Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2015

Silicor gerir árás

Ég bloggaði hér um áform Silicor hinn 18. Júlí í fyrra að reisa verksmiðju á Grundartanga í Hvalfirði. Það vakti töluverða athygli, bæði vegna þess að margir hafa áhyggjur af sölu orku á ódýrasta verði, margir eru á báðum áttum með frekari iðnað og verksmiðjurekstur á Íslandi og einnig vegna hugsanlegrar mengunar frá þessari tegund iðnaðar. En framleiðsla á kísil sólarsellum er fræg fyrir að vera mjög mengandi. Í viðbót er það mín skoðun að efnahagsleg framtíð Íslands líggi ekki í aukinni og vaxandi mengandi stóriðju. Nú er ferðaþjónustan orðin stærsta grein í efnahag landsins. Til að vernda ásynd og nátturu Íslands er mikilvægt að halda iðnaði og mengun í skefjum og draga úr, frekar en bæta við stóriðju.

 Fyrirtækið Silicor hefur frekar ófagran feril í Norður Ameríku og má segja að þeir hafi eiginlega flæmst úr landi. Hvorki Ameríkanar né Kanadamenn vilja lýða mengandi iðnað af þessu tagi og láta því Kínverja um slík skítverk. Ég rakti í blogginu hvernig Silicor, sem hét áður Calisolar, flæmdist frá Kaliforníu, komst ekki inn í Ohio eða Mississippi með verksmiðjur, fór frá Kanada, en virðist nú geta komið sér fyrir á Íslandi. Hér fá þeir ódýra orku og virðast geta mengað eins og þeim sýnist.

 Mér til nokkurrar undrunar svaraði fyrirtækið mér fullum hálsi, með því að gera árás á vefsíðu þá, sem vefritið Wikipedia hefur um mig og mín vísindastörf.   Þar hefur agent eða umboðsmaður Silicor komist inn og skrifað meðal annars að Haraldur Sigurðsson sé virkur í að deila á Banadríkjastjórn, deili á auðveldisstefnu heimsins, á starfsemi Kínverja á Norðurheimsskautinu, og einnig að ég hafi lýst því yfir að ég muni starfa gegn Hilary Clinton, ef hún fer í forsetaframboð.

Þetta virðist skrifað mér til lasta, og Silicor virðist ímynda sér að þessi skrif komi einhverju höggi á mig á þennan hátt. Nú, satt að segja er ég hreykinn af öllum þessum skrifum og tel, sem Bandariskur ríkisborgari til 40 ára að mér sé frjálst og heimilt að koma fram með mínar skoðanir á hverju máli sem er, í riti og í máli. Sem sagt: algjört vindhögg! Ég hef kosið Obama og Bill Clinton, en tel að Hillary sé ekki rétta forsetaefnið nú, vegna spillingar sem hefur komið sér fyrir í herbúðum hennar.  Það eru aðrir ágætir Demókratar sem ég tel hæfari, eins og Elizabeth Warren.

 Ég tel að Íslendingar eigi að vara sig á erlendum fyrirtækjum, eins og Silicor og alls ekki hleypa þeim inn. Ferill þess er ekki glæsilegur, og ferillinn er slíkur að það ætti að vera sjálfkrafa að þeim væri neituð aðstaða til að hefja verksmiðjurekstur hér. Skrif þeirra um mig sýna einnig að viðhorf fyrirtækisins eru fjandsamleg og að þeir muni beita öllum brögðum til að koma sínu fram. Hættulegir. Sennilega verð ég að fara að læsa útihurðinni hjá mér, sem við erum nú ekki vanir að þurfa að gera hér í Stykkishólmi. En varið ykkur Skagamenn: Hvernig líf viljið þið eiga í framtíðinni? Algjört mengandi verksmiðjuhverfi, sem venjulegt ferðafólk mun taka stóran krók á leið sína til að forðast.  


Látið hausana rúlla

Hvenær hefur Íslenskur embættismaður verið haldinn ábyrgur varðandi mistök í starfi? Ég þekki ekkert dæmi um slíkt. Jafnvel í Bandaríkjunum láta þeir hausana rúlla ef opinber starfsmaður bregst skyldu sinni. Nýtt dæmi er nú, þegar Michele Leonhart, forstöðumaður DEA, ríkisstofnunar sem reynir að hafa hömlur á eiturlyfjum, var rekin úr starfi í Washington DC. Hennar sök var sú að nokkrir starfsmenn hennar höfðu leyft sér að taka þátt í kynsvalli í Kólombíu í Suður Ameríku með eiturlyfjasölum. Frú Leonhart var víðs fjarri og ekki í partíinu, en hún var ábyrg og axlaði sína sök. 


Akstur um Vaðlaheiðargöng mun kosta milljarð á mínútu

VaðlaheiðargöngÞað er ekki falleg myndin af Vaðlaheiðargöngum, sem birtist hér fyrir ofan og kemur frá RUV. Annar endinn er fullur af 46 stiga heitri gufu og hinn endinn er fullur af köldu vatni. Allar framkvæmdir virðast vera komar í stopp, nú þegar göngin eru hálfnuð. Allt bendir til að Vaðlaheiðargöngum hafi verið algjörlega klúðrað, bæði hvað snertir rannsóknir og undirbúnings verksins. Framkvæmdir hófust í ágúst 2012 og samkvæmt áætlun á gegnumslag að verða í september 2015. Þegar 46 stiga heit vatnsæð kom fram í greftri að vestan verðu í febrúar 2014, þá var verkinu snúið við og gröftur hófst austan frá. Þá kom þar fram mjög mikill leki, sem hefur nú stöðvað verkið.

Draumurinn var að þessi 7,4 km löngu göng spari ferðakostnað á norðurlandi. Eins og   Pálmi Kristinsson verkfræðingur hefur bent á í harðri ádeilu sinni á Vaðlaheiðargöng, þá er hinn áætlaði sparnaður ekki á rökum reistur. Vaðlaheiðargöng væru 15,7 km vegstytting og 11 mín tímasparnaður, miðað við akstur um Víkuskarð. Snemma á ferlinu var talað um 9 milljarða krónu kostnað við gangnagerð. Vandræðin sem nú blasa við benda til að kostnaður verði mjög miklu hærri. Ég spái að hann nágist 15 milljárða. Þá kosta göngin okkur milljarð á mínutu, í hvert sinn sem við ökum í gegnum þau.   Að spara 11 mínútur í akstri verður því dýrt spaug. Allt bendir til að eldsneytissparnaðurinn verði því mun lægri en kostnaðurinn vegna áætlaðra veggjalda.  Eins og Pálmi Kristinsson bendir á í skýrslu sinni, þá hefur undirbúningi verið klúðrað og reiknilíkön um rekstur ekki nægilega vel unnin. Sama má sennilega segja um könnun á svæðinu áður en gröftur hófst. Stófelldur leki og hátt hitastig í fjallinu eru þættir, sem ættu að koma fram við ítarlega rannsókn á jarðfræði fjallsins, en ekki uppgötvast í miðri framkvæmd. Svona fer, þegar stjórnmálamenn og verktakar ráða ferðum. Kostnaður við grunnrannsóknir er skorinn við nögl og verkinu flýtt eftir megni. Það vekur athygli að aðeins fimm kjarnaborholur voru gerðar til að kanna fjallið fyrirfram, samkvæmt skýrslum frá Vegagerðinni og frá Jarðfræðistofunni ehf.  Nú verður klúðrið afsakað sem afleiðing af ófyrirsjáanlegum vandamálum. En sannleikurinn er sá, að rannsóknir og forvinna voru alls ekki nægilegar til að hefja þetta verk. Sennilega verður nú þrjóskast við, og göngin kláruð, hvað sem það kostar. Enginn stjórnmálamaður dirfist að segja neitt, meðal annars vegna þess að þverpólítisk eining hefur ríkt um verkið, svipað og um Kröfluvirkjun hér fyrir um fjörutíu árum.

Í skýrsum varðandi ástand bergsins er minnst á að leki sé víða mikill í fjallinu, en það vekur óneitanlega eftirtekt að ekki var leki eða lekt bergsins mæld í neinu tilfelli við borun kjarnaborholanna. Það er tiltölulega auðveld aðgerð og hefði tvímælalaust sýnt fram á að búast mætti við miklu magni vatns í göngunum. Þar sem göngin eru íum 100 metra hæð yfir sjó, og jarðvatnsborð í fjallinu fyrir ofan er í um 500 metra hæð yfir sjó, er vel ljóst að vatnsþrýstingur getur verið gífurlegur og vatnsmagn mikið.


Fólksfjölgun er enn stærsta vandamálið

Lengi hefur það verið almennt haldið að draga myndi fljótlega úr hinum hraða vexti á fólksfjölda á jörðu. Nú reynist það rangt. Spár Sameinuðu Þjóðanna hafa alltaf reynst rangar. Fólksfjölgun er enn mjög mikil og hefur það bein áhrif á loftslagsbreytingar. Mannfjöldinn á jörðu tvöfaldast nú á aðeins um 40 árum. Þannig fjölgaði okkur frá 3 milljörðum árið 1960 til 6 milljarða árið 2000.   Línuritið í fyrstu mynd sýnir þróunina og það er ljóst að lítið hægir á fjölguninni. FjölgunTakið eftir að lóðrétti ásinn er logri eða logariþmi, í milljörðum. Við bætum við um 82 milljónum á hverju ári, sem er eins og eitt Þýskaland bætist við mannfólkið á jörðu á hverju ári. En fjölgun mannkyns dreifist nú öðruvísi en áður var. Viss lönd, einkum Kína, hafa náð góðri stjórn á fólksfjölda með ástundun og mikilli hörku, en í mörgum öðrum löndum, einkum í Afríku, er fjölgunin enn mjög mikil. Fjölgun á jörðu skapar mörg vandamál. Eitt er að fæða allt þetta fólk, en hitt gleymist oft að fólksfjölgun hefur bein áhrif á hnattræna hlýnun. Við brennum og borðum auðvitað í réttu hlutfalli við fólksfjöldann.   Með fólksfjölgun fylgir vaxandi losun lofttegunda, sem valda vaxandi gróðurhúsaáhrifum. Um þetta hefur Stephen G. Warren fjallað nýlega í vísindaritinu Earth´s Future.   Stóra málið á bak við fjölgun mannkyns er frjósemi kvenna, eða fjöldi barna sem hver kona ber. Í Asíu hefur frjósemi minnkað úr 5,9 börnum á hverja konu árið 1950, niður í 2,2 börn árið 2013. Í Afríku stendur frjósemin hins vegar í stað, um 4,8 börn á hverja móður. Í Evrópu og Norður Ameríku er hún aðeins 1,6 og 1,9 börn á hverja móður. Frjósemi á Íslandi hefur breyst mjög hratt á síðustu öld. Frjósemi á Íslandi var hærri en annars staðar í Evrópu á fyrri árum. Eins og línuritið sýnir, þá var frjósemi kvenna hér á landi um 4,0 í kringum 1950 til 1960, en hefur svo lækkað um helming, niður í um tvö börn á hverja konu. Frjósemi á Íslandi

Vöxtur eða fjölgun allra tegunda í lífríkinu heldur áfram þar til einhver utanað komandi áhrif stöðva hann. Það geta verið takmarkanir eins og fæðuskortur, sjúkdómar, styrjöld, eða umhverfistruflun (loftslagsbreytingar ofl.). Páskaeyja í Kyrrahafi er eitt lítið dæmi. Þessi einangraða eldfjallsey var uppgötvuð í kringum 600 e.Kr. og aðeins 20 til 30 Polynesar komu hingað í smábátum. Þeim fjölgaði og árið 1600 voru þeir orðnir um 6000 að tölu. Þá var mannþröng svo mikil á eynni að allir skógar voru höggnir, hungursneyð ríkti, styrjöld og mannaát tók við.  Mannfræðin sýnir okkur að þessi offjölgun á Páskaeyju varð vegna þess að frjósemin var um eða yfir 2,3. Það þarf ekki mikið til að koma kerfinu í algjört öngþveiti.

Kína er alveg sérstakt tilfelli, sem vísar okkur veginn í stjórn fólksfjölgunar á jörðu. Í Kína var frjósemi lengi um sex börn allt til 1970, eins og línuritið sýnir. Þá innleiddi stjórn landsins harða stefnu um eitt barn, og síðan hefur frjósemi fallið niður í 1,8.   Það er magt sem hefur áhrif á frjósemi kvenna yfir leitt. Til dæmis er frjósemi í öfugu hlutfalli við menntun. Annað mikilvægt atriði er að getnaðarvarnir séu fyrir hendi í þjóðfélaginu. Ef til vill er mikilvægasta atriðið samt einfaldlega frelsi kvenna til að taka sjálfstæðar ákvarðanir. Frjósemi er há á svæðum þar sem trúarofstæki er ríkjandi, eins og til dæmis meðal mormóna í Utah í Bandaríkjunum og í Ísrael. Sínasta línuritið sýnir svo frjósemina í Kína. Kína frjósemi


Flóttamenn eða ferðamenn?

BátsfylliFréttir berast um að varðskipið Týr hafi “bjargað” 320 manns á báti í Miðjarðarhafi og komu þeim í land á Ítalíu. Skyldu Ítalir nú fagna þessu framtaki íslensku Landhelgisgæslunnar?  Ég leyfi mér að efast um það. Það var fyrir rúmu ári að Ítalía hætti að líta á flóttamenn sem ólöglega innflytjendur og byrjaði að “bjarga” fjölda manna sem lögðu á hafið á litlum bátum frá norður strönd Afríku. Fréttin um að Ítalir tækju flóttafólki opnum örmum barst eins og eldur í sinu um alla Norður Afríku og öllum skekktum er nú ýtt á flot í átt til fyrirheitna landsins. Ítalía er nú orðin gáttin inn í Evrópu fyrir ólöglega innflytjendur. Það er talið að um 200 þúsund manns hafi komið frá Afríku árið 2014 til Ítalíu á þennan hátt, en þeir greiða frá eitt til tvö þúsund evrur til smyglara eða scafisti í Líbíu fyrir ferðina. Ítalska ríkið heldur þeim uppi fyrst í stað þegar þeir koma til fyrirheitna landsins, og er talið að það kosti landið um 43 evrur á hvern mann á dag, eða alls meir en fimm milljón evrur á dag! Þótt þeir hefji ferðina oftast frá Líbíu, þá er þetta fólk frá ýmsum löndum utan Afríku: Afganistan, Sýrlandi, Palestínu og Írak. Þegar til Ítalíu er komið er auðvelt að koma sér áfram í lest eftir stutta dvöl, til dæmis til Frakklands, því Schengen kerfið gerir öllum kleift að ferðast án vegabréfs, eftir að þeir eru komnir einhvers staðar inn í Evrópu. Í einfeldni okkar lítum við flest á svokallaða flóttamenn sem fólk á flótta undan pólitísku ofbeldi. Ég held að það sé rangt. Fólkið er fyrst og fremst í leit að tækifærum, atvinnu og bættum efnahag. Sumir eru einnig einfaldlega á flótta undan yfirvaldinu í heimalandinu vegna glæpastarfssemi. Hvenær verður þolinmæði ítalskra skattgreiðanda á þrotum? Þangað til hefur varðskipið Týr vinnu við þessa “björgun”.


Alþingishús er enn merkt Dönum

althingishu_769_s.jpgNú berst sú frétt að ríkisstjórn hyggist láta byggja við Alþingishús Íslendinga. Það verður þá sjálfsagt einhver glerálma, sem er jafn ósmekkleg og út úr stíl hússins, eins og álman sem var byggð fyrir nokkrum árum.  En skyldu þingmenn nokkurn tíma lyfta höfði þegar þeir ganga inn í húsið og líta á kórónu Kristjáns 9 danakonungs, sem trjónar efst á húsinu? Hvernig má það vera að Íslendingar láti við lýðast í öll þessi ár að æðsta stofnun þjóðarinnar sé merkt svo kyrfilega með merki nýlendukúgarans? Maður hefði nú haldið að einhverjir duglegir piltar hefðu klifið hér upp á þak í Búsáhldabyltingunni og fjarlægt skömmina, en svo fór ekki. Væri ekki best að minnast aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands árið 2018 með því að fjarlægja þessa skömm?


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband