Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2019
Grímur Jónsson Thorkelin og Bjólfskviða
18.11.2019 | 03:56
Grímur Jónsson Thorkelín og Bjólfskviða
Grímur Jónsson Thorkelin er fæddur í Bæ í Hrútafirði í október árið 1752. Hann deyr í Kaupmannahöfn í mars árið 1829 eftir merkilegan feril. Sendur ungur í nám í Skálholtsskóla árið 1765. Þar sýndi hann mikla námshfileika og var sendur til frekara náms í Kaupinhöfn árið 1770. Útskrifast áið 1773 en hélt áfram námi og rannsóknum varðandi lögfræði og norræn handrit. Árið 1777 er hann skipaður ritari Arnamagnæanske Kommisions, handritastofnun Árna Magnússonar. og síðan prófessor við Kaupinhafnarháskóla árið 1783. Þá varð hann umsjónarmaður skjalasafns Danakonungs.
Árið 1785 fer hann í tveggja ára ferð til Bretlandseyja til að leita að skjölum og fróðleik varðandi vist norrænna manna þar í landi. Næstu fimm árin var hann erlendis og lærði góða ensku og kom upp sterkum samböndum við fræðimenn.
Merkasta afrek Gríms var að uppgötva handrit með fornkvæðinu Bjólfskviðu í British Museum áeið 1785. Gamla kálfskinnshandritið er enn á sínum stað í British Museum í London, gulnað og brennt eða sviðið á köntum. Þess er fyrst getið árið 1563 en síðar eignast Sir Robert V-Cotton handritið. Í safni hans var handritið með Bjólfskviðu þekkt sem Vitellus A. xv. eða fimmtánda bindi á hillunni undir brjóstmynd Vitelliusar. Árið 1700 varð bókasafn Cottons hluti af British Museum og flutt til Westminster. En árið 1731 kviknaði eldur í safnhúsinu. Fjöldi handrita eyðilagðist en Bjólfskviða var í þéttu bandi og sviðnaði því aðeins og brenndist á köntum.
Ekki fór betur með afrit Gríms af Bjólkfskviðu í Kaupmannahöfn. Bretar gerðu árás á borgina árið 1807 með hríð af fallbyssysprengjum og Kaupmannahöfn logaði. Þá brann heimili Gríms og uppskriftir hans af Bjólfskviðu og önnur skjöl eyddust. En hann var ekki af baki dottinn og tók saman aðra uppskrift af hinu forna kvæði, sem kom loksins á prent árið 1815.
Árið 1788 var hann gerður doktor við St Andrews háskóla í Skotlandi. Næstu 40 árin bar hann titilinn skjalavörður Danakonungs og gerði merkar rannsóknir á skjalasafni og sögu Danaveldis. Þýðing Torkelins á Bjólfskviðu er mjög umdeild fyrir gæði og nákvæmni en samt mun nafni hans haldið á lofti þar sem hann uppgötvar þetta stórverk fornritanna.
En hann kom víða við. Árið 1788 kom á prent eftir hann í London rit sem heitir An essay on the slave trade. Þar rekur hann sögu þrælahalds meðal mannkyns og setur fram merkilegar tillögur til að leggja af þrælahald með öllu. Það er greinilegt að hér er á ferðinni fræðimaður sem fjallar um fjölda rannsóknaverkefna í sínu fagi.
Síðari fræðimenn héldu áfram að rannsaka Bjólfskviðu og einn þeirra var Prófessor J.R.R. Tolkien í Oxfordháskóla. Kvæðið Bjólfskviða og Íslendingasögur höfðu mjög sterk áhrif á Tolkien, sem ritaði heila röð af skáldsögum í anda hinna fornu sagna, þar á meðal The Hobbit og The Lord of the Rings.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 03:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)