Bloggfærslur mánaðarins, júní 2017

Viltu græða peninga?: vísindaritaútgáfan

Ert þú að leita að arðbærum “business” til að fjárfesta í? Ég er hér með svarið fyrir þig: útgáfufyrirtæki vísindarita. Úgáfa vísindarita eru viðskifti á heimsmælikvarða, með heildarveltu sem er meir en $20 milljarðar á ári hverju. Veltan hjá vísindaútgefendum á heimsmælikvarða er því einhvers staðar á milli plötuútgefanda og kvikmyndaiðnaðarins.  

Ég hef gefið út bækur (Encyclopedia of Volcanoes) hjá einum þeim stærsta á þessum markaði, en það er Elsevier. Árið 2010 voru tekjur hjá Elsevier $922 milljón, með veltu sem var rúmlega 2,5 milljarðar. Það eru 36% tekjur, sem er hærri prósentutala en hjá Apple, Google eða Amazon það árið. Árið 2011 voru tekjur Elsevier (sem er staðsett í Hollandi) aftur $978 milljón af $2,5 milljarða veltu.

En hvernig græða þeir svo mikið? Í venjulegri útgáfu þarf útgefandinn fyrst að greiða höfundum fyrir greinar, borga ritstjórum, greiða fyrir prentun og dreifingu til áskrifenda og seljanda. Hjá venjulegum tímaritum (utan vísindamarkaðarins) er allt þetta nokkuð dýrt, og tekjur hjá betri tímaritum eru oftast frekar takmarkaðar, á milli 12-15%.

Aðferðin til að græða á vísindatímaritum er mjög svipuð og öðrum tímaritum, nema að útgefandi vísindaritanna losar sig að mestu við kostnaðinn. Það er vísindamaðurinn, sem framkvæmir rannsóknirnar, semur greinar og býr þær algjörlega til birtingar, útgefandanum að kostnaðarlausu. í sumum vísindaritum þarf höfundurinn jafnvel að greiða gjald fyrir birtingu, sem er viss upphæð á hverja síðu. Í nær öllum tilfellum er það reyndar ekki vísindamaðurinn, sem borgar brúsann, heldur háskólinn eða stofnunin sem hann vinnur við og þá í flestum tilfellum er það hið opinbera sem borgar brúsann í lokin. Vísindamaðurinn sér um að hanritið sé ritrýnt af kollegum sínum og afhendir það síðan útgefanda, sem þarf ekkert að gera nema prenta og dreifa. En þá snýr útgefandinn sér til sömu stofnana, háskóla og bókasafna, sem kaupa áskrift af vísindaritinu fyrir okurfé. Þessi sjálfstæðu útgáfufélög eru því sannarlega að prenta peninga, þegar þau gefa vísindarit út. Hið opinbera kostar allar rannsóknirnar, borgar laun vísindamannanna sem skrifa í ritin, og kaupir síðan aftur gögnin í gegnum útgefendur eins og Elsevier, sem græða á tá og fingri.

Regluleg útgáfa vísindarita hófst árið 1665, þegar The Royal Society í London gefur fyrst út ritið Philosophical Transactions, en það var aldrei litið á slíka útgáfu sem gróðaveg, þar til ósvífin fyritæki Elsevier komust á sporið á tuttugustu öldinni. Þegar ég ritstýrði Encyclopedia of Volcanoes fyrir Elsevier, þá þurfti ég að sannfæra um áttatíu sérfræðinga um að skrifa kafla í þetta alfræðirit um eldfjallafræði, fyrst árið 2000 og síðan í aðra útgáfu árið 2015.   Það kom mér í fyrstu algjörlega á óvart að nokkrir vísindamanna, sem voru fúsir til að vinna með mér, en vildu alls ekki birta hjá Elsevier. Þá var að myndast hreyfing innan vísindanna, til að stemma stigu við mjög dýrum áskriftum rita, og græðgi útgáfufélaganna.

Nú hafa 16744 vísindamenn heitið að taka þátt í því að sniðganga Elsevier eða framkvæma “boycott” á útgáfu hjá slíkum gróðafélögum. Hreyfingin nefnist Cost of Knowledge og hvet ég alla kollega til að taka þátt.  Framtíðin er ókeypis vísindarit, sem eru birt “on-line” á internetinu. Það er talsverð hreyfing í þá átt, sem sparar bókasöfnum mikið fé. Vonandi deyja vargar eins og Elsevier út með tímanum.


Þegar sífrerinn hopar

 IMG_1620

Allir sem hafa til Grænlands komið dást að fjallendinu þar. Snarbrött fjöll rísa meðfram allri strandlengjunni, einkum þegar norðar dregur. Reyndar eru það ekki fjöllin, sem eru merkileg, heldur hinir djúpu dalir og þröngu firðir, með nær þverhníptum hlíðum. Þeir eru afleiðing skriðjökla, sem hafa grafið út dalina allt frá því að ísöld hófst fyrir rúmum þremur milljónum ára. Myndin hér til vinstri er til dæmis úr Öfjord í Scoresbysundi á norðaustur Grænlandi, þar sem fjöllin eru upp undir 2 km á hæð og þverhnípt.

Sífreri ríkir á Grænlandi, fyrir norðan um 68 gráðu breiddar. Sífreri er skýrður þannig: ef berg eða jarðmyndanir hafa hitastig undir frostmarki í meir en tvö ár, þá er þar sífreri. Hann getur innihaldið allt að 30% ís eða mjög lítinn ís, sem fer eftir lekt og holumunstri bergsins og jarðlaganna. Urð og skriður hafa einhvern tíma verið vatnssósa og í sífreranum frýs allt slíkt vatn og hjálpar til að binda jarðlögin. Skriður og urðir í sífrera geta því verið mjög brattar og jafnvel lóðréttar myndanir, á meðan hitastig er undir frostmarki. Sífrerinn gerir laus jarðefni að föstu bergi – á meðan frostið ríkir. Svo fer allt af stað þegar bráðin kemur.

fig2Það hlýnar á Grænlandi. Merki þess er til dæmis hvað jöklar minnka hratt. Myndin sýnir að Grænlandsjökull tapar mörg hundruð rúmkílómetrum á hverju ári og bráðnunin gerist hraðari með hverju árinu. Línuritið er í gígatonnum, en eitt gígatonn er einn milljarður tonna af ís. Þetta er að mestu leyti vegna hækkandi hitastigs, eins og önnur myndin sýnir. Það má því búast við aukinni tíðni berghlaupa á Grænlandi, þegar sífrerinn hopar fyrir hlýnandi loftslagi.

Það er magt annað sem hopandi sífreri hefur í för með sér. Umhverfis Ilulissat á vestur Grænlandi eru til dæmis merkar fornminjar frá þremur mikilvægustu fornmenningum Grænlandinga, sem eru kenndar við Saqqaq, Dorset og Thule. Nú eru þessar leifar enn varðveittar efigure-1ins og í ísskáp, en þegar sífrerinn fer úr jörð á þessu svæði verða þessar menningaleifar bakteríum að bráð og hverfa að mestu.

 

 


Orsök berghlaupsins a Grænlandi

seis_scale1Nú er að skýrast málið varðandi berghlaup og flóðöldu á vestur strönd Grænlands.  Jarðskjálftamælar sýna að jarðskjálftinn stóð yfir í um tvær mínútur og myndaði flóðbylgjuna. Orsök skjálftans er berghlaupið, sem kom úr mjög brattri fjallshlíð. Vandaðir þriggja-ása jarðskjálftamælar í um 30 til 500 km fjarlægð frá Nuugaatsiaq skráðu atburðinn. Efsta stöðin a linuritinu til vinstri er sennilega Upernavik og sú næstefsta Nuuk (klikkið a myndina til að stækka). Tímaásinn er láréttur, frá vinstri til hægri. Rauða lóðrétta línan sýnir hvenær atburðurinn hefst. Línuritið, sem er rautt (magenta) er lárétti skjálftaásinn, sem skráir hreyfingu frá austri til vesturs. Græna línuritið er lóðrétti ásinn og gula línuritið er norður-suður ásinn. Rétt eftir kl. 23:39 UTC (vestur Grænlandstími er -2 klst. frá UTC) sést stuttur 5 sek. púls eða truflun á rauða línuritinu (magenta). Þetta er yfirborðsbylgja (Love wave), sem er oft fyrsta bylgjan í jarðskjálfta. Kettir og hundar skynja hana en fólk oft ekki. Þar á eftir koma venjulegar jarðskjálftabylgjur.

Líklega markar fyrsta bylgjan um 23:39 UTC brotið á jarðlögum fjallsins og byrjun á berghlaupinu. Í kjölfarið kemur strax um 50 sek. skruðningur, þegar skriðan fer af stað og síðan um 50 sek. frekari og meiri skruðningur tengdur skriðufallinu (milli bláu lóðréttu línanna). Það er því ljóst að berhlaupið orsakaði sjálftvirknina. Þetta höfum við fra Anthony Lomax.

Við vitum því ekki beinlinis hvað hleypti berghlaupinu af stað. Ef til vill var það tengt loftslagsbreytingum, en þegar sífrerinn þiðnar í fjöllum Grænlands minnkar bindiefni í berglögum og skriður kunna að myndast.

 

 

 


Íslensk berghlaup

BerghlaupBerghlaupið og flóðbylgjan í Grænlandi hefur vakið nokkra umræðu um, hvort slíkir atburðir séu líklegir á Íslandi. Berghlaupið í Öskju árið 2014 minnir okkur á að slíkt getur gerst hér, einkum í virkum eldstöðvum. Sumsstaðar eru líkur á að berghlaup séu yfirvofandi í eldri jarðmyndunum, til dæmis í Drápuhlíðarfjalli á Snæfellsnesi, eins of ég hef bloggað um áður hér. Eldri berghlaup eru vel þekkt víða um land, eins og Ólafur Jónsson skráði í merku riti sínu árið 1976. Hverjar eru líkur á stóru berghlaupi á Íslandi í dag? Árni Hjartarson (1997) hefur safnað saman aldursgreiningum á íslenskum berghlaupum og eru þau gögn sýnd á myndinni hér fyrir ofan. Það er greinilegt að berghlaup voru algengust á Íslandi skömmu eftir að ísöld lauk, fyrir um 10 þúsund árum, og aðeins tvö stór berghlaup eru yngri en fjögur þúsund ára. Það er berghlaupið, sem nefnist Loðmundarskriður og auðvitað berghlaupið í Öskju árið 2014. Þegar ísöld lauk og skriðjöklar hopuðu fyrir um tíu þúsund árum voru brattar fjallshlíðar og hamrar mjög óstöðugar landslagsmyndanir. Þá og á næstu árþúsundum hrundu slíkar brattar hlíðar víða og mynduðu berghlaup. Líkurnar á slíkum fyrirbærum hafa því minnkað síðan, en smærri berghlaup munu þó gerast í framtíðinni, einkum í grennd við virkar eldstöðvar.

 

 


Hamfarir a Grænlandi

EarthÞað er ótrúlega erfitt að fá tryggar heimildir fyrir því hvað gerðist á vestur Grænlandi, laugardagskvöld, hinn 17. júní, 2017. Við vitum að flóðbylgja skall á þorpið Nuugaatsiaq, og fjórir fórust af völdum hennar. Þorpið er á eyju í Uummannaq firði.

Í fjalli sem er um 21 km fyrir norðvestan þorpið varð jarðskjálfti að styrk 4.5 hinn 16. júní, kl. 10:48 á um 10 km dýpi. Kortið sem fylgir sýnir staðsetningu skjálftans og þorpsins fyrir sunnan. Þessi skjálfti verður því meir en einum sólarhring áður en flóðbylgjan rís í Nuugaatsiaq. Þá verður annar skjálfti hinn 17. júní kl. 20:39, sem er minni, eða 3.9 að styrk, en á 0 km dýpi. Hann kemur fram á IRIS kerfinu. Staðsetning seinni skjálftans er í fjallendi um 50 km austar, en stðseting kann að vera óviss.  

Arktisk Kommando hefur birt góðar myndir af fjallshlíðinni fyrir norðan Uummannaq fjörð, teknar hinn 20. júní, sem sýna að hlíðin er öll á hreyfingu og að berghlaup hafa farið af stað. Það er líklegt að fyrri skjálftinn hafi komið af stað hreyfingu í fjallshlíðinni, sem leiddi af sér berghlaup og síðan flóðbylgjuna.  Jarðlög i fjallinu virðast vera blagrytislög, sem eru algeng fra Tertier tima a miðri vestur strönd Grænlands.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband