Færsluflokkur: Eldfjallalist
Eldfjallasafn í Stykkishólmi er til sölu
31.10.2020 | 19:20
Á ferðum sínum hefur Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur komið sér upp miklu safni af efni, ýmiskonar listaverkum, rannsóknarefni og bókum sem snerta eldgos og eldvirkni víðsvegar um heim. Safnið hefur verið til húsa í Stykkishólmi í rúman áratug, en er nú til sölu.
Í safni Haraldar eru mörg hundruð listaverka. Þar má nefna málverk, málmstungur og svartlist ýmiskonar frá eldvirkni um allan heim. Einnig er þar að finna frumstæða list (alþýðulist) frá Indónesíu, Mexíkó, Mið-Ameríku og víðar. Úrval er af japanskri "goslist", einnig listmunir og safn minjagripa. Í safninu má m.a. finna stórt verk eftir Andy Warhol frá 1985 af eldgosi, myndir eftir Japanann Katsushika Hokusai, Mexíkanana David Alfaro Siqueiros og Dr. Atl, auk merkilegs safns af prentverki og plakötum af bíómyndum sem fjalla um eldgos. Einnig er hér að finna merkt steinasafn, sem er miðað við uppfræðslu um jarðfræði Íslands. Í Eldfjallasafni er einnig vandað safn bóka um eldgos og eldfjallafræði auk rúmlega 6000 sérprentana með vísindagreinum og safn jarðfræðikorta. Loks má nefna safn kvikmynda af eldgosum og efnis á myndböndum.
Frekari upplýsingar má fá í síma 899 0857 og tölvupósti hsigurdsson@uri.edu.
Ný bók um Snæfellsjökul
13.7.2017 | 16:24
Í dag kom út bók mín um Snæfellsjökul. Bókin er gefin út af Vulkan ehf og Eldfjallasafni í Stykkishólmi. Um dreifingu bókarinanr sér Árni Þór Kristjánsson, Reykjavík, arsig@simnet.is eða í síma 862 8551 eða 581 3226. Hér er fjallað um allar hliðar Jökulsins, jarðsögu, listasögu og mannkynssögu þessa merka eldfjalls og svæðisins umhverfis.
Beerenberg og hvalfangarar
7.10.2016 | 13:25
Vinur minn hér í Newport rekur gallerí með gömlum listaverkum víðsvegar að úr heiminum. Þar á meðal var þetta málverk eftir Hollendinginn Bonaventura Peeters (1614-1652). Það eru hvalveiðimenn að verki undan ströndum Jan Mayen, en Beerenberg eldfjall gýs ákaft uppi á landi. Myndin er frá um 1640. Hann seldi myndina nýlega til Hvalasafnsins í New Bedford í Massacussets. Verkið minnir okkur á, að Hollendingar sigldu reglulega á norðurslóðir til hvalveiða og versluðu einnig töluvert við Grænlendinga, löngu áður en Hans Egede sigldi til Grænlands árið 1721. Það er því ekki útilokað að Hollendingar hafi rekist á síðustu Íslendingana á Grænlandi, áður en þeir dóu út í kringum árið 1450. En Hollendingar voru á norðurslóðum aðallega til að veiða norðurhvalinn. Hann er sléttbakur eða grænlandssléttbakur, sem heldur sig við ísröndina og var hér í miklu magni á sautjándu öldinni. Sléttbakurinn er mjög hægfara og því auðvelt að skutla hann. Um 200 Hollendingar voru í vinnu hér í hvalstöðinni á Jan Mayen á sautjándu öldinni. Veiðar Hollendinga lögðust af um 1640, en þá var þessi hvaltegund nær útdauð í norðurhöfum. Hollendingar reistu einnig hvalstöðvar á þessum tíma á Íslandi á Ströndum, á Kóngsey, Strákatanga og Strákey. Nafnið Jan Mayen er hollenskt og var gefið eynni árið 1620, eftir hollenskum skipstjóra. Nafnið Beerenberg er einnig hollenskt, og þýðir björnsfjall, eftir hvítabirninum. Það er virkt eldfjall staðsett á Mið-Atlantshafshryggnum, sem gaus síðast árið 1985.
Eldfjallalist | Breytt 8.10.2016 kl. 04:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Leiðsögn um Eldfjallasafn - Enska útgáfan
7.8.2016 | 08:11
Molander málar Heklugos
1.9.2015 | 12:05
Nýjasta listaverk Eldfjallasafns í Stykkishólmi er eftir Norðmanninn Thorvald Antonius Molander (1903-1975). Þetta olíumálverk er sennilega af Heklugosinu árið 1947. Thorvald Molander (1903 - 1975) var fæddur í Svíþjóð, faðir sænskur, móðirin finnsk. Þau fluttust til Norður-Noregs og gerðust norskir ríkisborgarar. Hann var að sögn á margan hátt áhugaverð persóna, mikið snyrtimenni og listrænn, spilaði á fiðlu. Hann ferðaðist á sumrin víðs vegar um landið, kynntist fólki og málaði vatnslitamyndir eða skissur, sem hann lauk síðan við á veturna. Ekkert yfirlit er til um þau verk. Árið 1952 sagði hann skilið við Ísland og fluttist til Noregs. Listasafn Reykjavíkur á mynd eftir hann af Snæfellsjökli. Molander deyr í Troms í Norður-Noregi árið 1975.
Eldfjallalist | Breytt 2.9.2015 kl. 08:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Kjarval í Eldfjallasafni
30.5.2015 | 09:40
Að öðrum ólöstuðum er ljóst að Jóhannes S. Kjarval er merkasti listamaður Íslands. Það er því mikil ánægt að tilkynna að nú er eitt af verkum Kjarvals til sýnis í Eldfjallsafni í Stykkishólmi. Hér er um að ræða mynd af Snæfellsjökli, sem gerð er um haustið 1953. Kjarval er einkum þekktur fyrir myndir sínar af hraunmyndunum og landslagi, sem sýna stórbrotna náttúru landsins. Kjarval byrjaði að mála Snæfellsjökul árið 1910 og fór sinn fyrsta leiðangur á Snæfellsnes árið 1919. Uppúr 1940 fór hann margar ferðir á Snæfellsnes og málaði víða um Nesið. Hann unni landinu umhverfis Jökul svo mikið, að árið 1944 festir hann kaup á jörðinni Einarslón undir Jökli fyrir 20 þúsund krónur. Einarslón er fast við Djúpalón, sem nú er einn vinsælasti áfangastaður ferðamanna á Snæfellsnesi. Myndin í Eldfjallasafni sýnir suður hlíð Snæfellsjökuls og lítur litamaðurinn hér í áttina að Hjartabrekkum fyrir ofan Laugatjörn. Myndin er máluð með vatnslitum á pappír og er í eigu Katrínar Jónsdóttur.
Haraldur í þættinum Um Land Allt
9.2.2015 | 15:00
Kristján Már Unnarsson hefur tekið upp tvo þætti með spjalli við mig í Stykkishólmi. Efnið má sjá hér: http://www.visir.is/section/MEDIA99&fileid=CLP33495
Fyrri þátturinn er sýndur 9. febrúar 2015 í þáttaröðinni Um land allt. Hér er kynning á efninu frá visir.is:
Heim í Hólminn eftir 40 ára eldfjallaflakk: Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur flutti aftur heim í Stykkishólm eftir 40 ára vísindastörf við rannsóknir á eldfjöllum víða um heim. Í þættinum Um land allt segir Haraldur frá æskuslóðum sínum í Hólminum, starfsferli og einkalífi og sýnir Eldfjallasafnið. Þetta er fyrri þáttur af tveimur. Í seinni þættinum, sem er á dagskrá Stöðvar 2 þann 10. febrúar, fer Haraldur umhverfis Snæfellsnes með Kristjáni Má Unnarssyni og Arnari Halldórssyni kvikmyndatökumanni. Við þökkum þeim fyrir að fá þetta tækifæri til að kynna Eldfjallasafn í Stykkishólmi.
Haraldur á frímerki
12.11.2014 | 18:40
Enn og einu sinni í viðbót fæ ég fullnægt hégómagirnd minni! Ríkið Mozambique í Afríku hefur gefið út frímerki með mynd minni og eldfjallinu Krakatau í Indónesíu. Þetta er hlut af heilli örk sex frímerkja, sem sýna eldfjöll og eldfjallafræðinga víðs vegar um heiminn. Í fyrstu hélt ég að þetta væri gabb og eitthvað Photoshop grín, en svo virðist ekki vera.
Eldfjallalist | Breytt 13.11.2014 kl. 09:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Ný mynd Eldfjallasafns
31.10.2014 | 17:11
Nýlega eignaðist Eldfjallasafn þessa mynd af Heklugosinu 1947 eftir Jóhannes S. Frímannsson (1919-1997). Hann var þekktur frístundamálari eða alþýðumálari á tuttugustu öldinni og málaði mikinn fjölda landslagsmynda, sem ef til vill mætti kalla kitsch. Hann minnir mig því á Eyjólf Eyfells, sem einnig málaði þetta Heklugos.
Það munaði litlu að eitt verk Jóhannesar Frímannsonar væri selt sem verk sjálfs meistarans Jóhannesar S. Kjarval. Árið 2001 var Íslenskt olíumálverk á uppboði á eBay og talið vera eftir Jóhannes S. Kjarval. Innan skamms var tilboð í myndina komin upp í $9,100. En þá stigu sérfræðingar fram á völlinn og skáru úr um að verkið væri eftir Jóhannes S. Frímannsson. Sennilega er þessi Heklumynd máluð við Rangá, en hrossin hafa greinilega engan áhuga á gosinu.
Gosgrín
26.8.2014 | 03:47
Bretar tóku gosinu í Eyjafjallajökli ekki vel. Það vakti ótta á Bretlandseyjum og lokun allra flugvalla. Nú er annað hljóð komið í strokkinn. Það er ótrúlegt hvað menn eru fljótir að venjast breyttum aðstæðum. Ef gos hefst í Bárðarbungu segjast bretar ekki munu láta það hafa áhrif á flugsamgöngur. Þeir eru jafnvel farnir að grínast með gos, fyrir gos. Hér með fylgir skopmynd, sem Martin Rowson hefur teiknað fyrir dagblaðið Guardian. Norræni goðinn kallar eftir fórnarlambi til að seðja eldfjallsguðinn. Óvinsælir stjórnmálamenn frá ýmsum heimshornum (aðallega frá miðausturlöndum) bíða í einu horninu og vonast til að sleppa.