Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2011
Tungl
17.11.2011 | 21:51
Bandaríska geimrannsóknastofnunin NASA var rétt í þessu að gefa út nýtt kort af tunglinu. Myndin fyrir ofan sýnir kortið af hinni hliðinni af tunglinu, eða þeirri hlið, sem alltaf vísar frá okkur og við sjáum aldrei með berum augum eða með sjónaukum frá jörðu. Takið eftir metrakvarðanum til hægri við kortið. Hann sýnir, að hæstu fjöll tunglsins eru 10,7 km á hæð (rauð og hvít) og að dýpstu dalir eru um 9,1 km (bláir og fjólubláir). Heildar hæðarmunur á tunglinu er því um 19,91 km. Það er ótrúlega líkt og hér á jörðu, þar sem Everst er 8,84 km og Marianas dýpið er um 11 km, eða heildar hæðarmunur á jörðinni um 19,84 km. Það er sennilega hrein tilviljun að breiddin í hæðarbreytingum er svo lík, því að það eru gjörólíkir þættir, sem stjórna hæðum jarðmyndana á jörðu og tungli. Á jörðu eru það fyrst of fremst flekahreyfingar, en á tunglinu eru það árekstrar loftsteina, sem mynda landslagið. Kortið er það nákvæmasta sem til er af tunglinu, og er um 100 metrar á milli mælipunkta í því.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 21:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Haraldur á CBS News
16.11.2011 | 17:43
Í dag sýndi CBS News sjónvarpsstöðin í Bandaríkjunum myndefni sem ég vann að ásamt Scott Pelley. Hann fór með mér ða Eyjafjallajökul á meðan á gosinu stóð í fyrra. Meiningin var að sýna efnið á þættinum 60 Minutes, en nú er Scott fluttur milli deilda og styrir kvöldfréttum CBS. Hér má sjá myndefnið með okkur Scott: http://www.youtube.com/watch?v=xz99nuPURXA
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 18:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mikil fegurð í hjúp jarðar
16.11.2011 | 13:39
Eitt fegursta myndasafn sem ég hef séð nýlega er frá ferð alþjóða geimfarsins umhverfis jörðu. Þessar merku myndir er til dæmis hægt að skoða á vefsíðu Vimeo hér: http://vimeo.com/32001208 Myndirnar voru teknar frá því í águst til október árið 2011, þegar geimfarið var í um 350 km hæð yfir jörðu. Það er margt furðulegt sem kemur hér í ljós, en stórkostlegust eru norðurljósin, sem myndast í um 100 til 300 km hæð. Ég hafði aldrei fyrr gert mér grein fyrir hvað norðurljósin eru neðarlega. Þau myndast þegar sólvindurinn streymir inn miklu magni af rafeindum inn að jörðinni. Rauðu norðurljósin munu myndast þegar köfnunarefnisatóm verða fyrir eindum úr sólvindinum. Einnig er gaman að fylgjast með hvítum eldingablossum þar sem stórir stormar geisa, einkum á hitabletissvæðum jarðar. Annar áberandi þáttur eru allar upplýstu borgirnar á jörðu, og eru ljósin nær samfelld á sumum svæðum. Í Egyptalandi er ljósadýrðin á bökkum árinnar Nílar ótrúlega mikil, eins og glóandi gulllitur borði alla leið norður í Miðjarðarhaf. Það er raforkan frá vatnsorkuverum í Aswamstíflu sem kemur hér í ljós.
Smástirnið 2005 YU55
5.11.2011 | 12:48
Næsta þriðjudag, 8. nóvember, fer smástirnið 2005 YU55 nærri jörðu. Þetta er stór og hnöttóttur steinn, um 400 metrar í þvermál, og hann skutlar sér á milli jarðar og tunglsins á hraða sem er um 13,72 kílómetrar á sekúndu. Hvíta strikið á myndinni fyrir ofan sýnir brautir jarðar og tunglsins, en hvíta strikið er braut smástirnisins á þriðjudag, þegar það smýgur milli jarðar og tungls. Þá er það næst jörðu, í um 324627 km fjarlægð frá okkur. Engin hætta er talin stafa frá smástirninu í þetta sinn, en í framtíðinni kann braut þess verða nær jörðu. Það heimsækir jörðu aftur árið 2041, og verður þá ef til vill á braut enn nær okkur. Hins vegar gefst nú tækifæri til að rannsaka yfirborð þess nánar, og verður spennandi að fylgjast með fréttum af þeim rannsóknum á næstunni. Smástirnið er nær svart á lit og er talið að það innihaldi því mikið magn af kolefni. Myndin fyrir neðan er tekin með radar, og sýnir að 2005 YU55 er alveg hnöttótt.