Bloggfærslur mánaðarins, október 2009
Eldfjöllin í Indónesíu kalla
6.10.2009 | 20:44
Á mánudag 12. oktober flýg ég frá Bandaríkjunum til Indónesíu. Það eru orðnar æði margar ferðir mínar í þetta fjarlæga land síðustu 23 árin, en alltaf bíð ég þess með spenningi að komast til Austur Indía. Íslendingar og flestir vestrænir menn vita nær ekkert um Indónesíu, þótt þetta sé fjórða stærsta þjóð í heimi, með yfir 240 miljón íbúa. Indónesíu má með sönnu kalla eyland, en hér eru 6000 eyjar í byggð, sem þekja um tvær miljónir ferkílómetra á miðbaug. Einnig er athyglisvert að hér búa fleiri múslimar en í nokkru öðru landi jarðar. Við heyrum nær daglega fréttir af eldgosum og jarðskjálftum í Indónesíu, enda er þetta mesta eldfjallaland jarðar og stórir jarðskjálftar eru tíðir. Indónesía markar flekamót, eins og myndin fyrir ofan sýnir. Að sunnan er það Indó-Ástralíuflekinn sem skríður stöðugt til norðurs, á um 9 sm hraða á ári. Hann sígur niður undir meginlandsskorpu Asíuflekans, og markar sigbeltið flekamótin. Hér er röð af eldfjöllum, sem eru eins og perlur á streng, um þrjú þúsund km á lengd. Í vestri er Krakatau, sem er fræg af endemum af gosinu mikla 1883, og í austri er Tambora, fræg af stærsta eldgosi jarðar, árið 1815. Ég hef starfað á báðum þessum vígstöðvum og heimsæki þær nú rétt einusinni í viðbót. Það hefur töluvert verið birt á vefnum varðandi rannsóknir mínar á gosinu mikla í Tambora árið 1815 og hér eru nokkur dæmi:http://www.npr.org/templates/story/story.php?storyId=15448607http://www.uri.edu/news/tambora/http://www.npr.org/templates/transcript/transcript.php?storyId=15448607
Gosið í Tambora árið 1815 er merkilegt á margan hátt. Það er stærsta gosið, en upp kom um eitt hundrað rúmkílómetrar af kviku. Gjóskuflóð og önnur áhrif frá gosinu drápu um 117 þúsund manns í Indónesíu, sem er mesta dauðsfall í einu gosi. Svo mikið efni barst upp í heiðhvolf jarðar að loftslag breyttist um alla jörðina í þrjú ár, eða mikil kólnun. Við gosið fór um 1.5 km af toppnum og ný askja, 9 km í þvermál og um 1400 metra djúp myndaðist. Myndin til vinstri er eftir franska jarðfræðinginn Jean-Claude Tanguy, tekin árið 1989 úr lofti yfir öskjunni á Tambora. Myndin til hægri fyrir ofan er úr gervihneti og sýnir öskjuna. Það var vitað að fjöldi fólks bjó í hlíðum fjallsins, og þar var bær eða þorp með um tíu þúsund manns. Það hvarf algjörlega í gosinu 1815, og enginn komst af. Árið 2004 fann ég þorpið loks aftur, en það er undir um 3 til 4 m af vikri og ösku. Myndin fyrir neðan sýnir störf okkar við uppgröft 2004.
Nú hefur uppgröftur hafist á þessum merku minjum, og munum við halda því áfram í haust með fornleifafræðingum frá Bali.Árið 1883 gaus Krakatau eyja, sem er í sundinu milli eyjanna Súmötru og Jövu. Þetta mikla sprengigos myndaði flóðbylgju sem dreifðist í allar áttir. Þegar bylgjan gekk á land á Jövu í austri þá var hún um 30 metrum hærri en venjuleg sjávarstaða. Alls fórust um 36 þúsund manns í flóðbylgjunni. Nær allt gosefnið frá Krakatau er á hafsbotni og á árunum 1990 til 1992 starfaði ég við rannsóknir á hafsbotninum til að fá betri skilning á þessu merka gosi. Við beittum margskonar tækni, og köfuðum á um 65 stöðum til að kanna hafsbotninn og taka sýni.
Kortin tvö hér til hliðar sýna hafsbotninn fyrir (til vinstri) og eftir gos (til hægri), og hefur landslag hafsbotnsins greinilega breytst mikið við gosið. Þar sem áður var stór eyja, er nú djúp askja á hafsbotni. Krakatau hrundi algjörlega 1883, en nýtt eldfjall, Anak Krakatau, hfur vaxið frá borttni öskjunnar og myndar nú nýja eyju. Anak er mjög virk eins og stendur, og ég hlakka til að fylgjast með nýja gosinu þar.Þessi leiðangur verður um tveir mánuðir, og víða komið við.
Vonandi get ég bloggað öðru hvoru, en ég verð meiri hluta tímans í tjaldbúðum og fjarri netsambandi. Aðalmiðstöð mín í leiðangrinum verður á eynni Bali, þar sem hollenskur vinur minn Rik Stoetman býr með fjölskyldu sinni í þorpinu Ubud. Á Bali eru einnig nokkur eldfjöll, og er Agung frægast þeirra, enda dýrkað mjög af íbúum, sem eru nær allir hindútrúar á Bali. Gosið í Agung árið 1963 var með stærri gosum á sínum tíma.
Vísindi og fræði | Breytt 21.3.2010 kl. 14:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Dr Atl – Eldfjallafræðingur, byltingarsinni og listmálari
6.10.2009 | 14:31
Einn vinur minn á litla málmstungu eftir Rembrandt. Hún er ekki stór, svona eins og eitt blað í bók, en myndin er samt mesti fjársjóður hans. Auðvitað eru málverk eftir Meistarann langt fyrir utan efnahag hans, en alla vega á hann sína Rembrandt mynd, þótt lítil sé. Ég á eina litla mynd sem er líka gömul og gulnuð, og hún er í álíka uppáhaldi hjá mér. Sú mynd er pennateikning eftir Dr Atl eða Gerardo Murillo frá Mexíkó. Myndin, sem er sýnd hér fyrir ofan, er nú í Eldfjallasafni í Stykkishólmi. Hún er frá því þegar Parícutin eldfjall gaus í Mexíkó árið 1943. Mig langar til að segja ykkur frá honum Dr Atl, en hann er meðal merkustu listamanna Mexíkó, og auk þess var hann eldfjallafræðingur!
Mexíkó er land mikilla eldfjalla og landskjálfta, en skorpuhreyfingar þar orsakast af því að Cocos flekinn í Kyrrahafi mjakast til austurs, og sígur undir meginlandsskorpuna í Mexíkó á um 8 sm hraða á ári. Það er því fjöldi virkra eldfjalla í landinu, og sprengigos algeng, en hér verða líka oft sprengingar af öðru tagi, sem sagt af pólítískum uppruna. Dr Atl var sérfræðingur í fremstu röð á báðum þessum sviðum, eldfjallafræðingur og byltingasinni og einnig framúrskarandi málari. Þegar hann fæddist í Guadalajara árið 1875 þá hlaut hann nafnið Gerardo Murillo. Hann var flótt þjóðernissinni og dáði forna menningu innfæddra mexíkana, en hataði allt sem minnti á nýlendustjórn spánverja. Strax í æsku losaði hann sig því við spánska nafnið, og tók að kalla sig Dr Atl, en atl þýðir vatn í Nahuatl, sem er tungumál Aztec indíánanna í Mexíkó. Það var strax ljóst að hann hafði óvenju mikla hæfileika sem listamaður og árið 1896 var hann kominn til náms á Ítalíu. Árið 1904 snéri hann heim til að taka þátt í baráttunni gegn spillta einvaldinum Porfirio Diaz. Á þeim tíma stofnaði hann fyrstu akademíu listamanna í Mexíkó, Centro Artistico. Í akademíunni hélt hann fyrirlestra um listastefnur sem hann hafði fræðst um á Evrópuferð sinni, og hvatti nemendur sína til að fara út í náttúruna og mála, þar á meðal sjálfan Diego Rivera, e meðal annara nemenda hans voru margir fremstu listamenn Mexíkó, svo sem David Alfaro Siqueiros og José Clemente Orozco. En brátt varð Dr Atl að flæmast úr landi vegna stjórnmálaskoðanna sinna árið 1911 og hélt nú aftur til Ítalíu, í þetta sinn til að hefja nám í eldfjallafræði. Á ferðum sínum um heimalandið hafði Dr Atl orðið hugfanginn af eldfjöllunum í Mexíkó og ásetti sér að fræðast nú meir um eðli þeirra. En Ítalía var einmitt vagga eldfjallafræðinnar á þessum tíma. Hér var hann við nám í eldfjallafræði hjá Immannuel Friedlander og Frank A. Perret við háskólann í Napólí. Hann ferðaðist mikið um Evrópu á þessum tíma, hitti Vladimir Lenin, og gaf út blað sósíalista með Benito Mussolini.
Dr Atl var brautryðjandi og hinn sanni frumkvöðull mexíkanskar listar, sem var í senn innfædd og fjarlæg evrópskri hefð og árifum. Hann var ekki aðeins mjög virkur í stjórnmálabaráttunni, til að frelsa þjóð sína frá tengslum við einræðisstjórn og neikvæð áhrif nýlendustjórnarinnar, heldur vann hann að því að skapa nýja og einstaka mexíkanska list. Hann gekk svo langt, að hann bjó til nýja liti sem hentuðu betur litrofi og landslagi heimalandsins. Í fjallgöngum og á ferðum sínum um Mexíkó þótti Dr Atl oft óþjált að fást við venjulegan útbúnað landslagsmálarans, eins og trönur og olíuliti. Til að gera málið einfaldara þá fann hann upp nýja liti, sem hafa verið nefndir Atlcolors. Þeir eru stífir litir, sem hægt er að mála með beint á hvaða efni sem er, og gerðir úr blöndu af vaxi, benzíni, olíulit og kvoðu, en úr varð stykki eða stöng sem málað var með. Langflest verk Dr Atls eru gerð með þessum litum.Dr Atl skipulagði hóp nemenda sinna og annarra ungra listamanna til að hrinda af stað herferð í fjölmiðlum og í veggplakötum í þágu byltingarinnar. Þeir gáfu út tímarit, bæklinga og gerðu veggmálverk, sem deildu hart á einveldið og hvöttu almenning til átaka í þágu byltingarinnar. Skerfur þeirra var mikill við að koma á auknu lýðræði í Mexíkó á fyrri hluta tuttugustu aldarinnar, en vegna mikillar spillingar meðal stjórnmálamanna hefur orðið afturför á þessu sviði hin síðari árin.
Á tímum byltingarinnar, á fyrstu áratugum tuttugustu aldarinnar, má segja að eldgos hafi verið einskonar tákn byltingarinnar, einkum sem tákn stórkostlegra breytinga. Einn byltingarsinna sagði: Ég elska byltinguna eins og ég elska eldgos; ég elska eldfjallið af því að það er eldfjall, og byltinguna af því að hún er bylting!Það gerist öðru hvoru, að eldgos brýst út á auðu landi og nýtt eldfjall rís. Við þekkjum þetta fyrirbæri vel á Íslandi, en einnig eru ný eldfjöll nokkuð tíð í Mexíkó. Það var í febrúar 1943 að nýtt eldfjall varð til í Michoacan fylki í Mexíkó. Það var um fjögur leytið einn daginn að bóndinn Dionisio Pulido var að ljúka að plægja akur sinn, þegar hann tók eftir því að aska og reykur gusu upp úr plógfarinu og gjall fór að safnast fyrir í hrauk umhverfis sprunguna. Næsta dag var gígurinn orðinn 8 metra hár, og 60 m eftir þrjá daga. Síðan tók hraun að renna, en gjallkeilan hækkaði stöðugt þar til gosinu lauk árið 1952 en þá var eldfjallið 424 m á hæð yfir umhverfið. Undir hraunið fóru þorpin Paricutin (733 íbúar) og San Juan Parangaricutiro (1895 manns), og auðvitað allir maísakrarnir hans Dionisio Pulido, en enginn lét lífið. Dr Atl fór strax á staðinn og var mörg ár við Parícutín við rannsóknir og sköpun listaverka. Árangurinn var fjöldi listaverka og merkileg bók eftir hann, sem lýsir sköpun eldfjallsins: Como nace y crece un volcan? sem kom út árið 1950. Hann gerði alls 130 teikningar og 11 málverk af gosinu.
Í bókinni setur Dr Atl fram hugmyndir sínar um uppruna eldgosa. Hann afskrifar úreltar hugmyndir um að hitinn í jörðinni stafi af efnahvörfum milli járns og brennisteins, sem Isaac Newton hafði set fram, eða vegna bruna eldfimar efna í jörðinni. Í staðinn legur hann til að eldvirkni séu leifar af upprunalegum hita jarðar, en við það bætist hiti frá geislavirkum efnum í iðrum jarðar. Hann hlynntist kenningu Alfred Wgeners um landarek og taldi að eldvirkni í Mexíkó væri afleiðing af hreyfingum mikilla skorpufleka. Þannig voru skoðanir hans mjög í stíl við það sem við vitum í dag.Á efri árum, þegar hetjan var orðin slitin og búinn að missa annan fótinn, þá tók Dr Atl upp þá aðferð að mála eldfjöllin sín úr lofti. Hann fékk lánaðar þyrlur hjá mexíkanska olíufélaginu PEMEX og málaði stórkostleg verk þar sem hann sveif yfir eldfjöllunum. Þessa nýjung kallaði hann aeropainting. Hann var kominn svo hátt að sjóndeildarhringurinn er boginn, og eldfjöllin koma fram sem vel aðgreind jarðfræðileg fyrirbæri. Sumar myndirnar voru gerðar að nóttu til og sýna jörðina sem hluta af himingeimnum og sólkerfinu. Um tíma átti Dr Atl í eldheitu ástarsambandi við fögru listakonuna Carmen Mondragon, og gaf henni innfædda nafnið Nahui Olin. Samband þeirra einkenndist af ofsalegum tilfinningum, ofbeldi og dramatískum atburðum, en í lokin kallaði Dr Atl hana græn-eygða snákinn. Dr Atl dó árið 1964. Nemandi hans, frægi málarinn Diego Rivera, sagði að hann hefði verið einn merkasti og sérkennilegasti maður sem fæðst hefði á meginlandi Ameríku.
Vísindi og fræði | Breytt 14.3.2010 kl. 15:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Andy Warhol lætur Vesúvíus gjósa
1.10.2009 | 14:57
Hér fyrir ofan er ein uppáhalds myndin mín í Eldfjallasafni í Stykkishólmi, sem ég keypti í Bandaríkjunum árið 1999. Hún er eftir Andy Warhol, og sýnir Vesúvíus gjósandi. Hér er stutt lýsing á því hvernig myndin varð til. Árið 1985 var haldin sýning á verkum Andy Warhol (1928-1987) í borgini Napólí á Ítalíu, sem hlaut nafnið Sterminator Vesevo eða Ógnvaldurinn Vesúvíus. Napólí er við rætur eldfjallsins fræga.
Andy var þá þegar orðinn heimsfrægur. Hann var listamaðurinn sem tók eitthvað auðkennt og vel þekkt myndrænt efni, eins og miðann utan á súpudós, eða ljósmynd af Marilyn Monroe eða Mao Tse Tung, og vann úr því ógleymanlegt listaverk á einfaldan máta. Þannig urðu mörg verk hans strax hluti af nútímamenningunni og birtust reglulega í fjölmiðlum sem eins konar vörumerki, íkon eða stimplar sem voru æðstu fullrúar Pop Art hreyfingarinnar. Höfuðeinkenni Pop Art hreyfingar Andy Warhols var að taka þekkta mynd úr fjölmiðlum og veita henni nýtt gildi. Í því sambandi er mynd af eldgosi alþekkt fyrirbæri úr fjölmiðlum og Andy vildi notfæra sér það, en þetta var í fyrsta og eina sinn sem hann valdi landslag sem myndefni sitt, og tókst stórkostlega að leysa verkefnið.
Árið 1980 var Andy í Napólí á Ítalíu um tíma og snéri aftur til borgarinnar árið 1985 til að vinna að myndinni af Vesúvíusi. Í viðtali frá þessum tíma segir Andy: eldgos er algjörlega yfirþyrmandi myndefni, sem einstakt og stórkostlegt fyrirbæri sem jafnast á við stórkostlega höggmynd.Árið 1980, þegar Andy var að vinna að Vesúvíusi, varð einmitt mikið sprengigos í Sánkti Helenu eldfjalli í Washington fylki í Bandaríkjunum, og varð Andy tvímælalaust fyrir áhrifum af því mikla gosi. Allir fjölmiðlar voru fullir af myndefni frá Sánkti Helenu og gjóskustrókurinn upp úr fjallinu var ógleymanleg sjón. Ýmsir listamenn brugðu strax við og máluðu ameríska gosið, og þar á meðal Roger Brown (1941-1997) í Chicago, sem nefndi sýna mynd First Continental Eruption, eða Fyrsta meginlandsgosið. Titillinn er mikilvægur, og vísar til þess að ameríkanar voru ekki vanir því að eiga við eldgos svo að segja heima hjá sér, heldur sem eitthvað fjarlægt fyrirbæri langt úti í heimi eða í Hawaii eyjum.
Myndin eftir Roger Brown er sýnd hér til vinstri, en hún er í Art Institute of Chicago.Afköst Andy Warhol í Napólí voru mikil. Hann lauk við sextán málverk og tuttugu og sex silkiþrykk myndir af Vesúvíusi gjósandi, og var hver mynd með mjög sérstakt litaval. Grundvallarmynin er mjög lík í flestum útgáfunum af silkiþrykkinu, þar sem formföst eldkeila Vesúvíusar rís upp yfir rústir gamla eldfjallsins Monte Somma, sem sést lengst til vinstri á myndinni. Við lítum hér til eldfjallsins frá vestri til austurs. Andy sá aldrei gos í Vesúvíusi, þar sem síðasta gosið þar var árið 1944, eins og sýnt er á ljósmyndinni fyrir neðan frá stríðsárunum.
En honum tókst samt sem áður að skapa mjög kraftmikið sprengigos. Hann notaði tímann vel í Napólí og byrjaði á því að skoða mikið af málverkum af eldgosum Vesúvíusar frá sautjándu og átjándu öldinni, sem eru til í hundraða vís á söfnum borgarinnar, og notaði þau sem fyrirmynd af gosinu. Listamaðurinn Martin Creed tók þátt í að setja upp sýningu á verkum Warhols í Napólí og hafði þetta að segja: "Mér datt strax í hug Mozart og Andy Warhol. Þeir eru tveir uppáhaldslistamenn mínir, og mér finnst verk þeirra vera mjög lík. Í verkum þeirra beggja er allt á yfirborðinu. Þau eru stórkostlega grunn, og yfirborðskennd í besta skilningi. Ég gleymi því aldrei þegar ég sá fyrst málverk Andy Warhol af Vesúvíus gjósandi, en mér fannst það fallegt eins og rjómaís. Það var upplyftandi og léttir að dást að því.Það er freistandi að bera mynd Warhol saman við verk annara stórmeistara sem hafa málað Vesúvíus gjósandi. Einn þeirra er sjálfur Joseph Mallord William Turner (1775-1851), en hann gerði gosmynd af Vesúvíusi árið 1817. Myndin, sem er í Yale Center for British Art, er hér fyrir neðan, en hún er ekki ein af bestu myndum Turners. Hún ber samt með sér höfuðeinkenni listamannsins, mikið ljós og birtu. Alveg það sama má einmitt segja um mynd Warhols af eldfjallinu.
Vísindi og fræði | Breytt 14.3.2010 kl. 15:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)