Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2012
Tagldarhellir
25.7.2012 | 23:02
Vatnafell er gömul eldstöð á Vatnaleið á Snæfellsnesi, og skilur fjallið á milli Hraunsfjarðarvatns fyrir vestan og Baulárvallavatns fyrir austan. Vatnafell myndaðist í basalt eldgosi fyrir um 400 þúsund árum. Ég hef áður bloggað hér um myndun þess í sambandi við myndun þriggja stöðuvatnanna á þessu svæði. Er Vatnafell að mestu gert úr stuðluðu basalti, með móbergskápu undir. Basaltið er óvenjulegt fyrir að hafa risastóra kolsvarta kristalla af pyroxen, sem geta verið margir cm á lengd. Undir hömrum austan í Vatnafelli eru þrír hellar og er sá syðsti stærstur. Staðsetning hans er sýnd með rauða hringnum á fyrstu myndinni, sem er tekin yfir Baulárvallavatn. Til hægri á myndinni er móbergstindurinn Horn. Hellarnir í Vatnafelli hafa myndast þar sem rof hefur fjarlægt mýkri jarðlög undir basaltberginu. Það er fremur auðvelt að komast að öllum þessum hellum, upp brattar og mjög grýttar skriður austan í fellinu. Syðsti og stærsti hellirinn nefnist Tagldarhellir og er við hann kennd þjóðsaga. Sögnin um hellinn er varðveitt í Illuga söguTagldarbana.
Ein sögupersónan er Helgi, sem bjó á Helgafelli. Hann fékk til liðs við sig Illuga, hraustan og ungan mann sunnan af Mýrum, til að drepa tröllið Dofra, sem bjó í helli einum á Vatnsheiði og er hann nefndur Dofrahellir Ekki er mér kunnugt um staðsetningu hans. Illugi var Þórisson, en faðir hans var Þórir Þorfinnsson og móðir Sæunn, dóttir Skallagríms Kveldúlfssonar og er hann þá systursonur Egils Skallagrímssonar. Er því ekki að furða að hér var á ferð mikill kappi. Bardaginn við Dofra leiddi Helga til bana, en Illugi fékk eftir hann jörðina Helgafell og bjó þar. Síðar háði Illugi mikla baráttu við flagðkonuna Tögld í Tagladarhelli. Hér skýtur nokkuð skökku við í frásögnum. Í Illugasögu Tagladarbana fer bardaginn við Tögld fram í einni utanför Illuga, en í sögn sem er varðveitt í þjóðsögum Sigfúsar Eymundssonar (1899) fer orrustan í Tagladarhelli fram á Snæfellsnesi. Illugi kom tröllskessunni fyrir kattarnef að lokum, en sumir telja að skrímslið sem sést hefur í Baulárvallavatni sé Tögld afturgengin. Það er ekki hlaupið að ríma á móti orðinu Tögld, en þessi vísa fylgir þjóðsögninni:
Eg er að tálga horn í högld,
hagleiksmenntin burt er sigld.
Illugi deyddi tröllið Tögld,
trúi' eg hún væri brúnaygld.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 23:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Lóndrangar
24.7.2012 | 17:47
Þegar ekið er suður fyrir Snæfellsjökul, þá rísa Lóndrangar eins og seglskip úr hafinu, fast við ströndina fyrir sunnan Malarrif. Drangarnir tveir hafa lengi vakið athygli. Samkvæmt Eggert Ólafssyni og Bjarna Pálssyni (1774) er þeirra getið í Landnámu. Lóndranga er einnig getið á eftirminnilegan hátt í kvæði Helgu, dóttur Bárðar Snæfellsáss, sem hún kveður til forna þegar heimþrá sækir á hana á Grænlandi. Í kvæðinu telur hún upp helstu örnefni umhverfis fæðingarstað sinn undir Jökli:
Sæl væra ek,
ef sjá mættak
Búrfell, Bala,
báða Lóndranga,
Aðalþegnshóla
ok Öndvert nes
Heiðarkollu
ok Hreggnasa,
Dritvík ok möl
fyr dyrum fóstra.
Lóndrangar hafa fleirum orðið yrkisefni og til dæmis orti Símon Dalaskáld:
Um Lóndranga yrkja má
eru þeir Snæfells prýði,
yzt við tanga út við sjá
aldan stranga lemur þá.
Hvaða lón er það, sem nafnið Lóndrangar vísar til? Eru það ef til vill Djúpulón, um 5 km vestar á ströndinni? Lóndrangar eru tveir gígtappar 75 og 60 m háir. Þeir eru leifar af basalt eldstöð, sem hefur verið virk hér í sjó eða fast við ströndina, sennilega í lok ísaldar. Eldvirknin hefur byrjað í sjó og samspil heitrar kviku og hafsins hafa valdið gufusprengingum, sem tættu í sundur kvikuna, mynduðu ösku og gjall, sem féll umhverfis gíginn og myndaði móberg. Í lok gossins var eftir basalt kvika í kverkum gíganna tveggja, sem storknaði og myndaði stuðlað basalt berg. Síðan hefur brimið brotið niður meiri hlutann af gígunum. Vestari drangurinn er allur úr stuðluðu basalti, en sá austari og hærri hefur flóknari innri gerð. Neðri hluti hans er stuðlað basalt og tvær æðar af því skjótast uppí móbergið fyrir ofan. Efri hluti austari drangans er eingöngu úr móbergi. Lóndrangar hafa verið stakir klettar í hafinu undan suður strönd Snæfellsjökuls. Síðan hafa þrjú hraun frá Jöklinum teygt sig suður og náð að umkringja drangana að nokkru leyti og tengja þá við meginlandið. Hærri drangurinn var klifinn af Ásgrími Böðvarssyni, Vestmannaeyingi, á Hvítasunnu árið 1735. Ásgrímur þessi var afbrotamaður. Hann hafði áður verið sakfelldur fyrir hnupl í Eyjum og gerður brottrækur þaðan. Síðar var hann viðriðinn innbrot og þjófnað í verzlunarhúsi í Ólafsvík árið 1736. Þetta var stórþjófnaður, 200 ríkisdalir og 30 vættir af varningi. Verslunarhús stóðu löngum mannlaus að vetrinum. Þetta notfærði Ásgrímur sér veturinn 1736, braust inn í búðina og hafði þaðan stórfé. Var hann 23 ára þegar innbrotið var framið. Ásgrímur náðist síðar í Trékyllisvík en komst aftur undan og tókst að flýja. Aldrei sást til hans síðan og hefur hann ef til vill komist um borð í erlenda duggu og sloppið úr landi. Minni drangurinn var klifinn árið 1938. Sjóbúðir voru fyrrum rétt sunnan við stóra drang. Hér gengu eitt sinn 12 skip á vorvertíð og var Drangsvogur lendingin, rétt fyrir austan drangann. Merki um útræði má enn sjá, rústir sjóbúða fiskireiti og garða í hrauninu.
Myndin til hægri er eftir Kjartan Pétur Sigurðsson (2005), tekin úr fisflugvél yfir Lóndröngum. Hér sést basalt undirstaða dranganna vel og einnig brúna móbergið, sem myndar efri hluta hærri drangsins til hægri.
Surtarbrandurinn og Hlýnun Jarðar
21.7.2012 | 16:18
Maðurinn sem kleif Kerlinguna
20.7.2012 | 04:21
Járnsteinn úr Kjarnanum
19.7.2012 | 06:34
Járnsteinninn frá Thule
18.7.2012 | 12:12
Katla skelfur
17.7.2012 | 15:22
Ferðin til Mars
11.7.2012 | 15:33