Færsluflokkur: Elfjöll í geimnum
Hetjan Galileo Galilei
13.2.2013 | 17:34
Þeir fæddust báðir árið 1564, William Shakespeare og Galileo Galilei. Innan skamms er því 450 ára afmælisdagur þeirra. Frábærir hæfileikar Galileo komu fljótt í ljós í Pisa á Ítalíu og strax á unga aldri var hann orðinn leiðandi stjarna í eðlisfræði og störnufræði. Það mun hafa verið í kringum 1590 að Galileo sannfærðist um að kenning pólska múnksins Nikolaus Kópernik væri rétt: að sólin væri miðpúnktur sólkerfisins og að jörðin og hinar pláneturnar snérust umhverfis sólina. Þetta braut algjörlega í bága við kenningu kirkjunnar um að jörðin og mannkynið væri miðja alheimsins.
Það voru tilraunir, sem Galileo gerði árið 1609, sem færði honum sönnunina og sannfærði hann um byggingu sólkerfisins. Hann hafði frétt af merkilegu tæki, sem var uppgötvað af gleraugnasmið í Hollandi og gerði mönnum fært að sjá hluti í mikilli fjarlægð. Galíleo byrjaði nú að smíða sinn fyrsta sjónauka. Hann slípaði sjálfur glerlinsurnar og innan skamms var hann kominn með stjörnukíki, sem stækkaði átta sinnum.
Hann stefndi kíkinum beint á tunglið og gerði strax merka uppgötvun: á tunglinu er jarðfræði og þar eru fjöll og gígar. Tunglið er alls ekki slétt og fágað eins og spegill, eins og fyrri kenningar héldu fram. Plánetur og tungl voru því með yfirborð sem líktist jörðu. Myndin til hliðar sýnir teikningar hans af tunglinu, sem birtust í ritinu Sidereus Nuncius eða Stjörnuboðinn árið 1610. Næst stefndi hann stjörnukíkinum á plánetuna Júpiter og gerði aðra enn merkari uppgötvun. Hann sá að það voru fjögur tungl, sem snérust í kringum Júpiter á nokkrum dögum: Io, Europa, Ganymede og Callisto. Þetta var sem sagt alveg eins og Kópernik hafði haldið fram um sólkerfið.
En hann þorði ekki að leysa frá skjóðunni vegna ótta við kaþólska rannsóknaréttinn. Þeir höfðu brennt Giordano Bruno á báli nokkrum árum áður (árið 1600) fyrir kenningar hans um sólkerfið. Það hefur verið sagt að kaþólska kirkjan á Ítalíu hafi á þessum tíma verið svipuð og kommúnistaflokkur Kína í dag: stofnun þar sem æðstu valdamenn þurfa ekki að hlýðnast siðareglum samfélagsins, en halda öllum almenningi í skefjum.
Galileo reyndi að semja við kirkjuvöldin á Ítalíu, en gekk seint. Loks árið 1632 gaf hann út meistaraverkið Systema Cosmicum eða samræður um tvö heimskerfi. Myndin til hliðar sýnir titilblað þessa merka rits. Hér setur hann fram kenninguna um heimsmynd þar sem sólin er miðja kerfisins. Hann tekur ekki til greina heimsmynd danska stjörnufræðingsins Tycho Brahe, þar sem jörðin var miðja kerfisins. En Tycho hélt því fram að jörðin væri of stór og þung til að snúast umhverfis sólu. Margir telja að Systema Cosmicum sé skemmtilegasta vísindarit allra tíma. Bókin var fyrst gefin út á ítölsku en síðar þýdd á latínu. Enn er hægt að eignast eintak af fyrstu útgáfu ritsins hjá bóksala nokkrum í Ritterhude í Þýskalandi, fyrir $25 þúsund.
Maðurinn var sem sagt ekki í miðju heimsmyndar Galileós. Kaþólska kirkjan dró hann strax fyrir rétt árið 1633 og eftir mikið þref dró Galíleó kenningu sína opinberlega til baka í réttinum: jörðin getur ekki snúist umhverfis sólu. Þrátt fyrir það er sagt að strax og dómurinn var upp kveðinn hafi Galileo muldrað En hún hreyfist nú samt! Galileó hafði verið hótað pyntingum, hann varð að falla á kné fyrir réttinum og sat í stofufangelsi það sem eftir var ævinnar. Hann var samt ekki af baki dottinn og það er ekki laust við h áð í síðari skrifum hans í stofufangelsinu: Ég fylgi ekki kenningu Kóperniks og hef ekki verið fylgjandi þeirri kenningu síðan mér var skipað af réttinum að skifta um skoðun.
Bók Galileós Systema Cosmicum var að sjálfsögðu bönnuð þar til árið 1835, þegar kaþólska kirkjan tók hana af bannlistanum. Árið 1992 lýsti kaþólska kirkjan því formlega loks yfir, að kenning Galileós hefði verið rétt.
Hvers vegna eru stærstu eldfjöll sólkerfisins á Mars?
16.10.2012 | 07:44
Nú er amerískur jeppi á ferðinni á yfirborði plánetunnar Mars og hann er með nægilegt eldsneyti innanborðs til að keyra og kanna í fjórtán ár. Við munum því fá mikið flóð af jarðfræðilegum (marsfræðilegum?) upplýsingum um þessa merkilegu plánetu næstu árin. Ég bíð spenntur eftir því að þeir senda jeppann upp á Olympus Mons, sem er hæsta og stærsta eldfjall í sólkerfi okkar, um 22 km á hæð. Já, og flatarmál eldfjallsins er meir en þrisvar sinnum flatarmál Íslands. Hvernig getur þessi litla pláneta myndað stærstu og hæstu eldfjöll sólkerfisins? Mars er að mörgu leyti allt öðru vísi en jörðin, eins og fyrsta myndin sýnir. Hér er Mars til vinstri og jörðin til hægri. Ekki er Mars öðru vísi einungis á yfirborði, heldur einnig að innri gerð. Eðlisþyngd rauðu plánetunnar er aðeins 3,94 g/cm3, en jörðin er með miklu hærri eðlisþyngd: 5.52 g/cm3. En Mars er miklu minni en jörðin. Þannig er þvermál Mars aðeins helmingur af þvermáli jarðar og Mars er því aðeins með um 10% af massa jarðar. Lægri eðlisþyngd bendir til að kjarninn í Mars sé annað hvort lítill eða innihaldi lítið járn. Veikt segulsvið plánetunnar bendir einnig til að kjarninn sé ekki lengur fljótandi og því sennilega orðinn fremur kaldur.
Flekahreyfingar jarðskorpunnar er eitt af höfuðeinkennum jarðarinnar. Hins vegar eru flekahreyfingar litlar eða nær óþekktar á Mars. Ef til vill er risastóra gilið Valles Marineris á Mars myndað við flekahreyfingar, en umdeilt. Það má skifta plánetunni í tvennt. Suður helmingurinn hefur helmingi þykkari skorpu (80 km, rauðu svæðin á kortinu fyrir ofan) og meira hálendi eins og myndin fyrir ofan sýnir, en norður helmingurinn er með tiltölulega þunna skorpu (ca. 30 til 40 km, bláu svæðin). Skopran á Mars er að mestu gerð úr basalti og hefur eldvirkni því verið mjög mikilvæg á plánetunni áður fyrr. Það er vísbending um að einhver eldgos hafi orðið síðustu milljón árin, en eldvirkni er nú mjög lítil. Þar sem flekahreyfingar eru ekki til staðar, þá hafa eldgosin verið mjög staðbundin og mjög há eldfjöll hlaðist upp, eins og Olympus Mons. Ef til vill eru þá tveir þættir, sem gera Mars kleift að mynda hæstu eldfjöll sólkerfisins: óvenju þykk skorpa og staðbundin eldvirkni. Talið er, að mikið hafi dregið úr eldgosum á Mars en þó eru mjög ung hraun sjáanleg. Aftur beinist athyglin að Olymus Mons fjallinu, þar sem askjan í toppnum er engin smásmíði, eins og síðasta myndin sýnir. Þessi 2 km djúpa askja er um 90 km í þvermál eða heldur stærri en allur Faxaflói. Það er augljóst að hún hefur ekki myndast við einn atburð, heldur er askjan stóra á Olympus Mons afleiðing af fimm misgömlum öskjumyndunum, sem hver hefur skilið eftir sinn hring.
Steinninn Jake á Mars
15.10.2012 | 10:03
Skálin í Hrossatungum
14.10.2012 | 18:47
Ferðin til Mars
11.7.2012 | 15:33
Sveipir á Mars
6.5.2012 | 18:02
Elfjöll í geimnum | Breytt 7.5.2012 kl. 07:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Koltvíoxíð straumar á Mars
29.12.2011 | 23:00
Elfjöll í geimnum | Breytt s.d. kl. 23:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mikil fegurð í hjúp jarðar
16.11.2011 | 13:39
Fyrstu myndir af Merkúr
2.4.2011 | 13:54
Iðunn er orðin Heit! - Eldfjöll á Venusi
11.4.2010 | 17:49
Nú þegar verulega er að draga úr eldvirkni á Fimmvörðuhálsi er kominn tími til að líta í kringum sig og veita öðrum eldfjöllum athygli. Í þetta sinn eru það eldfjöllin á plánetunni Venusi, en nýlega kom í ljós að þau eru sennilega virk. Þótt Venus sé lík jörðu á margan hátt, þá er þetta mjög skrítinn og óhollur staður. Hér er yfirborðshitinn hvorki meira né minna en 450 stig (nóg til að bræða blý), og lofthjúpurinn er svo þungur og þykkur að loftþrýstingur á yfirborði er eins og að vera í kafi í sjónum á jörðu á 1000 metra dýpi. Loftið er um 97% koltvíoxíð, en auk þess eru ský sem eru samansett af örsmáum úða af brennisteinssýru. Lofthjúpurinn er svo þykkur að yfirborð pláneturnar hefur ekki sést, nema í radar. Venus hefur þvermál sem er aðeins 330 km minna en þvermál jarðar, en samt virðast jarðkraftarnir vera allt aðrir. Hér eru ekki flekahreyfingar áberandi, en í staðinn er mjög mikið af stökum og stórum eldfjöllum, og eru mörg þeirra miklir risar sem eru 100 til 300 km í þvermál. Alls eru þekkt um 1740 eldfjöll á Venusi. Mörg eru dyngjur, en sum eru eins og stjörnur í laginu, með fjölda geisla sem stafa út frá frá miðjunni. Þessi eldfjöll eru nefnd arachnoids, vegna þess að þau líkjast könguló með margar lappir.
Yfirborðið er frekar ungt, ef dæma má út frá þeirri staðreynd að ekki finnast margir gígar eftir loftsteinsárekstra á Venusi. Enn höfum við ekki orðið vitni af eldgosum á Venusi, en nýjustu athuganir sýna að sum eldfjöllin eru heit og því sennilega virk. Myndin sem fylgir er af fjallinu Idunn Mons (Idunn er auðvitað Iðunn)
Geimfarið Venus Express hefur gert mælingar sem sýna ung hraun í hlíðum Iðunnar og má fræðast um það ferðalag frekar hér.
Það er algengt að vísindamenn sem stunda geimrannsóknir gefa fjöllum nafn sem er tengt goðafræði ýmissa landa á jörðu. Þannig eru öll goðin og guðirnir í norrænu goðafræðinni komin út í geiminn. Allir íslendingar muna sjálfsagt að í norrænu goðafræðinni er Iðunn gyðja endurnýjunar, yngingar, hreinsunar, látleysis, breytinga, eftirvæntingar og barna.
Elfjöll í geimnum | Breytt s.d. kl. 17:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)