Finnur málar Surtseyjargosið 1963

Surtsey eftir Sigurgeir JónassonEin frægasta ljósmynd sem tekin hefur verið við Ísland var tekin af Sigurgeir Jónassyni í Surtseyjargosinu 1. desember 1963. Mig grunar að hún sé íkveikjan á bak við málverk sem Finnur Jónsson gerði, og sýnt er í Eldfjallasafni í Stykkishólmi. Þegar Sigurgeir tók myndina af Surtsey var gígur nýju eldeyjarinnar opinn fyrir hafi og sjór streymdi niður í hann. Við það mynduðust stórfenglegar gufusprengingar, sem þeyttu gjósku hátt í loft upp. Gosmökkurinn varð jarðtenging milli andrúmsloftsins of jarðar og sífelldar eldingar blossuðu umhverfis og inní stróknum. Myndin birtist í Mogganum og vakti almenna athygli, ekki síst meðal vísindamanna. Sveinbjörn Björnsson, Sigurgeir og fleiri skrifuðu merkar geinar um uppruna eldinganna og rafstrauma í gjóskustrókum. Það er rafspenna í jörðu, en við slík gos myndast mjög há jákvæð hleðsla í gjóskustróknum og orsakar hún eldingarnar. Mér datt ljósmynd Sigurgeirs strax í hug þegar ég sá málverkið eftir Finn Jónsson á Listasafni Íslands. Mynd Finns er stórkostleg og skemmtileg, enda þótt hún sé ekki jarðfræðilega rétt. Hann sýnir jarðeldinn rísa úr hafi, og notar hamrana í Heimaey sem forgrunn. Finnur nær að lýsa því ótrúlega, að eldur geti risið uppúr sjó.  SurtseyEn gosið er sýnt eins of brenna, þar sem eldtungur úr hafinu sleikja himinn. Finnur fellur í sömu gömlu gildruna og forferður okkar varðandi jarðeld, að eldgos sé bruni. Við vitum nú að auðvitað er enginn eldur í gosi, heldur gýs upp glóandi heit kvika. En mynd Finns er svo falleg og lífleg að við fyrirgefum þótt hún sé ekki alveg samkvæmt jarðfræðilegum lögmálum. Finnur Jónsson (1892-1993) var fæddur í Hamarsfirði á Austfjörðum og var bróðir Ríkharðs Jónssonar myndskera. Þegar hann kom heim eftir í nám í Danmörku og í Þýskalandi þá málaði hann abstrakt og jafnvel kúbisma verk, sem ekki var góður jarðvegur né markaður fyrir á þeim árum í Reykjavík. Hann var fyrstur íslendinga að mála í þeim stíl. Þá snéri hann sér að natúralisma og gerði margar myndir af lífi sjómanna og einnig frábærar landslagsmyndir eins og Beinin hennar Stjörnu (1934).

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband