Færsluflokkur: Jarðeðlisfræði
Mögnun jarskjálftans í Mexíkó
22.9.2017 | 11:11
Jarðskjálftinn sem skók Mexíkóborg var slæmur, og yfir 270 hafa látist. Skjálftinn var meðalstór, um 7,1, en í um 85 km fjarlægð. Ástæðan fyri miklu tjóni á mönnum og byggingum var samt ekki einfaldlega vegna stærðar skjálftans, heldur vegna ástæðna jarðlaga undir borginni. Þegar Spánverjar komu árið 1521 hét borgin Tenochtitlan, höfuðborg Axtecaþjóðarinnar. En Tenochtitlan var staðsett á eyjum og umhverfis stórt stöðuvatn; Texcoco. Eftir komu Spánverja var hafist handa við að ræsa fram og fylla upp í vatnið. Nú stendur því borgin að miklu leyti á allt að 100 m þykku leirkenndu vatnsseti og lausum vatnssósa sandi. Þegar jarðskjálftabylgjur berast í setið undir borginni, þá hægja þær á sér frá um 2 km á sekúndu, niður í um 50 m á sek. Um leið magnast og hækka bylgjurnar (amplitude) og valda meiri skaða. Myndin sýnir útlínur gamla stöðuvatnsins og svæðið þar sem mögnunin á skjálftum gerist. Mögnunin nemur um hundrað sinnum. Staðsetning borgarinnar getur því varla verið verri, og mun alltaf vald vandamálum.
Rætur Íslands fundnar
29.7.2017 | 16:33
Jarðeðlisfræðingar gegnumlýsa jörðina á svipaðan hátt og læknar gera með líkamann, til að rannsaka innri gerð hennar. En jarðelisfræðingarnir beita ekki Röntgengeislum, heldur jarðskjálftabylgjum við sínar rannsóknir. Með þessari aðferð geta þeir greint svæði innan jarðar, sem hafa annað hvort óvenjulega háan hraða fyrir jarðskjálftabylgjur, eða óvenjulega hægan hraða.
Nú hefur komið í ljós við slíkar rannsóknir að það er lag djúpt í jörðu, þar sem jarðskjálftabylgjur eru mjög hægfara. Lagið nefnist ultralow-velocity zone (ULVZ) eða hægfaralagið. Reyndar er það ekki samfellt lag, heldur stakir blettir á mörkum möttuls og kjarna jarðar, á um 2800 km dýpi. Það hefur fundist undir Hawaii eyjum, undir Samoa eyju í Kyrrahafi suður, og nú undir Íslandi.
Kaiqing Yuan og Barbara Romanowicz í Kalíforníu hafa nú fundið hægfaralagið undir Íslandi, á um 2800 km dýpi, en merk grein þeirra var birt í Science í þessari viku. Lagið er um 15 km á þykkt og nær 880 km í þvermál, beint undir landinu. Í laginu eru jarðskjálftabylgjur um 30% hægari en í venjulegu möttulefni. Að öllum líkindum er þetta hægfaralag því rótin á möttulstróknum, sem flytur efni af miklu dýpi úr möttlinum og upp á yfirborðið undir Íslandi og skapar heita reitinn sem er Ísland. Myndin sem fylgir sýnir hugmynd þeirra um hægfaralagið og tengsl þess við möttulstrókinn og Ísland á yfirborði.
Það er talið að ytra borð kjarnans sé mjög heitt efni, sennilega um 4000 stig. Botninn á möttlinum, sem hvílir á kjarnanum, er talinn byrja að bráðna til að mynda kviku á um 3500 stigum, og eru því nokkrar líkur á að hægfaralagið sé að mestu kvika eða alla vega mjög kvikuríkt lag. Það má segja að við séum sífellt að komast nær og nær rótum myndunar Íslands með frábærum rannsóknum eins og þessum.
Íslenska möttulblómið
2.5.2017 | 12:55
Ísland er heitur reitur í jarðsögunni, eins og Hawaíí og Galapagos og nokkrir aðrir merkir staðir með mikla eldvirkni. Undir heita reitnum á Íslandi liggur sennilega möttulstrókur af óvenju heitu möttulbergi, sem kann að ná niður alla leið að mörkum kjarnans og möttuls (2900 km). Möttulstrókurinn hefur oftast verið teiknaður upp sem súla, en sennilega er hann miklu flóknari í laginu, einkum efsti hlutinn. Nú hafa Schoonman og White og birt nýtt líkan af íslenska möttulstróknum, sem er mun flóknara en fyrri líkön, en það er byggt á aðferð sem notar jarðskjálftabylgjur til að gegnumlýsa jörðina. Mötulstrókurinn virðist vera um 100 km í þvermál neðarlega í möttlinum, en breiðist út eins og krónublöð blómsins og skiftist í fimm fingur þegar hann nálgast efri mörk möttulsins. Minnumst þess að bergið í möttulstróknum er mjög heitt, en heilt og óbráðið vegna mikils þrýstings í möttlinum, en bráðnunin gerist tiltölulega nærri yfirborði jarðar.
Saga Íslenska Heita Reitsins
7.9.2016 | 21:12
Fyrstu ár mín í jarðfræðinni, í kringum 1963, varð ég hugfanginn af því hvað Mið-Atlantshafshryggurinn væri mikilvægur fyrir skilning okkar á jarðfræði Íslands. Á þessum árum reyndu flestir framsæknir ungir jarðfræðingar að finna Íslandi stað í hinum nýju vísindum sem snertu úthafshryggi og landrek. Margir hinna eldri voru þó skeptískir og vildu ekkert af landrekskenningunni heyra lengi vel. En árið 1971 kom Jason Morgan fram með kenninguna um heita reiti og möttulstróka og gerði okkur ljóst að einn slíkur væri staðsettur undir Íslandi. Allt í einu fór athygli okkar að beinast að þessu nýuppgötvaða fyrirbæri og með árunum hefur mikilvægi heita reitsins orðið mun skýrara en vægi úthafshryggsins minnkað að sama skapi. Nú er okkur ljóst að sérstaða Íslands stafar af heita reitnum, sem situr djúpt í möttlinum og framleiðir mikið magn af kviku og heldur landinu vel ofan sjávarborðs.
En heiti reiturinn undir Íslandi á sér langa sögu, sem er um 16 sinnum lengri en öll jarðsaga Íslands. Ég hef aðeins stuttlega fjallað um þessa sögu hér á blogginu í pistlinum http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1559307/ og bent á tengsl við Síberíu. Nú lagar mig til að skýra frekar frá þróun hugmynda og staðreynda um sögu heita reitsins okkar. Saga vísindanna er mikilvæg og okkur ber skylda til að viðurkenna og minnast þeirra, sem gert hafa fyrstu uppgötvanirnar á hverju sviði. Það er einmitt hlutverk þeirra fræða, sem við nefnum sögu vísindanna. Enn er of snemmt að skrifa þessa sögu varðandi Íslenska heita reitinn, en hér er byrjunin.
Árið 1994 birtu Lawrence A. Lawver og Dietmar Müller, jarðeðlisfræðingar í Texas, grein sem nefnist Iceland hotspot track, eða slóð íslenska heita reitsins. Þeir könnuðu jarðskorpuhreyfingar eða flutning flekanna á norðurhveli jarðar. En ólíkt flekunum, þá hreyfast heitir reitir lítið eða ekkert með árunum, þar sem þeir eru akkeraðir eða fastir djúpt í möttlinum og því óháðir reki flekanna á yfirborði jarðar. Lawver og Müller sýndu fram á að heiti reiturinn, sem er nú undir Íslandi, var undir Kangerlussuaq á Austur Grænlandi fyrir um 40 milljón árum, undir Umanak firði á Vestur Grænlandi fyrir um 60 milljón árum, undir Ellesmere eyju fyrir 100 til 130 milljón árum, og að fyrir þann tíma hafi heiti reiturinn sennilega myndað Mendeleyev hrygginn og einnig Alpha hryggin í Íshafinu. Lengra ráku þeir ekki sögu heita reitsins í þetta sinn, sem nú er undir Íslandi. Rauðu dílarnir á myndinni sýna ferilinn, sem heiti reiturinn hefur farið eftir á þessum tíma. Tölurnar eru milljónir ára.
Þá kemur að annari grein, sem birtist árið 2002, einnig eftir Lawver og félaga. Þar kanna þeir flekahreyfingar yfir heita reitinn enn fyrr í jarðsögunni og rekja slóðina alla leið til Síberíu fyrir um 250 milljón árum (grænu stjörnurnar á myndinni). Það ég best veit, þá er þetta í fyrsta sinn sem tengslin milli Íslands og Síberíu eru viðruð meðal vísindamanna. Við vitum þá nú um uppruna heita reitsins, sem Ísland situr á í dag. Í síðara bloggi mun ég fjalla um þær miklu hamfarir þegar þessi heiti reitur kom fyrst upp á yfirborðið.
Veðurstofan bregst okkur
4.9.2016 | 12:26
Veðurstofan heldur úti merkilegri vefsíðu, sem veitir upplýsingar á rauntíma um ýmsa þætti í jarðeðlisfræði Íslands. Það er ef til vill einstakt á jörðu og mjög lofsvert, að almenningur skuli hafa beinan aðgang að jarðskjálftagögnum svo að segja um leið og þau birtast hjá Veðurstofunni. Við sem ekki störfum á Veðurstofunni höfum þannig getað fylgst vel með þróun skjálftavirkni undir eldfjöllum og í brotabeltum landsins á rauntíma. Hinn vel upplýsti og áhugasami Íslendingur getur þannig skoðað og túlkað gögnin um leið og þau berast til járðskjálftafræðinganna. Svona á það að vera, og jarðeðlisfræðigögn eiga að vera jafn aðgengileg og gögn um veður á landinu, einkum ef tekið er tillit til þess að þessum gögnum er safnað fyrir almannafé á ríkisstofnun.
Auk jarðskjálftagagnanna hefur Veðurstofan einnig safnað tölum um GPS mælingar á landinu. Þær eru ómissnadi fyrir þá, sem vilja að fylgjast með láréttum eða lóðréttum hreyfingum jarðskorpunnar undir okkur og undir eldfjöllunum. Að sumu leyti eru GPS mælingarnar enn mikilvægari en skjálftagögnin, því skorpuhreyfingar eru afgerandi og geta verið mikilvægar til að segja fyrir um kvikuhreyfingar og jafnvel eldgos. Þetta var sérstaklega áberandi í umbrotunum í Bárðarbungu og Holuhrauni nýlega.
En svo gerist það, að í miðjum klíðum, einmitt þegar mest gekk á í Bárðarbungu og Holuhrauni, þá slekkur Veðurstofan á GPS vefnum. Í staðinn koma þessi skilaboð: Nýr vefur er varðar GPS mælingar er í smíðum. Síðustu gögni sem eru birt eru nú orðin meir tveggja ára gömul: Last datapoint 18. Jun 2014.
Hvers vegna ríkir þessi þögn? Yfirleitt þegar nýr vefur er í smíðum, þá er notast við gamla vefinn þar til daginn sem sá nýi er tilbúinn og þá er engin hætta á að aðgengi af gögnum sé rofið. Svo er ekki há Veðurstofunni. Getur það verið að Veðurstofan sé að dunda við að smíða nýan vef í meir en tvö ár? Getur það verið að Veðurstofan vilji loka aðgengi að þessum GPS gögnum af einhverjum annarlegum ástæðum? Vilja þeir koma í veg fyrir að aðrir vísindamenn hafi gagn af? Það væri sennilega lögbrot fyrir opinbera stofnun sem þessa, enda erfitt að ímynda sér að slíkt hugarfar ríki þar í bæ . en hver veit?
Hvað veldur jarðskjálftanum á Ítalíu?
24.8.2016 | 12:40
Jarðskorpa Ítalíu er eins og krumpað dagblað, sem er illa troðið inn um póstlúguna heima hjá þér. Hér hefur mikið gengið á, og jarðhræringar munu halda áfram, en höfuð orsökin er fyrst og fremst tengd hreyfingu Afríkuflekans miðað við Evrópu. Nú mjakast Afríkuflekinn stöðugt norður um 4 til 5 mm á ári og heldur áfram að þrengja og loka Miðjarðarhafinu. Ein afleiðing þessa skorpuhreyfinga eru jarðskjálftar, eins og jarsðkjálfti af stærðinni 6,2 í vikunni í grennd við bæinn Norcia og Amatrice. Þetta er reyndar ekki mjög stór skjálfti, miðað við það sem við venjumst í Kyrrahafi, en flest hús á Ítalíu eru illa byggð múrsteinshús, án jarnbindinga og hrynja því við minnsta tilfelli.
Flókin flekamót liggja eftir skaga Ítalíu endilöngum og mynda Appenine fjöll. Þessi flekamót eru eins og risastór saumur á jarðskorpunni, en hér stangast flekarnir á og skerast í mörgum misgengjum. Myndin sýnir þversnið af Ítalíu, frá norðaustri til suðvesturs. Það er gamall og þykkur fleki, um 100 km þykkur, sem sígur til suðvesturs undir Ítalíu og myndar fjallgarðinn. En fyrir vestan er þynnri skorpa, aðeins um 20 til 30 km þykk, sem einkennir Tyrrenahafið. Á mótunum verða mörg snið misgengi, eins og það sem er nú virkt, með mikilli skjálftavirkni.
Hver voru upptök Lissabon skjálftans árið 1755?
9.11.2015 | 18:17
Mestu náttúruhamfarir sem um getur í Evrópu eru tengdar jarðskjálftanum í Lissabon í Portúgal, árið 1755, en þrátt fyrir mikilvægi þessa atburðar í mannkynssögunni, þá vitum við harla lítið um upptök hans. Það var Allraheilagamessa í kaþólska heiminum hinn 1. nóvember, og fólk þyrptist í kirkjur landsins að venju. Allt í einu reið yfir stór jarðskjálfti um kl. 940 um morguninn og skömmu síðar annar enn stærri. Nær allar kirkjur landsins og aðrar steinbyggingar hrundu til grunna, fullar af fólki. Um 40 mínútum síðar skall stór flóðbylgja, milli 7 og 15 metrar á hæð, á hafnarhverfið og byggð nærri sjó í Lissabon. Á sama tíma kviknaði í borginni, sennilega mest út frá kertum og öðrum ljósum sem skreyttu allar kirkjur þennan morgun. Borgareldurinn var algjör og borgin brann í þrjá daga. Lissabon var rúst ein á eftir. Um 90 þúsund fórust í Portugal (íbúafjöldi í Lissabon var þá um 230 þúsund) og flóðbylgjan drap einnig um tíu þúsund í Marokkó. Lissabon var þá ein ríkasta borg á jörðu, en hún hafði safnað auð sem miðstöð hins mikla siglingaveldis Portúgal. Gull og gersemar streymdu til borgarinnar í meir en tvö hundruð ár frá löndum Mið- og Suður Ameríku, þar sem Portúgalar rændu og rupluðu og grófu upp gersemar, sem allar voru fluttar til Lissabon. Allt þetta fór forgörðum í eldsvoðanum og flóðinu og þar á meðal konungshöllin, með sitt 75 þúsund binda bókasafn. Tapið á menningarlegu verðmæti í þessum bruna minnir helst á brunan á bókasafni Alexandríu í Egyptalandi til forna.
Jarðskjálftinn mikli er talinn vera amk. 8,7 að styrkleika. Skjálftinn, var talinn eiga upptök um 200 km fyrir vestan Portúgal, kl. 940 að morgni. Skjálftarnir voru þrír, og sá stærsti í miðjunni. Hans var vart um nær alla Evrópu, til Luxemborgar, Þýskalands og jafnvel Svíþjóðar. Mikið tjón varð einnig í Alsír og Marokkó. Það er reyndar merkilegt, að hvorki staðsetning á upptökum né tegund skorpuhreyfingarinnar er enn þekkt fyrir þennan risastóra skjálfta. Lengi vel hafa jarðvísindamenn verið á þeirri skoðun að hann ætti upptök sín í brotabelti, sem liggur á milli Azoreyja og Gíbraltar og stefnir austur-vestur. Það mikið og langt misgengi á mótum Afríkuflekans og Evrasíuflekans í Norður Atlantshafi, sem nefnist Gíbraltar-Azores brotabeltið. Það liggur í austur átt frá Azoreseyjum og nær alla leið til Gíbraltarsunds. En slík brotabelti mynda yfir leitt ekki svo stóra skjálfta sem þennan. Nýlega hefur komið fram sú skoðun (M.A. Gutscher ofl.), að undir Cadizflóa og undir Gíbraltar sé að myndast sigbelti, þar sem jarðskorpa Norður Atlantshafsins sígur undir jarðskorpu Marokkó og Íberíuskagans. Allir stærstu jarðskjálftar sögunnar hafa einmitt myndast við hreyfingar á sigbeltum sem þessu. En þessi hugmynd um sigbelti undir Gíbraltar er enn mjög umdeild og ráðgátan um upptök skjálftans mikla er alls ekki leyst.
Myndin sýnir hugmyndir um staðsetningu á upptökum skjálftans árið 1755 (stórir brúnir hringir). Einnig sýnir myndin upptök seinni skjálfta á þessu svæði, sem hafa verið staðsettir með nokkri nákvæmni og svo staðsetningu sigbeltisins undir Gíbraltar.
Flóðbylgjan breiddist hratt út um allt Norður Atlantshaf og hefur sennilega náð til Íslands eftir um fimm tíma. En engar heimildir eru til um flóðbylgju hér á landi í tengslum við skjálftann mikla árið 1755. Sveinbjörn Rafnsson hefur frætt mig um hvað gerðist á Íslandi á þessum tíma. Hinn 11. september 1755 varð mikill jarðskjálfti á Norðurlandi sem þeir Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson lýsa í skýrslu til danska vísindafélagsins. Hinn 17. október til 7. nóvember 1755 var eldgos í Kötlu. En einmitt meðan á þessu gosi stóð varð eyðing Lissabonborgar 1. nóvember 1755. Uppástunga Sveinbjörns er sú, að Íslendingar hafi hreinlega ekki tekið eftir Lissabonbylgjunni vegna eldgossins í Kötlu og menn hafi kennt Kötlu um allt saman. Það er engin ástæða til að ætla að nokkuð samband sé á milli eldgossins í Kötlu og skjálftans í Lissabon.
Náttúruhamfarirnar höfðu gífurleg áhrif á hugarfar fólks í Evrópu og ollu straumhvörfum í heimspeki og bókmenntum, einkum hjá raunsæjum pennum eins og Voltaire og Rousseau. En það er nú stór kafli að fjalla um, útaf fyrir sig.
Spádómar í Vísindum
10.3.2015 | 00:41
Það er lítið gagn af vísindum, ef við getum ekki beitt þeim til að spá um framvindu mála. Auðvitað er spá algeng í okkar daglega lífi. Þegar ég flýg frá Boston kl. 2135, þá spáir Icelandair því að ég lendi í Keflavík kl. 640 næsta morgun. Þessi spá rætist oftast, enda eru mjög góðar upplýsingar til um flughraða, vinda í lofti og aðra þætti, sem stýra fluginu. Veðurspá þar sem ég bý á austurströnd Norður Ameríku er nokkuð góð, alveg upp á klukkutíma, enda má sjá veðrið koma úr vestri yfir meginlandið og vel fylgst með. Veðurfræðingar hafa góð líkön (góða kenningu) og fá stöðugt upplýsingar frá fjölda stöðva. En um spá á því, sem gerist inni í jörðinni gegnir öðru máli.
Mig grunar að spádómar um sólmyrkva séu ef til vill fyrstu spárnar meðal mannfólksins. Hvernig skyldi fávísum manni hafa liðið til forna, þegar sólmyrkvi skellur á um miðjan dag? Í lítt þróuðum þjóðfélögum til forna hefur sólmyrkvi ætið verið talin mikil ógnun og valdið skelkun meðal almennings. Með því að spá fyrir um sólmyrkva og undirbúa trúarlega stórathöfn fyrirfram, þá gátu konungar Mayanna sýnt vald sitt. Þannig beittu þeir upplýsingum sem fræðimenn eða prestar í þjónustu konungs höfðu safnað í alda raðir til að spá um slíka atburði og gang himintunglanna almennt. Dagatal Mayanna í Mexíkó og Mið-Ameríku var gert á 11 og 12. öld f.Kr. Það er svo nákvæmt að það spáði til dæmis vel fyrir sólmyrkvann sem varð í júlí 1991. Kínverjar voru farnir að spá fyrir um sólmyrkva um 2300 f.Kr. en gangur sólar var talin mikilvæg vísbending um heilsufar keisarans. Spá er eitt af höfuð tólum vísindanna til að sannreyna kenningar. Vísindi er aðferð okkar mannkyns til að rannsaka náttúru og umhverfið. Þegar við rannsökum eða athugum eitthvað fyrirbæri í náttúrunni, eins og til dæmis eldgos, og sjáum að það virðist fylgja einhverri ákveðinni hegðun, þá getum við komið fram með kenningu, sem skýrir atburðinn. Til þess að kenningin geti verið tekin gild í heimi vísindanna, þá þarf kenningin að hafa spádómsgildi. Spá er þriðja stóra skrefið í ferli hinnar vísindalegu aðferðar. Fyrsta skrefið er athugun eða rannsókn. Annað skref er þá kenning sem byggist á athugunum og það þriðja síðan spá um það sem framundan er. Ef kenningin er rétt, þá mun spáin rætast. Spáin er stærsta og mesta prófraun vísindanna, en það er því miður ekki oft sem spá um atburði í jarðvísindunum hefur verið gerð eða hefur tekist. Það stafar af því að við sjáum illa það sem gerist niðri í jörðinni, en sjáum betur það sem gerist á himni eða á yfirborði jarðar. En rétt er að benda á að spá getur einnig verið rétt einungis af tilviljun. Því oftar sem hún reynist rétt, því betur getum við treyst henni. Þá getum við byrjað að treysta líkaninu, sem spáin byggist á.
Er askjan byrjuð að rísa aftur?
9.3.2015 | 22:19
Gosinu í Holuhrauni er lokið, en það fylgdi ótrúlega vel þeim einfalda ferli, sem spá okkar Gabríels Sölva, dóttursonar míns, hafði sagt til um. Sjá hér: http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1467963/ Sig Bárðarbungu er því einfaldur en traustur mælikvarði á rennsli kviku út úr kvikuhólfi undir öskjunni og upp á yfirborð í gosstöðinni um 50 km fyrir norðan. Reyndar er þetta frábært dæmi um aðferð vísindanna. Vísindin byggjast fyrst og fremst á athugun á einhverju náttúrufyrirbæri. Út frá athuguninni skapar vísindamaðurinn líkan, sem hæfir athugunum. Þá má beita þessu líkani til að spá um framhaldið. Ef spáin reynist rétt, þá eru góðar líkur á að líkanið sé rétt. Þess vegna getum við nú haft enn meiri trú á það líkan, að það sé stór kvikuþró undir Bárðarbungu og að rennsli kviku út úr þrónni og upp í Holuhraun sé skýringin á sigi öskjunnar. Við þetta vil ég bæta að það er mjög sjaldgæft að hægt sé að spá í jarðvísindunum yfirleitt.
Þegar sigið hætti, þá er kúrvan á stöðu GPS tækisins í Bárðarbungu orðin lárétt. Á myndinni sem fylgir, af vef Veðurstofunnar, er það bláa kúrvan sem sýnir nær enga eða litla lóðrétta hreyfingu á yfirborði Bárðarbungu frá 7. febrúar til 7. mars. Ég hef sett in lárétta rauða línu til að gera samanburð. Þá sést greinilega að undanfarna daga virðist GPS tækið aftur byrjað að rísa. Þetta getur orsakast af tvennu: (A) Ísinn undir tækinu er að renna niður í sigskálina og tækið hækkar af þeim sökum. (B) Askjan er byrjuð að rísa aftur vegna þess að kvika frá möttli streymir innn í kvikuhólfið undir Bárðarbungu. Ég hallast fremur að seinni skýringunni, en tíminn mun segja til um það. Ef (B) reynist rétt, þá er sennilegt að rennsli af kviku úr dýpinu inn í kvikuhólfið taki mörg ár, áður en það nær þeirri stöðu, sem Bárðarbunga hafði fyrir gosið sem hófst árið 2014.
Jarðeðlisfræði | Breytt s.d. kl. 22:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Gosið heldur áfram
18.1.2015 | 14:19
Íslendingar eru nú orðnir svo vanir gosinu í Holuhrauni að það er varla minnst á það lengur í fjölmiðlum. En það heldur samt áfram og einnig heldur sigið áfram í Bárðarbungu. Reyndar var sambandsleysi við GPS mælinn í Bárðarbungu um tíma, en hann komst aftur í samband á gamlársdag og hefur sent frá sér gögn þar til í síðustu viku, en þá datt hann út aftur, samkvæmt vef Veðurstofunnar : "Ekkert samband nú sem stendur". Eins og ég hef fjallað hér um áður, þá er sigið á 800 metra þykku íshellunni, sem fyllir öskju Bárðarbungu bein afleiðing af rennsli kviku út úr kvikuþrónni og inn í kvikugang, sem nær meir en 50 km til norðurs. Þar kemur kvikan loks upp á yfirborðið í Holuhrauni. Eldstöðin sem er að gjósa er Bárðarbunga, þótt athyglin hafi mest beinst að virkninni á yfirborði í Holuhrauni. Línuritið sem fylgir hér með sýnir að sig Bárðarbungu hefur verið ótrúlega reglulegt frá upphafi. Jafnan sem fylgir línuritinu sýnir að það er mjög nærri því að vera hrein lína, með R2 = 0,99968. Það gerist ekki betra í náttúrunni. Samkvæmt þessu verður línan orðin lárétt (sig hættir) eftir um 160 daga frá því að mælingar hófust (12. september 2014), eða í byrjun mars mánaðar 2015, eins og við höfum áður spáð hér í blogginu. Þá er líklegt að gosinu ljúki, því að þrýstingur í kvikuþrónni verður kominn í jafnvægi. Bláu púnktarnir eru allir af athugunum á siginu, nema síðasti punkturinn við dag 160, sem ég leyfi mér að setja inn sem líkleg goslok í mars.