Fíkn í betelhnetur, mannætur og Rockefeller


Tygur betelhneturÉg var á ferð á eynni Flores í Indónesíu árið 2010 og keypti þá fallegan dúk af þessari vingjarnlegu konu á förnum vegi.  Það fór ekki á milli mála, að konan er háð þeirri fíkn, sem tengd er við betelhnetur og er mjög algeng víða í frumstæðari löndum Suðaustur Asíu, einkum í Nýju Gíneu og í Indónesíu. Betelhnetufíkn felst í því að safna hnetum af plöntunni Areca, skera hnetuna í sneiðar, strá yfir um það bil einni tekseið af brenndu kalki, og vefja síðan í lítinn böggul í laufblaði af betelplöntunni, sem er síðan tugginn duglega.  Brennda kalkið veldur efnahvörfum, sem mynda blóðrauðan lit á munnvatni, og litar hann þá strax varir og góma eldrauða.  Í Nýju Gíneu ganga margir karlemnn dagsdaglega með litla tösku sem er ofin úr pálmalaufblöðum og er hún ómissandi fyrir betelhnetufíkla. Litla taskanÍ töskunni er glerkrukka með hvítu brenndu kalki, nokkrar hnetur af Aracia, búnt af grænum laufblöðum af beteljurtinni, og hnífur til að skera hneturnar. Það er alltaf greinilegt hverjir eru fiklar í betlehnetur:  eldrauður munnurinn og varir og flestar tennur eyddar niður í góm eða dottnar út.  Þið getið rétt ímyndað ykkur áhrifin af því að setja brennt kalk í munninn.  Tuggunni fylgir vellíðan, og verður betelhnetan fljótt leiður en mjög ódýr ávani, sem veldur ýmsum slæmum kvillum, þar á meðal krabbameini í munni.  Nú er því þannig háttað að fólk á þessum svæðum hitabeltisins er bæði munnstórt og með fremur þykkar varir, og blasir rauði liturinn og miklar skemmdir strax við. Þessu fylgja miklar spýtingar af blóðrauðu munnvatni.  Í sumum þorpum er nær hver einasti íbúi með beteltuggu í munni, og unglingar byrja snemma á þessum óþvera.  Ég verð því að játa að ég á mjög erfitt með að horfa framan í fólk sem tyggur betelhnetur.  Og það er einmitt þá sem ég minnist óþægilega á sögusagnir um mannætur á þessum slóðum.

          Michael Rockefeller 1961  Það er því miður staðreynd að frumbyggjar Nýju Gíneu hafa stundað mannát til skamms tíma.  Mest er þetta gert í hefndarskyni í tengslum við erjur eða stríð sem háð eru milli ættbálka landsins.  En stundum hafa Evrópumenn orðið þeim að bráð.   Michael Rockefeller  (1938-1961)  var yngsti sonur Nelsons Rockefeller, sem var einn af fremstu stjórnmálamönnum Bandaríkjanna á tuttugustu öldinni og Nelson var jafnframt ættarhöfðingi einnar ríkustu fjölskyldu landsins.  Sonurinn Michael fékk snemma áhuga á mannfræði og fór í leiðangra langt inn í frumskóga Nýju Gíneu til að kanna líf og hætti frumbyggja þar.  Árið 1961 hvarf hann á dularfullan hátt og strax fóru að myndast sögusagnir um endalok hans, einkum orðrómur um að hann hefði orðið mannætum að bráð.  Í bók sinni frá 1979 segir Paul Toohey þá sögu að móðir Michaels Rockefeller hafi sent rannsóknaleiðangur til Nýju  Gíneu í leit að syninum.   Sagan segir að leiðangursstjórinn hafi skift á utanborðsmótor og þremur hauskúpum, en þær áttu allar að vera af hvítum mönnum sem höfðu verið drepnir – og étnir.  Ein þeirra átti að vera hauskúpa Rockefellers,  en móðirin mun hafa greitt $250 þúsund fyrir leiðangurinn. 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er greinilegt að neysla ávanabindandi efna er ekki bara bundin við vesturlöndiin, þvert á móti og má til viðbótar við þessar hnetur nefna cocalauf sem tuggin eru.

Hrafnhildur (IP-tala skráð) 23.6.2011 kl. 22:03

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Takk fyrir skemmtilega sögu

Gunnar Th. Gunnarsson, 24.6.2011 kl. 18:43

3 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Ég hef kynnst fólki í Ekvador og Kolumbíu sem tyggur cocalauf.  Það er þrifalegt ávanaefni, gefur mikinn kraft til líkamans þegar mikið reynir á hátt í Andesfjöllunum, og hefur ekki neinar sérlega hvimleiðar aukaverkanir.

Haraldur Sigurðsson, 25.6.2011 kl. 07:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband