Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2012
Aftur um Þúfurnar á Snæfellsjökli
29.8.2012 | 16:02
Það hafa orðið fjörug viðbrögð við bloggi mínu í gær um berglögin sem eru að koma í ljós í Miðþúfunni á Snæfellsjökli. Ég benti á að Þúfan er nú auðari en ég hef séð áður og að bráðnun sé óvenju hröð. Aðrir halda því nú fram að þetta sé ekki óvenjulegt síðsumars á seinni árum: sem sagt business as usual. Sumir telja hins vegar að hér sé mjög mikil breyting á ferðinni vegna hraðari bráðnunar Jökulsins. Auðvitað er hægt að deila um slíkt, en það eina sem vert er reyndar að fjalla um í því sambandi eru beinar mælingar á Jöklinum. Það vill svo vel til að slík gögn eru til. Veðurstofa Íslands hefur fylgst með Jöklinum og birt gögn þar að lútandi. Sjá til dæmis grein Tómasar Jóhannessonar hér: http://en.vedur.is/weather/articles/nr/1618 Línuritið til hliðar sýnir breytingar á flatarmáli Snæfellsjökuls og er byggt á slíkum gögnum. Þar kemur í ljós að Jökullinn hefur minnkað um helming á einni öld. Samkvæmt spá sem er byggð á öllum mælingunum væri Jökullinn horfinn í lok þessarar aldar, eins og rauða línan sýnir. En sennilega eru þrír nýjustu mælipúnktarnir best mældir. Ef svo er, þá væri Jökullinn horfinn um 2050. Aðrar mælingar Veðurstofunnar sýna að á tímabilinu 2000 til 2008 þynntist jökullinn um allt að 40 metra á ytri mörkum hans. Já, sjálfsagt hafa berglögin verið greinileg í Miðþúfunni fyrr á seinni hluta sumars, en hitt er samt staðreynd: Jökullinn minnkar hratt.
Skipsbjallan á HMS Hood
29.8.2012 | 07:55
Í águst 2012 var ég um borð í snekkjunni M/Y Octopus, þegar fjarstýrður kafbátur var sendur niður á flakið af breska herskipinu HMS Hood í Grænlandssundi. Flakið hvílir á um 2848 metra dýpi og þar um borð og á hafsbotninum umhverfis er nær öll 1418 manna áhöfnin. Aðeins þrír komust af þegar stærsta herskipi breta var sökkt hér á örfáum mínútum í orustu við þýska herskipið Bismarck hinn 24. maí árið 1941. Það sökk um 500 km beint vestur af Reykjanesi. Markmið okkar var að kanna flakið og að færa upp á yfirborðið skipsbjölluna, eitt helsta einkenni skipsins. Bygging á HMS Hood hófst í fyrri heimstyrjöldinni árið 1916 og það var fullbúið árið 1920. Hood var hvorki meira né minna en 48 þúsund tonn, og 262 metrar á lengd. Þrátt fyrir stærðina gat þetta tröllvaxna skip samt siglt um heimshöfin á 28 til 31 hnúta hraða. Utan á skrokk skipsins var tólf tommu þykk brynvörn úr stáli, og fallbyssur þess skutu sprengikúlum sem voru fimmtán tommur í þvermál. Bretar vissu að þjóðverjar höfðu hleypt af stokkunum öðru risavöxnu skipi í Hamborg, sem skírt var Bismarck, eftir kanslaranum fræga. Hinn 5. maí 1941 kom sjálfur Adolf Hitler til Hamborgar til að skoða þetta nýja vopn, sem átti að granda skipalestunum milli Norður Ameríku og Rússlands. Aðal hlutverk Bismarck var að ráðast á skipalestirnar sem fóru milli Norður Ameríku og Norður Evrópu. Bretar gerðu sér þetta ljóst og vissu að Bismarck myndi stefna út í Norður Atlantshafið um eitt af þremur sundum í grennd við Ísland, annað hvort Grænlandssund, eða þá sundið milli Færeyja og Íslands eða sundið milli Skotlands og Íslands. Breski sjóherinn vissi þvi ekki hvaða sunds þeir ættu að gæta. Á meðan sigilir Bismarck óséður frá Bergen hinn 21. maí á ofsa hraða 25 til 30 hnútum (56 km á klst.), út á Atlantshafið undan vestur strönd Noregs og beint norður fyrir Ísland. Bismarck kemur inn á Grænlandssund um kl 10 að morgni hinn 23. maí. Það var hér sem breska herskipið Suffolk fyrst sá Bismarck á siglingu. Suffolk hafði verið inni á Ísafirði en var nú kominn út á sundið. Skömmu síðar sá Bismarck breska herskipið Norfolk birtast út úr þokunni og skaut á það en hæfði ekki. Norfolk slapp aftur inn í þokuna og tilkynnti strax flotastjórninni í London um að Bismarck væri fundinn. Nú hófst eltingarleikurinn fyrir alvöru. Hood og fleiri skip sigldu fyrir sunnan Ísland og stefnu á Grænlandssund til að hefja sjórustuna. Hlutverk Bismarcks var að sökkva fragtskipum skipalestanna, en ekki að há orustu við bresk herskip. Bismarck og hitt þýska skipið Prinz Eugen héldu því beint áfram til suðurs og í átt að skipalestunum, en Suffolk elti fast á eftir. Það var skömmu eftir miðnætti hinn 24. maí að Hood sá Bismarck í um 17 sjómílna fjarlægð. Klukkan 0552 var fjarlægðin 23 kílómetrar milli skipanna og fallbysur Hood og breaska skipsins Prince of Wales byrjuðu að skjóta á óvininn. Þessi fyrstu skot höfðu engin áhrif. En fyrstu skotin frá Bismarck lentu hins vegar mjög nærri Hood. Auk þess var aðstaðan erfiðari fyrir breta, sem sigldu beint upp í vindinn. Skot frá Prinz Eugen hæfði Hood og það kviknaði í á þilfari um miðju skipsins. Nú var klukkan 0555 og aðeins þrjár mínútur liðnar frá því að orustan hófst. Það hafði kviknað í birgðum af púðri af þeirri tegund sem nefnist cordite. Fljótlega breiddist eldurinn út og skotfærabirgðir byrjuðu að springa á dekkinu. Nú var bilið milli skipanna um 12 mílur. Þá breytti Hood um stefnu og sigldi nú samhliða Bismarck svo að hægt væri að skjóta af öllum fallbyssum í einu á þjóðverjana. En einmitt þá kemur fallbyssuskothríð frá Bismarck og hittir alveg í mark. Þessar sprengikúlur eru hvorki meira né minna en 38 cm í þvermál. Myndin fyrir neðan sýnir þversnið af einni slíkri. Risastór sprenging verður nú um miðju á Hood og eldsúlan stendur upp meir en fjórum sinnum hærra en miðmastrið, upp til himins. Skipið veltur strax og skuturinn byrjar að sökkva. Stuttu síðar stendur stafninn beint upp, og Hood hverfur í hafið. Orustunni er lokið. Fjórtan hundrað menn farast og aðeins þrír af áhöfninni komast af. Allt bendir til þess að skotið frá Bismarck hafi farið niður í gegnum þilfarið og beint ofan í skotfærageymslu Hood. Klukkan 0613 siglir Prince of Wales á brott á flótta, aðeins 21 mínútu eftir að orustan hófst. Breska sjóhersstjórnin fær svohljóðandi skeyti: Hood hefur sprungið í loft upp. Þremur sjóliðum af 1418-manna áhöfn Hood var bjargað. Þeir komu til Reykjavíkur með bresku skipi seinni part dags hinn 24. maí. Að tapa HMS Hood, flaggskipi breska flotans, var ótrúlega mikið áfall fyrir breska herinn og reyndar þjóðina alla. Churchill forsætisráðherra áttaði sig strax á þessu og skipaði: Sink the Bismarck! Sökkvið Bismarck. Allur sjóherinn var nú gerður út til að ná hefndum. Bismarck hafði orðið fyrir lítilsháttar skemmdum í átökunum á Grænlandssundi og var að tapa töluverðri olíu í hafið. Bismarck stefndi því beint í áttina til Brest í Frakklandi til viðgerðar. Tveimur dögum síðar tókst breskum herflugvélum að varpa tundurskeytum á þýska risann, sem var 251 meter á lengd. Fljótlega tókst að skemma stýri skipsins og var það nú nær stjórnlaust. Önnur tundurskeyti hæfðu í beint mark og Bismarck sökk í hafið hinn 27. maí um 650 km fyrir vestan Brest í Frakklandi. Bismarck hafði verið aðeins 9 daga í þjónustu þýska hersins frá þvi skipið var tekið í notkun og þar til það sökk. Árið 2001 fannst flakið af HMS Hood á Grænlandssundi á um 2849 metra dýpi. Í ágúst 2012 var gerður út leiðangur á M/Y Octopus til að ná upp skipsbjöllunni af Hood, með samþykki og þátttöku breska sjóhersins. Hugmyndin var að færa bjölluna til minjasafns sjóhersins í Bretlandi. Skipsbjallan hafði verið upphaflega á þilfari skipsins, eins og gamla myndin sýnri. Við sendum fjarstýrðan kafbát niður og fljótlega fannst bjallan, en hún var ofan á haug af miklu rusli úr skipinu og hvíldi undir stálþili, sem slútti yfir. Þetta gerði okkur erfitt að ná til hennar. Kafbáturinn hefur tvo vélarma, sem geta verið furðu fimir. Það tókst að koma járnkrók í gatið efst á bjölluni, en þegar átakið kom á krókinn, þá réttist úr honum og bjallan slapp af og seig lengra niður í ruslið. Nú fór veður versnandi og varð því að hætta fekari köfun þegar vindur fór yfir 30 hnúta og sjór var orðinn nokkuð mikill. Við skildum því við bjölluna á botninum, eins og myndin sýnir. Örin rauða bendir á bjölluna á hliðinni. Af kafbátnum er það að segja, að hann er tengdur við skipið með rúmlega 3 km löngum kapli, sem sendir rafmagn niður og sendir síðan rafræn gögn, myndefni og annað upp til skipsins. Kafbáturinn hefur tvo arma og ýmiss önnur tæki. Fylgst er nákvæmlega með staðsetningu kafbátsins um borð í skipinu og reyndar furðulegt hvað kafbátsstjórinn getur stýrt honum nákvæmlega í gegnum allar þær hættur sem verða á vegi hans í grennd við og jafnvel inni í þessu risastóra skipsflaki, þar sem stálvírar, járnbitar og annað brak eru alltaf fyrir hendi sem hættulegar gildrur.
Þúfurnar á Snæfellsjökli
28.8.2012 | 18:00
Hæstu tindar Snæfellsjökuls eru nefndar Þúfurnar. Sú í miðju er hæst, eða 1446 metrar. Þegar ég hef klifið Jökulinn þá hefur Þúfan nær undantekningalaust verið hulin ís og fönn, eins og fyrsta myndin sýnir. Hún var tekin á Jónsmessunótt í sumar. Þá var Þúfan kleif með því að höggva spor í ísinn, en þverbratt niður undir. En þegar ég flaug í þyrlu umhverfis topp Jökulsins hinn 26. ágúst 2012 þá blasti önnur sjón við. Þúfan í miðjunni var nú nær alveg íslaus og jarðlögin komu vel í ljós, eins og kemur fram á seinni myndinni. Ég held að þetta sé ef til vill í fyrsta sinn að Þúfan er svo algjörlega afhjúpuð, enda bráðnar Jökullinn nú hratt. Nú gefst því tækifæri til að kanna þessi jarðlög og fræðast frekar um gossögu Jökulsins. Sennilega eru hér aðallega rauðleit gjall og vikurlög, en ef til vill einnig hraunlög. Lögunum hallar til suðurs, í átt frá stóra gígnum, sem er rétt fyrir norðvestan Þúfurnar. Það eru nokkur áberandi ljós lög í Þúfunni. Það er freistandi að giska á að þau séu ef til vill trakít, en sú bergkvikutegund einkennir stóru sprengigosin þrjú, sem hafa orðið í Snæfellsjökli síðan ísöld lauk. En nú ber að hætta öllum ágiskunum og bregða sér upp á Jökul til að kanna þetta nánar.
Vísindi og fræði | Breytt 29.8.2012 kl. 12:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)