Er samband við Kötlu?

 

_versni.jpgNú í byrjun árs 2010 birti Erik Sturkell og félagar við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands grein um Kötlu og Eyjafjallajökul í merku vísindariti.  Í henni er fjallað um niðurstöður jarðeðlisfræðilegra rannsókna á þessum miklu eldstöðvum.  Með greininni fylgir teikning sem sýnir hugmyndir höfunda um innri gerð eldfjallanna. Slík þversnið í jarðfræðinni eru byggð á öllum fáanlegum upplýsingum og dálitlu hugmyndaflugi, en þau eru mjög gagnleg sem byrjun eða útgangspúnktur fyrir frekari umfjöllun.  Undir Eyjafjallajökli er kvikukerfið sýnt sem einskonar “jólatré” með nokkrum greinum, en stór kvikuþró er hins vegar sýnd grunnt undir Kötlu.  Nú eftir að gosið hófst hefur Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur aukið við myndina til að sýna hugsanleg tengsl nýju gosrásarinnar á Fimmvörðuhálsi við jólatréð undir Eyjafjallajökli.  Teikningin birtist á vefsíðu Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands, og er sýnd hér fyrir ofan, en hún er fyrst og fremst bygð á dreifingu jarðskjálfta, eins og þeir hafa verið staðsettir af Veðurstofunni.   Hinn fjórða mars fjallaði ég hér um dreifingu skjálfta undir Eyjafjallajökli, en þá teiknuðu skjálftarnir  vel útlínur jólatrésins á um 5 til 12 km dýpi undir fjallinu. gossagan.jpg

Í grein Sturkels og félaga er bent á hugsanleg tengsl milli Eyjafjallajökuls og Kötlu, og hefur þetta atriði fengið töluverða umræðu nú þegar gos er hafið.  Kemur þá Kötlugos rétt á eftir?  Það er bent á, að eftir sum eða jafnvel öll gos í Eyjafjallajökli hefur Katla gosið skömmu síðar.  Þannig hófst Kötlugos árið 1823, um einu og hálfu ári eftir að Eyjafjallajökull byrjaði að gjósa. Ég læt fylgja hér með mynd sem sýnir gossögu Kötlu og Eyjafjallajökuls á hentugan hátt, en myndin er af  vefsíðu Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands.  Mig grunar að upprunalegu gögnin komi að mestu leyti frá Guðrúnu Larsen.  Nú er gott að bera saman gossögu eldfjallanna tveggja og leita að hugsanlegu sambandi þeirra á milli.  Þeir sem eru fullir efasemdar og ekki sannfærðir um sambandið milli eldfjallrisanna benda á að Katla gýs svo oft (um 23 gos síðan land byggðist) og að það komi alltaf Kötlugos hvort sem er fyrr eða síðar á eftir Eyjafjallajökulsgosum.  Þá er þetta bara tilviljun í þeirra augum. En aðrir telja að það sé eitthvað  óþekkt samband milli þessara stóru eldfjalla.  Sagan sýnir að Kötlugos eru stórhættuleg og skaðleg og við verðum hreinlega að taka þennan möguleika mjög alvarlega.  Málið er sambærilegt við deiluna um loftslagsbreytingar:  við höfum ekki efni á að láta sem ekkert sé, því ef breytingarnar eru í gangi, þá verður að bregðast við strax nú til að draga úr skaðanum sem bíður okkar í framtíðinni.  

En ef það er samband milli Kötlu og Eyjafjallajökuls, í hverju felst það þá?  Geta kvikuinnskot eða laggangar rekist eins og fleygar af kvikubráð frá jólatrénu undir Eyjafjallajökli og til austurs um 15 km  inni í skorpunni, þar til kvikuinnskotið brýst inn í kvikuþró Kötlu?  Árið 1977 birtum við þrír félagar  grein í vísindaritinu Nature þar sem við stungum fyrstir manna uppá að kvikuinnskot í kvikuþró getur hleypt af stað miklu eldgosi, en þessi grein var afleiðing af störfum okkar í eldstöðinni  Öskju. Hér er tilvitnunin:  Sparks, R.S.J., H. Sigurdsson and L. Wilson, l977. Magma mixing: a mechanism for  triggering acid explosive eruptions.  Nature 267, 3l5-3l8.

Annar möguleiki er sá, að þegar kvika streymir upp í Eyjafjallajökul, þá sé einnig kvikustreymi upp undir rótum Kötlu rétt í nágrenninu.  Það kann að vera, en þá er rétt að benda á að nú er engin skjálftavirkni undir Kötlu – amk. ekki ennþá.  Því er fyrri möguleikinn sennilegri að mínu viti, ef eitthvað samband er mili eldfjallanna.  Að lokum er rétt að geta þess að gosin í Kötlu sem hafa orðið skömmu eftir gos í Eyjafjallajökli hafa verið fremur lítil. 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Það ætti líklega að skipta máli nú að Katla er löngu komin á tíma. Í þau skipti sem Katla hefur gosið í kjölfarið á gosi í Eyjafjallajökli þá var mun styttri tími liðinn frá síðasta Kötlugosi sem hlýtur að skipta máli um líkur á gosi og stærð þess, hefði ég haldið.

Emil Hannes Valgeirsson, 29.3.2010 kl. 17:48

2 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Katla er hvorki ófrísk kona né klukka.  Ég er ekki einn af þeim ssem telja að líkurnar á gosi aukist með tímanum. Statistík sýnir að gos í einhverju eldfjalli er stochastic, og ekki hægt að spá um gos samkvæmt lengd goshlés.  En.....  auðvitað gýs hún Katla aftur, og kannske nú rétt eftir Eyjafjallajökul?  Ef tengingin er raunveruleg.

Haraldur Sigurðsson, 29.3.2010 kl. 18:22

3 identicon

Sæll Haraldur.

Þakka góða pistla hjá þér.

Nú er margt rætt og ritað um þetta eldgos. Hvort sem við aðhyllumst kenningar um tíma eða tímaleysi komandi atburða þá verum við samt að hugleiða það að í ljósi sögunnar þá styttist alltaf tími milli gosa á sama hátt og það er staðreynd að öll gos enda. ;)

 

Einn málverji skrifaði fyrir nokkru eftirfarandi innlegg og vildi ég fá álit þitt á því.

 

http://www.malefnin.com/ib/index.php?showtopic=121658&view=findpost&p=1569452

------------

Talið er að súr gúll sé á aðeins 1-1,5 km dýpi undir Goðabungu. Á tímabili var hann að troða sér ofar en hefur sennilega stöðvast eða allavega hægt verulega á ferðinni. Á ruv var talað um að þetta væri hættulegt án þess að útskýra það frekar.
Það sem getur gerst er að basískt innskot frá kvikuhólfi Kötlu komist í snertingu við þennan súra gúl. Slíkt getur valdið gífurlega öflugu plínísku sprengigosi. Þetta er talið hafa gerst í Öskjugosinu 1875 þegar um 2,5 rúmkílómetrar af gjósku þeyttust upp úr einum gíg (Víti) á nokkrum klukkustundum. Þetta er gríðarlegt magn, öskulag í byggð á Austurlandi varð sumstaðar 20cm alllangt frá eldstöðinni.
það eru reyndar að öllum líkindum tveir svona súrir gúlar undir Mýrdalsjökli, annar undir Goðabungu og hinn austan megin í fjallinu. Ekki er jökulþykktin til að bæta aðstæðurnar.

--------

Kveðja

 

 

 

 

Guðmundur Bjarnason (IP-tala skráð) 30.3.2010 kl. 12:04

4 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Þetta er vissulega möguleiki og fylgir hugmyndum okkar 1977 sem við settum fram varðandi Öskjugosið 1875.

Haraldur Sigurðsson, 30.3.2010 kl. 12:23

5 identicon

Haraldur,

Takk fyrir fína pistla. Veistu um slóð á grein ykkar í heild, frá 1977?

Hún virðist ekki auðfundin, en ég er nú hálfgerður klaufi að gúggla.

einsi (IP-tala skráð) 30.3.2010 kl. 14:50

6 identicon

Fyrirgefðu öll línubilin sem komu óvart með síðast.
Þetta er hrikalegt eldfjall en ekki bara fallegur jökull sem maður hefur dásamað hingað til.
Ekki það að eldfjöll geta verið fallleg líka.
Er annars ástæða til að örvænta ef varlega er farið?

Guðmundur Bjarnason (IP-tala skráð) 30.3.2010 kl. 14:53

7 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Því miður er ég ekki með grein okkarí Nature 1977 í PDF formi.  Ég mun skanna hana inn, þegar tækifæri gefst.  Annars er hún auðfundin á Háskólabókasafninu.

Satt er, að Eyjafjallajökull er hrikalegt eldfjall, en hann hefur verið fremur meinlaus til þessa, síðan land byggðist.

Haraldur Sigurðsson, 30.3.2010 kl. 15:56

8 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Þetta eru ágætis vangaveltur. Stochastic (eða tilviljunakennd?) goshegðun í Kötlu finnst mér vera nýjung í umræðunni. Annars las ég á sínum tíma hugmynd um að langt goshlé í Kötlu væri ekki ávísun á stórt gos, frekar að langt goshlé komi eftir stórt gos.

Sbr. greinina hér undir lið7:

http://www.almannavarnir.is/upload/files/BLS135-150.pdf

En kannski er þetta bara tilviljunarkennt.

Emil Hannes Valgeirsson, 30.3.2010 kl. 17:41

9 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Við verðum að gæta þess, að mannskepnan heldur að allt sé gert í hennar þágu -- eða óþágu. Þannig að órói í eldfjalli hljóti að enda með gosi.  Það er ekki rétt.  Mikill meirihluti af kviku kemur aldrei upp á yfirborðið og storknar djúpt í skorpunni. Sennilega er um 20% af kvikunni sem gýs, eða jafnvel minna.  Það er enginn vafi að mikið magn af kviku er undir Kötlu, í kvikuþró sem liggur grunnt.  Ef til vill getur kvikuhlaup frá undirrótum Eyjafjallajökuls hleypt Kötlu af stað, alveg eins og við teljum að Askja hafi farið af stað vegna kvikuhlaups árið 1875 (sjá grein okkar í Nature 1977).

Haraldur Sigurðsson, 30.3.2010 kl. 18:29

10 identicon

Góðar greinar. Hins vegar set ég smá spurningamerki við mynd 

http://vulkan.blog.is/users/b9/vulkan/img/gossagan.jpg

Þar virðist eins og katla hafi gosið síðast 1999 ????

Ég kanski fylgist ekki nógu vel með. Það er líka alltaf verið að tala um að það sé svo langt síðan síðast!! Svo getur líka verið að ég sé svon mikið utan við mig því ég man ekki eftir gosi úr Kötlu!!

annars fínar greinar og mjög fræðandi.

Kjarri 

kjarri (IP-tala skráð) 1.4.2010 kl. 03:18

11 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Á myndinni frá Jarðvísindastofnun varðandi gossögu Kötlu eru sýnd hugsanleg gos árin 1955 og 1999.  Ég held að atburðir 1955 (jökulhlaup og sjálftar) séu nokkuð góð vitneskja um gos undir jökli það ár. Ekki kom það gos upp úr jöklinum.  Að mínu áliti eru rökin fyrir gosi árið 1999 veikari.

Haraldur Sigurðsson, 1.4.2010 kl. 06:40

12 identicon

Það sem fram hefur farið hér að ofan og í öðrum pistlum dr. Haraldar vekur fyrst og fremst þá tilfinningu hjá mér, ómenntuðum alþýðumanni, að það séu mikil forréttindi að vera Íslendingur. Varla mundi það þekkjast með öðrum þjóðum að nánast hver sem er geti átt orðastað við mesta vísindamann samtímans á sviði eldfjallafræði, að viðbættu því hversu skiljanleg þessi flóknu vísindi verða almúgamanni þegar dr. Haraldur skrifar um þau. Hafðu heila þökk fyrir þetta, dr. Haraldur.

Snæfellingur (IP-tala skráð) 2.4.2010 kl. 21:31

13 identicon

Það er afar gaman að lesa það sem þú hefur að segja um eldgos Haraldur. Ein spurning: Er eitthvað til í að gosið á Fimmvörðuhálsi komi úr möttlinum en ekki úr kvikuþró?

Með kveðju E

Erling Magnússon (IP-tala skráð) 3.4.2010 kl. 20:18

14 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Já, það er nokkuð til í því, en ekki alveg beint úr möttlinum.  Kvikan byrjaði að rísa úr möttlinum á 25 km dýpi í byrjun janúar, og safnaðist fyrir á um 10 km dýpi undir Eyjafjallajökli. Þegar hún kom beint úr möttlinum var hún mjög heit, sennilega um 1230 stig á celsíus, og með hátt magnesíum innihqld, sennilega um 10% MgO.  Þegaqr hún stoppaði á 10 km dýpi kólnaði hún lítið eitt, og út úr kvikunni féllu olívín kristallar, en það lækkaði MgO innihald niður í um 7% MgO áður en hún gaus á yfirborði. Kvikan er því lítið eitt diffruð.

Haraldur Sigurðsson, 3.4.2010 kl. 21:19

15 identicon

Sæll aftur Haraldur.

Eru þá ekki meiri líkur á að gosið verði langvinnt? Er verið að tala um eitthvað svipað og var í umræðunni um Upptyppinga, dyngjugos sem gæti varað ár eða tugi ára?

Mkv E

Erling Magnússon (IP-tala skráð) 5.4.2010 kl. 13:26

16 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Erling: Ef þetta er týpískt dyngjugos, þá eru allar líkur á því að það endist í nokkur ár.  Aftur má vitna í Surtsey, sem gaus í fimm ár.  Mikil kvika kann að hafa safnast fyrir á 5 til 10 km dýpi, þar sem skjálftavirknin var hvað mest allt frá byrjun janúar mánaðar.  Kvikusöfnun þar er mjög lík og því sem gerðist undir Upptyppingum, reyndar þar á um 10 til 14 km dýpi, en þar gaus ekki (ekki enn....).

Haraldur Sigurðsson, 5.4.2010 kl. 13:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband