Færsluflokkur: Hagur

Harmleikurinn í Norður Kóreu

KoreaÞegar við fylgjumst með fáránlegum samskiftum Trumps og Kim Jong-il, þá gleymum við því oft að það er venjulegt fólk sem býr í Norður Kóreu og þessi almenningur ber miklar þjáningar. Samanburðurinn á milli þjóðanna í dag gefur merkilega innsýn í áhrif tveggja mismunandi stjórnkerfa. Landinu var skipt í tvennt árið 1948 og síðan hafa tvær þjóðir þróast hver á sinn hátt, undir einræðisstjórn annars vegar og lýðveldi hins vegar. Áhrifin á efnahag hafa verið sláandi. Línuritið sýnir verga þjóðarframleiðslu í löndunum tveimur, í US$.  Þróunin var svipuð allt til 1973 en síðan hefur hagur í Norður Kóreu staðið í stað eða versnað. Þeir í suðri hafa á mean byggt upp þjóð, sem er einn af stærstu útflytjendum á iðnaðar- og tæknivörum á jörðu. Á meðan Suður Kórea flytur út Samsung and Hyundai, þá eru kol nær eina útflutningsvara Norður Kóreu. En það er annað sem hefur mikil áhrif á afkomu í Norður Kóreu: hervæðing. Þótt Norður Kórea sé númer 52 í heiminum hvað snertir fólksfjölda, þá eru þeir númer fjögur í heiminum hvað varðar stærð hersins. Um fjórðungur af allri vergri þjóðarframleiðslu fer í herbúnað, og nær hver einasti maður hefur hlotið einhverja herþjálfun.


Er OK að nota útrunnin lyf?

pillurSumir spyrja sig af hverju lyf renni út. Ástæðan er að lyf hafa síðasta söludag, rétt eins og matvara. Sum virk efni lyfjanna eru óstöðug og þau geta misst virkni sína með tíma og óæskileg niðurbrotsefni geta einnig myndast. Lyf eru einnig mismunandi hvarfgjörn en niðurbrot getur verið vegna oxunar, ljóss eða raka.
Endingartími lyfja er misjafn og hann er einnig háður geymsluaðferð: það er best að geyma lyf á köldum, þurrum og dimmum stað (kæliskápur er góður, en ekki má rugla lyfjum saman við matvæli). Útrunnin lyf eru skilgreind þannig: síðasti neysludagur sem gefinn er upp á umbúðum lyfja er sá tími sem framleiðandi lyfsins ábyrgist 100% virkni. Sá tími er oftast gefinn sem 2 til 3 ár. Í Bandaríkjunum er talið að útrunnum lyfjum sé kastað, með verðmæti sem nemur $765 milljarðar á ári hverju, sem er fjórði hluti af allri sjúkrasamlagsstrafsemi landsins.

Nú telja margir að útrunnin lyf sé mýta, trú eða skoðun sem hefur ekki við góð rök að styðjast, mýta sem lyfjaframleiðendur koma fram með til að fá fók til að kasta lyfjum og kaupa ný. Það er margt sem bendir til að lyfjaframleiðendur séu að plata okkur.

Tökum dæmi frá Kaliforníu. Stór kassi fullur af gömlum lyfjum (sum voru eldri en jafnvel tunglfarið árið 1969) fannst í geymslu í lyfjaverslun í Kaliforníu nýlega. Flest eða öll lyfin voru meir en 30 til 40 ára gömul og því löngu útrunnin samkvæmt reglum lyfsala. Tveir lyfjafræðingar tóku kassann og byrjuðu mælingar á efnainnihaldi lyfjanna. Það voru 14 tegundir lyfja í kassanum. Efnagreinigar sýndu að 12 af 14 voru í fínu ástandi og jafngóð og ný lyf. Aðeins tvö reyndust hafa misst eitthvað af lækningakraftinum.

Ég er ekki beint að hvetja fólk til að taka inn útrunnin lyf (þótt ég geri slíkt sjálfur), heldur að benda á að það þarf að fylgjast mun betur með lyfjaframleiðendum og endurskoða aðferðir þeirra við að setja tímamörk á útrunnin lyf. Læknasamtök í Bandaríkjunum (AMA) hafa gert sér grein fyrir því að mörg útrunnin lyf eru ágæt og þafa því reynt að fá FDA, bandarísku lyfjastofnunina, til að breyta reglunum. Ekkert hefur enn gerst í því máli, en hreyfing er nú að vakna.


Dollarinn ríkir enn í Ekvador

GN! 2017Ríki Suður Ameríku hafa mörg verið að mjakast til hægri í stjórnmálum (t.d. Brazilía, Perú, Argentína), en undantekningin er litla ríkið (13 milljón) Ekvador, sem er að mestum hluta í Andesfjöllum.   Það eru yfirleitt góðar fréttir nú frá Ekvador, enda ríkir þar gott lýðræði. Mikið hefur dregið úr fátækt í landinu og framlag til menntunar er hæst í rómönsku Ameríku. Rafael Correa var kosinn forseti Ekvador árið 2007 og hefur verið við völd í tíu ár. Nú tekur við ný vinstristjórn, sennilega með svipaða stefnu, með Lenin Moreno í fararbroddi. En að sumu leyti voru hendur Correa bundnar þegar hann tók við völdum, vegna þess að landið tók upp amerískan dollar sem gjaldmiðil árið 2000 og lagði niður gömlu myntina sucre, sem hefur reynst þeim jafn illa og krónan íslendingum. Hann gat ekkert fiktað við gengið til að stýra efnahagsmálum, gengisfellingar voru útilokaðar og nokkuð óvenjulegt efnahagsástand tók því við, sem ríkir enn. Eitt af nýjum lögum landsins er að bankar verði að koma aftur heim til Ekvador með 80% af eignum sínum. Með þessu og öðrum aðgerðum tókst að ná miklu magni af dollurtum aftur heim, sem kom sér vel í kreppunni árin 2008 og 2009. Ekki bætti úr skák að olíuverð á heimsmarkaði féll mikið en Ekvador framleiðir mikið magn af olíu frá lindum undir Amazonskóginum. Það hjálpaði sjálfsagt til að Correa er með doktorsgráðu í hagfræði frá Harvard skóla.

Línuritið sýnir GNI (Gross National Income per person) eða þjóðartekjur á mann í dollurum. Rauða línan markar breytinguna frá sucre sem gjldmiðil, yfir á ameríska dollarann. Vaxandi velgengni undanfarinn sautján ár má að nokkru leyti þakka olíu, en ef til vill einnig stöðugri hagtjórn, sem hefur verið að nokkru leyti bundin í stakk af dollaranum.

Með því að taka upp dollarann missti Ekvdor að nokkru leyti stjórn á gjaldeyrismálum, -- það var til dæmis ekki lengur hægt að prenta peningaseðla til að örva hagvöxt eða til að standa undir opinberum verkefnum eða þá til að bjarga gjaldþrota bönkum úr vanda. Eina ríkið sem hafði reynt dollarinn á undan var Panama, en þar ríkir allt annað efnahagsástand. En olíuverð hefur stöðugt lækkað og efnahagur Ekvador er í nokkurri óvissu. Það verður fróðlegt að sjá hvernig hinn nýi forseti tekur á málunum, án þess að geta fiktað neitt við gengi og gjaldeyri landsins.


Nú er von fyrir fílinn!

 fi_769_ll.jpgÁrið 1800 er taliðað 26 milljón fílar hafi verið á lífi á jörðu.  Í dag eru ekki einu sinni 50 þúsund fílar eftir á Indlandi og í Afríku eru um hálf milljón. Það er auðvitað fílabeinið, sem er að drepa fílinn, eða réttara sagt græðgi mannkyns að ná sér í fílabein til skrauts. Í Kína er langstærsti markaðurinn fyrir fílabein, en einnig í öðrum austurlöndum fjær. Í dag tilkynnti Kína að öll verzlun með fílabein verði ólögleg í lok ársins 2017. Þetta er algjör “game changer” fyrir verndun fílsins og getur bjargað honum frá algjörum útdauða. Bandaríkin hafa einnig bannað alla fílabeinsverzlun fyrr á þessu ári. Við getum glatt okkur á þessari skynsamlegu hegðun stórveldanna og vonandi fagnað því að fílnum fari að fjölga aftur.


Blómgun eykst um 47% í hafinu

phytoplankton_0001.jpgSjórinn umhverfis okkur á Norður Atlantshafi er grænn. Sjórinn í Karíbahafi og Miðjarðarhafi er fallega blár, en hann er blár vegna þess að hann er dauður, snauður af grænþörungum. Sjórinn í norðri er hins vegar fullur af grænþörungum, sem gefa honum lit og eru grundvöllur fæðukjeðjunnar og alls lífríkis hafsins. Mælingar með gervihnöttum gera kleift að ákvarða framleiðni lífríkis í hafinu og fylgjast með því hvernig framleiðni breytist með tímanum. Það eru aðallega mælingar á blaðgrænu. Nú þegar hafísþekjan dregst hratt saman á norðurslóðum, þá nær sólarorkan til enn meiri hluta hafsins og framleiðni rýkur upp. Þörungar blómgast. Frá 1997 til 2015 hefur framleiðni í hafinu á norðurheimsskautinu hækkað um 47% af þessum sökum. Það er ekki vitað hve lengi framleiðni getur vaxið á þennan hátt, en hún mun takmarkast af því hvað mikið næringarefni er fyrir hendi í hafinu og hve lengi það dugar. Mikið næringarefni berst til sjæavar með íslenskum jökulám og einkum með jökulhlaupum í kjölfar eldgosa. En stóra breytingin er að gerast nú, þegar hafís hverfur, en þá nær ljós að geisla yfir ný hafsvæi og blómga þau. Myndin sýnir slíka blómgun í Norður-Atlantshafi og Íshafinu.


Enn nýtt hitamet

Mars mánuður er sá heitasti sem mælst hefur á jörðu. Línuritið sýnir stöðugt hækkandi meðal yfirborðshita frá 1890 til okkar daga. Lengi hefur hækkunin verið um 0,85 gráður á öld, en hlýnun gæti orðið mun hraðari í framtíðinni, eftir þessum gögnum að dæma.

cgasjxyweaayapa.jpg


Nation-building er orsök hryðjuverkanna

Ég var í París hinn 7. janúar 2015, daginn sem hryðjuverkin voru framin í Charlie Hebdo. Ég var EKKI í París nú á föstudaginn, þegar nýju hryðjuverkin voru framin, þar á meðal í Bataclan hljómleikasalnum, aðeins um 300 metrum frá Charlie Hebdo.   Reyndar var vettvangur hryðjuverkanna nú á svæði í austur hluta borgarinnar, sem mér finnst lítt spenandi, fyrir utan hinn einstaka Père Lachaise kirkjugarð, þar sem finna má leiði Jim Morrison (The Doors), Maria Callas, Oscar Wilde, Balzac, Delacroix ofl. Í París ríkir nú mikil sorg og allt er nú gert til að komast til rótar í þessu máli. En að mínu áliti eiga hryðjuverkin í París og víðar í heiminum undanfarið rót að rekja til aðgerða heimsveldanna á tuttugustu öldinni og í byrjun hinnar tuttugustu og fyrstu. Uppúr 1990 kom fram ein tegund af heimsveldisstefnu í Bandaríkjunum, sem fékk hið virðulega nafn “nation-building”. Það voru hugmyndafræðingar, sem störfuðu á vegum George W. Bush, George H W Bush og Tony Blair, sem voru helstu áróðursmenn fyrir nation-building og þeir eru oftast nefndir “neocons”, eða neo-conservatives.  Fremstir þar í flokki voru Paul Wolfowitz, Dick Cheney og Donald Rumsfeld. Æðsta markmið neocons var að reisa Amerískt heimsveldi, þar sem ríkti Pax Americana eða Ameríski friðurinn. Einkum höfðu neocons augastað á mið-austurlöndum, þar sem auðlindir af olíu og gasi eru miklar. Það kemur ekki á óvart að margir neocons og einnig Bush fjölskyldan hafa sterk tengsl í olíufyrirtækjum og félögum tengdum olíuleit, eins og Haliburton, Schlumberger og Hughes Tool Co.

            Já, en þú gengur bara ekki inn og tekur yfir landið og allar auðlindir þess? Nei, þeir höfðu aðra og smekklegri aðferð, sem þeir kalla “nation-building”. Í nær öllum miðausturlöndum var fólkið þá undir hælnum á harðstjóra eða herforingjaráði og lýðræði var af skornum skammti eða ekki neitt. Nú sáu neocons sér leik á borði: þeir lögðu til að Bandaríkin (og fylgifiskar þeirra, þar á meðal Bretar og einnig Ísland undir merki Davíðs og Halldórs í Irak) gerðust einskonar frelsarar eða brautryðjendur í “nation-building” eða þjóðarreisn, steyptu af stóli harðstjórn, kollvörpuðu mönnum eins og Saddam Hussein og stilltu upp stjórn auðsveipra heimamanna, sem væri þeim velviljuð og boðaði einnig lýðræði að nafninu til meðal fólksins. Við vitum vel hvernig þetta hefur mistekist í Írak, Afghanistan, Libýu og nær alls staðar, þar sem nation-building aðferðinni hefur verið beitt. Það hefur orsakað algjöra upplausn þjóðfélagsins, margra alda gamlar hefðir eru fótum troðnar, þjóðfélagið leysist upp. Undir stjórn harðstjóranna og herforingjaráðsins ríkti áður viss stöðugleiki í þessum löndum. Auðvitað voru mannrétindi þá fótum troðin, en samfélagið virkaði og naglar eins og Hussein gættu þess, að klerkastéttinni væri haldið í skefjum. Nú er efnahagur flestra þessara landa í rústum og öfgahópar múslima hafa náð fótfestu, stjórnin er veikburða og hefur ekki fylgi almennings. Því miður virðist svo að íbúar mið-austur landa séu ekki tilbúnir að leggja út í lýðræðislegt þjóðfélagskerfi. Heimsspekin og hugarfarið sem lýðræði byggir á virðist láta strax í minni pokann, þegar klerkarnir kalla fólkið til bæna, fimm sinnum á dag. Múhammeð trompar allt. Sama sagan er nú að endurtaka sig í Sýrlandi. Bashar al-Assad hafði nokkurn veginn stjórn á landinu, en vegna afskipta vesturlanda og annara erlendra áhrifa er stjórn hans í molum. Enn og einu sinni skapast þá ríkur jarðvegur fyrir hryðjuverkahópa, þegar gamla stjórnarkerfið er hrunið.


Þegar þorskurinn hverfur

_orskur1.jpgMaine flóinn, undan norðaustur strönd Bandaríkjanna, var lengi mesta forðabúr landsins hvað varðar fiskveiðar, einkum Georgesbanki. Þarna mætast Golfstrumurinn úr suðri og Labrador straumurinn að norðan. Af þeim sökum er lífríki mjög blómlegt hér, einkum fyrir svif, sem nærir fiskstofna. Talið er að Baskar frá Spáni hafi byrjað þorskveiðar á Georgesbanka fyrir meir en þúsund árum, en þeir gerðu þetta með mikilli leynd. Árið 1497 uppgötvaði John Cabot þessi gjöfulu mið fyrir Bretakonung og eftir það varð saltfiskur mjög mikilvæg fæða í Evrópu og víðar. Borgin Boston var snemma reist sem miðstöð fyrir fiskveiðar á Georgesbanka.hiti.jpg

En svo kom að merki um ofveiði fóru að koma í ljós. Fyrst hvarf lúðan af miðunum í kringum 1850. Síðar komu togararnir frá ýmsum löndum og þá byrjaði ýsan að hverfa snemma á tuttugustu öldinni. Árið 1976 var erlendum togurum bannað að veiða hér, og Ameríkanar höfðu nú öll miðin fyrir sig, nema lítinn hluta á norður endanum. Þar fiskuðu Kanadamenn. Árið 1994 var lítið eftir og loks nú var meiri hluta bánkans lokað fyrir allar veiðar, þegar nær enginn þorskur var eftir. Fyrsta mynd sýnir hvernig þorskveiðar hafa dregist saman frá 1982 til 2013, í tonnum.   Nú þrífst skata vel á Georgesbank.

Fræðimenn halda að ofveiði sé aðeins ein hlið málsins og skýri ekki hvarf þorsksins. Þeir halda hins vegar að hlýnun hafsins sé enn mikilvægari þáttur. Hiti sjávar hér hefur risið stöðugt á þessu tímabili, eins og kemur fram í annari myndinni. Reyndar fer hiti hækkandi í öllum höfum heims, en hér í Maine flóa hækkar hann þrisvar sinnum hraðar. Hlýnun að þessu marki er talin mjög neikvæð fyrir afkomu þorsksins og nýliðun minnkar hratt.

hafi_hly_769_nar.jpgSagan er dálítið önnur norðar á Kanadísku miðunum við Labrador og Nýfundnaland. Þar virðist þorskurinn vera að jafna sig eftir að miðin voru friðuð í tuttugu ár.  Þriðja myndin sýnir hvernig yfirborð sjávar hefur hitnað á milli 2013 og 2014. Mesta hlýnunin (rautt) er á Maine flóa og Georgesbánka, eins og sjá má, með meir en 0,2 gráðu hlýnun milli ára. Hafsvæðið umhverfis Ísland er enn blátt að mestu á myndinni (ekki mikil hlýnun enn), en við hverju megum við búast, og hvaða áhrif hefur hraðvaxandi hnattræn hlýnun á þorskstofn Íslendinga?

 


Norðaustur leiðin er að verða vinsæl

image-535557-galleryv9-pmps.jpgMikið hefur verið fjallað um norðvestur leiðina, þ.e.a.s. siglingarleiðina milli Norður Atlantshafs og Kyrrahafs, sem liggur milli Grænlands og Kanada. Þessi leið verður sífellt greiðfærari, þar sem hafísþekjan á norðurslóðum minnkar ár frá ári. En það er norðaustur leiðin, sem er ekki síður athyglisverð og kann að verða mikilvægari í framtíðinni, fjarri Íslandi. Hún er sýnd á fyrstu myndinni, en sú sigling þræðir um Íshafið austanvert, meðfram norður ströndum Noregs, Rússlands og Síberíu, og inn í Kyrrahafið. Siglingin frá Hamborg til Shanghai um norðaustur leiðina styttist til dæmis um 6 þúsund km, miðað við hina hefðbundnu syðri siglingu um Súez skurðinn.  Árið 2014 fóru 53 skip þessa leið, en á sama tíma sigldu 17 þúsund skip venjulegu syðri leiðina, í gegnum Súez skurðinn. En umferðin um norðaustur leiðina vex ár frá ári síðan hún var fyrst farin árið 2010 (fjögur skip), eins og önnur mynd sýnir. nor_austurlei_in.jpgEn nú hefur olíuverð lækkað og sparnaðurinn við að sigla norðaustur leiðina þá ekki jafn mikill. Framtíðin er því óljós í þessu máli. En eitt er sérstaklega athyglisvert: allt bendir til að umferð skipa um norðaustur leiðina muni í framtíðinni verða án viðkomu í höfnum á leiðinni; non-stop traffic. Það sama mun gerast í norðaustur leiðinni: Ísland er og verður aldrei mikilvæg millilending á slíkum siglingum, þrátt fyrir bollaleggingar sumra sveitarfelaga hér á landi.


Eigum við að afskrifa Helguvík?

Helguvík framtíðar?Atvinnuleysi er nú í vor að þurrkast út í Reykjanesbæ. En það er ekki vegna nýrra starfa í mengandi verksmiðjum, heldur í vaxandi ferðaiðnaði. Í mars í fyrra voru 830 manns (7,5%) á atvinnuleysisskrá í Rekjanesbæ, en 630 núna í mars (5,6%) eða um 200 færri. Það er sagt að meir en helmingurinn af þessum 5,6% séu útlendingar, sem hvorki tala íslensku né ensku og eru því ekki starfshæfir.  Forsvarsmenn Isavia, IGS og fleiri aðila í flugstöðinni hafa þurft að leita út fyrir Suðurnesin eftir starfsfólki. Ferðaþjónustan er nú langstærsti aðilinn á svæðinu.  Samt sem áður er stefna ríkisstjórnarinnar að reisa mjög mengandi stóriðjuver í Helguvík.   Stóriðja og ferðaþjónusta eiga alls ekki leið saman, en það er nú augljóst öllum öðrum landsmönnum en yfirvöldum.  Það er merkilegt að hestamenn á Reykjanesi hafa verið mest áberndi í mótmælum gegn iðnaðarverum í Helguvík.  Hestamannafélagið Máni á skilið hrós fyrir.  Þeir óttast að mengun frá stóriðjuverunum muni hafa áhrif á hestana sína. En er þá ekki ástæða til að óttast að mengun hafi áhrif á börn þeirra, og þeyndar mannfólkið allt? En reynslan sýnir að flúor mengun til dæmis frá álverinu á Grundartanga hefur nú haft alvarleg áhrif á hesta í Hvalfjarðarsveit. En þróunin virðist halda áfram í skjóli iðnvæðingarstefnu núverandi yfirvalda. Norðurál (Century Aluminum) stefnir á að reisa álver hér. Einnig stefnir United Silicon á að reisa hér kísilver. Á Helguvík og ef til vill allur Reykjanesskagi að verða ruslatunnan fyrir stóriðju á Íslandi?  Enn er tími til að stemma stigu við þessari hættulegu þróun.  Það er enginn vafi að bæði álver og kísilver eru mjög mengandi og er það ekki eingöngu flúor, en ýmis önnur óæskileg efni, sem berast út frá þeim.  Eitt og sér er þessi mengun nægileg ástæða til að vísa á brott slíkum sóðalegum iðnaði, en það eru önnur rök nú komin upp á yfirborðið:  það er næg atvinna í boði á Íslandi sem er tengd ferðaiðnaði, og því engin rök  fyrir hendi til að stuðla að uppbyggingu iðnaðar lengur.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband