Litlu Ísöldinni hafði engin áhrif á þá.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband