Færsluflokkur: Jarðfræðikort
Í grennd við Þorbjörn
22.11.2023 | 03:33
Þessa ágætu loftmynd sendi mér Ágúst Guðmundsson hjá fjarkonn@simnet.is en myndin gefur góða kynningu á svæðinu rétt fyrir norðan Grindavík. Fyrir miðju er móbergsfjallið Þorbjörn frá Ísöld, en það er rifið og margklofið af þremur norðlægum sprungum og gjám. Rétt norðan við Þorbjörn er varmaorkuverið Svartsengi, og þar fast fyrir vestan eru pollar og tjarnir sem mynda Bláa Lónið.
Ég kom fyrst í Svartsengi með Þorleifi Einarssyni jarðfræðing árið 1976. Þá var há girðing umhverfis nýju virkjunina og þar voru stórir pollar af heitu vatni, sem var affall frá virkjuninni og rann út í hraunið. Við fundum gat á girðingunni og fórum að stærsta pollinum. Hann var mátulega heitur og það var mjúkur og mjallhvítur leir sem þakti allan botninn svo hægt var að ganga berfættur á hraunbotninum. Við Þorleifur fórum úr öllu og fengum okkur ágætt bað. Síðar varð þetta skolvatn úr virkjuninni nefnt Bláa Lónið og fólk greiddi fé fyrir aðgang.
Við vestur og suðvestur jaðar Þorbjarnar er mikið flæmi af ungum hraunum, en þessi hraun eru flest frá miklum hraungosum á tímabilinu 1210 til 1240 e.Kr. sem mynduðu Eldvörp. Það hraun rann suður til sjávar.
Austan við Þorbjörn er lítið móbergsfell sem ber nafnið Hagafell.
Í sundinu milli Þorbjarnar og Hagafells er um 2000 ára gömul hraunsprunga og gígaröð en gígarnir eru fast við vestur og suðvestur hlíð Hagafells. Þessi gossprunga endar um 2 km fyrir norðan Grindavík, en hraunið rann til sjávar og liggur undir miklum hluta bæjarins. Það minnir okkur rækilega á að jarðskorpan undir bænum er mjög ung og mikil umbot hafa átt sér stað hér tiltölulega nýlega - í jarðfræðilegum skilningi. Það er fyrst og fremst Kristján Sæmundsson sem hefur kortlagt allt þetta svæði og lesið úr jarðsögu þess.
Jarðfræðikort | Breytt s.d. kl. 12:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Litríkt umhverfi Íslands
5.9.2017 | 18:36
Það er ótrúlegt hvað þekkingu okkar um hafsbotninn hefur fleygt fram síðan byltingin um flekahreyfingar varð í kringum 1965. Hér er litríkt kort af svæðinu umhverfis Ísland, sem sýnir hafsbotninn litaðan eftir aldri. Hvíta línan markar Mið-Atlantshafshrygginn. Rauðu svæðin eru yngri en 30 milljón ára. Gul jarðskorpa á hafsbotninum er um 50 milljón og grænt um 60 milljón. Blágráu svæðin er eldri meginlandsskorpa, þar á meðal Drekasvæðið fyrir norðaustan Ísland. Staðsetning á þessum lituðu rákum á hafsbotninum hefur fengist með segulmælingum og aldur þeirra með borun. Nú getið þið spreytt ykkur á því að gá hvort Grænland passar við meginland Evrópu, ef yngri hafsbotn er fjarlægður, eins og máli stóðu fyrir um 60 milljónum ára.
Eldgos um heim allan
8.10.2016 | 13:08
Smithsonian stofnunin í Washington DC hefur lengi fylgst með eldgosum um heim allan og gefið út árlega skýrslur um virkni þeirra. Nú hefur Smithsonian gert þetta efni vel aðgengilegt á vef sínum sem app, sem spilar öll eldgos frá 1960 til okkar daga. Appið er hér: http://volcano.si.axismaps.io/
Þar eru einnig sýndir jarðskjálftar og útlosun brennisteins. Takið eftir að virknin er miklu meiri í sigbeltum á jöðrum meginlandanna heldur en á úthafshryggum. En auðvitað fara flest eldgos á hafsbotni framhjá okkur þar sem engin tækni er enn þróuð til að skrá þau.
Beinin frá Vopnafirði
13.7.2014 | 16:06
Árið 1980 fann Grétar Jónsson frá Einarsstöðum í Vopnafirði nokkur smábein í setlagi. Hann var á ferð í Þuríðargili í um 330 metra hæð yfir sjó. Rauði hringurinn á myndinni sýnir Þuríðargil, þar sem Þuríðará rennur úr Þuríðarvatni. Beinin eru sýnd á annari mynd, sem Friðgeir Grímsson og félagar birtu. Á myndinni er strik, sem er 2 cm skali. Þessi litlu bein, sem eru vart meira en 3 cm á lengd, eru talin vera úr spendýri og sennilega litlu dýri af hjartarætt.
Þau fundust í rauðum sandsteini í Bustafellsmynduninni, en Bustafellsmyndunin eru sandsteinslög, talin vera frá Plíósen, eða milli 3 og 3,5 milljón ára að aldri. Ef rétt reynist, þá eru þetta EINU minjar eða steingervingar af land spendýrum, sem fundist hafa á Íslandi. Þetta kann því að vera mikilvægt sönnunargagn um, að einhvern tíma í jarðsögunni hafi landbrú verið milli Íslands og nærliggjandi landa, annað hvort til austurs eða vesturs.
Jarðfræðikort | Breytt s.d. kl. 22:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þegar Færeyjar voru við Grænland
9.7.2014 | 12:12
Norður Atlantshafið er hlutfallslega ungt á jarðsögulegum tíma. Fyrir um 55 milljón árum var Grænland hluti af meginlandi Evrópu og þá samfellt land með Skandinavíu og með því landsvæði sem nú eru Bretlandseyjar. Fyrsta myndin sýnir legu landanna á þeim tíma. Fyrr hafði landrek eða flekahreyfingar rifið sundur meginlandsskorpuna fyrir vestan Grænland og skilið Baffinseyju frá Grænlandi, en úr því varð nú ekki mikið haf heldur aðeins Davis Sund. Af einhverjum örsökum hætti gliðnun í Davis Sundi og myndaðist þá mikil sprunga í jarðskorpunni, sem skildi Grænland frá Skandinavíu og Bretlandseyjum. Það var upphaf Norður Atlantshafsins. Gliðnunin var samfara mikilli eldvirkni eftir flekamótunum öllum. Eldvirknin myndaði úthafshrygg á hafsbotni þar sem flekarnir skildust að, en einnig gubbaðist mikið magn af basalt kviku upp á jaðra meginlandanna unhverfis. Þá varð til blágrýtismyndunin sem er útbreidd á austur strönd Grænlands og einnig á Bretlandseyjum. Á sama tíma hlóðst upp blágrýtismyndunin sem hefur skapað Færeyjar. Önnur mynd sýnir staðsetningu Færeyja á þessum tíma, fyrir um 55 milljón árum, skammt undan austur strönd Grænlands.
Þar eru blágrýtismyndanir sýndar með rauðum lit. Eins og myndin sýnir voru Færeyjar þá aðeins um 150 km undan strönd Grænlands. Nú hefur einnig verið sýnt framá með efnafræði greiningu basalt myndananna að hægt er að rekja sömu myndanirnar milli Færeyja og Grænlands. Ísland var auðvitað ekki til á þessum tíma, en myndaðist svo miklu síðar (sennilega hefur það byrjað að koma uppúr sjó fyrir um 20 milljón árum) á hafsvæðinu, sem var og er síbreikkandi milli Færeyja og Grænlands.
Söguleg hraun í grennd við höfuðborgina
27.5.2012 | 13:43

Er elsta Jarðfræðikortið frá 1886?
15.7.2011 | 11:28

Hver teiknaði Íslandskortið, og hvaðan komu jarðfræðiupplýsingarnar? Ef til vill var það þýski jarðfræðingurinn Konrad Keilhack (1858-1944) sem síðar fórst í sprengjuárás á Berlin árið 1944. Keilhack var prófessor í Berlín í mörg ár og ferðaðist um Ísland árið 1883 í för með Carl. W. Schmidt. Ef til vill var það einnig sænski jarðfræðingurinn Carl W. Paijkull, sem fór um Ísland árið 1867 og gaf þá út lítið jarðfræðikort af Íslandi. Eð af til vill komu upplýsingar í kortið einnig frá Þorvaldi. Alla vega er hér merkilegt fyrsta framlag af gerð jarðfræðikorts Íslands.