Færsluflokkur: Jarðeðlisfræði

Hver voru upptök Lissabon skjálftans árið 1755?

lisbon.jpgMestu náttúruhamfarir sem um getur í Evrópu eru tengdar jarðskjálftanum í Lissabon í Portúgal, árið 1755, en þrátt fyrir mikilvægi þessa atburðar í mannkynssögunni, þá vitum við harla lítið um upptök hans. Það var Allraheilagamessa í kaþólska heiminum hinn 1. nóvember, og fólk þyrptist í kirkjur landsins að venju. Allt í einu reið yfir stór jarðskjálfti um kl. 940 um morguninn og skömmu síðar annar enn stærri. Nær allar kirkjur landsins og aðrar steinbyggingar hrundu til grunna, fullar af fólki. Um 40 mínútum síðar skall stór flóðbylgja, milli 7 og 15 metrar á hæð, á hafnarhverfið og byggð nærri sjó í Lissabon. Á sama tíma kviknaði í borginni, sennilega mest út frá kertum og öðrum ljósum sem skreyttu allar kirkjur þennan morgun. Borgareldurinn var algjör og borgin brann í þrjá daga. Lissabon var rúst ein á eftir. Um 90 þúsund fórust í Portugal (íbúafjöldi í Lissabon var þá um 230 þúsund) og flóðbylgjan drap einnig um tíu þúsund í Marokkó. Lissabon var þá ein ríkasta borg á jörðu, en hún hafði safnað auð sem miðstöð hins mikla siglingaveldis Portúgal. Gull og gersemar streymdu til borgarinnar í meir en tvö hundruð ár frá löndum Mið- og Suður Ameríku, þar sem Portúgalar rændu og rupluðu og grófu upp gersemar, sem allar voru fluttar til Lissabon. Allt þetta fór forgörðum í eldsvoðanum og flóðinu og þar á meðal konungshöllin, með sitt 75 þúsund binda bókasafn. Tapið á menningarlegu verðmæti í þessum bruna minnir helst á brunan á bókasafni Alexandríu í Egyptalandi til forna.

Jarðskjálftinn mikli er talinn vera amk. 8,7 að styrkleika. Skjálftinn, var talinn eiga upptök um 200 km fyrir vestan Portúgal, kl. 940 að morgni. Skjálftarnir voru þrír, og sá stærsti í miðjunni. Hans var vart um nær alla Evrópu, til Luxemborgar, Þýskalands og jafnvel Svíþjóðar. Mikið tjón varð einnig í Alsír og Marokkó. Það er reyndar merkilegt, að hvorki staðsetning á upptökum né tegund skorpuhreyfingarinnar er enn þekkt fyrir þennan risastóra skjálfta. Lengi vel hafa jarðvísindamenn verið á þeirri skoðun að hann ætti upptök sín í brotabelti, sem liggur á milli Azoreyja og Gíbraltar og stefnir austur-vestur.   Það mikið og langt misgengi á mótum Afríkuflekans og Evrasíuflekans í Norður Atlantshafi, sem nefnist Gíbraltar-Azores brotabeltið. Það liggur í austur átt frá Azoreseyjum og nær alla leið til Gíbraltarsunds. En slík brotabelti mynda yfir leitt ekki svo stóra skjálfta sem þennan. Nýlega hefur komið fram sú skoðun (M.A. Gutscher ofl.), að undir Cadizflóa og undir Gíbraltar sé að myndast sigbelti, þar sem jarðskorpa Norður Atlantshafsins sígur undir jarðskorpu Marokkó og Íberíuskagans. Allir stærstu jarðskjálftar sögunnar hafa einmitt myndast við hreyfingar á sigbeltum sem þessu. En þessi hugmynd um sigbelti undir Gíbraltar er enn mjög umdeild og ráðgátan um upptök skjálftans mikla er alls ekki leyst.

Myndin sýnir hugmyndir um staðsetningu á upptökum skjálftans árið 1755 (stórir brúnir hringir). Einnig sýnir myndin upptök seinni skjálfta á þessu svæði, sem hafa verið staðsettir með nokkri nákvæmni og svo staðsetningu sigbeltisins undir Gíbraltar.

Flóðbylgjan breiddist hratt út um allt Norður Atlantshaf og hefur sennilega náð til Íslands eftir um fimm tíma. En engar heimildir eru til um flóðbylgju hér á landi í tengslum við skjálftann mikla árið 1755. Sveinbjörn Rafnsson hefur frætt mig um hvað gerðist á Íslandi á þessum tíma. Hinn 11. september 1755 varð mikill jarðskjálfti á Norðurlandi sem þeir Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson lýsa í skýrslu til danska vísindafélagsins. Hinn 17. október til 7. nóvember 1755 var eldgos í Kötlu. En einmitt meðan á þessu gosi stóð varð eyðing Lissabonborgar 1. nóvember 1755. Uppástunga Sveinbjörns er sú, að Íslendingar hafi hreinlega ekki tekið eftir Lissabonbylgjunni vegna eldgossins í Kötlu og menn hafi kennt Kötlu um allt saman. Það er engin ástæða til að ætla að nokkuð samband sé á milli eldgossins í Kötlu og skjálftans í Lissabon.

            Náttúruhamfarirnar höfðu gífurleg áhrif á hugarfar fólks í Evrópu og ollu straumhvörfum í heimspeki og bókmenntum, einkum hjá raunsæjum pennum eins og Voltaire og Rousseau. En það er nú stór kafli að fjalla um, útaf fyrir sig.


Spádómar í Vísindum

spáÞað er lítið gagn af vísindum, ef við getum ekki beitt þeim til að spá um framvindu mála.  Auðvitað er spá algeng í okkar daglega lífi. Þegar ég flýg frá Boston kl. 2135, þá spáir Icelandair því að ég lendi í Keflavík kl. 640 næsta morgun. Þessi spá rætist oftast, enda eru mjög góðar upplýsingar til um flughraða, vinda í lofti og aðra þætti, sem stýra fluginu.   Veðurspá þar sem ég bý á austurströnd Norður Ameríku er nokkuð góð, alveg upp á klukkutíma, enda má “sjá” veðrið koma úr vestri yfir meginlandið og vel fylgst með. Veðurfræðingar hafa góð líkön (góða kenningu) og fá stöðugt upplýsingar frá fjölda stöðva. En um spá á því, sem gerist inni í jörðinni gegnir öðru máli.

Mig grunar að spádómar um sólmyrkva séu ef til vill fyrstu spárnar meðal mannfólksins. Hvernig skyldi fávísum manni hafa liðið til forna, þegar sólmyrkvi skellur á um miðjan dag? Í lítt þróuðum þjóðfélögum til forna hefur sólmyrkvi ætið verið talin mikil ógnun og valdið skelkun meðal almennings. Með því að spá fyrir um sólmyrkva og undirbúa trúarlega stórathöfn fyrirfram, þá gátu konungar Mayanna sýnt vald sitt. Þannig beittu þeir upplýsingum sem fræðimenn eða “prestar” í þjónustu konungs höfðu safnað í alda raðir til að spá um slíka atburði og gang himintunglanna almennt. Dagatal Mayanna í Mexíkó og Mið-Ameríku var gert á 11 og 12. öld f.Kr. Það er svo nákvæmt að það spáði til dæmis vel fyrir sólmyrkvann sem varð í júlí 1991.   Kínverjar voru farnir að spá fyrir um sólmyrkva um 2300 f.Kr. en gangur sólar var talin mikilvæg vísbending um heilsufar keisarans. Spá er eitt af höfuð tólum vísindanna til að sannreyna kenningar. Vísindi er aðferð okkar mannkyns til að rannsaka náttúru og umhverfið. Þegar við rannsökum eða athugum eitthvað fyrirbæri í náttúrunni, eins og til dæmis eldgos, og sjáum að það virðist fylgja einhverri ákveðinni hegðun, þá getum við komið fram með kenningu, sem skýrir atburðinn. Til þess að kenningin geti verið tekin gild í heimi vísindanna, þá þarf kenningin að hafa spádómsgildi. Spá er þriðja stóra skrefið í ferli hinnar vísindalegu aðferðar. Fyrsta skrefið er athugun eða rannsókn. Annað skref er þá kenning sem byggist á athugunum og það þriðja síðan spá um það sem framundan er. Ef kenningin er rétt, þá mun spáin rætast. Spáin er stærsta og mesta prófraun vísindanna, en það er því miður ekki oft sem spá um atburði í jarðvísindunum hefur verið gerð eða hefur tekist. Það stafar af því að við “sjáum” illa það sem gerist niðri í jörðinni, en sjáum betur það sem gerist á himni eða á yfirborði jarðar. En rétt er að benda á að spá getur einnig verið rétt einungis af tilviljun. Því oftar sem hún reynist rétt, því betur getum við treyst henni. Þá getum við byrjað að treysta líkaninu, sem spáin byggist á.


Er askjan byrjuð að rísa aftur?

RisGosinu í Holuhrauni er lokið, en það fylgdi ótrúlega vel þeim einfalda ferli, sem spá okkar Gabríels Sölva, dóttursonar míns, hafði sagt til um. Sjá hér: http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1467963/ Sig Bárðarbungu er því einfaldur en traustur mælikvarði á rennsli kviku út úr kvikuhólfi undir öskjunni og upp á yfirborð í gosstöðinni um 50 km fyrir norðan. Reyndar er þetta frábært dæmi um aðferð vísindanna. Vísindin byggjast fyrst og fremst á athugun á einhverju náttúrufyrirbæri. Út frá athuguninni skapar vísindamaðurinn líkan, sem hæfir athugunum. Þá má beita þessu líkani til að spá um framhaldið. Ef spáin reynist rétt, þá eru góðar líkur á að líkanið sé rétt. Þess vegna getum við nú haft enn meiri trú á það líkan, að það sé stór kvikuþró undir Bárðarbungu og að rennsli kviku út úr þrónni og upp í Holuhraun sé skýringin á sigi öskjunnar.   Við þetta vil ég bæta að það er mjög sjaldgæft að hægt sé að spá í jarðvísindunum yfirleitt.

Þegar sigið hætti, þá er kúrvan á stöðu GPS tækisins í Bárðarbungu orðin lárétt. Á myndinni sem fylgir, af vef Veðurstofunnar, er það bláa kúrvan sem sýnir nær enga eða litla lóðrétta hreyfingu á yfirborði Bárðarbungu frá 7. febrúar til 7. mars. Ég hef sett in lárétta rauða línu til að gera samanburð. Þá sést greinilega að undanfarna daga virðist GPS tækið aftur byrjað að rísa. Þetta getur orsakast af tvennu: (A) Ísinn undir tækinu er að renna niður í sigskálina og tækið hækkar af þeim sökum. (B) Askjan er byrjuð að rísa aftur vegna þess að kvika frá möttli streymir innn í kvikuhólfið undir Bárðarbungu. Ég hallast fremur að seinni skýringunni, en tíminn mun segja til um það. Ef (B) reynist rétt, þá er sennilegt að rennsli af kviku úr dýpinu inn í kvikuhólfið taki mörg ár, áður en það nær þeirri stöðu, sem Bárðarbunga hafði fyrir gosið sem hófst árið 2014.


Gosið heldur áfram

sigjan2015.jpgÍslendingar eru nú orðnir svo vanir gosinu í Holuhrauni að það er varla minnst á það lengur í fjölmiðlum. En það heldur samt áfram og einnig heldur sigið áfram í Bárðarbungu. Reyndar var sambandsleysi við GPS mælinn í Bárðarbungu um tíma, en hann komst aftur í samband á gamlársdag og hefur sent frá sér gögn þar til í síðustu viku, en þá datt hann út aftur, samkvæmt vef Veðurstofunnar : "Ekkert samband nú sem stendur". Eins og ég hef fjallað hér um áður, þá er sigið á 800 metra þykku íshellunni, sem fyllir öskju Bárðarbungu bein afleiðing af rennsli kviku út úr kvikuþrónni og inn í kvikugang, sem nær meir en 50 km til norðurs. Þar kemur kvikan loks upp á yfirborðið í Holuhrauni. Eldstöðin sem er að gjósa er Bárðarbunga, þótt athyglin hafi mest beinst að virkninni á yfirborði í Holuhrauni. Línuritið sem fylgir hér með sýnir að sig Bárðarbungu hefur verið ótrúlega reglulegt frá upphafi. Jafnan sem fylgir línuritinu sýnir að það er mjög nærri því að vera hrein lína, með R2 = 0,99968. Það gerist ekki betra í náttúrunni. Samkvæmt þessu verður línan orðin lárétt (sig hættir) eftir um 160 daga frá því að mælingar hófust (12. september 2014), eða í byrjun mars mánaðar 2015, eins og við höfum áður spáð hér í blogginu. Þá er líklegt að gosinu ljúki, því að þrýstingur í kvikuþrónni verður kominn í jafnvægi. Bláu púnktarnir eru allir af athugunum á siginu, nema síðasti punkturinn við dag 160, sem ég leyfi mér að setja inn sem líkleg goslok í mars.


Eru upptök Íslenska heita reitsins í Síberíu?

heiti reiturinnJarðskorpuflekarnir eru á hreyfingu á yfirborði jarðar, en heitu reitirnir eru nokkurn veginn kyrrir, og fastir eins og þungt akkeri langt niðri í möttlinum.   Þetta er ein höfuð kenningin, sem jarðvísindamenn hafa stuðst við undanfarin ár. Þessu fylgir, að heitu reitirnir skilja eftir slóð eða farveg sinn á yfirborði flekanna. Við vitum hvernig flekarnir hreyfast í dag og getum komist mjög nærri því hvernig þeir hafa hreyfst í sögu jarðar, hundruðir milljónir ára aftur í tímann.  Í dag er miðja Íslenska heita reitsins staðsett nokkurn veginn á 64.5° N og 17° W, undir Vatnajökli norðanverðum. Þar undir, djúpt niðri í möttlinum, á þessari breidd og lengd, hefur hann ætíð verið, milljónir ára. En hver er saga hreyfinga fleka yfir þessum reit í gegnum jarðsöguna? Það hefur verið kannað all náið, til dæmis af Lawrene Lawver og félögum (2000) í jarðeðlisfræðistofnun Texas Háskóla. Saga heita reitsins síðustu 50 til 60 milljón árin er nokkuð skýr, en þá rak Grænland yfir heita reitinn, á þeim tíma sem Norður Atlantshaf var að opnast. Þá var Grænland hluti af fleka Norður Ameríku og á leið sinni til norðvestur fór Grænland yfir heita reitinn og þá gaus mikilli blágrýtismyndun, fyrst á vestur og síðar á austur Grænlandi. Heiti reiturinn eða möttulstrókurinn undir honum, var grafkyrr, staðsettur nokkurn veginn á á 64.5° N og 17° W, þegar Grænland rak framhjá. En Lawver og félagar hafa rakið söguna miklu lengra aftur í tímann. Þeir telja að fyrir um 250 milljón árum hafi Síbería verið fyrir ofan möttulstrókinn eða heita reitinn sem við nú kennum við Ísland. Myndin sem fylgir sýnir útlínur meginlandanna fyrir 200 milljón árum, og er staðsetning heita reitsins (64.5° N og 17° W) sýnd með rauðum hring. Glöggir menn átta sig fljótt á landakortinu: Ameríka er hvít, Grænland er fjólublátt, Bretlandseyjar gular, Skandínavía, Rússland og Síbería eru græn. En Ísland er að sjálfsögðu ekki til (kom fyrst í ljós fyrir um 20 milljón árum) og Norður Atlantshaf hefur ekki opnast. Nú vill svo til að mesta eldgosaskeið í sögu jarðar hófst í Síberíu fyrir um 250 milljón árum og þá myndaðist stærsta blágrýtismyndun sem við þekkjum á jörðu: Síberíu basaltið. Í dag þekur það landflæmi sem er um 2,5 milljón ferkílómetrar.  Samkvæmt þessum niðurstöðum markar sá atburður upphaf Íslenska heita reitsins. Hann er þá ekki Íslenskur eftir allt saman: Hann er reyndar Rússneskur að uppruna, ef kenning Lawvers og félaga stenst.


Íslenski Heiti Reiturinn á Metið!

rift.jpgÞegar ég var að stíga mín fyrstu spor í jarðfræðinni, í kringum 1963, þá var stærsta málið að Ísland væri hluti af Mið-Atlantshafshryggnum. Þetta eitt skýrði þá alla eldvirkni hér á landi. Myndun og saga landsins var fyrst og fremst skýrð sem hryggjarstykki, orðið til við gliðnun skorpufleka. Úthafshryggir voru stóra málið, enda nýuppgötvaðir. Það er mér sérstaklega minnistætt þegar Sigurður Þórarinsson kom heim af fundi í Kanda árið 1965 og sýndi okkur bókina The World Rift System. Þar var meir að segja mynd af Almannagjá og Þingvöllum á kápu bókarinnar, eins og sjá má af mynd af kápunni, sem fylgir hér með. Sigurður var uppveðraður af hinum nýju fræðum, en ekki voru allir af hinum eldri (og einnig sumum af þeim yngri) jarðvísindamönnum á Íslandi tilbúnir að taka á móti hinum nýju kenningum. Sigurður var alltaf fljótur að átta sig á því hvað var rétt og snjallt í vísindunum. En það voru þeir Gunnar Böðvarsson og George Walker sem birtu merkustu greinina á þeim árum um stöðu Íslands í samhengi við Mið-Atlantshafshrygginn, árið 1964. Þá var aðeins eitt ár liðið frá uppruna hugmyndarinnar um úthafshryggi, og Gunnar og George voru einnig fljótir að átta sig á því hvað skifti máli. Kenningin um eldvirkni á flekamótum var og er stórkostleg framför í jarðvísindum, en hún skýrði ekki allt – langt því frá. Mörg eldfjallasvæði, eins og til dæmis Hawaíieyjar, eru fjarri flekmótum og krefjast annarar skýringar. Þetta eru heitu reitirnir: svæði, þar sem mikil eldvirkni á sér stað, sem er ekki endilega tengd flekamótum. Það var árið 1971 að Ameríski jarðeðlisfræðingurinn W. Jason Morgan kom fram með kenninguna um möttulstróka (mantle plumes) undir heitu reitunum. Þar með var komið fram hentugt líkan, sem gæti skýrt eldvirkni utan flekamóta. Rætur þessarar eldvirkni eru miklu dýpri en þeirrar sem gerist á flekamótunum. Sumir halda að möttulstrókarnir sem fæða heitu reitina komi alla leið frá mörkum möttuls og kjarna, þ.e. á um 2900 km dýpi.

Bygging og þróun jarðskorpunnar undir Íslandi hefur verið rannsökuð nú í um fimmtíu ár aðallega í ljósi hugmynda um eldvirkni á flekamótum. Ég held að nú séu að gerast tímamót á þessu sviði. Því meir sem ég hef kynnst jarðfræði Íslands, því meir er ég nú sannfærður um mikilvægi heita reitsins.

Möttulstrókurinn er sennilega um 100 til 200 km breið súla af heitu möttulbergi, sem rís undir Íslandi. Hiti súlunnar erða stróksins er um 150oC hærri en umhverfið og nálægt því um 1300 til 1400oC en ekki bráðinn fyrr en hann kemur mjög nærri yfirborði. Hár þrýstingur í dýpinu kemur í veg fyrir bráðnun.mantle plume

Nú hafa þeir Ross Parnell-Turner og félagar sýnt framá að virkni möttulstróksins gengur í bylgjum á 3 til 8 milljón ára fresti, eins og sýnt er á mynd þeirra. Streymi efnis í möttulstróknum telja þeir hafa verið allt að 70 Mg s snemma í sögu Norður Atlantshafsins, en nú er rennslið um 18 Mg s, eða um 18 tonn á sekúndu. (Mg er megagramm, sem er milljón grömm, og er það jafnt og eitt tonn). Þetta er ekki streymi af kviku upp í gegnum möttulinn, heldur magn af möttulefni, sem rís upp til að mynda heita reitinn. Og rennslið er sífellt, sekúndu eftir sekúndu, ár eftir ár, öld eftir öld, milljón árum saman. Aðeins lítill hluti af möttulefni skilst frá sem kvika nælægt yfirborði og gýs eða storknar sem jarðskorpa. Til samanburðar er straumurinn af efni í möttulstróknum undir Hawaíi um 8,7 tonn á sekúndu, eða um helmingi minna en undir Íslandi. Við getum því státað okkur nú af því að búa á stærsta heita reit jarðar. Eldvirknin sem nú er í gangi og er tengd Bárðarbungu og Holuhrauni er einmitt yfir miðju möttulstróksins og minnir okkur vel á hinn gífurlega kraft og hitamagn sem hér býr undir.


Ris í Bárðarbungu?

Síðan á hádegi hefur sigið snúsit við í Bárðarbungu og nú er ris. Eru þetta truflanir eða sveiflur í GPS mælinum, eða er hér breyting í hegðun Bárðarbungu?  Ef til vill krítiskur tími fram undan. Risið virðist vera meir en 1.5 metrar. Ekki er svo að sjá að nein breyting hafi orðið í skjálftavirkni. Ef til vill er þetta aðeins hreyfing í íshellunni, en ekki á botni öskjunnar. Ef til till eru ísflekar að haggast og vagga í öskjunni.

 

OK.  Skyringin er komin: Veðurstofan hækkaði loftnet GPS mælisins um 1,5 metra.  Ekkert að óttast. Engin breyting.Ris


Sambandslaust við Bárðarbungu

GPS gögnÞað gerðist um kl. rúmlega sex í gærmorgun.  GPS mælirinn, sem situr á miðri íshellunni yfir Bárðarbungu hætti að senda, eins og sjá má á myndinni til vinstri.  Við skulum vona að hann komist aftur í gang sem fyrst, því án hanns vitum við ekkert um sigið í öskjunni.  Myndin sýnir að það var töluverður órói á GPS mælinum áður en hann hætti að senda.  Enginn veit hvaða sögu hann hefur að geyma.

Er hægt að nota sig Bárðarbungu til að spá fyrir um goslok í mars 2015?

 

 

Eins og ég hef bent á í síðustu bloggfærslu hér, þá er sigið á íshellunni yfir öskju Bárðarbungu ekki línulegt, heldur kúrva. Sjá myndina sem fylgdi siðasta bloggi.  Það er að segja: sigið hægir smátt og smátt á sér með tímanum.  Sú kúrva sem passar best við gögnin er sennilega polynomial kúrva.  Athugið að sigið er nú um 12 metrar, síðan GPS tækið á miðjum jöklinum tók að senda frá sér mælingar hinn 12. september. Dóttursonur minn Gabriel Sölvi hefur tekið gögnin og kemur upp með eftirfarandi niðurstöðu:  Með því að athuga fallið sem forritið hefur myndað um bestu línu hef ég fundið lággildi þess:

f(x)=-0,0013x^2+0,4486x-0,3885

d/dx(f(x))=f'(x)=-0,0026x+0,4486

f&#39;(x)=0 þ.þ.a.a 0,0026x=0,4486<->x=172,54

Við gerum því ráð fyrir að á 173 degi frá 12. september sé líklegast að gosið muni enda. Sem er held ég í mars 2015.   Þá mun sigið hafa orðið f(172,54)=38,3 eða u.þ.b 38 metrar.”

Forsendur fyrir slíkri spá eru þessar:  Það er kvikuþró undir Bárðarbungu, á um 8 km dýpi. Kvikuþrýstingur í þrónni leiddi til þess, að kvika braust út og myndaði kvikugang til norðurs, sem kom upp í Holuhrauni.  Rennslí kviku út úr þrónni hefur dregið úr þrýstingi inni í henni og valdið sigi á botni öskjunnar fyrir ofan. Með tímanum dregur úr þrýstingi og sigið hægir á sér, og einnig þar með minnkar rennsli upp í Holuhraun.  Þetta er einfaldasta sýnin á atburðarásina og ekki endilega sú réttasta, en einhversstaðar verðum við að byrja...


Hvað er framundan í Bárðarbungu?

Sigið í íshellunni yfir öskju Bárðarbungu heldur áfram og Holuhraun heldur einnig áfram að stækka. Myndin frá Veðurstofunni sýnir sigið, eins og það kemur fram á GPS mæli, sem er staðsettur yfir miðri öskjunni. Við fyrstu sýn virðist sigið línulegt, en svo er ekki. Ég hef dregið rauða línu yfir myndina, og þá er augljóst að sigið er einhverskonar exponential function.  Sigið beygir af með tímanum, það hægir á sér. Það er því lógiskt að halda að með tímanum verðiSig Bárðarbungu kúrvan enn flatari og nálgist lárétta stöðu.  Þá er sigi lokið og þá gæti gosinu einnig verið lokið.  Sig verður vegna þess að kvika streymir út úr kvikuhólfi Bárðarbungu, lækkar þrýsting í þrónni og þá sígur þak kvikuþróarinnar (botn öskjunnar) niður.  En þetta er einfaldasta túlkun gagna og margt getur komið fyrir, sem ruglar svo einfaldaða mynd.  En samt sem áður eru hér vísbendingar um að stöðugt dragi úr sigi og ef til vill úr gosinu á sama hátt.  Hvað sem öðru líður, þá held ég að líklegasta spá um gang mála sé sú, að sig og gos haldi áfram á sama hátt, en smátt og smátt dragi úr virkninni, eins og kúrvan fyrir ofan bendir á. En það eru mánuðir....

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband