Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2022

Síðustu Inuitarnir á norðaustur Grænlandi

Í ágúst 2014 var ég á siglingu um Scoresbysund á norðaustur Grænlandi, ásamt félaga mínum Ragnari  Axelssyni, ljósmyndara.  Einn daginn, hinn 31. 

0F460987-BB62-4AAC-999E-57B17A06A7C4ágúst,  vörpum við akkerum í Rypefjord, eða Rjúpufirði, sem er mjög innarlega í Scoresbysundi.  Hér er vinalegt umhverfi, og dálítill gróður upp brattar hlíðar. Skammt  frá sjáum við sauðnaut á beit.  Við göngum í land rétt við árósa, og rekum strax augun í grjóthleðslu á árbakkanum, sem er einhverskonar mannvirki, en er nú vafið runnum og grasi.  Áin er að naga í brún hleðslunnar og senn verða þessar fornu menningarleifar horfnar. Þetta eru greinilega rústir af vetrarhúsi, þar sem Inuítar dvöldu í yfir kaldasta tíma ársins, en annars dvöldu þeir í tjöldum nærri veiðistað í mynni Scoresbysunds, við ísilagða strönd Atlantshafsins.  Húsrústin er hringlaga, með upphækkuðum palli  úr steinhleðslu sem tekur um helming rýmisins. Á pallinum hefur fjölskyldan dvalið og sofið, sitið þétt til að halda á sér hita. Hleðsla af stórum steinhellum myndar nokkurra metra löng göng, þar sem hægt er að skríða inn í byrgið.  Við forðumst að hreyfa neitt og vildum ekki róta í þessari rúst. Það munu fornleifingar væntanlega gera síðar.

Rétt vestan við húsið, um hálfan meter frá steinhleðslunni, sjáum við að bein stendur upp úr moldinni.  Það er rifbein, sem hefur verið tálgað til einhvers brúks.  Í grennd er töluvert af öðrum beinum, en þau eru öll brot af leggjum, sem hafa verið vel mergsogin, sennilega bein af sauðnautum.  Ég kippi rifbeininu upp og þá kemur í ljós að hinn endinn er einnig tilskorinn. Mér virðist líklegast að þetta sé rif úr kajak, en Inúítar notuðu bein í stað trjáviðar til að setja saman kajakgrindur og strekktu svo skinni utanum. Sennilega var hér kajak uppi á þaki á vetrarhúsinu, en með tímanum hefur skinnið fúnað og kajakinn dottið í sundur. 

Curve
Ég fór síðar með rifbeinið í aldursgreiningu í Woods Hole í Bandaríkjunum.  Bein inniheldur mikið kolefni.  Kolefni af gerðinni C-14 er geislavirkt og geislakol klofnar með tímanum og myndar köfnunarefni.  Á því byggist aldursgreining efna sem eru rík af kolefni, eins og bein.  Hlutfall geislakola í efninu gefur því aldur þess.  En eins og myndin sýnir eru lykkjur á kvörðunarferlinum fyrir C-14 aldur og almanaksaldur. Ef C-14 sem mælist  fellur í slíka lykkju, þá getur almanaksaldur  gefið tvær mögulegar niðurstöður. Þannig er því miður með rifbeinið frá Rypefiord. Það er annað hvort frá því um 1670 e.Kr. eða það er  frá um 1790 e.Kr. Eg hallast fremur að yngri tölunni, frá um 1790 e.Kr. en hef engin sterk rök til að styðja það. 

Víðtækar rannsóknir sýna að Inuítar námu fyrst land á norðaustur Grænlandi um 1400 e.Kr. en búseta þeirra var fremur stutt á þessum slóðum vegna loftslagsbreytinga. Síðustu Inuítarnir sáust á þessu svæði í ágúst árið 1823, þegar breski vísindamaðurinn Douglas Clavering rakst á tólf Ínúíta á lítilli eyju sem nú ber hans nafn, skammt fyrir norðan Scoresbysund. Síðan hvarf þessi ættbálkur Ínúíta algjörlega frá norðaustur Grænlandi, sennilega vegna harðinda og kólnandi veðurfars.  Ekki er ljóst hvort þeir dóu út í grennd við Scoresbysund eða fluttust suður á bóginn, í átt að Kulusuk.   Mér þykir líklegt að veturseta Inúíta hafi haldist við Rypefiord til hins síðasta, eða alt að aldamótunum 1800 e.Kr. þar sem sveitin hér er hlýlegri, grösugri og veðurfar betra en utar í Scoresbysundi. Þess vegna hallast ég að C-14 1790 e.Kr. fyrir rifbeinið góða.All Photos - 1 of 1


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband