Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2014
Holurnar í Síberíu
31.7.2014 | 12:26
Fyrir nokkrum dögum fann þyrla dularfulla holu í auðnum Síberíu, eins og myndin s ýnir. Nú hafa hreindýrahjarðmenn fundið tvær holur í viðbót á Yamal skaga, sem eru um 15 metra víðar. Fyrsta holan er um 30 metrar í þvermál og meir en 80 m djúp. Fast við brún holunar er uppkast af leir, ís og jarðvegi. Veggir hennar eru nær lóðréttir og sléttir. Sennilega eru þessar holur ekki vegna loftsteina. Slíkar holur eru fremur gígar, grunnir og með miklu jarðefni sem dreifist víða umhverfis. Starfsmenn rússnesku vísindaakademíunnar telja hins vegar að holan sé vegna losunar á metan gasi úr sífreranum. Eða er það metan gas, sem kemur dýpra úr jörðu? Stóra holan er um 40 km frá Bovanenkovo, en þar er að finna mestu metan gas birgðir rússa djúpt í jörðu. Ef gasið er úr sífreranum, þá kann það að benda til áhrifa hnattrænnar hlýnunar. Þegar sífrerinn bráðnar, þá leysist metan gas úr jarðvegi í og undir ísnum og streymir upp á yfirborð. Metan í andrúmslofti hefur verið að aukast ár frá ári. Fyrra línuritið sýnir metan í Alaska, og þar kemur vel fram að það hækkar gífurlega í ár. Seinna línuritið er frá mælingarstöðinni Tiksi í Síberíu. Ekki eru til nýjustu mælingar þar, en takið eftir mjög háum tölum í fyrra (rauður hringur). Ef til vill var það vegna myndunar á gasholu, sem enginn tók eftir og er ófundin. Metan gas hefur um tuttugu sinnum meiri áhrif á hnattræna hlýnun en koltvíoxíð. Menn hafa óttast að það losni úr sífreranum á öllum norðurslóðum og þá er voðinn vís.
Hetjan mín er Árni Thorlacius
30.7.2014 | 19:36
Ég er fæddur í Norska Húsinu í Stykkishólmi og þar ólst ég upp. Forvitni mín um ævi og störf Árna Thorlacíus (1802-1891) er því eðlileg, en hann reisti þetta merka hús milli 1828 og 1832 og bjó þar til dauðadags. Það er elsta tvílyfta húsið á Íslandi. Árni var af ætt útgerðarmanna og kaupmanna. Faðir hans, Ólafur Thorlacíus, var einn umfangsmesti kaupmaður á Íslandi í lok átjándu aldar. Einnig stundaði hann stórútgerð. Hann lét til dæmis eitt skipa sinna sigla beint með saltfiskfarm til Spánar en hin sigldu með kaupstaðavörur til Kaupinhafnar. Vegna dugnaðar hans hófst Bíldudalsfiskur til vegs og virðingar á mörkuðum erlendis. Árið 1807 festi Ólafur kaup á Stykkishólmsverslun og reiddi kaupverðið út í hönd: 5622 ríkisdali. Hann lést skyndilega árið 1815 á besta aldri. Þá voru eignir hans taldar 100,000 ríkisdalir silfurverðs. Tveir synir hans, ómyndugir, tóku nú við auðnum. Bogi Benedictsen hafði starfað sem factor fyrir Ólaf Thorlacíus og eftir andlát Ólafs tók hann við rekstrinum fyrir hönd ekkjunnar og hinna ungu sona. Árni var því kaupmannssonur, sem hafði úr miklum auði að spila. Hann var settur til mennta í Danmörku og Noregi, í tungumálum, verslunarmennsku og skipstjórnar- og siglingafræðum. Hann var því menntaður sem endurreisnarmaður og vel falinn til að stýra verklegum framförum. Árni var sendur fyrst til náms í menntaskóla í Kaupmannahöfn árið sem faðir hans deyr, 1815. Í þessum sama skóla var spekingurinn Georg Brandes síðar við nám. Árni útskrifast árið 1818, aðeins 16 ára. Þá snýr hann til Björginar í nám í sjómannafræðum og tók stöðu sem sjómaður í siglingum milli Noregs og Danmerkur um tíma. Árið 1821 er hann kominn með skipstjóraréttindi, einn af mjög fáum Íslendingum á þeim tíma. Árni var nú fær að stýra sínum eigin hafskipum milli Íslands og Evrópu. En hann var einnig bæði vísindamaður, heimsborgari, kaupmaður, bóndi, farmaður og áhugamaður um fornminjar og sögu landsins. Þarna togast á sjómennskan, fræðin og bóndinn. Árni var talinn hreystimenni, sægarpur og mikill á velli. Myndin sem fylgir er tekin á efri árum hans. Hann var skotfimur og einnig skutlari, sem var flínkur við selveiðar og í návígi við hvali. Hann var einn af stofnendum lestrarfélags í Stykkishólmi árið 1841 og síðar varð úr því Amtsbókasafn árið 1847 eða Bókasafn Vesturamtsins. Bókasafnið var til húsa fyrst um sinn í Norska Húsinu. Árni var einnig öflugur í sjálfstæðisbaráttunni og starfsemi hans var hluti af félagsvakningu og sjálfstæðishrefingu Jóns Sigurðssonar. Milli Árna og Jóns barst mikill fjöldi sendibréfa um ýmiss málefni. Hann studdi einnig við skáld og rithöfunda, sem áttu erfitt uppdráttar, einkum þau Sigurð Breiðfjörð og Júlíönu Jónsdóttur. Í nóvember árið 1845 hefur Árni veðurathuganir og byrjar að halda veðurbók sína, sem nú er á Þjóðminjasafni. Hann mældi í fyrstu bæði hita og loftþrýsting nokkurm sinnum á dag, en árið 1856 hóf hann einnig úrkomumælingar og sjávarhitamælingar ári síðar. Það er almennt talið að mælingar Árna í Stykkishólmi mega réttilega teljast hornsteinn íslenska veðurstöðvakerfisins. Þær eru einnig ómetanlegur þáttur í heildarmynd veðurlags á Norður Atlantshafi til lengri tíma. Árni hélt áfram reglubundnum veðurathugunum til ársins 1889, en þá tók sonur hans við. Síðan hafa veðurathuganir verið gerðar í Stykkishólmi óslitið.
Askja: tvær orsakir berghlaups
30.7.2014 | 04:39
Það er ef til vill að bera í bakkafullan lækinn að fjalla um berghlaupið í Öskju. Fjölmiðlar hafa gert þessu fyrirbæri mikil skil. Ég vil þó benda á tvennt. Jarðhiti hefur lengi verið mikill á svæðinu í suðaustur hluta Öskju, þar sem berghlaupið á upptök sín. Þetta eru Suðurbotnar, og hér runnu tvö hraun í kringum 1922 eða 1923: Suðurbotnahraun og Kvíslahraun. Sumarið 1989 tók að bera á auknum jarðhita á þessu svæði og Guðmundur Sigvaldason gat sér til að hér kynnu hafa verið kvikuhreyfingar í jarðskorpunni undir. Jarðhitasvæðin í Suðurbotnum einkenndust þá af heitri jörð, gufuaugum og útfellingum af brennisteini. Svæðið er afmarkað á korti þeirra Kristjáns Jónassonar og Sigmundar Einarssonar, sem fylgir hér með. Gufuútstreymi og miklar brennisteinsþúfur sáust þá hátt í hlíð við Suðurbotna. Jarðfræðingar úti í heimi áttuðu sig á því fyrir um tuttugu árum að jarðhiti í eldfjöllum veikir mjög bergið. Hitinn ummyndar berg og breytir því smátt og smátt í leir og laus efni. Afleiðingin er þá sú, að brött fjöll hrynja eða mynda skriður og berghlaup. Þetta hefur nú gerst í Suðurbotnum. Í viðbót ber að geta þess, að askjan eða hringlaga sigdalurinn, sem byrjaði að myndast árið 1875, er reyndar enn í myndun. Yfir vatninu í suðri gnífur hinn hái (yfir 1500 m) og bratti Þorvaldstindur, sem að sjálfsögðu verður að hlýða þyngdarlögmálinu, eins og önnur fjöll.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 07:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Klofajökull var aldrei klofinn
29.7.2014 | 06:40
Sumir lesendur virðast hafa þá skoðun, að á landnámsöld og söguöld hafi Vatnajökull verið mun minni og að hið forna nafn jökulsins, Klofajökull, styrki það. Þessir lesendur vísa á þetta sem sönnun þess, að þá hafi loftslag verið gjör ólíkt því, sem nú ríkir á 21. öldinni. Að þá hafi jökullinn verið klofinn af miklu skarði sem Gnúpa-Bárður fór um er hann fluttist frá Bárðardal og suður í Fljótshverfi. Það er ljóst að nafnið Klofajökull hefur ekki þann uppruna og er á engan hátt vísbending um að Vatnajökull hafi verið mun minni. Í ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar frá árinu 1772 er fjallað um uppruna nafnsins Klofajökull: Klofajökull dregur nafn af tveimur geysimiklum jökulálmum, sem skapa skarð eða bug á milli sín, en úr jökulkrók þessum koma þrjár stórár. Hér vísa því Eggert og Bjarni til klofans sem kemur í Vatnajökul vegna Kverkfjalla. Sveinn Pálsson tekur í sama streng, en hann gerði fyrsta uppdrátt af Klofajökli eða Vatnajökli árið 1794: Heitir hann Klofajökull vegna hinna fjölmörgu rana, sem út frá honum kvíslast í ýmsar áttir, og allmargra fjallgarða, sem skerast upp í hann. Hér er mynd af korti Sveins. Allir sem hafa séð Vatnajökul úr norðri átta sig á nafngiftinni, því Kverkfjöll virðast algjörlega kljúfa norður rönd hans. Í merku riti sínu, Jöklar á Íslandi (2009), hefur Helgi Björnsson gert líkan af myndun og vexti Vatnajökuls (bls. 372). Það er ekkert sem kemur þar fram, sem gæti stutt þá hugmynd að jökullin hafi verið klofinn frá norðri til suðurs á landnámsöld. Mynd Helga af sennilegri útlínu Vatnajökuls fyrir um eitt þúsund árum fylgir einnig hér með. Var loftslag mun mildara á þjóðveldistímanum en nú í dag? Töluvert hefur verið deilt um það, en þetta er tímabil, sem loftslagsfræðingar nefna Medieval Warm Period. Ég fjalla um það síðar.
Vatnsmelónan og hnattræn hlýnun
28.7.2014 | 07:01
Ég hef fjallað töluvert um hnattræna hlýnun hér og fengið margskonar viðbrögð, sum beinlínis dónaleg. Hvers vegna eru sumir svo harðir í afneitun á náttúrufyrirbæri sem er reyndar fremur augljóst? Ef til vill er ein skýringin sú, að margir andstæðingar kenningarinnar um hnattræna hlýnun trúi á vatnsmelónukenninguna. Hún er sú, að allir þeir sem hafi áhyggjur af hnattrænni hlýnun séu umhverfisverndarsinnar: þeir eru grænir að utan en rauðir sósíalistar að innan. Að hnattræn hlýnun sé bara ein aðferðin í viðbót til að leiða yfir okkur sósíalismann. Svo eru þeir, sem trúa að hnattræn hlýnun sé aðeins tískufyrirbæri, sem vísindamenn hafi gert mikið úr til þess að fá meira fé til rannsókna sinna. Nú, svo eru það þeir, sem eru tengdir við, eða hafa fjárfest í olíubransanum á einn veg eða annan og vija af þeim sökum alls ekki viðurkenna að hér sé mikið vandamál á ferðinni fyrir allan heiminn.
Steinblómin í Drápuhlíðarfjalli
27.7.2014 | 05:35
Þegar ég var að alast upp í Stykkishólmi gafst mér stundum tækifæri til að sjá stein, sem átti hug minn allan. Þetta var nokkuð stór steinn úr Drápuhlíðarfjalli, sem stillt var upp í stofu þeirra hjóna Sigurðar Ágústssonar og Ingibjargar Helgadóttur í Clausenshúsi. Yfirborð steinsins var eins og heill blómagarður, þar sem brúnar greinar kvíslast og breiðast út. Allir sem skoðuðu steininn voru á einu máli um að hér væru steingerðar plöntur. Að vísu finnast plöntusteingervingar í Drápuhlíðarfjalli, og jafnvel steinrunnin tré, 4 milljón ára gömul. En steinblómin þeirra Sigurðar og Ingibjargar eru ekki steingervingar, heldur kristallar af mángan oxíði. Steinninn er alveg jafn fagur og merkilegur fyrir það, en skreytingin er ekki af lífrænum uppruna. Steinninn mun hafa fundist þegar gullleitin var gerð í Drápuhlíðarfjalli árið 1939. Síðan hef ég rekist á nokkra steina af svipaðri gerð í fjallinu, en þó engan jafn stóran og fagran. Hér með fylgja nokkrar myndir af þeim. Mángan oxíð kristallar með þetta form eru nefndir dendrítar vegna þess að þeir skifta sér sífellt í ýmsar greinar í vexti. Með því myndar kristallinn einskonar blað, sem líkist helst margskiftu laufblaði af burkna. Sennilega berst mángan oxíð upp í sprungur í berginu með jarðhita og við vissar aðstæður fellur vökvinn út MnO2 og myndar kristalla af ýmsum tegundum af mangan oxíði, eins og hollandít, romanechit, cryptomelan og todorokít.
Hvað heldur þú um orsök hnattrænnar hlýnunar?
26.7.2014 | 07:00
Hnattræn hlýnun er staðreynd, en hverjar eru orsakir hennar? Rúmlega 97% af vísindamönnum telja hlýnun vera af manna völdum. Hinir halda að hlýnun sé náttúrufyrirbæri og óháð mengun mannkyns á lofthjúpnum. Meðal almennings í heiminum er svarið nokkuð annað, en það er misjafnt milli landa, eins og meðfylgjandi línurit sýnir fyrir tuttugu lönd. Það er í enskumælandi löndum (Bandaríkjunun, Bretlandi og Ástralíu) sem efasemdir eru mestar um áhrif mannsins á hlýnun jarðar. Það er í Kína, sem flestir trúa að hlýnun sé af manna völdum. Hið síðara kemur ekki á óvart, því hvergi í heiminum er mengun meiri en í Kína. Hvers vegna er almenningur í enskumælandi löndum svo tortrygginn á að hlýnun sé af manna völdum? Er það tilviljum, eða er það tengt tungumálinu? Eða er það vegna pólitísks þrýstings og áróðurs í þessum löndum? Í Bandaríkjunum eru til dæmis 91 stofnanir sem eru vel fjármagnaðar af yfir $900 milljón sem eru í afneitum, eða vinna gegn þeirri skoðun á hlýnun sé af manna völdum. Þessar stofnanir eru styrktar af olíufélögum og álíka fyrirtækjum. Í þessu löndum er ný-frjálshyggja nú mjög ríkjandi, þar sem margir hallast að þeiri skoðun að hinn frjálsi markaður eigi að ríkja en að draga þurfi úr áhrifum hins opinbera. Einnig er bent á, að fjölmiðlar í þessum þremur löndum séu að miklu leyti í höndum eins einstaklings: Roberts Murdoch. Hann er þekktur fyrir þá skoðun að hlýnun sé á engan hátt tengd starfsemi mannkyns. En þessar skýringar eru reyndar eins og að klóra í bakkann: enginn veit hversvegna hinn enskumælandi heimur hagar sér þannig.
Gegnumlýsing eldfjalla
25.7.2014 | 06:21
Það hefur reynst erfitt að átta sig á virkum eldfjöllum, meðal annars vegna þess, að við höfum takmarkaðar upplýsingar um innri gerð þeirra. Nú er að gerast framför á þessu sviði, vegna þess að jarðskjálftafræðingar eru farnir að gegnumlýsa eldfjöllin með jarðskjálfatbylgjum. Gott dæmi um það eru rannsóknir á Mount St Helens eldfjalli í Bandaríkjunum. Þar varð frægt sprengigos hinn 18. maí árið 1980 og síðan hafa ýmsar rannsóknir farið fram á því fjalli. Gregory Waite og félagar settu upp fyrir nokkru nítján jarðskjálftamæla umhvefis og ofaná eldfjallið. Þeir könnuðu mikinn fjölda af jarðskjálftabylgjum, sem fóru í gegnum fjallið og jarðskorpuna undir. Með því móti gátu þeir greint svæði, þar sem bylgjurnar fara hægar í gegnum jarðlögin. Þau svæði eru talin vera kvikuhólf eða svæði þar sem kvika er ríkjandi en ekki fast berg. Beint undir eldfjallinu er svæði í jarðskorpunni, á 2 til 3,5 km dýpi, þar sem jarðskjálftabylgjur fara treglega í gegnum eða hægja á sér. Þetta virðist vera kvikuþró eldfjallsins. Þar undir er annað svæði á um 5,5 til 8 km dýpi, sem einnig getur verið kvikuþró. Myndin sýnir þversnið af eldfjallinu og greinir svæðin, sem eru sennilega kvikuhólf. Á bleiku svæðunum fara skjálftabylgjur hægar, en á grænu og bláu svæðunum fara bylgjurnar með meiri hraða. En þessi könnun nær aðeins niður á um 10 km dýpi í jarðskorpunni. Nú er annar hópur vísindamanna að undirbúa gegnumlýsingu á Mount St Helens, sem mun ná niður á um 80 km dýpi og rannsaka dýpri pípulagnirnar fyrir kvikuna. Þeir munu nota bæði bylgjur, sem koma frá fjarlægum jarðskjálftum og bylgjur frá dynamít sprengingum á yfirborði til að gegnumlýsa St Helens með 3500 jarðskjálftamælum. Viðbíðum spennt eftir niðurstöðunum.
Flug M17: Af hverju Evrópa gerir ekki neitt
24.7.2014 | 06:20
Nú er talið sannað að farþegaþotan Malaysian flug 17 hafi verið skotin niður með rússneskri eldflaug sem rússneskir aðskilnaðasinnar í Úkraníu sendu á loft. Lík 193 fórnarlamba eru nú loks komin til Hollands. Reiðin er mikil í Hollandi og Evrópu allri, enda er ekki farið með líkamsleifar af þeirri virðingu sem talin er nauðsynleg í siðuðu þjóðfélagi. En allt bendir til að Evrópa geri ekkert í málinu annað en nokkrar harðar orðsendingar til Putins. Ástæðan fyrir aðgerðarleysi er sú, að rússar hafa efnahagslegt tangarhald á Evrópu, jafnvel á Þýskalandi. Tökum Holland sem dæmi um efnahagstengslin við rússa. Holland er háð rússum hvað varðar olíu og jarðgas. Hollenska olíufélagið Shell hefur gert miklar fjárfestingar í gas og olíulindum í Síberíu. Shell er stærsta fyrirtækið í Hollandi og flestir lífeyrissjóðir þar í landi hafa keypt í Shell. Ef Shell tapar, þá lækka eftirlaun allra kennara og iðnaðarmanna í Hollandi. Tengslin milli Shell og hollenska ríkisins eru mikil og flókin. Shell mun gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir þvinganir eða hömlur á verslun og viðskipti við rússa.
Árið 2012 fluttu hollendingar inn vörur frá Rússlandi fyrir $27.3 milljarða, mest jarðgas. Síðan seldu þeir 95% af þessu gasi til annara Evrópuríkja. Rússland flutti inn $9.7 milljarða það ár af vörum frá Hollandi: mest blóm, matvöru og skrifstofuvörur. Putin getur að sjáfsögðu lokað á strauminn af þungum vopnum og fjármagni til byltingasinna í Úkraníu. En Pútin er harður nagli. Hann er afkvæmi KGB, leyniþjónustu Sovíetríkjanna. Evrópa þorir ekki að gera neitt á meðan meginlandið er algjörlega háð Rússlandi hvað varðar olíu og gas.
Ég þrái Elizabetu
23.7.2014 | 07:35
Þrátt fyrir alt, þá er enn til vonarneisti um lýðræði í Bandaríkjunum. Það sem gerist í þessu stórveldi stórveldanna hefur auðvitað bein eða óbein áhrif á okkur öll. Vonin virtist bjartari þegar Obama var kosinn forseti. Hann gat þó varla verið verri en Bush! Svartur maður, vel menntaður, sem hlaut að vera lýðræðissinnaður og maður fólksins, ekki satt? Ég kaus hann, en því miður hefur hann reynst vera tól í höndum auðjöfra og Wall Street. Næstu kosningar verða haldnar árið 2016. Talið er líklegt að Hillary Clinton fari í framboð fyrir hönd Demókrata, en hún hefur ekki gefið kost á sér formlega. Ég mun vinna gegn henni. Hún er búin að vera of lengi í pólitík og orðin gjörspillt. Nú fær hún $200 þúsund fyrir hvern fyrirlestur sem hún flytur. Hún kom dóttur sinni Chelsea í stöðu, þar sem hún fær greitt $600 þúsund á ári fyrir að gera ekki neitt. Clinton fjölskyldan er heltekin græðgi (nú metin á $25 milljónir) og verður að afskrifast í stjórnmálum. Eina vonin hjá mér er nú hún Elizabeth Warren. Hún er 65 ára og starfar sem lagaprófessor við Harvard háskóla í Boston og nú þingmaður í Washington. Hún hefur lengi unnið við rannsóknir á því hvernig stjórnmálamenn og bankar hafa hagrætt lögum í landinu sér í hag og gefið út fræðirit og bækur um það mál. Hún segir þetta um auðvaldið: Þeir hafa svindlað á amerískum fjölskyldum, valdið efnahagshruni, látið svo ríkið bjarga sér á kostnað almennings, og nú eru stóru bankarnir orðnir enn stærri en þeir voru þegar hrunið varð 2008. Strákur er tekinn fastur og settur í steininn fyrir að vera með einn vindling af marijúana, en stóru bankarnir þvo peninga fyrir stóru eiturlyfjasalana og enginn þeirra er settur inn. Spilið em við lifum í er eintómt svindl! Bankastjórinn borgar minna í tekjuskatt en einkaritarinn. Hvernig er það hægt? Það er hægt vegna þess að þeir eiga lobbyista og Repúblikana fulltrúa á þinginu. Fylgist með þessari konu. Hún er eina vonin.