Færsluflokkur: Jarðskjálftar

Hvar eru hin eiginlegu flekamót?

Síðan umbrotin miklu hófust á Reykjanesi hinn 9. nóvember 2023, þá hefur jarðskjálftavirkni verið nokkuð dreift yfir Reykjanesið og því erfitt eða ómögulegt að gera sér grein fyrir hvar hin eiginlegu flekamót eru milli Norður Ameríkuflekans fyrir norðan og Evrasíuflekans fyrir sunnan nesið.  Það er mikilvægt að átta sig á því, vegna þess að sennilega streymir kvikan mest upp úr möttlinum á eða alveg í grennd við flekamótin.  ReykjanesSkjálftar

Ég rakst á þessa mynd í dag á vef ISOR.  Hún er merkileg á ýmsan hátt.  Myndin sýnir gögnin fyrir eitt ár (2020) af skjálftum, sem gerðust fyrir umbrotin miklu í nóvember 2023. Myndin sýnir okkur ansi vel hvar flekamótin raunverulega eru, en þau eru á frekar mjóu og vel afmörkuðu svæði, sem er um 4 til 5 km á breidd. Því miður var engin virkni í austur hluta gosbeltisins þetta árið, svo flekamót eru ekki eins vel þekkt þar. 

Flekamótin liggja ekki eftir nesinu miðju, heldur vel fyrir sunnan miðju Reykjaness. Það er merkileg asymmetría eða misskipting milli norður og suður helmings nessins, sitt hvoru megin við skjálftabeltið. Norður helmingurinn virðist stækka meira, sennilega af dyngjuhraunum.  Renna dyngjuhraun sjaldan eða aldrei til suðurs, spyr ég. Eða er það bara miklu meira rof á sunnanverðu nesinu vegna ríkjandi vindáttar og sjávarrofs.  Það þykir mér líklega skýringin. 

 


Órói í jarðskorpunni

Í dag varð töluverð viðbót á fjölda jarðskjálfta á kerfinu sem kennt er við Svartsengi, og teygir sig niður í Grindavík. Skjálftarnir eru litlir og flestir á 3 til 5 km dýpi. En þetta er breyting, sem er vel þess virði að fylgjast með, t.d.  á https://www.vafri.is/quake/.    Annars virðist flest nú rólegt á yfirborði, en jarðskjálfti af stærð 3.35 undir Henglinum í gær minnir okkur á að flekamótin eftir endilöngu Reykjanesinu hafa vaknað.  Það þarf ekki endilega að þýða eldvirkni, en þessi sjö kerfi sem mynda flekamótin munu halda áfram að skjálfa og rifna. Hvort þau munu gjósa veit enginn. Þessi kerfi eru, frá vestri til austurs, Eldey, Reykjanes, Svartsengi, Fagradalsfjall, Krísuvík, Brennisteinsfjöll og  Hengill.   Fagradalsfjallskerfið er búið að afgreiða sig vel, með þremur hrinum og eldgosum árin 2021, 2022 og 2023.  Óvíst er hvort Svartsengi sé lokið af, en hætt er við að hin kerfin eigi eftir að umbyltast, hvert á fætur öðru næstu árin, þar til þessi miklu flekamót  á milli Norður Ameríkuflekans og Eurasiuflekans er komin í jafnvægi aftur. Litli Hrútur 2023

Þótt alt virðist vera í ró í augnablikinu, þá er ýmislegt að gerast undir niðri, sem vert er að fylgjast með. Það eru fyrst og fremst jarðskjálftar og GPS hreyfingar. Þegar berg brotnar og springur í sundur, þá koma alltaf fram skýr merki á jarðskjálftamælum sem mynda P- og S-bylgjur. Þessar bylgjur eru skarpar á línuritum jarðskjálftamæla og endast stutt, en berast mjög hratt í gegnum bergið, eða um 5 km á sekúndu.  En það er önnur tegund af bylgjum, sem kemur fram á jarðskjálftamælum,  sem nefnist órói.  Oft er rætt um að kvikuhreyfingar í eða undir skorpunni orsaki þennan titring sem kallast órói, og sumir telja að órói geti verið forboði eldgosa.  En órói á jarðskjálftamælum getur einnig myndast vegna veðurofsa, brims við ströndina og jafnvel mikillar umferðar. Melhóll

Rétt sunnan Hagafells er skjálftastöðin Melhóll, sem er um 2 km NA af Grindavík. Fyrri myndin sýnir að óróa gætir nú undir þessari stöð, en það er ekki nýtt, heldur hefur órói eða titringur verið hér síðan 11. nóvember.  Órói er í gangi en ekki eldgos ennþá. En hvað sýna jarðskjálftagögnin þegar eldgos skellur á?  Seinni myndin sýnir gögn um óróa á jarðskjálftastöðinni faf  í grennd við Litla Hrút, rétt austan Fagradalsfjalls.  Hinn 11. júlí 2023 hófst eldgos við Litla Hrút kl. 16.40. Það er ljóst á línuritinu (mynd 2) að það eru fimm toppar af óróa tveimur dögum áður og svo rýkur órói upp um klukkutíma fyrir gos.  Var hægt að nota slík gögn til að spá fyrir um eldgos? Lesandinn getur sjálf dæmt þar um, en ég held ekki.  Það er augljóst að óróinn rýkur upp þegar gýs, en það er ekki grundvöllur fyrir spá um gos.  Samt sem áður held ég að það sé mikilvægt að fylgjast með óróa á jarðskjálftamælum, og beita þeim upplýsingum til að tilkynna aðvörun þegar skorpugliðnun á GPS stöðvum og  jarðskjálftar benda til að eldstöðin sýni merki um kvikuhreyfingar.

 


Skorpuhreyfingar í jörðu og óstjórn á yfirborði

Ég hef nú fylgst nokkuð náið með þeim atburðum sem hafa gerst í jarðskorpunni undir Reykjanesi síðan 9. nóvember, og viðbrögðum stofnana, fræðimanna og sveitafélaga við þeim. Það sem ég hef fyrst og fremst lært af því er að nú er mikil nauðsyn að endurskoða þau mál sem snerta eftirlit, mælingar og uppfræðslu almennings á jarðskorpuhreyfingum og kvikuhreyfingum undir Íslandi.  Ég tel að þessi mál séu nú í ólestri á margan hátt, eins og málið í heild virðist höndlað af Ríkislögreglu-Almannavörnum, Veðurstofunni og Háskóla Íslands.  

Hér eru margar hliðar til að fjalla um. Mér hefur til dæmis aldrei verið ljóst hvers vegna Ríkislögreglustjóri  -  Almannavarnir er höfuðpaurinn í viðbrögðum gegn jarðskorpuhreyfingum og kvikuhreyfingum undir landinu. Þar sýnist ekki fyrir hendi breið sérþekking á þessu sviði jarðvísinda.    Gætir þú ímyndað þér að til dæmis Ameríski herinn stýrði viðbrögðum gegn náttúruhamförum í Bandaríkjunum?  Þar í landi hafa þeir eina vísindastofnun, US Geological Survey, sem setur upp og rekur mælitæki til að fylgjast með jarðskorpunni, miðlar upplýsingum nær samstundis, vinnur í samráði við það bæjarfélag sem getur orðið fyrir barðinu, og það bæjarfélag kallar fram sína lögreglu og starfslið heimafólks til að bregðast við á viðeigandi hátt.  Ég spyr, hvað þarf mikla sérþekkingu til að loka vegum og stýra umferð? Þetta ræður lögreglan alveg við  heima í hverju bæjarfélagi.   Þegar umbrot verða nú, þá koma lögreglusérfræðingar úr Reykjavik og taka völdin, ýta heimamönnum til hliðar. Það eru auðvitað heimamenn sem þekkja svæðið og fólkið og eru færastir um stjórnun.

   Kanar eru ekki endilega góð fyrirmynd, en ég tek þá hér fyrir ofan sem eitt dæmi.   Ég hef kynnst starsháttum í ýmsum löndum á þessu sviði, Kólombíu, Mexíkó, Vestur Indíum, Indónesíu, Kameroun í Afríku og víðar. Þar eru hættir í viðbrögðum við slíkum náttúruhamförum svipaðir og hér er lýst fyrir Ameríku.  

Annað stórt atriði er rannsóknahliðin, sem er uppsetning nets af tækjum sem nema skorpuhreyfingar af ýmsu tagi, GPS tæki, jarðskjálftamæla, borholumæla sem skrá bæði hita og breytingar vatnsborðs og könnun yfirborðs jarðar með gervihnöttum.  Listinn er miklu lengri, en þetta er nú allt framkvæmt á einn eða annan hátt í dag. 

Söfnun gagna er mikilvæg, en hún er gagnminni eða jafnvel gagnslaus ef þessum gögnum er ekki líka dreift strax til almennings. Þar komum við að viðkvæmasta málinu hvað varðar jarðskorpukerfið á Íslandi og eftirlit með því.  Besta dæmið um söfnun og dreifingu vísindagagna á jörðu er starfsemin sem ríkisreknar veðurstofur stunda um allan heim. Síðan 1920 hefur Veðurstofa Íslands stundað slíka starfsemi, með athugunum, mælingum og veðurspám sem eru gefnar út daglega eða oftar. Það er góður rekstur.

En af einhverjum sökum var Veðurstofunni snemma falið að safna einnig jarðskjálftagögnum og skyldum gögnum um hreyfingar á jarðskorpu Íslands.  Þar með var Veðurstofan einnig farin að fylgjast með stormum inni í jörðinni. En þar byrjar vandinn. Jarðeðlisfræðileg gögn hafa ekki verið gerð jafn aðgengileg og ekki dreift á sama hátt og veðurgögnum.  Vefsíður Veðurstofunnar á þessu sviði eru afleitar, illa haldið við, sumt efni er síðan 2008 og hefur ekki verið uppfært síðan og svo mætti lengi telja. Slík gagnastefna þrengir til dæmis þann hóp jarðvísindamanna sem búa yfir þekkingu og túlkun á gögnum. 

Það er ekki ljóst hvað veldur.  Ef þú leitar að GPS gögnum á vefsíðum  Veðurstofunnar, þá rekur  þú þig á tíu ára gömul skilaboð sem bægja þér frá.  Þar segir til dæmis eitthvað í þessa átt.  ´Upplýsingar á þessari síðu eru úreltar. Ný síða er í vinnslu og verður vonandi opnuð fljótlega.´  http://hraun.vedur.is/ja/strain/index.html    Eða þetta:  ´Athugið að ekki er ráðlegt að nota gögnin nema í samráði við starfsmenn jarðeðlissviðs Veðurstofu Íslands.´   http://hraun.vedur.is/ja/gps/data.html    Eða þetta. ´Athugið að aðgengi að ISGPS gögnum hefur verið takmarkað, sjá tilkynningu og leiðbeiningar um aðgengi  http://hraun.vedur.is/ja/gps/data.html. Slík skilaboð hafa verið á vefsíðunni síðan 2008.  Af einhverjum sökum virðist GPS vera olnbogabarn innan Veðurstofunnar.  Aðgangur er greiðastur á vefsíðu sem er gefin út  úti í bæ https://www.vafri.is/quake/.  En GPS gögn Veðurstofunnar eru ekki uppfærð strax, heldur eftir tvo daga. Til allrar hamingju er vefsíða rekin af Háskóla Íslands https://strokkur.raunvis.hi.is/gps/8h og þar eru nær rauntíma gögn. 

Þetta gengur varla lengur með tregan aðgang almennings að GPS gögnum á vef Veðurstofu Íslands. Það er hætta á ferðum, líf, heimili og verðmæti eru í húfi. Flæði vísindagagna þarf að vera opið og greitt. Það er því nauðsynlegt að koma rekstri  á rannsóknum jarðskorpuhreyfinga í réttan farveg strax.  

Hvað bæjaryfirvöld varðar á Íslandi almennt, er nú ljóst að það er þörf á því að endurnýja eða gera nýtt áhættumat sem tekur fyllilega til greina þau jarðfræðigögn sem eru almennt  fyrir hendi. Þar er Grindavík nærtækasta dæmið. Það hefur lengi verið augljóst, fyrst út frá loftmyndum Ameríska hersins frá 1954 og síðan út frá nákvæmum jarðfræðikortum að bærinn er reistur í sprungukerfi og í sigdal. Það kemur fram í Aðalskipulagi Grindavíkur frá 2020 að yfirvöldum var ljóst að spungur liggja undir bænum. Um þetta mál er fjallað til dæmis í Fylgiskjali með Aðalskipulagi Grindavíkur (61 bls.) en hvergi virðist tekið til greina að jarðskorpuhreyfingar gætu hafist á ný. Nú blasir við okkur nýr raunveruleiki.  

 


Hvaða kraftar eru í gangi undir Grindavík?

 

Jörð skelfur en það kemur ekkert gos.

Jarðskjálftar og eldgos. Þessi vofeiflegu fyrirbæri skella öðru hvoru yfir þjóðina og valda miklum ótta, spjöllum og jafnvel dauða. En hvað veldur þessum ósköpum? Flestir landsmenn hafa reið svör þegar rætt er um upptök slíkra hamfara: Ísland er jú staðsett á miðjum Norður Atlantshafshryggnum og auk þess er heitur reitur í möttlinum undir miðju landinu. Þetta er nú nokkuð gott svo langt sem það nær, en hin raunverulega skýring er auðvitað miklu flóknara mál, sem er þó á allra færi að skilja. 

Okkur virðist oft að það blandist allt saman, flekahreyfingar (og jarðskjálftar) annars vegar, og eldgos hins vegar. Að vísu geta þessir þættir verið samtíma, en það er nauðsynlegt að fjalla um hraunkvikumyndun og eldgos sér, og fjalla síðan um jarðskjálfta og sprungumyndun og hreyfingu jarðskorpunnar í öðru lagi. 

Það er oft talað um eldgos og jarðskjálfta (eða flekahreyfingar) í sömu andránni, en það er villandi og reyndar ekki rétt. Þetta eru oft vel aðskilin fyrirbæri og best er að fjalla um þau sér í lagi.  Við skiljum það betur þegar við fjöllum um grunnkraftana í jörðinni, sem stýra flekahreyfingum annars vegar og valda eldgosum hins vegar.  Að mínu áliti eru það flekahreyfingar sem ráða ferðinni og skipta mestu máli, en eldgos er oft passiv afleðing slíkra hreyfinga jarðskorpunnar.  Á Íslandi höfum við fjölda dæma um mikil umbrot í jarðskorpunni, flekahreyfingar og jarðskjálfta, án þess að nokkuð gjósi á yfirborði. 

Kraftar og flekahreyfingar

Jarðvísindin voru á frekar lágu plani þar til eftir seinni heimsstyrjöldina. Það stafaði af því að yfir 70% af yfirborði jarðar var algjörlega ókannaður hafsbotn. Menn byrjuðu loks að kanna hafsbotninn kerfisbundið í seinni heimsstyrjöldinni.  Stórveldin áttuðu sig strax á miklu hernaðarlegu gildi vopnaðra kafbáta, en til að beita kafbátum í hernaði þarft þú að þekkja hafsbotninn.  Bandaríkjamenn ruku til, og settu strax á laggirnar nokkrar hafrannsóknastofnanir til að kortleggja hafsbotninn og kanna öll einkenni allra hafa heimsins.  Allt í einu höfðu vísindamenn við slíkar hafrannsóknastofnanir ný og vel búin skip, og mikið fjármagn til leiðangra um öll heimsins höf. Herinn fékk stöðugan straum af nýjum kortum og öðrum upplýsingum um allan hafsbotninn. Ég þekki þetta vel, þar sem ég hef starfað við slíka stofnun í Rhode Island nú í 50 ár. 

Vísindahópar voru fljótir að færa herjum stórveldanna allar þær helstu upplýsingar sem þurfti til hernaðar í dýpinu.  Það voru fyrst og fremst góð landakort af botni allra heimshafanna.  En þá kom í ljós að hafsbotninn um alla jörðu er ótrúlega flott og merkilegt fyrirbæri, þar sem risastórir úthafshryggir teygja sig eftir botni allra heimshafanna. Hvernig í ósköpunum á að túlka og skilja allar þessu nýju upplýsingar? Á sama tíma var sett upp net af jarðskjálftamælum um allan heim, en netið var fyrst og fremst hannað til að fylgjast með tilraunum sem stórveldin voru að gera með kjarnorkusprengjur í kalda stríðinu. Þarna kom annað dæmi um, hvernig hernaðarbrölt stórvelda getur varpað nýju ljósi á stór vísindavandamál.  Þá kom fljótt í ljós að það er samfellt jarðskjálftabelti sem þræðir sig eftir öllum úthafshryggjum jarðar, og hryggirnir eru allir að gliðna í sundur. 

Framhaldið af þessari sögu er efni í margar bækur, en þessi mikla bylting í skilningi okkar á hegðun jarðar og flekakenningunni er ein mesta sigurför vísindanna.  Hér vil ég aðeins snúa mér að einu mikilvægu atriði, sem snertir Ísland beint, og færir okkur aftur út á Reykjanes. Það er vísindakenningin um þá krafta í jörðu, sem brjóta upp og færa til jarðskorpufleka og valda jarðskjálftum.  Þetta eru kraftarnir sem mynda útlit jarðar og stjórna staðsetningu og dreifingu meginlandanna á heimskringlunni. 

Slab pull -  flekatog.  Árið 1975 uppgötvuðu þeir jarðeðlisfræðingarnir Donald Forsyth og Seiya Uyeda aflið eða kraftinn sem þeir nefndu slab pull, eða flekatog.  Þessi uppgötvun er einn merkasti hornsteinn flekakenningarinnar og jarðvísindanna almennt. Donald er prófessor í jarðeðlisfræði við Brown Háskóla í Rhode Island og við vorum nágrannar og kynntumst vel  eftir að ég var settur prófessor við Rhode Island Háskóla árið 1974.  Lykillinn að flekatoginu er að átta sig á, að allir flekar eru ungir, heitir og léttir í annan endann, en gamlir, kaldir og þungir á hinum endanum. Flekinn myndast á úthafshryggnum, eins og til dæmis á Reykjaneshrygg, þar er hann ungur, heitur og léttur. Með tímanum rekur flekinn frá hryggnum, kólnar og þyngist. Þegar elsti hluti flekans er búinn að reka langt frá hryggnum og orðinn 100 til 140 miljón ára gamall, þá er eðlisþyngd hans orðin jöfn eða jafnvel meiri en eðlisþyngd möttulsins fyrir neðan flekann. Gamli endinn á flekanum byrjar því að sökkva niður í möttulinn fyrir neðan og myndar sigbelti.  Þegar hann sekkur þá togar hann í allan flekann og dregur flekann frá úthafshryggnum, togar í hann eins og blautt teppi togast niður á gólf ofan af stofuborðinu. Þetta er krafturinn sem nefnist slab pull, eða flekatog. Hann stýrist fyrst og fremst af breytingu á eðlisþyngd flekans með tímanum. 

Sumir skorpuflekar eru á fleygiferð í dag og mynda hafsbotn sem hreyfist á 15 til 20 cm hraða á ári. Þetta á við sérstaklega í sambandi við flekana í suður hluta Kyrrahafsins. Forsyth og Uyeda bentu einfaldlega á, að hraði á hreyfingu fleka er í beinu hlutfalli við hvað mikið af flekanum er  tengt við sigbelti.  Slab pull eða flekatog er mikilvægasti krafturinn í flekahreyfingum jarðar.

En bíddu nú við, -  sumir flekar eru ekki tengdir við neitt sigbelti, en eru samt á hreyfingu!  Og það á einmitt við um Ísland. Það eru tveir  stórir jarðskorpuflekar sem mætast undir Islandi. Að austan er það hinn risastóri EvrAsíufleki, en á honum hvílir öll Evrópa, Rússland og öll Asía, Síbería og allt land til Kyrrahafsstrandar. Þessi tröllvaxni fleki virðist vera alveg kyrr og rólegur, enda er hann ekki tengdur neinu sigbelti. Hinn flekinn sem skiptir okkur miklu máli er Norður-Ameríku flekinn. Hann er einnig stór, með allan vestur helming Norður Atlantshafsins, og alla Norður og Mið-Ameríku.  En Norður-Ameríku flekinn er á hægri hreyfingu til vesturs, aðeins um 1 til 2 cm á ári. Hvers vegna er Norður-Ameríku flekinn á hreyfingu yfir leitt?  Reyndar er eitt frekar lítið sigbelti tengt þessum fleka í Vestur Indíum,  en það skýrir alls ekki hreyfingu Norður-Ameríku flekans.  Þetta skiptir okkur miklu máli, vegna þess að öll flekahreyfing á Íslandi er tengd hreyfingu Norður-Ameríku flekans til vesturs.

Jæja, þeir Forsyth og Uyeda koma hér til hjálpar, en þeir sýndu fram á að það er annar mjög  mikilvægur kraftur sem virkar á jörðu og hann er krafturinn sem skiftir okkur mestu máli á Fróni.  

Ridge push - hryggjarþrýstingur.

Úthafshryggirnir, eins og Mið-Atlantshafshryggurinn,  eru fjallgarðar á hafsbotni. Þeir eru ekki brattir, en þeir rísa samt upp 1 til 2 km yfir hafsbotninn umhverfis. Úthafshryggurinn myndast og rís upp  fyrst og fremst vegna þess, að þegar tveir flekar gliðna eða færast í sundur, þá myndast rúm fyrir efri hluta möttuls að mjaka sér upp í bilið. Möttullinn sem rís upp í bilið kemur af meira dýpi í jörðinni og er því heitari en umhverfið. Vegna hitans hefur hann aðeins lægri eðlisþyngd. Þessi fleygur af heitara og léttara efni milli flekanna veldur kraftinum sem nefnist ridge push, eða hryggjarþrýstingur.  Þetta er að öllum líkindum krafturinn sem mjakar Norður Ameríkuflekanum til vesturs, og veldur skorpuhreyfingunum á Reykjanesi.   Takið eftir að krafturinn ridge push eða hryggjarþrýstingur fer í gang vegna þess að heitari og léttari möttull rís upp  milli flekanna, sem ýtast í sundur.  Það er því þyngdarlögmálið sem stýrir þeim krafti.

Ridge push eða hryggjarþrýstingur er krafturinn sem á sökina á öllum hamförunum á Reykjanesi í dag.

 


Hvað skal nýja eyjan heita?

Skorpuhreyfingarnar á Reykjanesi þessa dagana eru meðal merkustu atburða í jarðsögu Íslands. Veðurstofa Íslands hefur unnið frábært verk með því að skrá jarðskorpuhreyfingar og dreifingu jarðskjálfta á Reykjanesinu og koma þeim upplýsingum fram til almennings. Ólíkt fyrri umbrotum á Reykjanesi, sem voru fjærri byggð, þá er miklu meira í húfi í þetta sinn, því skorpuhreyfingarnar og hugsanlegar hreyfingar á hraunkviku og gos geta verið bein ógn við Grindavíkurbæ, virkjunina á Svartsengi og Bláa Lónið. 

Screenshot 2023-11-11 at 6.46.35 AM

 Skorpan sem myndar Reykjanes er að rifna í sundur fyrir augum okkar. Þessar stórbrotnu flekahreyfingar fletta ofan af heita reitnum í möttli jarðar undir Íslandi. Þar er hiti í möttlinum undir sorpunni um 1400oC og þessi svampkenndi möttull er gegnsósa af basaltkviku sem er meir en 1250oC.  Einn sterkasti atburðurinn til þessa varð í gær, þegar löng og mjó röð af jarðskjálftum teiknuðu upp mynd af jarðskorpubroti frá norðaustri til suðvesturs. Fyrstu skjálftarnir voru norðan við, en virknin færðist beint til suðvesturs, beint undir Grindavík og síðan út á haf, eða öllu heldur suður í jarðskorpuna í botni landgrunnsins. 

Einfaldasta túlkunin er sú, að kvikugangur hafi myndast sem klauf jarðskorpuna til suðvesturs, alla leð út á landgrunn. Til allrar hamingju streymdi kvikan innan skorpunnar og hefur ekki enn komið upp á yfirborð. Ef meiri kvika streymir inn í ganginn eru allar líkur á því að hann haldi áfram að vaxa til suðvesturs. Þá er hætt við að gangurinn komi fram á landgrunninu fyrir sunnan höfnina í Grindavík, myndi þar gos á hafsbotni og ef tl vill nýja eldey, ef næg kvika er fyrir hendi.  Þetta gæti þá gerst á 150 til 200 m dýpi, en slíkt gos væri þá af sömu gerð og Surtseyjargos.

Nú er varðskipið Þór statt í Grindavík og upplagt að nýta þau tæki sem þar eru um borð til að kanna hafsbotninn á þessum slóðum.

 

 

 

 

 


Mögnun jarskjálftans í Mexíkó

shakemap-desktop-largeJarðskjálftinn sem skók Mexíkóborg var slæmur, og yfir 270 hafa látist. Skjálftinn var meðalstór, um 7,1, en í um 85 km fjarlægð. Ástæðan fyri miklu tjóni á mönnum og byggingum var samt ekki einfaldlega vegna stærðar skjálftans, heldur vegna ástæðna jarðlaga undir borginni. Þegar Spánverjar komu árið 1521 hét borgin Tenochtitlan, höfuðborg Axtecaþjóðarinnar. En Tenochtitlan var staðsett á eyjum og umhverfis stórt stöðuvatn; Texcoco. Eftir komu Spánverja var hafist handa við að ræsa fram og fylla upp í vatnið. Nú stendur því borgin að miklu leyti á allt að 100 m þykku leirkenndu vatnsseti og lausum vatnssósa sandi.   Þegar jarðskjálftabylgjur berast í setið undir borginni, þá hægja þær á sér frá um 2 km á sekúndu, niður í um 50 m á sek. Um leið magnast og hækka bylgjurnar (amplitude) og valda meiri skaða. Myndin sýnir útlínur gamla stöðuvatnsins og svæðið þar sem mögnunin á skjálftum gerist. Mögnunin nemur um hundrað sinnum.  Staðsetning borgarinnar getur því varla verið verri, og mun alltaf vald vandamálum.


Var búið að múlbinda Ítalska skjálftafræðinga?

hinirseku.jpgHvað segja Ítalskir jarðvísindamenn um stóra skjálftann, sem nýlega reið yfir borgina Amatrice? Mig grunar að þeir segi ekki neitt af ótta við að verða dregnir fyrir dómarann. Skýringin er sú, að ítalskir jarðvísindamenn voru múlbundnir í réttarhöldum varðandi jarðskjálftann í L’Aquila árið 2009.

Hinn 6. apríl árið 2009 reið stór jarðskjálfti, af stærðinni 6,3 yfir fornu borgina L’Aquila á Ítalíu. Um 300 manns fórust. Nokkrum mánuðum áður fór að bera á tíðum smáskjálftum undir borginni. Almenningur varð órór, einkum eftir að amatör skjálftafræðingur spáði því að stór skjálfti væri yfirvofandi. Hans spádómur var byggður á vaxandi útstreymi af radon gasi úr jörðu, og sennilega var það rétt hjá honum. Hinn 31. mars 2009 hélt nefnd sérfræðinga opinn fund, til að fara yfir gögn frá jarðskjálftamælum á svæðinu og til að veita yfirvöldum góð ráð. Á fundi með fjölmiðlum á eftir, þar sem jarðvísindamennirnir Franco Barberi og Bernardo De Bernardinis mættu, lýstu þeir því yfir að það væru engar líkur á stórum skjálfta. De Bernardinis lýsti því einnig yfir að vísindamenn telji að það sé engin hætta vegna þess, að nú eru öflin í jarðskorpunni að eyðast í smáskjálftum. Þannig gerðu vísindamenn lítið úr hættunni, til að róa fólkið og til að eyða spádómum um stóra skjálftann. Af þessum sökum kusu flestir íbúar L’Aquila að vera um kyrrt innanhúss, í það þess að fara út á götu, eins og þau voru vön í jarðskjálfta. Þess vegna dó svo mikill fjöldi íbúa í húsum sínum í jarðskjálftanum einni viku eftir að vísindanefndin hafði fundað.

Réttarhöld voru haldin yfir vísindamönnunum sjö, og allir voru þeir sekir fundnir um manndráp í október árið 2012, eftir þrettán mánaða réttarhöld, sem dáleiddu vísindasamfélagið um heim allan. Myndin sýnir þá félagana sjö.


Skjálftakortið af Ítalíu

kort_1290786.jpgHér er gott kort af skjálftasvæðinu á Ítalíu, um 100 km fyrir norðaustan höfuðborgina Róm. Staðsetning stóru skjálftanna árin 1997 (Annifo, stærð 6,1 á Richter), 2009 (L'Aquila 6,3) og 2016 (Amatrice, 6,2) er sýnd með rauðum blettum. Aðrir minni skjálftar með gulum og brúnum merkjum. Allir skjálftarnir raða sér upp á línu, sem markar stefnu misgengja í jarðskorpunni efitr endilöngum hrygg Appennine fjallgarðsins. Þá er þessi hluti misgengjanna búinn að rifna. Næst rifnar skorpan væntanlega fyrir norðvestan eða suðaustan þessa svæðis. Skjálftin var á um 10 km dýpi, en slíkir grunnir skjálftar valda oftast meira tjóni.


Í óstjórnuðu landi hrynja húsin

amatrice.jpgÞorpin Amatrice, Accumoli og Pescara del Tronto eru rústir einar og 247 eru látnir af völdum jarðskjálftans. En hvað er framundan? Eitt stærsta vandamál Ítalíu er, að lögum og reglum er ekki fylgt. Það er til dæmis búið að koma á mjög góðum reglum á ítalíu varðandi það að reisa húsbyggingar með tilliti til tíðra jarðskjálfta og einnig veitt mikið fé til að styrkja hin mörgu og fögru eldri hús landsins. En ekkert er gert, reglum ekki fylgt og menn yppa bara öxlum, með stæl. Peningarnir hverfa í vasa spilltra stjórnmálamanna eða verktaka tengdum mafíunni.

Af þeim sökum er hver einasti jarðskjálfti einn nýr harmleikur, sem ekkert er lært af. Og um leið hverfur af sögusviðinu merkileg forn byggð og dýrmætar minjar um forna frægð. Milljónir efra höfðu til dæmis verið veittar til að styrkja og verja sjúkrahúsið í Amatrice gegn jarðskjálfaskemmdum, en ekkert var gert og peningarnir horfnir. Nú er sjúkrahúsið rústir einar. Forna borgin Aquila er enn í rústum eftir jarðskjálftann árið 2009 (6,3 af stærð) og ekkert aðhafst þátt fyrir milljóna fjárveitingar. Spilling, skipulagðar glæpahreyfingar, ríkið og Páfagarður: þetta er ótrúleg blanda, sem kemur engu í framkvæmd nema illa fengnum auð í fáa einkavasa.   Ég syrgi hina fögru Ítalíu, en ber um leið takmarkaða virðingu fyrir fólkinu, sem reynir ekki að hrista af sér þetta gjörspillta pólitíska kerfi. Myndin er frá Amatrice þorpi úr lofti.

 

 


Hvað veldur jarðskjálftanum á Ítalíu?

untitled_1290765.jpgJarðskorpa Ítalíu er eins og krumpað dagblað, sem er illa troðið inn um póstlúguna heima hjá þér. Hér hefur mikið gengið á, og jarðhræringar munu halda áfram, en höfuð orsökin er fyrst og fremst tengd hreyfingu Afríkuflekans miðað við Evrópu. Nú mjakast Afríkuflekinn stöðugt norður um 4 til 5 mm á ári og heldur áfram að þrengja og loka Miðjarðarhafinu. Ein afleiðing þessa skorpuhreyfinga eru jarðskjálftar, eins og jarsðkjálfti af stærðinni 6,2 í vikunni í grennd við bæinn Norcia og Amatrice. Þetta er reyndar ekki mjög stór skjálfti, miðað við það sem við venjumst í Kyrrahafi, en flest hús á Ítalíu eru illa byggð múrsteinshús, án jarnbindinga og hrynja því við minnsta tilfelli.

            Flókin flekamót liggja eftir skaga Ítalíu endilöngum og mynda Appenine fjöll. Þessi flekamót eru eins og risastór saumur á jarðskorpunni, en hér stangast flekarnir á og skerast í mörgum misgengjum. Myndin sýnir þversnið af Ítalíu, frá norðaustri til suðvesturs. Það er gamall og þykkur fleki, um 100 km þykkur, sem sígur til suðvesturs undir Ítalíu og myndar fjallgarðinn. En fyrir vestan er þynnri skorpa, aðeins um 20 til 30 km þykk, sem einkennir Tyrrenahafið. Á mótunum verða mörg snið misgengi, eins og það sem er nú virkt, með mikilli skjálftavirkni.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband