Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2019
Þegar Kanar vildu kaupa Ísland og Grænland
22.8.2019 | 01:00
Ég hef fjallað um þetta efni áður hér, en atburðir síðustu daga gefa tilefni til að endurtaka það. Þegar Abraham Lincoln var forseti Bandaríkjanna, þá var William H. Seward (1801-1872) utanríkisráðherra hans. Þá var Monroe yfirlýsingin í hávegum höfð, nefnilega að öllum frekari tilraunum ríkja í Evrópu til að komast yfir lönd eða landsvæði í Norður eða Suður Ameríku yrði mætt með valdi af hendi Bandaríkjanna. Monroe yfirlýsingin, sem var sett fram árið 1823, staðfesti að engar nýlendur Evrópuþjóða væru heimilar í vesturheimi, og í staðinn lýstu Bandaríkin því yfir að þau muni ekki skifta sér af millilandadeilum innan Evrópuþjóðanna.
Í þessum anda vildu Bandaríkin komast yfir þau landsvæði sem Evrópuþjóðir réðu yfir í Norður Ameríku. Þeir byrjuðu á því að kaupa Alaska af rússum árið 1867 fyrir aðeins 7,2 miljón dali og það var William H. Seward sem stýrði þeim kaupum fyrir Bandaríkin. Á sama tíma vildu Bandaríkin eignast lönd í Karíbahafi og höfðu lengi augastað á Kúbu. Á þessum tíma átti Danmörk nokkrar eyjanýlendur í Vestur Indíum, eða eyjarnar Saint Croix, Saint Thomas og Saint John. Altalað er að danir voru mestu harðstjórarnir og harðskeytir þrælahaldarar í Karíbahafi á þeim tíma. Árið 1867 byrjaði Seward að semja við dani um kaup á eyjunum, en ekki gekk það dæmi upp. Aftur var reynt árið 1902 en frumvarpið féll í danska þinginu. Í fyrri heimsstyrjöldinni fór málið að færast í annað horf, og danir féllust loks á sölu eyjanna fyrir 25 miljón dali, en gengið var frá sölunni árið 1917. Síðan hafa eyjarnar verið kallaðar Jómfrúareyjar, eða the Virgin Island of the United States. Um leið og kanar festu kaupin, þá féllust þeir á að viðurkenna Grænland sem hluta af Danmörku. Það var mjög snjallt bragð hjá dönum að setja þau skilyrði fyrir kaupunum.
Það er ekki eins þekkt staðreynd að Seward vildi einnig kaupa Grænland og Ísland fyrir hönd Bandaríkjanna. Hann faldi Strand- og Sjómælingastofnun Bandaríkjanna, U.S. Coast Survey, að ganga frá skýrslu um hlunnindi Grænlands og Íslands, en þá var Charles S. Peirce (1839-1914) forstöðumaður stofnunarinnar. Peirce fékk son sin Benjamin M. Peirce til að vinna að skýrslunni, sem var afhent Seward í desember 1867 og gefin út í bókarformi ári síðar af Utanríkisþjónustunni. Peirce yngri var námuverkfræðingur. Bókin heitir A Report on the Resource of Iceland and Greenland. Bókin er 72 síður, myndskreytt og gefur fróðlega mynd af Íslandi á þeim tíma, en ekkert bendir til að Ben Peirce hafi sótt heim Ísland eða Grænland við undirbúning bókarinnar. Bókina má til dæmis lesa á vefnum hér.
Ekki er mér kunnugt um gang málsins milli yfirvalda dana og bandaríkjamanna á þessum tíma, en svo virðist sem bandaríska þingið hafi ekki fylgt málinu eftir frekar að sinni. Svo gerist það árið 1946 að Bandaríkin gera formlegt tilboð í Grænland uppá eitt hundrað miljón dali, eins og komið hefur fram í leyniskjölum sem voru birt nýlega. Ekkert varð úr þeim kaupum heldur, en bandaríkjamenn náðu auðvitað fótfestu í báðum löndum ókeypis með því að beita aðstöðu sinni í NATO.
Grænland | Breytt s.d. kl. 01:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)