Bloggfærslur mánaðarins, júní 2011

Loftslag á Miðöldum

SólvirkniÁrið 1965 birti breski loftslagsfræðingurinn Hubert Lamb merkar niðurstöður varðandi loftslagsbreytingar á miðöldum. Miðaldir er tímabilið frá um 500 til 1500 e. Kr. Hann taldi að loftslag hefði verið mun mildara á norðurhveli jarðar allan fyrri hluta miðalda, allt fram að um 1300.   Þessi niðurstaða var styrkt af rannsóknum  LaMarche árið 1974 á trjáhringjum í Norður Ameríku.   Íslandssagan fræðir okkur um loftslag á Íslandi á Miðöldum og styrkir skoðun Huberts Lamb.  Þegar forfeður vorir sigldu frá Noregi og Bretlandseyjum á níundu öld, og héldu áfram til Gænlands og alla leið til Vínlands Norður Ameríku, þá var loftslag tiltölulega milt og sennilega jafnvel mildara veðurfar en nú ríkir.  En svo fór kólnandi, siglingarleiðir til Vínlands og Grænlands spiltust vegna hafíss.  Þannig tók tímabilið sem nefnt hefur verið Litla Ísöldin  (Little Ice Age, LIA) við af hlýskeiði Miðalda.  Hitaferill ískjarnaNú tala loftslagsfræðingar um hlýskeiðið sem Medieval Climate Anomaly, eða MCA, og það náði yfir miklu stærra svæði en Norður Atlantshaf, einnig Norður og Suður Ameríku.   Fyrsta myndin sýnir inngeislun sólar til jarðar.  Þar kemur fram, að inngeislun minnkar töluvert þegar hlýskeiðinu MCA lýkur, og þegar Litla Ísöldin LIA hefst, í kringum árið 1230 eða svo.  Það er mæling á geislavirkum efnum í ískjörnum frá heimskautunum, sem gefa slíkar upplýsingar um inngeislun sólar í gegnum aldirnar.  Efnið Beryllíum-10 er eitt af þeim, en samsætur eða ísótópar af þessu efni myndast þegar að geimgeislar splundra köfnunarefnisatómum í lofthjúpi jarðar. Getur það verið, að sveiflur í virkni sólar séu þetta miklar, og hafi slík djúptæk áhrif?  Spennandi verkefni til að fylgjast með í framtíðinni.  Önnur myndin sýnir sveiflur í meðalhita á Grænlandi, samkvæmt mælingum á ískjörnum sem hafa verið teknir úr Grænlandsjökli.  Frávik frá meðalhita er mjög jákvætt alveg fram undir árið 1200, og sýna þessi gögn vel hlýskeiðið á Miðöldum, eða MCA.  Þá fer kólnandi, eins og Íslandssagan segir okkur, með Litlu Ísöldina LIA á fimmtándu og sextándu öldinni.  Þessar loftslagssveiflur eru raunverulegar, hafa mjög víðtæk áhrif, en orsakirnar eru ekki enn ljósar.  Svo virðist sem sveiflur í virkni sólarinnar geti vel verið orsökin. 

 


Keilugangar í Setbergseldstöð

SetbergseldstöðinÉg hef fjallað um keiluganga hér fyrir ofan, en hér vil ég gefa frekari upplýsingar um dreifingu þeirra í Setbergseldstöðinni á Snæfellsnesi, fyrir þá sem hafa áhuga á að skoða þessi merkilegu fyrirbæri sjálfir.  Fyrri myndin er lauslegt jarðfræðikort af eldstöðinni.  Litlu strikin eru keilugangar í berggrunni Setbergseldstöðvarinnar.  Strikið sýnir stefnu keilugangsins, en litla hakið sýnir þá hlið sem hallar niður. Það kemur strax í ljós, að þeir mynda hringlaga þyrpingu í kringum eldstöðina, með þvermál um 10 km.  En ef að er gáð, þá kemur í ljós að það er önnur þyrping eða hringlaga myndun af keilugöngum sunnar, og ná þeir yfir fjallgarðinn og suður í Staðarsveit. Þar eru einnig innskot af djúpbergi, gabbró og granófyr, sem fylgja sömu hringlaga myndun.  Hér eru rætur af annari eldstöð, sem ég kallaði  Setberg II.  Hún er aðeins yngri en nyrðri Setbergseldstöðin. Gabbróið og keilugangana má skoða í Þorgeirsfellshyrnu, og granófýrinn er í Lýsuskarði.  Sennilega hefur granofýrinn gefið skarðinu þetta nafn.  Granófýr er ljósleitt berg og gefur skarðinu hinn ljósgráa lit.

Þeir sem kunna að hafa áhuga á að skoða keiluganga er bent á strandlengjuna í botni Grundarfjarðar.  Ég mæli með því að ganga í fjörunni (sætið sjávarföllum) frá Grund og fyrir neðan Hamra.  Þar eru ágætar opnur í nær samfellda þyrpingu af keilugöngum, bæði af þykkum keilugöngum úr líparíti, og þynnri basalt keilugöngum.  Þar sést einnig mjög vel hvað blágrýtismyndunin, gömlu basalt hraunlögin, er mikið ummynduð af háhita hér.  Steindir sem finnast hér í blágrýtismynduninni, á milli keiluganganna, eru meðal annars laumontít (hvítir og frekar mjúkir eða jafnvel loðnir kristallar), og einnig epídót (fallega grænir kristallar) og að lokum granat (smáir og rauðleitir kristallar).  Þessar steindir benda til þess, að hér hafi verið um 400oC hiti í jarðskorpunni, eða virkt og kraftmikið háhitasvæði.  Síðari myndin er hluti af jarðfræðikortinu sem ég birti 1966 af svæðinu.Jarðfræðikort Setberg


Keilugangar


Keilugangur SetbergseldstöðFyrsta vísindagrein sem ég birti fjallaði um forna eldstöð á norðanverðu Snæfellsnesi, sem ég kenndi við prestssetrið Setberg.  Þar rakst ég fyrst á keiluganga. Greinin kom út í riti Vísindafélags Íslands árið 1966, en þetta var lungað úr BSc ritgerð minni við Queens University í Belfast á Norður Írlandi.   Þar birti ég fyrstu athuganir á Íslandi varðandi fyrirbærið sem ég nefndi keiluganga.   Þegar ég byrjaði að kanna jarðfræði Eyrarsveitar á norðanverðu Snæfellsnesi, þá rak ég strax augun í jarðlög, sem voru eins og berggangar, en höfðu um 20 til 30 gráðu halla, eins og fyrsta mynd sýnir.  Þeir eru frá einum og upp í tugi metra á þykkt. Sumir voru úr líparíti en flestir úr basalti, og nokkrir voru andesít að gerð.  Það kom fljótt í ljós að þessir hallandi gangar mynduðu samfelldan hring umhverfis Setbergseldstöðina, sem var um 10 km í þvermál. Sumsstaðar  voru keilugangarnir svo þéttir að þar var eiginlega ekkert annað berg að finna, en annarsstaðar finnast þunn lög af ummyndaðri blágrýtismyndun milli ganganna.  Hringlaga myndun ganganna sýndi að ég var hér að fást við fyrirbærið sem jarðfræðingar nefna “cone sheets”.  Þeir eru einkum þekktir í rótum fornra eldfjalla á Bretlandseyjum, og ég þýddi jarðfræðiheitið  “cone sheets” sem keiluganga.  Það var greinilegt að keilugangarnir voru hér í rótum eða undirstöðum Setbergseldstöðvarinnar, sem var virk fyrir um 5 til 10 milljón árum.  Rætur eldfjallsins eru nú sjáanlegar og þar á meðal er gabbróið í Kolgrafamúla.  Hringlaga myndun keiluganganna var furðu regluleg, eins og jarðfræðikortið sýnir, og mér var ljóst að hér var vísbending um mjög stór öfl að verki  undir eldfjallinu.  Þetta afl hafði brotið jarðskorpuna eftir keilulaga sprungum, og var broddur keilunnar djúpt undir. Hertz-keila í hrafntinnu

Hér kemur þýzki eðlisfræðingurinn Heinrich Rudolf Hertz (1857 – 1894) til sögunnar.  Eins og Mótzart, þá dó þessi snillingur aðeins 36 ára að aldri, en afkastaði miklu á stuttri æfi.  Hann er þekktastur fyrir að sanna bylgjuhegðun rafgeislunar, og er vísindaheitið fyrir tíðni bylgja nefnt í höfuðið á honum.  En Hertz var einnig brautryðjandi í faginu sem nefnist contact mechanics, og  uppgötvaði að þegar lítilli kúlu er þrýst á sléttan flöt, þá myndast keilubrot í efninu sem þrýst er á. Þannig myndast Hertz-keilur.  Hér er mynd af einni slíkri keilu, sem hefur myndast við að slá hrafntinnu með hamri.  Myndast keilugangar á svipaðan hátt?  Getur það verið að mikill kvikuþrýstingur undir eldfjallinu, til dæmis efst í kvikuþrónni, valdi þeim þrýstingi sem orsakar keilubrot í jarðskorpunni fyrir ofan. Þá streymir kvika upp keilusprunguna, og storknar þar, og myndar þar með keilugang.  Ég tók eftir því, að keilugangar sem eru nær miðju eldstöðvarinnar hafa meiri halla, og er keilan þar þrengri, en fjarlægustu keilugangarnir hafa miklu minni halla og nálgast það að vera láréttir. Hertz-brot

Það er spennusvið í jarðskorpunni, sem stjórnar hegðun sprungu í bergi. Við erum vanir því víðast hvar á Íslandi, að jarðskorpan sé að gliðna undir fótum okkar, vegna landreks.  Þá myndast gjár og sprungur, sem kvikan leitar upp um og myndar lóðrétta bergganga.  En sum gosbelti Íslands, einkum þau sem eru á jaðri eða utan aðal gosbeltanna, eru ekki endilega í spennusviði sem einkennist af gliðnun.  Ég held að það eigi til dæmis við um Snæfellsjökul í dag, og sennilega einnig um Eyjafjallajökul. Það var mikið rætt um lárétta lagganga undir Eyjafjallajökli þegar kvika var þar á hreyfingu í fyrra. Ég hef þá skoðun að hér hafi einmitt keilugangar verið að myndast í skorpunni undir Eyjafjallajökli.  Þar er gliðnun af völdum landreks ekki teljanleg, en hár þrýstingur kvikunnar getur hins vegar leitt til myndunar á Hertz-keilubrotum, og leitar þá kvikan inn í slíkar sprungur í jarðskorpunni og storknar sem keilugangar. 

Tilvitnun: Sigurdsson, H., l966.  Geology of the Setberg area, Snaefellsnes, Western Iceland. Greinar  IV, 2. Vis. Isl. Reykjavik, 53-l25.

 

 

 


Fyrsta myndin af loftsteininum á leið til jarðar í dag

 Loftsteinn 2011 MDÁstralski stjörnuáhugamaðurinn Peter Lake  tók í gær fyrstu myndina af loftseininum 2011 MD, sem er á hraðferð til jarðar.  Hann verður næst jörðu í dag, og þá í um 12 þúsund km fjarlægð.  Myndin var tekin í gegnum stjörnusjónauka í Nýju Mexíkó, og var ljósop opið í 120 sekúndur. Af þeim sökum birtist loftsteinninn sem strik á myndinni. 

Andy Warhol og íslenski skurðlæknirinn

hsandwarhol_1093740.jpgMyndin af eldgosi í Vesúvíusi eftir Andy Warhol (1928-1987) vekur alltaf mikla og verðskuldaða athygli í Eldfjallasafni í Stykkishólmi, enda var Andy einn af frægustu listamönnum heims. Hann var að vísu umdeildur, en það eru allir sammála um, að hann innleiddi alveg nýja stefnu lista í hinn vestræna heim.  Á myndinni hér til hliðar er ég búinn að bregða mér í gerfi Andy Warhol: svarta leðurjakkann, og stend fyrir framan eldgosið hans. Aðeins tveimur árum eftir að þessi mynd var gerð var Andy Warhol allur.  Hann lést eftir uppskurð hinn 21. febrúar árið 1987 í New York Hospital, einum þekktasta spítala stórborgarinnar. Andy hafði verði með miklar kvalir í nokkra daga, og strax og hann lagðist inn var hann skorinn upp.  Gallablaðran var mikið bólgin og stífluð og var hún fjarlægð.  Skurðlæknirinn sem framkvæmdi uppskurðinn var dr. Björn Þorbjarnarson, Íslendingur sem er einn helsti sérfræðingur heims í slíkum uppskurði, og prófessor við Cornell Háskóla. WarholAndy var á skurðborðinu í þrjá og hálfan tíma. Síðan var hann þrjá tíma í sérgæzlu og þá næst í einkasjúkrastofu.  Hann var vakandi, horfði á sjónvarp og hringdi í vini sína. Klukkan 4 að morgni næsta dag, 22. febrúar, var blóðþrýstingur hans eðlilegur.  En klukkan 5:45 um morguninn dofnaði púlsinn og litarháttur hans varð bláleitur.  Einkahjúkrunarkona hans hringdi strax á aðstoð og læknar reyndu að koma honum til lífs aftur í meir en 45 mínútur.  Hann var talinn látinn kl. 6:21 um morguninn.

 

Ættingjar Andy Wahol fóru strax í mál við New York Hospital og lækna hans. Lögfræðingar ættingjanna héldu því fram fyrir réttinum í desember 1991, að Andy hefði látist sökum vanrækslu, og einkum að hann hefði fengið alltof mikið af vökvum inn í líkamann.   Hins vegar lýsti krufningarlæknir því yfir að Wahol hefði látist vegna hjartaáfalls, sem væri ekkert tengt uppskurðinum eða meðferð hans á sjúkrahúsinu.  Tuttugu dögum síðar, á aðfangadag 24. desember árið 1991,  lýstu lögfræðingar ættingja Andys og lögfræðingar New York Hospital því yfir að þeir hefðu komist að samkomulagi og var málið nú látið niður falla.  Sjúkrahúsið greiddi ættingjum og erfingjum Warhols ákveðna summu, en peningaupphæðin var ekki gefin upp.  Ættingjar voru ´very happy´og talsmenn New York Hospital lýstu því yfir að niðurstaðan væri ´fair and equitable.´   Saksóknari New York lýsti því einnig yfir að ekkert benti til þess að um glæpsamlegt athæfi væri að ræða varðandi dauða listamannsins og málið var þá látið niður falla.  Að lokum skal þess getið, að hinn vinsæli rithöfundur, aktivisti og náttúruunnandi, Andri Snær Magnason, er dóttursonur Björns Þorbjarnarsonar, skurðlæknis Andy Warhol. 

Loftsteinn á leiðinni til jarðar!

Braut loftsteinsins 2011 MDSíðastliðinn miðvikudag, hinn 22. júní 2011,  var uppgötvað að það er loftsteinn á hraðferð til jarðar.  Þetta er loftsteinninn 2011 MD.  Fyrsta myndin sýnir braut loftsteinsins 2011 MD, og nálægð hans við jörðu.  Hann er um 10 metrar í þvermál, og mun koma næst jörðu á mánudag, 27. júní, en þá verður loftsteinninn í aðeins 12 þúsund km fjarlægð. Hann er á braut sem er næstum því alveg eins og braut jarðar, og veldur það nokkrum áhyggjum, en hins vegar er loftsteinninn svo lítill, að hann mundi brenna upp í lofthjúp jarðar og ekki valda teljandi árekstri.  Hins vegar má benda á, að hann mun fara fyrir INNAN  brautir allra þeirra GPS gervihnatta sem svífa umhverfis jörðu, og gæti hugsanlega rekist á eða truflað GPS kerfið. Það eru enn engar myndir til af loftsteininum 2011 MD, en ég læt fylgja hér með mynd af smástirninu 25143 Itokawa, sem er 600 x 200 m á stærð.  ItokawaHlutir sem svífa um í geimnum og eru 50 m og minni eru oftast nefndir loftsteinar, en smástirni ef þeir eru stærri.  Fylgist með smástirnum og loftsteinum nærri jörðu hér á vefnum:  http://www.jpl.nasa.gov/asteroidwatch/download.cfm

Fíkn í betelhnetur, mannætur og Rockefeller


Tygur betelhneturÉg var á ferð á eynni Flores í Indónesíu árið 2010 og keypti þá fallegan dúk af þessari vingjarnlegu konu á förnum vegi.  Það fór ekki á milli mála, að konan er háð þeirri fíkn, sem tengd er við betelhnetur og er mjög algeng víða í frumstæðari löndum Suðaustur Asíu, einkum í Nýju Gíneu og í Indónesíu. Betelhnetufíkn felst í því að safna hnetum af plöntunni Areca, skera hnetuna í sneiðar, strá yfir um það bil einni tekseið af brenndu kalki, og vefja síðan í lítinn böggul í laufblaði af betelplöntunni, sem er síðan tugginn duglega.  Brennda kalkið veldur efnahvörfum, sem mynda blóðrauðan lit á munnvatni, og litar hann þá strax varir og góma eldrauða.  Í Nýju Gíneu ganga margir karlemnn dagsdaglega með litla tösku sem er ofin úr pálmalaufblöðum og er hún ómissandi fyrir betelhnetufíkla. Litla taskanÍ töskunni er glerkrukka með hvítu brenndu kalki, nokkrar hnetur af Aracia, búnt af grænum laufblöðum af beteljurtinni, og hnífur til að skera hneturnar. Það er alltaf greinilegt hverjir eru fiklar í betlehnetur:  eldrauður munnurinn og varir og flestar tennur eyddar niður í góm eða dottnar út.  Þið getið rétt ímyndað ykkur áhrifin af því að setja brennt kalk í munninn.  Tuggunni fylgir vellíðan, og verður betelhnetan fljótt leiður en mjög ódýr ávani, sem veldur ýmsum slæmum kvillum, þar á meðal krabbameini í munni.  Nú er því þannig háttað að fólk á þessum svæðum hitabeltisins er bæði munnstórt og með fremur þykkar varir, og blasir rauði liturinn og miklar skemmdir strax við. Þessu fylgja miklar spýtingar af blóðrauðu munnvatni.  Í sumum þorpum er nær hver einasti íbúi með beteltuggu í munni, og unglingar byrja snemma á þessum óþvera.  Ég verð því að játa að ég á mjög erfitt með að horfa framan í fólk sem tyggur betelhnetur.  Og það er einmitt þá sem ég minnist óþægilega á sögusagnir um mannætur á þessum slóðum.

          Michael Rockefeller 1961  Það er því miður staðreynd að frumbyggjar Nýju Gíneu hafa stundað mannát til skamms tíma.  Mest er þetta gert í hefndarskyni í tengslum við erjur eða stríð sem háð eru milli ættbálka landsins.  En stundum hafa Evrópumenn orðið þeim að bráð.   Michael Rockefeller  (1938-1961)  var yngsti sonur Nelsons Rockefeller, sem var einn af fremstu stjórnmálamönnum Bandaríkjanna á tuttugustu öldinni og Nelson var jafnframt ættarhöfðingi einnar ríkustu fjölskyldu landsins.  Sonurinn Michael fékk snemma áhuga á mannfræði og fór í leiðangra langt inn í frumskóga Nýju Gíneu til að kanna líf og hætti frumbyggja þar.  Árið 1961 hvarf hann á dularfullan hátt og strax fóru að myndast sögusagnir um endalok hans, einkum orðrómur um að hann hefði orðið mannætum að bráð.  Í bók sinni frá 1979 segir Paul Toohey þá sögu að móðir Michaels Rockefeller hafi sent rannsóknaleiðangur til Nýju  Gíneu í leit að syninum.   Sagan segir að leiðangursstjórinn hafi skift á utanborðsmótor og þremur hauskúpum, en þær áttu allar að vera af hvítum mönnum sem höfðu verið drepnir – og étnir.  Ein þeirra átti að vera hauskúpa Rockefellers,  en móðirin mun hafa greitt $250 þúsund fyrir leiðangurinn. 

Kvikuþróin undir Rabaul

Tvö gos samtímisEins og fyrsta myndin sýnir, þá gjósa jafnan tvö eldfjöll í einu í eldstöðinni Rabaul í Nýju Gíneu.  Til vinstri er Vulcan gígurinn árið 1994, gjósandi ljósgrárri ösku, og til hægri er Tavurvur gígurinn, sem oftast gýs dálítið dekkri ösku.  Þannig var það árið 1878, svo aftur 1937 og nú síðast árið 1994.  Það er engin eldstöð á jörðu sem haga sér svona, og Rabaul er með þessu að minna okkur á, að hér undir er ein stærsta kvikuþró jarðar.  Þegar ég fór að kanna Rabaul eldstöðina í Nýju Gíneu, þá kom í ljós að íslenskur jarðeðlisfræðingur, Ólafur Guðmundsson,  hafði gert merkar mælingar sem sýna stærð og lögun kvikuþróarinnar undir eldstöðinni, ásamt samstarfsmönnum sínum frá Ástralíu.  Kvikuþróin er greinileg á um 3 til 5 km dýpi undir allri öskjunni. Þversniðið hér til hliðar sýnir kvikuþrónna og tengsl hennar við gígana tvo árið 1994: Vulcan fyrir vestan og Tavurvur fyrir austan.  Þá fór gjóskustróurinn úr Vulcan í 20 km hæð, og Tavurvur gjóskan í um 6 km.  KvikuþróinSennilega er meiri hluti kvikuþróarinnar fylltur af dasítkviku, sem er um 60% kísill að efnasamsetningu.  En einnig hefur komið í ljós, að miklu heitari basalt kvika streymir inn í þróna frá austri, og kemur hún upp beint undir Tavurvur gígnum.  Þegar basalt og dasítkvika blandast, þá er hætta á að gos fari af stað, eins og við Steve Sparks sýndum fram á fyrsti manna í sambandi við Öskjugosið 1875.  

Hvað er kvikuþróin stór? Gosin sem orðið hafa í Rabaul á tuttugustu öldinni bera upp á yfirborðið minna en einn rúmkílómeter af kviku í hverju gosi. En fyrir 1400 árum, í kringum árið 550 e.Kr., varð stórgos, sem myndaði mikil gjóskuflóð. Það er talið, að þá hafi um ellefu rúmkílómetrar af dasít kviku gosið. Fyrir um 3500 árum varð svipað stórgos.  Hvað er langt í næsta stórgos? Það hefur verið áætlað að kvikuþróin innihaldi um 32 rúmkílómetra af kviku nú, á aðeins um 3 km dýpi.  En þótt mikill órói hafi verið í öskjunni síðan 1994, er samt ekkert sérstakt sem bendir til þess að stórgos sé nú í vændum.  Yfirvöld í Papaua Nýju Gíneu reka eldfjallastöð í Rabaul, og starfa þar fimm jarðvísindamenn, en hún var stofnuð árið 1937.  En þeir bera ábyrgð á eftirliti með öllum virkum eldfjöllum landsins (um 60 að tölu), og hafa því miður mjög takmarkaðan fjárhag til sinna starfa.  Það er frekar dapurlegt að koma í eldfjallastöðina í Rabaul og sjá hvað þeir eiga við stórt vandamál að stríða.  Þeir eru meir en fimmtíu árum á eftir tímanum, en okkur ber að minnast þess, að landið og íbúarnir í Nýju Gíneu komu út úr Steinöldinni fyrir aðeins rúmlega einni öld. 

Kvikuþróin undir Rabaul minnir okkur á þá staðreynd, að meiri hluti kviku í jörðinni nær aldrei upp á yfirborðið.  Að nokkru leyti er þetta því að kenna að kvikan er stundum eðlisþyngri en jarðskorpan umhverfis, og auk þess þarf kvikan að brjóta sér farveg í gegnum sterk berglög til að komast upp á yfirborð.  Þótt nokkur hluti kvikunnar komist upp, ef til vill ein þriðji eða svo, þá storknar meiri hlutinn inni í jarðskorpunni sem djúpberg, gabbró, díórít  eða granít.  En kvikuþrær og djúpbergið sem storknar í þeim inniheldur að sjálfsögðu mikinn forða af hitaorku.  Þannig geta kvikuþrær orðið ein af stóru orkulindum jarðar – ef við kunnum að fara rétt með þær.  Hitaorkan í kvikuþró eins og þeirri sem liggur undir Rabaul er án efa hundruðir þúsunda MW.  Beinar mælingar hafa ekki verið gerðar, en við getum tekið sem dæmi hitann sem streymir stöðugt upp úr kvikuþrónni undir Grímsvötnum.  Helgi Björnsson og Magnús Tumi Guðmundsson hafa sýnt fram á að varmatapið í Grímsvötnum sé að meðaltali um 2000 MW, og oft yfir 5000 MW. Þá eru eldgosin ekki talin með.  Hvernig er hægt að fanga hitann sem felst í stórum kvikuþróm eins og Rabaul?  Verður ef til vill hægt að ná hitanum úr þrónni, og kristalla eða frysta hana um leið, til að draga úr hættu á stórum sprengigosum?  Þetta eru mjög spennandi og stórkostleg verkefni fyrir framtíðina. 

Eldfjallalist frá Nýju Gíneu

Tavurvur gýsÉg ferðast varla svo inn á eldfjallasvæði, að ég rekist ekki á nýtt listaverk fyrir Eldfjallasafn í Stykkishólmi. Svo var einnig í ferð minni til Nýju Gíneu og til Rabaul eldstöðvarinnar í maí árið 2011.  Ég var við athuganir út á auðninni milli gíganna Tavurvur og Rabalanakaia, þegar ég hitti nokkra krakka sem voru að selja ýmsa muni.  Ungi ljóshærði kaupmaðurinn seldi mér málverk eftir föður sinn Mika.  Myndin sýnir gos í Tavurvur gígnum, en af einhverjum ástæðum er Mika sérlega hrifinn af hvítum fjallabílum og bætir þeim oft inn á myndir sínar.  Þeir búa á eynni Matupit, inni í miðri Rabaul öskjunni. Reyndar er hún ekki lengur eyja, heldur hefur hún lyftst upp um 17 metra vegna jarðhræringa og er nú komið þurrt land á milli Matupit og meginlandsins.  Eyjan heldur áfram að rísa dag frá degi um nokkra millimetra.  

Málverkasali í RabaulAnnars var ég nokkuð undrandi á því hvað það er mikið af ljóshærðum börnum og einnig ungum ljóshærðum konum í Nýju Gíneu.  Ég fékk þrjár skýringar á þessu fyrirbæri:  (a) þau þvo sér um hárið með peroxíð, (b) það er svo lítið ferskt vatn að fá á Matupit að þau fara í bað í sjónum á hverjum degi og það lýsir hárlitinn, (c) ljóshærðir Ástralir hafa farið hér um í mörg ár og skilið eftir erfðaefni sitt meðal innfæddra.  Ég veit ekki hvað er líklegasta skýringin, og ef til vill eru allar virkar. 

 


Þegar borgin Rabaul fór í eyði

Rabaul fyrir 1994 Öðru hvoru hafa eldgos afgerandi áhrif fyrir byggð.  Árið 79 e.Kr. grófust borgirnar Pompei og Herkúlaneum undir vikri og ösku frá Vesúvíusi á Ítalíu. Á Bronzöld hvarf borgin Akrotiri á eynni Santorini undir marga metra af ösku.  Síðasta gosið sem eyddi borg, eða meiri hluta borgarinnar, var árið 1994 í Papua Nýju Gíneu, þegar tveir gígar gusu samtímis í Rabaul öskjunni.  Borgin var stofnuð af Þjóðverjum árið 1884, þegar þeir tóku land í Nýju Gíneu fyrir nýlendu þá sem þeir nefndu Kaiser-Wilhelmsland. Þjóðverjar voru mjög seinir að ná sér í nýlendur, og þá var allt besta landið komið í hendur annara ríkja, einkum Breta, Frakka og Portúgala.  Þeir urðu því á láta sér nægja mjög fjarlæg og erfið landssvæði eins og Nýju Gíneu. Þeir hófu námurekstur og ráku stórar plantekrur í hinni nýju nýlendu.  En Þjóðverjum var strax ljóst að besta höfnin í nýlendunni var einmitt í Rabaul öskjunni, og reistu því höfuðstöðvar sínar hér.  Hér byggðu þeir vel skipulagða og vandaða borg, sem tók sig vel út í flóanum innan í öskjunni. Borgin var prýdd glæsilegum breiðgötum, þar sem hávaxin tré veittu vegfarendum kærkominn skugga frá hitabeltissólinni.  Þannig varð Rabaul höfuðborg yfir stóru landsvæði, sem er meir en fjórum sinnum stærra en Ísland að flatarmáli og með um sjö milljón íbúa í dag.  Þjóðverjar áttuðu sig fljótt á því að Rabaul er mikil eldstöð, en tvö mikil gos höfðu orðið samtímis í Vulcan og Tavurvur gígunum á öskjubrúninni nokkrum árum áður en Þjóðverjar komu í land, eða árið 1878.  Í því gosi reis upp ný eldeyja á öskjubrúninni, sem Þjóðverjar nefndu Vulcan. Rabaul eftir 1994

            Strax í upphafi fyrri heimsstyrjaldarinnar réðust Ástralir inn í Kaiser-Wilhelmsland, og í stríðslok ráku þeir Þjóðverjana á brott, eftir mikið mannfall.  Þá tók við landsstjórn Ástrala fram að síðari heimsstyrjöldinni.  Í fyrstu gekk allt vel, en svo skullu hörmungarnar yfir á nýjan leik. Árið 1937 hófust tvö eldgos samtímis, bæði í Tavurvur og í Vulcan gígnum. Gosin árið 1937 voru mjög skaðleg, og 507 manns fórust í þorpum umhvefis Vulcan gíginn.  Öskufall var gífurlegt í borginni, en hreinsun öskunnar var langt kominn þegar næstu ósköpin dundu yfir.  Þegar  Japanir hófu þátttöku í seinni heimsstyrjöldinni, þá var þeim ljóst að þeir þyrftu að ná yfirráðum í Rabaul, bestu höfninni í suður hluta Kyrrahafsins. Þeir gerðu því innrás árið 1941 og tóku Nýju Gíneu af Áströlum.  Bandamenn voru mjög gramir yfir þessum óförum, og nú hófust stanzlausar loftárásir Bandarískra herflugvéla, sem vörpuðu miklu ógrynni af sprengjum á borgina.  Brátt var Rabaul orðin  eins og eyðimörk eftir sprengjuárasirnar, en Japanir grófu á meðan mikinn fjölda af jarðgöngum inn í fjöllin umhverfis, og komu sér fyrir neðan jarðar til að forðast sprengjurnar úr lofti.  Enn í dag má jafnvel sjá kafbátabyrgi, sem eru inni í löngum göngum frá sjó.  Eyðileggingin af völdum loftárása var algjör þegar stríðinu lauk árið 1945.  Ástralir tóku við stjórn enn á ný, þar til nýja lýðveldið Papua Nýja Gínea var stofnað árið 1975.  Rabaul reis af grunni aftur, og blómstraði fljótt í borg með meir en tuttugu þúsund íbúa.  Fyrsta myndin hér fyrir ofan er tekin úr lofti og sýnir hvernig borin teygði sig umhvergis norður og austur hluta öskjunnar.   Höfnin var ómissandi, einkum fyrir útflutning á kókoshnetuolíu og öðrum verðmætum frá plantekrum landsins.  Öskufall

            Í september árið 1994 byrja báðir gígarnir, Vulcan og Tavurvur, aftur að gjósa samtímis.  Ríkjandi vindátt bar öskuna beint yfir borgina. Innan skamms var komið eins meters þykkt öskulag yfir allan austur og suður hluta borgarinnar, þök féllu undan þunganum og hús hrundu.  Neðri myndin sýnir eyðileggingu af völdum öskufallsins. Nær allar byggingar voru yfirgefnar og íbúarnir streymdu á brott.  Alls lögðu 50 þúsund manns á flótta frá hættusvæðinu.  Þeir settust að í nýrri borg fyrir sunnan öskjuna: Kokopo.  Eina byggingin sem enn stóð er Rabaul Hotel, en eigandinn Susie McGrade neitar að gefast upp og heldur rekstri hótelsins áfram í gangi, úti í miðri auðninni.  Framtíðin er ekki sérlega björt fyrir Rabaul, en höfnin góða er enn mjög mikilvæg og reyndar ómissandi fyrir þennan hluta Nýju Gíneu. 

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband