Færsluflokkur: Katla

Svona eiga bændur að vera

IMG_2176Uppáhaldsmynd mín af íslenskum bónda er þessi hér af Markúsi Loftssyni (1828 – 1906). Góðmennskan og gáfurnar skína út úr andlitinu, sem skeggkraginn rammar svo lisitlega inn. Hatturinn er svo kórónan á allt saman. Skeggkragi af þessari gerð ber nafnið “chin curtain” á ensku máli og gerði sjálfur Abraham Lincoln þennan stíl heimsfrægan. Lincoln lét sér skeggkraga vaxa eftir að ellefu ára stúlka skrifaði honum bréf árið 1860, þar sem hún benti honum á að hann fengi fleiri atkvæði ef honum tækist að fela sinaberan hálsinn og kinnfiskasogna vánga með skeggi. Það reyndist rétt.

En nóg með þennan útúrdúr með skeggið. Snúum okkur að manninum Magnúsi. Hann var lengst af bóndi á Hjörleifshöfða, í skotlinu frá eldstöðinni Kötlu. Þessi staður á Suðurlandi er eiginlega eldfjallseyja að uppruna, eins og eyjar Vestmannaeyja, en Hjörleifshöfði tengdist meginlandinu fyrir tiltölulega stuttum tíma, vegna mikils framburðar gosefna, ösku og sands frá eldgosum í Kötlu undir Mýrdalsjökli.

Markús var fyrst og fremst bóndi, en var einnig sérmenntaður fræðimaður, sem hafði mikinn áhuga á jarðfræðum. Hann er einn af einstökum persónum í bændasamfélagi Íslands á nitjándu og tuttugustu öld, sem fylgdust með náttúruhamförum, skráðu niður lýsingar af eldgosum og gerðu mælingar. Má þar með telja auk Markúsar þá Kvískerjabræður, Jakob Líndal á Lækjamóti og Einar H. Einarsson á Skammadalshóli. Þeir birtu einnig niðurstöður sínar í tímaritinu Náttúrufræðingnum.

Árið 1880 birtist á prent merkileg bók eftir Markús: “Rit um Jarðelda á Íslandi”. Bókin kom aftur út árið 1930, aukin og endurbætt af Skúla, syni Markúsar. Markús tekur saman ýmsar sögulegar heimildir um eldgos á Íslandi, en auðvitað er mikil áhersla lögð á Kötlu í ritinu, enda var hún staðsett rétt við túnfótinn.


Óvissustig

Lýst hefur verið óvissustigi umhverfis Mýrdalsjökul vegna vatnavaxta og brennisteinsfýlu í Múlakvísl.  Það er gott og blessað og allur er varinn góður varðandi Kötlu.  En glöggur lesandi hefur bent mér á, að Almannavarnir gefa út tilkynningar öðru hvoru um óvissustig, en aldrei er tilkynnt þegar óvissustigi lýkur.  Það virðist bara fjara út og gleymast.  Væri ekki rétt að gefa í skyn þegar mesta hættan eða óvissan er liðin hjá?

Kvikuþró - ein stór og önnur lítil

KatlaUndir flestum stórum og langvirkum eldfjöllum er kvikuþró.  Hún er einskonar tankur eða forðabúr af kviku ofarlega í jarðskorpunni.  Í stórgosum tæmist kvikuþróin að miklu leyti og þá kann fjallið að hrynja niður í tómarúmið undir.  Við það myndast hringlaga sigdalur á yfirborði, sem við nefnum öskju eða caldera á erlendum málum.  Katla er eitt af þeim íslensku eldfjöllum, sem talin er hafa kvikuþró á dýpinu, eins og fyrsta mynd sýnir.  Mælingar jarðeðlisfræðinga hafa gefið vísbendingu um kvikuþró á um 1,5 km dýpi undir sjávarmáli, eða um 2 til 3 km undir yfirborði fjallsins. Kvikuþróin er talin um  það bil 5 km í þvermál og gæti rúmmál af kviku í þrónni verið um 4 rúmkílómetrar.  Ólafru GuðmundssonÖnnur mynd sýnir niðurstöður Ólafs Guðmundssonar og annara jarðeðlisfræðinga á skorpunni undir Kötlu.  Ljósa svæðið sýnir staðsetningu kviku í þrónni undir.  Þetta verður að teljast fremur lítil kvikuþró, miðað við það, sem finnst í jarðskorpunni á sumum öðrum eldfjallasvæðum.  Ein þekkasta, best rannsakaða og stærsta kvikuþró sem vitað er um er undir Yellowstone í Bandaríkjunum.  Þriðja mynd sýnir þversnið af henni.  Hún er um 80 til 90 km á lengd og yfir 20 km á breidd. Kvikuþróin er talin vera á dýpinu frá 5 km og ná niður á 17 km undir yfirborði.  Fyrri niðurstöður sýndu að í henni eru um 4000 rúmkílómetrar af kviku en sennilega er það lágmark. YellowstoneReyndar er talið að í þrónni sé blanda af kviku og kristöllum, þ.e.a.s.  einskonar kristal-ríkur hrærigrautur.  En yfirleitt getur kvika ekki gosið ef hún inniheldur meir en 50% kristalla.  Þá er hún einfaldlega of stíf og rennur ekki.  Risastór gos hafa komið upp úr þessari kvikuþró undir Yellowstone. Síðasta stórgosið var fyrir um 640 þúsund árum og þá gaus 1000 rúmkílómetrum af kviku í sprengigosi, sem dreifði ösku yfir alla Norður Ameríku. Hvað er einn rúmkílómeter?  Surtsey er til samanburðar einn rúmkílómeter.  Okkar stærsta gos síðan land byggðist, Skaftáreldar, er um 15 rúmkílómetrar.  Þúsund er alveg ótrúlegt magn, en fyrri sprengigos í Yellowstone hafa verið enn stærri. Til dæmis var gosið fyrir 2,1 milljón árum um 2500 rúmkílómetrar.  Stærsta sprengigos af þessari gerð  varð þó í eldfjallinu Toba í Indónesíu fyrir um 74 þúsund árum,  en þá kom upp 2800 rúmkílómetra á yfirborðið.  Yellowstone er elsti og merkasti þjóðgarður Bandaríkjanna og það er ævintýraland ferðamannsins og jarðfræðingsins. En jarðskopran þar er sífellt á hreyfingu. Jarðskjálftar eru mjög tíðir og land ýmist rís eða sígur. Síðasta gosið í Yellowstone var líparít hraungos fyrir 70 þúsund árum. Það var "aðeins" um 30 rúmkílómetrar að stærð, en hefur ekki valdið miklum umhverfisspjöllum þar sem hraunið var takamarkað í útbreiðslu innan öskjunnar. Enginn veit hver framtíð Yellowstone elstöðvarinnar er.  Kvikan er fyrir hendi í miklum mæli, órói er tíður í jarðskorpunni og allt er fyrir hendi til að stórgos gæti orðið.  En hins vegar hafa engar breytingar orðið, sem benda til að slíks sé að vænta á næstunni.  Á meðan svæðið er rólegt, þá hvet ég alla til að fara til Yellowstone amk. einu sinni á ævinni, því þessi þjóðgarður er engu líkur --  en varist bjarndýrin!  Ég starfaði þar um tíma við rannsóknir árið 1985. Við fórum víða á göngu utan vega um garðinn allan.  Það hafði verið brýnt fyrir okkur að koma bjarndýrunum ekki á óvart.  Ég hafði það þá fyrir sið að halda á steini í vinstri hendi og jarðfræðihamrinum í þeirri hægri, og slá á steininn í hverju spori. Þá heyrðu birnirnir í okkur langar leiðir og vissu hvar við vorum á ferð.  Ef þeir hrökkva við og ef þú gengur milli móður og unga þá getur þú átt von á árás.  Á slíkum gönguferðum er mér ávalt í huga minningin um konu, sem ég þekki.  Hún er jarðfræðingur og vann í Alaska árið 1977.  Það vað hún fyrir árás bjarndýrs og hann bókstaflega át af henni báða handleggina.  Ef þið sækið Yellowstone heim, þá haldið ykkur á göngustígunum!


Skálin í Hrossatungum

Hrossatungur gígurÞað hefur aldrei fundist gígur eftir loftstein á Íslandi - ekki enn.  Ég var því spenntur fyrir að kanna skálina sem er sunnan til í Hafnarfjalli, í Hrossatungum.  Skálin er sýnd á fyrstu myndinni, með Skarðsheiði á bak við. Myndirnar tók Ragnar Axelsson einnig í dag.   Hér er greinileg skál eða gígur, á svæði, þar sem ekki hefur gosið eftir ísöld.  Auðvitað hafa loftsteinar fallið á Íslandi, en rof jökla hafa þurrkað út öll vegsummerki eftir þá. Var hér góður kandídat? Ég fór þvi upp í Hafnarfjall í dag, ásamt Birgi Jóhannessyni og fjölskyldu hans. Skálin er mjög falleg og vel þess virði að skoða.  Hún er um 200 m löng frá SV til NA og um 150 m á vídd. Mesta dýpi hennar er um 50 m.  Botninn er sléttur og klæddur mjúkum og þykkum mosa.  Ekkert gil skerst niður í skálina og er hún því mjög regluleg í laginu og reyndar ungleg.  Brúnir skálarinnar eru úr basalti.  Þetta er fremur þykkt basaltlag, og víða með stóra stuðla, sem liggja láréttir, eins og sjést oft í berggöngum. Eystri brún skálarinnar er hæst og þar hefur basaltið verið rofið töluvert, sennilega af yfirgangs skriðjökuls. Það er ekkert að finna hér, sem bendir til loftsteinsáreksturs.  HrossatungurLoftsteinsgígar sýna viss einkenni sem greina þá frá gosgígum. Þar á meðal má nefna sérkennilega sprungumyndun í berginu umhverfis, myndun af tinnu-líku gleri sem verður til vegna bráðnunar, og einnig lag af urð og grjóti, sem hefur kastast upp úr gígnum.  Hér er ekki slíkt að finna.  Skálin er því gosgígur, en hvað er hann gamall? Eldstöðin sem myndaði Hafnarfjall er um 4 milljón ára gömul og hefur Hjalti Franzson meðal annara kannað hana. Gígurinn er því mun yngri en virkni í Hafnarfjallseldstöðinni.  Hann er sennilega tengdur myndun af móbergi og þursabergi, sem finnst her í grennd. Þá er aldur hans sennielga frá lokum ísaldar eða innan við  eitt hundrað þúsund ára.  Á seinni myndinni má sjá hópinn á gígbrúninni,  inni í rauða hringnum. Leitin af loftsteinsgíg á Íslandi heldur því áfram.......

Kötlugos eftir Arreboe Clausen

Kötlugos 1918 Arreboe ClausenHér er nýjasta mynd Eldfjallasafns í Stykkishólmi. Hún er olíumálverk af Kötlugosinu árið 1918. Myndin er máluð af mjög sérstæðum manni, sem fæddur var í Stykkishólmi: Arreboe Clausen (1892 -1956). Faðir Arreboe var kaupmaðurinn Holger P. Clausen í Stykkishólmi, en um hann lék evintýraljómi, einkum í sambandi við ferð hans til Ástralíu í leit að gulli. Hann hafði getið sér frægðar á Snæfellsnesi árið 1880, þegar hann bauð sig til framboðs til Alþingis. Holger tók það ráð að reisa tjald á kjörstað, þar sem voru veittar óspart vínveitingar til kjósenda á kostnað Clausensverslunar. Að sjálfsögðu hlaut hann kosningu með miklum meirihluta til Alþingis, en þessi atburður er ávallt kallaður “Brennivínskosningin” síðan. Í þá daga greiddu menn atkvæði sitt í heyrenda hljóði. Siðar kom Holger öllum á óvart og reyndist bæði róttækur og frjálslyndur á þingi. Arreboe Clausen starfaði mörg ár sem einkabílstjóri forsætisráðherra Íslands. Af honum eru margar sögur, tengdar þessu sérstæða starfi. Til dæmis segir Ólafur Thors við Arreboe einkabílstjóra sinn, árið 1942: „Góði minn, nú er ég orðinn forsætisráðherra. Nú verður annar hvor okkar að hætta að drekka! “ Eitt sinn var Arreboe spurður, hvað væri að gerast á bak við tjöldin í stjórnmálum Íslands, og vildi hann ekkert um það segja. „Ert þú ekki innsti koppur í búri allra stjórnmálaflokka?“ Arreboe svaraði snöggt: „Jú, ég er það, en sá koppur lekur ekki.“ Málverkið af Kötlugosinu hefur Arreboe málað eftir frægri ljósmynd, sem Kjartan Guðmundsson tók af gosinu. Að lokum skal geta þess, að Arreboe var faðir þeirra Clausensbræðra, Hauks og Arnar, sem lengi voru fremstu frjálsíþróttamenn Íslands.

Katla skelfur

Mýrdalsjökulsaskja skjálftarTíðni smáskjálfta á Kötlusvæðinu eða í Mýrdalsjökulsöskjunni hefur verið mjög mikil í ár og í fyrra. Fyrsta myndin hér sýnir fjölda skjálfta í Mýrdalsjökulsöskjunni á fyrri hluta árs (janúar til júlí) hvert ár frá 1991 til 2012. Toppurinn í tíðni skjálfta í ár kemur vel fram og ástandið alls ekki venjulegt. Eru þetta ísskjálftar, sem orsakast vegna hreyfingar og bráðnunar jökulsins, eða eru þetta skjálftar í jarðskorpunni undir, tengdir eldfjallinu sjálfu? Það er nú einmitt þess vegna, að ég valdi að sýna aðeins fyrri hluta ársins á þessari mynd. Það er vel þekkt, einkum á Goðabungu, rétt vestan við Kötlu, að það eru miklar árstíðasveiflur í fjölda smáskjálfta á þessu svæði, eins og til dæmis Kristín Jónsdóttir hefur ritað um.  Árstíðasveiflur skjálftaÖnnur myndin sýnir þessa árstíðabundnu sveiflu í fjölda smáskjálfta fyrir árin 1998 til 2000. Það verður stökk í fjölda skjálfta um september eða október ár hvert, eins og myndin sýnir og hefur það verið túlkað sem svörun við bráðnun og þynningu jökulsins, sem léttir þunga af skorpunni. En nú er þessi háa tíðni smáskjálfta í ár og í fyrra ekki tengd slíkum fyrirbærum, og því ef til vill tengd eldfjallinu sjálfu. Eða er það jarðhiti í Kötluöskjunni, undir íshellunni, sem veldur meiri fjölda ísskjálfta? Katla heldur þannig áfram að valda töluverðum taugaspenningi meðal okkar allra.

Dýpi skjálfta undir Kötlu

DýpiIngþór Friðriksson spyr hvort það hafi orðið breyting á dýpi jarðskjálfta undir Kötlu. Myndin sem fylgir er úr Skjálftavefsjá Veðurstofunnar, og nær yfir tímabilið frá í júní til desember 2011.  Reyndar vantar alla minni skjálfta á myndina, en það breytir sennilega engu. Hún sýnir, að langflestir stærri skjálftarnir eru grynnra en 5,5 km í jarðskorpunni. Ekki get ég séð að það sé nein breyting á dýpinu með tímanum. 

Bíður eftir Kötlu

Fjöldi2011Á þessu ári hefur eldstöðin Katla verið mikið í fréttum. Við höfum oft heyrt það sagt, að Katla sé komin á tíma, að nú hljóti að fara að gjósa vegna þess að viss tími sé liðinn síðan síðasta stórgos var, árið 1918. Þetta er misskilningur. Reynslan sýnir, að eldgos eru yfir leitt það sem vísindin kalla stochastic process. Það er að segja: fyrri atburður eða tímalengd milli atburða hefur engin áhrif á tímasetingu næsta atburðar. Það fæst því engin spá að viti með því að mæla tíðni gosa og lengd goshlés. Hins vegar eru jarðeðlisfræðileg merki mikilvæg. Þau gera ekki spá mögulega, en þau mynda kerfi af upplýsingum, sem kunna að gefa viðvörun um yfirvofandi gos. Við skulum kíkja á vef Veðurstofunnar, og sjá hvað hefur verið að gerast í ár. Það er ljóst að mikil breyting varð í eldstöðinni Kötlu í byrjun júlí í ár, eins og rauða linan um uppsafnaðan fjölda skjálfta sýnir (fyrsta mynd). Þá jókst tíðni jarðskjálfta undir Mýrdalsjökli skyndilega. Strain2011Síðan hefur tíðnin haldist nokkuð stöðug, en heldur dregið úr henni síðustu vikur. En jarðskjálftarnir gefa frekari og áreiðanlegri upplýsignar ef við skoðum næstu mynd. Þar er sýnd uppsöfnuð strainútlausn í jarðskjálftum. Þetta er eiginlega mælikvarði á orkuna sem losnar úr læðingi við jarðskjálftana. Þar kemur fram breytingin í byrjun júlí, og enn betur fram, að tímabilið síðan um miðjan nóvember hefur verið nokkuð rólegra en í sumar og haust og að magn af orku frá jarðskjálftum hefur minnkað nokkuð eða staðið í stað síðustu vikur. Þriðja myndin sýnir súlurit, þar sem fjöldi skjálfta á mánuði undir Mýrdalsjökli er rauður. Hér er einnig ljóst, að frekar hefur dregið úr fjöldanum. Nú, síðan um miðjan nóvember, ríkir því lengsta rólega tímabilið síðan virknin undir Kötlu jókst í júlí. Ekkert markvert er að sjá á óróamælum Veðurstofunnar umhvefis Kötlu undanfarið. MánuðiSama er að segja um GPS hreyfingar á mælum umhvefis Kötlu. Þær hreyfingar eru það sem við er að búast vegna landreks. Enginn sér inn í framtíðina í jarðskorpunni, en alla vega virðist ástandið stöðugt … í bili. Að lokum: gleymum því ekki, að umbrot og órói í jarðskorpunni leiðir alls ekki alltaf til eldgosa. Gott er að minna á óróann við Upptyppinga árin 2007 og 2008 í því sambandi. Mikill hluti af óróafyrirbærum í skorpunni eða undir eldfjöllum lognast útaf, án þess að gos verði.

Óróinn á ný undir Kötlu

UppsafnFjöldi2011Undanfarna daga hafa fjölmiðlar fjallað um óróa undir Mýrdalsjökli og margir spurt um líkurnar á Kötlugosi í því sambandi. Ástæðan fyrir vaxandi áhyggjum eru tengdar hlaupóróa og litlu hlaupi í Múlakvísl 6. september, og þó einkum aukinni skjálftavirkni undir Mýrdalsjökli nú seinni part sumars. Línuritið til vinstri sýnir skjálftavirkni undir Mýrdalsjökli frá 1. maí 2011. Þetta er uppsafnaður fjöldi skjálfta á hverju svæði, samkvæmt gögnum Veðurstofu Íslands. Hér er skjálftafjöldinn á hverju svæði sýndur með einkennislit: Mýrdalsjökulsaskja (rautt), Goðabunga (grænt), Eyjafjallajökull (blátt), Torfajökull (fjólublátt). Skjálftafjöldinn undir Mýrdalsjökli byrjaði að vaxa snemma í júlí og hefur sú tíðni á skjálftum haldist nokkuð stöðugt síðan. Hér er um mikla aukningu að ræða í samanburði við árið áður. Önnur mynd sýnir uppsafnaðan fjölda skjálfta tólf mánuðina á undan: maí 2010 til maí 2011. Hér er Mýrdalsjökull með aðeins um 300 skjálfta, samanborið við tæplega 900 skjálfta frá maí til september á þessu ári. Þessi mynd sýnir vel hvernig dró úr skjálftafjölda undir Eyjafjallajökli um mitt sumar 2010, og hefur mjög lítil skjálftavirkni verið þar síðan.  Katla2010 2011Hins vegar var Goðabunga virkust varðandi skjálfta á þessu 12 mánaða tímabili sem lauk í maí 2011, og hefur Goðabunga haldið að skjálfta með svipaðri tíðni síðan. Það eru auðvitað hallabreytingar á þessum línuritum sem skifta mestu máli: brattari kúrva sýnir aukna tíðni skjálfta, en flöt kúrva sýnir lága eða minnkandi tíðni. Eins og áður, þá geta allir lesendur fylgst með skjálftavirkninni á rauntíma á ágætum vef Veðurstofunnar. Slík vöktun almennings á gangi í jarðskorpunni á rauntíma er hvergi möguleg, nema á Íslandi. Íslendingar geta verið hreyknir af þessari ríkisstofnun og það er mjög ánægjulegt að það sé ekki enn búið að eyða henni með einkavæðingu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband