Bloggfærslur mánaðarins, mars 2010

Gjóskustrókarnir á Fimmvörðuhálsi


GjóskustrókarAllir þeir sem hafa komist í návígi við eldgosið á Fimmvörðuhálsi hafa tekið eftir hávaðanum í gosinu.  Það er eins og tíu risastórir þotuhreyflar séu sífellt í gangi.  Tætlur af glóandi bráðinni kviku þeytast 100 til 200 metra upp í loftið í strókunum. Hins vegar sést ekki hraun renna beint frá gígunum, heldur kemur hraunið fram rétt utan gíganna.  Slettur, kleprar og heitt rautt gjall sem fellur niður úr gjóskustrókunum hleðst upp og safnast saman þar til það byrjar að renna sem mjög úfið og þykkt  apalhraun.  Hvers vegna er ekki samfellt hraunrennsli beint frá gígunum, eins og til dæmis í Kröflugosunum frá 1975 til 1984?  Gjóskustrókarnir  eru bein afleiðing af háu gasinnihaldi kvikunnar.  Við skulum athuga hvernig þeir myndast, en í því felst einn lykillinn að þessu gosi.  Hugsum okkur að við séum í litlum og eldtraustum  kafbát niðri í upptökum kvikunnar. Við byrjum með kvikunni í möttlinum, á um 30 km dýpi undir Eyjafjallajökli. Hér fjallaði ég í bloggi mínu um möttulin undir Íslandi. Módel af gjóskustrók

Á þessu dýpi er möttullinn eins og svampur, og hraunbráðin eða kvikan streymir upp í gegnum hann. Basalt kvikan er um 1200 stiga heit C, og  leitar upp á við vegna þess að hún er dálítið eðlisléttari en möttullinn umhverfis.  Frá því í byrjun janúar 2010 hefur kvikan safnast saman á um 5 til 12 km dýpi beint undir Eyjafjallajökli. Þar hafa orðið mörg kvikuinnskot, þegar kvikan treðst inn lárétt á milli jarðlaga og myndar lagganga. Þeir eru sennilega einn til fimm metrar á breidd, og á heildina litið er kvikukerfið þarna sennilega í laginu eins og jólatré, með ótal greinum útfrá einum stofni.   Það er töluvert gas í kvikunni, sennilega um eitt prósent af þunga hennar, en við háan þrýsting er gasið uppleyst í kvikunni.  Þið kannist við gasið sem kemur fram sem bólur þegar þið opnið kampavínsflösku eða gosdrykk?  Í drykknum er gasið undir þrýstingi þar til þið opnið flöskuna, en þá losnar það úr læingi og myndar gasbólur.  Einn fleygurinn  af kviku skautst upp til norðausturs og náði yfirborði um nóttina 20. marz.   Þar byrjaði gosið sem um 250 m löng sprunga, og allt að 15 gjóskustrókar þeyttu kvikunni og gasi  hátt í loft. 

Hér er mynd sem sýnir hegðun kviku sem inniheldur gas. Lóðrétti ásinn er að sjálfsögðu dýpi í jarðskorpunni, í km.  Myndin er dálítið flókin fyrir þá sem ekki hafa stundað eðlisfræði eða efnafræði, en hún er vel þess virði að skoða nánar.  Aðal atriðið er, að kvikan breytist algjörlega rétt áður en hún kemur upp á yfirborðið.  Í dýpinu er kvikan samfelldur vökvi, en þegar þrýstingur minnkar þá kemur gasið út úr kvikunni, fyrst sem litlar bólur, en þær vaxa hratt og breyta kvikunni fyrst í einskonar froðu, og síðan springa bólurnar rétt áður en kvikan er kominn upp í gíginn, en þá tætist kvikan í sundur og myndar glóandi heitt gjall og  kvikuslettur, sem eru á stærð við pönnukökur, strigapoka eða rúmdýnur. Slettugangurinn fer hátt í loft áður en sletur og heitt gjall fellur til jarðar á gígbarminum. Það er enn svo heitt að þegar slettur og gjall safnast saman byrjar það að renna sem hraun.  Breyting kvikunnar

Á mynd (a) efst til vinstri sést hvernig rúmmál gassins (volume fraction gas) eykst frá núlli á um 1,8 km dýpi og upp undir 65% við yfirborð. Þessi gífurlega aukning á rúmmáli gassins er einfaldlega vegna minnkandi þrýstings á kerfinu. Þegar rúmmálið vex, þá getur gasið bara farið í eina átt: beint upp gosrásina og upp í loftið. Þannig myndast gjóskustrókurinn.  Um leið hrapar eðlisþyngd gosefnisins (gas plús kvika) eins og mynd (b) sýnir, frá um 2500 niður í um 500 kg á rúmmeter  á gígbrúninni í þessu tilfelli.  Myndir (c) og (d) sýna breytingar á þrýstingi og bylgjuhraða á sama máta. 

Þessi mynd er gerð fyrir ákveðið gasmagn, en því miður vitum við ekki enn gasmagn kvikunnar sem gýs á Fimmvörðuhálsi, og ekki heldur hvaða gastegundir eru ríkjandi. Ég held að CO2 sé ef til vill aðal gastegundin, en einnig er töluvert af SO2 og H2O. Sennilega er heildar gasmagn í kvikunni um 1% af þyngd. Rannsóknir bergfræðinga og jarðefnafræðinga munu vonandi skera úr því á næstunni hvað gasið er mikið og ákvarða efnasamsetningu þess.

 

 

 


Er samband við Kötlu?

 

_versni.jpgNú í byrjun árs 2010 birti Erik Sturkell og félagar við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands grein um Kötlu og Eyjafjallajökul í merku vísindariti.  Í henni er fjallað um niðurstöður jarðeðlisfræðilegra rannsókna á þessum miklu eldstöðvum.  Með greininni fylgir teikning sem sýnir hugmyndir höfunda um innri gerð eldfjallanna. Slík þversnið í jarðfræðinni eru byggð á öllum fáanlegum upplýsingum og dálitlu hugmyndaflugi, en þau eru mjög gagnleg sem byrjun eða útgangspúnktur fyrir frekari umfjöllun.  Undir Eyjafjallajökli er kvikukerfið sýnt sem einskonar “jólatré” með nokkrum greinum, en stór kvikuþró er hins vegar sýnd grunnt undir Kötlu.  Nú eftir að gosið hófst hefur Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur aukið við myndina til að sýna hugsanleg tengsl nýju gosrásarinnar á Fimmvörðuhálsi við jólatréð undir Eyjafjallajökli.  Teikningin birtist á vefsíðu Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands, og er sýnd hér fyrir ofan, en hún er fyrst og fremst bygð á dreifingu jarðskjálfta, eins og þeir hafa verið staðsettir af Veðurstofunni.   Hinn fjórða mars fjallaði ég hér um dreifingu skjálfta undir Eyjafjallajökli, en þá teiknuðu skjálftarnir  vel útlínur jólatrésins á um 5 til 12 km dýpi undir fjallinu. gossagan.jpg

Í grein Sturkels og félaga er bent á hugsanleg tengsl milli Eyjafjallajökuls og Kötlu, og hefur þetta atriði fengið töluverða umræðu nú þegar gos er hafið.  Kemur þá Kötlugos rétt á eftir?  Það er bent á, að eftir sum eða jafnvel öll gos í Eyjafjallajökli hefur Katla gosið skömmu síðar.  Þannig hófst Kötlugos árið 1823, um einu og hálfu ári eftir að Eyjafjallajökull byrjaði að gjósa. Ég læt fylgja hér með mynd sem sýnir gossögu Kötlu og Eyjafjallajökuls á hentugan hátt, en myndin er af  vefsíðu Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands.  Mig grunar að upprunalegu gögnin komi að mestu leyti frá Guðrúnu Larsen.  Nú er gott að bera saman gossögu eldfjallanna tveggja og leita að hugsanlegu sambandi þeirra á milli.  Þeir sem eru fullir efasemdar og ekki sannfærðir um sambandið milli eldfjallrisanna benda á að Katla gýs svo oft (um 23 gos síðan land byggðist) og að það komi alltaf Kötlugos hvort sem er fyrr eða síðar á eftir Eyjafjallajökulsgosum.  Þá er þetta bara tilviljun í þeirra augum. En aðrir telja að það sé eitthvað  óþekkt samband milli þessara stóru eldfjalla.  Sagan sýnir að Kötlugos eru stórhættuleg og skaðleg og við verðum hreinlega að taka þennan möguleika mjög alvarlega.  Málið er sambærilegt við deiluna um loftslagsbreytingar:  við höfum ekki efni á að láta sem ekkert sé, því ef breytingarnar eru í gangi, þá verður að bregðast við strax nú til að draga úr skaðanum sem bíður okkar í framtíðinni.  

En ef það er samband milli Kötlu og Eyjafjallajökuls, í hverju felst það þá?  Geta kvikuinnskot eða laggangar rekist eins og fleygar af kvikubráð frá jólatrénu undir Eyjafjallajökli og til austurs um 15 km  inni í skorpunni, þar til kvikuinnskotið brýst inn í kvikuþró Kötlu?  Árið 1977 birtum við þrír félagar  grein í vísindaritinu Nature þar sem við stungum fyrstir manna uppá að kvikuinnskot í kvikuþró getur hleypt af stað miklu eldgosi, en þessi grein var afleiðing af störfum okkar í eldstöðinni  Öskju. Hér er tilvitnunin:  Sparks, R.S.J., H. Sigurdsson and L. Wilson, l977. Magma mixing: a mechanism for  triggering acid explosive eruptions.  Nature 267, 3l5-3l8.

Annar möguleiki er sá, að þegar kvika streymir upp í Eyjafjallajökul, þá sé einnig kvikustreymi upp undir rótum Kötlu rétt í nágrenninu.  Það kann að vera, en þá er rétt að benda á að nú er engin skjálftavirkni undir Kötlu – amk. ekki ennþá.  Því er fyrri möguleikinn sennilegri að mínu viti, ef eitthvað samband er mili eldfjallanna.  Að lokum er rétt að geta þess að gosin í Kötlu sem hafa orðið skömmu eftir gos í Eyjafjallajökli hafa verið fremur lítil. 

 

 


Minnkandi órói í gosinu á Fimmvörðuhálsi

óróiÉg hef verið fjarverandi og ekki bloggað undanfarið, en hér eru frekari bollaleggingar varðandi Eyjafjallajökul og gosið á Fimmvörðuhálsi. Línuritið sem fylgir með sýnir óróa á stöðinni á Goðabungu, skammt fyrir austan eldgosið.  Takið eftir að órói fer minnkandi síðustu tvo dagana. Ég tel að órói sé einn besti mælikvarði á gang gossins. Órói orskast af flæði eða straumi hraunkvikunnar upp gosrásina og er nokkurn veginn í beinu hlutfalli við magn kviku sem streymir upp á yfirborðið. Mér sýnist að órói hafi minnkað um 10% síðustu tvo dagana. Það er ekki mikið, en það kann að benda til að gosið sé búið að ná toppnum og fari nú að minnka verulega.

Einnig læt ég fylgja með merkilegt kort, sem er reiknilíkan frá Veðurstofunni. Það sýnir hugsanlega dreifingu hraunsins, EF gosið heldur áfram, þá mun hraunið flæða niður í Þórsmörk, eins og kortið sýnir.  Ég var í Hvannárgili í gær en kommst ekki að hrauninu fyrir myrkur.Hraunlikan


Aðdragandi gossins í Eyjafjallajökli

reviewed data hourlyÞá er gosið komið, en það hófst rétt fyrir miðnætti í gær, 20. marz á Fimmvörðuhálsi.  Gosbjarminn kom á vefmyndavélina á Heklu um kl.  23:36.  Við skulum aðeins líta á ferlið.  Á fimmtudag, 18. marz,  benti ég á hér á blogginu að “Í dag hafa skjálftar færst hratt nær yfirborði og eru nú á 1 til 4 km dýpi.” 

Hvað hafði ég fyrir mér í því?  Gögn Veðurstofunnar sýndu miklu grynnri skjálfta og samantekt sem var gerð á franskri vefsíðu hér birti línurit varðandi dýpi skjálftanna. Myndin til hliðar er af frönsku vefsíðunni, en þar kemur sveifla upptaka skjálftann uppávið mjög greinilega fram.  En takið eftir að dregið hefur úr fjölda skjálfta síðustu dagana.  Næsta mynd sýnir sömu skjálftagögn, en er uppfærð á klukkutíma fresti. Takið eftir að hér eru nokkuð margir skjálftar (bláu krossarnir) sem eru grynnara en 2 km.  Frakkar eiga heiður skilinn fyri að gera gögnin aðgengilegri. reviewed data hourly wide

Þetta er eitt af þeim mörgu gosum sem  ekki var opinberlega spáð, en það var gosbjarmi sem vakti fyrst athygli á gosinu, eins og kemur fram í Morgunblaðinu:  “Veðurstofan segist hafa fengið fréttir af gosbjarma í jöklinum en enginn gosórói kemur fram á mælum og fréttirnar hafa því ekki verið staðfestar enn.”

Myndir Landhelgisgæslunnar af gosstöðvunum sýna nokkuð háa gosstróka og hraunrennsli, og virðist það haga sér sem basaltkvika.


Þrjú Eldgos mynda þrjú Stöðuvötn

Vötnin þrjúEitt heimsmet í viðbót á Íslandi – og þetta er ekki miðað við fólksfjölda!  Hvergi á jörðu er landmótun hraðari en hér,  en það orsakast vegna hraðrar upphleðslu lands af völdum eldfjalla og niðurrifs lands af völdum skriðjökla.  Ég tek hér sem dæmi eitt fyrirbæri landmótunar á Snæfellsnesi, en það er tengt myndun stöðuvatnanna Baulárvallavatns, Hraunsfjarðarvatns og Selvallavatns.   Eftir að þjóðvegurinn var færður til frá Kerlingarskarði yfir á Vatnaheiði, þá hefur þetta landsvæði orðið vel aðgengilegt ferðamönnum.  Í næstu ferð þinni yfir heiðina er því upplagt að velta fyrir sér myndunarsögu veiðivatnanna og fjallanna sem skilja þau að: Vatnafells og Horns.   KortVötnin og fellin á milli þeirra eru tiltölulega ung.  Um miðja ísöld  lá mikill dalur þvert í gegnum Snæfellsnes fjallgarðinn, og var hann opinn til norðurs, til Hraunsfjarðar í norðvestri og Breiðafjarðar í norðaustri.  Dalurinn hefur verið skorinn af verkan skriðjökla á ísöld.  Vatnaskil í dalnum voru þar sem nú er útrennslið eða ósinn í Baulárvallavatni, upptök Straumfjarðarár.  Nú í dag myndar Horn   vatnaskilin, langt fyrir norðan.   Sennilega hefur Bjarnarhafnarfjall verið eyja á þeim tíma, en síðari eldsumbrot á nútíma áttu eftir að  tengja þessa háu og myndarlegu eyju við meginlandið.  Á síðasta hlýskeiði ísaldarinnar, fyrir um það bil eitt hundrað og tuttugu þúsund árum, hófst mikið eldgos í suður hluta dalsins.Vötnin Hér gaus grágrýtishraunum og gosið hlóð upp eldfjallinu sem við nefnum Vatnafell (345 m).  Grágrýtið í Vatnafelli er mjög sérkennilegt, en það inniheldur stærstu steindir eða kristalla af biksvörtu pyroxen sem ég hef séð á Íslandi, allt að 5 sm í þvermál.   Hið nýja eldfjall myndaði mikla stíflu í dalinn og þar á bak við safnaðist fyrir stöðuvatnið Baulárvallavatn, sem í dag er um 47 metra djúpt og um 193 metrar yfir sjávarborð.   Á síðasta jökulskeiði gaus aftur í dalnum, en nú norðar.  Þetta gos hófst undir jökli og ég giska á að það hafi  orðið fyrir um fimmtíu þúsund árum.  Fjöldi sprenginga varð vegna samspils heitrar kviku og vatns í jöklinum, og móbergsfjallið Horn (406 m) hlóðst upp.  PyroxenÞað myndaði enn aðra stíflu í dalnum, og bak við það safnaðist Hraunsfjarðarvatn, um 84 metra djúpt og 207 metrar yfir sjó.  Þegar ísöld lauk fyrir um tíu þúsund árum var mjög grunnt sund eða vogur milli Bjararhafnarfjalls og lands fyrir sunnan.  Hér opnaðist sprunga með vest-norðvestur stefnu í vestasta hluta goskerfisins sem við kennum við Ljósufjöll.  Gos hófst á sprungunni fyrir um fjögur þúsund árum, og hér rann Berserkjahraun.  Gígarnir voru margir, en stærstir þeirra, frá austri til vesturs, eru Rauðakúla, Gráakúla, Smáhraunskúla og Kothraunskúla vestast.  Gjallgígarnir og hraunið myndaði eina stífluna enn, og þar á bakvið er Selvallavatn, sem hét Svínavatn á landnámsöld.  Þð er örgrunnt og aðeins 62 metrar yfir sjó.   Þannig hefur rof og eldvirkni mótað þetta fagra svæði, skapað veiðivötnin og sérstæða náttúru.  HornEn því miður voru mestu náttúruspjöll sem gerst hafa á Snæfellsnesi framin hér þegar Múlavirkjun var reist.  Þá voru gerðir tveir stíflugarðar, annar í Vatnsána á milli Hraunsfjarðarvatns og Baulárvallavatns og hinn við ósinn á Baulárvallavatni.  Garðarnir eru allt að 5 metrum hærri en fyrra vatnsborð og hækkuðu vötnin sem því nemur.  Af þeim sökum hefur orðið mikið bakkarof og hrygningarstöðvar urriðans í vötnunum skemmdar.  Aku þess varð mikið rask á svæðinu vegna vegagerðar og annara framkvæmda. Af einhverjum undarlegum ásæðum var ekki látið fara fram mat á umhverfisáhrifum  áður en þessar framkvæmdir hófust.   

 


Miklu Grynnri Skjálftar undir Eyjafjallajökli

Dýpi skjálftaTil þessa hafa jarðskjálftar undir Eyjafjallajökli verið á miklu dýpi, flestir frá um 7 til 11 km undir yfirborði, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd frá vef Veðurstofunnar.  Í dag hafa skjálftar færst hratt nær yfirborði og eru nú á 1 til 4 km dýpi, eins og kemur fram lengst til hægri á myndinni.  Takið eftir að aðeins skjálftar stærri en 2 eru sýndir hér. Er þetta kvika sem er loks að færast nær yfirborði eldfjallsins? Það verður spennandi að fylgjast með framgangi mála. 

Myndin Eldgos eftir Kristján H. Magnússon

Eldgos eftir Kristján H. MagnússonGóður listamaður getur skapað heila sögu með einni mynd.  Ein  sérkennilegasta mynd sem við sýnum í Eldfjallasafni í Stykkishólmi er stórt olíumálverk sem ber heitið Eldgos, eftir Ísfirðinginn Kristján H. Magnússon  (1903-1937).  Myndin er nær einstök í íslenskri myndlist, þar sem hún er af sviðsettum ímynduðum atburði.  Að því leyti er hún skyldari amerískri myndasögu frekar en evrópskri hefð í listum.  Myndin sýnir ung hjón á flótta, með barn í reifum og aleiguna á bakinu. Klæðnaður þeirra minnir helst á “lumpenproletariat” í Austur-Þýskalandi. Þau flýja undan eldgosi og húsin umhverfis eru að liðast í sundur vegna áhrifa jarðskjálfta. Það er greinilegt að myndin er sviðsett í Vestmannaeyjum, með norðurklettana í bakgrunni og á bakvið er Eyjafjallajökull eða Hekla gjósandi í landi og dökkur gosmökkur rís til himins.   Fjöldi fólks fylgir hjónunum á veginum sem liggur frá höfninni. Eru þau að flýja til Eyja, undan náttúruhamförum í landi?   Það eru ýmiss önnur smáatriði, eins kirkja að falla af grunni, og hestur á flótta, sem gefur okkur mikið svigrúm til að túlka verkið og byggja upp söguþráðinn, hver á sína vísu.   Þessi stóra og glæsilega mynd er í einkaeign í Mosfellsbæ.  Kristján hóf listnám árið 1920 við hinn þekkta skóla í Boston sem nefnist Massachusetts School of Art, þá aðeins sautján ára gamall. För hans til náms í Boston var tengd fjölskylduböndum, en bróðir hans, Magnús G. Magnússon skipstjóri var búsettur þar.  Magnús kemur einnig við sögu á Snæfellsnesi varðandi þáttöku hans í gullleit í Drápuhlíðarfjalli árið 1939.   Kristján lauk námi árið 1926 við mjög góðan orðstír. Ein af myndum hans var þá valin á þjóðarsafn (National Academy) í New York og árið 1927 var sú mynd send á ferðasýningu um Bandaríkin af American Federation of Art.  Hann hélt strax sína fyrstu einkasýningu í Copley Gallery í Boston 1927 og seldi mjög vel. Honum var spáð glæstri framtíð. Árið 1929 snýr Kristján aftur heim til Íslands og fer strax að mála víða um landið og er ótrúlega duglegur.  Árið 1930 hélt hann tvær einkasýningar í Reykjavík, eina á Ísafirði og eina í Lundúnum og átti auk þess stóran hlut í Landakotssýningunni í Reykjavík það ár.   Sýningin í London árið 1930  fékk frábæra dóma, til dæmis hjá listdómurum við  "The Morning Post" og "The Times".   En það var allt annar tónninn í Reykjavík.  Listmálarinn Jón Þorleifsson (sem birti pistla sína undir nafninu “Orri”) var þá áhrifamikill listdómari, sem fjallaði um málverkasýningar í Morgunblaðinu, og  hann gagnrýndi Kristján harðlega í  skrifum sínum árið  1930 og 1934 og kallar hann til dæmis glanzmyndamálara. Sumir vilja telja að í þessum innlendu skrifum hafi verið meinfýsni efst á blaði.   Á þessum tíma var það óalgengt eða jafnvel einstakt að íslenskir listamenn leiti sér menntunar í Vesturheimi, enda voru ýmsir hér vantrúaðir á listræna menningu Ameríkumanna.   Kristján var því  sniðgenginn með öllu þegar valið var úr verkum íslenskra listamanna til sýningar í Stokkhólmi árið 1932. Ekki vildi hann una því og leigði einn sal fyrir málverk sín skammt frá hinum opinbera sýningarstað.  Gagnrýnendur í Stokkhólmi tóku sýningu Kristjáns ágætlega og veltu því fyrir sér af hverju hann væri ekki með á íslensku yfirlitssýningunni.  Yfirleitt málaði Kristján með mjög natúralisku yfirbragði, og  sumum finnst hann sýna áhrif frá Cezanne. Verk has eru  gerð af mikilli leikni og skólaðri kunnáttu en viðfangsefnin einfölduð, drættirnir ljósir og litir með þíðum, áferðarfallegum blæ.   Kristján hélt áfram ótruður að mála næstu árin, þótt undirtektir á Íslandi gætu verið betri. Á þessum tíma hefur hann sennilega komið til Eyja og málað verkið Eldgos.  Sumarið 1937 fór hann í málunarferð um uppsveitir Borgarfjarðar á hestbaki. Skömmu eftir að hann kom heim lést hann skyndilega, sennilega úr garnaflækju, þá aðeins 34 ára gamall.

 


Gosmálarinn í Vestmannaeyjum: Guðni A. Hermansen

Hefnd HelgafellsFjallið hafði ekki gosið í meir en fimm þúsund ár.  Þá kom Guðni og málaði það gjósandi og  -  viti menn: tæpu ári seinna kom gos.  Eyjamenn hafa orðið meira fyrir barðinu á eldgosum en flestir aðrir íslendingar.  Fyrst var það öll taugaspennan sem fylgdi Surtseyjargosinu frá 1963 til 1968, og svo gosið árið 1973 sem hófst í útjaðri Vestmannaeyjakaupstaðar, og hlóð upp gígkeilunni Eldfelli á örstuttum tíma.   Húsamálarinn, jazzistinn og listamaðurinn Guðni A. Hermansen (1928-1989) gerði margar merkar myndir af umhverfinu í Vestmannaeyjum og sérkennilegu landslagi þar.  Það er ein mynd eftir Guðna sem er ef til vill sérkennilegust, en hún heitir Hefnd Helgafells og er hér fyrir ofan.  Um sumarið 1972 málaði Guðni þessa mynd en tilefnið var að Guðni var reiður út af því að malartaka var þá stunduð í gryfju í austurhlíð Helgafells. Helgafell og Eldfell Hér var tekin rauðamöl og gjall sem var notuð sem uppfylling í nýja flugbraut í Eyjum.  Ljósmyndin sýnir austur hlíð Helgafells, til vinstri, og Eldfell til hægri. Malargryfjan er nú að mestu gróin. Takið eftir svörtu eða dökkgráu línunni af gjallgígum í forgrunni, en það er hluti af sprungunni sem gaus árið 1973.  Guðni og margir aðrir Eyjamenn reiddust því að ljótt sár hafði myndast í fjallið helga og taldi Guðni að náttúran myndi hefna sín fyrr en síðar.  Það reyndist rétt: gosið 1973  hófst rétt norðar, rúmum sex mánuðum seinna.  Hér með fylgir ljósmynd af Guðna að vinna að gerð myndarinnar Hefnd Helgafells, tekin 24. maí 1972 af Sigurgeir.  Málverkið Hefnd Helgafells er nú í eigu Jóhönnu Hermannsdóttur í Bandaríkjunum.Guðni málar    Helgafell er 227 metrar á hæð og hefur myndast í eldsumbrotum fyrir um fimm þúsund árum.  Þetta var mikið gos, sem byrjaði sennilega í sjó en hlóð upp mikla hraundyngju.  Fyrir gosið voru hér tvær eyjar.  Þegar því lauk  hafði hraunbreiðan tengt saman norðurkletta og suðurkletta í Eyjum, og myndað þannig hina stóru Heimaey.  Helgafell og Eldfell eru gígar í megineldstöðinni sem við nefnum Vestmannaeyjar, og einnig tilheyrir Surtsey þeirri miklu eldstöð, ásamt mörgum öðrum eyjum allt í kring.  Gígar og brjóst Á vefnum Heimaslóð eru nokkrar af myndum Guðna sýndar, og sumar þeirra eru tengdar eldvirkni hér    Það er ekki laust við að sumar myndir hans séu súrrealískar og töluvert erótískar.   Sumar mynda hans, eins og þessi hér til hliðar, gera skemmtilega samlíkingu á eldfjallinu og þrýstnu konubrjósti.  Ási í Bæ minntist oft á listaverk Guðna í pistlum sínum í Morgunblaðinu, til dæmis 7. nóvember 1976:  “Guðni Hermansen er heimamálari þeirra eyjamanna og það fer ekki á milli mála að kveikjan að myndgerð Guðna er sótt í landslag og náttúruumbrot þar í eyjum. Gosið í eyjum virðist hafa haft mikil áhrif á list hans, og er það ekki nema eðlilegt. Heimaey Það eru ekki margir listamenn í veröldinni sem upplifa það að jörðin springur og eys eldi við fætur þeirra.”



 


Eldfjallið Ararat og Örkin hans Nóa


Baghdasarian1922Í Eldfjallasafni í Stykkishólmi sýnum við olíumálverk af eldfjallinu Ararat í Tyrklandi, eftir armeníumanninn H. Baghdasarian, frá 1922, en myndin er hér til hliðar.  Ararat er eitt af hinum frægu fjöllum heims, vegna orðróms sem komst á kreik á fimmtu öld um að þar hefði örkin hans Nóa strandað þegar syndaflóðinu fjaraði út.  AraratÉg tel að ég geti sannað að þetta málverk er af eldfjallinu Ararat, sem er á landamærum Armeníu, Tyrklands of Íran.  Berið málverkið saman við myndina fyrir neðan, en hún er af Ararat eldfjalli, eins og það kemur fyrir á Google Earth.  Niðurstaðan er augljós.  Ararat hefur reyndar tvo fjallstoppa. Annar, og sá hærri, nefnist  Agri Dagi á tyrknesku, sem er 5165 metrar á hæð og þar með hæsta fjall Tyrklands, en hinn toppurinn er miklu reglulegra eldfjall eða keila,  sem nefnist Kucuk Agri Dagi (Litla Ararat),  og er 3925 metra hátt.  Eftir forminu að dæma er Litla Ararat yngra og virkara eldfjall.  Sögusagnir eru um að síðast hafi gosið hér árið 1840.  Christies

Baghdasarian virðist hafa málað aðra mynd af Ararat árið 1920, en hún er sýnd hér fyrir neðan.  Hún var seld á uppboði hjá listaverkasalanum Christies í London árið 2003. Christies taldi myndina vera af Mexíkódalnum, og sýna eldfjöllin Ixtlahuacán og Popocatepetl.  Það er því rangt, eins og sýnt er hér fyrir ofan.  Við vitum öll að það er ekki alltaf hægt að treysta listaverkasölum.  

Biblían segir að örkin hans Nóa hafi strandað í landinu Ararat eða í Armeníu.  Ekki er þar minnst á fjallið Ararat. Þegar klerkurinn Philostorgius (ca. 364 – 425 e.Kr.) skráði sögu kristinnar kirkju í Konstantínópel, þá  taldi hann að örkin hefði strandað á Ararat fjalli. Það er hinn eiginlegi uppruni sagnarinnar um Ararat.  Mikill fjöldi leiðangra hefur verið gerður út til að finna leifar af örkinni á Ararat, og allar tilraunir  eru árangurslausar til þessa.  Flekarnir í TYRKLANDI

Austur hluti Tyrklands er eitt af flóknustu svæðum jarðar hvað snertir flekahreyginar og jarðfræði, eins og kortið sýnir.  Hér eru stórir jarðskjálftar tíðir, enda er jarðskorpunni skift í marga litla fleka, sem nuddast stöðugt saman eins og ísjakar á straumvatni.  Arabíuflekinn sígur undir Evrasíuflekann og Íran til norðurs, og ein afleiðing þess er eldvirknin sem hefur myndað Ararat. Fyrir um 20 árum hafði einn af ritstjórum National Geographic tímaritsins samband við mig, og vildi fá álit mitt á ljósmynd sem var tekin í grennd við Ararat. Hún sýnir fyrirbæri sem er eins og bátur í laginu.  Ég taldi að þetta væri jarðmyndun, þar sem hörðnuð setlög hafa myndað fellingu, eins og síðar kom í ljós. National Geographic ákvað að láta málið niður falla og birti ekki myndina í ritinu.  Örkin


Fleiri Hitamet en Kuldamet segja sína Sögu

 HitametÞið kannist öll við tilfinninguna.  Tvö skref áfram og svo rennur þú eitt skref til baka þegar þú gengur upp bratta skriðu.   Er það svona með hægfara loftslagsbreytingar?   Þótt það hlýni, þá eru alltaf kuldaköst öðru hvoru.  En ef til vill er hægt að sjá heildarferilinn ef maður lítur á hitametin í lángri röð af veðurfarsgögnum.  Veðurfræðingurinn sem flytur veðurfréttirnar í sjónvarpinu bendir alltaf á ný hitamet: “Hitinn í gær, 24. júlí, setti nýtt met á þessari veðurstöð.”  Eða: “Dagurinn í gær, 12. janúar, mældist kaldari hér en nokkru sinni fyrr.”  Nú hefur verið gerð samantekt á öllum hita- og kuldametum í Bandaríkjunum fyrir allar veðurstöðvar þar í landi sem hafa verið reknar síðan 1950 (utan Alaska).  Gerald Meehl og félagar birtu grein nýlega í ritinu Geophysical Research Letters um þetta efni, sem eru byggðar á athugunum frá um 1800 veðurathuganastöðvum í Bandaríkjunum síðan 1950.  Niðurstöðurnar eru nokkuð fróðlegar.  Frá árinu 2000 til þessa árs sýna þær  alls 291237 hitamet en aðeins 142420 kuldamet.  Ef hitafar eða loftslag væri stöðugt, þá væru auðvitað jafn mörg hitamet og kuldamet í skránni, en svo er ekki, og telja höfundarnir það góða vísbendingu um hýjun jarðar, a.m.k. í Bandaríkjunum.  Myndin sem fylgir sýnir hlutfallið á hita- og kuldametum í Bandaríkjunum fyrir áratugina frá 1950 til 2009.  Það er greinilegt að hitametin eru fleiri á seinni áratugum, og fer munurinn vaxandi. Hlutfallið síðasta áratuginn sýnir að hitamet eru meir en tvisvar sinnum fleiri en kuldamet. 

Það væri auðvitað fróðlegt nú að sjá hver hlutföllin milli hita- og kuldameta hafa verið á Íslandi.  Hjá Veðurstofu Íslands er til tafla á vefnum yfir hæsta hita á öllum veðurstöðvum á Íslandi, en því miður ekki fyrir lægsta hita, og er því ekki hægt að gera samanburð við þessa fróðlegu greiningu í Bandaríkjunum. 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband