Færsluflokkur: Jarðeðlisfræði
Jarðspá og Galapagos
30.4.2014 | 13:28
Markmið vísindanna er að kanna og skilja náttúruna. Þegar því takmarki er náð, þá eru vísindin fær um að beita samansafnaðri reynslu og upplýsingum til að spá um framvindu mála á hverju sviði náttúrunnar. Við spáum til dæmis í dag bæði veðurfari, þróun hagkerfa, þroskun fiskistofna og uppskeru. Spáin er það sem gefur vísindastarfsemi gildi. Vísindi sem eingöngu lýsa hegðun og ástandi náttúrunnar eru ónýt, ef spágildi er ekki fyrir hendi. En stóri vandinn er sá, að stjórnmálamenn, yfirvöld og jafnvel almenningur hlusta oft ekki á spár vísindanna. Besta dæmið um það eru nær engin viðbrögð yfirvalda við spá um loftslagsbreytingar og hlýnun jarðar. Ef vandamálið er hægfara og kemst ekki inn í fjögurra ára hring kosningabaráttunnar í hverju landi, þá er það ekki vandi sem stjórnmálamenn skifta sér að. Ég hef til dæmis aldrei heyrt íslenskan stjórnmálaflokk setja loftslagsbreytingar framarlega á stefnuskrá sína.
Jarðvísindamenn hafa safnað í sarpinn fróðleik í meir en eina öld um hegðun jarðar, en satt að segja tókst þeim ekki að skilja eðli og hegðun jarðar fyrr en í kringum 1963, þegar flekakenningin kom fram. Þá varð bylting í jarðvísindum sem er sambærileg við byltingu Darwinskenningarinnar í líffræðinni um einni öld fyrr. Nú er svo komið að við getum spáð fyrir um flekahreyfingar á jörðu, þar sem stefna og hraði flekanna eru nokkuð vel þekktar einingar. Þannig er nú mögulegt til dæmis að spá fyrir um staðsetningu og hreyfingu meginlandanna. Önnur svið jarðvísindanna eru ekki komin jafn langt með spámennskuna. Þannig er erfitt eða nær ógjörlegt ennþá að spá fyrir um jarðskjálfta og eldgosaspá er aðeins góð í nokkra klukkutíma í besta falli.
Við getum notað jarðspá til að segja fyrir um breytingar á jarðskorpu Íslands í framtíðinni og um stöðu og lögun landsins. Ég gerði fyrstu tilraun til þess í kaflanum Galapagos Ísland framtíðar? í bók minni Eldur Niðri, sem kom út árið 2011 (bls. 261-269). Þar nýtti ég mér upplýsinar um þróun jarðskorpunnar á Galalapagos svæðinu í Kyrrahafi, en þar er jarðfræðin alveg ótrúlega lík Íslandi, eða öllu heldur hvernig Ísland mun líta út eftir nokkrar milljónir ára.
Á Íslandi og Galapagos eru tvenns konar hreyfingar jarðskorpunnar í gangi. Annars vegar eru láréttar hreyfingar, eða rek flekanna, en hins vegar eru lóðréttar hreyfingar, sem hafa auðvitað bein áhrif á stöðu sjávar og strandínuna. Á báðum svæðunum eru einnig tvö fyrirbæri, sem stýra þessum hreyfingum, en það eru úthafshryggir (í okkar tilfelli Mið-Atlantshafshryggurinn) og heitir reitir eða hotspots í möttlinum undir skorpunni. Á Galapagossvæðinu hefur úthafshryggurinn færst stöðugt frá heita retinum, sem illug undir vestustu eyjunum. Afleiðing þess er sú, að jarðskorpan kólnar, dregst saman, lækkar í hafinu og strrandínan færist inn á landið. Myndin fyrir neðan sýnir strandlínu Galapagos eyja í dag (til vinstri) og fyrir um 20 þúsund árum (myndin til hægri). Það er ljóst að eyjarnar eru að síga í sæ vegna þess að jarskorpan er að kólna. Þetta er bein afleiðing af því, að úthafshryggurinn er smátt og smátt að mjakast til norðurs og fjarlægjast heita reitinn undir eyjunum. Áður var töluvert undirlendi sem tengdi allar eyjarnar sem þurrt land, en nú eru eingöngu fjallatopparnir uppúr sjó. Eins og ég greindi frá í bók minni Eldur Niðri, þá tel ég að svipuð þróun eigi sér stað á Íslandi, en hun er komin miklu skemur á veg heldur en í Galapagos.
Hekla óróleg?
26.3.2013 | 12:37
Í dag berast fréttir þess efnis, að Almannavarnir hafa lýst yfir óvissustigi í Heklu vegna jarðskjálfta á svæðinu. Að sjálfsögðu verða menn órólegir og velta fyrir sér hvort eldgos sé í nánd. Ekki eru þessi gögn sýnd á vef Veðurstofunnar. Hins vegar má nálgast gögn varðandi þenslumælingar í bergi í Heklu í dag. Fyrsta myndin sýnir þau gögn. Þensla í berginu breytist við eldgos, og kann að gefa vísbendingu um yfirvofandi gos. Samþjöppun bergsins eykst og minnkar samfara hreyfingu kviku í berginu. Ekki er að sjá neina breytingu á þenslu á línuritinu í dag á þessari mynd.
Aðrar upplýsingar má sjá á vefsíðu, sem Jón Frímann heldur úti um jarðskjálftavirkni. Hann hefur staðsett jarðskjálftamæli nærri Heklu (í Heklubyggð) og er neðri hluti línuritsins fyrir daginn í dag, hinn 26. mars. Takið eftir að hver lárétt lína sýnir einn klukkutíma. Neðsta línan er síðasta klukkustundin.
Það er greinilega nokkur órói á jarðskjálftamælinum, bæði í gær og í dag, en það er ekki ljóst hvort óróinn er vegna hreyfinga í jarðskorpunni, eða vegna vinda og veðurs. Eins og Jón hefur bent á, þá er þetta hávaðasöm jarðskjálftastöð vegna vinda. Það var vindur á svæðinu í gær, en minni í morgun, eins og þriðja mynd sýnir. Þetta getur að hluta til skýrt óróann á jarðskjálftamæli Jóns Frímanns. Fylgjumst með framhaldinu
Lítill (1,4) en fremur djúpur (11,2 km) jarðskjálfti varð un dir Heklu hinn 21. mars, sem kann aþ benda til kvikuhreyfinga.
Jarðeðlisfræði | Breytt s.d. kl. 12:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Jörðin er stærsti kjarnorkuofninn
6.2.2013 | 20:01
Eldgos eru aðeins einn þáttur í þeim hita, sem streymir út úr jörðinni. Allt yfirborð jarðarinnar leiðir út hita út í hafið og inn í andrúmsloftið. Þetta er hiti, sem á uppruna sinn bæði í möttlinum undir og einnig í kjarnanum. Hitamælingar í um tuttugu þúsund borholum víðs vega á jörðinni sýna, að jörðin gefur frá sér um það bil 44 terawött af hita (terawatt er eitt watt eða vatt, með tólf núllum á eftir, eða 44 × 1012 W). Þetta er stór tala, en það samsvarar samt sem áður aðeins um 0,075 wöttum á hvern fermeter af yfirborði jarðar. Eins og önnur myndin sýnir, þá er hitastreymið aðeins minna frá meginlöndunum (um 65 milliwött á fermeter) en dálítið hærra upp úr hafsbotninum (um 87 milliwött á hvern fermeter). Takið eftir að hitaútstreymið út úr jörðinni er hæst á úthafshryggjunum (rauðu svæðin á mynd 2), enda er skorpan þynnst þar og stutt niður í heitan möttulinn. Ef við tökum fyrir eitt þúsund fermetra svæði á jörðinni, þá gefur það frá sér heildar hitaorku, sem samsvarar aðeins 75 watta ljósaperu.
En samt sem áður er heildarorkan sem streymir frá jörðinni mjög mikil. Hún er þrisvar sinnum meiri en öll orkan, sem mannkynið notar á einu ári. Hvaðan kemur þessi innri hiti og hvernig verður hann til? Það hefur lengi verið skoðun jarðeðlisfræðinga að hann væri af tvennum rótum. Annars vegar er hiti, sem myndast vegna geislavirkra efna inni í jörðinni. Þetta er eins konar kjarnorkuhiti. Hins vegar er frumhiti (primordial heat), sem er tengdur myndun og uppruna jarðarinnar.
Þar til nýlega var ekki vitað hvort geislavirki hitinn eða frumhitinn væri mikilvægari í orkubúskap jarðarinnar. Nýlega gerðu vísindamenn í Japan mælingar á magni af örsmáum frumeindum, sem nefnast neutrinos, en þær streyma upp úr jörðinni og eru mælikvarði á magn af geislavirkum hita. Grafinn djúpt í jörðu undir fjalli í Japan er geymir fullur af steinolíu, með rúmmál um 3000 rúmmetra. Umhvefis hann eru tæki, sem skynja og telja neutrinos. Flestar þeirra koma utan úr geimnum, sumar frá kjarnorkuverum í nágrenninu, en nokkrar af þessum neutrinos koma djúpt ur jörðu, þar sem þær myndast vegna geislavirkra efna eins og þóríum og úraníum.
Þessar mælingar sýna að um helmingur af jarðhitanum er vegna geislavirkni í möttli jarðar, þar sem efni eins og úraníum og þóríum klofna niður í önnur frumefni og gefa af sér hita. Ég hef fjallað hér áður um hvernig þóríum kjarnorkuver kunna að bjarga okkur í framtíðinni, en í þeim er hgt að framleiða orku, sem losar ekkert koltvíoxíð út í anrdúmsloftið, hefur engin neikvæð áhrif á loftslag og skilar engum geislavirkum úrgangi.
Við mælingarnar í Japan kom í ljós að geislavirkni frá úraníum-238 gefur af sér um 8 terawött, og sama magn myndast vegna geislavirkni á þóríum-232. Í viðbót gefur geislavirka efnið kalíum-40 af sér um 4 terawött. Það er því ljóst að geislavirkni og kjarnorkukraftur dugar ekki til að skýra innri hita jarðar. Um helmingur af hitanum, sem berst út frá jörðinni er því frumhiti. Jörðin hefur því ekki enn tapað öllum hitanum, sem varð til við myndun plánetunnar. Eftir 4,5 milljarða ára frá uppruna sínum er jörðin því ennþá heit. Það er talið að hún kólni aðeins um 100 stig á milljarði ára, svo eftir nokkra milljarða ára mun hún kólna hið innra, eldvirkni og flekahreyfingar hætta.
Yfirleitt er álitið að geislavirki hitinn myndist að langmestu leyti í möttlinum. Flest eða öll líkön um kjarna jarðar eru á þann hátt, að þar sé aðeins járn og dálítið af brennisteini, en ekki neitt af geislavirkum frumefnum.
Sjávarborð hækkar hraðar
29.11.2012 | 02:47
Loftslagsbreytingar eru nú viðurkennd staðreynd og jafnvel forseti Bandaríkjanna er loksins farinn að fjalla um málið. Mest hefur umfjöllunin verið um hlýnun, en ein megin afleiðing hnattrænnar hlýnunar er hækkandi sjávarmál vegna bráðnunar jökla og útþenslu hafsins þegar það hitnar. Alþjóðaskýrslur gerðar af IPCC árin 1990 og 2000 héldu því fram að sjávarmál heimshafanna hækkaði að meðaltali um 2.0 mm á ári. Nýrri gögn, fyrir tímabilið 1993 til 2011 sýna hins begar að hækkunin er 3.2 ± 0.5 mm á ári, eða 60% hraðar en fyrri tölur. Það er segin saga með allar spár um loftslagsbreytingar: þær eru alltaf of lágar og verstu eða hæstu tölurnar eru því miður oftast nærri lagi. Þetta er staðan í dag, en hvað um framtíðina? Stefan Rahmstorf og félagar hafa tekið saman spár um sjávarborð framtíðarinnar, eins og sýnt er á línuritinu. Hér eru sýnd líkön af hækkun sjávarborðs, sem eru byggð á mismunandi tölum um losun koltvíoxíðs út í andrúmsloftið. Það eru bláu línurnar, sem eru trúverðugastar að mínu áliti og passa best við það sem á undan er gengið. Allt bendir til að sjávarborð muni rísa hraðar í framtíðinni og sennilega ná allt að 6 til 10 mm á ári fyrir lok aldarinnar, samkvæmt könnun Rahmstorfs.
Áhrifin af slíkum breytingum verða gífurlegar víða úti í heimi, þar sem stórar borgir hafa risið á áreyrum og öðru láglendi. Á Íslandi er málið flókið, meðal annars vegna skorpuhreyfinga, sem eru óháðar hnattrænni hlýnun. Á Reykjavíkursvæðinu sígur jarðskorpan, eins og mórinn í Seltjörn sýnir okkur. Talið er að Seltjarnarnesið hafi sigið af þessum sökum um 0,6 til 0,7 mm á ári hverju síðan land bygðist. Sennilega er þetta sig tengt því, að Seltjarnarnesið og reyndar allt Reyjavíkursvæðið fjarlægist hægt og hægt frá virka gosbeltinu, en þá kólnar jarðskorpan lítið eitt, dregst saman og yfirborð lands lækkar. Ofaná þetta sig bætist síðan hækkun heimshafana. Hverjar verða þá helstu breytingarnar hér? Tökum Tjörnina í Reykjavík sem handhægt dæmi. Nú er yfirborð Tjarnarinnar um 2,2 metra fyrir ofan sjávarmál. Með 3,2 mm hækkun sjávar á ári tæki það 680 ár áður en sjór fellur inn í Tjörnina, en þetta er greinilega allt of lág tala samkvæmt athugunum Rahmtorfs of félaga. Með líklegri hækkun um10 mm á ári í framtíðinni eru það aðeins um 220 ár þar til sjór fellur inn í Tjörnina og yfir miðbæinn.
Sjö Ítalskir jarðvísindamenn dæmdir sekir um manndráp
23.10.2012 | 06:45
Ítalir hafa aldrei farið vel með sína vísindamenn og gera ekki enn. Á Ítalíu býr þjóðin, sem brenndi Giordano Bruno á bálkesti árið 1600 vegna hugmynda hans um heimsmyndina og um grundvallaratriði í stjörnufræði, sem braut í bága við kenningar kaþólskrar kirkju. Árið 1633 var stjörnufræðingurinn Galileo Galilei dæmdur í fangelsi fyrir að aðhyllast kenninguna að sólin væri hin rétta miðja kerfisins, sem jörðin snýst um. Í gær dæmdi ítalskur dómstóll sjö jarðvísindamenn seka um manndráp í tengslum við jarðskjálftann undir borginni L´Aquila árið 2009. Það var hinn 6. apríl árið 2009 að jarðskjálfti varð beint undir L´Aquila, en hann var af stærðinni 6,3. Hann var á aðeins 9,5 km dýpi og að minnsta kosti 308 manns fórust og borgin var lögð í rúst. Ég hef bloggað um skjálftan og umdeild viðbrög jarðvísindamanna áður hér:
http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1154541/
Smáskjálftar voru tíðir undir L´Aquila í byrjun ársins 2009 og sjö manna nefnd jarðvísindamanna var skipuð til að rannsaka málið. Íbúar voru mjög órólegir og áhyggjufullir, einkum þegar jarðeðlisfræðingurinn Giampaolo Giuliani spáði stórum jarðskjálfta á grunni radon gas mælinga sinna. Sjömanna nefndin hélt almennan fund með borgurum hinn 31. mars 2009 og birti yfirlýsingu þess efnis, að það væri engin hætta á stórum skjálfta. Sex dögum síðar reið stóri skjálftinn yfir, 6,3 að stærð, með hörmulegum afleiðingum, eyðileggingu og dauða. Nú hafa meðlimir nefndarinanr verið fundnir sekir um manndráp og fengið sex ára fangelsisdóm fyrir að hafa ekki varað íbúana við yfirvofandi hættu. Sjömenningarnir sem hlutu fangelsisdóminn voru öll ítalska ríkisnefndin um spá og forvörn frá jarðvá. Ég þekki vel einn af hinum dæmdu. Hann heitir Franco Barberi og er eldfjallafræðingur, sem hefur á seinni árum orðið einn áhrifamesti jarðvísindamaður á Ítalíu. Við höfum áður starfað saman að málum sem snerta eldgos og eldgosahættu frá Vesúvíusi. Dómurinn í L´Aquila vekur margar spurningar og þær snerta okkur hér á Íslandi einnig. Er hægt að ætlast til að jarðvísindamenn geti spáð fyrir um stóra jarðskjálfta eða eldgos? Eiga vísindamenn yfirleitt að vera að gefa út yfirlýsingar til almennings um mál sem snerta hættuástand, þegar þeir hafa ekki nægileg gögn í höndum? Þessi dómur mun vafalaust hafa mikil áhrif á hegðun jarðvísindamanna á Ítalíu varðandi jarðvá á næstunni. Ég tel líklegt að enginn ítalskur fræðimaður fáist nú til að gefa yfirlýsingar eða spá um jarðvá í kjölfar þessa dóms. Allir aðilar þurfa nú að hugsa vandlega sinn gang og ákvarða hvaða ráðgjafar er óskað eftir frá jarðvísindamönnum og hvaða ábyrgð henni fylgir. Enn er ósvarað stórum spurningum varðandi vísindin og skjálftann mikla undir L´Aquila. Var radon gasið sem Giampaolo Giuliani mældi góð vísbending um yfirvofandi hættu? Voru smáskjálftarnir undan þeim stóra einnig góð vísbending, sem nefndin tók ekki með í reikninginn? Jarðskjálftafræðingar telja almennt, að smáskjálftar séu ekki áreiðanleg vísbending um yfirvofandi stórskjálfta. Á Ítalíu eru smáskjálftar áberandi á undan um helmingi af öllum stórskjálftum, en aðeins í um 2% af öllum tilfellum fylgir stórskjálfti í kjölfarið á smáskjálftahrinu. Ég mun nú samt halda ótrauður áfram að birta mínar skoðanir á jarðvá, enda er Kvíabryggja hér alveg í næsta nágrenni við Stykkishólm og virðist vistin þar vera nokkuð góð.
Jarðeðlisfræði | Breytt s.d. kl. 06:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Katla skelfur
17.7.2012 | 15:22
Hver uppgötvaði Kjarnann?
30.5.2012 | 12:41
Uppruni Íslands: möttulsstrókur eða fornir flekar?
28.5.2012 | 05:55
Jarðeðlisfræði | Breytt s.d. kl. 05:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Demantsgluggin sem sér djúpt inn í Jörðina
26.5.2012 | 14:22
Hvað er að gerast undir Krýsuvík?
25.5.2012 | 13:29