Hvaða áhrif hefur Þverun á Kolgrafafjörð?

Skessuhorn Kolgrafafj.Nýlega barst út frétt frá Umhverfisstofnun í Morgunblaðinu hinn 16.1.2013, þar sem fjallað var aftur um Kolgrafafjörð. Þar er því haldið fram að vatnsskipti í dag séu óbreytt frá því sem var fyrir þverun fjarðarins.  Þessi staðhæfing gefur því í skyn að þverunin eigi engan þátt í dauða síldarinnar í firðinum.  Þetta er ekki rétt. Árið 2012 kom út fróðleg 23 blaðsíðna skýrsla Vegagerðarinnar um Þverun Fjarða og eru þar einkar gagnlegar mælingar á straumum um fjörðinn.

Árið 2004 var ný brú opnuð yfir Kolgrafafjörð. Vegurinn er að miklu leyti grjótvarin vegfylling þvert yfir mynni fjarðarins, sem er um 1700 metrar á lengd.  Við vestur enda grjótfyllingarinnar er brú með vatnsop, sem er um 150 metrar á lengd. Vatnsskipti inn og út úr Kolgrafafirði eru því um op sem er tæplega einn tíundi af því sem áður var.  Eitthvað af sjó mun einnig síast í gegnum grjótgarðinn.

 Í skýrslunni frá 2012 um þverun kemur í ljós, að vatnsskipti fjarðarins við úthafið eru ófullkomin og ná ekki jafnvægi milli flóðs og fjöru.    Munur á sjávarhæð á fjöru innan og utan þverunar er  9 cm í Kolgrafafirði, samkvæmt skýrslunni. Það er að segja að vatn í firðinum stendur hærra og nær aldrei að falla alveg út áður en næsta flóð hefst.  Á meðalstórstraum var mesta rennsli á útfalli áður 2710 m3/s en er nú 2830 m3/s. Sjávarfallasveiflan utan þverunar er 4,2 m.

Þessi ófullkomnu vatnsskifti í firðinum geta haft margvísleg áhrif.  Þverun fjarða hefur óhjákvæmilega áhrif á eðliseiginleika sjávar, einkum  sjávarföll, strauma, öldur, setflutning, súrefnismagn og seltu. Allir þessir þættir eru hluti af vistkerfinu í firðinum og þannig myndast samspil eðlisþátta sjávar og líffræðilegra þátta.  Það eru því til gögn, sem sýna léleg vatnsskifti í Kolgrafafirði. Hafa léleg vatnsskifti orsakað lægra súrefnismagn í sjó innan fjarðarins?  Er það skýring á síldardauðanum?  Þetta er enn tilgáta, en allt virðist benda í þá átt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Örn Jónsson

Þessi brú er ekki til að bæta ástandið í firðinum.

En það breytir ekki því að það hefði átt að veiða 3 x meira af þessari síld en tekið var. Þessi dauða síld hefði getað vegið þungt í útfluntingi.

Ólafur Örn Jónsson, 19.1.2013 kl. 21:41

2 Smámynd: Níels A. Ársælsson.

Og eftir stendur spurningin: Af hverju flýr síldin inn í þennan fjörð ?

1. Er það vegna ágangs risastórra fiskiskipa utan fjarðarins ?

2. Er það vegna mengunar (blóðvatns, slógs, afskurðar og dauðrar síldar sem sleppt er niður úr nótum skipanna) frá vinnsluskipum utan fjarðarins ?

3. Er það vegna hljóðmengurnar frá sónartækjum fiskiskipa ?

Ég veit þetta ekki en margt bendir samt til þess að eitt af framangreindum atriðum eða jafnvel öll atriðin séu orsakavaldurinn.

Níels A. Ársælsson., 20.1.2013 kl. 22:46

3 identicon

Mér kæmi ekki á óvart Haraldur að grunur þinn sé réttur.

Þetta var það fyrsta sem ég hugsaði þegar ég sá fréttirnar um síldardauðan í Kolgrafarfirði.

Ef þverunin er ekki orsakavaldur þá ætti sagan að geyma minni um viðlíka atburði en svo virðist ekki vera.

stebbi (IP-tala skráð) 20.1.2013 kl. 22:53

4 identicon

Hvað nú Haraldur? Nú liggur 30 000 tonn af lífrænum massa á botninum og rotnar. Ég er enginn efnafræðingur enn hef grun um að þá myndist ýmsar gastegundir ammoníak sambönd sem eru að ama Eyrsveitinga núna og svo smá saman koltvísýringur og metan, er þetta rétt hjá mér. Gætir þú komið með kenningu varðandi hvaða hættur gætu stafað af þessum gastegundum? Þú hefur nú reynslu varðandi slíkt, væri gaman að fá smá pistil.

Guðmundur Guðmundsson (IP-tala skráð) 20.1.2013 kl. 23:36

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Ef þverunin er ekki orsakavaldur þá ætti sagan að geyma minni um viðlíka atburði en svo virðist ekki vera.

Jú. Svo virðist þvert á móti vera samkvæmt sögulegum heimildum. Og það löngu áður en við mannfólkið byrjuðum að að leggja vegi og þvera firði.

Guðmundur Ásgeirsson, 21.1.2013 kl. 12:50

6 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Takk fyrir upplýsingarnar, af þessu má ráða að þeir sem sitja við tölvurnar í Reykjavík og teikna upp vegakerfið í þeim eru vægt til orða komist fífl! Hvar er ábyggð þessa fræðinga þegar staðreyndir koma í ljós af hroðaverkum þeirra um allt land?

Sigurður Haraldsson, 21.1.2013 kl. 22:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband