Í grennd við Þorbjörn

Þorbjörn brotinnÞessa ágætu loftmynd sendi mér Ágúst Guðmundsson hjá fjarkonn@simnet.is  en myndin gefur góða kynningu á svæðinu rétt fyrir norðan Grindavík.  Fyrir miðju er móbergsfjallið Þorbjörn frá Ísöld, en það er rifið og margklofið af þremur norðlægum sprungum og gjám. Rétt norðan við Þorbjörn er varmaorkuverið Svartsengi, og þar fast fyrir vestan eru pollar og tjarnir sem mynda Bláa Lónið. 

Ég kom fyrst í Svartsengi með Þorleifi Einarssyni jarðfræðing árið 1976. Þá var há girðing umhverfis nýju virkjunina og þar voru stórir pollar af heitu vatni, sem var affall frá virkjuninni og rann út í hraunið. Við fundum gat á girðingunni og fórum að stærsta pollinum. Hann var mátulega heitur og það var mjúkur  og mjallhvítur leir sem þakti allan botninn svo hægt var að ganga berfættur á hraunbotninum.  Við Þorleifur fórum úr öllu og fengum okkur ágætt bað.  Síðar varð þetta skolvatn úr virkjuninni nefnt Bláa Lónið og fólk greiddi fé fyrir aðgang.

Við vestur og suðvestur jaðar Þorbjarnar er mikið flæmi af ungum hraunum, en þessi hraun eru flest frá miklum hraungosum á tímabilinu 1210 til 1240 e.Kr. sem mynduðu Eldvörp. Það hraun rann suður til sjávar. 

Austan við Þorbjörn er lítið móbergsfell sem ber nafnið Hagafell. 

Í sundinu milli Þorbjarnar og Hagafells er um 2000 ára gömul hraunsprunga og gígaröð en gígarnir eru fast við vestur og suðvestur hlíð Hagafells. Þessi gossprunga endar um 2 km fyrir norðan Grindavík, en hraunið rann til sjávar og liggur undir miklum hluta bæjarins. Það minnir okkur rækilega á að jarðskorpan undir bænum er mjög ung og mikil umbot hafa átt sér stað hér tiltölulega nýlega —- í jarðfræðilegum skilningi. Það er fyrst og fremst Kristján Sæmundsson sem hefur kortlagt allt þetta svæði og lesið úr jarðsögu þess. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband