Færsluflokkur: Vestmannaeyjar

Magnús Blöndal og Surtseyjargosið

MagnúsÞar sem ég fjallaði nýlega um eldgosatónlist Jóns Leifs í bloggi mínu http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1142495/, þá ber mér skylda til að minnast á frábæt verk Magnúsar Blöndal Jóhannssonar í tilefni Surtseyjargossins. Þegar Osvaldur Knudsen setti saman fyrstu heimildarkvikmynd sína um Surtseyargosið (1963-1967), þá fékk hann Magnús til að semja tónlist fyrir myndverkið. Myndin nefnist Surtur fer sunnan (1965, 23 mín.), en enska útgáfan ber heitið Birth of an island.   Magnús beitti hljóðum úr gosinu sjálfu og blandaði þeim saman við raftónlist sína.  Ef til vill er þetta í fyrsta sinn þar sem hljóð úr náttúrunni eru sett inn í tónverk. Magnús Blöndal (1925-2005) er sennilega fyrsti Íslendingurinn sem samdi raftónlist og er því frumkvöður á sviði raf- og tölvutónlistar á Íslandi. Sagt hefur verið að tónverk Magnúsar hafi valdið  straumhvörfum í umfjöllun um raftónlist hér á landi.  Hann sagði þetta um verkið:  "Ég samdi tónlistina með náttúruhamfarirnar í huga og skyndilega gat fólk tengt hana við eitthvað, bæði hljóðrænt og myndrænt."  Brot úr tónverkinu og kvikmyndinni má sjá og heyra hér: http://www.youtube.com/watch?v=42H2znxGyhgOsvaldur

Mynd Osvaldar Knudsen er stórkostleg á margan hátt og merkileg heimild um mikilvægt gos.  Hér koma fram nokkrir karakterar sem voru nátengdir rannsóknum á gosinu. Sigurður Þórarinsson samdi textann og má sjá honum bregða fyrir öðru hvoru í myndinni, með sitt vörumerki á höfði: rauðu skotthúfuna.  Einnig kemur Þorleifur Einarsson fram, til dæmis að fá sér sígarettu úti á eynni, eða að borða kex um borð í varðskipinu á meðan gosið geysar í bakgrunni.  Sennilega hefur Guðmundur Kjartansson jarðfræðingur verið sá sem gladdist mest yfir þessu gosi, þar sem Surtsey færði sönnun á móbergskenningu hans.  SyrtlingurÁ myndinn hér til hliðar er Ósvaldur lengst til hægri, en lengst til vinstri er Guðmundur Kjartansson og Þorleifur Einarsson í bakgrunni fyrir miðju.  Ég var erlendis við jarðfræðinám þegar gosið hófst, en komst á vígvöllinn í desember 1963 á varðskipi umhverfis Surtsey í nokkrar ógleymanlegar ferðir. Það var fyrsta eldgosið sem ég kannaði. Árið 1965 tók ég þessa mynd af gosinu í Syrtlingi, en hann var ein af  eldeyjunum sem mynduðust umhverfis Surtsey. Syrtlingur hætti að gjósa eftir nokkra mánuði og hvarf skömmu síðar fyrir áhrif hafrótsins. 


Landeyjahöfn – Þar sem Jörðin og Kjölurinn kyssast

Herjólfur siglir innStundum er styttsta leiðin ekki besta leiðin, og það kann að sannast nú í samgöngumálum þeirra Vestmannaeyinga.  Allt frá fyrsta degi  hefur hin nýja Landeyjahöfn á Bakkafjöru reynst Vestmannaeyjaferjunni Herjólfi erfið.  Skipið tekur niðri við hafnarbakkann í Landeyjahöfn á fjörunni og  nú er frekari ferðum frestað en á meðan er höfnin að fyllast af sandi og ösku. Sumir telja hafnarframkvæmdirnar hina mestu vitleysu, og telja þetta “óþarfa framkvæmdir sem hefur verið þrýst fram á pólitíska sviðinu”  en aðrir  líta allt öðruvísi á málið:  “Höfnin er þrekvirki sem var byggð á stað þar sem ekki átti að vera hægt að byggja.”  “Landeyjahöfn er til marks um kjark okkar og snilli.” 

Það hefur verið lengi vitað að það er gýfurlegur sandburður meðfram suður strönd Íslands, og einnig er mikill framburður úr Markarfljóti.  Orkustofnun áætlar til dæmis framburðinn úr Markarfljóti vera um 150.000 m3 á ári.  Siglingastofnun telur að 300 til 400 þúsund m3 berist meðfram ströndinni á þessu svæði ár hvert, en í sterkum suðvestan eða suðaustan áttum getur sandburður með ströndu verið yfir 100 þúsund m3 á mánuði.  Framburðurinn og sandburður meðfram ströndinni orsaka það að hafsbotninn rétt undan ströndinni er á sífelldri hreyfingu.  Þannig hefur til dæmis myndast margra km langt sandrif um 1000 metra undan fjörunni fyrir framan Bakkafjöru, og er dýpi niður á sandrifið um 2 til 4 metrar að jafnaði.  Við slíkar aðstæður virkar ferjuhöfnin eins og risastór trekt þar sem sandburðurinn safnast fyrir.  Þannig  breyta báðir hafnargarðarnir öllu eðlilegu flæði á sandburðinum þar sem garðarnir skaga fram í sjóinn.  Við bætist nú að framburður Markarfljóts í jökulhlaupinu í apríl 2010 var að minnsta kosti 200 þúsund m3 á einum degi!  Það má reikna með eldgosum í framtíðinni og aurburðurinn heldur áfram.  Reksturinn á þessari höfn verður því að öllum líkindum endalaus og mjög dýr barátta við náttúruöflin.  Var einhver að tala um að berjast við vindmyllur?

Hafið þið tekið eftir því, að Bakkafjara skagar dálítið suður út í Atlantshafið, og myndar þannig syðsta tangann hér um slóðir.  Það er ekki tilviljun heldur eru tvær góðar og gildar ástæður fyrir því að svo er:  (a) framburður af aur úr Markarfljóti, og (b) var eða hlé sem Vestmannaeyjar mynda fyrir sunnan áttunum og orsaka þannig söfnun af aur og sandi við Bakkafjöru, eins og myndin til hliðar sýnir.  ölduhæð i suðvestan átt Í framtíðinni, á jarðsögulegum tíma, mun Bakkafjara teygjast enn lengra suður og að lokum umlykja Vestmannaeyjar, á sama hátt og Mýrdalssandur hefur umkringt Hjörleifshöfða og fært hann upp á þurrt land.  Þá þurfa Vestmannaeyingar ekki jarðgöng til að aka til Reykjavíkur. 

Tökum þá Mýrdalssand og Hjörleifshöfða sem nærtækt dæmi um stórkostlegar landslagsbreytingar af völdum eldgos og árframburði.  Við landnám Íslands skagaði Hjörleifshöfði út í Atlanshafið sem langur tangi. Inn af honum að vestan var Kerlingarfjörður, eins og fjallað er um í Landnámabók.   Síðan hafa jökulhlaup frá Kötlu flutt fram ógrynni af viki, ösku og sandi til sjávar og flutt fram ströndina á Mýrdalssandi um 3 til 4 km. Þannig hefur verið talið að Kötlugosið 1918 hafi til dæmis bætt við allt frá 1 til 8 km3, og víst er að ströndin er um 2.5 km sunnar en hún var fyrir gosið 1660.  Að vísu er ekkert sem bendir til að Eyjafjallajökull verði jafn iðinn og eldstöðin Katla, en samt sem áður verður að gera ráð fyrir slíkum hamförum í framtíðinni.  Það hefur auðvitað verið ljóst allt frá landnámsöld að hafnarskilyrið eru slæm á suðurströndinni víðast hvar. 

 


Gossaga á Fimmvörðuhálsi

helgi_torfason_og_hoskuldur_b_jonsson.jpgAllir þeir sem gengið hafa Fimmvörðuháls hafa tekið eftir því að slóðin er eins og risavaxin bárujárnsplata, með gárurnar þvert á leið.  Maður gengur upp einn hrygginn, niður í dæld, upp næsta hrygg og svo framvegis.  Landslag einkennist af miklum fjölda goshryggja sem liggja frá austri til vesturs og hafa flestir þeirra gosið undir jökli, eða fyrir meir en um tíu þúsund árum.  Þetta er mjög óvenjuleg stefna jarðmyndana á Íslandi, þar sem flestar gígaraðir og móbergshryggir liggja frá norðaustri til suðvesturs, eða frá norðri til suðurs (ein undantekning er á Snæfellsnesi, þar sem vest-norðvestur stefna er algeng).  Auk hryggjanna eru nokkur yngri basalt hraun, lík því hrauni sem er að renna í dag.  Kíkjum því aðeins á jarðfræði og jarðsögu í Fimmvörðuhálsi og athugum hvort við getum lært af þvi eitthvað um gosið sem nú stendur yfir.   Það er gamall málsháttur eða regla  í jarðfræðinni að nútiminn sé lykillinn af fortíðinni. Þannig getum við túlkað og skilið best það sem gerðist á fyrri skeiðum jarðsögunnar með því að notfæra okkur upplýsingar eða fróðleik á því sem er að gerast í dag.  Þetta á vel við um Fimmvörðuháls, en einnig má nýta hið andstæða:  við getum lært heilmikið um gang gossins í dag með því að skoða fornu eldstöðvarnar á hálsinum.  Oftast er það einmitt þannig í jarðfræðinni að sagan endurtekur sig. 

Árið  2005 birtu Helgi Torfason og Höskuldur Búi Jónsson grein um jarðfræði við norðvestanverðan Mýrdalsjökul.   Þar er jarðfræðikort af Fimmvörðuhálsi, og hefur Náttúrufræðistofnun Íslands nú birt kortið á ný á vefsíðu sinni hér, þar sem nýju eldstöðvarnar eru kærkomin viðbót á kortið.  Reyndar eru upplýsingarnar um úbreiðslu nýja hraunsins nokkra daga gamlar, og sýna því ekki litlu gossprunguna  sem opnaðist 31. marz.

Eitt höfuðeinkenni jarðmyndana á hálsinum eru fjórir eða fimm móbergshryggir sem stefna austur-vestur, eins og kortið sýnir.  Þeir hafa myndast við sprungugos undir jökli.  Milli þeirra eru tíu eða tólf basalt hraun, lítil að flatarmáli, sem hafa komið uppúr stökum gígum eða mjög stuttum gígaröðum.   Drefing gíganna er óregluleg en það virðist einmitt vera einkenni nýju eldstöðvarinnar, þar sem tvær gossprungur með misvísandi stefnu hafa opnast.   Þetta er því ekki eiginlegt sprungugos, eins og þau sem við eigum að venjast í aðalgosbeltum landsins. Slík sprungugos koma upp úr sprungum sem geta verið tugir kílómetra á lengd, eins og t.d. Lakagígar, sem eru amk. 25 km á lengd.  

Hver verður framtíð gossins á Fimmvörðuhálsi?  Ég vil benda á tvo möguleika sem eru jafn líklegir að mínu áliti, og ekki hægt að velja þar á milli á þessu stigi.  Annar er þessi: Endar það fljótt og myndar þá fremur lítið hraun eins og eldri hraungos á hálsinum?  Eða heldur gosið áfram og hleður þá upp myndarlegri nýrri dyngju?  Hraundyngjur eru mjög mikilvæg fyrirbæri í íslenskri jarðfræði, og nægir að benda til dæmis á Skjaldbreið.  Einkenni þeirra er að gosið kemur aðallega upp um eina gosrás, og hraun rennur til allra átta til að mynda dyngjuna sem er auðvitað í laginu eins og skjöldur á hvolfi.  Hafsbotn við Surtsey Á sínum tíma, árin 1963 til 1968, var því haldið fram að Surtsey væri dyngjugos.  Reyndar byrjaði gosið á stuttri sprungu og fjórir gígar eða litlar eyjar spruttu upp: Surstsey, Syrtlingur, Jólnir og Surtla.  Eins og sjá má á kortinu af hafsbotninum umhverfis Surtsey voru virku gígarnir nokkrir, en aðeins Surtsey sjálf varð varanleg.  Ef Surtsey hefði gosið á landi, þá hefði gosið sennilega hlaðið upp dæmigerðri dyngju.  Kvikan sem nú gýs á Fimmvörðuhálsi er einmitt mjög lík þeirri sem kom upp í Surtsey. Framhaldið heldur áfram að vera mjög spennandi!

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband