Færsluflokkur: Hafið
Sjávarborð hækkar hraðar
19.11.2020 | 10:43
Nýjustu gögn sýna að hafsborð hækkar hraðar en gert var ráð fyrir, eða nú um 4.8 mm á ári að meðaltali. Hröð bráðnun á heimsskautunum ræður miklu en einnig útþensla hafsins þegar það hlýnar.
Hafið | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hlýnun heimshafanna lýgur ekki
15.9.2017 | 10:32
Oftast er fjallað um breytingar á hita andrúmsloftsins þegar rætt er um loftslagsbreytingar. Við skulum nú líta á hnattræna hlýnun frá allt öðru sjónarhorni: hita hafsins. Við þekkjum það vel frá reynslu okkar úr eldhúsinu að lofthiti er reikull, en hiti vatnsins er mikill og langvarandi forðabúr af orku. Við leggjum því hitafarssögu andrúmsloftsins til hliðar að sinni og skoðum sögu og feril hita heimshafanna undanfarna áratugi, eða frá 1958. Það er með hita, eins og margt annað, að segja má að lengi tekur sjórinn við. En það er flókið mál að mæla og fylgjast með hita hafsins, því hann er mjög breytilegur eftir bæði staðsetningu á plánetunni og einnig dýpi í hafinu. En síðan 2006 hefur verið mjög vel fylgst með hita hafsins með svokölluðum ARGO duflum, dreift víða um heimshöfin, sem mæla hita hafsins frá yfirborði og niður á 2 km dýpi.
Myndin sem fylgir sýnir tvennt: hún sýnir hitann sem felst í efstu 2 km í hafinu, í orkueiningunni Joules (svarta línan) og einnig magn koltvíoxíðs í andrúmsloftinu. Það er ljóst að hitamagn hafsins er stöugt að aukast. Til samanburðar má benda á að hitun heimshafanna frá yfirborði og niður á 2 km dýpi frá 1992 til þessa árs er um tvö þúsund meiri hitaorka en öll orkan framleidd af öllum raforkuverum Bandaríkjanna síðasta áratuginn. Blá-græna línan er ferill koltvíoxíðs í andrúmslofti jarðar, sem stöðugt vex af manna völdum. Myndin er frá Lijing Cheng.
Hafið | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Orkan kemur úr hafinu
2.9.2017 | 02:18
Orkan sem fæðir fellibyl eins og Harvey er hiti sem kemur upp úr hafinu. Það er þess vegna sem fellibylir á norðurhveli fæðast nær eingöngu seinni part sumars, þegar hafið er orðið vel heitt.
Sjávarhiti í Mexíkóflóa er venjulega á bilinu 26 til 32 stig, eins og fyrsta myndin sýnir, en hún sýnir meðalhita í flóanum síðustu vikuna. Takið eftir að yfirborðssjórinn undan ströndum Houston er nú kaldari (blátt, 26 til 28 stig) vegna þess að fellibylurinn Harvey hefur þegar tekið í sig hitann úr þessum hluta sjávar og rótað upp kaldari dýpri sjó.
Heitur sjór þýðir meiri uppgufun og meiri hita sem streymir úr hafinu, upp í lofthjúpinn. Hitinn berst úr sjónum upp í andrúmsloftið með úða af sjó í og umhverfis auga fellibylsins, þar sem mikið rót er á yfirborði sjávar vegna stormsins.
Heiti straumurinn inn í Mexíkóflóa er auðvitað Golfstraumurinn, og á stundum myndast lykkja sem tognar út úr Golfstraumnum og slitnar stundum frá straumun sem hringlaga hverfill af heitari sjó. Þetta má sjá á annari myndinni. Það eru slíkir heitir hvirflar sem spinna upp flóann og geta myndað fellibyl.
Þriðja myndin er mikilvægust, en hún sýnir sögulegt hitaferli í Mexíkóflóa frá 1870 til vorra daga. Lóðrétti ásinn er frávik frá meðalhita hafsins í vestur hluta Mexíkóflóa. Rauðu púnktarnir eru árin með fellibyl. Takið eftir hvað flóinn er stöðugt að hitna síðasta áratuginn. Hér er sem sagt hnattræn hlýnun í gangi í hafinu einnig. Mexíkóflói var óvenju heitur í ár. Það er í fyrsta sinn sem flóinn fer ekki niður fyrir 73oF eða 22.8 oC síðastliðinn vetur.
Hafið | Breytt s.d. kl. 02:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þjófurinn festur á mynd
23.4.2017 | 18:53
Það var hinn 26. mars 2012 að mér bárust fregnir af hvalreka nærri Beruvík undir Snæfellsjökli. Ég flýti mér á staðinn og kom að um fjögur leytið. Þá sá ég stærðar búrhval liggja í fjörunni. Þetta var fremur stórt karldýr, ef dæma má af um tveggja metra löngum tittling, sem hékk utan á bolnum. Þegar nær kom tók ég eftir því að framhluti neðri kjálkans hafði verið sagaður af og blóðið steymdi úr sárinu, eins og önnur mynd sýnir. Í polli rétt hjá lá handsögin, með rautt handfang. Þjófurinn hafði flýtt sér á brott. Búrhvalstennur hafa töluvert verðmæti á svarta markaðnum og eru unnar í minjagripi, skartgripi og aðra smágripi, líkt og fílabein. Þegar heim kom fór ég að skoða myndirnar frá hvalstrandinu. Þá kom í ljós að ég hafði náð þjófnum á tvær myndir, þar sem hann er að hlaupa á brott, með frampartinn af neðri kjálkanum í höndum sér. Þetta er gráhærður meðalmaður á stígvélum, í bláum vinnugalla með rauða hettu, eins og myndin sýnir. Þrjóturinn var fljótur að laumast á brott þegar við komum að og kastar frá sér söginni í poll í fjörunni.
Þótt hvalrekinn ætti sér stað inan þjóðgarðsins, þá sýndu yfirvöld hvalnum engan áhuga og létu rotna á saðnum. Þarna var glatað ágætt tækifæri til að eignast heila beinagrind af sjaldgæfri hvaltegund, sem hefði verið merkilegt efni til sýninga í þjóðgarðinum. Ekkert hefði þurt til nema að varpa netdruslu yfir hræið og festa það niður í nokkra mánuði.
Rúmum þremur árum síðar, í byrjun maí árið 2015, var ég á göngu í Búðahrauni. Þá rakst ég á hvalreka í klettafjöru skammt fyrir suðvestan Fremribúðir. Þetta var heillegt hryggjarstykki af mjög stórum hval, eins og þriðja myndin sýnir. Beinin virtust ungleg, með mikið brjósk á milli liða, sem hélt þeim saman á öllum liðamótum. Grindin var svo ungleg, að hundurinn Snælda vildi hvergi nærri koma að svo stórum beinum. Ég tel að þetta sé hryggurinn úr búrhvalnum, sem rak á land í Breiðuvík, fyrir vestan Búðir. Ef svo er, þá hefur hann rekið um 38 km leið með ströndinni á þremur árum.
Hafið | Breytt s.d. kl. 18:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Uppruni Brexit: Stórifoss í Ermasundi
18.4.2017 | 22:06
Bretland er að skilja við Evrópu með Brexit þessa dagana, en jarðfræðilegur skilnaður frá meginlandinu gerðist miklu fyrr. Bretland var hluti af Evrópu í margar milljónir ára. Samfeldur hryggur af kalksteini tengdi England við Frakkland, sem loðfílar, flóðhestar og menn gengu um, fram og til baka. Það eru aðeins 450 þúsund ár síðan kalksteinsmyndunin var rofin af hamfaraflóði, sem sennilega á sér engan líka. Þá fossaði fram af Hvítuklettum -- the White Cliffs of Dover þegar nýr farvegur opnaðist frá stóru jökullóni þar sem nú er Norðursjór. Sjávarmál var þá um 100 m neðar en nú í dag, vegna þess að mikið magn af vatni var bundið í ísaldarjöklinum. Farvegir eftir flóðið eru greinilegir á botni Ermasunds, eins og myndin sýnir. Þegar flóðinu lauk hafði nýtt landslag komið í ljós, en landbrú tengdi England við Evrópu alltaf öðru hvoru þar til fyrir um níu þúsund árum. Síðan hefur Bretland verið eyja.
Hafið | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sóra sprungan í Petermann jökli
18.4.2017 | 12:18
Einn stærsti jökull Grænlands er Petermann jökullinn, nálægt nyrsta odda Grænlands. Jökultungan er um 70 km löng og um 15 km breið, og flýtur á hafinu. Þykktin á ísnum er um 600 m syðst, en um 30 til 80 m þar sem hún flýtur á hafinu. Árin 2010 og 2012 brotnaði jökullin og tvær risastórar íseyjar, samtals um 388 ferkm. ráku til hafs og bráðnuðu. Nú er að opnast ný sprunga í Petermann, og ef hún opnast, þá losnar frá íseyja sem er um 180 ferkm. að flatarmáli. Sennilega myndast sprungurnar vegna þess að jökullinn er að bráðna neðan frá, vegna þess að heitari sjór streymir inn sundið. Sennilega brotnar eyjan frá í sumar, þegar hafið fyrir framan Petermann verður íslaust. En þegar Petermann brotnar á þennan hátt, þá er hætt við að aðaljökullinn skríði fram í meira mæli í náinni framtíð. Það getur haft hröð áhrif á sjávarmál um heim allan.
Hafið | Breytt s.d. kl. 12:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Blái bletturinn
14.4.2017 | 22:11
Höf heimsins eru að hlýna allstaðar nema í bláa blettinum í Norður Atlantshafi, rétt fyrir suðvestan Íslands. Fyrsta myndin sýnir frávik frá hita hafsins frá 1900 til 2013. Öll höfin sýna gulan eða rauðan lit, sem þýðir hlýnun, eins og mælikvarðinn undir myndinni sýnir. En það er ein mjög mikilvæg undantekning: blái bletturinn sunnan Grænlands og Íslands. Þetta svæði hafsins sýnir stöðugua og ákveðna kólnun í öllum mælingum. Hnattræn hlýnun er í gangi, en hvernig stendur á þessari staðbundnu kólnun rétt hjá okkur í hafinu? Hingað til hefur verið farið með þetta eins og viðkvæmt feimnismál, og lítt rætt meðal vísindamanna og alls ekki meðal almennings. En málið er grafalvarlegt, þar sem það kann að benda til að Golfstraumurinn sé að hægja á sér. Árið 2010 stungu Dima og Lohmann upp á að Golfstraumurinn hafi verið að hægja á sér alla leið síðan um 1930. Nú eru nokkrir vísindamenn byrjaðir að kveða við sama tón, til dæmis S. Rahmsdorf (2015) á fundi í Reykjavík. Einn sá fyrsti til að benda á þann fræðilega möguleika að það kynni að draga úr Golfstraumnum í tengslum við hnattræna hlýnun var Bandaríkjamaðurinn Wally Broecker í grein í Nature árið 1980, sem bar titilinn Unpleasant surprises in the greenhouse? Golfstraumurinn er einn mikilvægasti armurinn í hringrás strauma heimshafanna, en að hluta til verður þessi hringrás til vegna þess að mjög kaldur, saltur og þungur sjór sekkur norðan Íslands, steymir með botninum til suðurs, og sem svörun við því streymir heitari sjór (Golfstraumurinn) til norðurs. Nú við hnattræna hlýnun dregur úr myndun þessar sjávartegundar í norðri og Glofstraumurinn hægir á sér. Þetta er kenningin, en mælingar eru allt of fáar á þessu fyrirbæri. Ekki reikna með að Hafró skifti sér af því heldur: þeir halda sig á landgrunninu.
Wei Liu ofl. (2016) hafa gert mjög nákvæmt líkan af áhrifum af hnattrænni hlýnun á Golfstrauminn, sem spáir um líklega hegðun hans í framtíð. Niðurstaða þeirra er sú, að mikið dragi úr Golfstraumnum eftir um 200 ár, eins og önnur mynd sýnir. Þetta líkan gerir ráð fyrir tvöföldun á kolsýru í lofthjúpnum. Einingarnar fyrir rennsli Golfstraumsins eru í Sverdrup (Sv), en ein Sv er ein milljón rúmmetrar af sjó á sekúndu. Við Björn Erlingsson bentum á þessa hættu í ýtarlegri skýrslu um hnattræna hlýnun til Forsætisráðuneytissins árið 2007, en fengum engin viðbrögð við þeirri skýrslu. Jafnvel skólabörn átta sig á því nú í dag að hegðun og framtíð Golfstraumsins skiftir íslendinga öllu máli.
Hafið | Breytt s.d. kl. 23:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Hringstraumurinn umhverfis Suðurheimsskautsland
30.12.2016 | 15:06
Eini sjávarstraumurinn sem fer í hring á jörðu er umhverfis Suðurheimsskautið. Hann snýst í austur og flytur sjó á milli Atlantshafs, Kyrrahafs of Indlandshafs og er stærsti hafstraumur jarðar. Hér er alltaf ríkjandi vestanátt, sem keyrir strauminn áfram í hring. Myndin sýnir hvernig straumurinn hagar sér umhverfis Suðurskautið, og sýnir einnig hraðann. Rauði straumurinn á myndinni fer hraðast, eða meir en eina mílu á klst. Blátt fer hægar. Þessi stærsti hafstraumur jarðar flytur mesta magn af sjó á plánetunni, eða 173 Sverdrup einingar af sjó, en eitt Sverdrup er ein milljón rúmmetrar á sekúndu. Til samanburðar flytur Amazonfljót um 0,17 Sv og Golfstraumurinn um 30 Sv.
Hafið | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ótrúlegt en satt...
22.12.2016 | 00:24
Myndin sýnir hitafar rétt fyrir norðan 80 gráðu norður. Svarta línan sýnir meðaltal lofthita fyrir tímabilið 1948-2002. Bláa línan sýnir hitafar árið 2016. Það er einstakt í sögu mælinganna og synir vel hvað hlýnunin er ör. Hitafar er nú meir en tí græaðum yfir meðallagi.
Hafið | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Hvað hækkar sjávarborð mikið í lok aldarinnar?
17.12.2016 | 13:10
Áhrifamesti þáttur í hnattrænni hlýnun jarðar er hækkandi sjávarborð. Það orakast af hraðari bráðnun íshellunnar yfir Grænalndi og Suðurheimsskautinu, ásamt bráðnandi hafís. Það er augljós staðreynd að málið er alvarlegt, en eins og fyrsta mynd sýnir, þá hækkar stöðugt og með vaxandi hraða. Það hefur flækst fyrir vísindunum að gera áreiðanlega spá um sjávarborð framtíðarinnar, en vandinn er augljós. Suðurheimsskautið tapar um 147 milljörðum tonna af ís á ári hverju, aðallega í vestur hlutanum, og Grænlandsjökull tapar um 269 milljörðum tonna á ári. Önnur myndin sýnir sjö spár vísindanna um stöðu sjávarborðs á jörðu árið 2100. Elstu spárnar eru til vinstri, en þær nýjustu og áreiðanlegustu eru til hægri. Þær benda til að sjávarborð verði um 1.3 m hærra við næstu aldamót en í dag, en geti jafnvel náð 2 metrum. En mesta óvissan er barðandi þróun mála í jöklum á vestur hluta Suðurheimsskautsins. Þar eru risastórir skriðjöklar, eins og til dæmis Thwaites jökull, sem eru byrjaðir að vera órólegir og geta haft mikil áhrif á næstunni ef þeir skríða fram með auknum hraða í hafið og bráðna. Nú er hreyfing á þessum jökli til dæmis nokkrir km á ári.
Breytingar á sjávarborði hafa auðvitað mikil áhrif á Íslandi framtíðarinnar, en málið er flókið. Í fyrsta lagi eru breytingar á stöðu sjávar hér á landi tengdar landrisi vegna bráðnunar íslenskra jökla. Það hefur ´berandi áhrif í Höfn í Hornafirði og mun að öllum líkindum spila höfninni þar í náinni framtíð. Í öðru lagi eru breytingar hér einnig háðar jarðskorpuhreyfingum, sem hafa ekkert með jökla að gera en eru tengdar Mið-Atlantshafshryggnum. Þannig sígur Seltjarnarnesið vegna þess að það er að færast mátt og smátt fjær gosbeltinu vegna landreks. Í þriðja lagi er sjávarstaða hér undir áhrifum frá þyngdarsviði Grænlands, en það breytist í framtíðinni vegna minnkandi fargs Grænlandsjökuls. Þannig er erfitt að spá um framvindu mála hér. Nú er yfirborð Tjarnarinnar um 2,2 metra fyrir ofan sjávarmál og enginn veit hvenær sjór fellur inn í Tjörnina.
Hafið | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)