Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2009

Drekarnir á Komodo

Það Komodo 1mennt álitið, að risaeðlurnar hafi orðið útdauðar fyrir 65 miljón árum síðan, þegar loftsteinn ekki minni en 10 km í þvermál skall á jörðina. Ef dæma skal út frá því sem ég sá á eyjunum Rinca og Komodo í Indónesíu nú í vikunni þá mætti halda að ekki séu þær nú allar horfnar. Komodo eyjaklasinn er einn þekktasti þjóðgarður Indónesíu og ég ferðaðist milli eyjanna á bátnum Binteng Laut í för með Lukman Hidayat, forstöðumanni þjóðgarðsins. Við lögðum upp í ferðina frá bænum Labuhan Bajo ("Krókódílahöfn”) vestast á eynni Flores í Indónesíu, og héldum til eyjarinnar Rinca, sem er gamalt eldfjall eins og reyndar allar eyjar hér um slóðir. Hér var mér afhentur 3 metra langur stafur, sem er klofinn eins og forkur í annan endann, og síðar kom í ljós að þetta er er nauðsynlegt vopn í návígi við Komodo drekana. Mér fannst þetta vera óþarfi, en Lukman fullyrti að drekarnir væru stórhættulegir og miklu verri en krókódílar í viðureign. “Notaðu stafinn til að halda þeim frá þér, og ef þeir ráðast á þig, þá er best að reka forkinn í augun” sagði Lukman. Lukman sagðist aðeins einu sinni hafa komist í hættu og orðið alvarlega hræddur á eyjunum. Hann var einn á ferð í skóginum og tók ekki eftir dreka sem leyndist á bak við tré. Drekinn hljóp á hann og Lukman hafði ekki tíma til að bregða stafnum góða fyrir sig, en tók til fótanna í staðinn, klifraði upp í tré og slapp. Lukman  Hann fullyrðir að drekarnir geti hlaupið á 14 km hraða á klst. Þá hætta þeir að skríða og lyftast frá jörðu og skeiða yfir völlinn eftir bráð sinni.Það eru mörg dæmi þess að drekar hafi drepið menn. Einkum eru það börnin í þorpunum tveimur á Rinca og Komodo sem hafa orðið þeim að bráð. Síðast var það 9 ára strákur á Komodo hinn 4. júní árið 2007. Honum blæddi einfaldlega út eftir árás drekans. Hinn 24. mars 2009 réðust tveir drekar á sjómann, Muhamad Anwar, á Komodo. Hann var að ná sér í ávexti úti í skógi þegar hann varð fyrir árás. Hann var látinn þegar hann barst loks á sjúkrahús á eynni Flores. Eitt þekktasta tilfellið varð árið 1974, en þá var svissneskur barón og náttúruunnandi, Rudolf Biberegg, étinn af drekum. Á fjallsbrún á eynni Komodo stendur hvítur kross, og á honum er eftirfandi áletrun: Til minningar um Baron Rudolf Von Reding Biberegg, fæddur í Svisslandi 8. ágúst 1895 og hvarf hér á eynni hinn 18. júlí 1974. “Hann unni nátúrunni allt sitt líf.”Baróninn var í drekaskoðun með félögum sínum en dróst aftur úr hópnum, og varð viðskila. Eftir mikla leit fannst hatturinn hans, myndavélin og einn blóðugur skór þar sem krossinn stendur. Drekinn hafði étið allt hitt. Einnig hefur drekinn þann leiða sið að grafa upp lík í grafreitum hinna innfæddu í eina þorpinu á Komodo, þar sem um 500 manns búa. Buffalo 2   Af þeim sökum hafa íbúarnir hlaðið stórum hnullungum af kóral og öðru grjóti ofan á grafirnar til að vernda leifar liðinna ættingja. Þegar ég kom í land á Rinca fór Lukman með mig beint til miðstöðvar þjóðgarðsins í Loh Buaya. Við komum fyrst að litlu húsi og Lukman segir: “Hér inni á skrifstofunni varð einn af starfsmönnum mínum fyrir árás nýlega. Hann sat við störf við skrifborðið þegar drekinn greip utan um báða fæturna og særði hann illa, og klippti í sundur slagæðar á báðum fótum. Næst beit drekinn hann á handlegg. Hjálp barst að og maðurinn lifði þetta af, en þetta var bara ungur dreki, innan við tíu ára.” Við fórum inn í skrifstofuna og þar tók á móti okkur ung og falleg kona sem hefur nýlega hafið störf. Ég spurði hana hvort hún kíkti ekki alltaf undir skrifborðið þegar hún kæmi í vinnuna. Hún sagðist alltaf loka útidyrunum. Reyndar voru þær opnar þegar okkur Lukman bar að garði. Þjóðgarðsstöðin í Loh Buaya eru nokkur timburhús í þyrpingu, og eitt þeirra er eldhúsið sem stendur á meir en eins meters háum stultum eða staurum. Þar í skuganum, undir húsinu lágu nokkrir stórir drekar, sumir meir en tveir metrar á lengd. Sumir voru steinsofandi en hinir lágu rólegir og fylgdust með okkur. Lukman var búinn að úthluta mér löngum staf með klofnum enda, og ég var við öllu búinn. “Það er allt í lagi, þeir eru alltaf hérna út af matarlyktinni frá eldhúsinu” sagði Lukman. Ég fór nú að taka Lukman alvarlega og gætti þess að fylgja honum fast á eftir. Mér til léttis, þá rak einn aðstoðarmaður hans lestina á ferð okkar um frumskóginn, svo ég þurfti ekki að líta alltaf um öxl. Við gengum upp gilskorning á Rinca, í áttina að vatnsbóli. Hér rennur stórfljót um regntímann, en nú í lok þurrkatímans í nóvember og desember var árfarvegurinn alveg þurr. Lukman fór varlega og steig mjúkt til jarðar og við forðuðumst að gera hávaða eða tala saman. Eftir háltíma göngu vorum við komnir í grennd við vatnsbólið og strax mátti sjá vitnisburð um verknað drekanna: hauskúpur af öpum, dádýrahorn, og stór hauskúpa af buffaló, prýdd svörtum hornum, lá í árfarveginum. “Þetta er það eina sem þeir skilja eftir, en þeir éta allt hitt” sagði Lukman. “Stundum finnum við dauðann dreka, með dádýrshorn sem stendur út úr maganum. Hann hefur þá gleypt hausinn með hornum og öllu, og beittur broddurinn á horninu gert gat á magann.”Allt í einu stöðvast Lukman og bendir mér á dreka sem liggur flatur í mölinni. Hann er ekki undir 3 metrar á lengd, steinsofandi, og belgurinn úttroðinn af mat. Hér rétt hjá er stór pollur í árfarveginum, og í honum tveir risastórir og kolsvartir buffalóar, á stærð við stærstu naut. Annar var að drekka í rólegheitum, og lagðist í drullupollinn öðru hvoru til að kæla sig. Hinn lá alveg kyrr í pollinum. “Hann er særður af drekabiti, og vill ekki standa upp” sagði Lukman. “Ef hann stendur upp úr vatninu þá finna drekarnir lyktina af rotnandi holdi og koma strax og klára hann.” Rannsóknir sýna að drekinn getur þefað upp bráð sína í meir en 10 kílómetra fjarlægð, en það er ekki bara nefið, heldur einnig langa og klofna tungan sem er þeffærið. Við héldum áfram upp farveginn, og komum að öðrum stórum polli þar sem mikill fjöldi af drekum var saman kominn til að rífa í sig dauðan buffaló. Ég taldi hér sextán dreka, af ýmsum stærðum. Litlu drekarnir voru að rífa út augun úr hausnum, en þeir stóru voru komnir á kaf í kviðholið. Fullsaddir drekar lágu á jörðinni allt í kringum okkur, en Lukman gætti þess að hafa alltaf klofna stafinn tilbúinn á meðan ég var að taka myndir, ef þeir gerðu sig líklega til að ráðast á okkur. Eitt af höfuð einkennum í byggingarstíl húsa í austur hluta Indónesíu er, að þau eru alltaf byggð á stultum eða stólpum, og er gólfið þá um 1.5 metra fyrir ofan jörðu. Er þessi gamli siður í húsagerð ef til vill til þess að vera óhultur frá drekanum í rúminu á nóttinni? Áður fyrr var Komodo drekinn á öllum eyjum í austur hluta Indónesíu, og þar er einmitt þessi húsagerð ríkjandi. Lukman var mjög hrifinn að þessari nýju kenningu minni varðandi hugsanleg áhrif drekans á arkitektúr. Ég benti honum á að skrifstofan á þjóðgarðsstöðinni, þar sem einn starfsmaður Lukmans varð nýlega fyrir árás, er eina húsið í stöðinni sem er ekki á staurum.Komodo drekinn er algjör kjötæta og étur annað hvort hræ, eða veiðir sér í matinn, sem er algengara. Aðal fæðan eru dádýr, sem eru mjög algeng á Komodo, viltur buffalo, villisvín, villtir hestar, fuglar, apar (einig mjög algengir hér), og reyndar allt sem hreyfist. Hann er svo gráðugur að hann étur einnig afkvæmi sín. Af þeim sökum forða ungu drekarnir sér strax upp í tré, um leið og þeir skríða úr egginu. Þeir eru óhultir í trjánum, og lifa fyrstu árin á skordýrum og öðrum smádýrum sem þeir finna í trjánum. Eftir tvö til þrjú ár dirfast þeir að stíga niður til jarðar en eru varir um sig fyrst í stað gagnvart fullorðnum drekum. Lukman sagði mér að drekinn sé alveg stórkostlegur veiðimaður. Hann er mjög vel falinn, þolinmóður að bíða við vatnsbólið og ótrúlega snöggur í hreyfingum þegar bráðin er komin í færi. “Hann er miklu hættulegri en krókódílarnir” fullyrti Lukman, og hann ætti að vita það, eftir margra ára dvöl á eynni Borneó. Komodo drekinn er tegundin Varanus komodoensis og er kallaður ora á máli hinna innfæddu. Hann getur verið allt að 170 kg. Þessi eðlutegund er reyndar fjarskyld risaeðlunum, en tilheyrir monitor eðlutegundinni. Drekarnir drepa bráð sína á tvennan hátt. Ef þeir komast í nágvígi þá geta þeir klippt af útlimi með einu biti, eða rifið dýrið á hold. Hin aðferðin sem þeir nota er að sýkja bráðina með blóðeitrun og éta hana síðar þegar bráðin drepst af sýkingunni eftir um það bil eina viku. Komodo 3Munnvatnið er eitt aðal vopn drekans. Það er oftast blóðlitur á slefanum eða munnvatninu, vegna þess að mikil sár myndast í kjaftinum af brotnum beinum á meðan á matarhöldum stendur. Þetta myndar frábærar aðstæður fyrir bakteríugróður í kjaftinum og er þar að finna að minnsta kosti 57 tegundir. Þar eru til dæmis bakteríurnar Escherichia coli, Staphylococcus, Providencia, Proteus morgani, Pasteurella multocida og P. mirabilis. Bakteríurnar eru svo skæðar að það tekur ekki nema átta tíma að valda blóðeitrun í líkamanum eftir bit. En það er ekki nóg með það. Nýjustu rannsóknir sýna að munnvatnið inniheldur einnig eiturefni sem geta leitt til dauða. Tennurnar er margar og flugbeittar eins og rakvélablöð og einnig eru klærnar langar og hættulegar.Drekarnir eru vel syndir og hafa sést á sundi allt að 1 kílómeter frá landi, og geta kafað niður á amk. 2 m dýpi, þar sem þeir ná sér í fisk í matinn. Sporðurinn er mjög kraftmikill til sunds, og einnig sem vopn á landi. Þeir verpa oftast í september, og eru hreiðrin miklar holur sem þeir grafa í jarðveginn. Þeir verpa um tuttugu til þrjátíu eggjum, sem ungast út eftir um 7 til 8 mánuði, oftast í apríl, þegar einmitt er mest af skordýrum, en ungviðið lifir í fyrstu aðallega á skordýrum. Mikill hluti af eggjunum er étinn af villisvínum og viltum hundum og jafnvel móðurinni sjálfri. Drekarnir lifa í meir en 50 ár, og er talið að aðeins um 3000 drekar séu nú á lífi á Komodo eyjum. Stofninn er því lítill og í mikilli hættu.Það er furðulegt að Komodo drekinn var ekki uppgötvaður af vísindamönnum fyrr en 1910, en það sýnir hversu afskekktar Komodo eyjar eru. Auðvitað hafa innfæddir þekkt ora í margar aldir, en byggð hefur aldrei verið fjölmenn á eyjunum, vegna vatnsskorts. Þorpið á Komodo var stofnað fyrir um þrjú hundruð árum sem fanganýlenda, og voru afbrotamenn frá Sumbawa og Flores sendir þangað til refsingar. Vafalaust hefur mannkynið komist í tæri við Komodo drekann í mörg þúsund ár, þegar hann var miklu útbreiddari í Austur Indíum. Í kínverskri menningu er til dæmis drekinn mjög mikilvægt fyrirbæri, bæði í myndlist og sögnum, og hafa menn velt því fyrir sér að Komodo drekinn sé fyrirmynd kínverska drekans.Mér létti þegar Lukman stakk uppá því fyrsta kvöldið að við svæfum á þilfari bátsins, frekar en að tjalda í landi. Næsta dag könnuðum við eyna Komodo, sem er töluvert stærri og hálend. Íbúar þorpsins lifa nær eingöngu á fiskveiðum og þurrka aflann í sólinni. Þefurinn var ótrúlegur og er spursmál hvort fiskurinn rotni ekki áður en hann þornar. Hér rákumst við á stærsta drekann, sem var einn á ferð í fjörunni. Mér fannst hann varla geta verið mikið minna en tæp 200 kg og vel yfir 3 metrar á lengd. Hann var á hraðferð og sennilega vel saddur því hann leit ekki við okkur í þetta sinn.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband