Færsluflokkur: Bandaríkin
Þegar Kanar vildu kaupa Ísland og Grænland
22.8.2019 | 01:00
Ég hef fjallað um þetta efni áður hér, en atburðir síðustu daga gefa tilefni til að endurtaka það. Þegar Abraham Lincoln var forseti Bandaríkjanna, þá var William H. Seward (1801-1872) utanríkisráðherra hans. Þá var Monroe yfirlýsingin í hávegum höfð, nefnilega að öllum frekari tilraunum ríkja í Evrópu til að komast yfir lönd eða landsvæði í Norður eða Suður Ameríku yrði mætt með valdi af hendi Bandaríkjanna. Monroe yfirlýsingin, sem var sett fram árið 1823, staðfesti að engar nýlendur Evrópuþjóða væru heimilar í vesturheimi, og í staðinn lýstu Bandaríkin því yfir að þau muni ekki skifta sér af millilandadeilum innan Evrópuþjóðanna.
Í þessum anda vildu Bandaríkin komast yfir þau landsvæði sem Evrópuþjóðir réðu yfir í Norður Ameríku. Þeir byrjuðu á því að kaupa Alaska af rússum árið 1867 fyrir aðeins 7,2 miljón dali og það var William H. Seward sem stýrði þeim kaupum fyrir Bandaríkin. Á sama tíma vildu Bandaríkin eignast lönd í Karíbahafi og höfðu lengi augastað á Kúbu. Á þessum tíma átti Danmörk nokkrar eyjanýlendur í Vestur Indíum, eða eyjarnar Saint Croix, Saint Thomas og Saint John. Altalað er að danir voru mestu harðstjórarnir og harðskeytir þrælahaldarar í Karíbahafi á þeim tíma. Árið 1867 byrjaði Seward að semja við dani um kaup á eyjunum, en ekki gekk það dæmi upp. Aftur var reynt árið 1902 en frumvarpið féll í danska þinginu. Í fyrri heimsstyrjöldinni fór málið að færast í annað horf, og danir féllust loks á sölu eyjanna fyrir 25 miljón dali, en gengið var frá sölunni árið 1917. Síðan hafa eyjarnar verið kallaðar Jómfrúareyjar, eða the Virgin Island of the United States. Um leið og kanar festu kaupin, þá féllust þeir á að viðurkenna Grænland sem hluta af Danmörku. Það var mjög snjallt bragð hjá dönum að setja þau skilyrði fyrir kaupunum.
Það er ekki eins þekkt staðreynd að Seward vildi einnig kaupa Grænland og Ísland fyrir hönd Bandaríkjanna. Hann faldi Strand- og Sjómælingastofnun Bandaríkjanna, U.S. Coast Survey, að ganga frá skýrslu um hlunnindi Grænlands og Íslands, en þá var Charles S. Peirce (1839-1914) forstöðumaður stofnunarinnar. Peirce fékk son sin Benjamin M. Peirce til að vinna að skýrslunni, sem var afhent Seward í desember 1867 og gefin út í bókarformi ári síðar af Utanríkisþjónustunni. Peirce yngri var námuverkfræðingur. Bókin heitir A Report on the Resource of Iceland and Greenland. Bókin er 72 síður, myndskreytt og gefur fróðlega mynd af Íslandi á þeim tíma, en ekkert bendir til að Ben Peirce hafi sótt heim Ísland eða Grænland við undirbúning bókarinnar. Bókina má til dæmis lesa á vefnum hér.
Ekki er mér kunnugt um gang málsins milli yfirvalda dana og bandaríkjamanna á þessum tíma, en svo virðist sem bandaríska þingið hafi ekki fylgt málinu eftir frekar að sinni. Svo gerist það árið 1946 að Bandaríkin gera formlegt tilboð í Grænland uppá eitt hundrað miljón dali, eins og komið hefur fram í leyniskjölum sem voru birt nýlega. Ekkert varð úr þeim kaupum heldur, en bandaríkjamenn náðu auðvitað fótfestu í báðum löndum ókeypis með því að beita aðstöðu sinni í NATO.
Bandaríkin | Breytt s.d. kl. 01:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Kraftverkið í Los Alamos
1.9.2017 | 20:36
Það er ekki svo langt síðan að þessi stóratburður gerðist. Ég var að verða fjögurra ára. Það var í apríl árið 1943 að hópur vísindamanna kom saman í Los Alamos í Nýju Mexíkó. Markmið þeirra var einfalt: að búa til fyrstu kjarnorkusprengjuna. Flestir höfðu þeir unnið við rannsóknir á kjarnaklofningi, en sú uppgötvun var gerð aðeins fjórum árum áður.
Aðeins tuttugu og átta mánuðum síðar kom sönnun um þeirra grúsk í Los Alamos: kjarnorksprengjur sem varpað var á borgirnar Hiroshima (6. áugust 1945) og Nagasaki í Japan. Þar með lauk seinni heimsstyrjöldinni og kalda stríðið milli stórveldanna hófst. Myndin sýnir sprengjurnar tvær, Little Boy (með 60 kg af geislavirku úran) og Fat Man.
Einn af þeim sem störfuðu í Los Alamos var hinn 34 ára gamli Robert Serber, sem ritaði bókina The Los Alamos Primer. Í frægu sendibréfi til Franklin D. Roosevelt forseta Bandaríkjanna í október 1939, benti eðlisfræðingurinn Albert Einstein á hættuna sem stafaði af kjarnorkuvopnum, en þá var þegar ljóst að kjarnorkan væri gífurleg orkulind, ef hægt væri að beizla hana. Forsetinn setti málið í nefnd. Það vildi svo vel til, að nefndarformaðurinn yfir báðum þessum nefndum var Vannevar Bush, prófessor í rafverkfræði við MIT háskóla. Hjólin byrjuðu að snúast hraðar í vísindaheiminum og árás Japana á Pearl Harbor í desember, 1941 setti enn meiri kraft í leitina af kjarnorkuvopni. Hvað var okran mikil í þessu sjaldgæfa efni? Í mars árið 1940 komust Otto Frisch og Rudolf Peierls að þeirri niðurstöðu að það þyrfti amk. hálft kíló af málminum uranium-235 til að búa til sprengju, en seinni rannsóknir sýndu að þú þarft reyndar amk. 52 kíló til að búa til sprengju. En orkan er óskapleg. Orkan í einu kílógrammi af hreinu 235Uranium er jafnt og 20 kílotonn af TNT ( TNT er venjulegt sprengiefni, eins og dýnamít). Tvær risastórar verksmiðjur voru strax reistar, önnur á Oak Ridge, Tennessee, en hin í Hanford, Washington, en hér unnu hundruðir þúsunda starfsmanna. Kostnaður var um $2 milljarður í 1945 gengi. Það er erfitt að ímynda sér hvað starfsmenn Los Alamos voru fljótir til verksins: aðeins tuttugu og átta mánuði frá byrjun til sprengju. Afleiðingarnar af sprengigunum í Japan voru hræðilegar, en þetta batt þó endi á heimsstyrjöldina.
Bernie Sanders stefnir á toppinn
14.9.2015 | 08:04
Það ótrúlega er að gerast: sósíalistinn Bernie Sanders, senator frá Vermont, er að fara á toppinn í forkosningum til forsetaframboðs Demókrata í Bandaríkjunum. Fyrra línuritið sýnir fylgi hans í New Hampshire, þar sem Bernie ríkur upp fyrir Hillary Clinton og er með meir en 10% meira fylgi. Hitt línuritið sýnir að fylgi hans í Iowa er einnig mjög sterkt. Bernie er því alls ekki einhver jaðarsmaður, heldur fullgildur kandídat til forsetaframboðs. Því miður vildi Elizabeth Warren ekki fara í framboð, en Bernie er ekki síður ágætur fulltrúi þeirra, sem vilja sjá stórtækar breytingar á stefnu Bandaríkjanna í efnahafs og utanríkismálum. Það er enn von um miklar jákvæðar breytingar í stjórnmálum Bandaríkjanna.
Bandaríkin | Breytt s.d. kl. 08:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Látið hausana rúlla
25.4.2015 | 06:46
Hvenær hefur Íslenskur embættismaður verið haldinn ábyrgur varðandi mistök í starfi? Ég þekki ekkert dæmi um slíkt. Jafnvel í Bandaríkjunum láta þeir hausana rúlla ef opinber starfsmaður bregst skyldu sinni. Nýtt dæmi er nú, þegar Michele Leonhart, forstöðumaður DEA, ríkisstofnunar sem reynir að hafa hömlur á eiturlyfjum, var rekin úr starfi í Washington DC. Hennar sök var sú að nokkrir starfsmenn hennar höfðu leyft sér að taka þátt í kynsvalli í Kólombíu í Suður Ameríku með eiturlyfjasölum. Frú Leonhart var víðs fjarri og ekki í partíinu, en hún var ábyrg og axlaði sína sök.
Hraun í garðinum á Hawaíi
30.10.2014 | 22:19
Á Hawaií eru þeir einnig að glíma við eldgos og hraun, en þar eru áhrif hraunsins vel áþreifanleg. Kilauea eldfjall, sem hefur verið í nær stöðugu gosi í 31 ár, síðan 1983. Nú stefnir hraunið á bæinn Pahoa, með um 900 íbúa. Hraunið er þegar búið að renna yfir grafreit Búddista, og er nú aðeins um 30 metra frá næstu íbúðarhúsum, eins og myndin sýnir. Þetta er basalthraun af helluhraunsgerð, ólíkt apalhrauninu, sem nú rennur í Holuhrauni. Hraunið á Hawaíi mjakast áfram um tíu metra á klukkustund. Yfirvöld hafa klætt rafmgnsstaura með steinsteypu til að verjast hrauninu og hvatt íbúa til að yfirgefa heimili sín.
Það hlýnar í Alaska
17.10.2014 | 19:39
Barrow er í norður hluta Alaska. Þetta er nyrsta borg Bandaríkjanna, með um 4500 íbúa. Undanfarin 34 ár hefur meðal október hiti í Barrow hækkað um 7,2°C. En á sama tíma hefur meðal árshitinn í Barrow hækkað aðeins um 2,7°C. Myndin sýnir meðal árshita í Barrow frá árinu 1900. Hvers vegna er október í Alaska svo heitur? Nóvember hefur einnig hækkað um 6°C. Vísindamenn telja að hlýnunin í október sé tengd því að hafís hefur dregist mjög saman undan ströndum Alaska. Vindurinn sem blæs yfir hafið á haustin og inn yfir Barrow tekur nú í sig hita úr hafinu, þar sem áður var fyrir aðeins kaldur ís. Hið sama er nú að gerast umhverfis Grænland.
Olíuveslun Bandaríkjanna snýst við
9.10.2014 | 06:53
Nýlega sigldi olíuskipið BW Zambesi frá Houston í Bandaríkjunum til Suður Kóreu, hlaðið um 400 þúsund tunnum af olíu. Það er í sjálfu sér ekkert óvenjulegt við það, nema að hér með eru Bandaríkin aftur orðin útflytjandi af olíu, í fyrst sinn eftir nær fjóra áratugi. Svo virðist sem að hér eftir muni Bandaríkin ekki eyða dýrmætum gjaldeyri í olíuinnflutning og getur þetta haft mikil áhrif á efnahag þjóðarinnar en ekki hjálpar það umhverfismálum, því miður. Á alþjóða olíumarkaðinum er viðbúið að útflutningi Bandaríkjanna á þessu eldsneyti sé einkar velkomin lausn á þeim markaðsvanda, sem til dæmis Evrópuríki eru komin í vegna hegðunar Rússa í Úkraníu.
Aukin framleiðsla á olíu innan Bandaríkjanna er fyrst og fremst vegna nýrrar tækni (fracking), þar sem olía og gas er kreist út úr jarðlögunum undir miklum þrýstingi og með því að dæla niður vökva sem ýtir olíunni upp á yfirborð. Einnig er lóðrétt borun mikilvæg. Olíuframleiðsla hefur aukist um 70% síðustu sex árin innan Bandaríkjanna, sem er alveg ótrúlega mikill vöxtur. Innflutningur frá OPEC löndunum (mest Arabar) hefur af þeim sökum minnkað um helming. Línuritið sýnir hvernig innflutningur á olíu hefur snúist við (rauða línanog hvernig útflutningur á olíu hraðvex (gula línan) . En margir spá því að þetta sé skammvinnur gróði, og að innan fárra ára verði ekki hægt að ná meiri olíu út úr jarðskorpunni undir Bandaríkjunum, jafnvel með fracking aðferð.
Bandaríkin og allur heimur verður að komast út úr þessum slæma vana að treysta á olíu sem mesta orkugjafann. Hnattræn hlýnun og náttúruspjöll vegna olíunnar eru stærstu vandamál okkar allra. Við verðum að taka upp aðra orkugjafa strax, og þurfum ekki að bíða þar til olían er búin. Við eigum að enda Olíuöldina nú, strax, en ekki bíða þar til öll olían er búin í jarðskorpunni. Munið eftir, að Steinöldin endaði ekki vegna þess að menn gátu ekki fundið fleiri steina.
Ég þrái Elizabetu
23.7.2014 | 07:35
Þrátt fyrir alt, þá er enn til vonarneisti um lýðræði í Bandaríkjunum. Það sem gerist í þessu stórveldi stórveldanna hefur auðvitað bein eða óbein áhrif á okkur öll. Vonin virtist bjartari þegar Obama var kosinn forseti. Hann gat þó varla verið verri en Bush! Svartur maður, vel menntaður, sem hlaut að vera lýðræðissinnaður og maður fólksins, ekki satt? Ég kaus hann, en því miður hefur hann reynst vera tól í höndum auðjöfra og Wall Street. Næstu kosningar verða haldnar árið 2016. Talið er líklegt að Hillary Clinton fari í framboð fyrir hönd Demókrata, en hún hefur ekki gefið kost á sér formlega. Ég mun vinna gegn henni. Hún er búin að vera of lengi í pólitík og orðin gjörspillt. Nú fær hún $200 þúsund fyrir hvern fyrirlestur sem hún flytur. Hún kom dóttur sinni Chelsea í stöðu, þar sem hún fær greitt $600 þúsund á ári fyrir að gera ekki neitt. Clinton fjölskyldan er heltekin græðgi (nú metin á $25 milljónir) og verður að afskrifast í stjórnmálum. Eina vonin hjá mér er nú hún Elizabeth Warren. Hún er 65 ára og starfar sem lagaprófessor við Harvard háskóla í Boston og nú þingmaður í Washington. Hún hefur lengi unnið við rannsóknir á því hvernig stjórnmálamenn og bankar hafa hagrætt lögum í landinu sér í hag og gefið út fræðirit og bækur um það mál. Hún segir þetta um auðvaldið: Þeir hafa svindlað á amerískum fjölskyldum, valdið efnahagshruni, látið svo ríkið bjarga sér á kostnað almennings, og nú eru stóru bankarnir orðnir enn stærri en þeir voru þegar hrunið varð 2008. Strákur er tekinn fastur og settur í steininn fyrir að vera með einn vindling af marijúana, en stóru bankarnir þvo peninga fyrir stóru eiturlyfjasalana og enginn þeirra er settur inn. Spilið em við lifum í er eintómt svindl! Bankastjórinn borgar minna í tekjuskatt en einkaritarinn. Hvernig er það hægt? Það er hægt vegna þess að þeir eiga lobbyista og Repúblikana fulltrúa á þinginu. Fylgist með þessari konu. Hún er eina vonin.
Olíuleit í Atlantshafi hefst aftur
20.7.2014 | 07:35
Á föstudag tilkynnti Bandaríkjastjórn að hún mun nú á ný veita leyfi til olíuleitar í Atlantshafi. Reyndar verður leyfi aðeins veitt til jarðeðlisfræðilegra rannsókna á hafsbotninum, en ekki borunnar fyrst um sinn. Þessar rannsóknir fela í sér olíuleit, þar sem tíðar sprengingar eru gerðar í hafinu. Við það kastast hljóðbylgjan niður í hafsbotninn og sendir til baka upplýsingar um gerð og lögun setlaga undir hafsbotninum. Fysta mynd sýnir slíkar mælingar, sem eru gerðar frá skipshlið. Höggbylgjurnar gegnumlýsa hafsbotninn og gera sneiðmynd líkt og þeim sem eru gerðar á sjúkrahúsum. Dæmi um slíka sneiðmynd af hafsbotnssetinu er á annari mynd, en með þessari aðferð er hægt að kanna setið niður á nokkra kílómetra dýpi. Slíkar mælingar eru nauðsynlegar til að fara á næsta stig við olíuleit: borun. Sprengingar af þessu tagi hafa verið bannaðar í nokkur ár vegna þess að þær eru skaðlegar lífríki í hafinu, einkum hvölum. Það er fullsannað að spendýr eins og hvalir þola ekki höggið frá sprengingunum, sem gerast á nokkra sekúndna fresti. Höggbylgjan getur sprengt hljóðhimnu í eyrum spendýra og valdið öðrum meinum. En Obama hefur brotið hér blað og fer ámóti umhverfisverndarsinnum í Bandaríkjunum með þessari ákvörðun. Svæðin eru undan austur strönd Bandaríkjanna, í Mexíkóflóa og í hafinu norðan Alaska, eins og myndin sýnir. Það má svo búast við að leyfi til borana á botni Atlantshafsins verði síðan veitt í kringum 2020. Á þessu svæði er mjög þykk og gömul setmyndun, sem nær alla leið aftur til tímabils fyrir um 180 milljón árum síðan. Þá byrjaði Norður Ameríka að klofna frá vestur Afríku og Evrópu og Atlantshaf byrjar að myndast.
Bandaríkin | Breytt s.d. kl. 07:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Takið sinnaskiptum því að dómsdagur er í nánd!
22.6.2014 | 11:58
Fjármálaráðherra Bandaríkjanna í valdatíð George Bush var Hank Poulson. Hann var við stjórnvölinn þegar efnahagshrunið mikla varð á Wall Street árið 2008 og kreppan hófst. Hann er hinn dæmigerði kapítalisti, auðkýfingur og repúblikani og er alltaf talinn fremstur í röð þeirra sem orsökuðu hrunið árið 2008. En á seinni árum hefur Poulson iðrast og sýnt á sér nýjar hliðar. Í grein sem hann skrifar í New York Times í gær hefur Poulson algjörlega snúið við blaðinu. Reyndar er greinin ein sprengja. Hann spáir enn stærra efnahagshruni af völdum loftslagsbreytinga ef ekki er tekið strax í taumana. Helsta ráð hans við vandanum er að koma á kolefnisskatti sem leið til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Það er reyndar furðulegt en auðvitað mjög gleðilegt að maður í hans stöðu og með slíkan bakgrunn skuli nú koma fram úr röðum repúblikana og horfast í augu við staðreyndir í loftslagsmálum. Takið sinnaskiptum því að dómsdagur er í nánd!
En tekur almenningur nokkuð mark á tali um loftslagsbreytingar? Okkur, sem fylgjumst vel með breytingunum, finnst þær gerast hratt og óttumst afleiðingarnar. En hættan er að almenningur og kjósandinn sé eins og froskurinn í potinum á eldavélinni. Ef kveikt er undir og hitað rólega, þá stekkur froskurinn ekki uppúr pottinum og soðnar að lokum.
Bandaríkin | Breytt s.d. kl. 12:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)