Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2010

Fyrsta Listaverkið af Gosinu í Eyjafjallajökli

Vignir Jóhannsson vatnslitamyndÞegar Eldfjallasafn í Stykkishómi opnar 1. maí, þá verður meðal annars efnis sýnd ný vatnslitamynd sem Vignir Jóhannsson hefur gert af sprengigosinu í Eyjafjallajökli.  Hún sést hér til hliðar.  Vignir hefur náð einstaklega vel forminu á öskustróknum uppaf toppgíg fjallsins, en einnig jökulhlaupi í forgrunni og öskufallinu til hægri eða til suðurs.   Myndin er merkilegt framlag í þann fáliðaða hóp af íslenskum  listaverkum sem sýna eldgos.  Tengsl Vignis við eldgos og eldgosalist eru orðin nokkuð löng, en hann vann við að setja upp Eldfjallasafn í Stykkishólmi vorið 2009 og nú í vor setti hann upp sérstaka sýningu um gosið í Eldfjallajökli árið 2010.


Erindi um Gosin í Eyjafjallajökli í Vísindafélagi Íslands Föstudag 30. apríl

VísindafélagÉg held erindi um eldgosin í Eyjafjallajökli á aðalfundi Vísindafélags Íslands í byggingu Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands í Öskju föstudaginn 30. apríl. Aðalfundurinn hefst kl 19:15, en eftir aðalfundarstörf hefst erindi mitt um kl. 20. Allir eru velkomnir. Ágrip erindisins er:  “Þótt gosin hafi ekki verið stór, þá hafa eldsumbrotin í Eyjafjallajökli árið 2010 reynst mjög söguleg og borið nafn Íslands út um allan heim á fremur óvæntan hátt.  Einnig sýna gosin að atburðarás gosa í stórri eldkeilu getur verið nokkuð flókin.  Þannig reyndist andesít kvikan sem berst upp í sprengigosinu í toppgíg fjallsins á ýmsan hátt frábrugðin basalt kvikunni sem gaus í hraungosinu á Fimmvörðuhálsi skömmu á undan.  Fjallað verður í fyrirlestrinum um hegðun eldkeilunnar í þessum tveimur gosum, um myndun öskunnar í sprengigosinu og óvenju mikla útbreiðslu öskuskýja til meginlands Evrópu, og áhrifa hennar á flugsamgöngur.”


Eldfjallasafn Opnar 1. maí með Sýningu um Eyjafjallajökul

RAXEldfjallasafn í Stykkishólmi hefur annað ár sitt með opnun hinn 1. maí 2010.  Sérstök sýning hefur verið sett upp í safninu varðandi gosin í Eyjafjallajökli árið 2010. Þar á meðal eru stórbrotin listaverk eftir Ragnar Axelsson ljósmyndara af gosunum á Fimmvörðuhálsi og í Eyjafjallajökli.  Einnig ljósmyndir eftir Jóhann Ísberg og vatnslitamynd af sprengigosinu í Eyjafjallajökli eftir Vignir Jóhannsson.

 


Hvað er Magn af Ösku í Loftinu?

Flug inní öskuskýAlþjóða flugmálastofnunin (ICAO) hefur skráð um 80 atvik síðastliðin 15 ár þar sem flugvélar flugu óvænt inn í öskuský.  Aska frá sprengigosum er greinilega alvarlegt vandamál fyrir flugsamgöngur um allan heim.  Myndin til hliðar sýnir til dæmis fjölda af tilfellum þar sem þotur rekast á öskuský frá 1973 til ársins 2000.  Það er gosið í Pínatúbó eldfjalli á Filipseyjum sem veldur toppnum árið 1991.

Hingað til hefur verið mjög lítið til af gögnum um öskumagn í loftinu á flugleiðum, og enginn hefur virst hafa haft hugmynd um hvað er leyfilegt magn fyrir flugsamgöngur.  Af þeim sökum var strax ákveðið af yfirvöldum í Evrópu að flug skyldi stöðvað strax og VOTTUR af ösku finnist í háloftum.  Nú hefur breska flugmálastofnunin (CAA) lýst því yfir að flug sé leyfilegt ef öskumagn í lofti er undir 2000 míkrógrömmum (0,002 g) á rúmmeter af lofti.  Zurich askaUndir þessu marki eru þotuhreyflar í engri hættu, segja sérfræðingarnir, eftir að hafa tekið í sundur fjölda af hreyflum sem hafa farið í grennd við öskuský.  Eins og ég hef bloggað um hér, þá er aðal hættan tengd því að askan bráðnar inni í hreyflunum, myndar glerhúð sem lokar fyrir eldsneyti til hreyfilsins. En bráðnun ösku er háð bræðslumarki hennar. Í öllum fyrri tilfellum var það líparít aska, með hátt kísilmagn og lágt bræðslumark (um 700 stig), en til samanburðar er andesít askan frá Eyjafjallajökli sennilega með bræðslumark um 1000 stig, og því seinni að bráðna, og ekki eins hættuleg.

Það er ótrúlega lítið vitað um magn af ösku í háloftum, og mælingar eru fáar og lélegar til þessa.  Sennilega myndast nú ný vísindagrein til slíkra mælinga.   Rannsóknir yfir Þýzkalandi sýna að ösku er að finna í um 4 km hæð, og er þar um 60 míkrógrömm á rúmmeter, sem sagt langt undir mörkum sem CAA setti.  Loftslagsrannsóknastöð ETH skólans í Zurich hefur mælt öskuskýið með LIDAR tækni og loftbelgjum yfir Svisslandi 16 og 17. apríl.  Myndin til hliðar sýnir gögn þeirra.  Þá var skýið í um 4 km hæð.  Svarta línan sýnir hita sem fall af hæð, en rauða línan sýnir breytingar sem eru sennilega af völdum öskunnar, og með topp í 4 km hæð.  Þeir telja að askan hafi verið um 80 míkrógrömm á rúmmeter, einnig langt undir hættumörkum.  Ein mæling sýndi miklu meira öskumagn, allt að 600 míkrógrömm á rúmmeter, en meðaltal mælinganna var um 50 míkrógrömm á rúmmeter.  Þetta er mjög líkt og rykið sem berst oft til Evrópu frá eyðimörkum Sahara, og enginn flugmaður kippir sér upp við það.  St Helens askaMeðal stærð öskukornanna yfir Zurich var um 3 míkrómetrar, en meðal stærð öskunnar sem Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands hefur safnað á jörðu um 55 km frá Eyjafjallajökli er um 30 míkrómetrar.  Ég hef ekki séð stækkaða mynd af öskukornum úr Eyjafjallajökli, en hér til hliðar er mjög stækkuð mynd af öskukorni frá Sánkti Helenu eldfjalli í Washington fylki, sem gaus árið 1980.  Auðvitað fellur grófari askan til jarðar fyrst, en sú fína berst til fjarlægra landa.

Sem sagt: nú er kominn nýr staðall, amk. í Bretlandi, um leyfilegt öskumagn um 2000 míkrógrömm í rúmmetra.   Það er ekki auðvelt að gera sér grein fyrir þessu magni, en við skulum bera það saman við  teskeið af sykri.  Teskeið af sykri vigtar um 4 grömm.  Leyfilegt magn af ösku, 2000 míkrógrömm á rúmmeter, er því um einn tvöþúsundasti af teskeið. Ætli það sé ekki um það bil eitt korn af sykri á hvern rúmmeter?     En þess ber að gæta að það er gýfurlegt magn af lofti sem fer gegnum þotuhreyfil. Ég áætla að um 500 þúsund rúmmetrar af lofti streymi inn í þotuhreyfil á klukkustund.  Ef loftið inniheldur 0,002 g af ösku á rúmmeter, þá er um eitt kg. af ösku búið að streyma inn í hreyfilinn. Mikið af öskunni kann að fara beint í gegn, en hluti af þessu bráðnar og klessist sem gler innan á hreyfilinn.    Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvernig mælitækjum verður komið fyrir víðs vegar um heiminn til að fylgjast með öskuskýjum framtíðarinnar.  Stærð sprengigosaTil að átta sig á framtíðinni er gott að líta aðeins til fortíðarinnar. Myndin til hliðar sýnir á grafískan hátt stærð sprengigosa sem hafa orðið á ýmsum tímum.  Stærð gosanna er í hlutfalli við glóandi heita  boltann sem sýnir kvikuþrónna undir eldfjallinu.  Stærð gossins árið 2010 í Eyjafjallajökli er minna en minnsta gosið sem sýnt er á þessarri mynd. Í framtíðinni koma gos af þessari stærð einhverstaðar í heiminum. Hvernig áhrif munu þau hafa á flugsamgöngur, loftslag, símasamband og öll fjarskipti?


Eyjafjallajökull andar: GPS Mælingar

 

GPS EyjafjallajökullÉg hef ekki bloggað sem skyldi um niðurstöður GPS mælinga  varðandi gosin í Eyjafjallajökli.   Sigrún Hreinsdóttir hefur fylgst með GPS mælistöðvum sem hafa verið settar upp af Veðurstofunni og Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands umhverfis Eyjafjallajökul.  Allar stöðvarnar hafa sýnt töluverðar hreyfingar á jarðskorpunni síðan í desemberlok, og spegla þær GPS hreyfingar innstreymi af hraunkviku frá möttli jarðar og ínní jarðskorpuna undir Eyjafjallajökli.  Nánar um þetta efni hér

Ég sýni bara hreyfingar á stöðinni á Þorvaldseyri (sunnan eldfjallsins) í myndinni sem fylgir.  Skoðið vefsíðu Sigrúnar til að sjá gögn frá öllum hinum stöðvunum.  Aðeins er hreyfing á norður ásnum sýnd hér. Strax í desember byrjaði Þorvaldseyri að færast til suðurs, þegar eldfjallið lyftist upp vegna innstreymis kviku. Eins og myndin sýnir, þá hafði Þorvaldseyri færst um 60 mm til suðurs áður en gos byrjaði.  Þetta er aðdragandinn, en auðvitað var ekki hægt að ráða frá þessum gögnum HVENÆR gos kynni að hefjast, eða HVORT gos yrði.  Strax og gosið á Fimmvörðuhálsi hófst hinn 20, marz, þá breytist ferli á GPS mælinum. Fjallið er ekki lengur að þenjast út, heldur byrjar að jafna sig um tíma. Fljólega byrjar þenslan aftur og er í gangi þegar gosið í toppgíg Eyjafjallajökuls hefst hinn 14. apríl.  Strax og sprengigosið byrjar hefst skyndilega breyting, og fjallið stefnir nú hratt í upprunalegt horf.  Ef þessu heldur áfram, þá ætti fjallið að vera komið í jafnvægi aftur eftir eina viku eða svo.  Það er að segja, GPS mælirinn verður aftur kominn á sinn upprunalega stað.  Þannig “andar” eldfjallið.  Þegar kvika streymir inn í það, þá þenst það upp, en þegar gýs þá sígur það saman.


Strombolí og Hvellirnir í Eyjafjallajökli

StromboliÍ Miðjarðarhafi, vestan Ítalíu og norðan við Sikiley, er eldeyjan Strombolí, sem hefur stöðugt gosið  í 2500 ár.  Málverkið til hliðar er af Strombólí, en það má sjá á Eldfjallasafni í Stykkishólmi.  Ég hef áður bloggað um þessa merku eyju hér.  Ef til vill er að finna á Strombólí skýringu á hljóðum sem fólk undir Eyjafjöllum er að heyra þessa dagana.  Margir hafa tekið eftir mjög djúpum hljóðum frá eldgosinu á Eyjafjallajökli, eins og Halldór Björnsson bloggaði um hér í gær.  Hljóðin eru greinilega tengd sprengingum í toppgígnum, en þau eru mjög djúp  og  heyrast varla.  Sennilega er mikið af orkunni í þessum sprengingum fyrir neðan 20 Hz, sem eru  neðri mörk heyrnar okkar.  Fyrir tveim dögum var ég í þyrlu rétt fyrir ofan gíginn þegar sprenging varð, og við sáum hljóðbylgjuna í gjóskunni og fundum höggið þegar bylgjan skall á þyrlunni.  Ég tel að þessi hljóð orsakist af því að mjög stórar bólur eða blöðrur af gasi springa rétt undir gígnum.  Í dýpinu, þar sem þrýstingur er hár, er gas í upplausn í kvikunni,  en þegar kvikan rís upp í gosrásina kemur gasið úr upplausn og myndar bólur sem stækka ört og renna saman.  Þannig geta myndast bólur af gasi sem eru margir metrar á lengd, jafnel tugir metra. Þrýstingur inni í bólunni er mjög hár, en þegar bólan rís í kvikunni og upp gosrásina, þá kemur að þvi að innri þrýstingurinn er jafn mikill eða meiri en þyngdin af kviku ofan á bólunni. Þá springur bólan og  við það kastast upp slettur af kvikunni sem lá ofan á bólunni.  Sletturnar hlaða upp gíg umhverfis gosrásina. Seigja kvikuSeigjan í kvikunni skiftir miklu máli varðandi hreyfingu og hegðun bólunnar.  Þegar kvikan er seig, eins og  andesít kvikan sem nú gýs, þá rís bólan treglega, og þá safnast fyrir  meiri þrýstingur áður en bólan nær að springa.  Myndin til hliðar sýnir seigju í kviku, og þar má sjá að seigjan í andesít kviku er um miljón poise einingar.  Hún er sennilega um hundrað sinnum seigari en basalt kvikan sem kom upp á Fimmvörðuhálsi.

Sylvie Vergniolle, sem starfar við Institut de Physique du Globe de Paris, hefur lagt stund á rannsóknir  á strobólískum gosum og má til dæmis finna grein eftir hana í Encyclopedia of Volcanoes.   Einnig er frekari fróðleikur um þetta efni hér.  Mér virðist að nú komi upp hlutfallslega meira gas en kvika í gosinu.  Ef til vill streymir gasið nú upp úr kvikuþró sem er tiltölulega grunnt undir gígnum.  Þessi kvikuþró inniheldur andesít kvikuna sem gýs, en neðar í þrónni kann að vera basalt kvika, sú sama og gaus á Fimmvörðuhálsi.  Sumt af gasinu kann að vera úr basaltkvikunni undir.  Einnig er hugsanlegt að þessar kvikur séu að blandast í þrónni.


Gosmökkurinn

 

Jóhann ÍsbergMyndin til hliðar er tekin af Jóhanni Ísberg, en hún sýnir dæmigerðan gosmökk yfir toppgíg Eyjafjallajökuls.  Það er margt að gerast í mökknum og mikil litbrigði.  Breytingarnar í útliti gosmökksins orsakast einkum af breytingum á hita, magni af ösku, og gufu og magni af andrúmslofti sem dregst inn í eða blandast í mökkinn.  Við skulum líta á þessi atriði og byrja söguna þegar sprenging verður og aska eða gjóska þeytist fyrst upp úr gígnum. Önnur mynd sýnir þessi fyrstu augnablik, þegar gjóskan rís mjög hratt upp fyrir gígbrúnina og þá er gosmökkurinn mjög dökkur, annað hvort dökkgrár eða næstum svartur á lit. MökkurGígurinn er beint undir mökknum lengst til vinstri á myndinni.  Takið eftir að lengra til hægri er mökkurinn farinn að verða ljósari á lit, fyrst dökkbrúnn og síðan enn ljósari.  Hér er það hiti í mökknum og hegðun vatnsgufu  sem ræður litnum.  Af hverju er mökkurinn svo dökkur í fyrstu?  Fyrst er mökkurinn mjög heitur  og allt vatn í mökknum er í gas formi, eða yfirhitað (superheated).  ketill2.jpgÞið kannist við þetta fyrirbæri þegar ketillinn sýður á eldavélinni. Þá kemur gufustrókur út úr stútnum á katlinum, en fyrstu sentimetrana fyrir ofan stútinn sést gufan ekki, eins og myndin sýnir.  Fljótlega kólnar og þéttist vatnsgufan og verður sýnileg.  Þannig er einnig ástandið fyrst í mökknum fyrir ofan gíginn.  Hann er gýfurlega heitur, og allt vatn er í gas formi. Strax og mökkurinn þenst út,  þá blandast hann að einhverju leyti við andrúmsloft og kólnun byrjar. Þá þéttist vatnsgasið og gufa verður sjáanleg: mökkurinn byrjar að litast brúnn og ljósbrúnn.   Þá fer mökkurinn að færast frá gígnum vegna vindsins.  Hér byrjar grófari askan að falla til jarðar, en einnig þéttist gufan í mökknum og myndar annað hvort regn eða ískristalla sem kunna að falla til jarðar sem snjór.  Það er því ótrúlega margt sem gerist í mökknum, eins og sjá má af hinum ýmsu litbrigðum hans.

 


Órói er Tónninn í Eldgosinu

SpektrumHvað er órói?  Við þekkjum hann vel í litlum krökkum, en hvað er þessi órói sem menn tala um í sambandi við eldgosið á Fimmvörðuhálsi?  Mér finnst best að líkja honum við tón.   Hvert gos gýs með sínu lagi, og spilar sinn tón.   Jarðskjálftafræðingar  á Veðurstofu stilla mæla sína til að skrá bylgjur sem eru á tíðninni 0,5 til 1 Hz,  1 til 2 Hz, og 2 til 4 Hz.   Hz er skammstöfun fyrir mælieininguna fyrir tíðni eða bylgjulengd, nefnd eftir þýska eðlisfræðingnum Heinrich Hertz.  Það má segja að allur heimurinn sé búinn til úr bylgjum, en af mjög mismunandi tíðni. Eitt Hz þýðir að tíðni bylgjunnar er endurtekin á sekúndu fresti en Hz er oft nefnt rið á íslensku.    Hér til hliðar er mynd sem sýnir ýmsar bylgjulengdir. Það sem við sjáum eru bylgjulengdir á mjög þröngu sviði, og einnig það sem við heyrum. Allra lengst til hægri á myndinni eru innhljóð. Infrasound eða innhljóð eru bylgjur sem eru fyrir neðan 10 Hz, og er margt skrítið og skemmtilegt að gerast á því sviði.  Sum dýr heyra innhljóð, og þannig geta fílar sent hljóð sem eru á tíðninni 12 til 35 Hz, og heyra aðrir fílar  þessi hljóð í allt að 15 km fjarlægð.   ÓróiHeyrn okkar mannanna er góð fyrir hátíðni, en við heyrum ekkert fyrir neðan 20 Hz, en það er djúpur bassi.  Við heyrum hins vegar upp í 20,000 Hz. Þannig getum við ekki heyrt óróann í gosinu á Eyjafjallajökli, sem er á bilinu 0,1 til 4 Hz.   Hins vegar gætum við “heyrt” óróann, ef við spilum hann til baka um sextíu sinnum hraðar en hann er tekinn upp.  Ég hef prófað það í öðrum gosum, og þá kemur fram  mjög skemmtilegur takt. 

Lágtíðni er einkennandi fyrir vissa tegund óróa eða  jarðskjálfta (1 til 5 Hz) og er talið að þeir myndist vegna kvikuhreyfinga í jarðskorpunni eða jafnvel vegna rennslis kviku í átt að yfirborði jarðar.  Óróinn myndast vegna breytilegs þrýstings þegar kvikan streymir.  Það er oft sagt að órói líkist titringi sem heyrist stundum í vatnslögnum í heimahúsum.  Á meðan órói er fyrir hendi, þá er líklegt að kvikan sé á hreyfingu og gos jafnvel í gangi.  Það er því einkum athyglisvert í dag  á Eyjafjallajökli að óróinn heldur áfram og er nokkuð hár (sjá mynd til hliðar), þótt öskuframleiðsla sé lítil og sprengingar færri og smærri.  Það bendir sennilega til þess að kvika sé að streyma upp í gíginn og að nú sé gosið komið á stig sem má kalla blandað gos.  Það þýðir að gosið einkennist af bæði sprengingum vegna samspils kviku og bræðsluvatns úr jöklinum, og einnig kviku sem er að byrja að safnast fyrir í eða rétt undir gígnum.  Eftir nokkra daga kann vel að vera að hraun byrji að renna frá gígnum ef þessu heldur áfram.  Þá verður endurtekning á þeim atburðum sem mynduðu Skerin í vestanverðum Eyjafjallajökli árið 920 e.Kr.  Takið eftir hvað óróinn er enn hár síðustu dagana, jafnvel eftir að  dró mikið úr sprengingunum og öskuframleiðslu.  Vonandi bjargar hraunrennslið þá flugsamgöngum um Norður Atlantshaf, þegar kvikan breiðist út sem hraun yfir Gígjökul í staðinn fyrir að springa upp í ösku.  Það kann að þykja furðulegt ef  glóandi heitt hraun rennur yfir ís. Það er ekkert undarlegt, og hefur gerst fyrr hér á landi. Til dæmis minnist ég á að hafa séð ljósmynd í bók Ólafs Jónssonar um Ódáðahraun, sem sýnir þykkt lag af ís undir ungu hrauni í Öskju.  Undir hraunum er ætið mikið gjalllag sem myndar góða einangrun milli íss og heita hraunsins. Því getur hraun auðveldlega runnið nokkra vegalengd yfir jökulinn. 


Skerin Vísa Veginn

Birgir V Óskarsson SkerinÍ gær lentum við með þyrlu á Skerjum í Eyjafjallajökli, skammt fyrir vestan hinn gjósandi toppgíg  eldkeilunnar. Það var stórfengleglegt að sjá gosmökkinn brjótast upp úr gígnum í návígi.  Lendingarstaðurinn er sýndur með litlum rauðum hring á kortinu til hliðar.  Stóri hringurinn sýnir virka gíginn. Skerin eru merkileg jarðmyndun.  Árið  2009 varði jarðfræðingurinn Birgir Vilhelm Óskarsson MSc ritgerð við Háskóla Islands um goshrygginn Skerin í vestur hluta Eyjafjallajökuls.  Það má margt læra af ritgerð hans sem snertir eldvirknina í eldkeilunni í dag, en ritgerðina er hægt að nálgast hér. 

 Það er til dæmis fróðlegt að bera saman efnagreiningar Birgis á gosefnum sem komu upp í Skerjum kringum 920 e.Kr. og efnagreiningum Níels Óskarsonar á öskunni sem nú gýs uppúr toppgíg Eyjafjallajökuls. Myndin til hliðar sýnir efnagreiningar Birgis, og ég hef sett inn rauðan hring þar sem nýja gjóskan fellur á plottið.   Kvika úr eldfjalli getur verið breytileg en innan vissra marka. Þannig er viss dreifing á efnasamsetningunni, en dreifingin fylgir oftast svipaðri stefnu gos eftir gos. Skerin og gjóskan 2010 Kvikan sem nú gýs er náskyld þeirri sem myndaði Skerin kringum 920, og fellur á  sömu  stefnu eða ferli í  línuritinu.  Það bendir til að nýja kvikan kann að koma úr sömu kvikuþró og var virk árið 920 eða alla vega af sama uppruna. 

Heldur var kuldalegt á Skerjum í gær. Norðan vindur, mikið frost og glerhált.  Gráar andesít og dasít klappir standa uppúr ísnum hér.  Annars er jökullinn alveg tandur hreinn hér vestan gígsins,  en aðeins austar byrjar brún rönd öskufallsins rétt við gígbrúnina. Aska hefur ekki enn borist til vesturs. Fyrir utan öskudreifina eru samt nokkrar djúpar holur í ísinn. Þar hafa “bombur” eða stórir og glóandi heitir steinar  kastast út úr gígnum og lent á jökulinn. Hér bræða þeir sig strax niður í ísinn og mynda holur.   Nú virðast gígarnir hafa sameinast í einn stóran gíg, og var nær stöðugt streymi af svörtum eða dökkgráum gjóskubólstrum  uppúr honum, sem risu strax upp í um 400  m hæð. Þá blandast gjóskan andrúmslofti og gufu, og breytist þá litur bólstranna í ýmis brún litaafbrigði, en þessir bólstar rísa síðan upp í allt að 3 til 4 km hæð áður en þeir berast til suðurs með norðanáttinni og demba ösku sinni niður yfir sveitina og út á sjó.  Ég þakka Reyni Péturssyni þyrluflugmanni fyrir frábært flug.


Fljúgandi Öskubakkinn og Galunggung Sprengigosið

Galungung 1982Askan sem berst frá Eyjafjallajökli til Evrópu minnir mig á atvik sem gerðist í Indónesíu hinn 24. júní árið 1982.  Þetta atvik er eitt hið allra frægasta í sögu flugsins, og markar tímamót í rannsóknum á dreifingu ösku í háloftum og áhrifum ösku á flugþotur.   Það var flug Speedbird 9  í  þotu af gerðinni Boeing 747 frá British Airways sem var á leið frá Kuala Lumpur í Malaísíu til Perth í Ástralíu.  Flugleiðin lá yfir vestur hluta eyjarinnar Jövu í Indónesíu, en um borð voru 240 manns.  Um nóttina flaug vélin óvænt  inn í öskuský frá sprengigosi í eldfjallinu Galunggung á Jövu, og var flugvélin þá um 150 km fyrir sunnan  eldfjallið.  Myndin til hliðar sýnir Galunggung gosið 1982.   Það drapst strax á öllum fjórum hreyflum þotunnar.  Án vélarafls getur Boeing 747 vél svifið í hlutfallinu 15 á móti einum, það er að segja að hún svífur áfram um 15 km fyrir hvern km sem hún hrapar, ef vel er haldið á spöðunum.  Áhöfnin reiknaði strax út að þeir gætu svifið í 23 mínútur og 169 km vegalengd frá þeirri 11,5 km hæð þar sem hreyflarnir stöðvuðust af völdum ösku. Hreyfill með öskugleri

Þá ávarpaði flugstjórinn Eric Moody farþegana og sagði þessi frægu orð:  “Ladies and gentlemen, this is your captain speaking. We have a small problem. All four engines have stopped. We are doing our damnedest to get them under control. I trust you are not in too much distress.”

Eftir hreyflalaust 4 km hrap, niður í  7,5 km hæð, þá tókst loks að starta einum hreyfli, rétt áður en vélin  var á hraðferð niður í 3,5 km há fjöllin í vestur Jövu. Þá tóku hinir hreyflarnir við sér hver af öðrum.  Moody tókst að lenda vélinni í Jakarta, höfuðborg Indónesíu, en hann varð að standa við lendinguna til að sjá út um framrúðuna, því hún var illa sandblásin af öskunni. Við rannsókn kom í ljós að askan hafði bráðnað inni í hreyflunum og myndað gler húð, sem lokaði fyrir streymi eldsneytis til hreyflanna og drap á þeim. Myndin til hliðar sýnir innri gerð eins hreyfilsins, með glerskáninni.  Síðar, þegar þotan var tekin úr umferð, fengu allir farþegarnir minjagripi sem voru partar úr vélinni, og þeir bera það hreyknir um hálsinn, sem minjagrip eftir flugið í "Fljúgandi öskubakkanum", eins og vélin var kölluð.  Eftir þennan atburð var mikil breyting á eftirliti með gjósku frá sprengigosum til að koma í veg fyrir endurtekningu á slíkum atburðum.

Ég bloggaði um þetta gos í Galunggung síðastliðinn janúar hér og einnig um þetta merkilega flug. 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband