Vatnsmelónan og hnattræn hlýnun

vatnsmelónanÉg hef fjallað töluvert um hnattræna hlýnun hér og fengið margskonar viðbrögð, sum beinlínis dónaleg.   Hvers vegna eru sumir svo harðir í afneitun á náttúrufyrirbæri sem er reyndar fremur augljóst?  Ef til vill er ein skýringin sú, að margir andstæðingar kenningarinnar um hnattræna hlýnun trúi á vatnsmelónukenninguna. Hún er sú, að allir þeir sem hafi áhyggjur af hnattrænni hlýnun séu umhverfisverndarsinnar: þeir eru grænir að utan en rauðir sósíalistar að innan. Að hnattræn hlýnun sé bara ein aðferðin í viðbót til að leiða yfir okkur sósíalismann. Svo eru þeir, sem trúa að hnattræn hlýnun sé aðeins tískufyrirbæri, sem vísindamenn hafi gert mikið úr til þess að fá meira fé til rannsókna sinna.  Nú, svo eru það þeir, sem eru tengdir við, eða hafa fjárfest í olíubransanum á einn veg eða annan og vija af þeim sökum alls ekki viðurkenna að hér sé mikið vandamál á ferðinni fyrir allan heiminn. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er athyglisvert að prófessornum og eldfjallafræðingnum Haraldi Sigurðssyni virðist vera fyrirmunað að ræða kenningar um meinta hnattræna hlýnun á vísindalegum forsendum.

Þegar honum er bent á að vísindalegir útreikningar styðja ekki málflutning hans þegir hann þunnu hljóði og kemur síðan fram með ásakanir um "dónaleg viðbrögð"!

Í stað þess að draga umræðuna niður í pólitískt forarsvað, tískudynti eða olíuspeglasjónir væri það í anda vísindanna að sleppa trúboðinu og halda sig við mælanlegar staðreyndir.

Í þessu sambandi má benda á að prófessorinn komst í fréttirnar í gær þegar Guðjón Jónsson, efnaverkfræðingur hjá VSÓ Ráðgjöf, vogaði sér að benda á að málflutningur HS um meintan sóðaskap og ofurmengun vegna fyrirhugaðrar starfsemi bandaríska fyrirtækisins Silicor Materials stæðist ekki.

Efnaverkfræðingurinn heldur því fram að um misskilning sé að ræða hjá Haraldi og mengunin verði sáralítil, en auðvitað veit prófessorinn betur á þessu sviði sem öðrum - og þarf ekkert að svara fyrir það.

http://www.visir.is/saralitil-mengun-i-verksmidju-silicor-ad-mati-efnaverkfraedings/article/2014140729144

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 28.7.2014 kl. 08:38

2 identicon

Í ljósi þess að hér er því haldið fram að viðbrögð við öðrum pistlum um hnattræna hlýnun hafi sum verið dónaleg, og að lokað hefur verið á athugasemdir frá undirrituðum undir eigin bloggnafni á þessari síðu, langar mig gjarnan að fá að vita hvort átt sér við mínar athugasemdir, og ef svo er, þá hvaða athugasemdir hafa farið svo fyrir brjóstið á síðuhaldara að honum hefur mislíkað svo illilega.

Erlingur (IP-tala skráð) 28.7.2014 kl. 10:15

3 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Mér fannst þessar athugasemdir á næstasíðasta bloggi vera ansi undarlegar og ekki tengjast efni bloggsins( verð að viðurkenna í leiðinni minn þátt en það skýrist af því að það var orðið ansi framorðið hér út í Noregi svo áhrifa frá svefngalsanum var farin að gæta).En ég tók eftir þessari frétt með Silicor og þetta hafði reyndar komið fram í gamalli frétt um verksmiðjuna. Er bara ekki rétt að viðurkenna mistök Haraldur, það geta jú allir gert. En hvað álit hefur þú á því að mælingar hafa sýnt að engin hlýnun hafi átt sér stað síðustu 10 ár eins og ég hef lesið?

Jósef Smári Ásmundsson, 28.7.2014 kl. 10:19

4 Smámynd: Ingibjörg Álfrós Björnsdóttir

Kæri Haraldur,

Þakka þér fyrir öll þín áhugaverðu skrif hér inni á vefnum mbl.is

En það er vonlaust að ræða við Íslendinga um loftslagsbreytingar. Íslenskt samfélag er ekki komið á það stig að það sé tilbúið til að meðtaka þann boðskap. Ég reyndi þetta fyrir nokkrum árum, en gafst eiginlega upp.

Ég vil þó þakka þér fyrir að koma jafnan með málefnaleg rök og málefnalega umræðu.

Pistlar þínir um jarðvísindi eru einnig mjög skemmtilegir.

Kær kveðja frá Suðurlandinu,

Ingibjörg Elsa Björnsdóttir, jarðfræðingur

Ingibjörg Álfrós Björnsdóttir, 28.7.2014 kl. 11:04

5 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ofstæki markaðshyggjuaflanna á Íslandi í garð umhverfisverndar er merkilegt fyrirbæri og minnir helst á einasannleikann í moskudeilunum þar sem aðeins ein skoðun var/er leyfð.

Með reglulegu millibili eru haldnar alþjóðlegar ráðstefnur um þá raunverulegu vá sem lífríki Jarðar er talin stafa af þessari þróun og fullnustaðar eru samþykktir fyrir allar þjóðir að fara eftir.
Vel að merkja, Hilmar Hafsteinsson; ein spurning til þín:

Þessi Guðjón Jónsson efnaverkfræðingur hjá VSÓ ráðgjöf.
Hefur hann lengi verið heimsþekktur vísindamaður? 

Og önnur spurning:
Er ekki svolítið galgopalegt að fjárfesta fyrir milljarðatugi eða milljarðahundruð í hafnarframkvæmdum á Íslandi vegna opnunar siglingaleiðar um Norður -Íshaf í tengslum við þessa hröðu bráðnun?
Þar sem það er "vitað" að hnattræn hlýnun er bara pólitískur lygavaðall!

Árni Gunnarsson, 28.7.2014 kl. 12:14

6 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Ekkert hefur nú hlýnað í tæp 18 ár eða síðan í september 1996 sbr hér: http://www.climatedepot.com/2014/07/03/global-temperature-standstill-lengthens-no-global-warming-for-17-years-10-months-since-sept-1996-214-months/

Vilhjálmur Eyþórsson, 28.7.2014 kl. 13:23

7 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þú stendur vaktina með sóma Vilhjálmur.

Það gerði Sveinn dúfa líka.

Getur kostað andvökur að hafa auga með þessum helv. kommúnistum. 

Árni Gunnarsson, 28.7.2014 kl. 13:44

8 identicon

Vinsamlegast, Árni Gunnarsson, reynum að ræða saman eins og siðaðir menn og sleppa ásökunum um ofstæki, einasannleik og lygavaðal - að maður tali nú ekki um hægrisinnaða rugludalla og ignoranta, eins og málsvari HS, Haukur Kristinsson, leyfði sér að kalla efasemdarmenn um meinta hnatthlýnun af manna völdum.

Staðreyndin er einfaldlega sú að náttúran er ekki að breytast í takt við útreikninga IPCC. Hún virðist hafa gefið allri hátimbruðu tölvulíkanasmíðinni langt nef. Um leið og fæstir efast um þá hnattrænu hlýnun sem sannarlega átti sér stað á síðasta hluta 20. aldar þá liggur það ljóst fyrir að engin hnattræn hlýnun hefur átt sér stað á 21. öldinni.

Að auki virðist það ganga erfiðlega fyrir talsmenn heittrúarstefnunnar að telja almenningi trú um að CO2 sé spilliefni, skaðvænlegt náttúrunni. Líklegast gera margir sér grein fyrir að CO2 er lífsnauðsynlegur áburður fyrir plönturíkið og aukið magn örvi vöxt trjáa og plantna.

Þú nefnir réttilega allar alþjóðlegu ráðstefnurnar um náttúruvernd og samþykktir þeirra en vissir þú að það ríkir ekki einhugur meðal þjóða heims um kolefnistrúna? Þannig hafa Ástralir nú nýverið fellt niður kolefnisgjald og stjórnvöld í Suður-Kóreu hafa fryst alla frekari innleiðingu á þeim skatti.

Til að svara spurningu þinni um nefndan Guðjón Jónsson efnaverkfræðing þá þarf maður ekki að vera heimsþekktur vísindamaður til að hafa rétt fyrir sér - sem betur fer. Því miður er það svo að heimsþekktir vísindamenn hafa rangt fyrir sér - eru mannlegir. Ég veit ekki til þess að það sé áskilið að vísindamenn verði að hafa rétt fyrir sér. Ég tel hins vegar nokkuð augljóst að efnaverkfræðingur hafi meiri innsýn í eiturefnið sílikon tetraklórið en jarðfræðingur.

Hafðu svo bestu þakkir fyrir seinni spurninguna. Svarið er hiklaust já, það hlýtur að teljast afskaplega galgopalegt að fjárfesta fyrir milljarðatugi eða milljarðahundruð í hafnarframkvæmdum á Íslandi vegna opnunar siglingaleiðar um Norður -Íshaf. Þessi draumsýn forseta vors minnir mann óþægilega á þekkta yfirlýsingu eðlisfræðingsins og Nóbelsverðlaunahafans Niels Bohr: "Allar spár eru erfiðar, sérstaklega hvað framtíðina varðar".

Sjálfur guðfaðir heittrúarstefnunnar, Al Gore - einnig Nóbelsverðlaunahafi, spáði fyrir um það árið 2007 að norður- íshafið yrði hafíslaust árið 2013(!) (http://www.youtube.com/watch?v=GPLD8aylRiw) Sumarið 2013 var hafísþekjan á norður- íshafinu sú mesta frá 2007 og í ár stefnir í að hafísþekjan á norður- íshafinu verði sú mesta á þessari öld! Þetta er mælanleg staðreynd - þetta eru vísindi.

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 28.7.2014 kl. 15:46

9 identicon

Fáviskan vekur því miður engann sársauka og enga verki hjá viðkomanda.

Annars mundi þessi Hilmar Hafsteinsson event. drullast til að mennta sig meira og betur.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 28.7.2014 kl. 17:22

10 identicon

Umræðan um hlýnun Jarðar er, víða í bloggheimum, í skötulíki.

Ég tel að allir eigi að geta verið sammála um að hitastig á jörðinni er hærra undanfarna áratugi en það var um miðbik og fram á seinni hluta síðust aldar.

Þessu má ekki blanda saman við umræðuna,hvort svo sé að manna völdum eða hvort slíkt sé óheillavænlegt.

Mér virðist sem trúboðar, ýmsir, líti þröngt á þróunina,

hafi einhver jafnvel önnur sjónarmið en að leiða sannleikann í ljós.

Ýmsir í áhrifastöðum á erlendum vettvangi hafa orðið uppvísir af því að hagræða gögnum til þess að styðja sitt mál. það er miður.

Áhugavert er að huga að því hve mikil verðmæti voru búin til úr engu með útgáfu "kolefniskvóta" sem síðan hefur gengið kaupum og sölum. Og hverjir höfðu af þvi ábata.

Því miður er umræðan öll í svaðinu, öllu ægir saman, og því ekki von á vitrænni niðurstöðu.

Ólafur Jónsson (IP-tala skráð) 28.7.2014 kl. 18:03

11 identicon

Ég hugsa að það hafi nú hlýnað eitthvað hérna á Íslandi undanfarið, allavega finnst mér eins og gróðurslikjan á Esjunni nái mikið hærra en hún hefur gert.

Kannski er það rigningin? Hvað það er sem veldur veit ég ekki frekar en aðrir. Það hafa verið hlýjindaskeið áður, já áður en iðnbyltingin varð sem allir vilja kenna um.

Það skyldi þó aldrei vera ferðamennskan sem veldur þessari mengun. Ef farið er á Flightradar 24 þá má sjá t.d. að það sést varla í Bandaríkin fyrir flugumferð http://www.flightradar24.com/45.22,-72.41/7

Bara eitt Skemmtiferðaskip, það mengar á við10.000 bíla bara þann tíma sem það liggur við kæjann í Sundahöfn. Hvað þá með öll hin sem eru eins og mý á mykjuskán um allt ballarhaf. Hvað skyldu farþegar á þeim greiða mikið í Kolefnisskatt?

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 28.7.2014 kl. 19:35

12 Smámynd: Ingibjörg Álfrós Björnsdóttir

Þann 29.mars árið 2001 hélt Dick Cheeney ásamt Colin Powell og Condoleezu Rice fund um loftslagsbreytingar. Þessi fundur var með vitneskju og samþykki Bandaríkjaforseta sem þá var George Bush Jr. James Hansen yfirmaður NASA Goddard Space center var kallaður á fundinn og lýsir honum í bók sinni The Storms of my grandchildren.

Fundur þessi var haldinn ekki til þess að ræða hvort loftslagsbreytingar væru að gerast, hvort þær séu af mannavöldum - heldur til þess að ræða hvernig Washington og bandaríski herinn ættu að bregðast við loftslagsbreytingum.

Bandaríkjamenn eru nefnilega löngu búnir að ákveða að bjarga sjálfum sér og aðlagast breytingunum með markvissum aðgerðum.

En þeir vilja ekki hræða almenning og þess vegna var fundurinn sem var 29. mars árið 2001 aldrei auglýstur í fjölmiðlum.

Það er málið...

Stjórnmálamenn veraldarinnar vita nákvæmlega hver staðan er í loftslagsmálum. Þeir vilja hins vegar ekki skapa kvíða hjá almennum borgurum. Þetta mál er pólitískt erfitt.

Á Íslandi ríkir afneitun gegn loftslagsbreytingum, a.m.k. opinberlega, hvað sem menn segja prívat bak við lokaðar dyr.

Þannig er það bara.

Góðar stundir, Ingibjörg Elsa Björnsdóttir

Ingibjörg Álfrós Björnsdóttir, 28.7.2014 kl. 20:13

13 Smámynd: Hörður Þórðarson

Takk fyrir góða færslu, Haraldur.

"Hvers vegna eru sumir svo harðir í afneitun á náttúrufyrirbæri sem er reyndar fremur augljóst?"

Þetta er áhugaverð spurning. Ég get skilið þá sem fá fé frá hagsmunaaðilum eins og olíufélögum og birta blogg þar sem því er haldið fram að það sem þessi félög geri hafi engin áhrif. Þeir sjá væntanlega sannleikann jafn vel og aðrir en þeir gera það sem þeir gera vegna þess að þeir fá borgað fyrir það.

Svo eru það fjölmiðlar. Bent var á í öðru góðu bloggi frá Haraldi

http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1414810/

að: "fjölmiðlar í þessum þremur löndum séu að miklu leyti í höndum eins einstaklings: Roberts Murdoch.  Hann er þekktur fyrir þá skoðun að hlýnun sé á engan hátt tengd starfsemi mannkyns." Ekki veit ég hvers vegna Robert er á þessari skoðun, kannski er það vegna fjárhagslegra hagsmuna. 

Svo eru það þeir sem éta þessa vitleysu upp, og æla henni svo út úr sér án þess að fá greitt krónu fyrir það. Ég verð að viðurkenna að ég skil þá ekki en ég vorkenni þeim mikið.

Hörður Þórðarson, 28.7.2014 kl. 20:14

14 identicon

Það sem er ótrúlegast við umræðuna um þetta mál er að vísindamenntað fólk skal ALLTAF leggja áherslu á að menn séu að afneita á loftslagsbreytingum, ef einhverjir leyfa sér að gagnrýna umræðuna áhrif CO2 af mannavöldum á hitastig á sama tíma og hitastig jarðar hefur staðið í stað í tæp 18 ár, sem er u.þ.b. helmingur þess tíma sem hitastig hefur verið mælt nokkuð nákvæmlega á heimsvísu með gervihnöttum.

Kjarninn málsins er þessi: Fullyrt hefur verið að útblástur CO2 af mannavöldum sé frumorsök þess að hitastig jarðar hækkar; m.ö.o. hnattræn hlýnun er drifin af útblæstri manna á CO2. Gögn sýna að þetta sama hitastig og CO2 á að hafa áhrif á hefur ekki hækkað í 18 ár, hvorki í hafi né á landi, á sama tíma og mælt gildi CO2 í andrúmslofti hefur aukist um 10% frá 1998, úr 360ppm í liðlega 400ppm í dag.

Á þessum sama tíma hefur 25% af allri áætlaðri losun manna á CO2 frá upphafi, þessari frumorsök þess að hitastig hækkar, átt sér stað eftir 1998 til dagsins í dag. Samt hefur hitastig ekki hækkað á sama tímabili.  M.ö.o. orsök og afleiðing haldast ekki í hendur, miðað við þessi gögn.

Það eina sem vísindaheimurinn hefur að segja er AFNEITUN! 

Hvers vegna má aldrei benda á þessar staðreyndir án þess að orðið afneitun komi upp? Af hverju er ekki andmælt með rökum og staðreyndum til að hrekja þessar ábendingar? 

Ég get því miður illa borið virðingu fyrir háskólamenntuðu fólki sem bregst svona við opinberri umræðu.

Má ég að lokum benda á orð Hal Lewis prófessors emeritus í eðlisfræði sem sagði eftirfarandi liðlega ári fyrir andlát sitt um loftslagsbreytingar af mannavöldum: "the greatest and most successful pseudoscientific fraud I have seen in my long life as a physicist." 

Ég skora hér með á ykkur Haraldur og Ingibjörg Elsa að útskýra hvers vegna hitastig í sjó eða á landi hefur ekki aukist síðan 1998, á sama tíma og CO2 hefur aukist um 10%.

Erlingur (IP-tala skráð) 28.7.2014 kl. 21:10

15 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Arnar Pálsson erfðafræðingur er að velta afneitun á staðreyndum fyrir sér.

Sigurður Þór Guðjónsson, 28.7.2014 kl. 21:35

16 identicon

Sæll Haraldur.

Mér segir svo hugur að Bjarne Örn Hansen hafi
hitt naglann á höfuðið í fyrri færslu er hann segir:

" ... og erum bara surfarar, sem fleitum okkur á öldu alheimsins. 
Við erum ekki orsökin fyrir öldu alheimsins ...".

Innst inni vita menn þetta og sjá að umræðan öll
hefur ekkert með hlýnun eða kólnun jarðar að gera.

Umræðan er snjöll pólitísk flétta til að halda mönnum
uppteknum við aukaatriði sem engu máli skipta.

Aðalatriðið gæti verið það að treysta pólitíska stöðu,
marka víglínur í pólitískum skollaleik og skyldi vera
til öllu greiðari leið til peningaþvættis til að styðja
arma hvort heldur til hægri eða vinstri?

Húsari. (IP-tala skráð) 29.7.2014 kl. 00:49

17 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Hvað veldur því að síðustu 15 ár á jörðinni eru hlýrri en 15 árin þar á undan?

http://www.drroyspencer.com/wp-content/uploads/UAH_LT_1979_thru_June_2014_v5.png

Emil Hannes Valgeirsson, 29.7.2014 kl. 01:25

18 identicon

Hilmar Hafsteinsson, Vilhjálmur Eyþórsson og Erlingur: Hver er hin raunverulega ástæða fyrir því að vísindamenn um víða veröld halda því fram um að það hlýni jafnt og þétt, að hlýnunin sé að miklu leyti af mannavöldum og að það stefni í óefni (fremur en að um sé að ræða tímabundna uppsveiflu af náttúrulegum orsökum)? Hvernig komst þetta víðfeðma samsæri á kreik, að ykkar áliti? Hvað gengur þessum vísindamönnum/stjórnmálamönnum til? Mér þætti fróðlegt að vita ykkar kenningar.

Anna (IP-tala skráð) 29.7.2014 kl. 08:00

19 Smámynd: Hörður Þórðarson

Ég get svarað þessu, Anna. Ég vinn á stórri vísindastofnun sem er í tengslum við virtan háskóla. Allir mínir vísindamenntuðu starfsfélagar, og allir þeir sem ég þekki hjá háskólanum telja að um hnattræna hlýnun sé að ræða af mannavöldum. 100%. Þetta telja líka allir atvinnu vísindamenn sem ég hef samkipti við í öðrum löndum. Af hverju höldum við þessu fram? Ekki segja neinum, en það er vegna þess að Al Gore sendir okkur sérstaka köku til að hafa með kaffinu á föstudögum. Þetta er sem sagt "evil" samsæri.

 Ef við hættum að segja þetta, þá fáum við ekki lengur kökuna. Við gætum reyndar beðið um pening frá olíufélögum fyrir að snúa kvæði okkar í kross, en kakan er bara ansi góð svo...

Hörður Þórðarson, 29.7.2014 kl. 09:18

20 identicon

Nú er það ljóst að Hörður Þórðarson er greinilega það veruleikafirrtur að hann telur sig gegna nöfnunum Hilmar Hafsteinsson, Vilhjálmur Eyþórsson og Erlingur :)

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 29.7.2014 kl. 09:47

21 identicon

Sæll Haraldur.

Er umræðan þá ekki farin að nálgast það
sem þetta snýst allt saman um, fjármagnið,
og hverjir hafi t.d. á Íslandi notið hvað mest
góðs af og í hvaða skyni?

Húsari. (IP-tala skráð) 29.7.2014 kl. 10:54

22 identicon

Sæl Anna.  Svo ég svari spurningum þínum frá minni hendi þá er svarið einfalt: Ég hef engar kenningar um þær og sé enga ástæðu til að reyna að leita að þeim svörum, því mér er nákvæmlega sama hvort eitthvað samsæri sé í gangi eður ei.

Ég er fyrst og fremst að tjá mínar skoðanir við færslur þar sem athugasemdir eru leyfðar. Þoli menn, eða vilji, ekki fá athugasemdir við sínar færslur ættu þeir að loka á þær algjörlega.

Ég hef leyft mér að benda á það annars staðar að ég telji viðskiptakerfi með losunarheimildir koltvísýrings tengjast málflutningi um áhrif koltvísýrings á loftslag. Slíkt kerfi er komið á í Evrópu, en ekki í Bandaríkjunum eins og er. Með þessu kerfum eru búin til verðmæti úr lofttegund sem nefnd er mengunarvaldur, og koma fyrirtækjum vel sem geta þar með bókfært eign sína vegna losunarheimilda. Ég persónulega sé engan hag í þessu fyrirkomulagi til hagsbóta fyrir loftslag jarðar.

Ég hef fyrst og fremst leyft mér að tjá mína skoðun á því að ég telji áhrif útblásturs manna á hitastig ofmetin og tilgreint hvers vegna ég telji svo. Ég ætla ekki að endurtaka það hér. Enda eru mínar athugasemdir ekki velkomnar á þessari síðu eins og er af ókunnum ástæðum, þó að ég virði það að vettugi að sinni. Það er svo hvers lesanda að ákveða hvernig hann metur minn málflutning.

Það er vel vitað að fjöldi vísindamanna telur að CO2 stýri hitastigi jarðar. Það er líka fjöldi vísindamanna sem hefur efasemdir um hið sama, þó svo að Hörður Þórðarson og hans vísindamenntuðu kollegar séu sannfærðir.

Herði Þórðarsyni, lærðum vísindamanni, líður hins vegar betur með að tala niður til fólks sem hefur öndverðar skoðanir en hann, og leyfir sér að tjá þær óhikað undir nafni og tilvitnun í heimildir þegar það á við. Hörður svarar með háði.

Haraldur Sigurðsson, lærður vísindamaður, lokar af ókunnum ástæðum fyrir athugasemdir mér undir mínu bloggnafni.

Er ekki dásamlegt að eiga flott prófskírteini en þola ekki gagnrýni á sinn málflutning?

Erlingur (IP-tala skráð) 29.7.2014 kl. 11:46

23 identicon

Það er eins og gerst hafi í gær . . .

Hér er skemmtileg gömul frétt, ásamt viðtali við Hörð Þórðarson veðurfræðing:

"21. janúar 1994 | Forsíða | 279 orð

Bandaríkin 93 látnir af völdum kuldanna

AÐ MINNSTA kosti 93 hafa látist af völdum fimbulkulda í Bandaríkjunum undanfarna daga og neyðarástandi var lýst yfir í New Jersey, Pennsylvaníu og höfuðborginni, Washington, í gær.

AÐ MINNSTA kosti 93 hafa látist af völdum fimbulkulda í Bandaríkjunum undanfarna daga og neyðarástandi var lýst yfir í New Jersey, Pennsylvaníu og höfuðborginni, Washington, í gær.

Um tíma var lokað fyrir rafmagn og gas hjá hundruðum þúsunda manna í Pennsylvaníu, Maryland og New Jersey þar sem orkunotkunin varð of mikil vegna kuldanna. Í Washington voru skrifstofur hins opinbera lokaðar og 360.000 ríkisstarfsmenn mættu ekki til vinnu að beiðni yfirvalda til að spara rafmagnið.

Hörður Þórðarson veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands sagði stöðu veðurkerfa yfir Norður-Ameríku valda kuldunum miklu. "Mikil hæð hefur haldið sig yfir vestanverðu Kanada og teygst suður á vestanverð Bandaríkin. Síðan hafa lægðir við austurströnd Bandaríkjanna færst í norðaustur í átt að Grænlandi. Í sameiningu hafa þessi tvö kerfi og þó aðallega þessi stóra hæð valdið því að loft hefur streymt í marga daga frá Norðurpólnum og jafnvel alla leið frá Síberíu inn yfir austurhluta Bandaríkjanna," sagði Hörður.

"Þessi staða getur alltaf komið upp en það hefur verið óvenjulega kalt núna og mér skilst að kuldamet hafi verið slegin. Það er útlit fyrir að breytingar verði um helgina því þessi mikla hæð er komin á hreyfingu og um leið og hún kemst austur fyrir Bandaríkin verður loft miklu hlýrra þar sem fimbulkuldar hafa herjað síðustu daga," sagði Hörður Þórðarson.

> http://www.mbl.is/greinasafn/grein/122239/

Þessi frétt var skrifuð fyrir 20 árum síðan. Síðastliðinn vetur var enn kaldari í USA og Kanada og enn fleiri kuldamet voru slegin! Hörður Þórðarson er hins vegar hættur störfum hjá Veðurstofu Íslands :)

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 29.7.2014 kl. 12:01

24 identicon

Hörður!

Þú segir svo í svari til Önnu: "Allir mínir vísindamenntuðu starfsfélagar, og allir þeir sem ég þekki hjá háskólanum telja að um hnattræna hlýnun sé að ræða af mannavöldum. 100%. Þetta telja líka allir atvinnu vísindamenn sem ég hef samkipti við í öðrum löndum."

Trúir þú þessum orðum þínum 100% sjálfur?!

Er yfirleitt nokkuð til í vísindum sem telst vera 100% eða
skiptir það engu máli meðan þú færð þína Al Gore-köku?!

Húsari. (IP-tala skráð) 29.7.2014 kl. 12:14

25 Smámynd: Hörður Þórðarson

Ég held að við séum farin að nálgast sannleikann. Færsla Erlings er mjög upplýsandi. Erlingur telur "áhrif útblásturs manna á hitastig ofmetin". Það er nefnilega það... Þegar menn eru farnir að skilja að útblástur manna hefur áhrif á hitastig, þá eru þeir farnir að sjá ljósið.

Hörður Þórðarson, 29.7.2014 kl. 12:34

26 identicon

". . . þá eru þeir farnir að sjá ljósið."(sic)

Hallelujah! :)

http://www.youtube.com/watch?v=bC73DvTrFNs

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 29.7.2014 kl. 13:20

27 identicon

Hörður: Ég hef oft haldið þessu fram áður. Útblástur manna á CO2 drífur ekki hitastigs- eða loftslagsbreytingar, en það er ekki þar með sagt að áhrifin séu alls  engin. Ég tel þau hins vegar óveruleg. Þú segir hins vegar að áhrifin séu 100%. Því er ég ekki sammála.

Erlingur (IP-tala skráð) 29.7.2014 kl. 13:30

28 Smámynd: Hörður Þórðarson

" Þú segir hins vegar að áhrifin séu 100%. Því er ég ekki sammála."

Hvar sagði ég það, og hvað meinar þú eiginlega þegar þú segir 100% áhrif?

Ég sagði að 100% þeirra vísindamanna sem ég starfa með eru sammála þér um að það er hnattræn hlýnun af manna völdum. Auðvitað eru margar skoðanir á umfangi og áhrifum þessa en það dettur engum í hug að stinga höfðinu í sandinn og einfaldlega neita þessu.

Það hafa sumir réttilega bent á að hlýnun af manna völdum getur haft margt jákvætt í för með sér, að minnsta kosti á sumum svæðum jarðarinnar. Við verðum samt að taka tillit til þeirra jarðarbúa sem koma illa út úr þessu og gera það sem við getum til að aðstoða þá við að aðlagast nýju veðurfari. Þetta er oft fólk sem hefur varla til hnífs og skeiðar eins og er og hefur veika rödd á alþjóðavetvangi.

Getum við komið í veg fyrir hnattræna hlýnun með einhverjum kolefnissköttum? Að mínu áliti er allt of seint í rassinn gripið og það eru ekki lengur hægt að stöðva þessa þróun. Við ættum samt að gera það sem við getum til að takmarka hana og aðstoða þá sem verst verða fyrir barðinu á þessu.

http://arctic-news.blogspot.co.nz/2013/07/methane-and-the-risk-of-runaway-global-warming.html

"Not that the above features too much in the Australian elections, where the reality of climate change has been replaced with pseudoscience notions, including by some who have not consulted basic climate science text books, and by hip-pocket-nerve terms such as “carbon tax”, “emission trading scheme” or “direct action”. The proposed 5% reduction in emissions relative to the year 2000 represent no more than climate window dressing."

Því miður gætu þessi svokölluðu jákvæðu áhrif hnattrænnar hlýnunar verið sammvinn. Að krukka svona í náttúruna er hættulegur leikur og þetta gæti allt farið mjög illa. 

Hörður Þórðarson, 29.7.2014 kl. 20:23

29 identicon

Ég hélt ég hefði komið því skýrt á framfæri, Hörður, að ég telji einmitt ekki að útblástur CO2 sé frumorsök hitastigs- eða loftslagsbreytinga, en einhvern veginn tekst þér að snúa út úr þeim orðum, sprenglærður maðurinn.

Þín skrif hafa hingað til bent til þess að þú væri sannfærður um að útblástur mannkyns á CO2 sé orsök þess sem kallast hnattræn hlýnun/loftslagsbreytingar eða hvaða frasa sem menn vilja nota um fyrirbærið. Það er það sem ég var að vísa til þegar ég sagði 100% áhrif, en sé eftirá að ég hefði getað orðað þetta öðruvísi. Hafði bara ekki tíma til að lesa athugasemdina (#27) betur yfir áður en hún var sett inn.

Erlingur (IP-tala skráð) 30.7.2014 kl. 01:13

30 Smámynd: Hörður Þórðarson

Takk.

Hörður Þórðarson, 30.7.2014 kl. 02:30

31 identicon

Góðan daginn

 

Skemmtileg þessi vatnsmelónumyndlíking.

Það var uppörvandi að sjá umfjöllun um Lord Lawson í staksteinum Morgunblaðsins um daginn. Lawson mætir andstöðu þar sem hann hefur hugrekki til þess að varpa fram gagnrýnum spurningum um “Global Warming”

 

Lord Lawson claims the "Stalinist" BBC has now banned him from appearing on the programme because his views clash with the corporation’s “own party line”.

http://www.telegraph.co.uk/earth/environment/climatechange/10965729/Climate-change-sceptics-must-be-heard-on-the-BBC.html

 

Sífellt fleiri bregða sér í hlutverk barnsins og benda á að “Global Warming” keisarinn er klæðalaus. Breski stjarneðlisfræðingurinn Piers Corbyn heldur úti veðurstofunni www.weatheraction.com og gefur út veðurspár sem ná mánuð fram í tímann með um og yfir 80% nákvæmni. Hann gefur út stormviðvaranir með enn meiri fyrirvara. Fjöldi folks er í áskrift af veðurspám hans, m.a. bændur er tímasetja uppskeruna eftir spám Piers.

 

Fárviðrinu sem gekk yfir Bretland í október 2013 var Piers búinn að spá 6 vikum áður, uppá dag! Er von að fólk spyrji, hvernig fer hann að þessu?

http://www.weatheraction.com/docs/WANews13No44.pdf

 

Piers er einn þeirra sem vill meina að orsakasamhengið milli CO2 og lofthita sé í raun öfugt. Eins og hann kemst að orði um Global Warming: “It puts lipstick on scientific fraud but it remains fraud. They misrepresents the observed facts and choose 'straw-man' methods to attack inadequate non-CO2 part-theory as if somehow trying to argue that if an animal is not a cat then it must be a dog.”

 

Það þarf ekki að orðlengja það að BBC og Breska veðurstofan gefa lítið fyrir Piers Corbyn og hans aðferðir.

 

Gagnrýnar raddir um þetta málefni eru gjarnan bældar niður. Það vekur mann til umhugsunar hvort vísindasamfélagið hafi í raun breyst frá tímum Galileo. Eða eins og Arthur Schopenhauer komst að orði:

"All truth passes through three stages. First, it is ridiculed. Second, it is violently opposed. Third, it is accepted as being self-evident."

 

Bestu kveðjur

 

Ingvar Tryggvason

Ingvar Tryggvason (IP-tala skráð) 4.8.2014 kl. 17:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband