Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2015

Litla Ísöldin endurtekin?

loftslagLoftslagsbreytingar eru að gerast á jörðu. Það er ekki deilt um þá staðreynd. Hins vegar er deilt um orsökina. Er breytingin af manna völdum eða eitthvað náttúrulegt fyrirbæri? Sumir (þeir eru reyndar örfáir) telja að breytingarnar séu vegna misumnandi geislunar sólarinnar. Auðvitað er sólin stærsta orkulind okkar. Hún gefur ylinn með sólskininu og einnig hefur sólin skapað þá jarðolíu og jarðgas, sem við brennum. Það eru aðeins jarðhitinn og kjarnorkan, sem eru orkulindir óháðar sólinni.   Línuritið hér fyrir ofan sýnir breytingar á meðalhita á yfirborði jarðar frá 1950 til dagsins í dag (blátt). Einnig sýnir myndin hvernig koltvíoxíð hefur risið stöðugt (grátt), á sama hátt og hitinn. Nær allur vísindaheimurinn er á þeirri skoðun að hækkandi hiti stafi af vaxandi magni af koltvíoxíði, sem við mannfólkið losum við brennslu á jarðefnum eins og kolum og olíu. Að lokum sýnir myndin sveiflur í virkni sólarinnar (gult).   Það er ljóst að breytingar á virkni sólar hafa ekki haft nein áhrif á meðalhita jarðar á þessu tímabili.

Nú hefur rússneskur eðlisfrðingur Valentína Zharkova sett fram þá tilgátu að breytingar á sólinni eftir 15 ár muni valda mikilli kólnun á jörðu, jafnvel annari lítilli ísöld. Aðrir sólfræðingar hafa ekki enn birt álit sitt á kenningu hennar, en það verður fróðlegt að fylgjast með því.


Hin hliðin á Snæfellsjökli

Snæfellsjökull2015Við horfum á Snæfellsjökul oftast úr austri eða suðri og þá eru Jökulþúfurnar á toppnum áberandi. Í gær gafst mér tækifæri til að skoða Jökulinn að vestan og norðvestan verðu ásamt Ragnari Axelssyni ljósmyndara, en þá blasir við nokkuð önnur sýn, eins og myndin hans Ragnars sýnir. Þá erum við nefnilega komnir niður í aðalgíg eldfjallsins, sem er um 1.5 km í þvermál. Austurbrún gígsins er mikill hamar, og rísa þúfurnar þrjár upp fyrir ofan hamarinn. Það er enn óvenju snjóþungt hér eins og víðast á hálendi Íslands, en samt grillir í hraunlög í klettabrúninni, í gegnum hrímið. Vonandi gefst okkur tækifæri í haust að kanna þetta svæði frekar, þegar bráðnun nær hámarki og meira af berginu kemur í ljós.


Milljón kúkar úti á túni

við veginnVið fögnum því að erlendir ferðamenn hópast nú til Íslands og eru duglegir að njóta náttúrufegurðar hér á Fróni. En því fylgja óhjákvæmilega ýmis vandamál, sem ekki hefur verið nægilega fjallað um, en munu óhjákvæmilega valda miklum spjöllum á náttúru landsins í náinni framtíð. Eitt af þeim er umgengni ferðamanna, sem velja sér næturstað við þjóðveginn. Þegar ekið er um landið eru litlir sendibílar eða campers við veginn orðin mjög algeng sjón, en þar hafa erlendir ferðamenn komið sér fyrir yfir nóttina. Margar bílaleigur, eins og Kúkú campers, Go Iceland, Happy Campers og fleiri, beinlínis hvetja ferðamenn til að hafa þennan ferðamáta og auglýsa þannig ókeypis gistingu við veginn. En hvar gengur þetta fólk örna sinna? Auðvitað úti í móa við veginn eða á bak við bílinn. Erum við að ef til vill komast á það stig að hér verði gerðir milljón kúkar á dag við veginn? Viljum við lýða slíkan sóðaskap á okkar landi? Í öllum bæjarfélögum eru ágætis tjaldstæði, með salerni og hreinlætisaðstöðu. Er ekki kominn tími til að stemma stigu við þessari þróun og skipa erlendum ferðamönnum að notfæra sér slík viðurkennd og skipulög tjaldstæði? Sumar bílaleigur og netmiðlar hafa skapað andrúmsloft, sem hvetur ferðamenn til að gera allar sínar þafir úti í Íslenskri náttúru. Hér eru nokkur dæmi um slíkt, tekin af netinu:

Passion Passport: “The Law of Survival states that you can stop on any man’s land for a night and eat anything that grows on that land. That means that it’s completely acceptable – and legal – to sleep in your car, whether you’re on private property, in a national park, or at a designated rest stop.“

“By the end of our trip, I felt like I really communed with nature in the sense that (how do I put this delicately?) I peed in every corner of Iceland.”

“You can park the car nearly anywhere in the country and sleep in the back of it.”

Myndin sem fylgir segir sína sögu, en takið eftir skiltinu inni í rauða hringnum, sem bannar tjaldsvæði.

 

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband