Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2010

Ástir og Eldgos í Bíó

Vulkano 1950Það er Valentínusadagur í dag, og viðeigandi að fjalla um ástir, bíó og eldgos, allt í einum pakka. Í Miðjarðarhafi, milli Sikileyjar og Ítalíu, eru nokkrar eldfjallaeyjar, en tvær þeirra komu mikið við sögu kvikmyndanna árið 1950. Það var á eyjunum Stromboli og Vulkano sem leikkonurnar Ingrid Bergman og Anna Magnani börðust um ást ítalsks leikstjóra og gerðu samnefndar kvikmyndir þetta ár. Ég vil sérstaklega benda ykkur á bíóplaköt frá þessum kvikmyndum, sem eru til sýnis í Eldfjallasafni í Stykkishólmi. Anna og RosannoSagan byrjar dag einn árið 1948 þegar Roberto Rosselini situr í Róm og er að opna póstinn sinn. Hann les þá eftirfarandi sendibréf frá Ameríku: “Kæri herra Rosselini: Ég sá myndir þínar "Open City" og "Paisan" – – og ég varð mjög hrifin. Ef þig vantar sænska leikkonu sem talar mjög góða ensku, og líka þýsku, og er líka sæmileg í frönsku, en kann aðeins “ti amo” á ítölsku, þá er ég reiðubúin að koma og vinna með þér. Bestu kveðjur, Ingrid Bergman.”Svona einfalt var það í þá daga. Rosselini, sem hafði verið í ástarsambandi við Önnu Magnani í nokkur ár og stýrt henni í kvikmyndum (“L´Amore” 1948), flaug strax til Ameríku til að hitta sænsku leikkonuna sem var nýbúin að hljóta Óskarsverðlaunin og var þá tvímælalausr frægasta kvikmyndastjarna heims. Anna MagnaniHann fór til Hollywood og fundaði með stærsta framleiðandanum, David O. Selznick, og innan skamms var kominn samingur um að gera myndina “Stromboli” á Ítalíu árið 1950 með Ingrid í aðalhlutverki. Þegar Anna fær fréttir af þessu fer allt uppíloft. Upphaflega átti hún að fá þetta hlutverk, og nú er hún líka að missa elskhugann í klærnar á sænsku stjörnunni. Anna er alls ekki af baki dottin, og byrjar að gera sína eigin eldfjallsmynd með leikstjóranum William Dieterle, ásamt leikurunum Rossano Brazzi og Geraldine Brooks. Það er kvikmyndin “Vulkano” sem kom einnig út árið 1950. Eins og kortið sýnir, þá er ekki langt á milli Stromboli og Vulkano eyjanna, aðeins um 50 kílómetrar. En þarna störfuðu þau, nýju elskhugarnir Ingrid og Roberto á sínu eldfjalli, og Anna og hennar lið á Vulkano sumarið 1949. Myndin Vulkano fjallar um gleðikonuna Maddalena Natoli, sem er leikin af Önnu Magnani, sem er dæmd í útlegð frá Napólí, til að eyða æfinni heima í þorpinu sínu á eldfjallseynni Vulkano. Vulkano eyjaÞegar hún kemur heim, þá er henni ekki vel tekið af systkinum sínum. Eini vinurinn er elskuginn, og kafarinn Donato, sem Rosanno Brazzi leikur. Á þeim dögum var litið á kafara eins og við lítum á geimfara í dag: einskonar ofurmenni. Anna fær vinnu á bát kafarans, en hann fær áhuga á yngri systur Önnu. Hún vill bjarga systur sinni frá smabandi við þennan hættulega mann, og einn daginn, þegar hann er í kafi djúpt á hafsbotni, hættir hún að dæla til hans lofti og drepur hann. Í örvæntingu sinni gengur Anna upp fjallið og niður í gíginn þegar gosið hefst. Þetta var ekki besta mynd Önnu, en árið 1956 hlaut hún Óskarsverðlaunin fyrir myndina “Rose Tattoo” með Burt Lancaster, en handritið var samið sérstaklega fyrir hana af sjálfum Tennessee Williams.Stromboli1950  Anna var sögð afskaplega skapmikil og jafnvel stórir karlar á við stjörnurnar Burt Lancaster og Anthony Quinn, sem léku á móti henni, voru sagðir vera dauðhræddir við hana. En hún var ein allra vinsælasta leikkonan um miðja tuttugustu öldina og talin jafnast á við sjálfa Gretu Garbo. Til dæmis má geta þess að það fyrsta sem rússneski geimfarinn Yuri Gagarin sagði þegar hann útvarpaði úr geimnum til jarðar fyrstur mann árið 1961 var þetta: “Ég sendi kveðjur mínar til mannkynsins á jörðu, til heims listanna og til Önnu Magnani.” Eyjan Vulkano er stórmerkilegt eldfjall, en þar búa nú um 500 manns. Síðasta gosið var árið 1888, en Vulkano var mjög virkt á átjándu öldinni. IngridÞað eru þrír gígar, sá yngsti er Vulcanello sem myndaðist í gosi 183 f. Kr., næst er Fossa sem var virk 1888, og elst er Il Piano askjan. Eyjan er mjög vinsæl meðal ferðamanna, og í næsta gosi verður stórtjón fyrir þá sem hafa byggt hér fjölda af hótelum undanfarið. Gríski guðinn Æolus, guð vindanna, hafði aðsetur sitt í eldfjöllunum á Isole Eolie, Vindeyjum, og þar var að finna uppruna vindanna, samkvæmt grísku goðatrúnni. Reydar er það alveg lógiskt og mjög skiljanlegt, þar sem kenning forngrikkja um eldgos var sú, að þau væru afleiðing þess þegar vindur brýst út úr jörðinni út um lítið op, sem er gígur eldfjallsins. Það var sjálfur Aristóteles sem setti fram þessa kenningu. Um leið og Anna Magnani var að kæfa Rosanno Brazzi í hafinu rétt hjá Vulkano, þá voru þau hjúin Ingrid Bergman og Roberto Rosselini að hafa það gott á Stromboli rétt hjá. Ferðamönnum sem koma til Strombolí er sýnt fallega litla rauða steinhúsið þar sem hjúin bjuggu saman, og marmaraskilti á útvegg lýsir ástarsambandinu. Afrakstur af því var kvikmyndin “Stromboli” (1950) og svo litla barnið Robertino Rosselini. Kvikmyndin fjallar um unga flóttakonu, Karin, frá Litháen sem giftist ítölskum sjómanni til að sleppa út úr flóttamannabúðum. Hann fer með hana heim til Stromboli. Ingrid á eldfjallinuÞað fyrsta sem hún segir þegar til eyjarinar kemur er: “Er það alltaf gjósandi?” Svarið er já. Hún er mjög óhamingjusöm og reynir að komast í burt með því að ganga yfir eldfjallið til að reyna að komast í annað þorp og sleppa burt frá Stromboli eyju. Kvikmyndin endar þegar hun er að nálgast gíginn, en við vitum ekki um endanleg örlög hennar. Myndin Stromboli orsakaði eitt mesta hneyksli í sögu kvikmyndanna. Bæði Rosselini og Bergman voru gift öðrum þegar ástarsamband þeirra hófst á eynni, og þegar hún fæddi son þeirra Robertino. Casa IngridHinn 14. marz árið 1950 tók senator Edwin C. Johnson frá Kolóradó til máls í efri deild bandaríska þingsins. Hann flutti þá langa ræðu um Ingrid Bergman, og spillingu þá sem hún breiddi nú út með hegðun sinni. Kosning í þinginu gerði Ingrid persona non grata í Bandaríkjunum og hún flúði land og settist að á Ítalíu. Loks snéri hún aftur til Bandaríkjanna sjö árum síðar og tók upp þráðinn aftur þar í Hollywood. En Stromboli heldur áfram að gjósa og það má segja að þetta eldfjall sé það virkasta á jörðu. Ekki er að furða að Stromboli eyja sé oft kölluð “viti Miðjraðarhafsins”, en her hefur gosið stöðugt í meir en 2500 ár. Gosin eru flest mjög lítil, og gera lítinn usla. 

StomboliRosi

 Tvö þorp sjómanna hafa þvi þrifist í hlíðum fjallsins í alda raðir.  Upphafið á sögunni um Vulkano og Stromboli kvikmyndirnar var það, að fjórir aðalsmenn á Sikiley fundu upp aðferð til að taka kvikmyndir neðansjávar og vildu gera mynd um kafara. Þeir fengu Rosselini og Önnu Magnani í lið með sér til að vinna að kvikmyndinni. 

Stromboli Olía

En svo sveik Roberto Önnu sína, og svo framvegis.  Hér fyrir neðan fylgja tvö málverk sem ég eignaðist þegar ég heimsótti Strombólí árið 1990 og 1997.  

Stromboli á gler

Þær má báðar sjá í Eldfjallasafni í Stykkishólmi, ásamt fleiri myndum af Strombóli eldeyju. 

 

Eldgosið á Eynni Montserrat

Montserrat 2009Árið 1980 starfaði ég við eldfjallarannsóknir í Vestur Indíum, en það er eyjaklasinn sem skilur Atlantshaf frá Karíbahafi. Flestar eru þessar eyjar eldfjöll sem hafa risið úr hafi vegna flekahreyfinga milli Atlantshafsflekans í austri og Karíbaflekans fyrir vestan. Þá bárust fregnir um dularfulla atburði í Soufriere Hills eldfjalli á eynni Montserrat og ég fór þangað til athugana og kynntist þessari fögru eyju, en hún er nú eina nýlendan sem eftir er af breska heimsveldinu. Ég kannaði hlíðar eldfjallsins Soufriere Hills á suður hluta eyjarinnar, og rakst á hverasvæði þar sem bráðinn brennisteinn rann niður úr fjallinu eins og hraun. Það var greinilegt að hiti var að færast í fjallið, eins og kom vel fram fimmtán árum síðar.Gosið í Soufriere Hills hófst árið 1995, eftir fimm hundruð ára dvala eldfjallsins. Strax var ljóst að allur suður helmingur eyjarinnar var í hættu, og þar á meðal höfuðborgin Plymouth, með um 4000 íbúa. Ég snéri aftur til Montserrat árið 1996, en þá var hafinn mikill flótti íbúanna frá eynni. Gosið hélt áfram, en það var með þeim hætti, að mjög seig hraunkvika kreistist upp úr gosopinu og myndaði stóran hraungúl efst á fjallinu. Montserrat 1997Öðru hvoru hrundu stór björg úr hraungúlnum og mynduðu glóandi heitar skirður eða gjóskuflóð niður brattar híðarnar. Árið 1997 hrundi mikill hluti hraungúlsins sem hafði safnast fyrir ofan á gígnum, og myndaði það stórt gjóskuflóð sem drap 19 manns. Skömmu síðar var um 80% af byggðinni í Plymouth eyðilögð af gjóskuflóðum og borgin þá yfirgefin fyrir fullt og allt. Árið 1998 starfaði ég við rannsókn á hafsbotninum umhverfis Montserrat. Yolanda WoodberryÍ þeim leiðangri kom ég við á nágrannaeynni Antigua. Þar hitti ég fyrir tilviljun svörtu listakonuna Yolanda Woodberry sem býr þar. Við ræddum um gosið og hún sagðist hafa glóandi fjallið fyrir augunum daglega, og væri byrjuð að mála gosið. Þannig eignaðist ég olíumálverkið af gosinu í Soufriere Hills eftir Woodberry, sem hangir uppi í Eldfjallasafni í Stykkishólmi, og er hér til hliðar. Myndin sýnir eldvirknina að nóttu til, þar sem glóandi heitir og eldrauðir straumar af grjóti og ösku streymir niður hlíðarnar, þegar hraungúllinn hrynur. Ljósmyndin hér fyrir neðan sýnir samskonar fyrirbæri. Á daginn sést glóðin lítt eða ekki, þar sem gjóskuflóðin hylja hlíðarnar og fela glóðina. Soufrier Hills heldur áfram að gjósa, og í gær fór gjóskustrókurinn í 16 km hæð og gjóskufall truflaði flugsamgöngur í Karíbahafi.Soufriere Hills á nóttinni

Elsta Myndin af Heklu er eftir Sebastian Münster

Munster HeklaElsta myndin í Eldfjallasafni í Stykkishólmi er sennilega frá árinu 1544. Hún er trérista af Heklugosi, úr ritinu Cosmografia eftir þjóðverjann Sebastian Münster. Myndin er sýnd hér fyrir ofan og er þar með elsta myndin af íslensku eldgosi. Það er fróðlegt að fylgjast með hugmyndum manna um eldfjöll á Íslandi, með því að skoða myndir af Heklu og öðrum eldfjöllum landsins eins og þær birtast okkur í landafræðiritum og á landakortum. Fyrst og þekktasta verk Sebastians Münster er Cosmographia universalis (1544) sem er einskonar landafræðirit, lýsing á löndum og þjóðum. Bókin er eitt þekktasta ritið frá byrjun bókaútgáfu í Evrópu. Münster var stórmerkilegur maður. Hann var múnkur í Fransísku reglunni, en eftir siðaskiftin fylgdi hann Marteini Lúter, og stundaði kennslu í Heidleberg og síðar í Basel. Münster sparaði ekki myndir í rit sitt, og fékk frábæra listamenn, eins og Hans Holbein yngri, Urs Graf, Hans Rudolph Manuel Deutsch, og David Kandel til að myndskreyta verkið með tréristum.Etna eftir Munster  Heklumyndin fyrir ofan er því eftir einn af þeim. Auðvitað hefur enginn þeirra séð Heklu, en haft vissa hugmynd um hvernig gjósandi eldfjall ætti að líta út. Í Cosmographia er einnig frábær trérista af eldgosi í Etnu á Sikiley, með borgina Kataníu í forgrunni, eins og sjá má hér til hægri. Reyndar var Hekla komin á prent rétt áður en Münster sýndi henni áhuga. Hekla kemur fyrst fram á landakorti af Norðurlöndum eftir þýska farandlærdómsmanninn Jakob Ziegler árið 1532. Kortið var í bók Zieglers sem ber heitið Schondia, eða Norðurlönd.  Ziegler 1532Ísland er sýnt aflangt frá norðri til suðurs á korti Zieglers, og nær öðrum endanum er ritað: “Hekelfol Promont”. Stækkuð mynd úr korti Zieglers er sýnd hér til vinstri. Árið 1536 gaf Sebastian Münster út landakort af allri Evrópu, þar sem hann sýnir Ísland og Heklu eða Hekl´berg, eins og sýnt er hér fyrir neðan. Eiginlega er þetta mikið bætt endurútgáfa á verki grikkjans Kládíusar Ptolemeusar (90 til 168), en landafræði hans var grundvallarrit allt fram á miðaldir. Næst kemur Hekla fyrir á landakorti því sem Olaus Magnus gaf út af öllum Norðurlöndum árið 1539. Munster 1539Magnus var síðasti kaþólski biskupinn í Svíþjóð, og var í útlegð í Feneyjum á Ítalíu eftir siðaskiftin. Kort hans er stórmekilegt, þótt ekki séu útlínur Íslands nálægt lagi. Hann dregur upp mynd af þremur miklum eldfjöllum á Íslandi, með eldtungur við rætur þeirra. Eitt fjallanna er merkt Mons Hekla og er þetta í fyrsta sinn sem eldur er sýndur í eða undir fjallinu á korti. Myndin fyrir neðan er úr Íslandskorti frakkans Hieronymus Gourmont frá 1548, sem er eftirmynd af korti Olaus Magnus. Olaus Magnus 1539Takið eftir orðinu “saxa” á milli Heklu og Skálholts á kortinu. Saxa er hamrar eða berg á latínu og sennilega er hér átt við stuðlaberg á Íslandi. Á sumum kortum frá þessum tíma eru “saxa” sýnd sem þrír háir turnar, eða skýjakljúfar. Hekla birtist aftur sem Mons Heklfiel á Íslandskorti Fernando Bertelli frá árinu 1566 og er jarðeldur undir fjallinu, og einnig Caos merkt við. Það er greinilega byggt á korti Magnusar frá 1539, en “saxa” turnarnir þrír eru enn greinilegri en áður. Íslandskort Giovanni Camocio í Feneyjum var gefið út árið 1571, en hann tekur upp eftir Bertelli að öllu leyti, þar á meðal Heklu sem Mons Heclafiel, og hér er jarðeldur og chaos undir fjallinu. Stökkbreyting varð í kortagerð Íslands árið 1587, þegar kort Guðbrands Þorláksonar biskups á Hólum birtist. Það var gefið út af Abraham Ortelius í Antwerpen.  Ortelius 1587Þetta er fysrta kortið sem gefur nokkurn veginn raunsanna mynd af Íslandi, og speglar það vel þekkingu Guðbrandar biskups á landinu. Eins og myndin til hægri sýnir, þá er Hekla gjósandi hér í allri sinni dýrð. Dökkur mökkur hvílir á toppi fjallsins, grjóthnullungar kastast í allar áttir, og eldur er bæði í rótum þess, sem mun sennilega tákna hraunrennsli, og í toppnum. Kortið er handlitað sem gerir Heklumyndina enn áhrifameiri. Mörg síari kort, eins og Íslandskort Matthias Quad frá 1600 taka upp eftir Ortelíusi og Guðbrandi Þorlákssyni biskupi, og sýna Heklu gjósandi.

Fjögur þúsund ára gamall Grænlendingur leysir frá Skjóðunni

SaqqaqÞað hefur lengi verið haldið af mannfræðingum að Grænlendingar hefðu komið frá norður hluta Norður Ameríku, og að forfeður þeirra hefðu átt uppruna sinn að rekja til austur hluta Asíu á ísöld. Nú hafa danskir vísindamenn í fyrsta sinn greint allt erfðamengi manns sem var uppi á Grænlandi fyrir um fjögur þúsund árum. Stóra sprengjan er að hann er ekki náskyldur Inuit, eða Grænlendingum nútímans.Saqqaq hárið  Það voru þeir Morten Rasmussen og Eske Willerslev við Kaupmannahafnar háskóla framkvæddu greiningarpróf fyrir erfðarmengi og kortlögðu gen mannsins, en grein þeirra er birt í dag í ritinu Nature. Grein um sama efni birtist í ritinu Scinece í maí árið 2008. Til rannsóknarinnar notuðu danir svartan gamlan hárlubba sem fannst við Diskóflóa á Grænlandi fyrir tuttugu árum. Hárlubbinn var svo þykkur að í fyrstu var haldið að hann væri af birni, en hann fannst á vestur strönd Grænlands árið 1986.  Myndin fyrir ofan er byggð á upplýsingum úr erfðagreiningunni, og myndin til hægri er af hárlubbanum. Þetta er í fyrsta sinn að fullkomin erfðagreining er framkvæmd á fornum mannaleifum, en erfðamengi aðeins átta lifandi einstaklinga hefur verið greint til þessa.  LandflutningarGrænlendingurinn var af Saqqaq ættbálknum, og nú kemur í ljós að næstu ættingjar hans eru Chukchi mannfélagið, en þeir búa nú á austasta hluta Síberíu. Erfðagreiningin sýnir að sennilega hafa Saqqaq klofnað út úr Chukchi og flutst til Grænlands fyrir um 5500 árum. Leifar af Saqqaq hafa aldrei fundist í Norður Ameríku, og hefur hann greinilega ekki haft langa viðdvöl þar, eða ef til vill farið sjóleiðina til Grænlands. Myndin til vinstri sýnir hugsanlegar leiðir þeirra um heimskautið.    Chukchis búa enn austast í Síberíu, en nú eru aðeins um fimmtán þúsund þeirra eftir. Myndin fyrir neðan er ljósmynd af Chukchis, tekin í b yrjun tuttugustu aldarinnar.Chukchis

Jarðskjálftar undir Arnarvatnsheiði

JarðskjálftarUndanfarna daga hefur verið í gangi fremur óvenjuleg jarðskjálftahrina undir Arnarvatnsheiði, vestan Langjökuls. Þetta eru litlir skjálftar, og á takmörkuðu svæði á Tvídægru heiði. Eins og myndin frá Veðurstofu Íslands sýnir, þá eru skjálftaupptökin rétt við brotalínu eða misgengi sem liggur aust-norð-austur um Arnarvatnsheiði. Þetta er nokkuð óvenjuleg stefna á misgengjum á Íslandi, en gæti hugsanlega verið tengt Snæfellsnes beltinu fyrir vestan.  Árið 2001 varð einnig jarðskjálftahrina á svipuðum slóðum, en eilítið vestar.  Enn meiri virkni varð hér á þessum slóðum árið 1974, eins og Páll Einarsson hefur ítarlega fjallað um. Það verður því fróðlegt að fylgjast með þessarri skjálftavirkni næstu daga. Yfirlit yfir jarðfræði svæðisins er sýnt á seinni myndinni, og upptök skjálftanna eru flest innan rauða hringsins.  Svarta brotna línan er stefna misgengja. Jarðmyndanir á svæðinu þar sem skjálftarnir gerast eru aðallega blágrýrismyndun frá lokum Tertíera tímans.  ArnarvatnsheiðiUm 20 km austar er Hallmundarhraun, sem rann sennilega skömmu eftir Landnám eða eftir árið 900, samkvæmt aldursgreiningu Kristjáns Sæmundssonar og Hauks Jóhennessonar. Það er talið eina hraunið sem hefur runnnið í Vesturgosbeltinu (Langjökull og gosbeltið suður að Þingvallavatni) síðan land byggðist, en Hallmundarhraun rann úr þremur gígum við vesturbrún Langjökuls. Þetta basalthraun er um 50 km á lengd og nær yfir um 205 ferkílómetra, en rúmmál þess er 3,4 rúmkílómetrar.  Hæget er einnig að fylgjast með skjálftavirkni á Arnarvatnsheiði með því að skoða gögn úr skjálftamæli Jóns Frímann hér  http://www.jonfr.com/

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband