Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2017

Rætur Íslands fundnar

plumes_final_700pxJarðeðlisfræðingar gegnumlýsa jörðina á svipaðan hátt og læknar gera með líkamann, til að rannsaka innri gerð hennar. En jarðelisfræðingarnir beita ekki Röntgengeislum, heldur jarðskjálftabylgjum við sínar rannsóknir. Með þessari aðferð geta þeir greint svæði innan jarðar, sem hafa annað hvort óvenjulega háan hraða fyrir jarðskjálftabylgjur, eða óvenjulega hægan hraða.

Nú hefur komið í ljós við slíkar rannsóknir að það er lag djúpt í jörðu, þar sem jarðskjálftabylgjur eru mjög hægfara. Lagið nefnist ultralow-velocity zone (ULVZ) eða hægfaralagið. Reyndar er það ekki samfellt lag, heldur stakir blettir á mörkum möttuls og kjarna jarðar, á um 2800 km dýpi. Það hefur fundist undir Hawaii eyjum, undir Samoa eyju í Kyrrahafi suður, og nú undir Íslandi.

Kaiqing Yuan og Barbara Romanowicz í Kalíforníu hafa nú fundið hægfaralagið undir Íslandi, á um 2800 km dýpi, en merk grein þeirra var birt í Science í þessari viku. Lagið er um 15 km á þykkt og nær 880 km í þvermál, beint undir landinu. Í laginu eru jarðskjálftabylgjur um 30% hægari en í venjulegu möttulefni. Að öllum líkindum er þetta hægfaralag því rótin á möttulstróknum, sem flytur efni af miklu dýpi úr möttlinum og upp á yfirborðið undir Íslandi og skapar heita reitinn sem er Ísland. Myndin sem fylgir sýnir hugmynd þeirra um hægfaralagið og tengsl þess við möttulstrókinn og Ísland á yfirborði.

Það er talið að ytra borð kjarnans sé mjög heitt efni, sennilega um 4000 stig. Botninn á möttlinum, sem hvílir á kjarnanum, er talinn byrja að bráðna til að mynda kviku á um 3500 stigum, og eru því nokkrar líkur á að hægfaralagið sé að mestu kvika eða alla vega mjög kvikuríkt lag. Það má segja að við séum sífellt að komast nær og nær rótum myndunar Íslands með frábærum rannsóknum eins og þessum.


Eru afkomendur Thule fólksins í Ammassalik?

000022074 copyÍ síðasta bloggi fjallaði ég um hvernig heill þjóðflokkur af Thule fólki á norðaustur Grænlandi hvaf árið 1823. Breski skipstjórinn Clovering hitti tólf manna hóp þeirra á eyju þar sem skilyrði til veiða voru best. Næsta dag voru þeir allir horfnir. Héraðið var mannlaust á eftir, í nákvæmlega eitt hundrað ár, þar til Danir fluttu 85 manna hóp af Inuitum, nauðuga -- viljuga, 70 frá Ammasalik og 15 frá vestur Grænlandi, til Scoresbysunds og settu á laggirnar nýja þorpið Ittoqqortomiit.

Hvert fóru þeir, eða dó stofninn hreinlega út vegna sjúkdóma, við smit frá evrópskum hvalföngurum? Fundur á nokkraum dauðahúsum (rústir þar sem mannaleifar finnast innan húss, ógrafnar) bendir til mikilla sjúkdóma eða sults.

Suður mörk þessa svæðis Thule fólksins á norðaustur Grænlandi eru eins og jökulveggurinn í Game of Thrones: nær algjörlega ófær.   Þetta er fjallgarður úr blágrýti eða gömlum basalt hraunlögum. Hann ber nafnið Geikie Plateau, og er þar hvergi lendingu að fá. Austur oddi á Geikie Plateau fjallgarðinum er Kap Brewster. Það beygir ströndin skarpt til suðurs, en samfellt hamrabelti kallað Blosseville ströndin, tekur við í mörg hundruð kílómetra til suðurs. Hvergi er lendingu aða skjól að fá á þeirri strönd. Thule fólk fór þá yfirleitt lítið eða ekkert sunnar en Scoresbysund. Fólksflutningar fóru fram á sjónum eða á hafís, ekki yfir fjöll og firnindi.

Það eru samt heimildir sem sýna að Thulefólk fór búferlum frá Scoresbysundi og alla leið til Ammassalik (Tasiilaq), 850 kílómetra langa leið, og á afkomendur þar í dag. Það var árið 1884 að kaptainn Gustav Holm kom til Ammassalik, fyrstur evrópumanna, en leiðangur hans fór á konubátum (umiaq) frá vestur Grænlandi og fyrir suður odda Grænlands og réru þeir síðan up með norðaustur ströndinni þar til þeir koma til Ammassalik. Þar uppgötvar Holm byggð Inuita sem höfðu verið algjörlega einangraðir frá Evrópumönnum um aldur og ævi.   Þetta var og hafði lengi verið eina byggðin á allri austurströnd Grænlands þar til Ittooqortomit nýlendan var stofnuð í Scoresbysundi árið 1924. Það kom strax í ljós að íbúar Ammassalik voru sérstæðir. Þeir höfðu til dæmis ólíkan framburð Grænlenskunnar.

Trúboðar setja upp búðir í byggðinni árið 1894 og byrjuðu að kristna fólkið. Einnig kemur danska stjórnin upp verslunardtöð það ár. Það var árið 1905 sem danski mannfræðingurinn William Tahlbitzer kemur til Ammassalik og dvelur yfir eitt ár í þorpinu. Þá voru 470 íbúar á Ammassalik svæðinu og nær allir hétu þeir heiðnum nöfnum. Fólkið var enn á steinöldinni hvað snertir menningu og tækni. Verslunarmiðstöð danska ríksins og kirkjan urðu smátt og smátt miðpúnktar þjóðlífsins fyrir íbúana.

Tahlbitzer sýndi fram á að í Ammassaliq ríkir mállýska sem er mjög ólík þeirri sem ríkir á vestur strönd Grænlands. Tahlbitzer gerði mjög merkar athuganir á íbúum og skráði hina ýmsu þætti í menningu þeirra. En hann tók líka myndir. Hér með fylgir ein af myndum Tahlblitzers, sem er tekin af fjölskyldu í sumarbúðum á Kap Dan, á suður enda Kulusuk eyjar. Það er angakokinn eða galdramaðurinn Ajukutoq sem stendur hér fyrir miðju, ber að ofan, með konu sinni Söru til vinstri og hinni konu sinni Helenu og fimm börnum þeirra. Hárgreiðsla kvennana, með stóran topphnút og strengi af hvítum og lituðum glerperlum, er sérstök og einkennandi fyrir þetta svæði. Hnúturinn er mikið tískufyrirbæri, sem hækkar konurnar og gerir þær tignarlegri, eins og íslenski skautbúningurinn gerði. Myndin er algjörlega klassísk sem listræn ljósmynd, en hún gefur einnig innsýn í horfna menningu, sem heyrði steinöldinni til. Galdrakarlinn Mitsuarnianga sagði Tahlbitzer sögur af ferðum forfeðra sinna frá norðaustur Grænlandi og suður til Ammassalik, en langafi hans tók þátt í þeirri ferð, þegar hópar Inuita fóru frá Scoresbysund svæðinu og all leið suður til Ammassalik í lok átjandu aldar eða í byrjun nítjándu aldar. Sennilega sigldu þeir þessa leið á umiaq eða konubátum. Tunu er Grænlenskt orð sem þýðir “hin hliðin”, og vísar það til austur Grænlands, en íbúar austurstrandarinnar eru oft kallaðir Tunumiuts. Ég þakka Vilhjálmi Erni Vilhjálmssyni fyrir aðstoð með myndefni.


Þegar síðasti maðurinn hvarf frá Scoresbysundi

Hinn 18. ágúst árið 1823 hittust Evrópubúar og Thule fólk eða Inuitar í síðasta sinn á Norðaustur Grænlandi. Þessi fundur varð þegar skipstjórinn á HMS Griper, Charles Douglas Clavering að nafni, hitti tólf Inuita í sumarbúðum þeirra á suður hluta eyjarinnar, sem nú ber nafn skipstjórans: Claveringö. Clavering var fyrsti Evrópubúinn sem sigldi í gegnum hafísinn og komst í land á norðaustur Grænlandi. Eftir þennan fund hafa margir Evrópumenn farið um þessar slóðir, en enginn hefur hitt fyrir neina Inuita eða Thule fólk hér síðan. Sá kynþáttur er því talinn útdauður á norðaustur Grænlandi. Hreindýrin hurfu frá norðaustur Grænlandi um aldamótin 1900.

SodhousesÁrið 1925 fluttu Danir hóp af Grænlendingum , 85 talsins, til Scoresbysunds, til að stofna nýlendu þar. Þetta var gert í þeim tilgangi að helga svæðið danska ríkinu, en Norðmenn gerðu einnig tilkall til norðaustur Grænlands á þessum tíma. Þessi nýlenda er nú þorpið Ittoqqortoormiit við Scoresbysund, með um 450 íbúa.

En hvaðan kom fólkið, sem var hér fyrir árið 1823? Og hvað varð um það? Nú er vitað að Thule fólkið kom upprunalega norðurleiðina, frá Thule á norðvestur Grænlandi, til norðaustur Grænlands. Sennilega hefur fólkið farið þessa ferð að mestu í umiaq bátum. Í byrjun fimmtándu aldar voru miklir mannflutningar á Grænlandi. Þá birtist Thule fólkið fyrst á norðaustur Grænlandi, umhverfis Scoresbysund. Sennilega var þetta landnám tengt loftslags- og umhverfisbreytingum. Rannsóknir á borkjörnum úr vatnaseti benda til þess að fyrir komu Thule fóksins til austur Grænlands hafi ríkt hlýrra loftslag og meiri snjór. En frá 13 öld og fram á nítjándu öldina hafi veðurfar verið kaldara, þurrara, en fremur sveiflukennt. Þegar landnámið gerist, á fimmtándu öldinni, var mikill hafís ríkjandi en minni snjókoma, einkum á því tímabili sem við nefnum “Litlu Ísöldina” frá fimmtándu öld og fram á nítjándu öldina. Á þessum tíma gerði samfelld hafísbreiða og tiltölulega lítil snjókoma Thule fólkinu kleift að ferðast um og nýta sér stórt svæði austur og norðaustur Grænlands með þeirri einstöku tækni sem þeir höfðu þróað: léttum sleðum, snjóhúsum, kayak og sela- og hvalaskutlum. Ef til vill var tækni og kunnátta þeirra við að skutla sel niður um ís mikilvægust, en til þess þurfti að þróa sérstaka skutla og annan sérútbúnað. Við gerum okkur yfir leitt ekki neina grein fyrir því, að fólkið sem forfeður okkar kölluðu skrælingja, hafði þróað mikla tækni sem gerði þeim kleift að lifa og komast sæmilega af á heimskautssvæðinu, miklu betur en forfeður okkar Eiríkur rauði og Grænlandsfararnir frá Breiðafirði, sem réðu ekkert við Litlu Ísöldina og dóu út í Eystribyggð og Vestribyggð á miðöldum.

thulehousediagramFornleifarannsoknir sýna að Thule fólkið hafðist við hluta ársins á annesjum norðaustur Grænlands, þar sem stutt var á miðinn til að taka sel undir ísnum eða í grend við polynyas eða stórar vakir, sem haldast opnar árið um kring og gefa kost á veiðum hvala. En greining á beinum Thule fólksins og leifum í byggðum þeirra sýna að hreindýr voru líka mikilvægur þáttur í matarræði þeirra og jafnvel mikilvægari en selur. Hreindýr þrífast í heimskautaumhvefi þar sem úrkoma (snjókoma) er í lágmarki. Bestu skilyrði fyrir hreindýr á norðaustur Grænlandi ríktu frá um 1600 til um 1850. Fornleifarannsóknir sýna að byggð Thule fólksins var eftir allri norðaustur ströndinni, eins og kortið sýnir.   Það kemur í ljós út frá rannsóknum Mikkel Sørensen og Hans Christian Gulløv (2012) að fjöldi torfkofa er meðfram ströndinni og einnig í innfjörðum. Á þessu svæði lifði Thule fólkið í um 450 ár, um það bil átján kynslóðir.  Í nokkrum hluta af torfkofunum finnast mannabein, eins og fjölskyldan hafi dáið inni, annað hvort af sulti eða sjukdómum. Slík hús eru nefnd dauðahús. Ef til vill er örnefnið Dödemandsbugten á Claveringö af þessum uppruna.

Upplýsingar um norðaustur Grænland koma fyrst frá hvalföngurum sem sigldu frá Evrópu. Breskir hvalfangarar komu fyrst í grennd við norðaustur Grænland árið 1608, á leið sinni til hvalveiða umhverfis Svalbarða. Árið 1612 voru Hollendingar á þessum slóðum og svo skömmu síðar Frakkar, Spánverjar og Danir á hvalveiðum. Hvalfangararnir sáu til lands á norðaustur Grænlandi, en ekki er vitað um lendingar þar. Árið 1822 gerði enski hvalfangarinn William Scoresby furðu nákvæmt kort af þessari strönd. En það er mjög líklegt að hvalfangarar hafi farið í land í norðaustur Grænlandi og haft samneyti við Thule fólkið. Sönnun þess eru einstaka munir úr málmum og gleri og brenndum leir, sem finnast við uppgröft í byggðum Thule fólksins. Fyrst Evrópumenn skiftust á gjöfum og gripum við innfædda, þá hafa þeir einnig skilið eftir smitnæma sjúkdóma. Sennilega hefur orðið mikil fólksfækkun meðal Thule fólksins af þeim sökum, en sú saga er algjörlega óþekkt. Skýrir það að hluta til þessa miklu fólksfækkun og hvarf Thule fólksins á svæðinu?

BoneÁrið 2014 sigldi ég um Scorebysund og kom í mynnið á firði, sem ber nafnið Rypefjörd eða Rjúpufjörður. Mér leist vel á svæðið og velti fyrir mér hvort Thule fólk hefði ef til vill haft aðsetur hér. Best leist mér á grasbala og móa við litla á nálægt mynni fjarðarins (sjá kort). Við fórum í land og, viti menn, þarna gengum við beint á rúst við árbakkann. Hér voru leifar af torfkofa, með hlaðna stein- og torf veggi, svipað því og þekktist á Íslandi fram á tuttugustu öldina. Myndin sýnir skissu af slíkum Thule kofa. Þar er pallur innst inni, sennilega til hvílu, lægra svæði sem hefur verið notað við eldamennsku og svo hlaðin, þröng göng, um tveir metrar á lengd, sem skriðið var út um. Göngin eru hlaðin með steinhellum, sem eru reistar á rönd.

Utan í vegg sá ég standa út úr jarðveginum eitt fallegt bein, sem hafði greinilega verið tálgað til og notað í smíði, sennilega sem rif í kajak. Smiðurinn hafði borað göt í beinið til að binda það við grind kajaksins.  Ég stóðst ekki mátið og tók beinið til aldursgreiningar með geislakola- eða C14 aðferðinni. Aldursgreining á þesu rifbeini gefur aldur um 1660 AD eða um 1780 AD. Það er um tvo möguleika að ræða hvað snertir aldur, vegna þess að kúrvan fyrir C14 tekur lykkju á þessu tímabili, eins og myndin sýnir. Sennilega er yngri aldurinn líklegri, sem bendir til að hér hafi búið Thule fólk um fjörutíu árum áður en kynstofninn þurkaðist út.Curve2


Grænlandsjökull þar sem "mökkurinn" sást

UntitledÞannig lítur yfirborð Grænlandsjökuls út á svæðinu þar sem furðulegur “mökkur” sást á yfirborði jökulsins í flugi í lok april og aftur hinn 11. júlí í ár. Þessi loftmynd er frá Google Earth af svæðinu. Staðsetningin á þessu svæði er lauslega 66.29° N og 38.85° W, um 80 km fyrir vestan Kulusuk. Takið eftir hvað jökullinn er mikið sprunginn á þessu svæði, en sprungur hafa flestar austur-vestur stefnu. Svarti bletturinn efst til hægri kann að vera stöðuvatn á yfirborði jökulsins. Þvermál myndarinnar er um 10 km.

 

 


Macron á leik í loftslagsmálum

Hann Emmanuel Macron Frakklandsforseti er klókur maður.   Nú er hann búinn að taka slagorð Trump´s (Make America Great Again!) og snúa því á alla jörðina: Make Our Planet Great Again! Hann hefur sett á laggirnar stórt rannsóknaverkefni fyrir €60 milljón, til að rannsaka loftslagsbreytingar og áhrif þeirra. Verkefnið er einkum mótað til að draga að sér erlenda vísindamenn í loftslagsfræðum, einkum frá Bandaríkjunum með ríflegum (allt að €1.5 milljón) fjögurra ára styrkjum. Umsóknirnar streyma inn og hundruðir hafa þegar sótt um, aðallega frá Bandaríkjunum, þar sem óstjórn Trumps er að draga úr öllum vísindarannsóknum.  Þýskaland er að undirbúa svipaða herferð og er hætt við því að nú flytjist mikill fjöldi loftslagsfræðinga á brott frá Bandaríkjunum, þar sem ótrúleg þröngsýni og skammsýni ríkir.

 

 

 

 


Er OK að nota útrunnin lyf?

pillurSumir spyrja sig af hverju lyf renni út. Ástæðan er að lyf hafa síðasta söludag, rétt eins og matvara. Sum virk efni lyfjanna eru óstöðug og þau geta misst virkni sína með tíma og óæskileg niðurbrotsefni geta einnig myndast. Lyf eru einnig mismunandi hvarfgjörn en niðurbrot getur verið vegna oxunar, ljóss eða raka.
Endingartími lyfja er misjafn og hann er einnig háður geymsluaðferð: það er best að geyma lyf á köldum, þurrum og dimmum stað (kæliskápur er góður, en ekki má rugla lyfjum saman við matvæli). Útrunnin lyf eru skilgreind þannig: síðasti neysludagur sem gefinn er upp á umbúðum lyfja er sá tími sem framleiðandi lyfsins ábyrgist 100% virkni. Sá tími er oftast gefinn sem 2 til 3 ár. Í Bandaríkjunum er talið að útrunnum lyfjum sé kastað, með verðmæti sem nemur $765 milljarðar á ári hverju, sem er fjórði hluti af allri sjúkrasamlagsstrafsemi landsins.

Nú telja margir að útrunnin lyf sé mýta, trú eða skoðun sem hefur ekki við góð rök að styðjast, mýta sem lyfjaframleiðendur koma fram með til að fá fók til að kasta lyfjum og kaupa ný. Það er margt sem bendir til að lyfjaframleiðendur séu að plata okkur.

Tökum dæmi frá Kaliforníu. Stór kassi fullur af gömlum lyfjum (sum voru eldri en jafnvel tunglfarið árið 1969) fannst í geymslu í lyfjaverslun í Kaliforníu nýlega. Flest eða öll lyfin voru meir en 30 til 40 ára gömul og því löngu útrunnin samkvæmt reglum lyfsala. Tveir lyfjafræðingar tóku kassann og byrjuðu mælingar á efnainnihaldi lyfjanna. Það voru 14 tegundir lyfja í kassanum. Efnagreinigar sýndu að 12 af 14 voru í fínu ástandi og jafngóð og ný lyf. Aðeins tvö reyndust hafa misst eitthvað af lækningakraftinum.

Ég er ekki beint að hvetja fólk til að taka inn útrunnin lyf (þótt ég geri slíkt sjálfur), heldur að benda á að það þarf að fylgjast mun betur með lyfjaframleiðendum og endurskoða aðferðir þeirra við að setja tímamörk á útrunnin lyf. Læknasamtök í Bandaríkjunum (AMA) hafa gert sér grein fyrir því að mörg útrunnin lyf eru ágæt og þafa því reynt að fá FDA, bandarísku lyfjastofnunina, til að breyta reglunum. Ekkert hefur enn gerst í því máli, en hreyfing er nú að vakna.


Ferðamönnum fjölgar enn

brottförHeyrst hafa raddir um, að ferðamönnum muni fækka á Íslandi á næstunni. Hér er tafla með merkilegar tölur frá Ferðamálastofu, sem sýna fjölgun þvert á móti. Í júní 2017 voru brottfarir ferðamanna frá Norður Ameríku 23% fleiri en í þeim mánuði árið áður. Yfir tímabilið janúar til júní voru brottfarir ferðamanna frá Norður Ameríku frá Íslandi 58% fleiri árið 2017 en árið áður. Það merkilega við þessar tölur eru breytingarnar fyrir ýmiss þjóðerni. Það eru ekki bara kanar, sem eru á ferðinni hér. Það er gífurleg aukning í fjölda ferðamanna frá Spáni, Rússlandi, Ítalíu og Kína. Ef til vill er aðeins að draga úr fjölguninni, enda væri það allt í lagi. Þetta er gott svona. Við ráðum ekki við meiri átroðning í þessu viðkvæma landi. Ísland er eins og mosinn: eitt skref útaf leið skilur eftir sig spor, sem tekur tugi ára að hverfa.


Hvernig er best að raða fólki inn í flugvél?

Það versta við flugferðir er biðin á flugstöðinni. Það næstversta er þröngin við innganginn þegar kallið kemur að fara um borð. Flugfélög hafa ýmsar aðferðir við að fylla vélina, en engin þeirra leysir vandann um troðninginn, bæði í ganginum inn og síðan í flugvélinni, áður en fólk kemst í sæti. Hér eru nokkrar aðferðir sem eru í gangi.

Fyrst aftast: Fólki er hleypt inn í hópum, fyrst þeir sem sitja eiga í fimm öftustu röðunum í vélinni og svo koll af kolli, fimm raðir í senn. Þetta er langalgengasta aðferðin og notuð til dæmis hjá Virgin, American Airlines, JetBlue Airways og US Airways. Mythbusters gerði tilraunir með ýmsar aðferðir varðandi sætaskipan og með þessari aðferð tók það 24 mín. 29. sek. að fylla vélina.

Glugginn fyrst: Þessi aðferð byggist á því að hleypa gluggaröðunum in fyrst, síðan miðsætunum og svo síðast þeim sem sitja við ganginn. Aðferðin er kölluð WilMA í bransanum (window, middle, aisle). United beitir henni og einnig WOW. Ég flaug með WOW nýlega og þessi aðferð virkaði vel. Í tilraun Mythbusters tók aðeins 14 mín. 55 sek. að fylla vélina með WilMA aðferðinni. Vandamálið með WilMA er að fók, sem vill sitja saman fer ekki saman inn í vélina. Það gengur því ekki vel með foreldra og börn.

Frjálst val: Einnig mætti kalla þessa aðferð örtröð, en henni er beitt f Southwest Airlines. Sætin eru ekki númeruð og afleiðingin er algjört öngþveiti, en hún virkar samt nokkuð vel. Fók er ekki að eyða tíma í að leita að sætanúmeri, heldur sest beint í fyrsta laust sæti. Í tilraun Mythbuster tók þessi aðferð aðeins 17 mín. 15 sek. og í annari tilraun 14 mín. 7 sek.

tilraunirAð lokum eru hér niðurstöður úr tilraunum sem Carmona og félagar gerðu (2014), sýndar í línuriti. Tíminn er í sekúndum á lóðrétta ásnum, fyrir átta tilraunir sýndar á lárétta ásnum. Það er greinilegt að frjálst val (“random”) er fljótasta og ef til vill leiðin.

Örtröðin sem ríkir í flugvélinni við sætisleit er afleit, en flugfélög gefa aðeins einn kost til að losna við hana: að borga meira og kaupa sæti i fyrsta farrrymi eða business class.  Það er greinilega mjög í hag flugfélaga að spara tímann. Könnun sýnir að með því að stytta tímann sem fer í að fylla vélina af fólki um eina mínútu, þá sparast 22 evrur á hvert flug. Flugfélag með 300 flug á dag sparar sér þannig 2.409.00 evrur á ári.  En hvernig væri að byrja á því að smíða flugvélar með inngang í miðju? á er hægt að fylla í báðar áttir.  Einföld lausn.

 


Gullið í Grænlandi

NalunaqAf hverju finnst gull á Grænlandi, en eiginlega ekkert í bergi á Íslandi? Það er aldur og jarðsaga sem ræður því. Grænland er meðal elstu landa jarðar, allt að 4 milljarðar ára gamalt. Gamalt berg hefur gengið í margt í gegnum jarðaldirnar, eins og gefur að skilja. Grænland hefur til dæmi verið staðsett fyrir sunnan miðbaug, en rak síðan norður. Grænland hefur líka verið grafið djúpt í jörðu, tugi kílómetra, sem hefur hitað og soðið jarðskorpuna og skilið að ýmsar efnasamstæður og frumefni á vissum svæðum. Þá ummyndast bergið og hnoðast, eins og þegar við bökum marmaraköku. Heitir vökvar, sem eru eins konar millistig milli hraunkviku og heita vatnsins okkar, bera með sér þessi efni úr dýpinu, en svo falla þau út og kristallast þegar vökvinn kemur upp í kaldara berg. Þá myndast málmæðar, sem eru grundvöllur fyrir námurekstri.

Það er ótrúleg fjölbreytni í málmum og verðmætum frumefnum í jarðskorpu Grænlands. Framtíðin mun skera úr um, hvernig Grænlendingar munu fara með þessi miku auðæfi í jörðu, en námuvinnsla þar mun hafa gífurleg og neikvæð áhrif á umhverfið, allt til Íslands. Til þessa hefur námugröftur gengið fremur illa, vegna þess að aðstæður allar eru erfiðar og innviði vantar (orka, hafnir, vinnuafl, samgöngur, veðurfar ofl.). Í dag eru fiskveiðar aðal atvinnugrein Grðnlendinga, með fisk um 90% af öllum útflutningi.

En þetta mun breytast með hnattrænni hlýnun jarðar. Auðæfi Grænlands er risastór og merkileg saga. Þar er gull, demantar, rúbínar, heilt fjall af járni, sjaldgæfu jarðefnin (rare earths) sem eru ómissandi í raftækni iðnaðinn og ef til vill olía. Til þessa hafa það verið aðallega námufélög frá Ástralíu og Kanada, sem grafa í Grænlandi, sem eyða um 500 milljón danksar krónur á ári þar.

            Þrátt fyrir öll þessi auðæfi, þá er gull eiginlega eina efnið sem hefur verið unnið í námum Grænlands til þessa. Það er gullnáman Nalunaq á suður Grænlandi, sem Angel Mining félagið hefur grafið í síðan árið 2004 í fjallinu sem nefnist Kirkespiret eða “kirkjuturninn” (sjá mynd). Hún er staðsett um 100 km fyrir suðaustan Bröttuhlíð. Hér kemur gullið fyrir í æðum af kvartzi, sem eru allt að 1 meter á breidd. Í æðunum er magnið af goldgulli milli 18 g 21 grömm í hverju tonni af bergi.   Um tíma komu um 11 til 15 kg af gulli út úr námunni í hverjum mánuði.  Þetta er sem sagt hágæða náma, en þrátt fyrir það var námunni lokað í ágúst árið 2013 vegna falls á gulli á heimsmarkaðnum. Þá féll gull um 30%, frá $1872/oz. og niður fyrir $1300/ oz. Það borgaði sig ekki að halda áfram rekstri. Eins og línuritið sýnir, þá hefur gull frekar lækkað eða staðið í stað á heimsmarkaðnum síðan.

Nú berast fréttir þess efnis að íslenskt fyrirtæki, Alopex Gold, sé að hefja gröft eftir gulli í Nalunaq námunni. Það verður spennandi að sjá hvernig þeim gengur með námugröft og rekstur á þessu einangraða og erfiða svæði.


Ný bók um Snæfellsjökul

Í dag kom út bók mín um Snæfellsjökul. Bókin er gefin út af Vulkan ehf og Eldfjallasafni í Stykkishólmi. Um dreifingu bókarinanr sér Árni Þór Kristjánsson, Reykjavík, arsig@simnet.is  eða í síma 862 8551 eða 581 3226. Hér er fjallað um allar hliðar Jökulsins, jarðsögu, listasögu og mannkynssögu þessa merka eldfjalls og svæðisins umhverfis.

kapa_lokagerd copy


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband