Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2010

Bakkus og Spartakus á Vesúvíusi

Vesúvíus 1800Frægasta eldfjall heims er tvímælalaust Vesúvíus á Ítalíu. Þar varð frægasta gosið í mannkynssögunni, er borgirnar Pompeii og Herkúlaneum grófust undir gjóskuflóðum, ösku og vikri í miklu þeytigosi hinn 24. ágúst árið 79 e.Kr.  Ég byrjaði að rannsaka jarðlögin frá þessu merka gosi árið 1976, og birti mína fyrstu grein um það í ritinu American Journal of Archaeology árið 1979.  Síðan hef ég starfað mikið á Vesúvíusi og við uppgröft í rómversku borgunum sem fóru í kaf, og ritað um þau störf.   Ein grein mín, sem er hentug almenningi til lestrar varðandi þetta merka eldgos, fylgir hér með sem PDF skrá fyrir neðan þessa bloggfærslu. Hér með fylgir gouache mynd af Vesúvíusi sem er úr Eldfjallasafni í Stykkishólmi, en hjá okkur eru tugir gosmynda af Vesúvíusi frá ýmsum tímum. BakkusHér er rjúkandi eldfjallið séð yfir rústirnar í Pompeii, en myndin er máluð á átjándu öldinni.  Það er af miklu að taka þegar maður byrjar að fjalla um Vesúvíus og borgir hans, en ég vil byrja á að fjalla hér aðeins um ástand fjallsins fyrir gosið.   Upplýsingar um Vesúvíus FYRIR gosið mikla árið 79 eftir Krist koma frá ólíklegustu stöðum.  Í fyrsta lagi eru það tvær myndir varðveittar frá dögum rómverja, sem eru taldar sýna fjallið.  Í öðru lagi eru það sögulegar heimildir tengdar uppreisn skylmingarþræla á Ítalíu undir stjórn Spartakusar.  Í þriðja lagi eru upplýsingarnar sem við fáum við jarðfræðiathuganir á fjallinu og nágrenni.    Hér til hliðar er mynd sem fannst í rústunum í glæsilegu húsi í borginni Pompeii, og er talið að hún sýni eldfjallið Vesúvíus og guðinn Bakkus.  Húsið er ávalt kallað  Casa de Centenario eða Aldarhúsið, þar sem það var grafið upp einni öld eftir að borgin Pompeii var aftur “uppgötvuð” og uppgröftur hófst.Kort af Pompeii    Húsið var grafið upp árin 1879, 1881 og 1902. Reyndar eru þetta tvær byggingar, sem eru tengdar og má vera að ér hafi búið tvær fjölskyldur þeirra  Rusti og Tiberíusar: Domus A Rustii Veri e Tiberius Claudi Veri.  Húsið er í miðri borginni  (Regio  IX. Insula 8. Casa 3 og 6), eins og kortið af Pompeii sýnir.  Á vegg í einum ganginum eða atríum er myndin máluð sem allstórt freskó, en eftir fundinn var myndin tekin af veggnum og flutt í Fornminjasafnið í Napólíborg.  Hér er eldfjallið Vesúvíus sýnt með fremur reglulegri lögun og einum toppi.  Í dag hefur fjallið hins vegar tvo toppa, síðan form þess breyttist við gosið mikla 79 e. Kr.  Neðri hluti fjallsins er vafinn vínekrum á myndinni. lacryma w Einnig sýnir myndin guðinn Bakkus, og ef til vill hefur hann verið höfuð ástæðan fyrir því að myndin var gerð. Bakkus var grísk-rómverskur guð víns og lífsnautna og mikið dýrkaður í Pompeii.  Bakkus er hlaðinn stórum kippum af vínberjum. Fyrir framan hann eru fléttur úr gróðri, og snákur nálgast frá altarinu til vinstri. Bakkus gefur hlébarðanum vín að drekka.     Vínmenning er enn í dag stór þáttur í lífi íbúa héraðsins Campania, umhverfis Vesúvíus.  Eitt þekktasta og besta vín Ítalíu ber nafnið Lacryma Christi, eða tár Krists, og það er vínið sem er einungis ræktað í hlíðum Vesúvíusar,  þar sem vínekrur með vínberjategundunum Coda di Volpe, Caprettone,  Falanghina og Piedirosso vaxa og þrífast vel í vikrinum og öskunni. Spartacus eftir Kubrick    Einn sá fyrsti sem getur um Vesúvíus var arkitektinn Vitrúvíus um 16 fyrir Krist:  “Hér með er skráð að mikill hiti var undir Vesúvíusi í fornöld, og þar kom upp eldur sem breiddist yfir landið.”   Árið 62 f.Kr. varð mikill jarðskjálfti undir fjallinu og kann að vera að hann merki forspil fyrir gosið mikla 17 árum síðar.  Fræðimaðurinn Seneka ritaði mikið verk, Naturales Questiones, eða Spurningar um náttúruna, árið 65 e. Kr. Þar segir: “Við höfum frétt að Pompeii, fjöruga borgin í Campaníu, hafi orðið fyrir miklu tjóni vegna jarðskjálfta sem hafði áhrif á allar sveitir umhverfis. “   CaeciliusÍ húsi bánkastjórans í Pompeii, Lucius Caecilius Jucundus, er musteri með veggmynd úr marmara sem sýnir á kátlegan hátt áhrif jarðskjálftans, eins og myndin til hiðar sýnir.  Hús eru að hrynja og jafnvel riddarinn á styttunni er að detta af baki!  Viðgerðum á húsum var ekki lokið þegar gosið mikla reið yfir Pompeii sautján árum síðar.  Frekari upplýsingar um Vesúvíus koma fram í sambandi við þrælauppreisn á Ítalíu árið 73 f. Kr. Til 71 f.Kr., en forsprakki þrælanna var skylmingaþrællinn Spartakus.  Kvikmyndin Spartacus, sem Stanley Kubrick gerði árið 1960, segir söguna mjög vel og hún er ein af mínum mestu uppáhaldskvikmyndum.  Forum Uppreisnarher Spartakusar gerði virki sitt í gígnum á Vesúvíusi.  Samtíma sagnir segja að þá var aðeins ein leið upp fjallið. Uppreisnarmenn notuðu reiði til að komast aðarar leiðir niður hamrana og komu rómverska hernum á óvart og sigruðu þá.  Sögnin um Spartakus, um 150 árum fyrir gosið mikla 79 e. Kr. bendir til þess að fjallið hafi verið  vel gróið og skógur náð langt upp hlíðarnar. Spartakus var frá Grikklandi, en á nítjándu öldinni varð hann ein af stóru hetjunum fyrir Karl Marx og tákn fyrir marxista í baráttu gegn harðræði og einveldi.     Íslendingar hafa lengi vanið komur sínar til Vesúvíusar og næsta nágrennis.  Ég tel víst að Hrafn Sveinbjarnarson (1166 -1213)  annálaðasti læknir  Íslands á þjóðveldisöld, hafi séð Vesúvíus á leið sinni suður frá Rómarborg. Talið er að Hrafn hafi sótt heim háskólann og lækningasetrið í Salernóborg á Ítalíu, sem er skammt fyrir sunnan Vesúvíus.  Fjölnismaðurinn Tómas Sæmundsson ferðaðist um Ítalíu árið 1833 og dvaldi í Napólí um skeið.   Hann segir frá eldfjallinu og ferð sinni í Skírni:  “Þannig hagar landi fyrir vestan og norðan Napoli, en í austri þaðan er einstakt á sléttunni eldfjallið Vesúvíus, og er úr borginni til fjallsrótanna svo sem vegarstika en meira en helmingi  lengra upp á það. Það er nokkuð lægra en Hekla og í lögun áþekkt og önnur eldfjöll, ávalt að ofan með eldvörpu í kollinn, bratt  nokkuð niður til miðs, en þaðan af aflíðandi til allra hliða, hvar hrauneðjan og vikurinn hefir staðar numið. Kringum alt fjallið eru nú fagrar bygðir  og vaxa langt upp eftir því ber, sem af sér gefa hin ágætustu vín. Vesúvíus1631Sunnanvert við það lá forðum Pompeji   en vestanvert og á sjávarbakkanum Hercúlanum ; liggur þar nú  hraun yfir og er nú bygt ofan á hraunleðjunni, hvar borgin var  undir, og slitnar ei húsarunan með sjónum þaðan til Napoliborgar.  Eldfjallið er til ógnunar og þær  byltingar, sem jarðeldarnir hafa til leiðar komið, gera héruð þessi  enn fýsilegri og eftirtektaverðari fyrir hvern þann, sem ann skoðun náttúrunnar, og þeim sem fræðast vill um fornaldirnar, getur  ekkert verið betur að skapi, eu að líta svo margar menjar þeirra,  sem hér bera fyrir augu, er jafnvel heilar borgir, sem týndar hafa  verið fram undir 2000 ár, koma upp úr jörðunni.”   Síðast en ekki síst ber að geta þess að Einar Magnússon, skemmtilegasti kennari Menntaskólans í Reykjavik, gekk á Vesúvíus árið 1921 og ritaði þar um.  Ég lýk þessum pistli um Vesúvíus með mynd úr Eldfjallasafni, sem sýnir gosið mikla 1631, stærsta gosið eftir 79 e.Kr.  Meira um þetta merka fjall síðar. 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Stóri Skjálftinn í Síle

Sigbelti

Fréttir berast af mjög stórum jarðskjálfta í Síla í dag, 27 febrúar 2010. Að minnsta kosti 900  hafa farist. Hann mældist með styrkleika  8,8 Mw og á 35 km dýpi undir hafsbotninum um 100 km fyrir vestan borgina Chillan í Síle, þar sem allt hristist í meir en tvær mínútur.  Til samanburðar var skjálftinn í Haítí 7,0 Mw.  Takið eftir að ég gef styrkleikann í Mw, en á Mw (moment magnitude) skala er skjálfti sem er einu stigi hærri um 31,6 sinnum kraftmeiri.  Til dæmis er 7,0 skjálfti 31,6 sinnum sterkari en 6,0 skjálfti, og um þúsund sinnum stærri en 5,0 skjálfti.

Stærsti skjálfti sem mælst hefur síðastliðin eitt hundrað ár varð í Síle árið 1960, og hann var 9,5. Þá rifnaði um 900 langt belti með strönd Síle og 1655 manns fórust í Síle en 61 manns fórust á Hawaí, Japan og Filipseyjum af völdum flóðbylgju sem skall á strönd Japan næsta dag. Jarðskjálftar í Síle

Myndin til hliðar sýnir dreifingu á jarðskjálftum undir Síle, og eru litir dílanna mælikvarði á dýpi skjálftanna. Með 14 skjálfta stærri en 7,0 síðastliðin 100 ár er Síle eitt virkasta jarðskjálftasvæði jarðar.  Skýringin er tengd sibeltinu sem liggur við vestur strönd Suður Ameríku. Hér sígur Nazca flekinn til austurs og niður undir Suður Ameríku flekann á um 80 mm hraða á ári. Kortið til hliðar sýnir sigbeltið undir Síle, og eru litirnir tengdir dýpi Nazca flekans undir meginlandi Suður Ameríku, í hundruðum kílómetra.  En það er ekki hraðinn sem skiftir öllu máli,  heldur viðnám flekanna þar sem þeir skella saman.  Viðnámið er háð eðlisþyngd, hita og aldri flekans sem sígur niður, eða Nazca flekans.  Hann er mjög ungur,  og hefur myndast og hlaðist upp við eldvirkni tiltölulega nýlega á Kyrrahafshryggnum fyrir vestan.  Smát og smátt kólnar 100 km þykkur flekinn, og um leið og hann kólnar þá dregst hann dálítið saman og eðlisþyngdin vex.  Dýpi Nazca flekansSá hluti Nazca flekans sem sígur undir Síle er aðeins um 30 miljón ára gamall. Hann hefur kólnað töluvert en er enn tiltölulega léttur og af þeim sökum rekst hann illa á Suður Ameríkuflekann.  Myndin til hliðar sýnir Nazca flekann undir Suður Ameríku, og eru litirnir mælikvarði á dýpi flekans undir meginlandinu. Svarti hringurinn eru upptök 8,8 Mw skjálftans hinn  27. febrúar 2010. Áreksturinn getur stöðvað sigið um tíma og "læst" sigbeltinu, en mikil spenna hleðst þá upp í sigbeltinu, alveg eins og ef við tökum trjágrein og sveigjum hana.  Fyr eða síðar kemur að því að spennan er meiri en greinin þolir og hún brotnar. Á sama hátt hleðst krafturinn upp í sigbeltinu undir Síle, þar til krafturinn er meiri en styrkleiki jarðskorpunnar og hún brotnar og jarðskjálfabylgjur dreifast út.  Það er aðeins partur af sigbeltinu sem rifnar í hvert sinn.  Þess vegna er mikilvægt að kortleggja þau svæði sem hafa rifnað, og enn meira atriði að kortleggja svæðin sem hafa EKKI rifnað.  SkemmdirÞar verða stóru skjálftarnir í framtíðinni.  Að lokum: það má skýra flest (en ekki allt) í jarðsögunni með flekakenningunni, sem er góður mælikvarði á það að þessi vísindakenning er nokkð næri lagi að vera rétt, þótt hún sé tiltölulega ung ennþá  (frá 1963). 


Anortósít í Hrappsey og á Tunglinu

   Hrappsey grjót Í Eldfjallasafni í Stykkishólmi sýnum við grjótborð þar sem vænir hnullungar af flestum bergtegundum Íslands eru til sýnis og til að þukla á. Steinninn sem hefur vakið mesta athygli er ljósgrár að lit, heitir anortósít og er frá Hrappsey í Breiðafirði.   Hrappsey bergHrappsey er merkileg fyrir margt. Afi minn Oddur Valentínusson,  fyrrum hafnsögumaður á Breiðafirði, er til dæmis fæddur í Hrappsey árið 1876. Það var rúmum eitt hundrað árum eftir að fyrsta prentsmiðja  og bókaútgáfa Íslands,  sem laut ekki yfirráðum biskupsstólanna, var stofnuð í Hrappsey árið 1773 og starfaði til 1794.   Það mun hafa verið Bogi bóndi Benediktsson sem keypti prentsmiðjuna í Kaupinhöfn og lét flytja til Hrappseyjar. Þar komu út Íslensk Mánaðartíðindi fyrst árið 1773, en það er fyrsta tímarit gefið út á Íslandi. Anorþósít frá tunglinu Mestu hvatningamenn varðandi prentsmiðjuna voru þeir Ólafur Olavius og Magnús Ketilsson. Hrappsey var talin stórbýli áður fyrr vegna hlunninda sem fylgdu eynni varðandi sel, eggjatöku, dún, fiskimið og fleira.  Nú er hún í eyði, en Hrappsey er merkileg fyrir fleira en söguna, og á ég þá við jarðfræðina.  Snúum okkur nú aftur að bergtegundinni anortósít. 

Það mun hafa verið Tómas Tryggvason jarðfræðingur sem fyrst tók eftir því að bergið í Hrappsey er stórmerkilegt.  Hann hvatti  því Hrefnu Kristmannsdóttur jarðfræðing til að gera frekari rannsóknir á eynni, og birti hún niðurstöður sínar árið 1971 í bandaríska jarðfræðiritinu Journal of Geology.   KortKortið sem Hrefna gerði sýnir jarðfræði Hrappseyjar, Purkeyjar og nærliggjandi eyja í stórum dráttum, og kortið er sýnt hér til hliðar.  Lykillinn að kortinu er: 1. Dólerít (krossar), 2. Anortósít (svart á kortinu), 3. Innskotsbreksía, 4. Basalt hraun, 5. Basalt gígtappi, 6. Basalt breksía, 7. Líparít breksía, 8. Gerggangur.  Takið eftir svörtu svæðunum á kortinu, sem sýna útbreiðslu anortósítsins á eynni.  Hrappsey hefur verið talin um 7 miljón ára gömul, en hún er rótin af fornri eldstöð og það sem við sjáum nú á yfirborði hefur myndast á nokkra kílómetra dýpi í jarðskorpunni undir þessu forna eldfjalli. Jökullinn sem skreið út Breiðafjörðinn til vesturs á ísöld rauf jarðmyndunum ofan af og afhjúpaði rætur eldstöðvarinnar.   Þessar bergtegundir sem sjást á kortinu, eins og dólerít, hafa storknað í kvikuþró eldstöðvarinnar, og myndað innskotsberg.   Purkey bárujárnDólerítið er náskylt gabbrói, en í Purkey og Hrappsey myndar dólerít stórkostlegt stuðlaberg og einstakt.  Eins og sést best í  sjávarklettum við suðaustur  hluta Purkeyjar, er stuðlabergið furðulega röndótt, og sumir hafa kallað þetta berg bárujárnskletta.  Stuðlarnir eru mjög reglulegir og lóðréttir, en láréttar gárur  skera þá einnig á mjög reglubundinn hátt, eins og myndin eftir Eyþór Benediktsson sýnir.   Gárurnar spegla lagskiftingu sem myndaðist í kvikuþrónni áður en kvikan kólnaði og stirðnaði í dólerít. Hvert lag hefur visst hlutfall steinda eða kristalla, og lögin eru því mishörð og veðrast misjafnlega hratt.  Eins og myndin sýnir, þá er anortósít ljósgrátt, en það stafar af því að það er samansett nær eingöngu af einni tegund af steindum: litlausu eða hvítu steindinni plagíóklas eða feldspati.  Anortósít í smásjáMyndin til hliðar er tekin af anortósíti í smásjá, og reglulegu gráu steindirnar eru plagíóklas.  Anortósít hefur einnig myndast í kvikuþrónni djúpt niðri í jarðskorpunni. Ein vinsælasta kenningin um myndun anortósíts, og sú sem Hrefna aðhylltist á sínum tíma, er að steindir af plagíóklas myndist í kvikunni og fljóti upp í efri hluta kvikuþróarinnar og safnist þar saman til að mynda lag sem er nær hreint plagíóklasbeg: anortósít.  Kushiro 1977Til þess að þessi kenning geti staðist, þá verður steindin plagóóklas að vera aðeins eðlisléttari ekn hraunkvikan.  Tilraunir sýna að svo er við háan þrýsting á nokkra kílómetra dýpi í jarðskorpunni.  Hrefna stakk uppá að anortósítið hefði myndast á um 15 til 35 km dýpi, eða nærri botninum á skorpunni, og risið svo upp nær yfirborði.   Myndin til hliðar sýnir að eðlisþyngd hraunkviku stígur stöðugt þegar þrýstingur eykst.  Vökvinn þjappast saman og verður þyngri. En eðlisþyngd steindarinnar plagíóklas (línurnar sem eru merktar An)  breytist lítið og á vissu dýpi er plagíóklas fljótandi í kvikunni.  Anortósít er ekki algengt á jörðu, en þa´er ein aðal bergtegundin á tunglinu.   TungliðMenn lentu fyrst á tunglinu hinn 20. Júlí, 1969, og í sex Apollo leiðangrum var safnað 2415 steinum, sem vigtuðu alls 382 kg.  Það var fljótt ljóst, jarfræðingum til mikillar furðu,  að mikið af yfirborði tunglsins er gert úr bergtegundinni anortósít.  Ef við skoðum tunglið með berum augum, þá er ljóst að yfirborð þess skiftist í ljós og dökk svæði.  Ljósu svæðin eru kölluð hálöndin, og eru að mestu úr anortósít.  Dökku svæðin eru stórir gígar eftir mikla árekstra loftsteina og þar er einnig að finna mikið af dökkum basalt hraunum.  Sem sagt: elsta og eitt algengasta berg á tunglinu er anortósít, eins og í Hrappsey.   TunglmyndunVinsælasta kenningin um myndun anortósítslagsins á tunglinu er sú, að í upphafi hafi ytra borð tunglsins verið einn hafsjór af bráðinni kviku, sem var meir en 1200 stiga heit.  Myndin til hliðar sýnir þetta ferli. Steindir af plagíóklas byrjuðu að myndast í kvikunni, en þær voru lettari og flutu upp á yfirborðið og mynduðu hálöndin eða ytri skorpuna,  þegar tunglið kólnaði og storknaði að lokum.   Þannig er anortósít í Hrappsey náskylt hálöndum tunglsins. Til þessa hefur fallega bergið í Hrappsey fengið að vera í friði fyrir þeim sem leita að óvenjulegum steinum til að gera legsteina og eldhúsborðplötur. Það er mikilvægt  að vernda þessa merkilegu eyju. 


Daginn sem Demöntum ringdi yfir Ísland

 HoltasoleyHoltasóley er fallegt blóm, enda er hún þjóðarblóm Íslands.  Hún er mjög harðger og vex uppí allt að 1200 metra hæð.   Latneska heitið á holtasóley er Dryas octopetala,  en jarðfræðingar hafa kallað eitt kalt skeið í lok ísaldar yngra holtasóleyjarstig, eða Yngra Dryas stadial.  Línuritið sýnir hitaferil á norðurhveli samkvæmt mælingum á ískjarna frá Grænlandi og þar kemur holtasóleyjarstigið vel fram sem snögg kólnun og einnig hröð hlýnun í lok stigsins.  Alley 2000 Nú hefur komið fram byltingarkennd en umdeild kenning að þessi snögga kólnun hafi orðið af völdum áreksturs halastjörnu á jörðu.

Áður en við snúum okkur að þeirri kenningu, þá vil ég fjalla aðeins meir um þetta merkilega stig í jarðsögunni.  Fyrir um 15 þúsund árum var ísöld að ljúka og þá tók við hlýtt stig sem nefnist Bolling/Alleröð, með loftslag svipað og er í dag.   Eftir SteffensenEn fyrir um 12.900 árum kólnaði mjög skyndilega aftur á öllu norðurhveli jarðar, og yngra holtasóleyjarstigið gekk í garð, með loftslag líkt og á ísöld.   Nýjustu rannsóknir á ískjörnum frá Grænlandsjökli sýna að kólnunin var ótrúlega hröð, eins og myndin frá Steffensen og félögum (2000) sýnir.  Í gluganum sem er merktur B á myndinni  sést að kólnunin þegar holtasóleyjastigið hefst hefur orðið á aðeins einu eða tveimur árum og þá hefur kólnað um  tíu gráður.  Murray Springs ArizonaGluggi  A á myndinni til vinstri er frá Steffensen og  sýnir að hlýnun í lok holtasóleyjastigsins var einnig mjög hröð, eða sennilega um þrjú ár.   Byrjun og endir á holtasóleyjarstiginu eru dýpstu og hröðustu loftslagssveiflur þem þekktar  eru.  Á Íslandi gengu jöklar fram á þessu stigi og þá mynduðust jökulgarðar á Suðurlandi sem eru nefndir Búðagarðar og kenndir eru við Búðastig.  Skriðjökull mun þá hafa gengið niður Fossárdalinn.

Hvað var að gerast erlendis á þessum tíma?  Myndin fyrir ofan sýnir snið af jarðvegi í Arizona fylki í Bandaríkjunum, en jarðvegurinn er frá yngra holtasóleyjarstiginu.  Undir svarta laginu fannst hér heil beinagrind af fullorðnum mammút eða loðfíl.  Einnig fannst hér eldstóð,  örvaroddar og ýmsar minjar frá Clovis fólki sem var uppi á þeim tíma.  Um þetta leyti verður mikill útdauði á stóru spendýrunum í Norður Ameríku, og tegundir eins og sverðkettir, loðnir nashyrningar, mammútar eða loðfílar, mastódonar og toxódonar hurfu af sjónarsviðinu.  Alls hurfu 35 tegundir af stórum spendýrum á þessum tíma.  Orsök þessa mikla útdauða hefur lengi verið mikil ráðgáta.  Mannfræðingar héldu fram þeirri kenningu að dýrin hefðu orðið veiðimönnum að bráð þegar  menn fluttust fyrst úr Síberíu og yfir landbrúna á Bering sundi milli Alaska og Síberíu í lok ísaldar til Norður Ameríku fyrir um fjórtán þúsund árum.  Þarna á ferðinni voru forfeður Clovis manna, en þeir gerðu einhver fegurstu vopn sem um getur. Örvar og spjótsoddar þeirra voru gerð úr tinnu og eru mikil listaverk, eins og myndin fyrir neðan  sýnir.

Clovis oddar

En snúum aftur af myndinni fyrir ofan, sem sýnir jarðvegssniðið í Murray Springs í Arizona.  Svarta lagið er áberandi, en það finnst víða í jarðvegi í Norður Ameríku.  Rannsóknir sem R.B. Firestone og félagar birtu árið 2007 sýna að svarta lagið er 12.900 ára að aldri, sem sagt frá byrjun yngra holtasóleyjastigsins.  Grein þeirra má finna hérna. Svarta lagið inniheldur sót,  örsmáar glerkúlur,  mikið magn af málminum iridíum,  og einnig af örsmáum demöntum. Það er viðat að árekstrar loftsteina eða halastjarna á jörðu geta myndað svo háan þrýsting að örsmáir  demantar, eða nanódemantar myndast, og þeir hafa einmitt fundist í seti á mörkum Krítar og Tertíera tímabilsins, þegar risaeðlurnar urðu útdauðar vegna loftsteinsáreksturs.  Jöklafræðingurinn Paul Mayewski og félagar héldu næst til Grænlands og tóku sýni af ísnum sem myndaðist á yngra holtasóleyjarstiginu. Viti menn:  í ísnum á Grænlandi fundu þeir töluvert magn af nanódemöntum, alveg eins og þeim sem fundust í Norður Ameríku.

Halastjörnukenningin sem er að þróast meðal vísindamanna er því sú, að fyrir 12.900 árum hafi halastjarna rekist á norðurhvel jarðar, sennilega í Norður Ameríku. Efni sem kastaðist upp í andrúmsloftið við áreksturinn dró úr sólargeislun til jarðar og orsakaði mjög snögga kólnun.  Við áreksturinn breyttist karbon eða kolefni í halastjörnunni í nanódemanta, sem rigndi niður yfir allt norður hveli jarðar, en samkvæmt því ætti að vera mögulegt að fina slíka nanódemanta í jöklum Íslands.  Loftslagsbreytingin og önnur áhrif árekstursins á gróðurfar og umhverfið orsökuðu útdauða stóru spendýranna. Ekki eru allir sáttir við þessa kenningu, langt því frá.  Hvar er gígurinn eftir áreksturinn? Var árekstur, sem ekki skilur eftir sig gís, nógu kraftmikill til að orsaka loftslagsbreytingar og útdauða?  Vísindamenn eru að eðlisfari íhaldssamir, varkárir og tortryggnir gagnvart nýjum kenningum.  Það mun því taka nokkur ár í viðbót að finna gögnin sem kunna að styðja eða þá að rífa niður að grunni halastjörnukenninguna, en  þetta er óneitanlega spennandi tími í rannsóknum á þessu sviði.   Bloggheimurinn er fullur af heitum deilum varðandi yngra holtasóleyjarstigið og halastjörnuna, til dæmis hérna og hérna.


Háhitasvæðin og Grænsteinn

ÞorgeirsfellHafið þið tekið eftir því hvað Hafnarfjall er skriðum orpið? Og hvað bergið í sumum fjöllunum í Staðarsveit á Snæfellsnesi, eins og Þorgeirsfelli, er furðulega blágrænt?  Þessi fyrirbæri eru mjög algeng í blágrýtismynduninni á Íslandi og eiga sér eina og fremur einfalda skýringu, en hún er ummyndun eða  myndbreyting bergsins.   Megineldstöðvar á Íslandi eru flestar háhitasvæði, þar sem kvikuinnskot og hiti sem leitar út frá kvikuþró undir eldfjallinu orsakar mjög virkan jarðhita. Hringrás jarðvatns milli heitra innskota og kaldari jarðmyndana nær yfirborði flytur hita og uppleyst efni í vatninu, og með tímanum  breytist efnasamsening bergsins af þessum sökum, og einnig gerð og tegundir steinda eða kristalla í berginu. GrænsteinnVið ræðum um ummyndun bergsins eða myndbreytingu.  Nær allt bergið á háhitasvæðunum var basalt í upphafi, en eftir langvarandi breytingar í háhitasvæðinu á eins til tveggja kílómetra dýpi ummyndast basalt í berg sem kallast greenstone eða greenschist á máli jarðfræðinga og mætti þýða sem grænstein.  Í basalti myndast kristallar eða frumsteindir  strax og basaltið kólnar og stirðnar úr bráðinni hraunkviku. Í háhitasvæðinu eru frumsteindir basaltsins ekki í jafnvægi við nýjar eðlis- og efnafræðilegar aðstæður,  og frumsteindir breytast í aðrar steindir, sem kallast síðsteindir.  Þanig valda efnahvörf myndbreytingu og ummyndun bergsins í aðra bergtegund, grænstein.  Meðal síðsteinda er klórít, sem myndast við um 230oC og er grænt á lit.  epídótEinnig myndast steindin epídót við hærri en 250oC hita, og er einnig græn, eins og myndin sýnir.  Steinninn sem myndin er af er frá Axlarhyrnu á sunnanverðu Snæfellsnesi.  Af þessum sökum breytist svart eða dökkgrátt basalt í grænleitt metabasalt eða grænstein við myndbreytingu bergsins djúpt  undir háhitasvæðinu.  Það er fjöldi annarra seinda sem myndast við þessar aðstæður, og þar þa meðal granat, sem finnst í grænsteininum í Eyrarsveit og Staðarsveit.  En um leið og begið myndbreytist, þá tekur það í sig vatn og verður veikara fyrir. Þá veðrast bergið auðveldar á yfirborði jarðar, springur greiðlega vegna áhrifa frosts, molnar og myndar miklar skriður í fjöllum.  Flestar fornar og útkulnaðar megineldstöðvar í blágrýtismynduninni á Íslandi hafa orðið fyrir miklu rofi af völdum jökla á ísöld.  Rofið hefur tekið einn eða tvo kílómetra ofan af elstöðinni og afhjúpað rætur megineldstöðvarinnar, sem er aðallega grænsteinn og innskotsberg, eins og gabbró og dólerít, og stundum granófýr.

Þegar ég bloggaði hér fyrir neðan um jarðskorpuna hinn 20. janúar 2010 þá fjallaði ég lítið eitt um myndbreytingu bergs undir Íslandi og hitaferilinn, eða hvernig hitinn eykst eftir því sem dýpra er farið. Myndin hér sýnir aftur hlutfallið milli hita og dýpis í skorpunni, og rauðu breiðu línurnar sýna hugsanlegan hitastigul undir Íslandi. Annar hitastigullinn á myndinni fer einmitt í gegnum reit á myndinni sem er merktur greenschist, eða grænsteinn. Samkvæmt því ætti hitinn á um 2 km dýpi að vera 250 til 400oC, sem er nákvæmlega það sem steindirnar af epídót og klórít segja okkur um grænsteininn á Snæfellsnesi og víðar.  Myndbreytt berg

Takið eftir að þar undir, á enn meira dýpi og við hærri hita, ætti að vera mikið belti af bergtegundinni amfibólít, sem er einnig myndbreytt afbrigði af basalti.  Ef myndin er rétt, þá er amfíbólít ein mikilvægasta bergtegund Íslands hvað varðar magnið, en samt er hún nær algjörlega óþekkt hér á landi.  Ef til vill mun djúpborun varpa ljósi á það í framtíðinni hvort amfíbólít er ein aðal uppistaðan undir landinu.


Parícutín Eldfjall og David Alfaro Siqueiros

SiqueirosEin uppáhaldsmyndin mín í Eldfjallasafni í Stykkishólmi er “Eldgos í Paricutín” eftir mexíkanska málarann og byltingarsegginn David Alfaro Siqueiros (1896 - 1974). Eins og mörg verk Siqueiros, þá er myndin máluð með pyroxilin litum. Þessir litir eru mjög sérstakir, og einnig hættulegir. Aðal uppistaðan er nítrósellulós, en pyroxilin efnið var fundið upp af Du Pont fyrir Ford bílaverksmiðurnar og nefnt Duco. Þetta lakk hefur þá eiginleika að þorna mjög hratt en var hættulega eldfimt og óhollt. Myndin er máluð 1962, en hún er af eldgosinu í Parícutín, en það er eldfjallið sem spratt upp í akri bóndans Dionisio Pulido árið 1943 og hét áfram að gjósa í níu ár.  Siqueiros í steininumÉg hef áður bloggað um þeta gos og Dr. Atl, sem einnig málaði margar myndir af gosinu, í pistli mínum hinn 6. október 2009.Siqueiros (1896-1974), ásamt Diego Rivera og Jose Clemente Orozco eru taldir fremstu málarar í múralista hreyfingunni í Mexíkó. Siqueiros var innan við tvítugt þegar hann var skipaður liðsforingi í Byltingarher Mexíkó, og síðar var hann hátt settur í Borgarastyrjöldinni á Spáni. Hann var mjög virkur í verkalýðshreyfingunni í Mexíkó og vegna afskipta hans af stjórnmálum dvali hann mörg ár í fangelsum eða flúði land. Það var einmitt í fangelsinu sem hann málaði flest verk sín, og þar á meðal þetta sem hér er sýnt. Siqueiros byrjaði snemma að taka þátt í byltingarhreyfingunni í Mexíkó, en árið 1911 voru helstu leiðtogar byltingarinnar þeir Pancho Villa, Emiliano Zapata og Pascual Orozco. Baráttan hélt áfram og hann var orðinn kapteinn í byltingarhernum þegar barátunni lauk árið 1918. En hann hélt áfram að vera mjög virkur í stjórnmálum og verkalýðsmálum, enda harður Marxisti allt sitt líf. Árið 1930 var hann fyrst settur í steininn vegna stjórnmálaskoðana, en slapp til Bandaríkjanna árið 1932. Hann snéri aftur til Mexíkó 1934 þegar mildari stjórn tók völdin. siquier 1sStrax og borgarastyrjöldin brautst út á Spáni árið 1936 þá var Siqueiros mættur á staðinn, og var mjög virkur þáttakandi og barðist á móti fasistahreyfingu harðstjórans Francisco Francos þar til 1938. Siqueiros hafði alla tíð verið mikill fylgismaður stalínista í Sovíetríkjunum. Á þessum tíma klofnai Leon Trotsky út úr kommúnistaflokknum og flúði Sovétríkin, en settist að í Mexíkó. Siqueiros reyndi að fá mexíkönsk yfirvöld til að vísa Trotsky úr landi, en árangurslaust. Hann taldi veru Trotskys svo hættulega í Mexíkó að hann skipulagði morðtilraun á hendur honum í maí 1940. Siqueiros safnaði saman 25 listamönnum, verkalýðsleiðtogum og vinum sínum til að gera árás á heimil Trotskýs í Mexíkóborg. Trotsky og eiginkona hans földust undir rúmi og sluppu í þetta sinn. Siqueiros var vísað úr landi og settist að í Suður Ameríku þar til 1943, er hann snéri aftur til Mexíkó. Alltaf hélt hann áfram að mála, en gekk aftur í kommúnistaflokkinn.  siqueiros55Hann var aftur tekinn fastur í Mexíkó árið 1960 og sat inni til 1964. Það var einmitt á þessu tímabili sem hann málaði myndina af Parícutín, sem er sýnd í Eldfjallasafni í Stykkishólmi. Siqueiros undirritaði öll verk sem hann gerði í fangelsi C.P., sem er skammsetning á "Carcel Presidiario" eða fangi í fangelsi. Myndin í Eldfjallasafni er einmitt undirrituð “Siqueiros C.P. 62”.

Leyndardómar Búlandshöfða

Búlandshöfði 2Sagan byrjar sumarið 1902. Dag einn reið í hlað í Mávahlíð á norðanverðu Snæfellsnesi ungur og efnilegur jarðfræðingur. Þetta var dr. Helgi Pjeturss (1872-1949), sem hlaut síðar doktorsgráðu í jarðfræði árið 1905, fyrstur íslendinga. Hann fær fjórtán ára pilt frá bænum í fylgd með sér, Helga Salómonsson, sem síðar varð landsfrægur upplesari í Ríkisútvarpinu og rithöfundur, en hann tók sér síðar nafnið Helgi Hjörvar (1888-1965).Búlandshöfði kort  Sveitarpilturinn þekkti vel til í Fróðárhreppi og hann mun hafa bent jarðfræðingnum á forn jarðlög með steingerðum skeljum í fjallinu Búlandshöfða, rétt fyrir ofan Mávahlíð. Þeir byrjuðu að grúska í gilinu beint fyrir ofan bæinn Mávahlíð (sjá mynd) en síðar fóru þeir norður fyrir, upp í sjálfan Búlandshöfðann. Þar með hófst rannsókn Helga Pjeturss á Búlandshöfða og nærliggjandi fjöllum, en hér gerði hann eina af sínum merkustu uppgötvunum. Búlandshöfði 1903Á bergbrún Búlandshöfða í um 130 til 150 m hæð fann Helgi Pjeturss jökulrispur á yfirborði blágrýtismyndunarinnar, og ofar fann hann steinrunna jökulurð, sem var vitnisburður um fyrsta jökulskeið hér. Enn ofar fann hann setslög með skeljaleifum, sem sýndu að sjávarstaða hafði verið miklu hærri. Þar ofaná kom grágrýtishraunlag sem var jökulsorfiða að ofan, og þar með vitneskja um annað jökulskeið. Síðari aldursgreiningar hafa sýnt framá að hraunið er um 1,1 miljón ára gamalt, en setlögun sem liggja undir eru allt að 1,8 miljón ára. Efst fann Helgi móbergsfjöllin eins og Höfðakúlur, sem hafa gosið á síðasta jökulskeiði.Helgi Pjeturss En skeljategundirnar í setinu gefa miklar upplýsingar um loftslag og hita sjávar á þessum tímum. Neðri hlutinn á sjávarsetinu inniheldur skeljategundir eins og skelina jökultoddu Portlandia arctica sem bendir til þess að sjór hafi verið mjög kaldur. Efri hluti setsins í Búlandshöfða er siltkennt, og inniheldur það nútímaskeljar eins og krækling, kúskel og nákuðung, sem hafa þrifist í heitari sjó. Í þessum sjávarsetlögum koma því vel fram miklar loftslagssveiflur á ísöld. Ári seinna, 1903, birti Helgi Pjeturss niðurstöður sínar varðandi Búlandshöfða: “On a shelly boulderclay in the so-called Palagonite formation of Iceland”.  Helgi Hjörvar heilsar KjarvalGreinin kom út í vel þekktu tímariti Jarðfræðafélags Bretlands, en Helgi var metnaðargjarn, og hafði snemma áttað sig á því að það var nauðsynlegt að kynna verk sín í hinum enskumælandi heimi. Fyrir hans daga höfðu flest jarðfræðirit um Ísland verið á dönsku eða þýsku. Helgi teiknaði tvö þversnið til að skýra jarðlagaskipan, annað í fjallinu fyrir ofan Mávahlíð, en hitt af Búlandshöfða, sem fylgir hér með. Í jarðlagasniðinu koma vel fram tvær mórenur eða jökulbergslög í gilinu fyrir ofan Mávahlíð.Doktor Helgi minnist sérstaklega á sveitapiltinn Helga Hjörvar neðanmáls í grein sinni í riti breska jarðfræðifélagssins árið 1903, og tekur fram að Helgi Salómonsson hafi fundið ýmsar skeljar, þar á meðal Portlandia arctica. Þess ber að geta að bræður Helga Hjörvar voru allir mjög sérstakir menn: grásleppubóndinn Pétur Hoffmann í Selsvör, Lárus Salómonsson, frægasta lögga allra tíma, og Gunnar “Úrsus” Salómonsson, sterkasti maður Íslands. Forspil rannsókna Helga í Búlandshöfða hefur sína sögu, sem er tengt þróun jarðfræðinnar. Á nítjándu öldinni uppgötvuðu jarðfræðingar ísöldina, aðallega vegna rannsókna svisslendingsins Louis Agassiz, og lengi var haldið að hún hefði verið eitt samfellt jökulskeið.  Mávahlíð2Myndin vaf mjög einföld: það kólnaði, jökulskjöldur myndaðist yfir norður og suðurhveli jarðar, og varði í langan tíma, en svo hlýnaði og jökulbreiðan hopaði. En þessi mynd var greinilega of einföld. Í bók sinni “The Great Ice Age” (1874) taldi skoski jarðfræðingurinn James Geikie að ísöldin skiftist í fimm jökulskeið. Í miklu og útbreiddu riti, sem kom út í þremur bindum árin 1901 til 1909 (“Die Alpen im Eiszeitsalter”) sýndu þýsku jarðfræðingarnir Albrecht Penck and Eduard Brückner framá að ísöldin var ekki einn samfeldur fimbulvetur, heldur skiftist hún í hlýskeið og fjögur jökulskeið, sem þeir skírðu Günz. Mindel, Riss og Würm það yngsta.  Við vitum ekki hvað Helgi Pjeturss var vel lesinn á þessu sviði eða hvort hann hafði greiðan aðgang að erlendum vísindaritum, en alla vega vitnar hann í rit eldfjallafræðingsins Archibald Geikie, sem var bróðir ísaldar-Geikie. 

Skeljar

Í framtíðinni munu vonandi fara fram ítarlegar rannsóknir á sögu jarðvísindanna á Íslandi, og ég er fullviss um að þær munu sýna að Helgi Pjeturss var langt á undan sinni samtíð varðandi ísöldina. Umhætti dr. Helga í leiðangri á þessum tíma er fróðlegt að lesa nánar hér

http://www.heimaslod.is/index.php/Blik_1969/Sumardvöl_Dr._Helga_Péturss#


Kvikurennsli og Upptyppingar

UpptyppingarSnemma árs 2007 virtist allt ætla að ganga af göflunum í eystra gosbeltinu á Íslandi og fjallið Upptyppingar var á hvers manns vörum. Ein mesta skjálftahrina sem við þekkjum gekk yfir svæðið og margir töldu miklar líkur á eldgosi. Spennan var gífurleg, í fjölmiðlum, í jarðvísindamönnum og ekki síst í jarðskorpunni. Ég þekki mann sem var búinn að koma sér upp flugbraut við Upptyppinga og skildi bíl þar eftir, svo að allt væri í startholunum þegar gos byrjaði. Svona hélt þetta áfram í meir en eitt ár, eða þar til í apríl 2008, en svo hefur dregið úr virkni, þótt enn í dag skjálfi land undir Upptyppingum og Álftadalsdyngju. Gagnavefsjá ISORÞað var í þetta sinn eins og alltaf þegar náttúruhamfarir gerast, að við lærum eitthvað nýtt og merkilegt um jörðina okkar. Allt bendir til að orsök skjálftanna hafi fyrst og fremst verið kvikuhreyfingar djúpt niður í jarðskorpunni, eins og Steinunn S. Jakobsdóttir á Veðurstofunni og félagar hafa sýnt fram á. Þegar við lítum til baka, þá er óhætt að segja að Upptyppingaævintýrið hefur minnt okkur rækilega á þá staðreynd að mikil hluti, sennilega bróðurparturinn, af allri kviku berst ekki upp á yfirborðið, heldur storknar neðar í skorpunni. Upptök   VeðurstofanEldstöðvakerfi Kverkfjalla liggur til norðausturs frá Vatnajökli, alla leið til Melrakkasléttu. Grágrýtisdyngjur og móbergsfjöll eins og Álftadalsdyngja og Upptyppingar hafa hlaðist upp í þessu kerfi á ísöld, en hafa ekki gosið síðan. Jarðskorpan er töluvert sprungin á þessu svæði, vegna gliðnunar í Kverkfjallakerfinu eftir ísöld. Jarðskorpan hér undir er á milli 30 og 35 km á þykkt. Í hrinuni sem byrjaði í febrúar 2007 og varði í um eitt ár mældust meir en 9000 jarðskjálftar. Mestu hrinurnar á djúpum skjálftum voru í maí, lok júlí, nóvember og desember árið 2007, og eins og kortið frá Veðurstofunni sýnir, þá færðust upptökin til norðausturs um leið og skjálftarnir færðust ofar í skorpunni. Stærstu skjálftarnir voru aðeins um 2,2 á Richter, en þótt skjálftarnir væru smáir, þá mældust þeir mjög vel, vegna þess að kerfið af jarðskjálftamælum er mjög þétt riðið hér í grennd við Kárahnjúkavirkjun.  Færast ofarÞað er því áberandi hvað skjálftarnir eru litlir, langflestir undir 2,0, og þykir það benda til að þeir orsakist af kvikuhreyfingum en ekki af sprungumyndunum í berginu. Mikið af skjálftunum eru dýpra en almennt gerist undir Íslandi, eða milli 14 til 22 km undir yfirborði. Það var spennandi að fylgjast með því í ágúst 2007 þegar upptök skjálftanna, og væntanlega þá hraunkvikan, mjökuðust hægt og sígandi ofar í jarðskorpunni, frá meir en 17 km dýpi og upp í minna en 14 km. En upptök skjálftanna færðust ekki einungis upp á við, heldur fluttust þau hægt og hægt til hliðar, frá Upptyppingum og undir Álftadalsdyngju. Þessi hegðun bendir eindregið til þess að skjálftarnir orsakist af kvikuhreyfingum, þegar kvikan streymir í gegnum gang eða innskot. Skjálftar eru enn á svæðinu, en hafa aðallega verið norðan við Upptyppinga, nærri Hlaupfelli, á 5 til 8 km dýpi. Rannsóknir á bergfræði eldri gosmyndana í Upptyppingum, gerðar af Daniel F. Kelley, sýndu að kvikan í eldri gosum á svæðinu á ísöld átti upptök sín á milli 15 og 28 km dýpi í skorpunni. Þversnið og eðlisviðnámÞannig gefur bergfræðin og skjálftavirknin ágætt samræmi um dýpið á uppruna kvikunnar á þessum slóðum. En grunna gosrásin sem áður fyrr færði kviku upp í eldfjallið Upptyppinga í gegnum efri hluta jarðskorpunnar er löngu stirnuð og kólnuð, og ef kvika hefði borist upp á yfirborðið í síðustu hrinu árin 2007 og 2008, þá hefði myndast ný eldstöð, sennilega dyngja. Jarðskjálftafræðin hefur því gefið okkur vissa mynd af jarðskorpunni undir Upptyppingum. Niðurstöðurnar benda til þess að neðri hluti skorpunnar, fyrir neðan um 10 km, sé fremur deigur, og einu skjálftar sem eiga upptök sín á meira dýpi myndist vegna streymis hraunkviku upp um neðri hluta skorpunnar. En frekari upplýsingar um neðri skorpuna hér koma úr annarri átt. Nú hafa Arnar Már Vilhjálmsson og félagar hjá ISOR lokið skýrslu sem nefnist “Umbrotin við Upptyppinga”, og varpar hún nýju ljósi á gerð jarðskorpunnar hér. Þeir mældu eðlisviðnám jarðskorpunnar á 17 km langri línu, sem nær frá Herðubreiðartöglum, liggur rétt norðan Upptyppinga og til Álftadalsdyngju. Viðnámsmælingar kanna rafleiðni bergs og hafa mikið verið nýttar í jarðhitaleit. Leiðni bergs er mest háð hita þess, og einnig innri gerð, einkum er varðar magn af steindum sem innihalda vatn. En rafleiðnin getur líka verið mjög lág ef jarðlögin innihalda hraunkviku. Um jarðskorpuna undir Íslandi og þykkt hennar má frekar lesa í bloggi mínu hér frá 20. janúar 2010. Myndin sem fylgir hér er úr skýrslu Arnar Más Vilhjálmssonar og félaga hjá ISOR, en hún er er þversnið af eðlisviðnámi jarðlaganna undir Upptyppingum og nær allt niður á 30 km dýpi. Tvö áberandi lárétt lágviðnámslög koma fram, annað á 1-2 km dýpi en hitt á 7-13 km dýpi. Lágviðnámslögin eru lituð rauð eða bleik á myndinni. Undir Upptyppingum sést lágviðnámssúla sem gengur niður úr neðra lágviðnámslaginu og nær eins djúpt og mælingarnar skynja. Þeir hjá ISOR telja að efri mörk lágviðnámslagsins séu skilin á milli harðrar jarðskorpu fyrir ofan og deigrar og heitari jarðskorpu fyrir neðan, þar sem hitinn gæti verið á bilinu 650-800°C. Þetta er svo hár hiti að bergið er mjög nærri því að byrja að bráðna, eða myndbreytt í bergtegundina amfíbólít. Grænu stjörnurnar til hægri er staðsetning dýpri jarðskjálftanna undir Upptyppingum síðan 2007, og eru þeir nær allir innan lágviðnámslagsins. Grænu stjörnurnar meö rauðum dílum eru grunnir skjálftar í efri hluta skorpunnar undir Herðubreiðartöglum. Samkvæmt þessum upplýsingum er hugsanlegt að kvika sem streymir upp úr möttli jarðar valdi jarðskjálftunum í neðri hluta skorpunnar, á um 12 til 20 km dýpi. Af einhverjum ástæðum, ef til vill vegna hárrar eðlisþyngdar kvikunnar, þá stöðvast hún á þessu dýpi en gýs ekki. Kvikan kemst í flotjafnvægi við skorpuna í kring og staðnar. Þar kólnar og storknar kvikan mjög hægt og myndar sennilega bergtegundina gabbró.Eitt merkilegt atriði sem kemur fram úr þessum rannsóknum er að neðri hluti íslensku skorpunnar er sennilega of heitur og mjúkur til að brotna og mynda “venjulega” jarðskjálfta. Skjálftar sem myndast á miklu dýpi eru því flestir af völdum kvikuhreyfinga. Hlustið á titringinn og hávaðan í pípulögnunum í heimilinu hjá ykkur. Rennandi vökvi getur haft hátt.

Elstu Sæfararnir? - Fyrstu Túristarnir? Stórkostleg Uppgötvun eða Hvað?

Tól frá KrítNýjar uppgötvanir á eynni Krít í Miðjarðarhafi benda til að forfeður okkar sem fóru frá Afríku til að skoða heiminn fyrir nokkur hundrað þúsund árum hafi ekki endilega farið landleiðina. Uppgötvunin eru margir axarhausar úr steini sem fundust nýlega á suður hluta Krítar. Einn vísindamannanna sem gerðu þessar athuganir er Thomas Strasser hér í Rhode Island þar sem ég er staddur nú. Ef þetta reynist rétt, þá þarf að rita á ný fyrstu kaflana í sögu mannkynsins, einkum hvað varðar siglingar fornmanna. Töluvert af steintólum, um tvö þúsund að tölu, hafa fundist á Krít nýlega nálægt bænum Plakias, sem virðast vera um 130 þúsund ára gömul og frá fyrri hluta Steinaldar, en hingað til hefur verið talið að mennskar verur á þeim tíma væru fremur frumstæðir Homo erectus.  Axarhaus úr kvartzi frá KrítKrít hefur verið einangruð eyja í um fimm miljón ár og sjóleiðin var og er eina leiðin þangað. Þetta þýðir að frummenn fóru um höfin meir en eitt hundrað þúsund árum fyrr en haldið var. Elstu sðgarpar sem vitað var um fyrir þessa uppgötvun voru þeir sem fóru um Indónesíu og áfram til Ástralíu fyrir um 40 þúsund árum.Suður ströndin á Krít er beint á móti Líbíu á norður strönd Afríku, en fjarlægðin þar á milli er um 300 kílómetrar. Fóru fyrstu sægarparnir beint norður frá Afríkuströnd og til Krítar? Voru þeir á flekum eða smíðuðu þeir báta? Austur hluti MiðjarðarhafsinsEr þetta Homo erectus? Enn hafa engin mannabein fundist. Um 30 axarhausar og mörg tvíeggja tól hafa fundist í jarðlögum sem eru frá fyrri hluta Steinaldarinnar. Mikið af tólunum hafa fundist í hellum og klettaskútum. Þau voru gerð úr kvartz steinum frá Krít, en með sama handbragði og axarhausar frá Afríku. Kvartz er einmitt harðasti steinninn sem finnst á eynni.

Eldfjöll sem Mótíf í Arkitektúr

Vulcano BuonoStundum finnst manni að ástandið sé svipað í dag með þá sem stunda arkitektúr eða byggingalist og með nútíma listamenn: það er búið að prófa allar mögulegar leiðir í listum undanfarnar aldir, og í örvæntigarfullum tilraunum sínum til að vera frumlegir eru sumir í þessum hóp komnir út í vitleysu og öfgar í dag. En nú hefur komið fram hreyfing meðal arkitekta sem mér líst nokkuð vel á, og það er hreyfing sem notar eldfjöll sem mótíf. Þetta er ekki bara hreyfing heldur hreint og beint alda, og arkitektar virðast nú keppa um að líkja eftir eldfjöllum. MíluturninnHér með fylgja nokkur dæmi. Það fyrsta sem ég vil benda ykkur á er bygging í grennd við Vesúvíus, en hún er komin í gagnið. Byggingin ber nafnið “Il Vulcano Buono” eða góða eldfjallið, og er staðsett í bænum Nola nálægt Napólíborg á Ítalíu. Það er sjálfur Renzo Piano sem hefur skapað þetta skemmtilega verk. Gígurinn er 150 metrar í þvermál. Stærsta bygging heims gæti litið út eins og eldfjall. Arkitektinn og boxarinn Eugene Tsui hefur nú stungið uppá þriggja kílómetra hárri ofurbyggingu fyrir San Francisco borg, sem nefnist Ultima Tower og getur hýst um eina miljón manns. Munið eftir Mount Doom eldfjallinu í Hringadrottinssögu?Taichung  Ætli Tsui hafi fengið hugmyndina þar?Nú er í byggingu Taichung ráðstefnubyggingin í Taívan, en hún er mynduð eins og þyrping af eldfjöllum eða gígum, hlið við hlið. Byggingin er skemmtilega létt og opin, en hún er hönnuð af MAD Architekts í Beijing í Kína. Njiric Arhitekti í Króatíu hafa hannað blátt eldfjall sem íþróttaleikvang. Í stað þess að hafa öskuský fyrir ofan eldfjallið, þá hafa þeir komið fyrir skýi sem er reyndar sólarsellur. Bláa eldfjalliðAð lokum er það Vulcania, eldfjallasafnið í Auvergne héraði í Frakklandi. Þar hafa þeir í frekar smáum stíl reist lítið eldfjall á smekklegan hátt.Er ekki kominn tími til að arkitektar reisi okkur eldfjall á Íslandi, til dæmis veglega byggingu undir Eldfjallasafn í Stykkishólmi?  Vulcania jpgEf til vill hefði sú hugmynd fengið góðan hljómgrunn fyrir 2008, en sennilega eru undirtektir ekki alveg eins góðar í dag. Við lifum í voninni…

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband