Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2013

Þóríum kjarnorkuver getur verið besta lausnin

 

Ása-ÞórrÁsa-Þórr var sterkastur allra ása í norrænu goðafræðinni.  Hann kann að hafa verið mest dýrkaður allra ása á Íslandi til forna, alla vega á Snæfellsnesi, þar sem mörg örnefni bera nafn hans enn í dag.  Árið 1828 uppgötvaði sænski efnafræðingurinn Jöns Jacob Berzelius nýtt frumefni í kristöllum frá Noregi, sem hann gaf nafnið Thorium eða þóríum.  Sennilega á nafngiftin mjög vel við, því nú lítur út fyrir að geislavirka efnið þóríum, sem ber skammstöfunina Th í efnafræðinni, verði aðal uppistaðan í nýrri tegund kjarnorkuvera. 

Kjarnorkuver, sem nýta geislavirkt úraníum, sjá heiminum fyrir um 14% af allri orkuþörf í dag.  Í sumum löndum, til dæmis Frakklandi, er kjarnorkan aðal orkulindin.  En þeim fylgja ýmiss vandamál.  Eitt það stærsta er hættulega geislavirkur úrgangur, sem er geislavirkur í meir en tíu þúsund ár. Annað verkfræðilegt vandamál er að í þessum kjarnorkuverum er vatnskerfi undir mjög háum þrýstingi og hita, sem hefur reynst erfitt að stjórna og kann að orsaka sprengingar, eins og til dæmis í Chernobyl, Three Mile Island og Fukushima.  Þriðja vandamálið er að úrgangurinn inniheldur mjög geislavirkt plútóníum.  Málmurinn plútóníum er eðlisþyngsta frumefnið, með eðlisþyngd um 19,8, en svo geislavirkt að það er volgt við snertingu. Það er jafnvel eldfimt við venjulegan hita.

Í seinni heimsstyrjöldinni vann hópur bandarískra vísindamanna í mikilli leynd við Manhattan Project að því að framleiða plútóníum-239.  Það var síðan notað til að gera kjarnorkusprengjuna Fat Man, sem var varpað á japönsku borgina Nagasaki í ágúst 1945, eins og frægt er.  Það þarf aðeins um 4 kg af plútóníum til að gera kjarnorkusprengju. Monazít

Geislavirka frumefnið plútóníum er þannig einn mesti og mikilvægasti afrakstur af úraníum kjarnorkuverum fyrir hernaðariðnaðinn.  Þessi einfalda staðreynd mun vera aðalástæðan fyri því að úraníum var ofaná í kjarnorkuverum kalda stríðsins, þegar eftirspurn eftir plútóníum var mikil.  Stórveldin hafa haldið áfram að safna plútóníum birgðum í kjarnorkuverum sínum eftir að Kalda Stríðinu lauk og nú er óttast að önnur ríki, til dæmis Íran, séu að safna plútóníum á þennan hátt. 

En það er hægt að reisa kjarnorkuver, sem brenna ekki úraníum og framleiða því ekkert plútóníum. Það eru þóríum kjarnorkuver.  Það var kjarneðlisfræðingurinn Alvin Weinberg sem hannaði þóríum kjarnorkuver í Oak Ridge árið 1960 en honum var sagt upp árið 1973 og orkuverinu lokað. Úraníum varð ofaná  í kjarnorkustofnun Bandaríkjanna, Nuclear Regulatory Commission, vegna þess að það gaf af sér plútóníum fyrir kjarnorkusprengjur.

Það þarf nú að beita þóríum til að skera á naflastrenginn, sem í dag tengir kjarnorkuver við kjarnorkuvopn og hernað.  Á jörðu er þóríum um fjórum sinnum algengara en úraníum og miklar birgðir eru því til staðar. Það er til dæmis algengara í jarðskorpunni en blý. Í Bandaríkjunum eru nú til byrgðir sem nægja allri orkuþörf landsins í eitt þúsund ár! Þóríum finnst í mestu magni í fornu bergi meginlandanna, einkum í graníti og skyldum bergtegundum. Í þessu bergi er þóríum aðallega í steindum eða kristöllum af gerðinni mónazít, sem hefur efnaformúluna Ce,La)PO4.    Myndin til hliðar sýnir slíkan kristall af monazíti. Ef ég væri að leita að þóríum, þá færi ég til Eystribyggðar í suður Grænlandi eða á önnur svæði með mikið magn af graníti. Þóríum finnst samt á Íslandi, en í mjög litlum mæli. Venjulegt blágrýti inniheldur um 2 ppm af þóríum en það er basaltið á Snæfellsnesi og í Öræfajökli, sem er ríkast af þóríum, með um 3 ppm. 

Enginn hefur enn byggt starfandi þóríum orkuver, en miklar vonir eru bundnar við þessa tegund kjarnorku.  Ekki eru allir jafn sofandi og bandaríkjamenn á þessu sviði. Kínverjar eru til dæmis að setja á laggirnar risastórt rannsóknarverkefni til að þróa og reisa þóríum kjarnorkuver. Þeir byrja með $350 milljónir og140 vísindamenn, en gert er ráð fyrir að 750 manns vinni við verkefnið eftir tvö ár.  Með því hyggjast þeir losa sig við kolabrennslu og bæta þar með gæði andrúmslofstins yfir Kína og draga úr hnattrænni hlýnun.  Noregur og Japan eru einnig að rannsaka möguleika á þóríum orkuverum.  Einn af stóru kostunum við þóríum kjarnorkuver er það, að þar er hægt að brenna þeim geislavirka úrgangi, sem safnast hefur saman nú í hálfa öld í venjulegum kjarnorkuverum. Þóríum 232 breytist í úraníum 233 sem er eldsneytið í þóríum kjarnorkuverinu. En það kemur ekkert pútóníum út úr þóríum orkuverum.  Af þeim sökum hafa hryðjuverkamenn engan áhuga á að ræna þóríumver til að komast yfir kjarnorkusprengjuefni.

Þegar maður fer að kynna sér málin sem snerta kjarnorku, þóríum og úraníum, þá vekur það strax furðu að ekki skuli vera meira gert til að koma þóríumorkuverum í gang. Í Bandaríkjunum er eiginlega samsæri hins opinbera að útiloka þóríumver en halda gömlu úraníumverunum gangandi. Er það einungis vegna framleiðslu á plútóníum til sprengjuefnis? Þetta þarf að rannsaka frekar.


Elsta dýr jarðar var íslenskt

KúfskelAlþjóð veit, að síðasti geirfuglinn var drepinn á Íslandi árið 1844.  Hitt er kannske ekki svo vel þekkt, að íslendingar drápu einnig elsta lifandi dýrið, sem þekkist á jörðu. Það gerðist árið 2007, þegar rannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson dró upp trollið af 83 metra dýpi skammt frá Grímsey. Út úr trollinu valt þá brúnleit kúfskel á þilfarið, um 11 cm á breidd. Mynd af henni er hér til hliðar. Hún var greind til aldurs af breskum vísindamönnum með því að telja árhringi í skelinni og með geislakolaaðferð og kom þá í ljós að hún var 507 ára gömul.  Það með er, eða öllu heldur var, hún elsta lifandi dýr jarðarinnar.  Arnoddur

Kúfskel eða Arctica islandica (Linnaeus 1767) er nokkuð algeng tegund umhverfis Ísland og þekkt fyrir að ná mjög háum aldri. Hún lifir í hafsbotninum þar sem hún grefur sig niður í sand eða leir, þar sem aðeins röndin stendur uppúr  og hreyfir sig lítið alla æfina. Þá standa aðeins öndunarfærin uppúr sandinum, eins og þessi ágæta mynd sýnir hér til hægri, eftir Arnodd Erlendsson.  Hún andar sjó inn um stærra opið, en út um það minna.

Skelin stækkar hratt yfir sumartímann en lítið eða ekkert á vetrum. Þess vegna koma fram greinilegir árhringir, eins og í trjám. Skelin er mjög útbreidd og töluvert er veitt af henni um allan heim.  Í Bandaríkjunum er aflinn af þessari tegund af kúfskel til dæmis um 20 þúsund tonn á ári.  Talið er að heildaraflinn af kúfskel í heiminum sé um 150 þúsund tonn á ári.

Þegar fréttin barst út um þennan merka fund við Grímsey, þá vakti það mikla athygli meðal þeirra vísindamanna, sem rannsaka öldrun og elli, einkum í Bretlandi og Þýskalandi.  Hvað er það, sem gerir kúfskelinni fært að lifa svona lengi? Er hér að finna lífsins elixír, sem gæti ef til vill gefið okkur eilíft líf, eða alla vega lengara líf?  Kúfskel lifandi

Rannsóknir á skelinni frá Grímsey hafa þegar sýnt að kúfskelin er að nokkru leyti sérstæð lífvera.  Hún inniheldur nefnilega fremur hátt magn af andoxunarefni allt sitt líf.  Það eru sameindir, sem draga úr eða koma í veg fyrir oxun og kunna að gefa lengra líf.  Þetta passar vel inn í hina vinsælu  “free-radical theory of aging” kenningu, en þar er því haldið fram að lausar jónir eins og O2- flýti fyrir öldrun manna.  Annað atriði sem einkennir kúfskelina er, að hún hefur mjög lág efnaskifti (metabolic rate) og virðist því vera hálfsofandi allan tímann, einkum á veturna.  Rannsóknir halda áfram, en ekki sýnist mér að kúfskelin gefi okkur lausnina um eilíft líf, nema þá fyrir þá, sem vilja eyða lífinu grafnir í leirinn á hafsbotni, innan við 4 stiga hita og hálfsofandi.


Er kjarnorkan lausnin?

 

LosunVið íslendingar höfum nokkra sérstöðu í orkumálum, með fremur hreinar orkulindir í vatnsorku og jarðhita. En við erum ennþá undantekningin, þar sem virkjun jarðvarma er enn stutt á veg komin í hinum stóra heimi.  Á meðan halda nær allir jarðarbúar áfram að brenna olíu, gasi og kolum og spúa miklu magni af koltvíoxíði út í andrúmsloftið, menga lofthjúpinn og orsaka hnattræna hlýnun.  

Nýlega kom út merk skýrsla frá þeirri alþjóðastofnun vísindamanna, sem nefnist Global Carbon Project (GCP).  Í skýrslunni Global Budget 2012 er tekinn saman mikill fróðleikur um bruna kolefna og losun koltvíoxíðs.  Eins og fyrsta myndin sýnir, þá vex losun koltvíoxíðs í heiminum stöðugt, og er nú um tíu petagrömm á ári (petagramm er sama og gígatonn, sem er sama og einn milljarður tonna).  Þetta er ógnvænlegt og ekkert virðist hægja á, þar sem meðal hnattræn aukning losunar er um 3% á ári. Evrópulönd

En það sem kom mér mest á óvart í skýrslunni er það, að í nokkrum löndum (Belgíu, Frakklandi, Svíþjóð, Bretlandi) hefur dregið töluvert úr losun koltvíoxíðs undanfarinn áratug, eins og kemur fram á mynd númer tvö hér til hliðar.  Hið sama er að sega í Bandaríkjunum, eins og þriðja myndin sýnir, þar sem minna koldíoxíð losnar út í andrúmsloftið vegna þess að kolanotkun hefur dregist saman en hagkvæmara og umhverfisvænna jarðgas komið í staðinn.  En hvers vegna hefur þá heildarlosun á koltvíoxíði í heiminum vaxið svo mikið, eins og sýnt er á fyrstu myndinni? Jú, það er auðvitað vegna kola- og olíunotkunar í Kína (og að nokkru leyti í Indlandi), eins og kemur fram á fjórðu myndinni. USA Í Kína er árleg aukning losunar  koltvíoxíðs langmest, eða um 10%.  Kínverjar munu að sjáfsögðu halda áfram að brenna sínum kolum til að keyra verksmiðjur sínar, á meðan vesturlandabúar halda uppi mikilli eftirspurn á kínverskum vörum.

Snúm okkaru aftur að mynd númer tvö, sem sýnir losun koltvíoxíðs í Evrópulöndunum fjórum: Belgíu, Frakklandi, Svíþjóð og Bretlandi.  Hér er smá vonarneisti sjáanlegur. Í þessum löndum hefur tekist að draga úr losun koltvíoxíðs til andrúmsloftsins um 1 til 5% á ári. Það er kraftaverki líkast og þessari staðreynd þarf að halda á lofti. En hvað er það sem gerðist? Í öllum þessu löndum hefur notkun kjarnorku vaxið til muna, sem mikilvæg orkulind.

 Ég hef lengi haft þá skoðun, að kjarnorka verði megin orkugjafi á jörðu í framtíðinni, en auðvitað mun nýting jarðhita, sólar og vinda vaxa samhliða því.  Það eru mörg vandamál, sem þarf að leysa varðandi kjarnorkuverin og eitt það stærsta er: hvað gerir maður við geislavirka úrganginn af cesíum, strontíum og öðrum hættulegum efnum? Hann er geislavirkur í allt að því tíu þúsund ár!  Japanir fengu skrekk,  þegar jarðskjálftinn mikli  skall yfir í marz árið 2011. Flóðbylgja sem fylgdi í kjölfar skjálftans lamaði Fukushima kjarnorkuverið, enda var það byggt fast við ströndina.  Slík slys valda afturkipp í nýtingu kjarnorku, en það er að mínu áliti óhjákvæmilegt fyrir margar þjóðir að kanna betur þennan kostinn í orkumálum sínum, ef við viljum halda loftslagsbreytingum í skefjum.  Kína

Kjarnorka er enn mjög dýr og ekki samkeppnishæf við olíu og kol, nema þar sem ríki hafa niðurgreitt kjarnorkuna með stórum fjárframlögum. Samt sem áður er talið að kjarnorkuver sé ódýrari lausn fyrir framleiðslu raforku en vindorkustöðvar.   Og svo er það hráefnið: málmar eins og úraníum eru fremur sjaldgæfir og alls ekki óþrjótandi í jarðskorpunni.  Nú eru um 439 kjarnorkuver á jörðu og þar af 104 í Bandaríkjunum.  Ég er því sammála hinum þekkta breska umhverfisvini og vísindamanni James Lovelock, en hann sagði árið 2004: "only nuclear power can now halt global warming".


Sjórinn hitnar

 

Sjór hitnarÞað eru meir en eitt hundrað ár síðan menn fóru að mæla hita heimshafanna. Nú hafa þeir

Gouretski og félagar tekið saman öll gögnin og spyrja: er hafið að hitna?  Hafið er lengur að bregðast við loftslagsbreytingum en loftið, en hafið er að sjálfsögðu um eitt þúsund sinnum stærri hitageymir en andrúmsloft jarðar.  Myndin hér fyrir ofan sýnir gögnin um meðal hitafar allra heimshafanna.  Rauðu línurnar eru fyrir meðalhita við yfirborð sjávar (SST), þær bláu er hiti hafsins á  20 metra dýpi. Græna línan á neðri hluta myndarinnar sýnir feril fyrir hita hafsins á 400 metra dýpi.  Þar kemur einnig fram hlýnun, sem sýnir að hlýnunin er ekki einungis yfirborðsfyrirbæri.  Niðurstaðan er sú, að heimshöfin hafa hitnað að meðaltali um 0,5 til 0,6 oC á einni öld, frá 1900 til 2000. 

Breytingar á hita heimshafanna hafa fjölmargar afleiðingar. Hér eru nokkur dæmi. Sjórinn þenst út við að hitna og sjávarborð hækkar af þeim sökum  um heim allan. Áhrifin á lífríki eru mjög mikilvæg en að mörgu leyti óþekkt.  Við þekkjum vel í hafinu umhverfis Ísland að sumar fisktegundir færa sig um set þegar sjór hitnar, en aðrar koma í staðinn. Hlýnunin hefur einnig bein áhrif á loftslag vegna eðliseinkenna koltvíoxíðs. Uppleysanleiki koltvíoxíðs í hafinu minnkar nefnilega þegar sjórinn hitnar.  Þá streymir CO2 gas upp úr sjónum og vex í andrúmsloftinu, sem eykur þannig hlýnun jarðar. Þannig fer á stað jákvæð hringrás (positive feed-back) sem eykur árhrif hlýnunar.


Obama tekur loksins af skarið í loftslagsmálum


 

ObamaÍ gær, þegar Obama tók embættiseið sem forseti Bandríkjanna, var eitt atriði mikilvægast í ræðu hans. “Við munum bregðast við hættunni sem blasir nú við vegna loftslagsbreytinga, þar sem við vitum að annars erum við að svíka börn okkar og kynslóðir framtíðarinnar.”  Í ræðu hans voru átta setingar um loftslagsbreytingar, eða meiri umfjöllun en um nokkuð annað efni.  Eins og aðrir stjórnmálamenn, þá hefur Obama til þessa forðast umræður um loftslagsbreytingar eins og heitan eldinn.  Áhrif olíufélaganna í Washington eru gífurleg en nú hefur hann engu að tapa í þessu efni. Hann gengur ekki eins langt og Al Gore gerði fyrir tíu árum, en þessi ræða lofar góðu um önnur viðhorf í orkumálum vestra.  Ef Obama myndar nú ákveðna stefnu í orkumálum, dregur úr losun koltvíoxíðs og vinnu á annan hátt að málum sem varða loftslagsbreytingar næstu fjögur árin, þá verður það tvímælalaust stærsta og merkasta arfleifð hans.


Bráðnunin mikla á Grænlandi

 

Bráðnun Grænlands júlí 2012Dagurinn 12. júlí árið 2012 var merkisdagur á Grænlandi. Þá í fyrsta sinn bráðnaði yfirborðið á um 98,6% af íshellunni, sem þekur Grænland.  Fyrsta myndin sýnir Grænland eins og bráðnunin kom fram á mælingum frá gervihnetti NASA.  Ég kom til Grænlands þrisvar á síðastliðnu sumri og var vitni af stórkostlegum atburðum, sem fylgdu í kjölfar bráðnuninnar: stór stöðuvötn voru á víð og dreif um yfirborð jökulsins, stórfljót runnu yfir jökulinn milli vatnanna og steyptust niður í hyldjúpar jökulsprungur, jökulhlaup brutust út undan jöklinum og eyddu brúm og vegum. Bráðnun af  þessu tagi hefur ekki gerst síðan árið 1889, og þar á undan fyrir um 700 árum.  Jöklafræðingar sjá vitnesku um slíka bráðnun í ískjörnum við borun í jökulinn. Í kjörnunum koma gömul bráðnunarlög fram mjög greinilega, sem lag af hreinum og tærum ís, alveg eins og sá ís, sem þú færð út úr kæliskápnum og inniheldur enga loftbólur.  Bráðnunin fyrir 700 árum gerðist á hlýskeiði. Loftslag Grænlands

Eins og önnur mynd sýnir, þá hafa verið miklar sveiflur á loftslagi á Grænlandi í gegnum aldirnar. Skömmu eftir Krists burð var hlýskeið, sem er kennt við Rómverja (Roman Warm Period RWP). Því fylgdi kuldatími, sem varði í nokkur hundruð ár (DACP á myndinni).  Þá í kringum 800 til 900 eKr. tók við annað hlýskeið sem kennt er við Miðaldir (MWP).  Í byrjun þessa hlýskeiðs hófst landnám á Íslandi  og íslendingar settust að á Grænlandi í kjölfar landnáms Eiríks Rauða. Þetta hlýskeið gerði löndum okkar fært að nema land hér á Grænlandi. En seint á miðöldum kólnaði aftur og í kringum 1450 var byggðin komin í eyði vegna loftslagsbreytinga.  Litla ísöldin gekk nú í garð (LIA á myndinni).

Það þarf ekki að leita lengra til að fá skýringu á hvarfi byggðar norrænna manna á Grænlandi. Hnignandi veðurfar gerði þeim illmögulegt að heyja fyrir sauðfé og annan búpening og forfeður okkar vildu ekki aðlaga sig að háttum eskimóa, sem kunnu að nýta sér sel, hval og annað sem hafið hefur uppá að bjóða.  Af þeim sökum varð einangrun, hnignun samfélagsins, samdráttur, fólksfækkun og að lokum útdauði og endir á hinni merkilegu tilraun Eiríks Rauða að gera bólfestu hér á nyrsta útjaðri hins byggilega heims.


Hvaða áhrif hefur Þverun á Kolgrafafjörð?

Skessuhorn Kolgrafafj.Nýlega barst út frétt frá Umhverfisstofnun í Morgunblaðinu hinn 16.1.2013, þar sem fjallað var aftur um Kolgrafafjörð. Þar er því haldið fram að vatnsskipti í dag séu óbreytt frá því sem var fyrir þverun fjarðarins.  Þessi staðhæfing gefur því í skyn að þverunin eigi engan þátt í dauða síldarinnar í firðinum.  Þetta er ekki rétt. Árið 2012 kom út fróðleg 23 blaðsíðna skýrsla Vegagerðarinnar um Þverun Fjarða og eru þar einkar gagnlegar mælingar á straumum um fjörðinn.

Árið 2004 var ný brú opnuð yfir Kolgrafafjörð. Vegurinn er að miklu leyti grjótvarin vegfylling þvert yfir mynni fjarðarins, sem er um 1700 metrar á lengd.  Við vestur enda grjótfyllingarinnar er brú með vatnsop, sem er um 150 metrar á lengd. Vatnsskipti inn og út úr Kolgrafafirði eru því um op sem er tæplega einn tíundi af því sem áður var.  Eitthvað af sjó mun einnig síast í gegnum grjótgarðinn.

 Í skýrslunni frá 2012 um þverun kemur í ljós, að vatnsskipti fjarðarins við úthafið eru ófullkomin og ná ekki jafnvægi milli flóðs og fjöru.    Munur á sjávarhæð á fjöru innan og utan þverunar er  9 cm í Kolgrafafirði, samkvæmt skýrslunni. Það er að segja að vatn í firðinum stendur hærra og nær aldrei að falla alveg út áður en næsta flóð hefst.  Á meðalstórstraum var mesta rennsli á útfalli áður 2710 m3/s en er nú 2830 m3/s. Sjávarfallasveiflan utan þverunar er 4,2 m.

Þessi ófullkomnu vatnsskifti í firðinum geta haft margvísleg áhrif.  Þverun fjarða hefur óhjákvæmilega áhrif á eðliseiginleika sjávar, einkum  sjávarföll, strauma, öldur, setflutning, súrefnismagn og seltu. Allir þessir þættir eru hluti af vistkerfinu í firðinum og þannig myndast samspil eðlisþátta sjávar og líffræðilegra þátta.  Það eru því til gögn, sem sýna léleg vatnsskifti í Kolgrafafirði. Hafa léleg vatnsskifti orsakað lægra súrefnismagn í sjó innan fjarðarins?  Er það skýring á síldardauðanum?  Þetta er enn tilgáta, en allt virðist benda í þá átt.


Þegar Vilhjálmur Stefánsson stakk af

 

Ferð KarluksFyrir um eitt hundrað árum, árin 1913 og 1914, urðu þáttarskil í sögu heimskautarannsókna. Þessi ár lögðu af stað tveir síðustu leiðangrarnir í tréskipum, fyrir daga loftskeyta, sendistöðva og flugvéla. Annar leiðangurinn var á skipinu Endurance, undir Stjórn Ernest Shackleton.  Hann stýrði í átt að Suðurpólnum, og veitti mönnum sínum frábæra forystu í gegnum skipsbrot og aðrar miklar hörmungar, en honum tókst að koma þeim öllum aftur heim, heilu og höldnu. Hinn leiðangurinn var á skipinu Karluk í átt að Norðurskauti, undir stjórn Vilhjálms Stefánssonar.  Vestur Íslendingurinn stakk af:  hann yfirgaf bæði skip og áhöfn þegar á reyndi.  Ellefu af tuttugu og fimm þátttakendum leiðangurs hans fórust.  

Að minnsta kosti þrjár bækur hafa nú komið út, þar sem fjallað er um Karluk leiðangurinn. Ein þeirra er eftir skotann William Laird McKinlay (1976) sem var einn af vísindamönnum leiðangursins. Önnur bókin er eftir sjálfan skipstjóra Karluks, Robert Bartlett (1916, 2007), og sú þriðja eftir Jennifer Niven (2000).  Ég las nokkuð af þessu merkilega efni nú yfir hátíðirnar. Þessar áreiðanlegu heimildir um afdrif leiðangursins, áhafnarinnar á Karluk  og undarlega framkomu Vilhjálms Stefánssonar er ekki fallegur lestur.   

Karluk var 39 metra langt tréskip, með 13 manna áhöfn. Um borð voru auk þeirra voru 10 vísindamenn og 7 eskimóar, sem voru veiðimenn leiðangurins.  Þeir sigldu frá Alaska og síðan inn á Íshafið um Beringssund. Í byrjun ágúst voru þeir komnir í lausan og gisinn rekís, en Vilhjálmur gaf skipun um að sigla norður, inn í ísinn. Hann var að leita að nýju og áður óþekktu meginlandi, sem hann taldi vera í grennd við Norðurpólinn.  Skipið sat nær strax fast í ísnum, sem teygðist eins langt og augað eygði.  Vilhjálmur varð fljótlega órólegur um borð og þoldi ekki biðina.  Hinn 20. september yfirgefur hann skipið Karluk og lýsir yfir að hann ætli að skreppa í veiðiferð á hafísnum í nokkra daga. Hann tekur með sér tvo eskimóa veiðimenn, nokkra hundasleða, þrjá vísindamenn og miklar birgðir. Vilhjálmur sagðist munu koma til baka eftir viku til tíu daga.

Karluk var enn fastur í  ísnum og rak fyrst til austurs en síðar nokkuð hratt til vesturs. Á meðan hélt Vilhjálmur yfir ísinn til suðurs og tók land í Alaska með fámennt lið sitt. Hann gerði  enga tilraun til að hafa aftur samband við skipið Karluk.  Næstu mánuði rak skipið með hafísnum stöðugt til vesturs. Úti var hörkufrost, vetur og myrkur. Stöðugt óx óttinn um, að skipið myndi brotna vegna hins gýfurlega þrýstings.  Ísinn kreisti skipsskrokkinn og miklir brestir dundu yfir öðru hvoru. Bartlett skipstjóri gerði sér grein fyrir að innan skamms myndi skipið brotna og flakið sökkva í hafið. Hann skipaði því áhöfninni að fytja birgðir út á ísinn og reisa þar búðir skammt frá skipinu. Karluk í ísnumEftir nokkra daga var kominn stór bingur af birgðum á ísnum: 250 kolapokar, 6 kassar af saltfisk, 114 kassar af kexi, 9 hundasleðar, 3 kolaofnar, 33 kassar af benzíni, 2000 fet af timbri og fleira.  Jólin gengu í gar og enn var áhöfnin um borð, en tilbúin að yfirgefa Karluk ef hættu bæri að garði. Enn rak skipið til vesturs, í átt til Wrangeleyjar í Íshafinu fyrir norðan Síberíu.  

Hinn 10. janúar braut ísinn að lokum skipið og áhöfnin flutti í búðirnar á ísbreiðunni, sem voru á um 73oN breiddargráðu. Á meðan skipið sökk tóku þeir þá ákvörðun að ganga yfir ísinn með hundasleða og birgðir til Wrangeleyjar, sem var nú í um 200 km fjarlægð.  En fyrst var standrað við í búðunum á ísnum og ferðin vel undirbúin.  Fyrsta tilraun til að gang yfir ísinn til Wrangel hófst hinn 21. janúar.  Hópurinn lenti strax í mikilli ófærð, þar sem ísinn hafði hrannast upp í mikla hryggi og á milli voru stórar vakir.  Sumir sneru aftur til ísbúðanna. Næstu daga fóru fleiri hópar af stað yfir ísinn og árangurinn var svipaður: miklar svaðilfarir, kal á fingrum og tám, slys og dauði. Smátt og smátt tókst þeim að merkja færa leið og nálgast eynna. 

Loks var landi náð á Wrangel hinn 12. mars.  Þar er alger auðn, óbyggð eyja, en nokkuð af rekaviði, selveiði og fuglabjarg.  Bartlett skipstjóri gerði sér strax ljóst að nú væri nauðsynlegt að koma boðum til byggða í Síberíu. Hann sá að enginn af áhöfninni var fær um slíka þolraun nema hann sjálfur og einn eskimóinn. Þeir lögðu af stað frá Wrangel yfir ísinn hinn 18. mars og eftir miklar raunir náði Bartlett til Síberíu í byrjun apríl og komst til byggða innfæddra. Það tók nú Bartlett skipstjóra einn mánuð í viðbót að komast yfir Síberíu til hafna í austri, þar sem von var á að fá bát til Alaska.  Hann var staðráðinn í að gera út björgunarleiðangur til hjálpar mönum sínum, sem eftir sátu á Wrangeleyju. 

Þegar Bartlett komst loks til Alaska hinn 28. maí hóf hann strax undirbúning til að senda bát til Wrangel. Á meðan kom í ljós að Vilhjálmur hafði ekkert aðhafst varðandi leit að hinni horfnu ahöfn og skipinu Karluk.  Á meðan versnaði ástandið á Wrangel. Sumir létu nú lífið af næringarskorti og einn skipbrotsmannanna var myrtur. Allir mannasiðir og siðfræði var nú farin land og leið meðal áhafnarinnar og deilur um matarleifar urðu heiftúðlegar.  Aðeins eskimóarnir héldu sönsum og héldu reyndar lífinu í mannskapnum með veiðum. 

Meðal hinna sjö eskimóa sem Vilhjálmur valdi í leiðangurinn á Karluk var ein fjölskylda: faðirinn Kuraluk, kona hans Kiruk og dæturnar Helen (8 ára) og Mugpi (3 ára).  Fjölskyðdan komst öll af, en Mugpi lifði lengst allra leiðangursmanna. Hún létst í Alaska árið 2008, 97 ára að aldri.    Kurruluk fjölskyldanLoks kom sumar á eynni en það var kalt og í byrjun ágúst gekk vetur aftur í garð.  Það var loks hinn 7. september að hjálp barst þegar skip frá Alaska náði loks til eyjarinnar í gegnum ísinn. Ellefu höfðu nú farist af þeim 31 sem upphaflega tóku þátt í leiðangrinum.  

Fréttin um björgun áhafnarinnar af Karluk barst út um allan heim inn 14. september 1914, á sama tíma og fyrstu stórorustur fyrri heimsstyrjaldarinnar byrjuðu að geisa í Evrópu. Fjórtán mánuðir höfðu nú liðið frá því að Karluk sigldi fyrst úr höfn.  Vilhjálm Stefánsson var hvergi að sjá, en ritari hans reyndi að taka viðtöl við skipbrotsmennina með það fyrir augum að birta birta greinar í blöðum og ritum, sem Vilhjálmur hafði samband við. Andúð áhafnarinnar á Vilhjálmi var nú svo mikil, að enginn þeirra féllst á að veita sendimanni Vilhjálms viðtal. 

En Vilhjálmur var ekki af baki dottinn. Árið 1922 gerði hann út leiðangur til Wrangeleyjar í þeim tilgangi að eigna Kanada eynna. Í þennan leiðangur sendi hann fjóra menn og eina eskimóakonu, en hætti sjálfur við þáttöku á síðustu stundu. Allir mennirnir fórust en eskimóakonan Ada Blackjack komst ein af úr þeirri ferð tveim árum síðar.  

Hver er nú arfleifð Vilhjálms? Eftir hörmungarnar á Karluk og á Wrangeleyju varð Vilhjálmur strax mjög umdeildur.  Einn nefndi hann “an explorer-cum-swindler”.  Norski landkönnuðurinn Roald Amundsen hafði ekki mikið álit  á honum og kallaði Vilhjálm “the greatest humbug alive”.   Einnig var gert grín af fullyrðingu hans að hann hefði uppgötvað  “ljóshærðu eskimóana”.  En á Íslandi er minningu Vilhjálms hampað þeð því að setja á laggirnar árið 1998 rannsóknastofnun sem ber hans nafn, af því að hann var frægur.  Rannsóknir síðari tíma sýna nú að hann er frægur að endemum.    


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband