Einföld spá um lok umbrota í Grindavík

 Höfundar

Haraldur Sigurðsson, jarðfræðingur og Grímur Björnsson jarðeðlisfræðingur

Jarðskjálftar, kvikuhlaup og eldgos hafa leikið íbúa Grindavíkur grátt, allt frá 10. nóvember 2023 og til þessa dags. Hvenær lýkur þessum hamförum? Hvenær geta íbúarnir snúið heim og útgerðin komist aftur í gang í einni stærstu verstöð Íslands? Við teljum að nú liggi fyrir vísindagögn, sem leyfa okkur að áætla hvenær kvikuhreyfingum og gosum lýkur í Sundhnúks gígaröðinni. 

Umbrotin við Grindavík stafa af miklum flekahreyfingum, sem hófust fyrir alvöru 10. nóvember 2023. Þá rykktist Norður Ameríku jarðskorpuflekinn til vesturs, frá Evrasíuflekanum fyrir austan. Það greiddi hraunkviku leið úr efri mörkum möttuls jarðar, frá um 15 km að um 5 km dýpi. Þar safnast kvikan fyrir í láréttu kvikuinnskoti undir Svartsengi, í svonefndum laggangi. Úr þessu lárétta innskotslagi hafa minnst fimm kvikuhlaup til austurs átt sér stað um brot í jarðskorpunni, og endað með hreyfingum og gosum á um 20 km löngu sprungukerfi sem venjan er að kenna við Sundhnúk.

Mælanet jarðeðlisfræðinnar fylgist náið með atburðum í jarðskorpunni á Reykjanesskaga. Einkum GPS mælar, ásamt jarðskjálftamælum, og ekki síst radar mælingum frá gervihnöttum sem skynja hreyfingar á yfirborði jarðar með millimetra nákvæmni. Tæknin er stórkostleg og gefur ný tækifæri til rannsókna og ályktana. Slíka tækni og mælingar má að okkar mati að nota til að spá fyrir um þróun umbrotanna í Grindavík, einkum hvort goslok séu í nánd og óhætt að flytja í bæinn á ný. Hér sýnum við tilraun til gerðar slíkrar goslokaspár.

Frá því í byrjun mars 2024 hefur Veðurstofan birt og viðhaldið mynd er sýnir kvikuinnrennsli í lagganginn undir Svartsengi. Þetta framtak er til fyrirmyndar því nú geta jarðvísindamenn innan sem utan Veðurstofunnar nýtt slíkar upplýsingar til að túlka ástandið og giska á framhaldið. Mynd 1 sýnir gögnin endurbirt af vef Veðurstofunnar.

 Image 12.3.2024 at 15.08

Mynd 1: Línurit Veðurstofunnar um rúmmál kviku undir Svartsengi
(heimild: (https://www.vedur.is/media/uncategorized/graph_mogi_is_12032024.png))

Á grunni myndar 1 gerðum við töflu 1 með upplýsingum úr myndinni. Sýnd er dagsetning hvers kvikuhlaups, í hve marga daga kvika safnaðist upp fram að kvikuhlaupinu, og hvert var lokamagn uppsafnaðrar kviku undir Svartsengi í milljónum rúmmetra. Loks sýnir aftasta súlan í töflunni meðalsöfnunarhraða kviku inn í Svartsengishólfið. Ljós er að meðalinnrennslið er fallandi með tíma og hefur nánast helmingast frá fyrsta kvikuhlaupinu. Við setjum fyrirvara við hraða kvikusöfnunar þann 11. mars, sökum þess að kvika slapp úr Svartsengishólfinu í byrjun mars. Því er uppsafnaða rúmmálið vanmetið og meðalhraðinn líka.

tafla2

Tafla 1: Tölulegar upplýsingar um kvikusöfnun undir Svartsengi (tekið úr mynd 1)

Sem sagt, hraði kvikusöfnunar undir Svartsengi er að hægja á sér. Margt getur komið til. Mikilvægast teljum við er að hin árhundraða uppsafnaða plötugliðnun um Sundhnúk hefur leyst út. Það gerir jarðskorpuna smám saman sterkari gagnvart myndum kvikuinnskota, og bindur loks enda á atburðinn.

Mynd 2 sýnir frumgerð spár okkar um lok umbrota í Grindavík. Hraði innstreymis í kvikuhólfið undir Svartsengi er teiknaður á móti tíma, með bláum punktum og línu (tafla 2). Gert er ráð fyrir línulegri hegðun og tvær spálínur sýndar. Sú græna innifelur vafasama gagnapunktinn frá 11. mars 2024 meðan að sú gula er án hans. Þessi einfalda aðferð spáir því að innstreymi kviku í lagganginn undir Svartsengi ljúki síðsumars árið 2024, og þar með hreyfingunum í Sundhnúk suður um til Grindavíkur.

 Kvikuflæði3

Mynd 2: Meðalhraði kvikuinnstreymis undir Svartsengi með tíma og tvær línulegar spár.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband