Þúfurnar á Snæfellsjökli

Þúfan á JónsmessunóttHæstu tindar Snæfellsjökuls eru nefndar Þúfurnar. Sú í miðju er hæst, eða 1446 metrar. Þegar ég hef klifið Jökulinn þá hefur Þúfan nær undantekningalaust verið hulin ís og fönn, eins og fyrsta myndin sýnir. Hún var tekin á Jónsmessunótt í sumar. Þá var Þúfan kleif með því að höggva spor í ísinn, en þverbratt niður undir. En þegar ég flaug í þyrlu umhverfis topp Jökulsins hinn 26. ágúst 2012 þá blasti önnur sjón við. Þúfan í miðjunni var nú nær alveg íslaus og jarðlögin komu vel í ljós, eins og kemur fram á seinni myndinni. Ég held að þetta sé ef til vill í fyrsta sinn að Þúfan er svo algjörlega afhjúpuð, enda bráðnar Jökullinn nú hratt.  Nú gefst því tækifæri til að kanna þessi jarðlög og fræðast frekar um gossögu Jökulsins. Þúfan afhjúpuðSennilega eru hér aðallega rauðleit gjall og vikurlög, en ef til vill einnig hraunlög. Lögunum hallar til suðurs, í átt frá stóra gígnum, sem er rétt fyrir norðvestan Þúfurnar. Það eru nokkur áberandi ljós lög í Þúfunni. Það er freistandi að giska á að þau séu ef til vill trakít, en sú bergkvikutegund einkennir stóru sprengigosin þrjú, sem hafa orðið í Snæfellsjökli síðan ísöld lauk.  En nú ber að hætta öllum ágiskunum og bregða sér upp á Jökul til að kanna þetta nánar.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta man ég ekki eftir að hafa séð á langri ævi. Kemur svo sem ekki tiltakanlega á óvart eftir þetta sumar. Ætla rétt að vona að þú, prófessor Haraldur, komist þarna upp áður en ísinn hylur bergið aftur - nú eða þetta molnar og hrynur allt, sem það gerir væntanlega á tiltölulega fáum árum.

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 28.8.2012 kl. 19:45

2 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Kennileiti sjófarenda fyrri tíma. Takk fyrir gaman að sjá þessar myndir.

Helga Kristjánsdóttir, 28.8.2012 kl. 23:37

3 Smámynd: Andrés.si

Haraldur.  Má ég nokkuð taka þetta mynd fyrir grein á erlenda heima siðu?  www.islandija.si 

Andrés.si, 29.8.2012 kl. 01:50

4 Smámynd: Jón Frímann Jónsson

Þarna er margt áhugavert að sjá. Það sem helst vekur athygli mína er lagskipting. Þessi lagskipting bendir til eldgosahrina með 500 til 5000 ára millibili, og að þessar eldgosahrinur vari að jafnaði í 300 til 700 ár (+- einhverjir tugir ára eins og alltaf má gera ráð fyrir). Þessar goshrinur gætu þó verið til staðar með löngum hléum.

Ég tel líklegt að síðasta eldgosahrina hafi hafist um 1000 árum síðan. Miðað við að síðasta eldgos á þessu svæði var 960 A.D (+- 10 ár) í Ljósufjöllum. Síðan var síðasta eldgos í Snæfellsjökli árið 200 A.D (+- 150 ár). Hvað útskýrir núverandi hlé í virkni er ekki eitthvað sem ég get útskýrt. Frekar en vísindamenn að ég tel.

Mér þykir þó Snæfellsnes alltof lítið vaktað. Þar sem augljóst má vera að þarna er mjög virkt svæði á ferðinni. Þó svo að láti lítið bera á sér.

Jón Frímann Jónsson, 29.8.2012 kl. 02:33

5 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Ég hef lengi undrast hversvegna engir jarðskjálftamælar eru á Snæfellsnesi. Í raun er ekkert fylgst með fínlegum bæringum í Snæfellsneskerfunum .— Reykjavík er t.d. ekki nema í 100 km fjarlægð frá jöklinum en til samanburðar er Kirkjubæarklaustur í 70 km fjarlægð frá Grímsvötnum en lenti í svartnættismyrkri undir öskugosinu þar 2011. Miklu stærra öskugos en það gæri orðið úr Snæfellsjökli — hvaðþá með byggðirnar undir jöklinum.

Helgi Jóhann Hauksson, 29.8.2012 kl. 04:45

6 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Stórmerkileg breyting, ekki átti maður von á þessu svona fljótt!

Þú verður annars að fyrirgefa Haraldur að ég skrifi aðeins "off topic", var að lesa færslu þína um Surtarbrandinn en þar er ekki lengur hægt að kommenta.

Miosen er talsvert langt skeið sem byrjar mjög hlýtt en endar kalt (við upphaf ísaldar). Á miðju miosen skeiði, c.a. þegar surtarbrandurinn er að myndast sem þú nefnir, virðist vera langvarandi hlýindaskeið. Hvað varðar CO2 í andrúmslofti á þeim tíma þá eru vísbendingar mjög mismunandi. Sumir tala um mjög lága tölu (allt niður í 180 ppm, t.d. Pagani 1999) og byggja á sjávarseti, aðrir eru með tölur allt upp í 850 ppm og byggja á jarðlagamælingum (Retallack, 2009).

Í pistli þínum rekur þú ágætlega aðrar líklegar orsakir hlýrra veðurfars á Miosen en CO2 styrk andrúmslofts. Allt hefur þetta verið prófað í "Planet Simulator" hugbúnaði sem tekur einmitt tillit til staðsetningar meginlanda, hæð fjallgarða osfrv., og niðurstaðan var að einungis aukinn styrkur CO2 geti skýrt 6 gráðu mun milli Miosen og nútíma, eða minnst 500 ppm. Með öðrum orðum: Tilraunin sýnir að hiti á mið-Miosen sé ekki ótengdur CO2 magni (eins og mörgum hefur sýnst). (sjá http://www.clim-past-discuss.net/6/489/2010/cpd-6-489-2010.pdf).

Þú nefnir Jonathan P. LaRiviere en mér sýnist hann fyrst og fremst vera að skýra af hverju hitastig hélst hátt þrátt fyrir fall í CO2 í lok Miosen, þ.e. talsvert seinna en surtarbrandsmyndunin. LaRiviere sýnist mér vera að segja að í lok Miosen (nálægt 5 mio árum) hafi CO2 magn verið mun lægra en á mið Miosen (17-12 mio ár), en hitastig hafi hins vegar haldist hátt. Hann er þó varkár varðandi CO2 styrkinn og bendir á að eldri sjávarsets rannsóknir (lágt C02) séu ekki alltaf marktækar, hins vegar séu nýrri jarðlagarannsóknir (hátt CO2) ekki enn staðfestar.

Skv. fréttatilkynningu (http://www.nsf.gov/news/news_summ.jsp?cntn_id=124393&org=NSF&from=news) þá virðist LaRiviere fyrst og fremst vera að rannsaka hitastig Kyrrahafs, ekki styrk CO2. Aðrar rannsóknir (t.d. http://www.pnas.org/content/105/2/449) beinast að CO2 styrknum og sýna mjög mismunandi niðurstöður, 300-600 ppm. Önnur tilraun til að beita líkanareikningi á vandann (http://www.clim-past.net/8/1257/2012/cp-8-1257-2012.pdf) sýnir að það er erfitt að skýra hátt hitastig í lok Miosen nema með því að gera ráð fyrir CO2 styrk í hærri enda þess sem menn hafa áætlað (ágætis línurit á bls. 1259), hins vegar komast þeir að þeirri niðurstöðu að dreifing og hæð meginlanda geti einnig skýrt stóran hluta af hitadreifingunni í lok Miosen, þ.e.a.s. mjög heitt Kyrrahaf en kaldari Atlantshaf.

Allt í allt sýnist mér að surtarbrandurinn sem þú nefnir hafi myndast á mið-Miosen þar sem hitastig var hátt vegna hás CO2 styrk fram að þeim tíma. Síðar, þegar CO2 styrkur virðist falla jafnvel niður fyrir 300ppm í lok Miosen þá helst hitastigið óvænt hátt, sérstaklega í Kyrrahafi. M.ö.o. það kólnar hægar en búast má við út frá CO2. LaRiviere sýnist mér ekki koma með neinar niðurstöður varðandi CO2 styrk, hann sýnir hins vegar fram á hátt hitastig Kyrrahafs. Loks að áætlanir um styrk CO2 í lok Miosen eru nokkuð misvísandi og gætu allt eins bent til 400 ppm.

Brynjólfur Þorvarðsson, 29.8.2012 kl. 04:50

7 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Reyndar er Klaustur í 80 km fjarlægð frá Grímsvötnum eða bara lítið eitt nær þeim en Reykjavík er frá Snæfellsjökli. Hengillinn er svo aftur í 25 km fjarlægð eða nánast ofaní borginn miðað við fjarlægðina milli Grímsvatna og Klausturs þar sem varð svarta myrkur og mikisð öskufall á meðan á öskusgosini úr Grímsvötnum stóð. Reykjavík á næsta víst einhverntíman eftir að vera í sömu stöðu eða verri gangnvart Snæfellsjökli og/eða Hengli.

Helgi Jóhann Hauksson, 29.8.2012 kl. 04:55

8 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Brynjólfur: Kærar þakkir fyrir þessi skrif varðandi Míósen. Þú ættir að kíkja á grein eftir Knorr og félaga, hér: http://www.agu.org/pubs/crossref/2011/2011GL048873.shtml

Kveðja - Haraldur

Haraldur Sigurðsson, 29.8.2012 kl. 07:18

9 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Merkilegt að sjá þetta. Það kæmi mér samt á óvart ef þetta væri í fyrsta skipti sem þúfurnar bera sig en ef svo er þá hlýtur það að vera merki um mikinn sumarhita frekar en að jökullin sé almennt að minnka enda takmarkað sem þúfurnar geta hlaðið utan á sig. Auk þess skilst mér að jökullin hafi komið nokkuð vel undan vetri í ár. Það er t.d. spurning hvernig þúfurnar litu út eftir sumarið 2010 þegar snjór hvarf óvenju snemma úr fjöllum Vestanlands.

Emil Hannes Valgeirsson, 29.8.2012 kl. 08:16

10 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Sæll Haraldur

Þetta er góð grein hjá Knorr et al, þeir sýna að ~3 stiga hærri hita á Miosen megi skýra þrátt fyrir lágt CO2 (280ppm). Einnig hina miklu jafnari hitadreifingu milli miðbaugs og pólsvæða, þar sem t.d. Grænland (og Ísland þar af leiðandi líka) voru allt að 6-7 gráðum hlýrri en nú.

Eitt sem "truflar" mig aðeins er að þeir tala sífellt um "hlýnun", (e. warming) þegar þeir eru í raun að meina "hlýrra", þ.e.a.s. hærri hitastig en núna. Þeir eru með öðrum orðum að skýra hvernig hitastigið gat verið hærra sem nemur 3 gráðum en núna með lágu CO2, ekki hvernig gæti hlýnað um 3 gráður án hærra CO2.

(Þeir eru reynar með fyrirvara: "[T]he use of

‘warming’ is not meant to indicate a time‐directional sense", bls. 1, þ.e.a.s. þeir eru ekki að meina breytingu yfir tíma þegar þeir tala um "hlýnun". En fyrirvarinn er ekki nógu skýr, af hverju nota þeir þá ekki eitthvað annað orð?)

Skýringin hjá þeim liggur í gróðurþekju (2,5 gráður) og landmassadreifingu (0,7 gráður), sem sagt, stærsti hluti skýringarinnar á hærra hitastig er miklu útbreiddari gróður (t.d. skógar á Grænlandi, Sahara) sem leiðir af sér meiri loftraka (öflug gróðurhúsalofttegund) og minna endurskin.

Það sem þeir skýra er sem sagt hvernig hitastig gat haldist hátt svona lengi þrátt fyrir minnkandi CO2, sem vitað er að minnkaði verulega frá Tertíer og áfram allan Miosen tíma. Svarið liggur í gróðurdreifingunni fyrst og fremst, þ.e.a.s. gróðurþekjan hélt hitastigi háu lengi eftir að CO2 fór niður fyrir þau mörk sem hefði þurft til að ná sama hitastigi.

Brynjólfur Þorvarðsson, 29.8.2012 kl. 08:22

11 identicon

Hjálegg vefslóð að mynd sem ég tók 19. júlí 2010 þegar ég átti þarna leið um - sé nú ekki mikinn mun á Miðþúfu þá og nú (og þó var það í júlí!). Fleiri myndir úr gönguferð minni eru á http://leifur.smugmug.com/Outdoors2010/Snæfellsjökull-þveraður

Leifur (IP-tala skráð) 29.8.2012 kl. 08:49

12 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Leifur: Takk fyrir þessa mynd og aðrar úr þinni ferð. Auðvitað hefur Snæfellsjökull verið að minnka í nokkur ár og framtíð hans er ekki björt. Haraldur

Haraldur Sigurðsson, 29.8.2012 kl. 09:00

13 identicon

Samanburður frá 2010:

https://www.facebook.com/photo.php?fbid=1265928667056&set=t.746674635&type=3&theater

Ragnar Lundberg (IP-tala skráð) 29.8.2012 kl. 09:23

14 identicon

Þess má geta að í lok ágúst 2010 var Vesturþúfa auð að kalla mætti. Hægt var auðveldlega að ganga hana upp á topp án þess að koma nokkru sinni í námunda við snjó eða klaka.

Ragnar Lundberg (IP-tala skráð) 29.8.2012 kl. 09:35

15 identicon

Ég vil gjarnan slást í för með þér Haraldur á Jökulinn/Miðþúfu. Spáin er ágæt fyrir morgundainn 30.08.

Ég get lagt til búnaðinn sem þú þekkir.

mbk /jojo

Jón Jóel Einarsson (IP-tala skráð) 29.8.2012 kl. 09:40

16 identicon

Sæll Haraldur

Skil ekki alveg hvað þú ert að fara með að nú séu þúfurnar íslausar í fyrsta sinn.  Þær hafa verið það mörg undanfarin sumur og reyndar mikið til auðar að haustlagi í áratugi.  Í tímaritinu Jökli, nr. 61 (2011) eru t.d. myndir af jöklinum sem Snævarr Guðmundsson tók í fyrra.  Þar sést (bls. 18) að snjóalög þá voru svipuð og nú. 

En aðalmálið er auðvitað að þú skulir ætla upp og kortleggja þúfurnar, því það verður að segjast að jarðfræðingar hafa sinnt lítið hinum hæstu kollum s.s. eins og á Snæfellsjökli og Öræfajökli. 

Tek einnig undir þau orð að Snæfellsjökli hafi allt of lítið verið sinnt og margir hafa bent á að þarna ætti að setja upp skjálftamæli.  Sérfræðingar Veðurstofunnar þar á meðal.  Lítið gerist enda í mörg horn að líta þessi síðustu ár og peningar af skornum skammti. 

Magnús Tumi

Magnús Tumi Guðmundsson (IP-tala skráð) 29.8.2012 kl. 12:20

17 identicon

Góðan dag.

Ég hef búið á Hellnum Undir Jökli síðast liðin 50 ár og haft Snæfellsjökul fyrir augunum mest af þeim tíma. Mörg ár eru síðan Þúfurnar urðu berar þegar leið á sumarið og haustið og væntanlega áratugir síðan það fór að gerast. En með hverju árinu sést þó minna og minna í snjó síðustu árin. Ég held að fólk hér á nesinu sé almennt meðvitað um að jökullinn sé virkur og undrar sig á að engar mælingar séu í gangi til að fylgjast með hugsanlegu lífi innra með honum. Kannski er verið að bíða eftir að holan hans Jules Verne komi í ljós og hægt sé að kíkja þar ofaní og kanna aðstæður :)

Ólína Gunnlaugsdóttir (IP-tala skráð) 29.8.2012 kl. 13:26

18 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Miðað við hve þétt net mæla er á Reykjanesinu öllu og svo mikið víðar er með öllu óskiljanlegt hversvegna þeir sem ráða þessu kæra sig ekkert um að fylgjast með Snæfellsjökli eða að vita neitt hvað er að gerast innra með honum því alls engir mælar eru á vegum t.d. Veðurstofunnar neinstaðar í námunda við Snæfellsnesið í heild sinni sem þó telst allt virkt eldgosasvæði.

Ef eitthvað gerðist þarna væri það því öllum að óvörum.

Helgi Jóhann Hauksson, 29.8.2012 kl. 13:48

19 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Til að staðsetja hreyfingu þarf þrjá mæla. Hér má sjá hvar Veðurstofan staðsetur sína mæla en berlega hefur hún ekki nokkurn minnst áhuga á að fylgjast með Snæfellsjökli eða Snæfellsnesinu í heild sinni eða neinu því sem þar gæti verið að gerast eða mun gerast.

Snæfellsnesið er þarna bara eins og löngu óvirku svæðin á Vestfjörðum og austast á Austfjörðum

Sjá:

http://hraun.vedur.is/ja/skjalftar/silstn.html

Staðsetning jarðskjálftamæla VeðurstofunnarM

Helgi Jóhann Hauksson, 29.8.2012 kl. 14:03

20 identicon

Sæll Haraldur.  Það er skemmtilegt að heyra þínar lýsingar á Snæfellsjökli og toppi ef svo má segja. - Ég minntist einhvern tímann á Henry Holland lækni og ferðir hans á Snæfellsjökul. Hann var í ferðahópi árið 1810 og var mjög áhugasamur um jarðfræði einnig. Bókin um ferðina heitir bara "Dagbók í Íslandsferð 1810". Hann lýsir göngu á jökulinn frá Ólafsvík og segir hana frekar erfiða og sérstaklega vegna þess hve jökullinn var sprunginn efst. Þegar þeir höfðu klifið þriðja hæsta tindinn og ætluðu síðan á þann næsthæsta - Á einum stað meira að segja gnæfði þverhníptur bergveggur upp úr snjónum. Rannsókn þessa hefði verið mikilvægt viðfangsefni fyrir okkur til þess að fylla upp í þekkinguna á bergfræði fjallsins" - segir Holland.  -  "við tókum á okkur nokkur hundruð álna langan krók til þess að skoða lausagrjótahrygg, sem stóð nokkur fet upp úr snjónum." - mestur hluti af grjóthrygg þessum var hraungrýti og vikur, en innan um það voru nokkrir örsmáir molar af biksteini.  - Umræddur grjóthryggur liggur ofan við jökulröndina nálægt einum þriðja af fjarlægðinni þaðan og upp á fjallstindinn." -

 Ég get ekki betur séð en að nokkuð svipað ástand sé í hæð jökulsins miðað við það, sem er núna skv. þínum lýsingum. Og þetta var jú 1810. Veistu hver þessi grjóthryggur er?

  Með kærri kveðju, Jónas  

Jónas Bjarnason (IP-tala skráð) 29.8.2012 kl. 17:35

21 identicon

Sæll Haraldur.

Gaman að lesa pælingar þínar með Snæfellsjökul.

Hef gengið nokkrum sinnum á þennan jökul, tekið af honum myndir gegnum árin og mænt á hann ofan af öðrum fjallstindum. Þúfurnar hafa verið auðar / snjólausar í sumarlok síðustu ár og hefur mátt sjá dökkar stríturnar stingast upp úr jöklinum þegar horft hefur verið til hans frá fjöllunum kringum Reykjavík.

Á nokkrar myndir af honum frá öllum sjónarhornum 28. júlí 2007 þar sem þúfurnar eru allar snjólausar að því mér virðist svipað og nú - og jökulhettan orðin ansi lítil á myndunum svo manni virðist ekki langt í að vera göngufært nánast snjólaust á hryggjum alla leið upp að þúfunum. Síðustu ár hefur það á mínum bæ verið til marks um að haustið/ veturinn sé kominn þegar þúfurnar verða aftur hvítar ;-)

Gangi þér vel á göngu þarna upp og í allri þinni kærkomnu rannsóknarvinnu ;-)

Kv Bára Agnes Ketilsdóttir

Bára Agnes Ketilsdóttir (IP-tala skráð) 29.8.2012 kl. 21:13

22 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Takk fyrir fallega mynd af snjólausri þúfunni Haraldur.  Myndin verður mun stærri og fallegri ef þrísmellt er á hana.

Vonandi verður þessi pistill þinn til að menn fari að veita Snæfellsjökli meiri athygli og beini rannsóknum meira að honum.  Skjálftamælir þar væri örugglega mjög þarfur.

Ágúst H Bjarnason, 30.8.2012 kl. 06:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband