Færsluflokkur: Grænland
Síðustu Inuitarnir á norðaustur Grænlandi
25.11.2022 | 22:47
Í ágúst 2014 var ég á siglingu um Scoresbysund á norðaustur Grænlandi, ásamt félaga mínum Ragnari Axelssyni, ljósmyndara. Einn daginn, hinn 31.
ágúst, vörpum við akkerum í Rypefjord, eða Rjúpufirði, sem er mjög innarlega í Scoresbysundi. Hér er vinalegt umhverfi, og dálítill gróður upp brattar hlíðar. Skammt frá sjáum við sauðnaut á beit. Við göngum í land rétt við árósa, og rekum strax augun í grjóthleðslu á árbakkanum, sem er einhverskonar mannvirki, en er nú vafið runnum og grasi. Áin er að naga í brún hleðslunnar og senn verða þessar fornu menningarleifar horfnar. Þetta eru greinilega rústir af vetrarhúsi, þar sem Inuítar dvöldu í yfir kaldasta tíma ársins, en annars dvöldu þeir í tjöldum nærri veiðistað í mynni Scoresbysunds, við ísilagða strönd Atlantshafsins. Húsrústin er hringlaga, með upphækkuðum palli úr steinhleðslu sem tekur um helming rýmisins. Á pallinum hefur fjölskyldan dvalið og sofið, sitið þétt til að halda á sér hita. Hleðsla af stórum steinhellum myndar nokkurra metra löng göng, þar sem hægt er að skríða inn í byrgið. Við forðumst að hreyfa neitt og vildum ekki róta í þessari rúst. Það munu fornleifingar væntanlega gera síðar.
Rétt vestan við húsið, um hálfan meter frá steinhleðslunni, sjáum við að bein stendur upp úr moldinni. Það er rifbein, sem hefur verið tálgað til einhvers brúks. Í grennd er töluvert af öðrum beinum, en þau eru öll brot af leggjum, sem hafa verið vel mergsogin, sennilega bein af sauðnautum. Ég kippi rifbeininu upp og þá kemur í ljós að hinn endinn er einnig tilskorinn. Mér virðist líklegast að þetta sé rif úr kajak, en Inúítar notuðu bein í stað trjáviðar til að setja saman kajakgrindur og strekktu svo skinni utanum. Sennilega var hér kajak uppi á þaki á vetrarhúsinu, en með tímanum hefur skinnið fúnað og kajakinn dottið í sundur.
Ég fór síðar með rifbeinið í aldursgreiningu í Woods Hole í Bandaríkjunum. Bein inniheldur mikið kolefni. Kolefni af gerðinni C-14 er geislavirkt og geislakol klofnar með tímanum og myndar köfnunarefni. Á því byggist aldursgreining efna sem eru rík af kolefni, eins og bein. Hlutfall geislakola í efninu gefur því aldur þess. En eins og myndin sýnir eru lykkjur á kvörðunarferlinum fyrir C-14 aldur og almanaksaldur. Ef C-14 sem mælist fellur í slíka lykkju, þá getur almanaksaldur gefið tvær mögulegar niðurstöður. Þannig er því miður með rifbeinið frá Rypefiord. Það er annað hvort frá því um 1670 e.Kr. eða það er frá um 1790 e.Kr. Eg hallast fremur að yngri tölunni, frá um 1790 e.Kr. en hef engin sterk rök til að styðja það.
Víðtækar rannsóknir sýna að Inuítar námu fyrst land á norðaustur Grænlandi um 1400 e.Kr. en búseta þeirra var fremur stutt á þessum slóðum vegna loftslagsbreytinga. Síðustu Inuítarnir sáust á þessu svæði í ágúst árið 1823, þegar breski vísindamaðurinn Douglas Clavering rakst á tólf Ínúíta á lítilli eyju sem nú ber hans nafn, skammt fyrir norðan Scoresbysund. Síðan hvarf þessi ættbálkur Ínúíta algjörlega frá norðaustur Grænlandi, sennilega vegna harðinda og kólnandi veðurfars. Ekki er ljóst hvort þeir dóu út í grennd við Scoresbysund eða fluttust suður á bóginn, í átt að Kulusuk. Mér þykir líklegt að veturseta Inúíta hafi haldist við Rypefiord til hins síðasta, eða alt að aldamótunum 1800 e.Kr. þar sem sveitin hér er hlýlegri, grösugri og veðurfar betra en utar í Scoresbysundi. Þess vegna hallast ég að C-14 1790 e.Kr. fyrir rifbeinið góða.
Grænland | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þegar Kanar vildu kaupa Ísland og Grænland
22.8.2019 | 01:00
Ég hef fjallað um þetta efni áður hér, en atburðir síðustu daga gefa tilefni til að endurtaka það. Þegar Abraham Lincoln var forseti Bandaríkjanna, þá var William H. Seward (1801-1872) utanríkisráðherra hans. Þá var Monroe yfirlýsingin í hávegum höfð, nefnilega að öllum frekari tilraunum ríkja í Evrópu til að komast yfir lönd eða landsvæði í Norður eða Suður Ameríku yrði mætt með valdi af hendi Bandaríkjanna. Monroe yfirlýsingin, sem var sett fram árið 1823, staðfesti að engar nýlendur Evrópuþjóða væru heimilar í vesturheimi, og í staðinn lýstu Bandaríkin því yfir að þau muni ekki skifta sér af millilandadeilum innan Evrópuþjóðanna.
Í þessum anda vildu Bandaríkin komast yfir þau landsvæði sem Evrópuþjóðir réðu yfir í Norður Ameríku. Þeir byrjuðu á því að kaupa Alaska af rússum árið 1867 fyrir aðeins 7,2 miljón dali og það var William H. Seward sem stýrði þeim kaupum fyrir Bandaríkin. Á sama tíma vildu Bandaríkin eignast lönd í Karíbahafi og höfðu lengi augastað á Kúbu. Á þessum tíma átti Danmörk nokkrar eyjanýlendur í Vestur Indíum, eða eyjarnar Saint Croix, Saint Thomas og Saint John. Altalað er að danir voru mestu harðstjórarnir og harðskeytir þrælahaldarar í Karíbahafi á þeim tíma. Árið 1867 byrjaði Seward að semja við dani um kaup á eyjunum, en ekki gekk það dæmi upp. Aftur var reynt árið 1902 en frumvarpið féll í danska þinginu. Í fyrri heimsstyrjöldinni fór málið að færast í annað horf, og danir féllust loks á sölu eyjanna fyrir 25 miljón dali, en gengið var frá sölunni árið 1917. Síðan hafa eyjarnar verið kallaðar Jómfrúareyjar, eða the Virgin Island of the United States. Um leið og kanar festu kaupin, þá féllust þeir á að viðurkenna Grænland sem hluta af Danmörku. Það var mjög snjallt bragð hjá dönum að setja þau skilyrði fyrir kaupunum.
Það er ekki eins þekkt staðreynd að Seward vildi einnig kaupa Grænland og Ísland fyrir hönd Bandaríkjanna. Hann faldi Strand- og Sjómælingastofnun Bandaríkjanna, U.S. Coast Survey, að ganga frá skýrslu um hlunnindi Grænlands og Íslands, en þá var Charles S. Peirce (1839-1914) forstöðumaður stofnunarinnar. Peirce fékk son sin Benjamin M. Peirce til að vinna að skýrslunni, sem var afhent Seward í desember 1867 og gefin út í bókarformi ári síðar af Utanríkisþjónustunni. Peirce yngri var námuverkfræðingur. Bókin heitir A Report on the Resource of Iceland and Greenland. Bókin er 72 síður, myndskreytt og gefur fróðlega mynd af Íslandi á þeim tíma, en ekkert bendir til að Ben Peirce hafi sótt heim Ísland eða Grænland við undirbúning bókarinnar. Bókina má til dæmis lesa á vefnum hér.
Ekki er mér kunnugt um gang málsins milli yfirvalda dana og bandaríkjamanna á þessum tíma, en svo virðist sem bandaríska þingið hafi ekki fylgt málinu eftir frekar að sinni. Svo gerist það árið 1946 að Bandaríkin gera formlegt tilboð í Grænland uppá eitt hundrað miljón dali, eins og komið hefur fram í leyniskjölum sem voru birt nýlega. Ekkert varð úr þeim kaupum heldur, en bandaríkjamenn náðu auðvitað fótfestu í báðum löndum ókeypis með því að beita aðstöðu sinni í NATO.
Grænland | Breytt s.d. kl. 01:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Afdrif víkinga á Grænlandi á miðöldum
3.3.2019 | 22:13
Landnám norrænna manna frá Íslandi á Grænlandi á tíundu öld og landkönnun þeirra í vestri er einn af höfuðstólpum norrænnar menningar almennt. Grænlenska nýlendan blómgaðist um skeið á fyrri hluta Miðalda, bæði í Eystribyggð og Vestribyggð, en af einhverjum óþekktum ástæðum leið byggðin undir lok í kring um 1450 e.Kr. Það hefur lengi verið óstaðfest skoðun fræðimanna (fyrst Hans Egede 1721) að hnignun loftslags hafi ráðið förinni og gert Grænland óbyggjanlegt fyrir bændur, sem stunduðu akuryrkju og búskap að íslenskum sið. Síðasta lífsmarkið frá norrænum mönnum á Grænlandi er tengt brúðkaupi íslenskra hjóna í steinkirkjunni á Hvalsey árið 1408.
Rannsóknir loftslagsfræðinga hafa sýnt fram á að um skeið ríkti tiltölulega mjög milt loftslag á norðurhveli jarðar á Miðöldum (Medieval Climate Anomaly, MCA), frá um 900 til um 1300 e.Kr. , en það byrjaði verulega að kólna og Litla Ísöldin gekk í garð, eins og ískjarnar frá Grænlandsjökli sýna í stórum dráttum.
Við frekari könnun hefur myndin nýlega tekið að skýrast við rannsóknir á vatnaseti í Eystribyggð, en niðurstöður sýna að í stórum dráttum hafði Hans Egede rétt fyrir sér fyrir tæpum þrjú hundruð árum. Nú hafa Everett Lasher og Yarrow Axford frá Bandaríkjunum greint súrefnissamsætuna O18 í skeljum eða hýði af vatnapöddum sem finnast í borkjörnum af vatnaseti í Eystribyggð. Grein þeirra birtist nýlega í tímaritinu Geology. En samsætan eða súrefnisísótópinn O18 er góður mælikvarði á ríkjandi hitastig þegar vatnapaddan var á lífi. Það tekur um 40 ár að mynda 1 cm þykkt lag af seti í þessum vötnum í Eystribyggð, sem gerir þá kleift að kanna sveiflur í loftslagi með um 40 ára næmi eða upplausn yfir um 3000 ára skeið.
Niðurstöður þeirra eru sýndar á myndinni, bæði O18 sveiflur (efra ritið) og hitasveiflan, sem er dregin af O18 gögnum (neðra ritið). Kólnun er um 2 til 3 stig á meðalhita. Það er eftirtektarvert að kólnun í Eystribyggð er strax komin í gang skömmu eftir árið 1000 e.Kr. og hefur náð toppnum í kringum 1300 e.Kr. (bláa línan). Að öllum líkindum hefur sprettutíminn styttst til muna og landbúnaður, sem var hér rekinn á íslenskan máta, féll niður. Fólksfjölgun skrapp saman og fókið hrökklaðist smám saman á brott. En einmitt á sama tíma var fólk af Inuit kyni að færa sig suður með vestur strönd Grænlands og nema land. Inúítar höfðu aðlagað sig mjög vel að aðstæðum, einkum með selaveiðum, og kólnunin á Litlu Ísöldinni hafði engin áhrif á þá.
Grænland | Breytt s.d. kl. 22:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Hafísinn í á Norðurslóðum dregst enn saman
3.4.2018 | 11:18
Það er yfirleitt um miðjan mars mánuð ár hvert, að hafísinn umhvefis Norður Pólinn nær sínu hámarki. Svo var einnig í ár, en þá kom í ljós að magn af hafís í norðri (14.5 milljón ferkm.) hefur aðeins einu sinni mælst minna en í ár. Það var árið 2017, en mælingar hófust árið 1979. Það er einnig athyglisvert að fjögur minnstu hafísárin eru einmitt síðastliðin fjögur ár, eins og myndin sýnir. Svo virðist sem ekkert lát sé á hlýnun í norðri. Þetta er því ekki eitthvað augnabliksfyrirbæri, heldur langvarnadi hlýnun.
Það er sömu sögu að segja af hafís umhverfis Suðurskautslandið. Þar var lágmarkið í útbreiðslu hafíss í lok febrúar, og var þá 2.2 milljón ferkm. sem er einnig næst lægsta magn af hafís í suðri sem mælst hefur. Minnst var það árið 2017.
Grænland | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hetjudáð Graah sjóliðsforingja á Austur Grænlandi
28.3.2018 | 13:43
Á átjándu öldinni kviknaði áhugi meðal fræðimanna á Norðurlöndum um að leysa gátuna um afdrif norrænna manna á Grænlandi. Þar er fremstur í flokki norðmaðurinn Hans Poulsen Egede (16861758), sem hefur verið nefndur Postuli Grænlands. Árið 1711 sótti Egede um leyfi hjá Friðrik IV Danakonungi til að stofna nýlendu á Grænlandi, í þeim tilgangi að leita að týndum byggðum norrænna manna þar. Hann sigldi loks frá Bergen til Grænlands tíu árum síðar, árið 1721, á tveimur skipum. Hann kannaði suðvestur strönd Grænlands og fann hvergi norræna menn eða afkomendur þeirra á þeim slóðum. Ekki tókst honum að kanna austur strönd Grænlands vegna ísa, en hann og aðrir voru sannfærðir um að hin forna Eystribyggð norrænna manna væri staðsett þar. Egede helgaði sig þá að trúboðastörfum og hóf nú að kristna Inúita á vestur strönd Grænlands og tók sér í því skyni fimmtán ára búsetu í Godthaab, sem nú er höfuðborg Grænlands, Nuuk. En Egede gafst upp við fekari leit að norrænum mönnum á þessum slóðum.
Eitt hundrað árum síðar vaknar áhugi meðal Dana aftur að kanna málið frekar og reyna að leysa ráðgátuna um hvarf norrænna manna á Grænlandi. Á dögum Friðriks VI Danakonungs var gefið út ítarlegt skipunabréf (sex síður) til Wilhelms A. Graah sjóliðsforingja hinn 21. febrúar 1828, þess efnis að hann skyldi stýra leiðangri konungs til kanna austur strönd Grænlands, frá Hvarfi og allt norður til Scoresbysunds við 69oN. Höfuðtilgangur leiðangursins var að leita að vitneskju eða leifum íslensku nýlendunnar, sem talin er hafa verið á þessum slóðum. Undir skipunarbréfið skrifar A.W. Moltke greifi, stjórnarráðsforseti Danakonungs. Skömmu síðar (1848) varð Moltke greifi kosinn fyrsti forsætisráðherra Danmerkur, en Moltke var stiftamtmaður á Íslandi 1819-23. Sennilega kom hugmyndin um Grænlandsleiðangurinn frá Moltke sjálfum.
Þá var vitað, samkvæmt frásögn í Íslendingasögum, að norrænir menn hefðu reist tvær byggðir á Grænlandi: Eystribyggð og Vestribyggð. Af eðlilegum ástæðum álitu menn á nítjándu öldinni að þessar byggðir hefðu verið staðsettar á austur og vestur strönd Grænlands. Margir töldu að hina fornu Eystribyggð væri að finna á suðaustur ströndinni, á því ókannaða svæði sem Danir nefna Kong Frederik VI Kyst. Þar væri því von um að finna ef til vill afkomendur íslensku landnemanna eða einhverjar leifar þeirra. Þessi eðlilega en ranga ályktun leiddi menn í miklar villur á sínum tíma. Kong Frederik VI ströndin nær yfir um 600 km langa strandlengju, sem fjölda af grunnum fjörðum, háum fjallgörðum fyrir ofan og dreif af smáeyjum. Allar aðstæður með suðaustur strönd Grænlands og í hafinu þar undan eru allt aðrar og miklu erfiðari en á vestur Grænlandi. Það stafar fyrst og fremst af Austur-Grænlandsstraumnum, en hann er sterkur straumur úr Íshafinu, sem fylgir ströndinni og ber með sér ógrynni af hafís í suður átt, meðfram austurströndinni. Af þeim sökum er hafið rétt undan suðaustur strönd Grænlands talið mjög erfitt eða jafnvel ófært mikinn hluta ársins.
Wilhelm August Graah (1793-1863) sjóliðsforingi var reyndur siglingafræðingur og landkönnuður. Hann hafði starfað við mælingar meðfram vestur strönd Grænlands árin 1823 og 1824. Einnig starfaði hann við mælingar umhverfis Ísland árið 1822 og á einu korta hans frá þeim tíma er ágæt mynd eftir hann af eldgosi í Eyjafjallajökli, sem ég hef bloggað um hér: https://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1061162/. Ef til vill hefur hann kynnt sér íslenska menningu og sögu, því í skrifum sínum um norræna landnema Grænlands á tíundu öld kallar hann þá hreint og beint íslendinga, en ekki Norse eða nærræna menn. Hann er langt á undan sinni samtíð með að eigna Íslendingum landnám Grænlands! Jóni Dúasyni hefði líkað þetta, en hann vildi að Íslendingar endurheimti rétt sinn yfir Grænlandi frá Dönum.
Graah nemur fyrst land í þorpinu Frederikshåb (nú Paamiut) á suðvestur Grænlandi í lok maí árið 1828. Þaðan er haldið til Julianehaab (nú Qaqortoq). Hér í þessu héraði fréttir Graah af rústum frá tímum hinna íslensku landnema. Þar sem þær eru staðsettar á vestur strönd Grænlands gerir Graah ráð fyrir að þetta muni vera hin forna Vestribyggð íslendinganna, en það kom í ljós löngu síðar að hér var hann reyndar kominn í sjálfa Eystribyggð. Það má segja um Graah, að hann leitar langt yfir skammt. Graah hófst nú handa við að láta smíða konubáta eða umiaks fyrir leiðangurinn í austur. Grindin er úr timbri og bundin saman, en síðan er strekkt vatnsheld húð eða skinn af fimtán til tuttugu selum á grindina. Allt hár er rakað af húðinni og mikið magn af selafeiti borin á alla sauma í lokin, til að gera bátinn vatnsheldan. Bátarnir eru léttir og meðfærilegir en ekki einn einasti nagli fer í smíðina. Umiak bátar hans Graah voru um 10 til 12 metrar á lengd og rúmir tveir metrar á breidd.
Graah skráði upplýsingar um leiðangur sinn í merka bók: Undersögelses-reise til östkysten af Groenland: efter Kongelig Befaling, ulført i Aaren 1828-31. Bókin kom út í Kaupinhöfn árið 1832. Þar er að finna mynd af Graah og einnig vandaða og litaða mynd af konubát, sem róið af konum. Ein konan er nakin að ofan, en önnur situr við stýri og með barn í poka á bakinu. Nokkru sunnar á vestur ströndinni er Inuítabyggðin Nanortalik og þangað leitar Graah næst til að fá innfædda leiðsögumenn til fararinnar. Hér hefur Graah vetursetu og undirbýr sig frekar fyrir leiðangurinn til austurs.
Vorið efir leggur Graah af stað, með tvo umiak eða konubáta sína, en áhöfnin var tíu Inuit konur, fimm Inuit karlar, túlkur og náttúrufræðingurinn Vahl. En ferðin gekk erfiðlega í fyrstu vegna hafíss. Þeir þurftu til dæmis að dvela 25 daga á einni eyju til að bíða þess að ísinn færi frá ströndinni. Loks komust þeir af stað í lok apríl og náðu til Aluk syðst á austur ströndinni. Ferðin gekk hægt og erfiðlega, vegna vinda, hafíss og bylja. Hann sendir til baka náttúrufræðinginginn, túlkinn og mikið af Inuítunum frá vestur ströndinni. Graah mannar bátana nú fólki af austur ströndinni.
Loks náði Graah norður til Dannebrog eyjar (nú nefnd Kivdlak, 65° 15′ 36° N), sem er um 100 km fyrir sunnan Kulusuk. Hér sný Graah aftur og hinn 1. október tekur Graah sér vetursetu á eynni Nugarfik (nú nefnd Imaersivik) við 63° 30′ N. Þar reisir Graah moldarkofa fyrir allan hópinn. Veturinn var harður og kostur lítill. Loks tekur að vora og hinn 5. apríl 1830 leggur hann af stað en verður að snúa til baka í húsaskjól í kofanum hvað eftir annað vegna illveðurs og ísa á hafinu. Í einni tilrauninni neyddust þeir til að hafa viðurvist á skeri í hálfan mánuð fyrir norðan Alikajik, vegna veðurs. Seinni partinn í júlí var neyðin mest og Graah átti einnig við veikindi að stríða. Þá var allur matarforðinn á þrotum og þeir átu nú hundamat og tuggðu gömul selskinn. Þá eru eftir af áhöfninni aðeins einn maður og tvær konur, auk Graah. Loks komust þau suður á bóginn og Graah nær loks til Nanortalik í ágúst 1830. Ferðinni var lokið en ein höfuð niðurstaðan var sú, að engar leifar eða minjar fornra Íslendinga var að finna á suðaustur ströndinni. En Graah tókst að gera margar mælingar og safna verðmætum upplýsingum um þetta ókannaða svæði. Einnig eru rit hans sjór af fróðleik um lifnaðarhætti og siði Inúítanna á suðaustur Grænlandi, sem höfðu haft lítil eða engin samskifti við Evrópubúa.
Grænland | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Jökullinn dökknar og bráðnar hraðar
11.9.2017 | 20:07
Litur jökulsins skiftir miklu máli varðandi bráðnun hans. Hvernig er það: er jökull ekki alltaf hvítur? Síður en svo. Víða er yfirborð Grænlandsjökuls grátt á litinn og reyndar ótrúlega óhreint þegar bráðnunin stendur sem hæst, seinni part sumars. Mælikvarði á lit jökulsins er albedo eða endurskin hans. Það er mælt reglulega úr gervihnöttum, sem svífa yfir Grænlandi. Ef yfirborðið er algjörlega hreint og hvítt, þá er albedo 100% og endurkastar ísinn þá nær öllu sólarljósi sem á það fellur. Línuritið sýnir albedo eða endurkast Grænlandsjökuls frá árinu 2000 til 2014 og það er greinilegt að mikil breyting hefur gerst á þessum stutta tíma, með hnignun endurskins frá um 81% til 75%. Hvers vegna er þessi breyting í gangi? Það eru örsmáar plöntur eða þörungar sem vaxa á yfirborði jökulsins, sem valda að hluta til minnkandi albedo og þar með vaxandi bráðnun á yfirborði Grænlandsjökuls í dag. Neðri myndin sýnir hvað jökullin getur verið dökkur af þessum sökum, og drekkur í sig sólarorkuna.
Grænland | Breytt s.d. kl. 21:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Grænlandsjökull minnkar hratt
11.9.2017 | 12:38
Ein viðbrögð lesanda á mínu fyrra bloggi var sú, að Grænlandsjökull væri að stækka, sem sýndi að það væri engin hnattræn hlýnun í gangi. Þetta er leiður misskilningur, sem ég vill leiðrétta hér og birta staðreyndir í þessu máli. Það eru ýmsar aðferðir við að mæla jökul. Við getum fylgst með flatarmáli, þykkt eða hæð og síðast en ekki síst rúmmáli eða massa. Bráðnandi jökull getur þynnst og lækkað en hann getur samstundis runnið fram og lækkað og þar með aukið flatarmálið um tíma.
Besta mælingin á massa eða rúmmáli Grænlandsjökuls kemur frá gervihnettinum GRACE. Það eru reyndar tveir hnettir, sem svífa hlið við hlið og gera nákvæma þyngdarmælingu reglulega á rúmmáli Grænlandsjökuls. Niðurstöður má sjá á meðfylgjandi mynd. Þar kemur fram að Grænlandsjökull tapar að meðaltali um 286 Gigatonnum á ári (gígatonn er jafnt og einn miljarður tonna). Það er því fjarstæða að halda því fram að Grænlandsjökull sé að stækka, þegar litið er á kaldan sannleikann sem kemur frá slíkum gögnum gervihnatta. Hættið að stinga hausnum í sandinn!
Grænland | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Gufubólstrar eða snjóskaflar?
5.9.2017 | 08:40
Birkir Rútsson verkfræðingur flýgur oft yfir Grænland. Nú hefur hann fest á mynd það fyrirbæri, sem við höfum áður fjallað um hér á blogginu, inni á meginjöklinum, skammt fyrir norðvestan Kulusuk. Myndin sem fylgir er tekin hinn 28. ágúst, og sýnir greinilega mjög sprunginn jökul. Hann tók einnig myndir af fyrirbærinu hinn 5. ágúst. Það virðist ótrúlegt að hér sé um gufu að ræða, og sennilega eru þetta fokskaflar, en hver veit?
Grænland | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Eldarnir á Grænlandi eru logandi mór
15.8.2017 | 15:11
Í fyrstu var talið að það væru sinueldar, sem loga á stóru svæði á vestur Grænlandi, skammt frá bænum Sisimiut. En frekari rannsókn bendir til að það sé mór sem matar eldana. Ef svo er, þá er málið öllu alvarlegra en haldið var. Mór, sem getur brunnið á þessu svæði bendir til að sífrerinn sé farinn úr jarðveginum. Hér hefur ríkt sífreri (þeas. hiti í jarðveginum er um eða undir núll stig) síðan ísöld lauk, fyrir tíu þúsund árum. Nú virðist sífrerinn farinn og þurr mór er eftir.
Með hnattrænni hlýnun dregur hægt og sígandi úr sífreranum á norðurslóðum. Loftslagsfræðingar hafa til þessa spáð að sífrerinn fari ekki úr jarðvegi á Grænlandi fyrr en um næstu aldarmót. Það vekur því undrun að sífrerinn er að hverfa hratt á þessu svæði á Grænlandi. Eins og í öllum tilfellum varðandi þær loftlslagsbreytingar sem nú eru á skella á, þá hafa fræðimenn verið of íhaldssamir í sínum spám, en breytingrarnar eru miklu hraðari en jafnvel djörfustu líkön gerðu ráð fyrir.
Grænland | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Eldar á Grænlandi
9.8.2017 | 03:20
Eldar geisa nú í jarðvegi á vestur Grænlandi á meir en 1200 hektara svæði. Myndin er frá gervihnetti yfir svæðinu, sem nú logar. Sennilega eru þetta sinueldar og ef til vill hefur einnig kviknað í uppþornuðum mómýrum. Svæðið er 100 km fyrir norðan Sisimiut og skammt frá Kangerlussuak. Ef til vill eru eldarnir af þeim sökum, að í júlí hefur verið óvenju hlýtt og þurrt veðurfar.
Grænland | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)