Frægasta eldfjall heims er tvímælalaust Vesúvíus á Ítalíu. Þar varð frægasta gosið í mannkynssögunni, er borgirnar Pompeii og Herkúlaneum grófust undir gjóskuflóðum, ösku og vikri í miklu þeytigosi hinn 24. ágúst árið 79 e.Kr.
Ég byrjaði að rannsaka jarðlögin frá þessu merka gosi árið 1976, og birti mína fyrstu grein um það í ritinu American Journal of Archaeology árið 1979.
Síðan hef ég starfað mikið á Vesúvíusi og við uppgröft í rómversku borgunum sem fóru í kaf, og ritað um þau störf.
Ein grein mín, sem er hentug almenningi til lestrar varðandi þetta merka eldgos, fylgir hér með sem PDF skrá fyrir neðan þessa bloggfærslu. Hér með fylgir gouache mynd af Vesúvíusi sem er úr Eldfjallasafni í Stykkishólmi, en hjá okkur eru tugir gosmynda af Vesúvíusi frá ýmsum tímum.
Hér er rjúkandi eldfjallið séð yfir rústirnar í Pompeii, en myndin er máluð á átjándu öldinni.
Það er af miklu að taka þegar maður byrjar að fjalla um Vesúvíus og borgir hans, en ég vil byrja á að fjalla hér aðeins um ástand fjallsins fyrir gosið. Upplýsingar um Vesúvíus FYRIR gosið mikla árið 79 eftir Krist koma frá ólíklegustu stöðum.
Í fyrsta lagi eru það tvær myndir varðveittar frá dögum rómverja, sem eru taldar sýna fjallið.
Í öðru lagi eru það sögulegar heimildir tengdar uppreisn skylmingarþræla á Ítalíu undir stjórn Spartakusar.
Í þriðja lagi eru upplýsingarnar sem við fáum við jarðfræðiathuganir á fjallinu og nágrenni.
Hér til hliðar er mynd sem fannst í rústunum í glæsilegu húsi í borginni Pompeii, og er talið að hún sýni eldfjallið Vesúvíus og guðinn Bakkus.
Húsið er ávalt kallað
Casa de Centenario eða Aldarhúsið, þar sem það var grafið upp einni öld eftir að borgin Pompeii var aftur uppgötvuð og uppgröftur hófst.
Húsið var grafið upp árin 1879, 1881 og 1902. Reyndar eru þetta tvær byggingar, sem eru tengdar og má vera að ér hafi búið tvær fjölskyldur þeirra
Rusti og Tiberíusar: Domus A Rustii Veri e Tiberius Claudi Veri.
Húsið er í miðri borginni
(Regio
IX. Insula 8. Casa 3 og 6), eins og kortið af Pompeii sýnir.
Á vegg í einum ganginum eða atríum er myndin máluð sem allstórt freskó, en eftir fundinn var myndin tekin af veggnum og flutt í Fornminjasafnið í Napólíborg.
Hér er eldfjallið Vesúvíus sýnt með fremur reglulegri lögun og einum toppi.
Í dag hefur fjallið hins vegar tvo toppa, síðan form þess breyttist við gosið mikla 79 e. Kr.
Neðri hluti fjallsins er vafinn vínekrum á myndinni.
Einnig sýnir myndin guðinn Bakkus, og ef til vill hefur hann verið höfuð ástæðan fyrir því að myndin var gerð. Bakkus var grísk-rómverskur guð víns og lífsnautna og mikið dýrkaður í Pompeii.
Bakkus er hlaðinn stórum kippum af vínberjum. Fyrir framan hann eru fléttur úr gróðri, og snákur nálgast frá altarinu til vinstri. Bakkus gefur hlébarðanum vín að drekka.
Vínmenning er enn í dag stór þáttur í lífi íbúa héraðsins Campania, umhverfis Vesúvíus.
Eitt þekktasta og besta vín Ítalíu ber nafnið Lacryma Christi, eða tár Krists, og það er vínið sem er einungis ræktað í hlíðum Vesúvíusar,
þar sem vínekrur með vínberjategundunum Coda di Volpe, Caprettone,
Falanghina og Piedirosso vaxa og þrífast vel í vikrinum og öskunni.
Einn sá fyrsti sem getur um Vesúvíus var arkitektinn Vitrúvíus um 16 fyrir Krist:
Hér með er skráð að mikill hiti var undir Vesúvíusi í fornöld, og þar kom upp eldur sem breiddist yfir landið.
Árið 62 f.Kr. varð mikill jarðskjálfti undir fjallinu og kann að vera að hann merki forspil fyrir gosið mikla 17 árum síðar.
Fræðimaðurinn Seneka ritaði mikið verk, Naturales Questiones, eða Spurningar um náttúruna, árið 65 e. Kr. Þar segir: Við höfum frétt að Pompeii, fjöruga borgin í Campaníu, hafi orðið fyrir miklu tjóni vegna jarðskjálfta sem hafði áhrif á allar sveitir umhverfis.
Í húsi bánkastjórans í Pompeii, Lucius Caecilius Jucundus, er musteri með veggmynd úr marmara sem sýnir á kátlegan hátt áhrif jarðskjálftans, eins og myndin til hiðar sýnir.
Hús eru að hrynja og jafnvel riddarinn á styttunni er að detta af baki!
Viðgerðum á húsum var ekki lokið þegar gosið mikla reið yfir Pompeii sautján árum síðar. Frekari upplýsingar um Vesúvíus koma fram í sambandi við þrælauppreisn á Ítalíu árið 73 f. Kr. Til 71 f.Kr., en forsprakki þrælanna var skylmingaþrællinn Spartakus.
Kvikmyndin Spartacus, sem Stanley Kubrick gerði árið 1960, segir söguna mjög vel og hún er ein af mínum mestu uppáhaldskvikmyndum. Uppreisnarher Spartakusar gerði virki sitt í gígnum á Vesúvíusi.
Samtíma sagnir segja að þá var aðeins ein leið upp fjallið. Uppreisnarmenn notuðu reiði til að komast aðarar leiðir niður hamrana og komu rómverska hernum á óvart og sigruðu þá.
Sögnin um Spartakus, um 150 árum fyrir gosið mikla 79 e. Kr. bendir til þess að fjallið hafi verið
vel gróið og skógur náð langt upp hlíðarnar. Spartakus var frá Grikklandi, en á nítjándu öldinni varð hann ein af stóru hetjunum fyrir Karl Marx og tákn fyrir marxista í baráttu gegn harðræði og einveldi.
Íslendingar hafa lengi vanið komur sínar til Vesúvíusar og næsta nágrennis.
Ég tel víst að Hrafn Sveinbjarnarson (1166 -1213)
annálaðasti læknir
Íslands á þjóðveldisöld, hafi séð Vesúvíus á leið sinni suður frá Rómarborg. Talið er að Hrafn hafi sótt heim háskólann og lækningasetrið í Salernóborg á Ítalíu, sem er skammt fyrir sunnan Vesúvíus.
Fjölnismaðurinn Tómas Sæmundsson ferðaðist um Ítalíu árið 1833 og dvaldi í Napólí um skeið.
Hann segir frá eldfjallinu og ferð sinni í Skírni:
Þannig hagar landi fyrir vestan og norðan Napoli, en í austri þaðan er einstakt á sléttunni eldfjallið Vesúvíus, og er úr borginni til fjallsrótanna svo sem vegarstika en meira en helmingi
lengra upp á það. Það er nokkuð lægra en Hekla og í lögun áþekkt og önnur eldfjöll, ávalt að ofan með eldvörpu í kollinn, bratt
nokkuð niður til miðs, en þaðan af aflíðandi til allra hliða, hvar hrauneðjan og vikurinn hefir staðar numið. Kringum alt fjallið eru nú fagrar bygðir
og vaxa langt upp eftir því ber, sem af sér gefa hin ágætustu vín.
Sunnanvert við það lá forðum Pompeji
en vestanvert og á sjávarbakkanum Hercúlanum ; liggur þar nú
hraun yfir og er nú bygt ofan á hraunleðjunni, hvar borgin var
undir, og slitnar ei húsarunan með sjónum þaðan til Napoliborgar.
Eldfjallið er til ógnunar og þær
byltingar, sem jarðeldarnir hafa til leiðar komið, gera héruð þessi
enn fýsilegri og eftirtektaverðari fyrir hvern þann, sem ann skoðun náttúrunnar, og þeim sem fræðast vill um fornaldirnar, getur
ekkert verið betur að skapi, eu að líta svo margar menjar þeirra,
sem hér bera fyrir augu, er jafnvel heilar borgir, sem týndar hafa
verið fram undir 2000 ár, koma upp úr jörðunni.
Síðast en ekki síst ber að geta þess að Einar Magnússon, skemmtilegasti kennari Menntaskólans í Reykjavik, gekk á Vesúvíus árið 1921 og ritaði þar um. Ég lýk þessum pistli um Vesúvíus með mynd úr Eldfjallasafni, sem sýnir gosið mikla 1631, stærsta gosið eftir 79 e.Kr.
Meira um þetta merka fjall síðar.
Skrár tengdar þessari bloggfærslu: