Að klífa Rinjani

MoskaÍ byrjun desember 2009 fór ég í eina af mínum erfiðustu fjallgöngum á ævinni. Ég kleif Rinjani eldfjall á eynni Lombok í Indónesíu, sem er 3726 metrar á hæð. Jæja, kannske var hún ekki sú erfiðasta; ég kleif Popocatepetl í Mexíkó sem er 5426 metrar á hæð, árið 1982, og Nevado del Ruiz eldfjall í Kolumbíu árið 1985, en það er rúmir 5300 metrar. En þá var ég yngri… Rinjani gaus síðast í maí 2009 og eftir gosið var allur aðgangur að fjallinu lokaður ferðamönnum, en það var nýopnað þegar okkur bar að garði. Ég hafði einkum mikinn áhuga á að sjá öskjuna í Rinjani, sem er ein af yngstu öskjum jarðar. Við hófum ferðina í Bayani þorpi, sem er nálægt norður strönd Lombok eyjar. Af tilviljun rakst ég á mjög merkilega forna byggingu í þorpinu, sem er moska frá fimmtándu öld. Kuno Bayan moskan er sú elsta á eynni Lombok, og er byggð sennilega árið 1470 af fylgjendum wetu telu, sem er frekar frjálslegt afbrigði af múhameðstrú. Það var hér sem múhammeðstrúin barst fyrst til Lombok, en eyjaskeggjar voru allir hindú trúar fyrir þann tíma. Moskan er eins og virki, reist á um tíu metra háum grunni sem er hlaðinn úr stórum steinhnullungum. Þá var reist ferhyrnd grind úr harðviði, sem stendur enn. Klæðning að utan er að mestu gerð með bambus, sem er klofinn eftir endilöngu og vandlega raðað saman til að mynda þétt þak og veggi. Umsjónarmaður leyfði okkur að kanna moskuna, en hún er ekki í notkun heldur varðveitt sem fornminjar, og ein sú elsta í allri Indónesíu. RinjaniTil fjallgöngunnar á Rinjani réðum við leiðsögumann og tvo burðarmenn úr þorpinu. Þetta er nokkra daga ferð og þarf góðan undirbúning, mat og drykkjarvatn. Lagt var af stað klukkan 4 að morgni, og gengið fyrst eftir góðum stíg sem lá um regnskóginn. Burðarmennirnir vildu ekki nota bakpokana, heldur kusu að bera farangurinn í tveimur körfum, sem þeir bera á bambus slá yfir öxlina. Ég ók eftir því að hæna hékk á hvolfi í spotta utan á einni körfunni – lifandi. “Ayam hutan” skógarhæna, sagði leiðsögumaðurinn, “Makan malam” kvöldmatur. Burðarmennirnir eru léttir í spori, þótt öll þyngslin á bambus stönginni hvíli beint á einum púnkti á öxlinni. Fljótt var á brattann að sækja, og undir fæti var ekki lengur eldfjallaska heldur gamalt hraun. Um hádegisbil var numið staðar, og burðarmenn kveiktu fljótt eld, suðu hrísgrjón og hituðu te. Síðan var lagt af stað í síðasta spölinn þann daginn, uppá brún öskjunnar sem hefur myndast í vestur hluta Rinjani eldfjalls. Á leiðinni höfðu burðarmenn safnað eldivið, því nær allur trjágróður hverfur þegar ofar kemur. Eftir mikið erfiði komumst við loks uppá öskjubrúnina um þrjú leytið í um 2000 metra hæð, og við blasti stórfengleg sjón. Askjan er um 8,5 kílómetrar í þvermál og í henni er stórt gígvatn sem ber heitið Segara Anak, eða Barn Hafsins. Í austur hluta vatnsins er gjósandi eyja sem stækkar sífellt og hraun frá eynni hefur nú náð alla leið til austur strandar öskjunnar. Eyjan nefnist Gunung Baru, eða nýja fjallið, en gígurinn, sem hefur verið stöðugt virkur síðan athuganir hófust 1847, er kallaður Barujari, nýji fingur. Við tjölduðum á öskjubrúninni, efst á um 200 metra háum hamri, og hér var útsýni eins stórfenglegt og hugsast getur. En gosið í Barujari sendi frá sér mikið ský og brennisteinsmóða lá yfir vatninu öllu. Það var farið snemma í háttinn, því mikið verk og erfiði var framundan næsta dag. En kuldinn var ótrúlegur, því á nóttinni fer hitinn niður undir frostmark og þá kvarta burðarmenn mikið. Þeir liggja þétt saman í hrúgu í miðju tjaldinu til að halda hita hvor á öðrum. Ég var nokkuð vel útbúinn og með góðan svefnpoka. Um þrjú leytið er þeim orðið of kalt til að sofa og byrja þá að kveikja bál fyrir utan tjaldið til að hita kaffið og sjóða hrísgrjón. Svo drógu þeir fram nokkur hálfúldin síli úr farangrinum, brytjuðu niður og hrærðu saman við hrísgrjónin, ásamt sterkum pipar. Þetta var ekki svo slæmur morgunmatur. Við erum búnir að binda böggla og komnir af stað áður en fyrstu sólareislarnir byrja að skína. Reyndar gengur ferðin best eldsnemma á daginn, áður en hitinn verður óþægilegur. Það var enn myrkur þegar við byrjuðum að klifra niður hamrana og niður í öskjuna, þar til við komum að vatninu. Askjan myndaðist í miklu sprengigosi á þrettándu öld, þegar kvikuþróin tæmdist og fjallið hrundi saman. ASTER VatniðVatnið er yfir 22 stiga heitt vegna jarðhita á botni þess, og yfir 200 metar á dýpt. Það er allt gulbrúnt á lit, og sömu leiðis ströndin umhverfis, vegna útfellinga af járnhydroxíð efnum sem myndast við jarðhitann.   Næstu tveir dagar voru erfiðir, en við fikruðum okkur hægt og sígandi upp úr öskjunni að austanverðu og upp á tind Rinjani, í 3726 metra hæð. Aðal vandamál okkar var stöðugur vindur, og svo kuldinn á nóttinni. Burðarmennirnir urðu eftir í efstu tjaldbúðum á meðan við fórum á toppinn. Til allrar hamingju gekk allt vel, en ekki hafa allir verið svo heppnir og margir orðið úti á Rinjani. Að meðaltali farast um tuttugu manns á fjallinu á hverju ári. Árið 1977 fundust til dæmis fimm lík rétt fyrir neðan toppinn, og árið 2007 fórst sjö manna hópur. Í langflestum tilfellum verða menn einfaldlega úti vegna lélegs útbúnaðar og matarskorts. Annars sagði leiðsögumaður okkar að mesta hættan væru stigamenn eða ræningjar, sem gera ferðamönnum fyrirsátur í tjaldbúðum umhverfis öskjuvanið. Árið 1999 réðust til dæmis sex stigamenn að nóttu til á tjaldbúðir þar sem tólf fjallgöngumenn voru sofandi við öskjuvatnið. Þeir voru vopnaðir stórum sveðjum og hnífum, og rændu öllum verðmætum af hópnum. Þeir voru af sasak ættbálknum, sem er frægur fyrir þjófnað og glæpi. Nú hefur verið aukið eftirlit síðan Rinjani var gerður af þjóðgarði og ræningjum kastað í steininn. En Rinjani er samt varasamt fjall á margan hátt.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Bjarki Smárason

Enn önnur frábær færsla hjá þér, Haraldur. Mann fer nú að gruna að þú hafir nokkurn áhuga á eldfjöllum! Væri ekki rétt að safna þessu saman í grein eða bók....? Og ekki hefur þú ryðgað í okkar ylhýra máli þrátt fyrir að dvelja alla þína starfsævi á erlendri grundu....

Bestu kveðjur,

Ómar Bjarki Smárason, 27.12.2009 kl. 14:49

2 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Bestu þakkir, en satt að segja er ég ekki mjög sleipur í íslenskunni og stundum erfitt fyrir mig að koma orðum að lítt þekktum þáttum í jarðfræðinni. En þetta er bara góð æfing! Ég lít svo á, að allt megi segja og allt megi birta í bloggi.

Haraldur Sigurðsson, 27.12.2009 kl. 15:06

3 Smámynd: Ómar Bjarki Smárason

Þú ert sleipari en þig grunar og það er hægt að birta flest hér á blogginu og alltaf hægt að ræða og leiðrétta ef eitthvað er missagt.

Ég vona bara að sem flestir nái að lesa þetta og er hissa ef Morgunblaðið birtir ekki eitthvað af þessu í Lesbókinni....

Ómar Bjarki Smárason, 27.12.2009 kl. 17:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband