Bloggfærslur mánaðarins, desember 2009

Unobtainium og Kvikmyndin Avatar 3D

Avatar 3DÍ frumefnatöflunni eða lotukerfinu eru talin alls 118 frumefni sem eru möguleg í heimi okkar. Þar af eru 94 þekkt frumefni sem koma fyrir í náttúrunni. Hin frumefnin eru gerviefni, sem hafa verið búin til í ýmsum tilraunum, en þau eru ekki í jafnvægi og hverfa um leið. Það nýjasta er frumefni númer 118, sem ber nafnið Ununoctium og var framleitt í kjarnaofni í Rússlandi árið 2006. Nú virðist enn eitt frumefni í viðbót bætast í hópinn, en það er Unobtainium, sem finnst í miklu magni á plánetunni Pandóru, eins og kemur nú fram í kvikmyndinni Avatar 3D. Vel vopnað lið Bandaríkjamanna ræðst inn á Pandóru árið 2154, til að hefja námugröft á hinu verðmæta frumefni Unobtainium (ísl. ófánalegtíum?). Græðgi, rányrkju og grófustu náttúruspjöllum er hér stillt upp andspænis innfæddum þjóðflokki, sem nefnast Na´vi, en þeir lifa í sátt og jafnvægi við náttúruna. Kvikmyndin er stórkostleg, einkum fyrir tölvuvinnu með GCI tækni, en allt fer vel á endanum. En myndin er listaverk og mjög áhrifamikið áróðurstól sem mun marka tímamót, að mínu áliti. UnobtainíumBoðskapur hennar er hreinn og tær, einmitt nú þegar almenningur um allan heim er að vakna af vondum draumi varðandi spillingu umhverfis okkar og hætulegra loftslagsbreytinga. Það kemur ekki fram í myndinni til hvers nota átti hið verðmæta og eftirsótta Unobtainíum. Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem heitið Unobtainium kemur fram í dagsljósið. Í kringum 1960 notuðu bandarískir flugverkfræðingar nafnið Unobtainium fyrir léttan og sterkan málm sem þeir sóttust eftir en gátu ekki fengið í flugvélarnar, en það er efnið títaníum. Sovétríkin sátu á öllum birgðunum af títaníum á þeim tímum Kalda Stríðsins og vildu ekki láta af hendi. Síðan hafa verfræðingar notað nafnið fyrir öll ímynduð efni sem þeir vildu helst hafa við hendina en eru ekki ennþá uppgötvuð eða fáanleg. Satt að segja var ég alveg hissa á því að James Cameron skyldi nota nafnið Unobtainíum í kvikmynd sinni, og leyfa sér slíkan prívat brandara, sem kynni að gera hluta verksins að gamanmynd. James Cameron leyfir sér annan prívat brandara í myndinni, þegar hann skírir plánetuna Pandóru. Í grísku goðafræðinni er Pandóra fyrsta konan. ÓfáanlegtíumHenni var gefin askja þar sem guðirnir komu fyrir ýmsum gjöfum, með þeim fyrirmælum að hún skyldi ekki opna öskjuna. En Pandóra var gædd kvenlegri forvitni, og gat ekki staðist freistinguna. Þá slapp úr öskjunni allt hið illa, sjúkdómar, hégómi, öfund, og fleiri mannlegir brestir. Neðst í öskjunni var vonin, en Pandóra skellti lokinu á áður en vonin komst út. Í Avatar er vonin sjáanleg.Það er enginn guð í þessari mynd, heldur er náttúran sjálf mikilvægasti og æðsti krafturinn. En þetta hafa lengi verið skilaboðin frá Hollywood, til dæmis með myndunum Dancing with wolves og Pocahontas. Þótt þeir innfæddu séu bláir, þá er myndin Græn, og mikil ádeila á hernað. Sjálfsagt mun mörgum íhaldsmönnum þykja boðskapurinn rangur og ganga of langt á móti stefnu um iðnvæðingu og “framfarir”, en Hollywood hefur nú yfirleitt farið sínar eigin leiðir í þeim málum (að undanskildum leikurunum Ronald Regan, John Wayne og Charlton Heston).

Io og Hégómagirnd mín

Io er ekki pizzaVinkona mín er stjörnufræðingur sem starfar hjá Jet Propulsion Laboratory í Kalíforníu og vinnur að rannsóknum á Io, en það er eitt af fimm tunglum sem svífa umhverfis plánetuna Júpiter. Io er dálítið stærra en tunglið okkar, og hefur ekki neitt andrúmsloft, en Io hefur það sem meira er: mörg virk eldfjöll! Stórkostlegar uppgötvanir voru gerðar á Io eftir að bandarísku geimförin Voyager 1 og Voyager 2 sigldu í grennd við það fyrst 1977 og hafa sent síðan ógrynni af upplýsingum til jarðar. Þessi geimför eru enn virk og á ferðinni um geiminn. Það var í kringum 1995 að vinkona mín sagði mér að fundist hefði fjöldi af áður óþekktum eldfjöllum á Io og nú þyrfti að gefa þeim öllum nafn. Hún vildi endilega skýra eitt í höfuðið á mér, en sú er reglan að á Io verða allir gígar að bera nafn goða eða guða eða þjóðsagnapersóna. Sigurður FáfnisbaniHaraldur gekk ekki upp, en Sigurd gæti gengið, í höfuð á Sigurði Fáfnisbana. Eins og kunnugt er við lestur Völsungasögu, þá er Sigurður ein af stóru hetjunum í fornnorrænum þjóðsögnum. Hann drap til dæmis drekann Fáfnir, baðaði sig í blóði hans, drakk það líka og steikti hjartað og át. Hér með fygir trérista sem sýnir Sigurð drepa drekann Fáfni. Þannig kom til að eldfjall á Io heitir Sigurd Patera og er skýrt í höfuð á mér, og það er bara gott fyrir hégómagindina, ekki satt? Patera er lýsing á eldfjalli sem stjörnufræðingar nota, þegar það er flatt út eins og stór súpudiskur á hvolfi eða það form sem við nefnum dyngja á íslensku. Myndin fyrir neðan sýnir eldfjallið Sigurð á Io. Sigurd PaterNafnið Io er reyndar nokkuð sérsætt, en í grísku goðafræðinni var Io mær sem var ástfangin af Zeus (sem er sá sami og Júpiter), og breyttist Io í kú til að fela sig fyrir Heru, hinni afbrýðissömu eiginkonu Zeusar. Túnglið Io var uppgötvað af sjálfum Galileo Galilei árið 1610, eftir að hann hafði fundið upp og smíðað fyrsta sjónaukann. Önnur íslensk heiti á Io eru Völund og Surtur, og svo auðvitað Loki, sem er ef til vill stærsta og virkasta eldfjall í sólkerfinu okkar. Sigurður hefur ekki gosið síðan athuganir hófust, en aftur á móti er Loki kraftmesta eldfjallið í sólkerfinu, og er stöðugt gjósandi síðan hann var uppgötvaður árið 1979.  Mynd tekin af Io að nóttu til er sýnd hér fyrir neðan, og sýnir vel að allt er glóandi í eldgosum. Hitinn sem streymir frá Loka er meiri en frá öllum eldfjöllum jarðar.  Nóttin á IoÍ Loka er risastór askja sem er yfirleitt full af heitum hraunum og er þetta sennilega virk og fljótandi hrauntjörn. Eftir Voyager leiðangrana var tunglið Io kannað af geimfarinu Galileo, sem hafði innrauðan geislahitamæli um borð. Þá kom í ljós að sum hraun sem renna á Io í dag eru 1400 til 1700 stig á celcíus, eða töluvert heitari en hraunkvika sem rennur á yfirborði jarðar (heitasta hraun sem vitað er um á Íslandi var um 1240 stiga heitt). Hvernig stendur þá þessum mikla hita á Io? Á jörðu runnu 1500 stiga heit hraun mjög snemma í jarðsögunni, eða fyrir um einum til tveimur miljörðum ára. Slík hraunkvika er kölluð komatiít, með mjög hátt innihald af magnesíum, og hún er talin myndast við miklu hærra bræðslustig í möttli jarðar. Sem sagt: þegar jörðin var heitari en í dag. Leifar af fornum komatiít hraunum finnast í Suður Afríku og í Kanada í dag. Já, en hvers vegna er Io heitari og með fleiri eldgos en nokkur önnur pláneta eða tungl? Hitaorkan er sennilega tengd breytilegum krafti sem myndast af aðdráttarafli Júpiters á Io. Tunglið Io er á sporöskjulagaðri braut umhverfis risann Júpiter, og í hverri hringferð kreistir Júpiter Io eins og þegar við kreistum safaríka appelsínu milli handanna. Mikill hiti myndast inní Io við þetta, sem veldur hita og eldgosum á yfirborði. En gos á Io eru ekki aðeins mjög tíð, heldur stendur strókurinn hærra en nokkur önnur gos í heimi.  Tvö gosStrókarnir eða gosský frá eldfjallinu Pele á Io hafa mælst 300 til 460 kílómetrar á hæð, en Pele gýs nær stöðugt. Hæsti gosstrókur á jörðu var þegar Tambora í Indónesíu gaus árið 1815, og náði hann 42 kílómetra hæð. Skýringin er að hluta til tengd því að aðdráttarafl Io er aðeins einn sjötti af aðdráttarafli jarðar. Gosin í Geysi mundu fara upp í 20 kílómetra hæð ef aðdráttarafl jarðar væri svo lágt. En strókarnir á Io eru ekki myndaðir við venjuleg sprengigos, heldur eru þeir að mestu leyti brennisteinsefni. Síðan fellur brennisteinn niður á yfirborðið og gefur Io sinn sérkennilega litarhátt, eins og ofbökuð pizza. Eitt merkilegasta atriði varðandi Io er að hér sjást mjög fáir gígar á yfirborði, sem hafa myndast vegna árekstra við loftsteina. Ef við lítum á tunglið okkar, til dæmis, þá finnast loftsteinagígar á öllu yfirborði þess. Skýringin er sú, að yfirborð Io er mjög ungt og alltaf að endurnýjast, eins og yfirborð jarðar, en yfirborð tunglsins er gamalt, og hefur ekki endurnýjast í um þrjá miljarða ára. Tunglið varðveitir alla söguna um loftsteina árekstra, en jörðin og Io eru eins og skólatafla sem er strokin og hreinsuð eftir hvern tíma. Á Io eru það stöðug eldgos sem hreinsa töfluna og endurnýja yfirborðið; á jörðu eru það flekahreyfingarnar. Tvashtar gosstrókurUppgötvanir og rannsóknir á Io og öðrum undrum geimsins eru að mestu leyti vegna geimskota sem voru gerð fyrir nokkrum áratugum. Það hefur tekið mörg ár að taka á móti og vinna úr upplýsingunum sem eru enn aðberast til jarðar. Því miður verður nú langt hlé framundan, þar sem mannkynið hefur dregið mikið úr geimrannsóknum undanfarið. Barnabörn okkar munu vafalaust ásaka okkur um vanrækslu á þessu sviði í framtíðinni.

Snorri goði: fyrsti Jarðfræðingurinn?

Þingvellir eftir CollingwoodÞegar ég ólst upp í Stykkishólmi var alltaf litið á Helgafell sem einstaklega merkan stað. Ekki mun það hafa verið vegna kristni, enda var fellið gert helgt á níundu öld af heiðingjanum Þórólfi Mostraskegg, heldur var virðingin tengd þeim persónum Íslandssögunnar er bjuggu á Helgafelli áður fyrr, einkum þeim Guðrúnu Ósvífursdóttur og Snorra goða Þorgrímssyni. Ég hef alltaf haldið að Snorri goði (963-1031) hafi verið frekar lítill og sköllóttur karl, en hann var sennilega einn færasti stjórnmálamaður Íslandssögunnar - og virðist einnig hafa haft töluverða þekkingu hvað snertir jarðfræði. Hann Snorri barst aldrei mikið á. Þegar ráðist var til utanfarar í verzlunarferð á 14 ára aldri var útbúnaður hans þannig: “En Snorri var í svartri kápu og reið svörtu merhrossi góðu. Hann hafði fornan trogsöðul og vopn lítt til fegurðar búin.” Síðar er honum þannig lýst í Eyrbyggju: “Snorri var meðalmaður á hæð og heldur grannlegur, fríður sýnum, réttleitur og ljóslitaður, bleikhár og rauðskeggjaður. Hann var hógvær hversdaglega.” Ég vil minnast hér á þátt Snorra goða í kristnitöku á alþingi. Kristnitakan á Íslandi árið 1000 er einn merkasti atburður í sögu landsins, ekki vegna þess að atburðurinn hafði áhrif á trúarfarið, heldur vegna þess að hann gefur óvenjulega innsýn í stjórnmál á þeim tíma og einnig þekkingu á jarðfræði. Þetta atvik á Lögbergi er eitt af örfáum tilvikum þar sem fjallað er um náttúrulegt umhverfi í Íslendingasögum. Hér var minnst á jarðeld, ekki vegna þess að stórkostlegar náttúruhamfarir voru í gangi, heldur eingöngu vegna þess að hann hafði stjórnmálalega þýðingu. Sagan er alþekkt, en helstu þætti eru sem hér segir: Erindrekar Noregskonungs, Gissur og Hjalti, gengu til Lögbergs á Þingvöllum og boðuðu kristna trú. Þegar Gissur og Hjalti luku máli sínu varð uppi fótur og fit. Sögðu kristnir menn og heiðnir því næst upp friði sín í milli og leit út fyrir að Ísland yrði tvö ríki. Þorgeir Ljósvetningagoði og lögsögumaður var fenginn til að fella úrskurð í þessu máli. Sannfæringakraftur Þorgeirs Ljósvetningagoða réði úrslitum. Á meðan á þessu stóð kom maður hlaupandi og sagði að jarðeldur væri byrjaður í Ölfusi og að hann stefndi á bæ Þórodds goða. Heiðnir menn sögðu “Eigi er undur í að guðin reiðist tölum slíkum” Snorri goði að Helgafelli mælti þá. “Um hvað reiddust goðin þá, er hér brann hraunið, er nú stöndum vér á.” Þar með flutti Snorri goði íslenska menningu út úr forneskju og hjátrú, inn í meira raunsæi, þar sem hamfarir eins og eldgos eru náttúruviðburður, og ekki stjórnað af reiðum guðum. Merkilegast við þennan atburð er vísbendingin um að Snorri goði gat greint bergtegund, eins og basalt bergið á Þingvöllum, og áttað sig á því að það var hraun að uppruna. Ég sé hann í anda, standa í Lögbergi og stappa niður fætinun ofan á hraunið, orðum sínum til áherzlu. Hraunið sem Snorri goði stóð á er Þingvallahraun, runnið fyrir um níu þúsund árum. En hann áttaði sig á því að þetta gamla grá berg var myndað í eldgosi. Þetta er mjög mikilvægt atriði, því almennt voru fræðimenn úti í hinum stóra heimi ekki búnir að átta sig á þvi að gamalt basalt væri hraun að uppruna fyrr en á nítjándu öldinni. Kristnitökuhraun  Sigmundur EinarssonVar Snorri goði fyrsti jarðfræðingurinn? Svínahraunsbruni norður af Þrengslum á Hellisheiði mun vera eldgosið og hraunið sem kom við sögu á Lögbergi. Með geislakolamælingum hefur verið staðfest að Svínahraunið rann um 1000. Ekkert annað hraun rann á þessum slóðum um svipað leyti svo það er nokkuð ljóst að sendiboðinn á Alþingi hefur verið að segja frá þessum jarðeldi. Jarðfræðikortið eftir þá Sigmund Einarsson og Kristján Sæmundsson, sem fylgir hér með, sýnir eldrauðu svæðin, en það eru hraun runnin um þetta leyti. Elsta lýsing af kristnitökunni á alþingi mun vera í Íslendingabók Ara fróða Þorgilssonar, frá um 1130. Ari nam og marga fræði að Þuríði dóttur Snorra goða, enda einn af afkomendum hans. Það er því merkilegt að Ari fróði minnist ekkert á þátt Snorra goða. Hins vegar kemur umfjöllun um Snorra goða og jarðeldinn fram í Kristni sögu, en sumir telja að Sturla Þórðarson (1214–1284) hafi ritað hana. Ég læt fylgja hér með vatnslitamynd af Þingbrekku á Þingvöllum, eftir enska listamanninn W.G. Collingwood (1897). Var Lögberg þannig útlítandi árið 1000? Collingwood kom líka við sögu á Helgafelli, þar sem hann gróf upp leiði Guðrúnar Ósvífursdóttur og varð fyrir vonbrigðum með að finna aðeins bein og spýtur, en ekkert gullið.

Nína Tryggvadóttir og Surtseyjargosið

Gos1964Einn af nemendum Finns Jónssonar og Ásgríms Jónssonar um skeið var Nína Tryggvadóttir (1913-1968) frá Seyðisfirði. Hún dvaldi lengi í New York þar sem hún málaði frábær abstrakt-expressionista verk sem vöktu mikla athygli. Þótt verk hennar væru öll abstrakt, þá var kjarni þeirra íslenskt landslag. Það er augljóst í tveimur málverkunum sem hún nefndi “Gos”, máluð rétt eftir að Surtseyjargosið hófst 1963. Þessar myndir eru í Listasafni Íslands: olíumálverkið Gos 1964 (131,5 x 105 sm; LI-01383) og krítarmynd sem er sennilega skyssa fyrir málverkið (LI-04168). Nína mun hafa flogið yfir eldstöðvarnar og litavalið ber það með sér, því það endurspeglar liti og áferð í gosmekkinum og í öskunni á ungu eynni sem var að vaxa úr hafi. Myndformið hefur öll einkenni mynda Nínu, ferhyrningar eða kassar eru áberandi, en hér ná þeir vel að gefa hugmynd um sprengingu og mikinn kraft í gosinu, sem tætir allt í brot. Mér finnst þó litavalið einstaklega vel heppnað, þar sem brúnu littónarnir ná alveg litunum á gosmekkinum og öskunni í Surtseyjargosinu, eins og meðfylgjandi myndir sýna. SyrtlingurAnnars er ferill Nínu í Bandaríkjunum mikil sorgarsaga, þar sem hún varð fyrir árás McCarthyismans. Í kalda stríðinu milli Bandaríkjanna og Sovíetríkjanna eftir seinni heimstyrjöldina greip um sig ótti mikill í Bandaríkjunum sem beindist að kommúnistum. Höfuðpaurinn í baráttunni á móti Sovíetríkjunum og kommúnisma var öldungardeildarþingmaðurinn Joseph McCarthy.  MökkurHann stýrði þingnefnd sem gerði stöðugar árásir á meðlimi verkalýðsfélaga, á marga menntamenn, alla vinstri menn, og þá sem á einhvern hátt höfðu verið tengdir við stefnur kommúnista. Margir voru settir á svarta listann, nokkrir fangelsaðir og sumum vísað úr landi. Listinn er alveg ótrúlegur. Þarna er að finna mikinn hluta af besta liðinu úr Hollywood, og menn og konur á borð við Aaron Copeland, Leonard Bernstein, Charles Chaplin, Paul Robeson, Lena Horne, Luis Bunuel, Dorothy Parker, Dashiell Hammett, Pete Seger, Gypsy Rose Lee. Nína Tryggvadóttir lenti í þessum hóp, sem að sumu leyti má líta á sem mikinn heiður. Þegar stjarna Nínu í New York var að rísa sem hæst, þá var henni bönnuð landvist í Bandaríkjunum í um tíu ára bil, þar sem hún var talin hafa sambönd við kommúnista.  li 04168Hún var komin inn í innsta hring listamanna í New York þegar þetta gerðist og útlegðin var mikið áfall fyrir hana og fjölskyldu hennar.

Finnur málar Surtseyjargosið 1963

Surtsey eftir Sigurgeir JónassonEin frægasta ljósmynd sem tekin hefur verið við Ísland var tekin af Sigurgeir Jónassyni í Surtseyjargosinu 1. desember 1963. Mig grunar að hún sé íkveikjan á bak við málverk sem Finnur Jónsson gerði, og sýnt er í Eldfjallasafni í Stykkishólmi. Þegar Sigurgeir tók myndina af Surtsey var gígur nýju eldeyjarinnar opinn fyrir hafi og sjór streymdi niður í hann. Við það mynduðust stórfenglegar gufusprengingar, sem þeyttu gjósku hátt í loft upp. Gosmökkurinn varð jarðtenging milli andrúmsloftsins of jarðar og sífelldar eldingar blossuðu umhverfis og inní stróknum. Myndin birtist í Mogganum og vakti almenna athygli, ekki síst meðal vísindamanna. Sveinbjörn Björnsson, Sigurgeir og fleiri skrifuðu merkar geinar um uppruna eldinganna og rafstrauma í gjóskustrókum. Það er rafspenna í jörðu, en við slík gos myndast mjög há jákvæð hleðsla í gjóskustróknum og orsakar hún eldingarnar. Mér datt ljósmynd Sigurgeirs strax í hug þegar ég sá málverkið eftir Finn Jónsson á Listasafni Íslands. Mynd Finns er stórkostleg og skemmtileg, enda þótt hún sé ekki jarðfræðilega rétt. Hann sýnir jarðeldinn rísa úr hafi, og notar hamrana í Heimaey sem forgrunn. Finnur nær að lýsa því ótrúlega, að eldur geti risið uppúr sjó.  SurtseyEn gosið er sýnt eins of brenna, þar sem eldtungur úr hafinu sleikja himinn. Finnur fellur í sömu gömlu gildruna og forferður okkar varðandi jarðeld, að eldgos sé bruni. Við vitum nú að auðvitað er enginn eldur í gosi, heldur gýs upp glóandi heit kvika. En mynd Finns er svo falleg og lífleg að við fyrirgefum þótt hún sé ekki alveg samkvæmt jarðfræðilegum lögmálum. Finnur Jónsson (1892-1993) var fæddur í Hamarsfirði á Austfjörðum og var bróðir Ríkharðs Jónssonar myndskera. Þegar hann kom heim eftir í nám í Danmörku og í Þýskalandi þá málaði hann abstrakt og jafnvel kúbisma verk, sem ekki var góður jarðvegur né markaður fyrir á þeim árum í Reykjavík. Hann var fyrstur íslendinga að mála í þeim stíl. Þá snéri hann sér að natúralisma og gerði margar myndir af lífi sjómanna og einnig frábærar landslagsmyndir eins og Beinin hennar Stjörnu (1934).

Að klífa Rinjani

MoskaÍ byrjun desember 2009 fór ég í eina af mínum erfiðustu fjallgöngum á ævinni. Ég kleif Rinjani eldfjall á eynni Lombok í Indónesíu, sem er 3726 metrar á hæð. Jæja, kannske var hún ekki sú erfiðasta; ég kleif Popocatepetl í Mexíkó sem er 5426 metrar á hæð, árið 1982, og Nevado del Ruiz eldfjall í Kolumbíu árið 1985, en það er rúmir 5300 metrar. En þá var ég yngri… Rinjani gaus síðast í maí 2009 og eftir gosið var allur aðgangur að fjallinu lokaður ferðamönnum, en það var nýopnað þegar okkur bar að garði. Ég hafði einkum mikinn áhuga á að sjá öskjuna í Rinjani, sem er ein af yngstu öskjum jarðar. Við hófum ferðina í Bayani þorpi, sem er nálægt norður strönd Lombok eyjar. Af tilviljun rakst ég á mjög merkilega forna byggingu í þorpinu, sem er moska frá fimmtándu öld. Kuno Bayan moskan er sú elsta á eynni Lombok, og er byggð sennilega árið 1470 af fylgjendum wetu telu, sem er frekar frjálslegt afbrigði af múhameðstrú. Það var hér sem múhammeðstrúin barst fyrst til Lombok, en eyjaskeggjar voru allir hindú trúar fyrir þann tíma. Moskan er eins og virki, reist á um tíu metra háum grunni sem er hlaðinn úr stórum steinhnullungum. Þá var reist ferhyrnd grind úr harðviði, sem stendur enn. Klæðning að utan er að mestu gerð með bambus, sem er klofinn eftir endilöngu og vandlega raðað saman til að mynda þétt þak og veggi. Umsjónarmaður leyfði okkur að kanna moskuna, en hún er ekki í notkun heldur varðveitt sem fornminjar, og ein sú elsta í allri Indónesíu. RinjaniTil fjallgöngunnar á Rinjani réðum við leiðsögumann og tvo burðarmenn úr þorpinu. Þetta er nokkra daga ferð og þarf góðan undirbúning, mat og drykkjarvatn. Lagt var af stað klukkan 4 að morgni, og gengið fyrst eftir góðum stíg sem lá um regnskóginn. Burðarmennirnir vildu ekki nota bakpokana, heldur kusu að bera farangurinn í tveimur körfum, sem þeir bera á bambus slá yfir öxlina. Ég ók eftir því að hæna hékk á hvolfi í spotta utan á einni körfunni – lifandi. “Ayam hutan” skógarhæna, sagði leiðsögumaðurinn, “Makan malam” kvöldmatur. Burðarmennirnir eru léttir í spori, þótt öll þyngslin á bambus stönginni hvíli beint á einum púnkti á öxlinni. Fljótt var á brattann að sækja, og undir fæti var ekki lengur eldfjallaska heldur gamalt hraun. Um hádegisbil var numið staðar, og burðarmenn kveiktu fljótt eld, suðu hrísgrjón og hituðu te. Síðan var lagt af stað í síðasta spölinn þann daginn, uppá brún öskjunnar sem hefur myndast í vestur hluta Rinjani eldfjalls. Á leiðinni höfðu burðarmenn safnað eldivið, því nær allur trjágróður hverfur þegar ofar kemur. Eftir mikið erfiði komumst við loks uppá öskjubrúnina um þrjú leytið í um 2000 metra hæð, og við blasti stórfengleg sjón. Askjan er um 8,5 kílómetrar í þvermál og í henni er stórt gígvatn sem ber heitið Segara Anak, eða Barn Hafsins. Í austur hluta vatnsins er gjósandi eyja sem stækkar sífellt og hraun frá eynni hefur nú náð alla leið til austur strandar öskjunnar. Eyjan nefnist Gunung Baru, eða nýja fjallið, en gígurinn, sem hefur verið stöðugt virkur síðan athuganir hófust 1847, er kallaður Barujari, nýji fingur. Við tjölduðum á öskjubrúninni, efst á um 200 metra háum hamri, og hér var útsýni eins stórfenglegt og hugsast getur. En gosið í Barujari sendi frá sér mikið ský og brennisteinsmóða lá yfir vatninu öllu. Það var farið snemma í háttinn, því mikið verk og erfiði var framundan næsta dag. En kuldinn var ótrúlegur, því á nóttinni fer hitinn niður undir frostmark og þá kvarta burðarmenn mikið. Þeir liggja þétt saman í hrúgu í miðju tjaldinu til að halda hita hvor á öðrum. Ég var nokkuð vel útbúinn og með góðan svefnpoka. Um þrjú leytið er þeim orðið of kalt til að sofa og byrja þá að kveikja bál fyrir utan tjaldið til að hita kaffið og sjóða hrísgrjón. Svo drógu þeir fram nokkur hálfúldin síli úr farangrinum, brytjuðu niður og hrærðu saman við hrísgrjónin, ásamt sterkum pipar. Þetta var ekki svo slæmur morgunmatur. Við erum búnir að binda böggla og komnir af stað áður en fyrstu sólareislarnir byrja að skína. Reyndar gengur ferðin best eldsnemma á daginn, áður en hitinn verður óþægilegur. Það var enn myrkur þegar við byrjuðum að klifra niður hamrana og niður í öskjuna, þar til við komum að vatninu. Askjan myndaðist í miklu sprengigosi á þrettándu öld, þegar kvikuþróin tæmdist og fjallið hrundi saman. ASTER VatniðVatnið er yfir 22 stiga heitt vegna jarðhita á botni þess, og yfir 200 metar á dýpt. Það er allt gulbrúnt á lit, og sömu leiðis ströndin umhverfis, vegna útfellinga af járnhydroxíð efnum sem myndast við jarðhitann.   Næstu tveir dagar voru erfiðir, en við fikruðum okkur hægt og sígandi upp úr öskjunni að austanverðu og upp á tind Rinjani, í 3726 metra hæð. Aðal vandamál okkar var stöðugur vindur, og svo kuldinn á nóttinni. Burðarmennirnir urðu eftir í efstu tjaldbúðum á meðan við fórum á toppinn. Til allrar hamingju gekk allt vel, en ekki hafa allir verið svo heppnir og margir orðið úti á Rinjani. Að meðaltali farast um tuttugu manns á fjallinu á hverju ári. Árið 1977 fundust til dæmis fimm lík rétt fyrir neðan toppinn, og árið 2007 fórst sjö manna hópur. Í langflestum tilfellum verða menn einfaldlega úti vegna lélegs útbúnaðar og matarskorts. Annars sagði leiðsögumaður okkar að mesta hættan væru stigamenn eða ræningjar, sem gera ferðamönnum fyrirsátur í tjaldbúðum umhverfis öskjuvanið. Árið 1999 réðust til dæmis sex stigamenn að nóttu til á tjaldbúðir þar sem tólf fjallgöngumenn voru sofandi við öskjuvatnið. Þeir voru vopnaðir stórum sveðjum og hnífum, og rændu öllum verðmætum af hópnum. Þeir voru af sasak ættbálknum, sem er frægur fyrir þjófnað og glæpi. Nú hefur verið aukið eftirlit síðan Rinjani var gerður af þjóðgarði og ræningjum kastað í steininn. En Rinjani er samt varasamt fjall á margan hátt.

Ásgrímur og Eldgosin

SkjaldbreiðurFyrsti íslenski listmálarinn sem reyndi í alvöru að mála eldgos var Ásgrímur Jónsson. Við sýnum þrjár myndir efir hann í Eldfjallasafni í Stykkishólmi, sem fylgja hér með, en þær eru frá Listasafni Íslands. Í skrá Listasafns Íslands eru samtals 2082 verk talin eftir Ásgrím Jónsson. Þar af eru að minnsta kosti þrjátíu og fimm verk sem eru beinlínis af eldgosum eða áhrifum þeirra. Í viðbót eru allmargar landslagsmyndir eftir hann af eldfjöllum, einkum af Heklu og Öræfajökli, en myndin hér fyrir ofan er af Skjaldbreið frá 1922. Þannig hafa eldgos og eldfjöllin átt ótrúlega ríkan þátt í myndsköpun Ásgríms.  Flótti frá EldgosiÞað er merkilegt að eldgosamyndirnar voru flestar gerðar á tveimur tímabilum. Það fyrra var frá um 1904 til 1908, og síðar á árunum 1945 til 1955. Ásgrímur Jónsson (1876-1958) hefur lengi verið talinn meðal ágætustu málara Íslands. Reyndar er ferill hann ævintýri líkastur, en hann fæddist á bænum Rútsstaðahjáleigu í Flóanum. Sagan segir að hann sá Heklu gjósa þegar hann var tveggja ára og mundi alla ævi eftir eldglæringunum. Það getur nú ekki verið rétt, þar sem Hekla gaus 1845, 1913 og 1947. Katla gaus 1918, Eyjafjallajökull 1823, svo það er ekki ljóst hvaða gos Ásgrímur kann að hafa séð, ef nokkur, en auðvitað hefur hann heyrt mikið talað um fyrri eldgos, einkum Heklugosið 1845 og Skaftárelda 1783.  Skaftáreldar eftir ÁsgrímHann byrjar sem fátækur bóndasonur og sjómaður, og heldur út til Danmerkur til að helga sig listinni. Fyrst vann hann á verkstæði og málaði húsgögn en síðar fer hann í nám í Konunglega listaskólanum í Kaupmannahöfn árið 1899. Hann kynnist einnig listinni í Þýskalandi á þessum tíma. Hann komst alla leið suður til Ítalíu árið 1908 og málaði þar sínar fyrstu eldgosmyndir. Er hann snýr aftur heim 1909 hjálpar hann Íslendingum að sjá land sitt í nýju ljósi, og hann verður fljótt af einum mestu jötnum íslenskrar listasögu, og fyrsti málarinn sem gerði myndlistina að aðalstarfi hér á landi. Einnig var hann virkur kennari og Jóhannes Kjarval var í tímum hjá Ásgrími. Naturalismi og raunsæisstefna eru efst í myndsköpun hans, en það er oft rætt um að Ásgrímur hafi fengið stíl sinn að hluta til frá franska málaranum Jean-Baptiste-Camille Corot (1796-1875). Corot var frægur landslagsmálari af Barbizon skólanum, og er oft talinn forfaðir Impressionismans. Þekktasta eldgosamynd Ásgríms er kölluð Flótti undan Eldgosi, og er máluð frá um 1945 til 1950 (LI-AJ-0017). Tveir menn eru á ferð með hesta og mikill jarðeldur er í bakgrunni. Eru þeir á flótta undan hrauninu í Skaftáreldum? Ásgrímur gerði tvær vatnslitamyndir af eldgosum þegar hann var á ferð á Ítalíu 1908. Mörg eru eldfjöllin á Ítalíu, og Vesúvíus þeirra frægast.  Hann gaus 1906 og hefur enn verið rjúkandi ef Ásgrímur fór þar um. Önnur vatnslitamyndin (LI-ÁJ-527, Eldgos) sem var gerð á Ítalíu árið 1908 er vafalítið byggð á hugmynd Ásgríms um Skaftárelda og þann fræga atburð þegar séra Jón Steingrímsson hélt eldmessuna hinn 20. júlí 1783 sem sagan segir að hafi stöðvað framrás Skaftáreldahrauns og þar með bjargað Kirkjubæjarklaustri. Það er heilmargt að gerast í þessarri vatnslitamynd og mikil hreyfing. Söfnuðurinn stendur óttasleginn við kirkjudyrnar. Séra Jón er hempuklæddur og með bíblíuna undir hendi. Bláklædd kona í skautbúningi stendur í kirkjudyrum og ber hönd að enni, eins og það sé að líða yfir hana. Allir horfa til fjalls, þar sem eldar geisa, væntanlega frá Lakagígum. Mér finnst hin vatnslitamyndin sem var gerð á Ítalíu 1908 (LI-ÁJ-403 Eldgos) vera besta gosmyndin hans Ásgríms og sú djarfasta. Eldský rís yfir fjallinu, og furðulegir bjartir geislar stafa frá því til himins. Snævi þakin sléttan skilur eldfjallið frá fólkinu í forgrunni. Konur með skuplur eða klúta bundna yfir höfuð halda á ungum börnum, og allir stara í áttina til eldfjallsins. Ég hef sett fram hér aðeins nokkra púnkta varðandi eldgosamyndir Ásgríms, en áhugi hans á eldgosum og túlkunin sem kemur fram í myndum hans er mikilvægt verkefni sem er verðugt fyrir listfræðinga að kanna frekar.Eldgos eftir Ásgrím

Vísindi og Trúarbrögð

SólinSólin er að hækka, skína bjartar, heitara og lengur. Stjarnan okkar, þessi kjarnorkuofn af vetni og helíum, sem er í 150 miljón kílómetra fjarlægð, gefur okkur líf og færir okkur nær alla orku. Ég held því uppá vetrarhvörf, og minnist þess um leið að jólin eru sólstöðuhátíð sem á uppruna sinn að rekja langt aftur í heiðni. Eins og flestir íslendingar, þá ólst ég upp við kristnihald yfir jólin í bernsku, en fljótt tók að draga úr áhuga mínum á trúnni. Boðskapurinn var fallegur en jafnvel barn gat séð að margar grundvallarstaðhæfingar biblíunnar gátu ekki staðist. Síðar áttaði ég mig á því hvað trúarbrögðin hafa verið og eru enn beinlínis skaðleg mannkyninu. Við þetta tækifæri kemst ég ekki hjá því að velta fyrir mér andstæðunum í vísindum og trúarbrögðum. Fyrst vil ég minnast á ofsókn kirkjunnar á hendur fræðimönnum sem dirfðust að fara nýjar slóðir. Ítalski vísindamaðurinn Giordano Bruno var bundinn við staur að skipan páfa og brenndur á báli í Róm árið 1600. Kirkjan sá einnig til þess að landi hans Galileo Galilei, einn mesti vísindamaður allra tíma, eyddi tíu síðustu árum ævi sinnar í fangelsi, þar sem hann dó árið 1642. Þeir eru aðeins tveir af fjölda fræðimanna sem þjáðust eða misstu lífið vegna þess að þeir leyfðu sér að leita sannleikans. Giordano BrunoSvona mætti lengi telja, en reynsla mannkynsins af einguðstrúarbrögðunum þremur, kristni, múhameðstrú og gyðingsdómi, sem má öll rekja til Gamla Testamentsins, er vægast sagt afleit. Kristin kirkja staðhæfði að jörðin væri miðja alheimsins og hefði verið sköpuð fyrir manninn. Sköpunarsagan segir að guð gaf manninum vald til að drottna yfir öllum lifandi verum. Það væri þýðingarlaust, og jafnvel brot á reglum kirkjunnar að velta frekar fyrir sér uppruna jarðar, sólkerfisins eða lífs. Aðdáun á náttúru og umhverfi okkar væri einungis truflun frá iðkun kristilegrar trúar. Ítalska skáldið og munkurinn Francesco Petrarch (1304-74) var undantekning, en hann kann að vera sá fyrsti sem kleif fjöll sér til upplyftingar og til að dást að fegurð umhverfisins. En dag einn, er hann stóð á tindi í Ölpunum, skammaðist hann sín yfir því að vera að njóta nátturunnar í stað þess að iðka bænir í klaustrinu og flýtti sér niður aftur. Það er enginn vafi að snjallasta hugmynd tengd trúarbrögðunum þremur er loforðið um eilíft líf eða meðvitund eftir dauðann ef þú gengur í söfnuðinn. Hver getur staðist slíka freistingu? Þetta er mesta blekking og sterkasta auglýsingabrella mannkynsins. Og það snjallasta við hana er að það getur enginn tékkað á því hvort hún er sönn eða ekki. Allir geta lifað í voninni…þar til þeir deyja. Og múhameðstrúarmenn gera einum betur: þér er lofað eilíft líf í himnaríki með 72 hreinum meyjum, ef þú ert einn af píslarvottunum sem missir líf sitt í baráttunni fyrir trúna. Er það von að strákar standi í biðröðum í miðausturlöndum til að fremja sjálfsmorðsárásir? Vitur maður orðaði það svo, að þegar einn maður er á valdi blekkingar, þá er það kallað geðveiki, en þegar fjöldi fólks lætur blekkjast, þá er það nefnt trúarbrögð.Það hefur lengi verið von hugsandi manna, að áhrif trúarbragðanna dofni og hverfi smátt og smátt þegar upplýsing og menntun breiðist út meðal þjóða. Auðvitað er eðlilegt og mannlegt að kalla til yfirnáttúruleg öfl þegar menn standa frammi fyrir fyrirbærum eða atburðum sem þeir skilja ekki. Ég hef áður minnst á í bloggi mínu í september 2009 hvernig stórgosið á eynni Santóríni í Eyjahafi á Bronzöld varð að goðsögn, eins og kemur fram í kvæðinu Theógóníu eftir gríska skáldið Hesiod. Stórkostlegur atburður virðist yfirnáttúrulegur, og kallar á guðlega skýringu. En með tímanum eykst skilningur okkar, og við áttum okkur á að slíkir atburðir eru hluti af jarðkerfinu. Er þá ekki kominn tími til að losa sig við kreddurnar og allt sem fylgir trúnni? Vísindin hafa frelsað okkur frá þeirri blekkingu að örlögum okkar sé stýrt af einhverju æðra valdi. Við erum sjálf við stýri hvað varðar framtíðina.Á Íslandi er sá sem ekki trúir á guð flokkaður sem trúleysingi, aþeisti eða vantrúaður. Þetta eru vægast sagt vandræðaleg og neikvæð heiti, þar sem orðið eða hugtakið er byggt á því sem vantar. Hommar í Bandaríkjunum áttuðu sig á því fyrir nokkrum tugum ára að hommi eða homosexual var ef til vill ekki besta heitið á þeirra ástandi, og kusu að kalla sig gays, eða glaða. Það var ágætt hjá þeim og mjög vel heppnað; mér virðist hommar líka vera oft kátari en hinir. Á svipaðan hátt hafa margir trúleysingjar kosið að kalla sig og samfélaga sína brights, eða snjalla, og myndað sitt samfélag. Því ekki það? Ég er alveg sammála því að sá sem hafnar trúarbrögðum sé sennilega snjallari! Ég þekki mann sem var kallaður Siggi bright í menntaskóla og átti hann það skilið. Ég er næstum því viss um að hann er líka trúlaus.Það er enginn vafi að vísindi og trúarbrögð stangast á í þjóðfélaginu, en í því sambandi er fróðlegt að bera saman aðferðafræði þessa tveggja mikilvægu þátta í þjóðfélaginu í dag. Aðferðir vísindanna og trúbragðanna eru allt aðrar í grundvallaratriðum. Trúarbrögðin gera ráð fyrir að við trúum bókstaflega, án þess að nein rök eða sannanir séu bornar fram. Þetta er einmitt kjarni trúarinnar. Vísindin hvetja okkur til að trúa engu að fyrra bragði og forðast alla sjálfsblekkingu. Að vera skeptískur eða vantrúaður er reyndar einn höfuðkostur góðs vísindamanns. Það er óþarfi að blanda inn efni sem kemur málinu ekkert við. Napóleon keisari las bók franska vísindamannsins Pierre-Simon Laplace. Þegar þeir hittust spyr keisarinn hvernig stærðfræðingurinn frægi hefði getað skrifað heila bók án þess að minnast einu orði á guð. Laplace svarar: “Herra, ég hafði enga þörf fyrir þá keningu.” Nú ríkir millibilsástand á jörðu. Vísindi, tækni og þekking er að þróast mjög ört og eru að gjörbreyta lífi okkar á einni öld. Trúarbrögðin standa í stað, og eru annað hvort að deyja út í mörgum löndum, eða er haldið uppi í þjónustu valdhafa sem sjá sér hag í því. Á meðan við erum að fara í gegnum þetta millibilsástand, þar til vísindin verða allsráðandi, þá verðum við að sýna mátulega mikla þolinmæði. Við verðum þrátt fyrir allt að bera virðingu fyrir trúarbrögðum annars manns, alveg á sama hátt og við berum virðingu fyrir þeirri skoðun hans að konan hans sé einstaklega fögur og að börnin þeirra séu stórvelgefin. En við eigum enn nokkuð langt í land. Fyrverandi forseti Banaríkjanna, George Bush eldri, sagði í ræðu: “Nei, ég held ekki að við eigum að telja trúleysingja meðal borgara, og ekki heldur sem þjóðvini.” En hver skiftir sér nú af skoðunum hans?

Berghlaup úr Drápuhlíðarfjalli - í fortíð og í framtíð

ShastaBerghlaup nefnist það fyrirbæri þegar stór spilda eða fylling fellur eða skríður skyndilega fram úr fjallshlíð og myndar mikla breiðu af stórgrýti og moluðum jarðmyndunum á sléttlendi fyrir neðan. Forfeður okkar kölluðu slíkt fyrirbæri hraun, sem er sennilega dregið af orðinu hrun eða að hrynja. Yfirborð á berghlaupum er reyndar mjög líkt og yfirborð á hraunum þeim sem myndast við eldgos, og hafa forfeður okkar sennilega ekki gert mikinn greinarmun þar á. Sennilega eru Vatnsdalshólar mesta berghlaup á Íslandi, en það hlaup náði fram um 6,5 kílómetra. Eitt stærsta berghlaup á jörðu varð í Kaliforníu fyrir um 300 þúsund árum, þegar hlíð eldfjallsins Shasta hrundi, og þá fór berghlaup í allt að 45 km fjarlægð frá fjallinu og þakti um 450 ferkílómetra svæði. DrápuhlíðarfjallBerghlaup myndast í bröttum hlíðum þegar styrkur bergs eða jarðmyndana er ekki nægilegur til að vinna á móti hallanum og þyngdarlögmálinu. Sennilega hafa flest berghlaup á Íslandi myndast skömmu eftir eða um leið og skriðjöklar hopuðu í lok ísaldarinnar, fyrir um tíu þúsund árum. Úr norðvestur hluta Drápuhlíðarfjalls hefur orðið berghlaup, sennilega rétt eftir að ísöld lauk. Það myndar um eins km langa, bratta og ljósa skriðu út brotnu líparíti, sem er nokkrir tugir metra til eitt hundrað metrar á þykkt. Upptök berghlaupsins er hamar norðan í fjallinu, þar sem tvö þykk líparít lög hafa brotnað fram. GjáinBerghlaupið úr Drápuhlíðarfjalli var lengi notað sem náma fyrir hið landsþekkta Drápuhlíðargrjót: fallegar stórar flögur af gulu eða rauðleitu líparíti, sem voru fluttar í stórum stíl til Reykjavíkur á sjötta og sjöunda áratugnum, til að klæða veggi umhverfis arinninn í stofunni eða við útidyrnar í nýbyggingum í fúnkis stíl hjá efnuðum borgurum. Á þeim tíma var arinn í stofu og Drápuhlíðargrjót stöðutákn hinna nýríku. Nú er fjallið friðað og efnistaka bönnuð, enda hefur tískan víst breytst. Nú virðist að annað berghlaup kunni að falla úr Drápuhlíðarfjalli í framtíðinni. Um eins meters víð sprunga hefur myndast í fjallinu um eitt hundrað metra innar en hamarsbrúnin þar sem fyrra berghlaupið varð. Sjá mynd hér til hægri af sprungunni. Undir hamrinum, sem er mjög þykkt líparít hraun, er um 20 til 30 metra þykkt lag af gjóskuflóði. Það er um 3,5 miljón ára að aldri og hefur með tímanum og vegna áhrifa jarðhita breytst í mjúkan leir.Hamarinn  Í leirlaginu finnast oft leifar af steingerðum trjám, sem bera vitni um gróðurfar á Snæfellsnesi í lok Tertíera tímans. Hamarinn hvílir því á sleipu leirlagi og allar aðstæður eru því tilbúnar að hamarinn kastist fram og myndi nýtt berghlaup. Nú er kominn tími til að fylgjast með sprungunni, til að kanna hvort hér sé hreyfing á bergfyllingunni og hversu hröð hún er.

Stuðlaberg

GerðubergEitt fegursta fyrirbæri á eldfjallasvæðum er stuðlaberg. Við höfum ótal dæmi um fallegt stuðlaberg á Íslandi, til dæmis Dverghamrar á Síðu, Kirkjugólf á Kirkjubæjarklaustri, Gerðuberg á Snæfellsnesi, Elliðaey á Breiðarfirði og mörg fleiri. Stuðlarnir geta verið ótrúlega reglulegir, og oft í laginu eins og tröllvaxnir krystallar. Langflestir stuðlar eru sexhyrndir og eru hornin á þeim því oft mjög regluleg og um 120 gráður. Í gamla daga var haldið að stuðlaberg væri myndað þegar setlög myndast í sjó, og að stuðlarnir væru risavaxnir kristallar. Fræðimenn á sextándu öld voru svo sannfærðir um þetta að þeir sýndu stuðlana með fallega toppa, á teikningum sínum, alveg eins og sexhyrndir kristallar af kvarsi.  GestnerMyndin til hægri er í Eldfjallasafni í Stykkishólmi og er hún úr riti Konrad Gesners frá 1565. Allt fram á miðja nítjándu öldina var deilt um uppruna stuðlabergs, eins og ég hef fjallað um ýtarlega í bók minni Melting the Earth (Oxford University Press 1999). Þeir sem trúðu að stuðlaberg væri myndað sem kristallar í sjó voru kallaðir Neptúnistar, en þeir sem áttuðu sig á því að það væri myndað við storknun á hraunkviku voru nefndir Vulkanistar. Þetta var ein heitasta deilan í jarðfræðinni á fyrri öldum.Stuðlar eru oftast sexhyrningar, en myndun þeirra er tengd kólnun og storknun hrauns eða hraunkviku, annað hvort á yfirborði jarðar eða í innskotum. Þegar kvikan kólnar og storknar þá minnkar rúmmál hennar um 2 til 5% og við það klofnar kvikan í sexhyrnda stuðla. Kvikan, eins og langflest efni, dregst saman eða minnkar rúmmál sitt við storknun og kólnun. Eitt efni gerið þó þveröfugt, og það er vatn. Þegar vatn kólnar og breytist úr fljótandi ástandi í ís, þá eykst rúmmál þess. Þess vegna flýtur ís á vatni, þvert á við nær öll önnur efni. Við könnumst við mörg önnur dæmi um sexhyrninga í náttúrunni. MoldarflagHér til vinstri er mynd af moldarflagi, sem hefur þornað upp. Við það að þorna, þegar vatnið gufar upp úr moldarflaginu, þá minnkar rúmmálið, moldarflagið springur og tíglar myndast. Þegar stuðlar myndast í hraunkviku, þá vaxa þeir alltaf þvert á kólnunarflötinn, sem er flöturinn þar sem mestur hitinn streymir út úr kvikunni. Í hrauni er kólnunarflöturinn aðvitað yfirborðið og einnig botninn á hrauninu. Af þeim sökum eru stuðlarnir flestir lóðréttir. Í berggöngum, sem eru lóðrétt innskot af kviku og aðal aðfærsluæðar eldfjallanna, er kólnunarflöturinn oftast lóðréttur veggur, og liggja því stuðlarnir lárétt í göngum. Stundum getur kólnunarflöturinn verið mjög óreglulegur, eins og þegar hraun rennur í sjó fram. Þá myndast stuðlar sem geisla í allar áttir og stórir sveipir af stuðlum verða til, eins og í hraunum hjá Arnarstapa og víðar með ströndum umhverfis Snæfellsjökul.En hvers vegna eru horn stuðlanna oftast 120 gráður? Það er tengt yfirborðsspennu efnis. Minnsta yfirborðsspenna verður í efni þegar það er kúlulagað, eins og dropi eða sápubóla.  BýkúpaEn ef við röðum mörgum sápubólum saman, þá skerast þær í 120 gráðu hornum og mynda sexhyrnt mynstur. Þetta horn, 120 gráður, er sterkasta hornið í náttúrunni og einnig í arkitektúr. Þeir arkitektarnir Frank Lloyd Wright, Buckminster Fuller og James W. Strutt áttuðu sig snemma á þessu og notuðu sexhyrninginn sem eina höfuð uppistöðu í húsagerð sinni. Þetta vita býflugurnar líka, en býkúpan samanstedur af sexhyndrum einingum, eins og myndin til vinstri sýnir. Já, og ískristallar eru einnig sexhyrndir. Ef til vill er stærsti sexhyrningur í sólkerfinu á norðurpólnum á plánetunni Satúrn. Hér er risastórt ský, og í miðju þss er fallegur sexhyrningur, sem stjarneðlisfræðingar reyna nú að skýra. Þessi sexhyrningur er svo stór, að öll jörðin kæmist fyrir í honum. Saturn

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband