Færsluflokkur: Jarðeðlisfræði
Hvað gerist ef gangurinn nær alla leið til Öskju?
24.8.2014 | 19:07
Það er ljóst að mikil breyting varð á skjálftavirkni undir Vatnajökli hinn 23. ágúst. Þá tók skjálftavirknin mikið stökk til norðurs, eins og fyrsta myndin sýnir. Hún er byggð á skjálftagögnum frá Veðurstofu Íslands, en lóðretti ásinn á myndinni er breiddargráðan (norður). Aðeins skjálftar stærri en 2 eru sýndir hér. Þessu samfara er einnig stökk niður á bóginn, eins og seinni myndin sýnir. Hún er dreifing jarðskjálfta í tíma og dýpi. Lóðrétti ásinn er dýpið í kílómetrum undir yfirborði. Undanfarna viku hefur þungamiðjan af skjálftum stærri en 2 verið á dýpi í kringum 7 til 12 km. En hinn 23. ágúst er virknin mun dýpra, með flesta skjálfta af þessari stærð á bilinu 12 til 15 km. Gangurinn virðist fara dýpra en áður. Þetta er ekki sú hegðun, sem maður býst við sem undanfara eldgoss. Það skal þó tekið fram að stærsti skjálftinn, 5,3, og mesta útlosun orku til þessa, var á 5,3 km dýpi og annar 5,1 á 6 km. Það vekur athygli manns að nær engir skjálftar eiga upptök dýpri en um 15 km. Hvað veldur því? Er það ef til vill vegna þess, að á meira dýpi er jarðskorpan orðin svo heit, að hún brotnar ekki? Sjálfsagt eru kvikuhreyfingar að gerast dýpra en 15 km en við höfum ekki tólin og tækin til að sjá þær.
Kvikugangurinn frá Bárðarbungu heldur áfram að vaxa, en hefur nú breytt stefnu frá norðaustri til norðurs. Hann stefnir því beint að megineldstöðina Öskju. Getur hann náð alla leið til Öskju? Það er aðeins 25 km leið frá jökulsporðinum á Dyngjujökli og til Öskju. Gangar geta orðið mjög langir. Tökum nokkur dæmi frá Íslandi. Skaftáreldar eða Lakagosið árið 1783 var sprungugos, sem kom upp í gegnum jarðskorpuna úr kvikugangi. Gossprungan sjálf er um 25 km löng, en allt bendir til að hún nái inn undir Vatnajökul og alla leið til Grímsvatna. Kvikan sem gýs í Grímsvötnum er sú sama og kemur upp í Lakagígum. Það bendir til að gangurinn nái frá kvikuþrónni undir Grímsvötnum og alla leið til Lakagíga, eða um 70 km veg. Svipaða sögu er að segja um Eldgjá og Kötlu. Sprungan sem myndar Eldgjá er vitneskja á yfirborði um gang, sem nær alla leið til Kötlu. Efnagreiningar sýna að kvikan úr Eldgjá samsvarar kvikunni í kvikuþrónni undir Kötlu. Hér mun vera gangur sem myndaðist árið 934, sem er um 55 km langur. Þriðja dæmið er Askja sjálf. Árið 1875 gaus í Öskju, en undanfari þess goss var sprungugos í Sveinagjá, um 70 km norður af Öskju. Aftur hjálpar efnafræðin okkur hér og sýnir að basaltkvikan sem kom upp í Sveinagjá er hin sama og gaus í Öskju. Það er því auðvelt að hugsa sér að nýi gangurinn frá Bárðarbungu gæti náð til Öskju. Ef það gerist, þá er atburðarásin háð því hvort gangurinn sker kvikuþró Öskju, eða sneiðir framhjá. Eitt er það sem við lærum af hegðun ganganna í Lakagígum 1783, Eldgjá 934 og Sveinagjá 1875, að kvikan kom alltaf upp á yfirborðið þar sem gangarnir brutust í gegnum jarðskorpuna á láglendi. Kvikan er þungur vökvi og það er eðli hennar að streyma til hliðar, frekar en upp, svo framalega sem opin sprunga er fyrir hendi. Mestar líkur eru því á gosi nú, þegar gangurinn skríður í gegnum jarðskorpuna undir söndunum norðan Dyngjujökuls og sunnan Öskju. Ef hann gýs ekki þar, þá tekur við norðar mikið hálendi Dyngjufjalla, Kollóttudyngju og Ódáðahrauns og ólíklegt að hann komi upp á yfirborð þar.
Fyrsta kvikmyndin úr Bárðarbungu
18.8.2014 | 17:01
Einn góðvinur þessa bloggs, sem gengur undir nafninu H. Sig, hefur gert fyrstu kvikmyndina, sem sýnir innri gerð Bárðarbungu. Hann hefur sótt gögn um jarðskjálftavirknina undir Bárðarbungu síðan á laugardagsmorgun til vefsíðu Veðurstofunnar. Síðan gerði hann þrívíddar plott af þessum gögnum og bjó til þessa ágætu kvikmynd. Hún sýnir dreifingu skjálftanna í tíma og rúmi. Láréttu ásarnir eru lengd og breidd, en lóðrétti ásinn er km, sem nær niður á 25 km. Takið eftir að skalinn á lóðrétta ásnum er rúmlega tvisvar sinnum stærri en á láréttu ásunum. Myndin teygir því dálítið úr gögnunum uppá við. Litir á púnktunum breytast með tíma, þannig að elstu skjálftarnir eru sýndir með bláum púnktum, þá gulir, brúnir og þeir yngstu rauðir púnktar. Örin bendir í norður átt. Slóðin á þessa 3D-mynd er:
http://gfycat.com/FaithfulRipeIntermediateegret
Smellið á þennan link til að skoða kvikmyndina. Myndin sýnir mjög vel að jarðskjálftarnir mynda hring eða lóðréttan hólk í jarðskorpunn undir Bárðarbungu. Þetta styður algjörlega kenningu Ekströms, sem ég hef bloggað um hér áður. Það er mjög áhugavert hvernig skjálftarnir raða sér upp í tíma umhverfis tappann. Fyrst virðist ein hlið tappans vera að brotna, síðan önnur og svo framvegis, allan hringinn. Það er rétt að benda á, að staðsetningar á jarðskjálftum á vef Veðurstofunnar eru mjög misjafnar að gæðum. Eins og kemur fram þar, þá eru gæðin frá 30 til 99%. Ekki hefur verið tekið tillit til þess í gerðar kvikmyndarinnar. Ef lélegar staðsetningar væru teknar út, þá er líklegt að útlínur tappans verði enn skýrari.
Jarðeðlisfræði | Breytt s.d. kl. 19:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Ekström pumpan undir Bárðarbungu
17.8.2014 | 18:06
Megineldstöðin Bárðarbunga er hulin jökli og upplýsingar frá venjulegum jarðfræðiathugunum því ekki fyrir hendi. En jarðeðlisfræðin bregst okkur ekki hér.
Nettles og Ekströms á uppbyggingu Bárðarbungu, en líkan þeirra er byggt á jarðskjálftagögnum. Ég tek það strax fram, að þetta er þeirra líkan, en ekki mitt. Samt sem áður finnst mér það athyglisvert og skýra ýmsa þætti. Við skulum þá líta á það sem working model. Göran Ekström er prófessor við Columbia háskóla í New York og viðurkenndur vísindamaður í sinni grein. Ég hef skreytt mynd þeirra hér fyrir ofan með litum, til að skýra efnið. Í stuttu máli virkar pumpan þannig: (1) Basaltkvika steymir stöðugt uppúr möttlinum, og safnast fyrir neðst í jarðskorpunni (gula svæðið). (2) Vegna léttari eðlisþyngdar sinnar leitar kvikan upp í gegnum jarðskorpuna (rauða örin) og streymir upp í grunnt kvikuhólf undir öskju Bárðarbungu. Ef til vill er þessi þáttur að gerast einmitt nú í dag. Ekki er ljóst nákvæmlega hvar uppstreymið er. Nettles og Ekström setja það undir miðja öskjuna (rauða örin) en það gæti verið víðar. (3) Kvika safnast fyrir í grunnu kvikuþrónni með tímanum. Kvikuþróin pumpast upp. Það veldur þrýstingi á jarðskorpuna fyrir ofan og á tappann fyrir neðan. Fyrir ofan kvikuþróna verður landris þegar öskjubotninn lyftist upp. Því fylgja margir grunnir skjálftar á öskjubarminum, eins og nú gerist. (4) Þrýstingur kvikuþróarinnar niður á við getur komið af stað stórum jarðskjálftum af stærðargráðunni 5, eins og þeim tíu, sem Nettles og Ekström könnuðu í greininni 1998. Slíkir jarðskjálftar gerast því þegar tappinn sígur niður og sprungur myndast meðfram hallandi veggjum hans. Þetta er ekki tappi, sem maður dregur úr flöskunni, heldur tappinn sem maður rekur niður í flöskuna. Hreyfing á þessum hringlaga og bröttu sprungum er eins og litlu örvarnar sýna. En þrýstingur í kvikuþrónni getur einnig leitt til eldgosa á brún öskjunnar, einkum ef svæðisbundið sprungukerfi eldstöðvarinnar er virkt. Það er því samspil milli þrýstings í kvikukerfinu og virkni svæðisbundna sprungukerfisins sem skiftir öllu máli varðandi eldgosin, sem væru að öllum líkindum sprungugos, ef einhver verða.
Ég hef fjallað hér áður um túlkun þeirraLíkan Ekströms af Bárðarbungu er styrkt af jarðfræðiathugunum á öðrum fornum eldstöðvum, eins og þriðja myndin sýnir. Þar er þversnið af slíkri eldstöð, þar sem hringgangar og keilugangar myndast. Hringlaga myndanir eru einmitt algengar í rótum megineldstöðva á Íslandi. Keilugangar mynda til dæmis vel afmarkaða hringi umhverfis Setberg eldstöðina á Snæfellsnesi, eins og ég hef bloggað um áður hér: http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1176622/
Þeir verða til þegar kvika þrýstist upp í jarðskorpuna í miðju eldstöðvarinnar eftir keilulaga sprungum. Einnig eru hringgangar (ring dikes) vel þekkt fyrirbæri í eldfjallafræðinni og voru fyrst uppgötvaðir í rótum fornra eldstöðva í Skotlandi, eins og til dæmis á Ardnamurchan skaga. Ef til vill er stórbrotnasta kerfi af hringgöngum að finna í Sahara eyðimörkinni. Þar er Richat hringurinn í Mauritaníu, um 30 km í þvermál, eins og sýnt er á myndinni hér. Hér hefur orðið svo mikið rof, að hringarnir eru komnir fram á yfirborði. Hringgangar myndast einmitt þegar hringlaga spilda eða tappi af jarðskorpu sígur niður, eins og Ekström stingur uppá fyrir Bárðarbungu. Þegar tappinn sígur, þá leitar kvika inn í hringlaga sprungurnar og storknar þar sem hringgangar. En bæði hringgangar og keilugangar geta innihaldið mikið magna af kviku, ekki síður en kvikuþróin, sem kann að vera ofaná tappanum. Stóru gosin verða þegar svæðisbundin gliðnun verður í jarðskorpunni á slíku svæði. Þegar svæðisbundið sprungukerfi verður virkt og sker megineldstöðina, þá er hætt við stórfelldu kvikuhlaupi til hliðar út frá grunnu kvikuþrónni og sprungugosum á láglendi í grennd. Slík sprungugos, sem eru beint tengd Bárðarbungu, eru til dæmis gígaröðin sem nefnist Vatnaöldur og Veiðivötn.
Órói í Bárðarbungu
16.8.2014 | 06:35
Jarðeðlisfræði | Breytt s.d. kl. 16:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Heiti reiturinn undir Íslandi er yfir 1600oC heitur
8.8.2014 | 05:14
Ísland rís upp úr hafinu sem allstórt landsvæði og eitt höfuð einkenni þess er mikil eldvirkni. Ísland er þá það sem jarðvísindamenn kalla hotspot eða heitan reit. Lengi hefur verið deilt um uppruna og eðli heitra reita, en þeir eru nokkrir á jörðu, þar á meðal Hawaii, Galapagos, Páskaeyja og Yellowstone. Eru rætur heitu reitanna djúpar, langt niðri í möttlinum, jafnvel á mörkum möttuls og kjarna, eða eru þetta fremur yfirborðsfyrirbæri? Deilan meðal jarðvísindamanna um það hefur varið í nær fimmtíu ár. Nú vitum við tvennt um íslenska heita reitinn , sem skiftir miklu máli: (1) hann nær meir en 660 km niður í möttul jarðar og sennilega mun dýpra, og (2) hann er um 165 oC heitari en venjulegur möttull umhvefis. Gögn sem jarðskjálftafræðingar hafa safnað undir Íslandi gera kleift að teikna nýtt þversnið af möttlinum undir Íslandi. Það er Yang Shen, prófessor í University of Rhode Island, sem teiknar. Hann er með skrifstofu á hæðinni fyrir ofan mína skrifstofu í Rhode Island í Bandaríkjunum. Þversniðið hans Yang nær niður fyrir 660 km dýpi á myndinni. Í möttlinum eru greinileg skil, sem koma fram á skjálftabylgjum. Þau neðri eru á 660 km dýpi en hin efri á 410 km dýpi undir yfirborði. Bogar á þessum skilum sýna staðsetingu heita reitsins. Hann er sem sé eins og hallandi strókur í möttlinum undir landinu, en honum virðist halla dálítið til norðurs. Hann er um 200 km í þvermál í möttlinum. Tökum eftir, að möttulstrókurinn er fastur og óbráðinn. Hann er mjög heitur, en vegna þrýstings í jörðu helst hann óbráðinn þar til hann rís grynnra. Hann byrjar að bráðna og kvika myndast á línunum sem eru merktar solidus. Basalt kvikan, sem gýs á yfirborði, getur veitt okkur upplýsingar um hitann í möttulstróknum undir Íslandi. Keith Putirka hefur rannsakað basaltið á Íslandi með þetta í huga og hann kemst að þeirri niðurstöðu, að möttulstrókurinn undir okkur sé yfir 1600 oC heitur. Hann er þá um 165 oC heitari en venjulegur möttull jarðar. Neðri myndin sýnir samanburð á hitanum á "venjulegum" möttli (til vinstri), möttlinum í heita reitnum undir Hawaií (í miðju) og lengst til hægri möttlinum í heita reitnum undir Íslandi. Þetta er nú gott og blessað, en vakna þá ekki aðrar spurningar? Hvers vegna er möttullinn heitari hér undir okkur? Er það ef til vill vegna þess, að möttulstrókurinn, sem rís undir Íslandi, kemur af mjög miklu dýpi, úr heitari lögum jarðar, og jafnvel frá mörkum möttuls og kjarna jarðar? Hversvegna er strókurinn hallandi, en ekki lóðrétt súla undir landinu? Eins og venjulega, þá vekja nýjar upplýsingar nýjar og erfiðari spurningar í jarðfræðinni og reyndar í öllum vísindum. Það er einmitt málið, sem gerir vísindin og alla fróðleiksleit svo dásamlega spennandi.
Gegnumlýsing eldfjalla
25.7.2014 | 06:21
Það hefur reynst erfitt að átta sig á virkum eldfjöllum, meðal annars vegna þess, að við höfum takmarkaðar upplýsingar um innri gerð þeirra. Nú er að gerast framför á þessu sviði, vegna þess að jarðskjálftafræðingar eru farnir að gegnumlýsa eldfjöllin með jarðskjálfatbylgjum. Gott dæmi um það eru rannsóknir á Mount St Helens eldfjalli í Bandaríkjunum. Þar varð frægt sprengigos hinn 18. maí árið 1980 og síðan hafa ýmsar rannsóknir farið fram á því fjalli. Gregory Waite og félagar settu upp fyrir nokkru nítján jarðskjálftamæla umhvefis og ofaná eldfjallið. Þeir könnuðu mikinn fjölda af jarðskjálftabylgjum, sem fóru í gegnum fjallið og jarðskorpuna undir. Með því móti gátu þeir greint svæði, þar sem bylgjurnar fara hægar í gegnum jarðlögin. Þau svæði eru talin vera kvikuhólf eða svæði þar sem kvika er ríkjandi en ekki fast berg. Beint undir eldfjallinu er svæði í jarðskorpunni, á 2 til 3,5 km dýpi, þar sem jarðskjálftabylgjur fara treglega í gegnum eða hægja á sér. Þetta virðist vera kvikuþró eldfjallsins. Þar undir er annað svæði á um 5,5 til 8 km dýpi, sem einnig getur verið kvikuþró. Myndin sýnir þversnið af eldfjallinu og greinir svæðin, sem eru sennilega kvikuhólf. Á bleiku svæðunum fara skjálftabylgjur hægar, en á grænu og bláu svæðunum fara bylgjurnar með meiri hraða. En þessi könnun nær aðeins niður á um 10 km dýpi í jarðskorpunni. Nú er annar hópur vísindamanna að undirbúa gegnumlýsingu á Mount St Helens, sem mun ná niður á um 80 km dýpi og rannsaka dýpri pípulagnirnar fyrir kvikuna. Þeir munu nota bæði bylgjur, sem koma frá fjarlægum jarðskjálftum og bylgjur frá dynamít sprengingum á yfirborði til að gegnumlýsa St Helens með 3500 jarðskjálftamælum. Viðbíðum spennt eftir niðurstöðunum.
Kvikuþró - ein stór og önnur lítil
4.7.2014 | 06:02
Undir flestum stórum og langvirkum eldfjöllum er kvikuþró. Hún er einskonar tankur eða forðabúr af kviku ofarlega í jarðskorpunni. Í stórgosum tæmist kvikuþróin að miklu leyti og þá kann fjallið að hrynja niður í tómarúmið undir. Við það myndast hringlaga sigdalur á yfirborði, sem við nefnum öskju eða caldera á erlendum málum. Katla er eitt af þeim íslensku eldfjöllum, sem talin er hafa kvikuþró á dýpinu, eins og fyrsta mynd sýnir. Mælingar jarðeðlisfræðinga hafa gefið vísbendingu um kvikuþró á um 1,5 km dýpi undir sjávarmáli, eða um 2 til 3 km undir yfirborði fjallsins. Kvikuþróin er talin um það bil 5 km í þvermál og gæti rúmmál af kviku í þrónni verið um 4 rúmkílómetrar. Önnur mynd sýnir niðurstöður Ólafs Guðmundssonar og annara jarðeðlisfræðinga á skorpunni undir Kötlu. Ljósa svæðið sýnir staðsetningu kviku í þrónni undir. Þetta verður að teljast fremur lítil kvikuþró, miðað við það, sem finnst í jarðskorpunni á sumum öðrum eldfjallasvæðum. Ein þekkasta, best rannsakaða og stærsta kvikuþró sem vitað er um er undir Yellowstone í Bandaríkjunum. Þriðja mynd sýnir þversnið af henni. Hún er um 80 til 90 km á lengd og yfir 20 km á breidd. Kvikuþróin er talin vera á dýpinu frá 5 km og ná niður á 17 km undir yfirborði. Fyrri niðurstöður sýndu að í henni eru um 4000 rúmkílómetrar af kviku en sennilega er það lágmark. Reyndar er talið að í þrónni sé blanda af kviku og kristöllum, þ.e.a.s. einskonar kristal-ríkur hrærigrautur. En yfirleitt getur kvika ekki gosið ef hún inniheldur meir en 50% kristalla. Þá er hún einfaldlega of stíf og rennur ekki. Risastór gos hafa komið upp úr þessari kvikuþró undir Yellowstone. Síðasta stórgosið var fyrir um 640 þúsund árum og þá gaus 1000 rúmkílómetrum af kviku í sprengigosi, sem dreifði ösku yfir alla Norður Ameríku. Hvað er einn rúmkílómeter? Surtsey er til samanburðar einn rúmkílómeter. Okkar stærsta gos síðan land byggðist, Skaftáreldar, er um 15 rúmkílómetrar. Þúsund er alveg ótrúlegt magn, en fyrri sprengigos í Yellowstone hafa verið enn stærri. Til dæmis var gosið fyrir 2,1 milljón árum um 2500 rúmkílómetrar. Stærsta sprengigos af þessari gerð varð þó í eldfjallinu Toba í Indónesíu fyrir um 74 þúsund árum, en þá kom upp 2800 rúmkílómetra á yfirborðið. Yellowstone er elsti og merkasti þjóðgarður Bandaríkjanna og það er ævintýraland ferðamannsins og jarðfræðingsins. En jarðskopran þar er sífellt á hreyfingu. Jarðskjálftar eru mjög tíðir og land ýmist rís eða sígur. Síðasta gosið í Yellowstone var líparít hraungos fyrir 70 þúsund árum. Það var "aðeins" um 30 rúmkílómetrar að stærð, en hefur ekki valdið miklum umhverfisspjöllum þar sem hraunið var takamarkað í útbreiðslu innan öskjunnar. Enginn veit hver framtíð Yellowstone elstöðvarinnar er. Kvikan er fyrir hendi í miklum mæli, órói er tíður í jarðskorpunni og allt er fyrir hendi til að stórgos gæti orðið. En hins vegar hafa engar breytingar orðið, sem benda til að slíks sé að vænta á næstunni. Á meðan svæðið er rólegt, þá hvet ég alla til að fara til Yellowstone amk. einu sinni á ævinni, því þessi þjóðgarður er engu líkur -- en varist bjarndýrin! Ég starfaði þar um tíma við rannsóknir árið 1985. Við fórum víða á göngu utan vega um garðinn allan. Það hafði verið brýnt fyrir okkur að koma bjarndýrunum ekki á óvart. Ég hafði það þá fyrir sið að halda á steini í vinstri hendi og jarðfræðihamrinum í þeirri hægri, og slá á steininn í hverju spori. Þá heyrðu birnirnir í okkur langar leiðir og vissu hvar við vorum á ferð. Ef þeir hrökkva við og ef þú gengur milli móður og unga þá getur þú átt von á árás. Á slíkum gönguferðum er mér ávalt í huga minningin um konu, sem ég þekki. Hún er jarðfræðingur og vann í Alaska árið 1977. Það vað hún fyrir árás bjarndýrs og hann bókstaflega át af henni báða handleggina. Ef þið sækið Yellowstone heim, þá haldið ykkur á göngustígunum!
Askja sígur
29.6.2014 | 07:07
Askja er ein stærsta eldstöð Íslands. Í Öskju eru þrjár öskjur eða hringlaga sigdældir, og er sú yngsta frá gosinu 1875: Öskjuvatn. Það var stórt sprengigos, sem dreifði mikilli ösku yfir Austurland og kann að hafa hrint af stað fólksflótta til Norður Ameríku. Ekki hefur gosið hér síðan 1961 en Askja er ætíð óróleg undir niðri. Jarðeðlisfræðingar hafa fylgst með Öskju síðan 1966. Myndin sýnir hæðarbreytingar í Öskju frá 1966 til vorra daga, eftir Sturkell. Þetta er alls ekki einfalt, því ýmist rís eða sígur öskjubotninn. Þessar mælingar benda til þess að það séu hreyfingar á kviku á um 2,5 til 3 km dýpi undir miðri öskjunni. Einnig virðist kvika vera á hreyfingu á um 16 km dýpi, eins og önnur mynd sýnir, eftir Soosalu og félaga. Þar kemur vel í ljós að jarðskjálftar raða sér á tvö vel aðskilin dýpi í jarðskorpunni undir Öskju og Herðubreiðartöglum. En Askja er einnig á flekamótum og gliðnun og aðrar flekahreyfingar hafa því einnig áhrif á lóðréttar hreyfingar jarðskorpunnar. Það er reyndar allt nágrenni Öskju sem hefur verið á hreyfingu undanfarin ár. Ekki má gleyma hinum stöðugu jarðskjálftum, sem herjuðu í jarðskorpunni djúpt undir Upptyppingum árið 2007 og tíðum jarðskjálftum undir Herðubreiðartöglum. Að öllum líkindum er kvika oft á hreyfingu á flekamótunum í grennd við Öskju. En það er ekki þar með sagt að eldgos séu í nánd. Okkur ber að hafa það í huga, að meiri hluti kvikunnar, sem kemur upp úr möttlinum, safnast fyrir í jarðskorpunni sem berggangar og önnur kvikuinnskot, og aðeins brot af kvikunni kemur upp á yfirborðið. Það er því miður engin GPS stöð staðsett í Öskju, en sú næsta er á Dyngjuhálsi, um 40 km fyrir suðvestan og við norður rönd Vatnajökuls. Á Dyngjuhálsi rís land, sennilega vegna bráðnunar Vatnajökuls. Bráðnunin kemur vel fram í árstíðasveiflum á GPS ritinu fyrir neðan.
Hornafjörður er á uppleið
26.6.2014 | 13:07
Ég eignaðist mitt fyrsta GPS tæki árið 1990. Það var af Trimble gerð, kostaði yfir $4000 og var fyrsta kynslóð af GPS tækjum, sem komu á markaðinn. Ég beitti því fyrst við rannsóknir mínar á Krakatau eldfjalli í Indónesíu. Stóra byltingin með GPS tæki gerðist í Flóastríðinu, þegar Írak réðst inn í Kuwait og Bandaríkjaher svaraði með áras á Írak. GPS tæki voru þá komin í hendur flestra hermanna og svo strax í hendur almennings eftir það. Nú er hægt að fá ágætis GPS tæki fyrir innan við $100 og notkun þessarar tækni hefur valdið byltingu í siglingum, ferðum og vísindum.
Jarðeðlisfræðingar á Íslandi hafa beitt GPS tækninni með ágætum árangri. Á Íslandi var fyrst sett út GPS net umhverfis Vatnajökul árið 1991 og fylgst vel með því til 1999 af Lars Sjöberg og félögum. Þeir mældu landris á bilinu 5 til 19 mm á ári umhverfis Vatnajökul yfir þetta tímabil. Fyrsta mynd sýnir hluta af þeirra niðurstöðum. Lengdin á lóðréttu línunum er í hlutfalli við landris á þessu tímabili. Aðrir telja að ris í grennd við Höfn í Hornafirði hafi verið um 16 til 18 mm á ári síðan 1950. Á vef Veðurstofu Íslands er hægt að fylgjast með skorpuhreyfingum á Íslandi á rauntíma. Þar eru til dæmis gögn um GPS mælingar í Höfn, eins og önnur mynd sýnir. Landris er greinilega mikið og stöðugt. Fyrir tímabilið frá 1998 til 2013 er risið að meðaltali um 17,1 mm á ári, samkvæmt GPS í Höfn. Síðasta myndin er eftir Þóru Árnadóttur og félaga. Hún sýnir lóðréttar hreyfingar á landinu öllu, fyrir tímabilið frá 1999 til 2004. Mælikvarðinn sýnir hreyfinguna og það er augljóst að nær allt landið er á uppleið, en hreyfingin er langmest umhverfis Vatnajökul. Á þessu svæði er hreyfingin allt að eða yfir 20 mm á ári. Bráðnun Vatnajökuls og annara jökla hálendisins eru auðvitað skýringin á þessi risi landsins. Það eru þó til undantekningar frá þessu landrisi og er Öskjusvæðið ein slík, en þar hefur land sigið, eins og myndin sýnir. Landris umhverfis Vatnajökul kann að hafa mest og alvarlegust áhrif á Hornafjarðarós, en hann er í dag talin einhver erfiðasta innsigling landsins. Sandrifið Grynnslin liggur þvert um siglingaleiðina inn í ósinn og þar er dýpi aðeins um 6 til 7 metrar. Þessi innsigling mun því versna stöðugt vegna bráðnunar Vatnajökuls og landrisins, sem því fylgir.
Jarðeðlisfræði | Breytt s.d. kl. 18:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Hvað var jökullinn þykkur?
21.6.2014 | 07:11
Ég fjallaði hér fyrir neðan um jökulgarðinn á Látragrunni á ísöld. Íshellan, sem myndaði hann hefur náð allt að 130 km frá landi og líkist því íshellum þeim, sem streyma frá Suðurheimskautinu í dag. En þessi íshella út úr Breiðafirðinum var botnföst og ekki fljótandi. Líkön af ísþykktinni byggjast á því að ísinn hagi sér eins og parabóla, en þykktin er mikið háð því hvað viðnám er mikið milli jökulsins og landsins sem hann fer yfir. Myndin sýnir nokkrar niðurstöður um ísþykkt, sem Eggert Lárusson (1983) hefur sett fram fyrir Vestfirði. Hér er jökullinn inn á landi allt að 2 km þykkur, en sennilega um 1,2 km. Síðan þynnist hann jafnt og þétt úti á landgrunninu, en er alltaf meir en nokkur hundruð metrar (lárétti ásinn er km).
Jarðeðlisfræði | Breytt s.d. kl. 07:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)