Bloggfærslur mánaðarins, október 2012

Stytturnar á Páskaeyju "gengu" á staðinn

 

Páskaeyja Páskaeyja er mjög afskekkt eldfjallaeyja í miðju Kyrrahafinu. Á eynni finnast meir en eitt þúsund styttur, sem hafa verið höggnar til úr hraungrýti og síðan fluttar langar leiðir og stillt upp sem útverðir eyjarinnar.  Þær eru kallaðar Moai á máli innfæddra. Sumar stytturnar eru allt að 74 tonn að þýngd og um tíu metrar á hæð.  Þær eru höggnar til úr einum steini. Hvernig í ósköpunum komu eyjabúar þeim frá námunni og á staðinn, um margra kílómetra veg?  Nú er komin fram ný kenning um hverngi moai komust leiðar sinnar -- þær fóru gangandi. Myndbandið sýnir tilraun sem var gerð nýlega til að sannprófa þessa kenningu.  Með því að binda þrjú reipi í toppinn á styttunni og toga í sitt á hvað, þá er hægt að fá moai til að ganga eða rugga sér áfram. Þetta má sjá hér:  http://www.dailymail.co.uk/sciencetech/article-2222376/Did-Easter-Islands-statues-walk-place-Controversial-theory-suggests-megaliths-moved-position-fridge.html#ixzz2Ac1s8I7B

Moai gangandi Þetta er eithvað það snjallasta, sem ég hef lengi séð og mjög sannfærandi um uppruna styttnanna.  Þær eru höggnar úr gosmyndun, sem er að mestu harðnað basalt gjall, einskonar móberg eða fremur blöðrótt basalt hraun og því ekki eins þétt og blágrýti.  Enn er þó gátan um uppruna þjóðflokksins sem gerði stytturnar óleyst.


Óvissustig

Tjörnes brotabletið MetzgerÞá er Ríkislögreglustjóri búinn að lýsa yfir óvissustigi Almannavarna í dag vegna jarðskjálfta fyrir Norðurlandi. Þessi tilkynning kemur reyndar fjórum dögum eftir stóra 5,6 skjálftann hinn 21. október.  Af hverju ekki fyrr?  En tilkynningin kemur daginn eftir dóminn yfir jarðvísindamönnum á Ítalíu, en það er nú auðvitað bara tilviljun.  Aðal ástæðan  fyrir því að setja svæðið á hærra stig er svissnesk kona að nafni Sabrina Metzger.  Þessi jarðeðlisfræðingur og félagar hennar hafa fyrir einu ári birt greinar, þar sem fjallað er um ástand og spennu í jarðskorpunni undan Norðurlandi. Það eru því ekki nýjar niðurstöður, sem kalla á þessi nýju viðbrögð.  Metzger og félagar hafa nýtt sér einkum GPS mælinga á hreyfingum jarðskorpunnar yfir tímabilið frá 1999.  Tjörnes brotabeltið er sýnt á mynd númer eitt.  Á myndinni er mikill fjöldi lítilla rauðleitra púnkta, sem sýna upptök jarðskjálfta.  Jarðskjálftadreifingin teiknar vel fram útlínur Tjörnes brotabeltisins.  Syðri línan af jarðskjálftum er Húsavíkur-Flateyjar misgengið, sem er nú virkt þessa vikuna.  Hin þyrpingin af jarðskjálftum er norðar og teiknar út þann hluta brotabeltisins sem er kennt við Grímsey. Ártöl og svartar stjörnur sýna þekkta stóra skjálfta á svæðinu, ásamt stærð þeirra.  Takið eftir að síðasti stóri skjálftinn á meiri hluta Húsavíkur-Flateyjar misgengisins varð árið 1872.  Síðan hefur spenna hlaðist upp í þessum hluta flekamótanna í 140 ár, en á meðan hafa flekarnir í heild fjarlægst um 18 mm á ári.  Það má segja, að flekarnir séu læstir saman á Húsavíkur-Flateyjar misgenginu, en á meðan hleðst upp spenna þar til hún yfirvegar lásinn og skorpan rifnar. Metzger og félagar hafa reiknað að spennan samsvari stórskjálfta sem er 6,8 að stýrkleika.  Hann er enn ókominn.  Reyndar hefur töluverð orka losnað úr læðingi nú þegar, eins og önnur myndin sýnir.  Þar eru sýndir skjálftar stærri en 2 á þessu svæði síðan um miðjan október.  Þar á meðal er skjálftinn sem var 5,6 hinn 21. október.  En það er minna en einn þrítugasti af orkunni, sem Metzger of félagar telji vera geymda sem spennu í skorpunni og gæti komið fram sem 6,8 skjálfti, ef öll spennan losnar.  SkjálftarHvað getur gerst, þegar (eða ef) lásinn fer af svona sneiðmisgengi eins og Húsavíkur-Tjörnes misgenginu?  Jú, það verður stór skjálfti, en getur það einnig haft áhrif á norður hluta eystra gosbeltisins, sem liggur í gegnum megineldstöðvarnar Þeistareyki, Kröflu, Öskju og fleiri?  Kynni það að valda gliðnun á gosbeltinu þarna nyrðra, ef til vill með kvikuhlaupi og eldgosi, eins og gerðist í Kröflu árið 1975 og í Öskju árið 1875.  Bíðum og sjáum til. Við lifum í spennandi landi!

Norrænir Menn á Grænlandi: Fyrirlestur

Síðasti fyrirlestur Eldfjallasafns í Stykkishólmi að sinni verður laugardaginn 27. október kl. 14. Þar verður fjallað um norræna menn á Grænlandi.  Allir eru velkomnir og aðgangur er ókeypis.

Kvikuinnskot undir Eyjafjarðarál?

KvikuinnskotÍ tengslum við jarðskjálftaumbrotin í Eyjafjarðarál hef ég heyrt jarðvísindamenn velta því fyrir sér í fjölmiðlum að hér gæti kvikuinnskot hafa átt sér stað, en annar fræðingurinn benti á að hér eru ekki nein vegsummerki um eldgos á hafsbotni.  Nú ætla ég að reyna að sýna fram á hvað felst í þessum staðhæfingum í sambandi við Eyjafjarðarál.  Dýpi álsins þar sem skjálftarnir koma fram er um  500 metrar, eins og kom fram á korti af Eyjafjarðarál í fyrra bloggi mínu um þetta svæði.  Þar undir er um 3 til 4 km þykkt lag af sjávarseti.  Sennilega er það set mest sandur og leir, sem hefur borist til hafs við rof á landi. Setlögin eru ókönnuð, en þau eru sennilega runnin í sandstein eða leirstein, nema efsti hlutinn, sem er enn sandur og leir.  Eyjafjarðaráll er sigdalur, sem er að gliðna vegna flekahreyfinga.Flekamót Flekamótin ná alla leið niður í möttul og basaltkvika mun því rísa upp um flekamótin og inn í setlögin. En basaltkvika hefur nokkuð hærri eðlisþyngd en setlögin. Þá myndast ástand eins og það, sem er sýnt á fyrstu myndinni fyrir ofan. Á einhverju dýpi er eðlisþyngd basaltkvikunnar svipuð og setsins. Á því dýpi hættir kvikan að rísa og dreifist til hliðanna til að mynda kvikuinnskot, sem er sýnt með rauðri línu á myndinni, eins og lítið eldfjall INNI í setlögunum.  Þetta er fyrirbærið sem jarðfræðingar kalla density filter, og hefur þær afleiðingar að hin eðlisþunga basaltkvika kemst ekki upp á hafsbotninn til að gjósa neðansjávar, heldur myndar kvikuinnskot inni í setinu.  Slíkt kvikuinnskot gerist hvað eftir annað á flekamótunum og myndar þá einskonar jólatré inni í setinu, eins og sýnt er á annari myndinni. Aðal skilaboðin eru þau, að kvikan kemst ekki upp í gegnum setlögin með léttari eðlisþyngd og getur því ekki gosið á yfirborði.  Er þetta að gerast undir Eyjafjarðarál í dag?  Enginn veit, en líkurnar eru miklar, að mínu áliti.  En ef svo er, þá er eitt víst: hitinn frá kvikuinnskotum er svo mikill að hitastigull í setinu verður hár og þar með breytist öll olía í setinu í metan eða jafnvel í gagnslaust koltvíoxíð og vatn.  Ekki gott fyrir þá sem vilja finna olíu hér á landgrunninu.  Eðlisþyngd setlagaFrekari skilningur á slíkum kvikuinnskotum fæst með því að ákvarða með borun hver eðlisþyngd setsins er á hverju dýpi, eins og sýnt er á síðustu myndinni. Þar er eðlisþyngd basalts sýnd með grænu brotalínunni en bláa og svarta línan sýna tvö dæmi um eðlisþyngd setlaganna, sem ávalt minnkar þegar ofar kemur í setinu. Ég tek eftir því að órói hefur verið nokkur á jarðskjálftamælum í grennd við Eyjafjarðarál. Er það vísbending um kvikuhreyfingu? Ég veit ekki.

 


Sjö Ítalskir jarðvísindamenn dæmdir sekir um manndráp

L´AquilaÍtalir hafa aldrei farið vel með sína vísindamenn og gera ekki enn. Á Ítalíu býr þjóðin, sem brenndi Giordano Bruno á bálkesti árið 1600  vegna hugmynda hans um heimsmyndina og um grundvallaratriði í stjörnufræði, sem braut í bága við kenningar kaþólskrar kirkju.  Árið 1633 var stjörnufræðingurinn Galileo Galilei dæmdur í fangelsi fyrir að aðhyllast kenninguna að sólin væri hin rétta miðja kerfisins, sem jörðin snýst um.  Í gær dæmdi ítalskur dómstóll sjö jarðvísindamenn seka um manndráp í tengslum við jarðskjálftann undir borginni L´Aquila árið 2009. Það var hinn 6. apríl árið 2009 að jarðskjálfti varð beint undir L´Aquila, en hann var af stærðinni 6,3.  Hann var á aðeins 9,5 km dýpi og að minnsta kosti 308 manns fórust og borgin var lögð í rúst.  Ég hef bloggað um skjálftan og umdeild viðbrög jarðvísindamanna áður hér:

http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1154541/

 Smáskjálftar voru tíðir undir L´Aquila í byrjun ársins 2009 og sjö manna nefnd dæmdir sekirjarðvísindamanna var skipuð til að rannsaka málið.  Íbúar voru mjög órólegir og áhyggjufullir, einkum þegar jarðeðlisfræðingurinn Giampaolo Giuliani spáði stórum jarðskjálfta á grunni radon gas mælinga sinna. Sjömanna nefndin hélt almennan fund með borgurum hinn 31. mars 2009 og birti yfirlýsingu þess efnis, að það væri engin hætta á stórum skjálfta. Sex dögum síðar reið stóri skjálftinn yfir, 6,3 að stærð, með hörmulegum afleiðingum, eyðileggingu og dauða.   Nú hafa meðlimir nefndarinanr verið fundnir sekir um manndráp og fengið sex ára fangelsisdóm fyrir að hafa ekki varað íbúana við yfirvofandi hættu.  Sjömenningarnir sem hlutu fangelsisdóminn voru öll ítalska ríkisnefndin um spá og forvörn frá jarðvá.     Ég þekki vel einn af hinum dæmdu.  Hann heitir Franco Barberi og er eldfjallafræðingur, sem hefur á seinni árum orðið einn áhrifamesti jarðvísindamaður á Ítalíu.  Við höfum áður starfað saman að málum sem snerta eldgos og eldgosahættu frá Vesúvíusi.   Dómurinn í L´Aquila vekur margar spurningar og þær snerta okkur hér á Íslandi einnig. Er hægt að ætlast til að jarðvísindamenn geti spáð fyrir um stóra jarðskjálfta eða eldgos? Eiga vísindamenn yfirleitt að vera að gefa út yfirlýsingar til almennings um mál sem snerta hættuástand, þegar þeir hafa ekki nægileg gögn í höndum?  Þessi dómur mun vafalaust hafa mikil áhrif á hegðun jarðvísindamanna á Ítalíu varðandi jarðvá á næstunni. Ég tel líklegt að enginn ítalskur fræðimaður fáist nú til að gefa yfirlýsingar eða spá um jarðvá í kjölfar þessa dóms.    Allir aðilar þurfa nú að hugsa vandlega sinn gang og ákvarða hvaða ráðgjafar er óskað eftir frá jarðvísindamönnum og hvaða ábyrgð henni fylgir.   Enn er ósvarað stórum spurningum varðandi vísindin og skjálftann mikla undir L´Aquila. Var radon gasið sem Giampaolo Giuliani mældi góð vísbending um yfirvofandi hættu? Voru smáskjálftarnir undan þeim stóra einnig góð vísbending, sem nefndin tók ekki með í reikninginn? Jarðskjálftafræðingar telja almennt, að smáskjálftar séu ekki áreiðanleg vísbending um yfirvofandi stórskjálfta. Á Ítalíu eru smáskjálftar áberandi á undan um helmingi af öllum stórskjálftum, en aðeins í um 2% af öllum tilfellum fylgir stórskjálfti í kjölfarið á smáskjálftahrinu. Ég mun nú samt halda ótrauður áfram að birta mínar skoðanir á jarðvá, enda er Kvíabryggja hér alveg í næsta nágrenni við Stykkishólm og virðist vistin þar vera nokkuð góð.


Skjálftar í Eyjafjarðarál

EyjafjarðarállÞað er mjög stórt misgengi rétt undan norðurlandi, sem er kennt við Húsavík og Flatey.  Nú kemur það fram í fréttum vegna mikilla jarðskjálfta þar í nótt og einnig í september mánuði.  Misgengið liggur  frá Húsavík, rétt milli Flateyjar og lands, og inn í Eyjafjarðarál og inn á landgrunnið fyrir norðan Tröllaskaga, eins og fyrsta mynd sýnir.  Á henni eru sýndir skjálftarnir sem urðu í hrynunni frá 14. til 21. september í ár, en myndin er frá Veðurstofu Íslands.  Mér virðist að hrinan sem nú stendur yfir sé á svipuðum slóðum, en þó nokkuð sunnar.  Hreyfingar á þessu misgengi eru þannig að landgrunnið norðan misgengisins færist til suðausturs, miðað við jarðskopruna fyrir sunnan misgengið, eins og örvarnar á fyrstu mynd sýna.  EyjafjarðarállHér erum við þá að fjalla um sniðmisgengi.  Vestur endi sniðmisgengisins virðist enda í vestur brún Eyjafjarðaráls.  Skjálftarnir eru ef til vill tengdir gliðnun Eyjafjarðaráls, eins og hinar örvarnar á fyrstu myndinni sýna.  Þessi áll er stórmerkilegt fyrirbæri. Önnur myndin (frá Orkustofnun) sýnir að það er mikill búnki af setlögum í Eyjafjarðarál.  Svörtu brotalínurnar á myndinni sýna að setlögin í Eyjafjarðarál erum 2 til 3 km á þykkt. Állinn er mikill sigdalur, sem hefur verið virkur í nokkrar milljónir ára, og hér hefur dalurinn sigið stöðugt og set safnast hér fyrir. Setið er það þykkt, að í því gætu verið gas eða olíumyndanir, ef hitastigullinn er ekki of hár til að leyfa olíu að þrífast.  Sigið gerist hér á flekamótum, en það eru flekamót án eldvirkni.  Þeyndar kemur eldvirknin fram nokkuð norðar, þar sem Eyjafjarðaráll grynnist og kemur í ljós sem eldeyjan Kolbeinsey. Þar mun hafa síðast gosið árið 1372. 

 


Hvers vegna eru stærstu eldfjöll sólkerfisins á Mars?

Mars og jörðNú er amerískur jeppi á ferðinni á yfirborði plánetunnar Mars og hann er með nægilegt eldsneyti innanborðs til að keyra og kanna í fjórtán ár. Við munum því fá mikið flóð af jarðfræðilegum (marsfræðilegum?) upplýsingum um þessa merkilegu plánetu næstu árin.  Ég bíð spenntur eftir því að þeir senda jeppann upp á Olympus Mons, sem er hæsta og stærsta eldfjall í sólkerfi okkar, um 22 km á hæð.  Já, og flatarmál eldfjallsins er meir en þrisvar sinnum flatarmál Íslands.  Hvernig getur þessi litla pláneta myndað stærstu  og hæstu eldfjöll sólkerfisins?  Mars er að mörgu leyti  allt öðru vísi en jörðin, eins og fyrsta myndin sýnir. Hér er Mars til vinstri og jörðin til hægri.   Ekki er Mars öðru vísi einungis á yfirborði, heldur einnig að innri gerð.  Eðlisþyngd rauðu plánetunnar er aðeins 3,94 g/cm3,  en jörðin er með miklu hærri eðlisþyngd:  5.52 g/cm3.  En Mars er miklu minni en jörðin. Skorpuþykkt MarsÞannig er þvermál Mars aðeins helmingur af þvermáli jarðar og Mars er því aðeins með um 10% af massa jarðar. Lægri eðlisþyngd bendir til að kjarninn í Mars sé annað hvort lítill eða innihaldi lítið járn.  Veikt segulsvið plánetunnar bendir einnig til að kjarninn sé ekki lengur fljótandi og því sennilega orðinn fremur kaldur.  

Flekahreyfingar jarðskorpunnar er eitt af höfuðeinkennum jarðarinnar.  Hins vegar eru flekahreyfingar litlar eða nær óþekktar á Mars.  Ef til vill er risastóra gilið Valles Marineris á Mars myndað við flekahreyfingar, en umdeilt.  Það má skifta plánetunni í tvennt.  Suður helmingurinn hefur helmingi þykkari skorpu (80 km, rauðu svæðin á kortinu fyrir ofan) og meira hálendi eins og myndin fyrir ofan sýnir, en norður helmingurinn er með tiltölulega þunna skorpu (ca. 30 til 40 km, bláu svæðin).  Olympus MonsSkopran á Mars er að mestu gerð úr basalti og hefur eldvirkni því verið mjög mikilvæg á plánetunni áður fyrr.   Það er vísbending um að einhver eldgos hafi orðið síðustu milljón árin, en eldvirkni er nú mjög lítil.   Þar sem flekahreyfingar eru ekki til staðar, þá hafa eldgosin verið mjög staðbundin og mjög há eldfjöll hlaðist upp, eins og Olympus Mons.  Ef til vill eru þá tveir þættir, sem gera Mars kleift að mynda hæstu eldfjöll sólkerfisins:  óvenju þykk skorpa og staðbundin eldvirkni. Talið er, að mikið hafi dregið úr eldgosum á Mars en þó eru mjög ung hraun sjáanleg. Aftur beinist athyglin að Olymus Mons fjallinu, þar sem  askjan í toppnum er engin smásmíði, eins og síðasta myndin sýnir.  Askjan á Olympus MonsÞessi 2 km djúpa askja er um 90 km í þvermál eða heldur stærri en allur Faxaflói.  Það er augljóst að hún hefur ekki myndast við einn atburð, heldur er askjan stóra á Olympus Mons afleiðing af fimm misgömlum öskjumyndunum, sem hver hefur skilið eftir sinn hring.


Íslenski heiti reiturinn fór undir Grænland: Erindi Eldfjallasafns

Heiti reiturinnNæsta laugardag, hinn 20. október, held ég erindi í Eldfjallasafni í Stykkishólmi kl. 14.  Allir velkomnir og aðgangur ókeypis. Í þetta sinn fjalla ég um sögu heita reitsins sem er undir Íslandi. Hann mun hafa komið fyrst fram undir Baffinseyju fyrir um 62 milljón árum. Reyndar vilja sumir rekja sögu hans alla leið til Síberíu fyrir 250 milljón árum. Síðan fluttist hann undir vestur Grænland og síðan kom hann fram undan austur Grænlandi og loks í Norður Atlantshafinu, þar sem Ísland myndaðist. Þetta er spennandi saga, sem hefur áhrif á myndun og þróun lands vors.

Steinninn Jake á Mars

Jake á MarsJeppinn Curiosity heldur áfram að ferðast um yfirborð plánetunnar Mars og gera merkar athuganir. Nýlega  sáu þeir stóra steininn, sem er sýndur á myndinni fyrir ofan og nefndu hann Jake. Það er mannlegt, jafnvel fyrir vísindamenn,  að fá strax áhuga fyrir stærstu steinunum á hverjum stað. Hann Jake er um 25 cm á breidd.  Þá beindu þeir Röentgen geislum sínum að steininum til að kanna efnasamsetningu hans. Efnagreiningatækið gefur upplýsingar um magn af öllum helstu frumefnum í steininum. Efnarof MarsEfnarofið er sýnt á næstu myndinni.  Þar kemur í ljós að sennilega er steinninn stór hraunmoli.  Kvikan sem hann myndaðist úr er fremur rík af frumefnunum natríum, áli og kalíum, en snauð af járni, magníum og nikkel.  Að öllum líkindum er þetta bergtegund úr kvikuröðinni sem við nefnum alkali basalt seríuna.  Hana má meðal annars finna í Snæfellsjökli og  í Vestmannaeyjum.  Hér er mynd af kvikuröðinni í Snæfellsjökli.  Snæfellsjökull kvikuröðMig grunar að steinninn Jake sé af tegundinni trakíbasalt, hawaiit eða mugearite, þar sem ég hef sett rauða hringinn á myndina. Vel á minnst: trakíbasalt er kvikutegundin sem gaus úr toppgíg Eyjafjallajökuls árið 2010. 

Skálin í Hrossatungum

Hrossatungur gígurÞað hefur aldrei fundist gígur eftir loftstein á Íslandi - ekki enn.  Ég var því spenntur fyrir að kanna skálina sem er sunnan til í Hafnarfjalli, í Hrossatungum.  Skálin er sýnd á fyrstu myndinni, með Skarðsheiði á bak við. Myndirnar tók Ragnar Axelsson einnig í dag.   Hér er greinileg skál eða gígur, á svæði, þar sem ekki hefur gosið eftir ísöld.  Auðvitað hafa loftsteinar fallið á Íslandi, en rof jökla hafa þurrkað út öll vegsummerki eftir þá. Var hér góður kandídat? Ég fór þvi upp í Hafnarfjall í dag, ásamt Birgi Jóhannessyni og fjölskyldu hans. Skálin er mjög falleg og vel þess virði að skoða.  Hún er um 200 m löng frá SV til NA og um 150 m á vídd. Mesta dýpi hennar er um 50 m.  Botninn er sléttur og klæddur mjúkum og þykkum mosa.  Ekkert gil skerst niður í skálina og er hún því mjög regluleg í laginu og reyndar ungleg.  Brúnir skálarinnar eru úr basalti.  Þetta er fremur þykkt basaltlag, og víða með stóra stuðla, sem liggja láréttir, eins og sjést oft í berggöngum. Eystri brún skálarinnar er hæst og þar hefur basaltið verið rofið töluvert, sennilega af yfirgangs skriðjökuls. Það er ekkert að finna hér, sem bendir til loftsteinsáreksturs.  HrossatungurLoftsteinsgígar sýna viss einkenni sem greina þá frá gosgígum. Þar á meðal má nefna sérkennilega sprungumyndun í berginu umhverfis, myndun af tinnu-líku gleri sem verður til vegna bráðnunar, og einnig lag af urð og grjóti, sem hefur kastast upp úr gígnum.  Hér er ekki slíkt að finna.  Skálin er því gosgígur, en hvað er hann gamall? Eldstöðin sem myndaði Hafnarfjall er um 4 milljón ára gömul og hefur Hjalti Franzson meðal annara kannað hana. Gígurinn er því mun yngri en virkni í Hafnarfjallseldstöðinni.  Hann er sennilega tengdur myndun af móbergi og þursabergi, sem finnst her í grennd. Þá er aldur hans sennielga frá lokum ísaldar eða innan við  eitt hundrað þúsund ára.  Á seinni myndinni má sjá hópinn á gígbrúninni,  inni í rauða hringnum. Leitin af loftsteinsgíg á Íslandi heldur því áfram.......

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband