Bloggfærslur mánaðarins, október 2015

Tuttugu ár af stórskjálftum

skja_769_lftar.jpgMyndin sýnir hvar stórskjálftar (stærri en 7.0) hafa orðið á jörðu undanfarin tuttugu ár (1995 til 2015). Nýjasti skjálftinn af þeiri stærð var sá sem reið yfir Afghanistan nú hinn 26. október (svarti hringurinn), með upptök á um 200 km dýpi undir Hindu Kush fjöllum. Þessi dreifing stórskjálfta sem myndin sýnir segir okkur magt merkilegt. Í fyrsta lagi eru nær allir skjálftarnir á mótum hinna stóru fimmtán jarðskorpufleka, sem þekja jörðina. Í öðru lagi eru nær allir stórskjálftarnir á mótum þeirrar tegundar flekamóta sem við köllum sigbelti. Það eru flekamót, þar sem einn flekinn sígur niður í möttulinn undir annan fleka og við núning milli flekanna koma skjálftar fram. Slík sigbelti eru einkum algeng allt umhverfis Kyrrahafið. Takið einnig eftir, að aðeins örfáir stórskjálftar myndast á úthafshryggjum eða þeirri tegund af flekamótum, þar sem gliðnun á sér stað. Til allrar hamingju fyrir okkur, sem búum á slíkum flekamótum á Íslandi.


Norðaustur leiðin er að verða vinsæl

image-535557-galleryv9-pmps.jpgMikið hefur verið fjallað um norðvestur leiðina, þ.e.a.s. siglingarleiðina milli Norður Atlantshafs og Kyrrahafs, sem liggur milli Grænlands og Kanada. Þessi leið verður sífellt greiðfærari, þar sem hafísþekjan á norðurslóðum minnkar ár frá ári. En það er norðaustur leiðin, sem er ekki síður athyglisverð og kann að verða mikilvægari í framtíðinni, fjarri Íslandi. Hún er sýnd á fyrstu myndinni, en sú sigling þræðir um Íshafið austanvert, meðfram norður ströndum Noregs, Rússlands og Síberíu, og inn í Kyrrahafið. Siglingin frá Hamborg til Shanghai um norðaustur leiðina styttist til dæmis um 6 þúsund km, miðað við hina hefðbundnu syðri siglingu um Súez skurðinn.  Árið 2014 fóru 53 skip þessa leið, en á sama tíma sigldu 17 þúsund skip venjulegu syðri leiðina, í gegnum Súez skurðinn. En umferðin um norðaustur leiðina vex ár frá ári síðan hún var fyrst farin árið 2010 (fjögur skip), eins og önnur mynd sýnir. nor_austurlei_in.jpgEn nú hefur olíuverð lækkað og sparnaðurinn við að sigla norðaustur leiðina þá ekki jafn mikill. Framtíðin er því óljós í þessu máli. En eitt er sérstaklega athyglisvert: allt bendir til að umferð skipa um norðaustur leiðina muni í framtíðinni verða án viðkomu í höfnum á leiðinni; non-stop traffic. Það sama mun gerast í norðaustur leiðinni: Ísland er og verður aldrei mikilvæg millilending á slíkum siglingum, þrátt fyrir bollaleggingar sumra sveitarfelaga hér á landi.


Er baráttan á móti hnattrænni hlýnun töpuð?

naomi_klein2_1271973.jpgAllt bendir nú til að hnattræn hlýnun stefni á hækkun á meðal hitastigi á jörðu um allt að 4oC á næstu árum. Nær allir vísindamenn gera sér grein fyrir þessu og átta sig á að hér eru að gerast miklar hamfarir, sem munu hafa mjög djúptæk áhrif á allt líf og efnahag á jörðu. Losun á koldíoxíði út í andrúmsloftið, vegna bruna á olíu og kolum, er höfuðorsökin. Þetta er að gerast þrátt fyrir heila röð af alþjóðafundum í nafni Sameinuðu Þjóðanna, fyrst árið 1992 í Ríó, síðan í 1997 í Kyoto, árið 2009 í Kaupmannahöfn, árið 2012 í Doha, og næst í París nú í desember 2015. Reynslan sýnir að Sameinuðu Þjóðirnar eru máttlaus og tannlaus félagsskapur, sem hefur litlu orkað á þessu sviði sem öðrum. Bjartsýnin um slíka alþjóðastofnun var að vonum mikil eftir heimsstyrjaldirnar á tuttugustu öldinni, en ekki var sú bjartsýni verðskulduð.  Hersveitir Sameinuðu Þjóðanna hafa til dæmis ekki hleypt af einu einasta skoti á móti hryðjuverkamönnum, en á meðan hafa hermenn SÞ, með skrautlegu bláu hjálmana, verið sekir um nauðgun kvenna í ríkjum Afríku og að hafa flutt inn kólerufaraldur inn til Haítí. Ýmis rök hafa verið færð fyrir því að samþykktir innan alþjóðastofnana á við SÞ muni bera lítinn eða engann árangur í baráttunni við hnattræna hlýnun. Er þetta orðin vonlaus barátta?

Kanadíski rithöfundurinn Naomi Klein hefur fært málið í nýjan búning í bók sinni This Changes Everything: Capitalism vs The Climate (2014) . Hún heldur því fram, að baráttan á móti hnattrænni hlýnun sé vonlaus innan banda auðvaldsskipulagsins eða Kapítalismans, sem nú stjórnar nær öllum helstu efnahagskerfum jarðar. Aðeins pólítísk bylting á heimsmælikvarða getur breytt þessu ástandi, að hennar mati. Sósíalistar, jafnréttisinnar og aðrar vinstri hreyfingar þurfi að ná völdum, til að takast í sameiningu á við stóra vandamálið um hnattræna hlýnun. En slík skrif, eins og koma fram hjá Naomi Klein, eru nú að sjálfsögðu litin hornauga af hinni fámennu en valdamiklu sérstétt eiginhagsmuna, sem nú stýra bæði efnahag þjóða, pólitískum öflum og ekki síst nær öllum fjölmiðlum.

 

 


Þegar eldfjallaeyjar hrynja

1_18485.jpgLítið á þennan stóra stein. Er þetta ekki Grettistak? Nei, það passar ekki, þar sem hann er að finna á Grænhöfðaeyjum, á eynni Santiago, sem er í miðju Atlantshafi, rétt norðan við miðbaug. Grettistök eru flutt af kröftum skriðjökla, en hér í Grænhöfðaeyjum hefur ísöld aldrei verið við völd. Þessi steinn var færður hingað, upp í um 270 metra hæð yfir sjó, af flóðbylgju eða tsunami, fyrir um 73 þúsund árum. Flóðbylgjan myndaðist þegar tindur og austurhlíð eldfjallseyjunnar Fogo hrundi.  Eldeyjan Fogo í Grænhöfðaeyjum er eitt af hæstu eldfjöllum í Atlantshafi, um 2829 m yfir sjó. fogo.pngEn Fogo var áður fyrr mun stærri og einnig miklu hærri. Önnur mynd er af Fogo í dag. Þar sést mikill hringlaga dalur í toppnum og austur hlíð eldeyjarinnar. Hér hrundi fjallið fyrir 73 þúsund árum og risavaxin skriða féll til austurs, í hafið. Við það myndaðist flóðbylgjan, sem flutti stór björg hátt upp á stendur eyjanna fyrir austan, eins og fyrsta mynd sínir. Það eru mörg tilfelli um að háar eldeyjar hafi hrunið á þennan hátt í jarðsögunni, bæði á Kanríeyjum, Hawaíi og víðar. Enda er það eðli eldfjalla að hlaðast upp og ná mikilli hæð. Þá verða þau óstöðug með tilliti til aðdráttarafls jarðar og hrynja í hafið. Þriðja myndin sýnir líkan af útbreislu flóðbylgjunnar. Slíkar tsunami era flóðbylgjur ferðast með ótrúlegum hraða um heimshöfin, en hraðinn er í beinu hlutfalli við dýpi hafsins. Þannig fer flóðbylgja á um 500 km á klst. Ef dýpið er um 2000 metrar. Ef dýpið er um 4000 metrar, þá er hraðinn allt að 700 km á klst. Þessi flóðbylgja hefur borist til Íslands fyrir 73 þúsund árum á um 5 klukkutímum. En á þeim tíma ríkti ísöld á Fróni og hafið umhverfis landið þakið hafís. cape-verde-fogo-volcano.jpgFlóðbylgjan hefur brotið upp og hrannað upp hafís á ströndinni og ef til vill gengið á land. En vegna áhrifa skriðjökla á ísöldinni eru öll vegsummerki um flóðbylgjuna horfin. Hafa Íslensk eldfjöll eða eldeyjar hrunið á þennan hátt? Mér er ekki kunnugt um það. Aftur er það ísöldin, rofið og áhrif jökla, sem halda Íslenskum eldfjöllum í skefjum og koma í veg fyrir að þau verði nægilega há til að mynda risastór skriðuföll og stórflóð.

 


Stærsti stormurinn

patricia.jpg

 

Fellibylurinn Patricia er rétt í þessu að skella á vesturströnd Mexikó. Hann er sá stærsti sem mælst hefur, með allt að 300 km á klst. (allt að 90 m á sek.) vind og einnig lægsta loftþrýsting sem mælst hefur. Fylgist með storminum á þessari frábæru vefsíðu, sem sýnir vindinn í rauntíma:

http://earth.nullschool.net/#current/wind/surface/level/orthographic=-104.69,18.92,3000

Vísindamenn eru agndofa yfir þessum ósköpum. Skýringin fyrir hinum mikla styrk er tengd því hvað Kyrrahafið er heitt í dag. Nú er í gangi El Nino, en orkan í fellibylnum kemur úr hita hafsins. Oftast rótar fellibylurinn upp heita yfirborðssjónum og lendir í kaldari sjó undir. Þá dettur krafturinn niður. En nú er dýpri sjórinn einnig mjög heitur, vegna El Nino. Að minnsta kosti 8 milljón manns eru á hættusvæðinu og tjón verður gífurlegt í Mexíkó.


Verður 2015 heitast?

2015heitast.jpgMyndin sýnir meðalhita á jörðinni í hverjum mánuði fyrir fimm heitustu árin til þessa og einnig hitann það sem af er árinu 2015. Við höfum hvert hitametið á fætur öðru, en allt bendir til að árið 2015 slái öll met. Það er svo miklu heitara en fyrri ár, að það vekur töluverðan ótta um áframhaldið.  Takið eftir að hitinn er sýndur í Fahrenheit gráðum.


Kólnar Norður Atlantshafið?

kolnun_1270969.jpgÁrið 1987 birti Bandaríski vísindamaðurinn Wally Broecker fræga grein í ritinu Nature, sem ber nafnið “Unpleasant surprises in the greenhouse?”  Hann benti á að ein afleiðing af hnattrænni hlýnun gæti verið staðbundin kólnun á Norður Atlantshafi vegna veikari Golfstraums. Síðan greinin birtist fyrir 28 árum hafa stöðugt komið fram meiri upplýsingar sem styrkja kenningu Broeckers. Við félagar fjölluðum um þetta í sambandi við umhverfi Íslands í ítarlegri skýrslu til forsætisráðherrra árið 2006 (ESSI) og sýndum fram á þá að miklar breytingar eru að gerast á hitafari jafnvel djúpsjávar norðan og vestan Íslands. Einnig hef ég fjallað um breytingar í hafinu hér: http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1283642/

Kenningin er sú, að hnattræn hlýnun geti hægt á Golfstraumnum og valdið staðbun dinni kólnun hér í norðri. Margir telja að hringrás hafstraumanna sé þegar byrjuð. Í þessu smabandi við ég benda á mynd, sem fylgir hér með. noaa.jpg Stefan Rahmsdorf og félagar hafa nú í ár tekið saman öll gögn sem varða hitafar á yfirborði sjávar í Norður Atlantshafi, eins og myndin sýnir. Þetta er fyrir tímabilið frá 1900 til 2013. Takið eftir bláa blettinum í hafinu rétt sunnan Íslands og Grænlands. Hann sýnir kólnun á þessu svæði sem nemur um háfri til einni gráðu á öld. Þetta svæði er mjög vel kannað og mælingar traustar, ólíkt og blái bletturinn í miðri Afríku, þar sem gögn vantar.   Blái bletturinn kemur einnig vel fram í nýjum gögnum sem NOAA hefur tekið saman fyrir tímabilið desember 2014 til febrúar 2015, sýnt á annari myndinni. Þar kemur í ljós að kólnunin á þessu svæði er einstök á heimsmælikvarða.   Blái bletturinn eða kólnunin í Norður Atlantshafi er einmitt það sem líkön hafa spáð fyrir um, þegar Golfstraumurinn hægir á sér. Sérfræðingar kalla þennan straum AMOC (Atlantic meridional overturning circulation) eða hringrás Atlantshafsins.  Sérfræðingar hafa spáð að það muni draga úr hringrásinni á milli 12 til 54% fyrir árið 2100. Rahmsdorf og félagar hafa notað ýmis gögn (ískjarna, trjáhringi ofl.) til að sýna hvernig hiti í Norður Atlantshafi sunnan Grænlands og Íslands hefur verið undanfarin eitt þúsund ár, eins og sýnt er á mynd númer þrjú. Myndin sýnir mismuninn á hita í bláa blettinum, og hita á yfirborði alls Norður Atlantshafs. trend.jpg Kónunin í bláa blettinum sunnan Grænlands of Íslands síðan um 1975 kemur hér vel fram og að hún fer vaxandi.   Hverjar verða afleiðingarnar af þessum breytingum fyrir Ísland, miðin okkar, veðurfar? Enginn veit, og lítið eða ekkert fjallað um málið hér á landi.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband